Hæstiréttur íslands
Mál nr. 492/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Lánssamningur
- Réttindaröð
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 492/2014.
|
Metúsalem ehf. Kevin Gerald Stanford og (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) Landsbankinn hf. (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn þrotabúi Materia Invest ehf. (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lánssamningur. Réttindaröð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu krafna sem M ehf., K og L hf. lýstu við gjaldþrotaskipti þrotabús MI ehf. á grundvelli lánssamninga sem þeir höfðu gert við forvera þrotabúsins.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 3. og 7. júlí 2014, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu krafna, sem sóknaraðilar lýstu við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfur hvers þeirra um sig, að fjárhæð samtals 1.858.091.495 krónur, verði viðurkenndar við gjaldþrotaskiptin með stöðu í réttindaröð eftir 113. gr. sömu laga. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður sameiginlega gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Metúsalem ehf., Kevin Gerald Stanford og Landsbankinn hf., greiði í sameiningu varnaraðila, þrotabúi Materia Invest ehf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2014.
Mál þetta var þingfest 24. janúar sl. og tekið til úrskurðar 30. maí sl. Sóknaraðilar eru Metúsalem ehf., kt. [...], Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík og Kevin Gerald Stanford, kt. [...], Bretlandi, en varnaraðili er þrotabú Materia Invest ehf., kt. [...], Austurstræti 17, Reykjavík.
Sóknaraðilinn Metúsalem ehf. krefst þess að kröfur sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila verði viðurkenndar við gjaldþrotaskipti varnaraðila þannig að krafa nr. 9 á kröfuskrá á grundvelli lánasamnings, dags. 5. október 2005, að fjárhæð 1.185.220.837 krónur og krafa nr. 8 á kröfuskrá á grundvelli lánasamnings, dags. 5. desember 2005, að fjárhæð 672.870.658 krónur, njóti rétthæðar eftir 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðilinn Landsbankinn hf. krefst þess að kröfur sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila verði viðurkenndar við gjaldþrotaskipti varnaraðila þannig að krafa nr. 11 á kröfuskrá á grundvelli lánasamnings, dags. 5. október 2005, alls að fjárhæð 1.185.220.837 krónur og krafa nr. 10 á kröfuskrá á grundvelli lánasamnings, dags. 5. desember 2005, alls að fjárhæð 672.870.658 krónur, njóti báðar rétthæðar eftir 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðilinn Kevin Gerald Stanford krefst þess að kröfur sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila verði viðurkenndar við gjaldþrotaskipti varnaraðila þannig að krafa nr. 13 á kröfuskrá á grundvelli lánasamnings, dags. 5. október 2005, að fjárhæð 1.185.220.837 krónur og krafa nr. 12 á kröfuskrá á grundvelli lánasamnings, dags. 5. desember 2005, að fjárhæð 672.870.658 krónur, njóti rétthæðar eftir 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest að kröfur sóknaraðila njóti rétthæðar eftir 114. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Skýrslur fyrir dóminum gáfu Þorsteinn M. Jónsson, fyrirsvarsmaður Metúsalems ehf., Magnús Ármann, fyrirsvarsmaður Magga ehf. og eigandi F41 Holding ehf., Þorsteinn Gunnar Ólafsson starfsmaður Landsbankans í Lúxemborg og Ólafur Már Ólafsson, endurskoðandi hjá KPMG.
I
Málsatvik
Einkahlutafélagið Icon ehf. var stofnað 5. september 2005. Stofnendur félagsins voru Maggi ehf., sem sóknaraðilinn Landsbankinn hf. rekur réttindi sín til, sóknaraðilinn Metúsalem ehf., Bollason ehf. og Elit Realisations 3 Limited. Sóknaraðilinn Kevin Gerald Stanford mun vera eigandi síðastnefnda félagsins. Stofnendur Icon ehf. voru jafnframt hluthafar félagsins í jöfnum hlutföllum, hver með 25% hlut.
Hinn 5. október 2005 gerðu Maggi ehf. og sóknaraðilarnir Metúsalem ehf. og Kevin Gerald Stanford lánasamninga við Icon ehf. Lánasamningarnir þrír, sem eru ritaðir á ensku, eru því sem næst samhljóða og kveða á um lánveitingu að fjárhæð 6.008.460 bresk pund hver, sem beri 5% vexti og skuli endurgreiða í einu lagi 5. október 2010. Ákvæði 4. kafla lánasamningsins, sem ber fyrirsögnina ,,Repayment of the Loan“, hljóðar svo: ,,The Borrower shall repay the Loan in accordance with Sections 5 and 6 of this Agreement. The Repayment Date has been agreed as October 5th 2010 unless both parties agree otherwise.“ Sama dag greiddu Maggi ehf. og sóknaraðilarnir Metúsalem ehf. og Kevin Gerald Stanford hver fyrir sig 649.875.000 krónur til Icon ehf. Í skýringu við millifærslurnar var tekið fram að þær væru vegna ,,Share Offering in Icon ehf.“ Í framlögðu yfirliti yfir bankareikning Icon ehf. hjá Landsbankanum í Lúxemborg hefur verið strikað með penna yfir orðið ,,Share“ og ritað orðið ,,Lán“. Ekki verður séð af gögnum málsins að aðrar skuldir hafi hvílt á Icon ehf. þegar umræddar lánveitingar áttu sér stað.
Einkahlutafélagið Materia Invest ehf. var stofnað 7. nóvember 2005. Stofnendur félagsins voru Maggi ehf., sóknaraðilinn Metúsalem ehf. og Elit Realisations 3 Limited. Stofnendur Materia Invest ehf. voru jafnframt hluthafar félagsins í jöfnum hlutföllum, hver með þriðjungshlut.
Hinn 16. nóvember 2005 greiddu Maggi ehf. og sóknaraðilarnir Metúsalem ehf. og Kevin Gerald Stanford hver fyrir sig 443.633.333 krónur til Materia Invest ehf. Í skýringu við millifærslurnar var tekið fram að þær væru vegna ,,Share Issue in Materia Invest ehf.“ Ekki verður séð af gögnum málsins að aðrar skuldir hafi hvílt á Materia Invest ehf. þegar félagið tók við umræddum greiðslum. Hinn 5. desember 2005 gerðu Maggi ehf. og sóknaraðilarnir Metúsalem ehf. og Kevin Gerald Stanford lánasamninga við Materia Invest ehf. vegna þessara greiðslna. Lánasamningar vegna þessara greiðslna til félagsins, sem eru ritaðir á ensku, eru því sem næst samhljóða. Hver þeirra hljóðar á um lán að fjárhæð 4.101.640 bresk pund. Lánsfjárhæðin beri fasta 5% vexti og skuli endurgreiða hana í einu lagi 5. desember 2010. Ákvæði 4. kafla lánasamningsins, sem ber fyrirsögnina ,,Repayment of the Loan“, hljóðar svo: ,,The Borrower shall repay the Loan in accordance with Sections 5 and 6 of this Agreement. The Repayment Date has been agreed as December 5th 2010 unless both parties agree otherwise.“
Í 5. kafla allra lánasamninganna, sem ber fyrirsögnina ,,Prepayments of Loan“, er svohljóðandi ákvæði: ,,The Borrower may, on giving not less than two (2) days prior notice in writing to the Lender, prepay the whole or any part of the Loan without any penalty whatsoever and on the expiry date of such notice the Borrower shall be under an obligation to prepay the Loan or any such part thereof as may have been stated in such notice. The Borrower shall endeavour to repay this subordinate loan as quickly as possible depending upon the Borrowers performance and financial position at any given time, unless otherwise mutually agreed upon by the Parties.“
Hinn 16. nóvember 2005 mun sóknaraðilinn Materia Invest ehf. hafa gert lánssamning við Kaupþing banka hf. að fjárhæð 4.200.000.000 króna. Félagið tók önnur lán síðar, en fyrir liggur að félagið tók umtalsverða fjármuni að láni í starfsemi sinni og nýtti lánsféð til fjárfestinga í verðbréfum.
Þau lán sem kröfur sóknaraðila eiga rætur að rekja til, sem og lán Materia Invest ehf. hjá Kaupþingi banka hf., munu hafa verið tekin í því skyni að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group hf., sem fram fór 10. nóvember 2005.
Hinn 10. maí 2007 greiddi Icon ehf. 250.000.000 króna upp í hvert og eitt hinna þriggja lána samkvæmt lánasamningunum frá 5. október 2005. Sama dag greiddi Materia Invest ehf. 200.000.000 króna upp í hvert og eitt hinna þriggja lána samkvæmt lánasamningum félagsins frá 5. desember 2005. Af gögnum málsins verður ráðið að Materia Invest ehf. og Icon ehf. hafi hvorki fyrr né síðar greitt skuldir annarra lánardrottna.
Stjórnir Materia Invest ehf. og Icon ehf. undirrituðu samrunaáætlun 11. júní 2007 þar sem félögin tvö sameinuðust undir nafni og kennitölu Materia Invest ehf. Samruni félaganna var staðfestur á sameiginlegum hluthafafundi félaganna tveggja 25. september 2007. Miðaðist samruninn við 1. janúar 2007. Í tilefni samrunans var hlutafé Materia Invest ehf. hækkað úr 600.000 krónum í 975.000 krónur. Það var skráð hlutafé félagsins þegar bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta.
Hinn 31. desember 2009 greiddi varnaraðili 296.153 bresk pund, samtals 888.459 bresk pund, inn á hvert og eitt þeirra lána sem félagið tók með lánasamningunum frá 5. desember 2005.
Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012. Sóknaraðilarnir Metúsalem ehf. og Kevin Gerald Stanford auk F41 Holding ehf., sem áður hét Maggi ehf., lýstu kröfum í bú varnaraðila á grundvelli fyrrgreindra lánssamninga frá 5. október og 5. desember 2005. Skiptastjóri varnaraðila hafnaði þessum kröfum 27. nóvember 2012 m.a. þar sem rót krafnanna væri að rekja til hlutafjáraukningar en ekki lánssamnings og kröfurnar væru eftirstæðar samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/199. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu skiptastjórans 3. og 5. desember 2012. Ágreiningsfundur var haldinn 31. október 2013 en ekki tókst að jafna ágreining aðila málsins á fundinum. Í framhaldinu vísaði skiptastjóri sóknaraðila ágreiningi aðila til héraðsdóms samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991. Með yfirlýsingu 31. janúar 2014 framseldi F41 Holding ehf. lýstar kröfur sínar til sóknaraðilans Landsbankans hf.
II
Málsástæður og lagarök allra sóknaraðila
Málatilbúnaður allra sóknaraðila er eins í öllum meginatriðum og er því gerð grein fyrir honum í einu lagi.
Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á hendur varnaraðila á því að löglegir og fullgildir lánasamningar hafi verið undirritaðir dagana 5. október 2005 og 5. desember 2005. Ekki sé um það deilt að lánveitendur hafi greitt þá fjármuni, sem samningarnir kváðu á um, til skuldara. Einnig sé óumdeilt að kröfuréttindi sóknaraðilans Landsbankans hf. hafi verið framseld bankanum með lögmætum hætti. Sóknaraðilar séu því réttir eigendur kröfuréttindanna. Þar sem skuldarinn, varnaraðili, hafi ekki efnt að fullu þær fjárskuldbindingar sem hvíli á félaginu á grundvelli lánasamninganna sé hafið yfir vafa að sóknaraðilar eigi kröfu á hendur varnaraðila. Þeirri kröfu hafi verið fylgt eftir á hendur varnaraðila eins og ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. mæli fyrir um. Þar af leiðandi beri að viðurkenna kröfur sóknaraðila við gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
Kröfur sóknaraðila séu almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar byggja í fyrsta lagi á því að tilgreining Materia Invest ehf. í eigin bókum eða einstökum excel-skjölum á kröfum sóknaraðila skilgreini ekki grundvöll kröfuréttindanna eða um hvers konar löggerninga hafi verið að ræða. Skilgreining skuldara sjálfs á réttindaröð krafna á hendur sér hafi því enga þýðingu við mat á rétthæð krafna samkvæmt lögum nr. 21/1991. Þar af leiðandi skipti engu máli hvaða nafn skuldarinn hafi gefið umræddum lánveitingum í excel-skjali sem fannst í bókhaldi hans.
Verði á annað borð talið að skilgreining varnaraðila skipti máli verði að líta til þess að umræddri nafngift á lánveitingunum hafi verið breytt í bókhaldi Materia Invest ehf. strax árið 2006. Umræddur bókhaldsliður hafi áður heitið „Skuldir víkjandi lán“, en hafi frá og með árinu 2006 heitið „skuldir við hluthafa“. Því verði að telja að forsvarsmenn félagsins hafi áttað sig á mistökum við skráningu umræddra krafna í excel-skjalið strax á árinu 2006 og leiðrétt heitið á þeim bókhaldslykli sem lánin voru skráð á. Ársreikningur ársins 2005 hafi ekki verið undirritaður fyrr en í ágúst árið 2006 og megi því gera ráð fyrir að villan hafi uppgötvast við gerð ársreikningsins.
Einnig beri að líta til þess að umrædd nafngift á bókhaldslykli eigi bara við um lánveitingar til Materia Invest ehf. Ekki verði séð af gögnum málsins að til séu nein sambærileg gögn um nafngift fyrirsvarsmanna Icon ehf. á lánveitingum til félagsins.
Umrætt excel-skjal virðist ekki vera hluti af lögformlegu bókhaldi Materia Invest ehf. Í álitsgerð Spektar sf. segi að engin grunngögn bókhalds hafi fundist í hinu gjaldþrota félagi vegna ársins 2005, aðeins excel-skjal með yfirliti yfir hreyfingar ársins. Í excel-skjalinu komi því ekki fram formleg afstaða forsvarsmanna Materia Invest ehf. til umræddra lánveitinga. Slík afstaða komi fram í endurskoðuðum ársreikningum félagsins vegna ársins 2005. Þá sé með öllu óljóst hver hafi samið umrætt excel-skjal eða af hvaða tilefni. Vegna þessa sé skjalið þýðingarlaust.
Sóknaraðilar byggja í öðru lagi á því að hugtakið „subordinate“ í lánasamningum aðila hafi engin áhrif á réttarsamband aðila.
Hugtakið „subordinate“ komi aðeins fyrir á einum stað í umræddum lánasamningum, í 2. mgr. 5. gr. þeirra. Ákvæði 5. gr. samningsins fjalli eingöngu um fyrirframgreiðslu lánsins (e. „Prepayments of Loan“). Hugtakið „subordinate“ sé ekki sett fram í neinu samhengi við rétthæð lánsins gagnvart öðrum skuldbindingum lántaka og eigi sér ekki stoð í öðrum ákvæðum lánasamningsins. Eitt orð, sem ekki sé sett fram í neinu samræmi við skilgreiningu á rétthæð lánsins heldur í umfjöllun um algjörlega óskyld atriði, þ.e. fyrirframgreiðslu lánsins geti engin áhrif haft á rétthæð lánsins. Þvert á móti sé eina hugsanlega merking orðsins sú að með því sé vísað til sérstakra „undirhluta“ lánsins, sem sé bein þýðing á hugtakinu „subordinate“, og séu þessir undirhlutar lánsins skilgreindir í ákvæðinu.
Krafa lánveitanda á hendur lántaka samkvæmt lánssamningnum sé skilgreind í 1. gr. hans. Þar sé fjárhæð lánsins tilgreind og tekið fram að fjárhæðin sé veitt lántaka að láni með þeim skilmálum sem í samningnum greinir. Í 1. gr. segi á eftir skilgreiningu á láninu: „... which is hereinafter referred to as the „Loan“.“ Hugtakið „Loan“ sé þannig skilgreint í 1. gr. samningsins og sé notað með nákvæmlega sama rithætti í öðrum ákvæðum lánssamningsins. Það sé ekki sama hugtakið eða sami ritháttur og í 2. mgr. 5. gr. samningsins. Orðin „this subordinated loan“ taki því ekki til skilgreiningar á réttarsambandi aðila, sem sé skilgreint í 1. gr. sem „Loan“ og hafi þar með engin áhrif á rétthæð lánsins.
Í lánasamningnum sé hugtakið „this subordinate loan“ hvergi skilgreint eða skýrt. Af því leiði að umrætt hugtak geti eingöngu verið til skýringar á ákvæði 5. gr. samningsins. Það sjáist best á því að 5. gr. lánssamningsins sé fullkomlega merkingarlaus, verði orðinu „subordinate“ gefin sú merking við skýringu á ákvæðinu að það vísi til „víkjandi“ láns. Ákvæðið fjalli um fyrirframgreiðslu lánsins. Í ákvæðinu sé ekki minnst á að gæta þurfi að annarri fjármögnun lántakans við slíka fyrirframgreiðslu eða að leita þurfi samþykkis annarra lánardrottna. Eina skilyrði fyrirframgreiðslu sé að lántaki sendi tilkynningu þar að lútandi til lánveitanda. Í 2. mgr. ákvæðisins sé lántaki svo hvattur til fyrirframgreiðslu eins fljótt og kostur er. Augljóst sé að fyrirframgreiðsla á láni sem raunverulega er víkjandi geti ekki farið fram með þessum hætti. Meira þurfi að koma til, þ.m.t. samþykki annarra lánardrottna, svo ákvæði sem þetta sé heimilt í samningi um víkjandi lán.
Öll meðferð lánsins í opinberu bókhaldi Materia Invest ehf. staðfesti að ekki var um víkjandi lánssamninga að ræða. Í ársreikningum félagsins fyrir árin 2005 til 2010 sé hvergi getið um að félagið hafi tekið víkjandi lán í rekstri sínum. Samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 696/1996 um um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga hefði félaginu þó verið skylt að skýra frá því.
Öll framkvæmd lánasamninganna beri það með sér að ekki var um víkjandi lánasamninga að ræða. Hinn 10. maí 2007 hafi Materia Invest ehf. og Icon ehf. greitt háar fjárhæðir inn á þá sex lánasamninga sem mál þetta snúist um, alls 1.350.000.000 króna. Þann dag hefðu félögin þá þegar stofnað til bróðurpartsins af þeim rúmlega 32 milljarða króna skuldum sem hvíli á varnaraðila í dag. Hinn 31. desember 2009 hafi einnig tæplega 180 milljónir króna verið greiddar inn á lánasamningana frá 5. desember 2005. Enginn hafi gert athugasemd við fyrrgreindar greiðslur, hvorki lánardrottnar né aðrir. Það sýni vel að enginn þeirra aðila sem að rekstri félagsins kom, hvorki eigendur, stjórnendur né lánardrottnar, hafi talið umrædda lánasamninga fela í sér víkjandi lán. Sérstök athygli sé vakin á því að lánasamningur KB banka hf. við Materia Invest ehf. hafi verið undirritaður áður en lánasamningar við eigendur félagsins voru undirritaðir 5. desember 2005. Hafi hugmyndin verið sú að umræddir lánasamningar við eigendur væru víkjandi, gætu þeir ekki verið víkjandi fyrir öðrum skuldum en þeim sem þá þegar hafi verið stofnað til. Þar af leiðandi væri umrætt lán KB banka hf. eina lánið sem mögulega gæti verið framar umræddum þremur lánasamningum í réttindaröð. Af dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 244/2011 sjáist að engar greiðslur hafi verið inntar af hendi upp í lán KB banka hf. og aldrei gerðar neinar athugasemdir af hálfu bankans við fyrirframgreiðslur upp í lán eigenda varnaraðila.
Verði allt að einu talið að hugtakið „subordinate“ hafi einhverja þýðingu við túlkun á lánssamningum aðila, byggja sóknaraðilar á því að hugtakið geti aldrei leitt til þess að umræddum lánssamningi verði skipað í kröfuröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu segi skýrlega að í samningi um víkjandi lán þurfi að koma fram að umrædd krafa víki fyrir öllum öðrum kröfum. Þetta skilyrði ákvæðisins sé áréttað enn frekar í greinargerð með því. Þar segi að með ákvæðinu sé gert ráð fyrir því að krafa vegna víkjandi láns geti beinst að þrotabúi, „en væri ekki áskilið sérstaklega í lánssamningi að slík krafa víki aðeins fyrir vissum kröfum og öðrum ekki yrði að líta svo á að hún falli aftast í skuldaröð eftir ákvæðum 4. tölul. 114. gr.“. Í ákvæðinu felist þar af leiðandi að víkjandi krafa, sem þó víkur aðeins fyrir sumum en ekki öllum öðrum kröfum, sé ekki eftirstæð, heldur sé almenn krafa á grundvelli meginreglu 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í umræddum lánssamningum sé augljóslega ekki samið um að kröfur á grundvelli þeirra víki fyrir öllum öðrum kröfum á hendur varnaraðila. Í lánssamningunum komi orðið „subordinate“ fyrir án alls samhengis við stöðu lánsins í réttindaröð við gjaldþrotaskipi eða annars konar fullnustu kröfuhafa. Ekki sé því unnt að leggja annan og meiri skilning í orðið en þann, að lánið sé í besta falli víkjandi gagnvart þeim kröfum sem hvíldu á félaginu þegar lánasamningurinn var gerður. Engin lán hafi hvílt á Icon ehf. þegar lánasamningarnir voru gerðir. Þegar fjármunir á grundvelli lánasamninganna voru greiddir til Materia Invest ehf. hafi engin önnur lán hvílt á félaginu, en þegar lánasamningar voru undirritaðir 5. desember 2005 hefði lán KB banka hf. verið veitt félaginu. Það sé eina krafan sem umræddir lánasamningar Materia Invest ehf. gætu mögulega vikið fyrir. Þar af leiðandi sé fortakslaust skilyrði 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt. Sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið um að lánið víki fyrir öllum öðrum kröfum hvílir á varnaraðila. Því verði að skipa umræddum lánasamningum í réttindaröð samkvæmt meginreglu 113. gr. sömu laga.
Verði orðið „subordinate“ skilið á þann veg að lánasamningar sóknaraðila teljist víkjandi og að kröfur á grundvelli þeirra skuli víkja fyrir öllum öðrum kröfum á hendur varnaraðila, byggja sóknaraðilar á því að ógilda beri þetta ákvæði lánasamninganna á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Orðið „subordinate“ hafi augljóslega verið sett í lánasamninga aðila fyrir mistök. Enginn þeirra sem stóðu að samningsgerðinni hafi ætlast til þess að umræddar kröfur skyldu víkja fyrir öllum öðrum kröfum, sbr. fyrri rökstuðning. Þá hafi eigendur félaganna veitt umrædd lán. Eigendurnir hafi jafnframt verið fyrirsvarsmenn félaganna. Augljóst megi telja að þeir hafi ekki gengið út frá því að kröfur þeirra skyldu víkja fyrir öllum hugsanlegum kröfum sem kynnu að hvíla á félaginu í framtíðinni. Þá hafi nær engin lán hvílt á félögunum þegar samningarnir voru gerðir. Fyrirsvarsmenn félagsins hafi greitt háar fjárhæðir upp í lánasamningana 10. maí 2007 og 31. desember 2009 og augljóst sé af greiðslunum að þeir töldu lánasamningana ekki víkjandi. Þar af leiðandi bendi ekkert til þess að orðið „subordinate“ hafi átt að hafa merkingu eða réttaráhrif í þá veru að gera umrædda lánasamninga víkjandi. Orðið sé því inni í samningunum fyrir misritun eða mistök. Það hafi báðir aðilar samningsins mátt vita, enda sami aðilinn báðum megin borðsins. Öll skilyrði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 séu því uppfyllt. Um vitneskju löggerningsmóttakandans sé jafnframt byggt sérstaklega á 38. gr. sömu laga, þá sérstaklega lokamálslið ákvæðisins.
Réttaráhrif þess að 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 eigi við séu þau að líta beri með öllu fram hjá misrituninni og veita löggerningnum þá merkingu sem aðilar ætluðu honum við gerð hans. Enginn aðilanna að framangreindum lánssamningum hugðist gera lánasamning um víkjandi kröfu á hendur Materia Invest ehf. eða Icon ehf. Þar af leiðandi beri að víkja því ákvæði samninganna til hliðar, verði það á annað borð talið hluti þeirra. Þessi réttaráhrif 1. mgr. 32. gr. séu staðfest í greinargerð með ákvæðinu. Sóknaraðilar byggi einnig á reglu 36. gr. laganna, sem sé öðrum ákvæðum III. kafla laganna til fyllingar, en samkvæmt ákvæðinu megi m.a. breyta ósanngjörnum löggerningum.
Sóknaraðilar hafna því sjónarmiði skiptastjóra varnaraðila að kröfur þeirra stafi af kaupum á hlutafé í Materia Invest ehf. og Icon ehf. Sú málsástæða styðjist væntanlega við skýringar á millifærslum á fjármunum á bankareikningum, en þar komi fyrir hugtakið „share offering“. Þessi málsástæða eigi enga stoð í gögnum málsins. Hlutafé í Materia Invest ehf. hafi verið 600.000 krónur við stofnun félagsins og allt greitt til þess við stofnun. Hlutafé í Icon ehf. hafi verið 500.000 krónur og sömuleiðis allt greitt til félagsins við stofnun. Hlutafé félaganna hafi aldrei verið hækkað, fyrir utan hækkun um 375.000 krónur á hlutafé Materia Invest ehf. við samruna þess og Icon ehf. í júní 2007. Hins vegar liggi fyrir fullgildir lánasamningar um þá fjármuni sem greiddir voru félögunum. Þessi málsástæða varnaraðila sé því haldlaus.
Kröfur sóknaraðila hafi ekki verið rétt reiknaðar í kröfulýsingum þeirra, þar sem innborganir 10. maí 2007 hafi ekki verið reiknaðar að fullu inn í kröfuna, heldur einungis að 1/3 hluta. Kröfur sóknaraðila séu því lægri en lýstar kröfur þeirra.
Krafa sóknaraðila, hvers um sig, vegna lánasamninga við Materia Invest ehf., dags. 5. desember 2010, er eftirfarandi:
|
Höfuðstóll 5. desember 2010 |
550.312.095 krónur |
|
Dráttarvextir til 14. september 2012 |
122.558.563 krónur |
|
Samtals |
672.870.658 krónur |
Krafa sóknaraðila, hvers um sig, vegna lánasamninga við Icon ehf., dags. 5. október 2010, er eftirfarandi:
|
Höfuðstóll 5. október 2010 |
951.778.421 króna |
|
Dráttarvextir til 14. september 2012 |
233.442.596 krónur |
|
Samtals |
1.185.220.837 krónur |
Krafa sóknaraðila um málskostnað er studd við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfu sína um höfnun allra krafna sóknaraðilar á því að gögn málsins bendi ekki til þess að kröfur sóknaraðila eigi nokkurn rétt á sér. Vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að kröfur sóknaraðila byggi á lánasamningunum frá 5. október 2005 og 5. desember 2005. Varnaraðili telji að þessi lán séu víkjandi lán hluthafa til þrotamanns og þar af leiðandi séu kröfur sóknaraðila eftirstæðar kröfur sem skipa skuli í kröfuröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þau lán séu víkjandi þar sem lánveitandi samþykki að fá ekki greitt frá lántaka eða öðrum skuldara fyrr en aðrir lánveitendur hafi fengið sitt greitt. Skipti þá engu máli hvort aðrar kröfur stofnist fyrir eða eftir samning um víkjandi lán, sé ekki sérstaklega tiltekið að lán víki aðeins fyrir sumum kröfum en ekki öðrum.
Lánasamningarnir sjálfir kveði á um að lánin séu víkjandi. Í 5. kafla allra lánasamninga aðila komi fram: „The Borrower shall endeavour to repay this subordinate loan as quickly as possible...“ Löggiltur skjalaþýðandi hafi þýtt umrædda lánasamninga. Rétt þýðing á orðinu „Subordinate loan“ sé „víkjandi lán“. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili vísar til þess að framlagðar þýðingar sóknaraðilans Landsbankans hf. séu óstaðfestar og varnaraðili mótmælir þeim sem röngum. Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að orðið þýði „undirhluti“ láns, enda slíkt í engum tengslum við efni lánasamninganna, íslenska málvenju eða löggilta þýðingu á lánasamningunum. Þá sé haldlaust að halda því fram að fyrirframgreiðsla á láni vísi til „undirhluta“ láns.
Ákvæði 4. gr. lánasamninganna kveði á um endurgreiðslu lánsins. Í ákvæðinu segi að endurgreiðsla lánanna skuli fara eftir ákvæðum 5. og 6. gr. samninganna. Ákvæði 5. gr. lánasamninganna taki því til bæði fyrirframgreiðslu á láninu og endurgreiðslu þess ásamt 6. gr. Í 5. gr. sé kveðið á um að lánið sé víkjandi og verði að leggja það til grundvallar að um endurgreiðslu á láninu beri að fara eftir því að lánið sé víkjandi. Önnur ákvæði samninganna þar sem orðið „lán“ sé notað haggi ekki efnislegri þýðingu þess að í 5. gr. sé gengið út frá því að lánið sé víkjandi. Engu breyti í því sambandi að orðið „subordinate loan“ sé ekki skilgreint sérstaklega í lánasamningunum.
Samkvæmt 10. gr. samninganna gildi íslensk lög um samningana og beri að túlka þá í samræmi við íslenskan rétt. Samkvæmt orðanna hljóðan sé ákvæði 5. gr. lánasamninganna afar skýrt. Kveðið sé á um víkjandi lán og réttaráhrif þess séu ljós. Sé jafnframt litið til tilgangs lánasamninganna, stöðu samningsaðilanna og atvika við samningsgerðina að öðru leyti, sé ljóst að skýra verði lánasamninganna á þann veg að samið hafi verið um víkjandi lán.
Varnaraðili andmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að öll framkvæmd lánasamninganna beri það með sér að lánin hafi ekki verið víkjandi. Þvert á móti beri öll framkvæmd lánasamninganna, tildrög þeirra og atvik máls að öðru leyti það skýrt með sér að lánin hafi verið víkjandi.
Greiðslur varnaraðila til hluthafa sinna 10. maí 2007 og 31. október 2009 veiti enga vísbendingu um að lánin hafi ekki verið víkjandi. Ekkert liggi fyrir um að aðrir kröfuhafar hafi haft nokkra vitneskju um að varnaraðili hafi greitt til hluthafa sinna. Hafi aðrir kröfuhafar fengið upplýsingar um að félagið greiddi hluthöfum sínum en ekki öðrum kröfuhöfum sé líklegra en hitt að gerðar hefðu verið athugasemdir við það, sér í lagi þar sem aðrir kröfuhafar hafi engar greiðslur fengið frá félaginu. Í því sambandi nægi að nefna skuldbindingar félagsins gagnvart Kaupþingi banka hf. sem kveðið sé á um í lánasamningi milli félagsins og bankans.
Í kafla 6 í lánasamningi milli Materia Invest ehf. og Kaupþings banka hf. sé kveðið á um í grein 6.1, j-lið, að lántaki skuldbindi sig sérstaklega til þess að greiða ekki af öðrum skuldbindingum lántaka eða breyta skilmálum þeirra nema með samþykki bankans. Engin gögn liggi fyrir um að forsvarsmenn varnaraðila hafi fengið heimild bankans fyrir greiðslum 10. maí 2007, rúmlega tveimur og hálfu ári fyrir gjalddaga þeirra víkjandi lána. Það bendi til þess að greiðslur varnaraðila til hluthafa sinna 10. maí 2007 hafi brotið í bágu við skuldbindingar félagsins gagnvart öðrum kröfuhöfum.
Skýringar sóknaraðila eftir á um að forsvarsmenn varnaraðila eða eigendur hafi ekki litið á umrædd lán sem víkjandi lán hafi ekkert gildi þar sem sóknaraðilar hafi bæði í senn verið fyrirsvarsmenn varnaraðila og eigendur þess félags og þar með setið báðum megin borðsins við gerð lánasamninganna. Það standi því sóknaraðilum nær að færa sönnur fyrir ástæðum þess að lánasamningarnir hafi orðið þess efnis sem raun varð á, en það hafi þeir ekki gert.
Varnaraðili byggir á því að skilyrði 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991 sé uppfyllt og ákvæðið eigi við kröfur sóknaraðila. Skýrt komi fram í öllum lánasamningunum að um víkjandi lán sé að ræða. Lánin séu því víkjandi gagnvart öllum öðrum kröfum í skilningi 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæðið kveði skýrt á um að kröfur sem samið hafi verið um með þeim hætti skuli koma að baki öllum öðrum kröfum samkvæmt 109.-113. gr. sömu laga í þeirri röð sem ákvæðið tilgreinir.
Túlkun sóknaraðila á ákvæði 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991 sé augljóslega röng. Þeir beri jafnframt sönnunarbyrðina fyrir því að ekki hafi verið samið um að lánin ættu ekki að víkja fyrir öllum kröfum heldur eingöngu sumum kröfum, enda sé ekki sérstaklega áskilið í lánasamningunum að lánin víki fyrir vissum kröfum og öðrum ekki.
Rétt skýringaraðferð á 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991 leiði til þeirrar eðlilegu niðurstöðu að lán, sem samið hafi verið um að væru víkjandi, komi á eftir öllum öðrum kröfum samkvæmt 109.-113. gr. sömu laga. Lán sé víkjandi fyrir öllum öðrum kröfum, sé ekki sérstaklega kveðið á um að lánið víki aðeins fyrir vissum kröfum en öðrum ekki. Einu gildi hvort aðrar kröfur samkvæmt 109.-113. gr. sömu laga hafi komið til fyrir eða eftir að samið var um að lán væru víkjandi.
Varnaraðili hafnar því að orðið „subordinate“ hafi verið sett í lánasamningana fyrir mistök eða misritun, sbr. 1. mgr. 32. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Fráleitt sé að bera fyrir sig að samið hafi verið um lánin ættu að víkja fyrir öllum öðrum kröfum fyrir mistök í ljósi þess að slík niðurstaða væri hagfelld fyrir sóknaraðila nú.
Skýring sóknaraðila um að mistök eða misritun hafi átt sér stað sé afar ótrúverðug þar sem þeir sjálfir hafi setið báðum megin samningsborðsins, og gerðir voru sex lánasamningar sama efnis á mismunandi tíma, annars vegar 5. október 2005 og hins vegar 5. desember 2005.
Þá sé ekki hægt að telja að mistök eða misritun hafi átt sér stað þegar millifærslur til félagsins voru færðir inn í bókhald félagsins sem víkjandi lán. Eigendum sem veittu umrædd lán hafi mátt vera fullkunnugt um tilgang lánasamninganna, orðalag í samningunum sjálfum, skýringum á millifærslum fjármunanna og færslu í bókhaldi félagsins, enda hafi eigendur jafnframt verið forsvarsmenn félaganna.
Skilyrði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936 sé því ekki uppfyllt. Beiting ákvæðisins í þágu sóknaraðila væri að virtum öllum málsatvikum afskaplega ósanngjörn niðurstaða gagnvart öðrum kröfuhöfum varnaraðila. Engir aðrir en sóknaraðilar hafi komið að gerð lánasamninganna og því verði þeir að bera hallann af því að hafa ekki vandað sig betur við samningsgerðina. Ekki sé hægt að líta fram hjá því að sóknaraðilar hafi á þeim tíma sem atvik þessa máls taka til verið umsvifamiklir fjárfestar og athafnamenn í íslensku og bresku viðskiptalífi með heilmikla reynslu af samningum og fjárfestingum af því tagi sem hér sé til umfjöllunar.
Varnaraðili vísar auk þess til gagna úr rafrænu bókhaldi Materia Invest ehf. árin 2005-2010. Í excel-skjali yfir bókhaldshreyfingar fyrir árið 2005 séu þrjár færslur 16. nóvember 2005 færðar inn sem „víkjandi lán“ og upphæðir færðar undir efnahagsliðinn „Skuldir víkjandi lán“, hver að fjárhæð 443.633.333 krónur og vísi það til millifærslna frá hluthöfum félagsins sem séu tilgreindar í yfirlitum yfir bankareikning varnaraðila hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Lán sem Kaupþing banki hf. veitti Materia Invest ehf. 16. nóvember 2005, að fjárhæð 4.200.000.000 króna, sé aftur á móti fært inn sem „Skuldir KB“. Þessi gögn, ásamt lánasamningunum sjálfum, sýni svo ekki verði um villst að samið hafi verið um að lán eigenda félaganna skyldu víkja fyrir öðrum kröfum.
Sóknaraðilar hafi verið eigendur og fyrirsvarsmenn þeirra félaga sem hér um ræði. Þeir verði því að bera sönnunarbyrðina fyrir því af hverju það sé óljóst hver hafi samið umrætt excel-skjal eða af hvaða tilefni. Að sama skapi verði sóknaraðilar að bera hallann af því að lögformlegt bókhald Icon ehf. eða önnur skjöl úr bókhaldi Materia Invest ehf. liggi ekki fyrir.
Varnaraðili telur ljóst af öllum atvikum málsins að tilgangur millifærslna eigendanna á fjármunum til Materia Invest ehf. og Icon ehf. hafi í raun verið að auka eigið fé félaganna til að uppfylla skilyrði um lántöku frá öðrum lánveitendum til þess að kaupa hlutabréf í FL Group hf.
Í fyrsta lagi sé þess sérstaklega getið í millifærslum á fjármunum til Icon ehf. og Materia Invest ehf. að skýringin sé hlutafjárhækkun eða hlutafjárútboð í félögunum. Yfirlit yfir bankareikning varnaraðila hjá Landsbankanum í Lúxemborg bendi til þess að fyrst í stað hafi staðið til að auka eigið fé félaganna með þeim hætti að fjármagna að fullu hlutafjárkaup í FL group hf. Stuttu seinna hafi verið fallið frá þeirri áætlun og þess í stað búið svo um hnútana að millifærslurnar væru vegna lánasamninga um víkjandi lán.
Strikað sé yfir skýringuna um „Share Issue In Materia Invest ehf.“ og handskrifuð skýringin „lán“, í þremur millifærslum 16. nóvember 2005, hver að fjárhæð 443.633.333 krónur. Sama sé gert í yfirliti yfir bankamillifærslur til Icon ehf. Þar sé strikað yfir skýringuna „Share Offering in Icon ehf.“ og handskrifuð skýringin „lán“, í þremur millifærslum 5. október 2005, hver að fjárhæð 649.875.000 krónur. Sóknaraðilar hafi ekki upplýst hver hafi strikað á þessi gögn eða hvenær. Þessar yfirstrikanir hafi því ekkert gildi í málinu þar sem þau gögn séu lögð fram af hálfu sóknaraðila.
Í tilviki Materia Invest ehf. sé nokkuð ljóst hvað til stóð fyrst um sinn þar sem millifærslur eigenda til félagsins hafi verið framkvæmdar 16. nóvember 2005 með skýringunni „Share Isssue in Materia Invest ehf.“, sama dag og gengið hafi verið frá lánasamningi við Kaupþing banka hf. að fjárhæð 4.200.000.000 króna, og greitt fyrir öll keypt hlutabréf í FL Group hf. Um þremur vikum seinna, 5. desember 2005, sé svo aftur á móti gengið frá lánasamningum um víkjandi lán og án þess að félagið leggi fram neinar tryggingar fyrir lánunum.
Svipað hafi verið uppi á teningnum í tilviki Icon ehf., þó þannig að í bankayfirliti um millifærslu fjármuna frá eigendum til félagsins sé skýringin „Share offering in Icon ehf.“ og lánasamningar milli eigenda og þess félags virðast undirritaðir sama dag og millifærslan á sér stað, þó svo enginn annar en sóknaraðilar geti vottað um rétta dagsetningu samninganna.
Samkvæmt framangreindu verði því að telja að endanleg útfærsla eigenda á því hvernig ætti að leggja fram aukið eigið fé til félaganna hafi verið sú að stilla eiginfjárframlögunum upp sem víkjandi lánum gagnvart öðrum kröfum. Skyti það verulega skökku við ef kröfur sóknaraðila næðu fram að ganga sem almennar kröfur fyrst svo háttar til.
Í öðru lagi beri að horfa til þess að eiginlegt skráð hlutafé félaganna hafi verið óvenju lágt, eða 600.000 krónur í tilviki Materia Invest ehf. og 500.000 krónur í tilviki Icon ehf., þegar horft sé til þess hvað fjárfestingar félaganna í hlutabréfum FL Group hf. og lántökur af því tilefni hafi verið gríðarlega háar. Sóknaraðilum megi því vera ljóst, sem hluthöfum og stjórnendum félaganna, að raunverulegt eiginfjárframlag þeirra í formi víkjandi láns geti af þeim sökum ekki flokkast undir 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í þriðja lagi beri að horfa til þess að ástæða þess að sóknaraðilar lögðu fram aukið eigið fé í félögunum hafi verið sú að mikið skattalegt hagræði hafi falist í því að skilgreina eiginfjárframlögin sem víkjandi lán í stað hlutafjár.
Öll umrædd víkjandi lán hafi borið vexti, sbr. 3 gr. lánasamninganna. Samkvæmt 1. tölulið 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sé vaxtakostnaður frádráttarbær frá tekjum. Vaxtakostnaður lækki þannig tekjuskattsskuldbindingu skattaðila. Sama eigi hins vegar ekki við um arðgreiðslur úr einkahlutafélögum. Eigendur félaganna hafi því valið þá leið sem myndi gera þeim kleift að ná fjármagni úr félögunum án skattlagningar með vaxtagreiðslum í stað arðgreiðslna. Slíkt form skattasniðgöngu hafi verið skilgreint sem þunn eiginfjármögnun.
Í því ljósi verði að telja að sú ráðstöfun að færa eiginfjárframlagið í búning víkjandi láns með þeim hætti sem gert var sé verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í slíkum tilvikum og ekki sé ástæða til að ætla að til þeirra lánasamninga hefði ekki komið milli óskyldra aðila.
Með hliðsjón af öllu framansögðu telur varnaraðili að hafna beri kröfum sóknaraðila og skipa kröfum þeirra í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991. Gífurlegt ósamræmi sé til staðar í málatilbúnaði sóknaraðila og séu yfirlýsingar þeirra um að umrædd lán hafi ekki verið víkjandi með öllu órökstuddar og ósannaðar. Fullyrðingar sóknaraðila séu í engu samræmi við gögn málsins og verða þeir að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnur um að hafa ekki lánað þrotamanni mál sem víki fyrir öllum öðrum kröfum.
Varnaraðili vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Þá sé byggt á ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu krefjast sóknaraðilar þess, hver um sig, að nánar tilteknar kröfur þeirra njóti rétthæðar sem almennar kröfur, samkvæmt 113. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kröfurnar byggjast allar á lánasamningum sem gerðir voru 5. október og 5. desember 2005 af sóknaraðilum, eða þeim er þeir leiða rétt sinn frá, við félögin Materia Invest ehf. og Icon ehf., en félögin sameinuðust á árinu 2007 undir nafni Materia Invest ehf. Samningarnir eru allir sambærilegir að formi og efni og er þeim ítarlega lýst hér framar í málsatvikalýsingu. Kröfunum var öllum lýst í bú varnaraðila á grundvelli lánasamninganna. Sóknaraðilar hafa lækkað kröfur sínar frá því sem í kröfulýsingum greindi eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.
Málatilbúnaður allra sóknaraðila er eins í öllum meginatriðum. Þeir byggja á því að löglegir og fullgildir lánasamningar hafi verið undirritaðir dagana 5. október og 5. desember 2005. Þeir hafi sem lánveitendur greitt þá fjármuni, sem samningarnir kváðu á um, til skuldara, þ.e. varnaraðila. Hann hafi ekki efnt að fullu þær fjárskuldbindingar sem hvíldu á félaginu á grundvelli lánasamninganna og sé hafið yfir vafa að sóknaraðilar eigi kröfu á hendur varnaraðila. Þeim kröfum hafi verið fylgt eftir á hendur varnaraðila eins og ákvæði laganna mæli fyrir um. Byggja sóknaraðilar á því að um almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 sé ræða. Telja verður óumdeilt að sóknaraðilar eigi kröfur á hendur varnaraðila á grundvelli lánasamninganna en ágreiningur er um hvaða stöðu í réttindaröð kröfur þeirra skuli njóta við gjaldþrotaskipti varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að samkvæmt orðalagi samninganna sé um víkjandi lán hluthafa til þrotamanns að ræða og þar af leiðandi séu kröfur sóknaraðila eftirstæðar kröfur sem skipa skuli í kröfuröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar hafna alfarið þessum sjónarmiðum varnaraðila og benda á að lán þeirra til varnaraðila hafi verið venjubundin lán. Engu máli geti skipt í þessu sambandi hvernig skuldarinn, Materia Invest ehf., hafi tilgreint kröfur sóknaraðila í eigin bókum eða einstökum excel-skjölum. Slík tilgreining skilgreini ekki grundvöll kröfuréttindanna eða um hvers konar löggerninga hafi verið að ræða. Þá byggja sóknaraðilar á því að hugtakið „subordinate“ í lánasamningum aðila hafi engin áhrif á réttarsamband aðila. Hugtakið komi aðeins fyrir á einum stað í umræddum lánasamningum, þ.e. í 2. mgr. 5. gr. þeirra. Ákvæði 5. gr. samningsins fjalli eingöngu um fyrirframgreiðslu lánsins. Hugtakið „subordinate“ sé ekki sett fram í neinu samhengi við rétthæð lánsins gagnvart öðrum skuldbindingum lántaka og eigi sér ekki stoð í öðrum ákvæðum lánasamningsins. Aldrei hafi staðið til að lánin ættu að vera víkjandi og um mistök hafi því verið að ræða við gerð samninganna. Þá hafa sóknaraðilar einnig byggt á því að verði talið að lánin séu víkjandi í skilningi 4. töluliðar 114 gr. laga nr. 21/1991 beri að víkja umræddum ákvæðum lánasamninganna til hliðar á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Ljóst er að úrlausn málsins veltur m.a. á túlkun á ákvæðum áðurnefndra samninga. Byggir varnaraðili á því, eins og áður sagði, að samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins sé lánið víkjandi. Sóknaraðilar hafa lagt fram íslenskar þýðingar á samningunum, sem ekki stafa frá löggiltum skjalaþýðanda, þar sem hugtakið „subordinate loan“ er þýtt sem „undirhluti láns“ en ekki víkjandi lán. Ekki þykir unnt að líta til þessara þýðinga við úrlausn málsins. Í íslenskri þýðingu samninganna, sem varnaraðili hefur lagt fram og unnin er af löggiltum skjalaþýðanda og verður því hér lögð til grundvallar, er 2. mgr. 5. gr. svohljóðandi: „Lántaki skal leitast við að endurgreiða þetta víkjandi lán eins fljótt og auðið er, með hliðsjón af árangri og fjárhagslegri stöðu lántaka á hverjum tíma, nema báðir aðilar semji um annað.“ Í 4. gr. samninganna er kveðið á um endurgreiðslu lánsins. Þar segir að endurgreiðsla þess skuli fara eftir ákvæðum 5. gr., sem fjallar um fyrirframgreiðslu lánsins, og 6. gr. samninganna, sem fjallar um greiðsluskilmála. Verður því að telja ljóst að 5. gr. hafi verið ætlað að taka bæði til fyrirframgreiðslu á láninu og endurgreiðslu þess en ekki einungis fyrirframgreiðslu þess, eins og sóknaraðilar halda fram. Í 5. gr. er kveðið á um að lánið sé víkjandi og því verður að leggja til grundvallar að um endurgreiðslu þess færi í samræmi við það.
Í málinu liggja fyrir gögn úr, að því ætla verður, rafrænu bókhaldi Materia Invest ehf. fyrir árin 2005-2010, þ.á m. excel skjal með yfirliti yfir hreyfingar ársins 2005. Sóknaraðilar telja óljóst hver hafi samið skjalið eða af hvaða tilefni og það sé af þeim sökum þýðingarlaust. Engin frekari bókhaldsgögn virðast hafa fundist í hinu gjaldþrota félagi. Sóknaraðilar, sem voru eigendur og fyrirsvarsmenn Materia Invest ehf. og Icon ehf., hafa engin gögn lagt fram sem varpað geta ljósi á meðferð lánanna í bókhaldi félaganna. Dómurinn telur ljóst að líta verði til þeirra gagna, sem þó nýtur við úr bókhaldi varnaraðila, við úrlausn málsins.
Sóknaraðilar hafa bent á máli sínu til stuðnings að strax á árinu 2006 hafi bókhaldsliður í bókhaldi Materia Invest ehf. sem áður hafi heitið „Skuldir víkjandi lán“ og lánin voru færð undir, verið breytt í „skuldir við hluthafa“. Því verði að telja að forsvarsmenn félagsins hafi áttað sig á mistökum við skráningu umræddra krafna á árinu 2006 og leiðrétt heitið á þeim bókhaldslykli sem lánin hafi verið skráð á. Þá benda þeir á að umrædd nafngift á bókhaldslykli eigi bara við um lánveitingar til Materia Invest ehf. þar sem sambærileg gögn séu ekki til varðandi Icon ehf.
Dómurinn telur að ekki verði fram hjá því litið að í textafærslu í bókhaldsgögnum varnaraðila eru lánveitingarnar útskýrðar sem víkjandi lán og upphæðir færðar undir bókhaldslykilinn „Skuldir víkjandi lán“. Fram kom í vitnisburði Ólafs Más Ólafssonar, endurskoðanda hjá KPMG, en það fyrirtæki sá um bókhald félaganna sem um ræðir, að fyrrverandi bókari hjá fyrirtækinu hafi skráð þessar færslur. Hann hafi líklega bókað þetta eftir skjölum og mögulega tekið textann um víkjandi lán úr 2. mgr. 5. gr. samninganna en hafi engin fyrirmæli fengið um slíkt. Umræddur bókari gaf ekki skýrslu fyrir dóminum. Ekkert liggur því nánar fyrir um tildrög skráningar lánsins í bókhaldi félagsins annað en að um víkjandi lán hafi verið að ræða sem skráð hafi verið sem slíkt. Þykir engu breyta þótt lánin hafi síðar verið færð á bókhaldslykil sem skuldir við hluthafa enda eru atvik að því óupplýst.
Þá er í skýringum með millifærslum sóknaraðila vegna greiðslna til varnaraðila 16. nóvember og 5. október 2005 vísað til þess að greiðslurnar séu „Share Issue In Materia Invest ehf.“ annars vegar og hins vegar „Share Offering in Icon ehf.“. Strikað er yfir framangreindar skýringar með millifærslunum að hluta og handskrifað „Lán“. Engar haldbærar skýringar eru fram komnar í málinu á þessum yfirstrikunum, hvorki af hverju þær voru gerðar né af hverjum eða hvenær. Er því ekki hægt að líta svo á að skjölin, svo breytt, færi sönnur á að um venjuleg lán hafi verið að ræða. Sóknaraðilar verða að bera hallann af sönnunarskorti í þessum efnum, hvort tveggja af misvísandi færslum í þeim bókhaldsgögnum sem liggja fyrir og áður er getið og af því að meðferð skjala hafi ekki verið vandaðri en raun ber vitni. Þá þykir ekki ráða úrslitum að í ársreikningum félagsins fyrir árin 2005 til 2010 sé ekki getið um að félagið hafi tekið víkjandi lán í rekstri sínum.
Í máli þessu liggur fyrir að sóknaraðilar veittu lán til varnaraðila og félagsins Icon ehf., sem síðar varð hluti varnaraðila, með títtnefndum samningum 5. október og 5. desember 2005. Í 2. mgr. 5. gr. þeirra allra segir að um víkjandi lán sé að ræða. Sóknaraðilar halda því fram, eins og áður sagði, að hugtakið víkjandi lán hafi verið fært inn í samninginn fyrir mistök. Yfirlýsingar þeirra fyrirsvarsmanna sóknaraðila sem komu fyrir dóminn um að aldrei hafi staðið til að lánin yrðu víkjandi þykja ekki fá stoð í öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu. Þá hafa sóknaraðilar, máli sínu til stuðnings, leitt fyrir dóminn vitni sem kom að gerð samninganna auk endurskoðanda félaganna sem báru á sömu leið. Þykir við mat á framburði þeirra óhjákvæmilegt að líta til 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Að öllu framansögðu er það því niðurstaða dómsins að samkvæmt skýru orðalagi samninganna hafi verið um víkjandi lán að ræða í öllum tilvikum og að sóknaraðilum hafi ekki lánast sönnun um annað, hvorki hvað varðar atvik við samningsgerðina eða gerð samninganna sjálfra, né framkvæmd samninganna eða meðferð þeirra í bókhaldi félaganna. Þá þykja engin efni vera til að fallast á málsástæður sóknaraðila er lúta að því að ákvæðum samninganna beri að víkja til hliðar á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 og er þeim því hafnað.
Að fenginni þessari niðurstöðu kemur til skoðunar hvort skilyrði 4. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um kröfur sóknaraðila þannig að þær falli aftast í skuldaröð eftir því ákvæði. Skýrt kemur fram í öllum lánasamningunum að um víkjandi lán sé að ræða. Í samningunum er ekki tekið fram að kröfur samkvæmt þeim skuli einungis vera víkjandi gagnvart vissum kröfum og öðrum ekki. Verður því að líta svo á að samið hafi verið svo um að kröfur vegna lánanna væru víkjandi gagnvart öllum kröfum. Ákvæði 114. gr. laganna kveður skýrt á um að kröfur sem samið hefur verið um með þeim hætti skuli koma að baki öllum öðrum kröfum samkvæmt 109.-113. gr. sömu laga í þeirri röð sem ákvæðið tilgreinir. Verður því fallist á þá kröfu varnaraðila að kröfur sóknaraðila séu eftirstæðar kröfur sem skipa skuli í réttindaröð eftir 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991.
Eftir þessum úrslitum málsins verður sóknaraðilum, með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, óskipt gert að greiða varnaraðilum málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við málinu 2. maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Metúsalems ehf., um að viðurkennt verði að krafa hans á hendur varnaraðila, þrotabúi Materia Invest ehf., að fjárhæð 1.185.220.837 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánasamnings frá 5. október 2005 og er nr. 9 á kröfuskrá, og krafa hans að fjárhæð 672.870.658 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánasamnings frá 5. desember 2005 og er nr. 8 á kröfuskrá, njóti við gjaldþrotaskipti varnaraðila rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en staðfest að kröfurnar njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. sömu laga.
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., um að viðurkennt verði að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.185.220.837 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánasamnings frá 5. október 2005 og er nr. 11 á kröfuskrá, og krafa hans að fjárhæð 672.870.658 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánasamnings frá 5. desember 2005 og er nr. 10 á kröfuskrá, njóti við gjaldþrotaskipti varnaraðila rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en staðfest að kröfurnar njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. sömu laga.
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kevins Geralds Stanford, um að viðurkennt verði að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.185.220.837 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánasamnings frá 5. október 2005 og er nr. 13 á kröfuskrá, og krafa hans að fjárhæð 672.870.658 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli lánasamnings frá 5. desember 2005 og er nr. 12 á kröfuskrá, njóti við gjaldþrotaskipti varnaraðila rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en staðfest að kröfurnar njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. sömu laga.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila óskipt 700.000 krónur í málskostnað.