Hæstiréttur íslands

Mál nr. 476/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Aðstoðarmaður héraðsdómara
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Föstudaginn 10

 

Föstudaginn 10. desember 2004.

Nr. 476/2004.

Kaupfélag Árnesinga svf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Kópavogs

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Aðstoðarmenn héraðsdómara. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Úrskurður héraðsdóms í máli KÁ svf. gegn SK um málskostnað var ómerktur þar sem málið hafði verið tekið fyrir í þinghaldi sem háð var af aðstoðarmanni héraðsdómara og tekið til úrskurðar af honum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. nóvember 2004, þar sem varnaraðila var gert að greiða sóknaraðila 70.000 krónur í málskostnað í máli, sem fellt var niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 703.101 krónu í málskostnað samkvæmt framlögðum reikningi.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila þar sem hann krafðist þess aðallega að veðsetning tiltekinnar fasteignar yrði dæmd ógild. Til vara krafðist hann að fyrrnefndri veðsetningu yrði rift samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt framlögðum endurritum úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness var mál þetta sjö sinnum sagt vera tekið fyrir í þinghaldi er háð væri af aðstoðarmanni héraðsdómara, síðast 10. nóvember 2004. Þá var bókað: „Aðilar eru sammála um að fella málið niður um allt annað en málskostnað, en aðilar eru sammála um að leggja ákvörðun um málskostnað í úrskurð dómara og verður úrskurður kveðinn upp 11. 11. 2004. Málið er tekið til úrskurðar um málskostnaðarkröfuna.“ Í þinghaldi þann dag var hinn kærði úrskurður kveðinn upp af héraðsdómara sem ekki hafði áður komið að málinu.

Í 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla segir: „Til aðstoðar dómurum má ráða til héraðsdómstóla lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2. - 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. Dómstjóri annast slíka ráðningu og gilda um hana almennar reglur um starfsmenn ríkisins að öðru leyti en því að hún skal vera tímabundin og ekki til lengri tíma en fimm ára við sama dómstól.“ Um starfsvið aðstoðarmanna eru ekki nánari ákvæði í lögunum, en svo sem starfsheitið bendir til er ætlunin að þeir séu héraðsdómurum til aðstoðar og geti þannig innt af hendi ýmis verk við undirbúning og framkvæmd þinghalda og meðferð einstakra mála. Samkvæmt athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum um dómstóla, var ætlunin að dómstólaráð og héraðsdómstólarnir hefðu innan þess ramma, sem ákvæðið setur, svigrúm til að móta verksvið aðstoðarmannanna. Í athugasemdunum var ráð fyrir því gert að störf aðstoðarmanna kæmu í stað fyrrum starfa dómarafulltrúa. Sá meginmunur var þó gerður að aðstoðarmönnum var ekki heimilt að gegna dómstörfum, svo sem fulltrúarnir gátu gert í takmörkuðum mæli. Til þessara breytinga lágu skýrar ástæður, sem tíundaðar voru í frumvarpi til laganna. Sérstök athygli var á því vakin að dómstólaráð gæti sett almennar reglur til leiðbeiningar um starfsvið aðstoðarmanna í skjóli 4. töluliðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 15/1998.

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 91/1991 segir að dómari stýri þinghaldi og gæti þess að það sé háð eftir réttum reglum. Af þessu og áðurgreindu lagaákvæði um aðstoðarmenn dómara leiðir að þing verður ekki háð nema í nafni og á ábyrgð þess dómara sem dómstjóri hefur falið að fara með mál, sem þar skal tekið fyrir, en aðstoðarmaður getur séð um framkvæmd þess. Jafnframt leiðir staða aðstoðarmanns dómara til þess að verði ágreiningur í þinghaldi ber aðstoðarmanni að kalla til þann dómara sem ábyrgð ber á því til að hlýða á röksemdir málflytjenda og gera að því búnu út um ágreininginn, sbr. XVI. kafla laga nr. 91/1991. Þetta breytir því ekki að aðstoðarmaðurinn getur unnið að drögum að úrskurði eða dómi.

Sú aðferð sem viðhöfð var í Héraðsdómi Reykjaness við meðferð máls þessa hefur því ekki stoð í lögum samkvæmt framansögðu og ber að ómerkja hinn kærða úrskurð og meðferð málsins í héraði allt frá þingfestingu þess.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur, svo og meðferð málsins fyrir héraðsdómi frá þingfestingu þess 26. maí 2004, og er því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.