Hæstiréttur íslands
Mál nr. 610/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2006. |
|
Nr. 610/2006. |
B og C (Jón Sveinsson hrl.) gegn A (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Úrskurður héraðsdóms var staðfestur um að A væri heimilt að leiða tiltekið vitni fyrir dóminn til að gefa vitnaskýrslu í tengslum við kröfu hans um að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr móður hans og föður B og C í máli A á hendur þeim til viðurkenningar á því að faðir þeirra væri einnig faðir A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2006, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að leiða F og G fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu í tengslum við kröfu varnaraðila um að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr móður hans, E, og föður sóknaraðila, D, í máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum til viðurkenningar á því að D sé faðir hans. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila um vitnaleiðslu verði hafnað og honum gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar að því er varðar heimild hans til að leiða fyrir dóminn vitnið F. Þá krefst hann þess aðallega að sóknaraðilar greiði kærumálskostnað án tillits til 11. gr. barnalaga nr. 76/2003, en til vara að þóknun til lögmanns hans greiðist úr ríkissjóði.
Fyrir Hæstarétti er fram komið að G, sem varnaraðili hugðist leiða fyrir dóm, lést 29. október 2006. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að því er varðar heimild varnaraðila til að leiða F fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar heimild varnaraðila, A, til að leiða F fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu í máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum, B og C.
Sóknaraðilar greiði í sameiningu varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2006.
Mál þetta var höfðað 8. desember 2004.
Stefnandi er A, [heimilisfang].
Stefndu eru B, [heimilisfang] og C, [heimilisfang].
Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að stefndu verði dæmd til að þola að D f. [...], d. [...], verði dæmdur faðir hans. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður.
Í þinghaldi 31. ágúst 2006 lagði lögmaður stefnanda fram sem dskj. nr. 22 yfirlýsingu systkina stefnanda, þeirra F og G, þar sem fram kemur m.a. að þau hafi oft heyrt á mæli móður sinnar, E, að stefnandi væri sonur D. Þá segir einnig að eftir að þessi málaferli hafi komist í hámæli, telji þau ekki verða vikist undan þeirri siðferðilegu skyldu að bera sannleikanum vitni. Hann sé sá að báðir foreldrar þeirra hafi talið stefnanda son D. Lögmaður stefndu óskaði eftir fresti til þess að taka afstöðu til yfirlýsingarinnar.
Í þinghaldi 20. september var bókað eftir lögmanni stefndu að hann mótmæli framlagningu dskj. nr. 22 þar sem hann teldi skjalið of seint fram komið og andstætt meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Bókað var eftir lögmanni stefnanda að hann teldi mótmæli lögmanns stefnda varðandi dskj. nr. 22 of seint fram komin enda hafi einnig komið fram í þinghaldinu, þótt ekki hafi verið um það bókað þá, að lögmaður stefnanda hyggðist fá þá einstaklinga sem undirrituðu yfirlýsinguna til að staðfesta hana fyrir dómi og svara spurningum dómara og lögmanna.
Lögmaður stefndu mótmælti því að systkini stefnanda verði leidd sem vitni í málinu enda liggi fyrir tveir Hæstaréttadómar þar sem að ágreiningur um erfðafræðilega rannsókn hafi verið til lykta leiddur og feli í sér endanlega niðurstöðu. Ekki hafi því þýðingu að leiða systkinin sem vitni.
Lögmaður stefnanda krafðist úrskurðar um það hvort leiða megi umrædd vitni og benti á að í seinni dómi Hæstaréttar hafi dómurinn klofnað í niðurstöðu sinni.
Hinn 5. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um þetta ágreiningsefni. Lögmaður stefnanda gerði þá kröfu að úrskurðað verði að heimilt sé að leiða sem vitni í máli þessu systkini stefnanda, F og G, til staðfestingar á dskj. nr. 22 og til að svara spurningum lögmanna og dómara. Lögmaður stefndu gerði þá kröfu að hafnað verði kröfu stefnanda um að leiða umrædd vitni og krafðist málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Krafa stefnanda um að leiða umrædd vitni tengist kröfu hans um að fram megi fara sú mannerfðafræðilega rannsókn sem síðast var hafnað með dómi Hæstaréttar Íslands 29. maí 2006. Vísar stefnandi til þess að orðaskipti stefnanda við móður geti ekki, samkvæmt dómi Hæstaréttar, komið að haldi. Yfirlýsing á dskj. nr. 22 stafi frá þriðja aðila. Stefnandi eigi lögvarinn rétt á að halda áfram sönnunarfærslu í máli þessu og fá að vita hver faðir hans er.
Af hálfu stefndu er á því byggt að ekki sé lagaheimild fyrir slíkri vitnaleiðslu. Ekki eigi að leiða vitni fyrr en við aðalmeðferð sbr. 4. mgr. 102 gr. laga nr. 91/1991 og aðeins í undantekningartilvikum megi leiða vitni fyrir aðalmeðferð. Takmarkað sé hvað hægt sé að draga ný atriði inn í málsmeðferðina. Niðurstaða Hæstaréttar Íslands í síðasta dómi í þessu máli sé bindandi og endanleg varðandi sönnunarfærslu til stuðnings kröfu um mannerfðafræðilega rannsókn. Hæstiréttur hafi þegar tvisvar sinnum hafnað slíkri kröfu. Í dómi Hæstaréttar frá 29. maí sl. segi að aðilaskýrsla um um orðaskipti stefnanda við móður sína um þessi efni geti ekki komið að haldi . Efni yfirlýsingarinnar á dskj. nr. 22 sé ekki til þess fallið að leiða í ljós nýjar upplýsingar í þessum efnum. Hafna beri að leiða vitni ef bersýnilegt sé að það sé tilgangslaust við sönnunarfærlsu.
Fyrir liggur að tilgangur stefnanda með umræddri vitnaleiðslu er að afla sönnunargagna til stuðnings kröfu stefnanda um að mannerfðafræðileg rannsókn verði heimiluð á lífssýnum úr E og D.
Með kröfu sinni nú um að fá að leiða fyrir dóminn systkini sín freistar stefnandi þess enn að færa fram í málinu líkur fyrir því að móðir hans og faðir stefndu hafi átt í nánu sambandi sem leitt hafi til getnaðar hans þannig að á kröfu hans um mannerfðafræðilega rannsókn á lífssýnum E og D verði fallist og að leyst verði úr dómkröfu hans í málinu. Slík vitnaleiðsla hefur verið heimiluð í málinu. Hæstiréttur hefur þegar tvisvar sinnum hafnað kröfu um að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífssýnum E og D. Í ljósi þess, og í ljósi eðlis málsins telst dómur Hæstaréttar frá 29. maí sl. ekki bindandi varðandi þetta sérstaka ágreiningsefni og telst heimilt að afla frekari sönnunar. Ekki er því fallist á að krafa stefnanda sé of seint fram komin.
Ekki þykir unnt að útiloka, eins og sönnunarstöðu er háttað í máli þessu, að umrædd vitni gætu haft einhverja þá vitneskju að framburður þeirra nægði til þess að stefnandi teldist hafa fært fram þær líkur fyrir málssókn sinni sem myndu heimila honum að krefjast sönnunarfærslu samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. október 2005. Ber því að taka þessa kröfu stefnanda til greina.
Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Stefnanda, A, er heimilt að leiða fyrir dóminn vitnin F og G.
Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.