Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 14. nóvember 2002. |
|
Nr. 496/2002. |
Skaftárhreppur(Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Lárusi Siggeirssyni Ólöfu Benediktsdóttur Lárusi Valdimarssyni Sólrúnu Ólafsdóttur Auði Helgadóttur Elínu Frigg Helgadóttur og (enginn) Lárusi Helgasyni (Grétar Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Aðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S höfðaði mál á hendur sjö nafngreindum einstaklingum sem eigendum jarðarinnar K til viðurkenningar á eignarrétti sínum að tiltekinni landspildu. Héraðsdómari vísaði málinu frá á þeirru forsendu að S hefði ekki sýnt nægilega fram á hverjir væru í raun eigendur jarðarinnar, auk þess sem staðhæfingar hans um það væru misvísandi, en af þeim sökum væri ekki fært að meta hvort S hefði beint kröfu sinni að öllum þeim, sem yrðu að eiga aðild að málinu. Fyrir Hæstarétti reifaði S þessi atriði frekar og lagði fram ný gögn. Hæstiréttur féllst ekki á að þessar síðbúnu skýringar og gagnaöflun um meginatriði málsins fengju því breytt að vísa yrði málinu frá héraðsdómi. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. október 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Lárus Helgason krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði leitar sóknaraðili í máli þessu viðurkenningar á eignarrétti sínum að tiltekinni landspildu í Skaftárhreppi, en kröfu sinni um þetta beinir hann að varnaraðilum sem eigendum jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs. Með úrskurði héraðsdómara var tekin til greina krafa varnaraðilans Lárusar Helgasonar um að málinu yrði vísað frá dómi. Var það gert á þeirri forsendu að sóknaraðili hafi ekki sýnt nægilega fram á hverjir séu í raun eigendur jarðarinnar, auk þess sem staðhæfingar hans um það væru misvísandi, en af þeim sökum væri ekki fært að meta hvort sóknaraðili hafi beint kröfu sinni að öllum þeim, sem yrðu að eiga aðild að málinu. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili leitast við að reifa þessi atriði málsins frekar, auk þess sem hann hefur lagt fram fjölda nýrra gagna. Ekki verður fallist á að þessar síðbúnu skýringar og gagnaöflun um meginatriði málsins geti fengið því breytt að vísa verði málinu frá héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilanum Lárusi Helgasyni kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Skaftárhreppur, greiði varnaraðila, Lárusi Helgasyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað. Að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. október 2002.
I.
Mál þetta var þingfest var hinn 17. apríl sl., en tekið til úrskurðar hinn 13. september sl., að loknum munnlegum málflutningi. Málið er höfðað af Skaftárhreppi, kt. 140644-4399, Klausturvegi 10, Kirkjubæjarklaustri, Vestur Skaftafellssýslu, á hendur Lárusi Siggeirssyni, kt. 250636-4669 og Ólöfu Benediktsdóttur, kt. 251036-3499 Kirkjubæ II, Skaftárhreppi, Lárusi Valdimarssyni, kt. 220640-7419 og Sólrúnu Ólafsdóttur, kt. 280248-7119, Kirkjubæjarklaustri II, Skaftárhreppi, Auði Helgadóttur, kt. 140530-4689, búsettri í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Elínu Frigg Helgadóttur, kt. 251134-4809, Bólstaðarhlíð 60, Reykjavík og Lárusi Helgasyni, kt. 301038-3139, Vesturbergi 69, Reykjavík, sem eigendum jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi.
Stefnandi gerir svofelldar dómkröfur: Að stefndu verði gert „að þola viðurkenningu á eignarrétti Skaftárhrepps á landspildu sem er 3 hektarar að flatarmáli samanber meðfylgjandi uppdrátt og er lega landsins þannig, meðfram Klausturvegi að norð-vestan, lengd hliðar 162,4 m og að lóðarmörkum Bæjar ehf. að norð-austan lengd hliðar 217,8 m og niður undir Skaftá, að sunnan eru lóðarmörk ofan við Skaftá og að austan við Fosslæk (úr Systravatni).
GPS hnit hornpunkta lóðarinnar eru:
A. norður-horn 63:47:18.228-18:03:14:587
B. vestur-horn 63:47:13.751,-18:03:20.756
C. suður-horn 63:47:10.419,-18:03:11:683
D. austur-horn 63:47:13.613,18:03:02.592”.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Stefna var birt stefndu á tímabilinu frá mars til 13. apríl sl., en við þingfestingu málsins varð útivist af hálfu allra stefndu nema Lárusar Helgasonar. Af hálfu stefnda Lárusar Helgasonar er aðallega krafist frávísunar málsins frá dómi og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að framkominni kröfu stefnanda um frávísun verði hrundið og að stefnanda verði úrskurðaður málskostnaður, úr hendi stefnda Lárusi Helgasyni, sérstaklega fyrir þennan þátt málsins.
II. Málavextir
Deilan í máli þessu stendur um eignarhald á landspildu er á að hafa verið hluti jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs, en aðilar eru einnig ósammála um hver eigi jörðina Kirkjubæjarklaustur og hvort spildan liggi einnig að hluta til í landi Hæðargarðs.
Stefnandi kveður Kirkjubæjarhrepp hafa gert samning við fyrrverandi eigendur jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs um land undir heimavistarskóla. Hafi sá gerningur komið þannig til að nauðungaruppboð hafi farið fram á 1/10 hluta jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs hinn 6. maí 1971. Kirkjubæjarhreppur hafi neytt forkaupsréttar á eignarhlutanum og framselt eignarhlutann til stefndu Sigurgeirs og Valdimars Lárussona gegn því að hreppnum yrði seld 3 hektara lóð undir heimavistarskóla á Glennurum fyrir 30.000 krónur. Afsal hafi þó ekki verið gert á sínum tíma. Kirkjubæjarhreppur hafi hins vegar keypt landskikann og fengið hann til umráða og ráðstöfunar undir skólabyggingu um mitt ár 1971, en hins vegar hafi stefnanda ekki orðið ljóst fyrr en á síðasta ári að ekki hafði verið gert afsal vegna landskikans á sínum tíma. Þá nefnir stefnandi að á árinu 1990 hafi Kirkubæjarhreppur sameinast fjórum öðrum hreppum og myndað Skaftárhrepp.
Stefnandi lýsir aðild og tengslum stefndu að málinu þannig:
Fyrir árið 1936 hafi hjónin Lárus Helgason og Elín Sigurðardóttir átt alla jörðina Kirkjubæjarklaustur. Síðan þá hafi jörðinni verið skipt og byggðar út úr henni nýjar jarðir. Hins vegar hafi aldrei verið formlega gengið frá skiptingu jarðarinnar, en gamla jörðin Kirkubæjarklaustur skiptist nú í jarðirnar Kirkjubæjarklaustur I og II og Kirkubæ I og II.
Lárus Helgason og Elín Sigurðardóttir áttu fimm syni, Helga, Siggeir, Valdimar, Júlíus og Berg. Stefnandi segir að á árinu 1936 hafi nýbýlið Kirkjubær I verið byggt út úr jörðinni Kirkjubæjarklaustri af Siggeiri Lárussyni og konu hans Soffíu Kristinsdóttur. Þeirra börn séu Kristinn, Gyða og stefndi Lárus. Árið 1957 hafi verið stofnuð jörðin Kirkjubær II út úr jörðinni Kirkjubæjarklaustri og hafi það gert stefndu Lárus Siggeirsson og Ólöf Benediktsdóttir með því að kaupa land af Siggeiri Lárussyni (föður Lárusar) og áðurnefndum Bergi Lárussyni (föðurbróður Lárusar). Við skipti á dánarbúi áðurnefndra Siggeirs og Soffíu hafi stefndu Lárus og Ólöf einnig keypt hlut systkina Lárusar, áðurnefndra Kristins og Gyðu.
Þá segir stefnandi Valdimar Lárusson (son Lárusar Helgasonar og Elínar Sigurðardóttur) hafa keypt hlut Júlíusar Lárussonar bróður síns við skipti á búi Lárusar og Elínar. Hafi stefndu Lárus Valdimarsson og Sólrún Ólafsdóttir byggt nýbýlið Kirkjubæjarklaustur II með því að kaupa land af föður Lárusar, áðurnefndum Valdimar Lárussyni og af bróður Valdimars, áðurnefndum Júlíusi Lárussyni.
Áðurnefnd systkini, stefndu Auður, Elín Frigg og Lárus Helgabörn hafi eignast 7,5% í jörðinni Kirkubæjarklaustri eftir móður sína, sem stefnandi nafngreinir ekki, en föður hlutinn hafi verið seldur á nauðungaruppboði hinn 6. maí 1971 eins og áður greinir.
Stefnandi segir eignarhlut stefndu í jörðinni Kirkjubæjarklaustri nú skiptast þannig: Hjónin Lárus Siggeirsson og Ólöf Benediktsdóttir eigi sameiginlega 52,5%, Sólrún Ólafsdóttir eigi 40%, og systkinin Auður, Elín Frigg og Lárus eigi sameiginlega 7,5%.
Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um eignarhald á jörðinni Kirkjubæjarklaustri. Stefndi segir Lárus Helgason hafa verið eiganda að jörðinni Kirkjubæjarklaustri og hafi Lárus látist 1. nóvember 1941, en kona hans Elín á árinu 1948. Afkomendur þeirra hjóna, bræðurnir Helgi, Siggeir, Valdimar, Júlíus og Bergur, hafi átt jörðina í óskiptri sameign og skipti hafi ekki farið fram á dánarbúinu fyrr en með skiptagerningi dagsettum 19. september 1975. Jörðin hafi því ekki verið þinglýst eign bræðranna fyrr en með þinglýsingu ofangreinds skiptagernings. Þar hafi bræðurnir allir orðið eigendur jarðarinnar að jöfnu. Eftir þinglýsingu skiptagerðarinnar hafi engum eignarheimildum verið þinglýst á jörðina. Fyrirvarar um og bókanir annars vegar á fundi hreppsnefndar Kirkjubæjarhrepps hinn 6. maí 1971 og við fyrirtöku uppboðsmáls vegna uppboðs á 1/10 hluta jarðarinnar hinn 6. maí 1971, sbr. framlögð dómskjöl hafi enga þýðingu í þessu sambandi. Þegar jörðinni hafi verið skipt 19. september 1975 hafi heldur ekki verið tekið tillit til þess jarðarparts sem boðinn hafði verið upp 6. maí 1971.
Stefndi segir líklegt að aðrir aðilar en einungis þeir sem stefnt sé eigi einnig hluta í jörðinni Kirkjubæjarklaustri. Rangt sé hjá stefnanda að systkinin Auður, Elín Frigg og Lárus eigi sameiginlega 7,5% þar sem framlagt uppgjör um sameign og skiptingu á eignum úr dánarbúi Lárusar Helgasonar, sbr. uppskrift búsins frá 21. júní 1943 og skiptagerningurinn frá 19. september 1975, sýni að Helgi Lárusson hafi eignast 1/5 jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs með skiptagerningnum frá 19. september 1975. Hafi allir þeir bræður skrifað undir gerninginn og samkvæmt honum eignast hver um sig 1/5 af jörðinni Kirkjubæjarklaustri. Við flutning málsins kom fram hjá stefnda að hann teldi að hin umþrætta spilda lægi einnig um land Hæðargarðs.
Upplýst er að aldrei var formlega gengið frá skiptingu jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs og mun stefnandi hafa leitað eftir samkomulagi við alla rétthafa að landinu, stefndu í málinu, um að undirrita afsal fyrir landinu. Í gögnum málsins er afsal fyrir hinni umþrættu spildu undirritað af öllum stefndu, að undanskildum stefnda Lárusi Helgasyni. Þar sem skjalið hafi ekki gildi sem fullnægjandi afsal eignarréttinda nema allir eigendur Kirkjubæjarklausturs undirriti skjalið kveður stefnandi nauðsynlegt að stefna öllum þeim aðilum sem stefnt er til að þola dómkröfur um viðurkenningu eignarréttarins, en stefnandi hafi í meira en 20 ár nýtt landið í góðri trú á grundvelli framangreinds samnings.
III. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi reisir kröfu sína um frávísun á þremur málsástæðum:
Í fyrsta lagi reisir stefndi kröfu sína um frávísun á því að hér sé um að ræða eignardómsmál sem reka skuli samkvæmt ákvæðum XVIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. sbr. 1. mgr. 121. gr. laganna skuli stefnandi afhenda dómara stefnu til útgáfu. Stefnan í máli þessu hafi hins vegar verið gefin út af lögmanni stefnanda og varði slíkt frávísun málsins.
Í öðru lagi segir stefndi að stefnandi hafi ekki stefnt öllum eigendum jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs og því beri að vísa máli þessu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 9171991, um meðferð einkamála. Upplýst sé að fimm synir Lárusar heitins Helgasonar og/eða afkomendur þeirra séu eigendur að jörðinni Kirkjubæjarklaustri að jöfnu. Eignarhlutaskipting sú sem fram komi í stefnu sé ekki byggð á neinum framlögðum skjölum og mótmælir stefndi henni sem rangri. Þar sem ekki hafi verið tekið mið af uppboðinu á 1/10 hluta jarðarinnar hinn 6. maí 1971, er jörðinni Kirkjubæjarklaustri hafi verið skipt 19. september 1975, þá gæti dánarbú Helga Lárussonar enn átt eitthvað í jörðinni, en Helgi hafi, eins og áður sagði fengið 1/5 hluta jarðarinnar í sinn hlut við skiptin 1975, fjórum árum eftir að uppboðið átti sér stað. Af þessu sjáist m. a. að stefnandi hafi ekki lagt fram óyggjandi gögn eða upplýsingar um hverjir séu eða geti verið eigendur jarðarinnar.
Í þriðja lagi reisir stefndi kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda sé allur í molum. Stefnandi byggi ekki á neinum staðföstum gögnum. Ekkert komi fram um það hver hafi reiknað út hnitpunkta sem byggt er á og að hnitpunktar styðjist ekki við framlögð gögn. Þá sé ekki sýnt fram á tildrög þess að skóli var byggður á hinni umdeildu lóð. Stefndi skoraði á stefnanda að leggja fram „upphafsgögn” vegna skólabyggingarinnar og samningsgögn varðandi upphaflegt samstarf milli ríkisins og stefnanda. Stefndi heldur því einnig fram að hið umþrætta land sé að hluta til í landi Hæðargarðs sem liggur að Kirkjubæjarklaustri. Loks nefnir stefndi að stefnandi sé ekki einn eigandi að skólabyggingunni sem er á lóðinni, en meðeigandi stefnanda sé ekki aðili að máli þessu eins og rétt hefði verið samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Álykta verði að ríkissjóður sé eigandi þeirra eigna sem standi á hinu umþrætta landi.
IV. Málsástæður og lagarök stefnanda
Málatilbúnaður stefnanda lýtur að því að krafist er viðurkenningar frá núverandi eigendum jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs um að stefnandi eigi nánar afmarkaðan landskika á jörðinni. Stefnandi segir fulljóst hverjir geti verið aðilar málsins og engin óvissa sé um aðild að málinu og því kalli ekkert á að málið sé rekið samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu 368/1999: Íslenska ríkið gegn Sigvalda Ragnarssyni og Grétu Dröfn Þórðardóttur. Engin lagaskylda hafi því hvílt á stefnanda að höfða eignardómsmál.
Stefnandi segir ómótmælt að fram til ársins 1936 hafi eigendur jarðarinnar Kirkjubæjarklaustur verið hjónin Lárus Helgason og Elín Sigurðardóttir. Þá sé einnig upplýst að þau áttu fimm syni, Helga, Siggeir, Valdimar, Júlíus og Berg. Á árinu 1936 hafi einn af þessum fimm, Siggeir Lárusson, stofnað nýbýli út úr Kirkjubæjarklaustri sem heiti Kirkjubær I. Siggeir hafi átt stefnda Lárus, en kona Lárusar sé stefnda Ólöf Benediktsdóttir. Aðrir afkomendur Siggeirs séu Kristinn og Gyða, en stefnandi segir Lárus og Ólöfu hafa leyst til sín þeirra eignarhluta að Kirkjubæjarklaustri að öllu leyti.
Þá segir stefnandi að Valdimar hafi keypt hlut Júlíusar bróður síns um 1970 og stofnað jörðina Kirkjubæjarklaustur II. Lárus og Sólrún sem er stefnt í málinu kaupa hlut Valdimars þannig aukinn.
Lárus og Ólöf hafi keypt hlut Bergs Lárussonar og stofnað jörðina Kirkjubæ II.
Við flutning málsins skýrði stefnandi frekar útreikninga sína á hlut hvers stefnda um sig í jörðinni. Kveður hann prósentutölur í stefnu um eignarhlutdeild stefndu í jörðinni, kunna að hafa valdið ruglingi, en það helgist aðallega af því að árið 1936 hafi Siggeir Lárusson stofnað Kirkubæ I og fengið þá frá foreldrum sínum í sinn hlut ¼ af jörðinni Kirkjubæjarklaustri. Því hafi síðari skipti á jörðinni einungis náð til ¾ af jörðinni Kirkjubæjarklaustri eins og hún var fyrir skiptinguna 1936 og miðist umfjöllun við það. Samkvæmt framlagðri skiptayfirlýsingu frá árinu 1975 hafi bræðurnir fimm, Helgi, Siggeir, Valdimar, Júlíus og Bergur, hvor um sig fengið 1/5 af jörðinni, eða 1/5 af ¾ hlutum, sbr. framansagt. Stefnandi heldur því fram að eftirfarandi atvik hafi leitt til breytinga á þeirri eignarhlutdeild.
Helmingur af þeim 1/5 hlutum sem upphaflega hafi komið í hlut Helga Lárussonar við skiptin 1975, eða 1/10, hafi verið skráður á nafn eiginkonu Helga. Þennan hlut eiginkonu Helga segir stefnandi að nú eigi að óskiptu börn Helga og eiginkonu hans, þau stefndu Auður, Elín Frigg og Lárus eða samtals 1/10 af jörðinni Kirkjubæjarklaustri, eins og hún var eftir skiptin 1936 eða samtals 1/10 af ¾ hlutum af jörðinni eða alls 7,5%.
Samkvæmt framlögðum gögnum hafi hinn hlutinn af arfshluta Helga Lárussonar verið seldur á nauðungaruppboði hinn 1971 og framseldur bræðrum hans, þeim Siggeiri og Valdimar. Samkvæmt þessu hafi Siggeir og Valdimar eignast hvor um sig, 1/5 hluta af ¾ hlutum, sem hafi verið arfshluti hvors þeirra um sig og að auki helming af eign Helga sem seldur var á nauðungaruppboðinu 1971.
Eins og áður segir hafi Siggeir fengið afhentan ¼ hluta af jörðinni miðað við það sem hún var fyrir árið 1936. Að auki hafi Siggeir fengið sinn arf og helming af helmingi arfshluta Helga bróður síns eins og áður segir. Þennan hlut kveður stefnandi Lárus Siggeirsson og Ólöfu Benediktsdóttur hafa eignast gegnum arf Lárusar eftir Siggeir föður sinn og kaupum á arfshluta systkina Lárusar, þeirra Kristins og Gyðu. Þá hafi Lárus og Ólöf einnig keypt 1/5 hluta Bergs Lárussonar af 3/4 hlutum jarðarinnar.
Stefnandi lýsir því að Valdimar Lárusson, bróðir Júlíusar, hafi keypt hans hluta þegar við skiptin á búi foreldra þeirra, Lárusar og Elínar, en síðar segir hann að Lárus Valdimarsson og kona hans Sólrún Ólafsdóttir hafi keypt af Júlíusi hans hluta. Þá hafi Lárus og Sólrún keypt hluta Valdimars í jörðinni, þannig að þau eigi nú og að auki helming af þeim 1/10 af ¾ hlutum sem Valdimar áskotnaðist eftir nauðungarsölu á hluta Helga á árinu 1971.
Fram kom hjá stefnanda við flutning málsins að hann gæti lagt fram gögn sem staðfesta fullyrðingar hans en það tíðkist ekki að leggja fram gögn við flutning máls um frávísunarkröfu og því leggi hann ekki fram þessi gögn, auk þess sem erfitt sé að nálgast þessar upplýsingar. Stefnandi benti sérstaklega á að stefndi Lárus Helgason hefði ekki tilgreint sérstaklega aðra eigendur jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs en stefnt væri þótt stefnda Lárusi Helgasyni hefði átt að vera það í lófa lagið sem einum af eigendum jarðarinnar.
Stefnandi mótmælti einnig sérstaklega fullyrðingu stefnda um að ríkið eða eigandi Hæðargarðs ætti að vera aðili að málinu og benti á í því sambandi að stefndi Lárus Helgason hefði ekki lagt fram gögn þessum fullyrðingum til stuðnings.
Niðurstöður.
Fallist er á það með stefnanda að ef vitað er um hverjir séu aðilar varnarmegin, þá eigi ekki höfða málið sem eignardómsmál samkvæmt sérákvæðum í XVIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Hins vegar er upplýst að þinglýsingagögn um skiptingu jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs munu vera fátækleg. Aðilum ber einnig saman um að þinglýsingabækur gefi ekki til kynna hverjir eigi eignina og munu stefndu ekki allir vera þinglýstir eigendur jarðarinnar. Fullyrðingar stefnanda um hvernig skipti á jörðinni Kirkjubæjarklaustri áttu sér stað eru í sjálfu sér ekki ótrúverðugar. Hins vegar skortir mjög á að stefnandi hafi lagt fram í málið fullnægjandi gögn og upplýsingar um skiptingu jarðarinnar. Nægir að nefna að stefnandi hefur ekki lagt fram gögn um skipti á dánarbúi hjónanna Siggeirs og Soffíu og raunar ekki tilgreint hvenær þau skipti áttu sér stað. Ekki eru heldur gögn um að Lárus Siggeirsson og Ólöf Benediktsdóttir hafi leyst til sín eignarhluta Kristins og Gyðu Siggeirsbarna að Kirkjubæjarklaustri. Einnig vantar gögn um að Valdimar Lárusson hafi keypt hluta Júlíusar bróður síns um 1970. Þá nafngreinir stefnandi ekki eiginkonu Helga Lárussonar og móður stefndu Auðar, Elínar Friggjar og Lárusar.
Í þessu samhengi ber einnig að líta til þess að málsatvikum, eins og stefnandi lýsir þeim, samræmast illa fullyrðingum hans um skiptingu jarðarinnar milli stefndu. Eins og stefnandi hefur útskýrt málsatvik í stefnu og fyrir dómi verður helst ráðið stefnandi hafi ekki tilgreint skiptingu jarðarinnar milli stefndu með réttum hætti. Stefnandi segir eignarhlut stefndu á jörðinni Kirkjubæjarklaustri skiptast þannig: Hjónin Lárus Siggeirsson og Ólöf Benediktsdóttir eigi sameiginlega 52,5%, hjónin Lárus Valdimarsson og Sólrún Ólafsdóttir eigi 40%, og systkinin Auður, Elín Frigg og Lárus eigi sameiginlega 7,5%. Ef farið er hins vegar eftir málavaxtalýsingu stefnanda verður hins vegar helst ráðið að Lárus Siggeirsson og Ólöf Benediktsdóttir eigi óskipt 58,75% af jörðinni, stefndu Lárus Valdimarsson og Sólrún Ólafsdóttir óskipt 33,75%, en aðrir stefndu óskipt 7,5%. Virðast því eignarhlutföll að jörðinni Kirkjubæjarklaustur óljós og önnur en stefnandi lýsir í raun.
Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi ekki sýnt fram á það með nægilega glöggum hætti hverjir í raun séu eigendur jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs og skjöl sem lögð hafa verið fram og fullyrðingar stefnanda eru misvísandi um þetta atriði. Þar með getur dómari ekki skorið úr um það hvort stefnandi hafi stefnt öllum raunverulegum eigendum jarðarinnar Kirkjubæjarklausturs eða jafnvel hvort stefnanda hefði borið að höfða mál þetta sem eignardómsmál. Upplýsingar sem þessar hefðu þurft að liggja fyrir í upphafi málsmeðferðar og hefur ekki verið bætt úr þessum vafa og ósamræmi við meðferð málsins. Er hér um að ræða svo mikla annmarka á málatilbúnaði stefnanda að alls óvíst er að stefnandi fái bætt úr á síðari stigum málsins. Vegna þessarar vanreifunar verður máli þessu því vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum skal stefnandi greiða stefnda 120.000 krónur í málskostnað.
Ólafur Börkur Þorvaldsson dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð, en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist nokkuð vegna mikilla anna dómarans.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Skaftárhreppur, greiði stefnda, Lárusi Helgasyni, 120.000 krónur í málskostnað.