Hæstiréttur íslands
Mál nr. 606/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fæddur 18. nóvember 1987, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október 2017 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að hann hafi nú til rannsóknar innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Rannsókn lögreglu hafi hafist er henni bárust upplýsingar frá erlendum tollyfirvöldum um að grunur léki á að í Audi A6 bifreiðinni [...] væru falin fíkniefni, en bifreiðin hafi verið um borð í ferjunni Norrænu á leið hingað til lands. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið A. Ferjan hafi komið hingað til lands frá Danmörku að morgni fimmtudagsins 24. ágúst sl. Við skoðun á bifreiðinni hafi komið í ljós froðukenndur vökvi sem virtist hafa lekið úr undirvagni bifreiðarinnar. Við frekari skoðun og frumrannsókn lögreglu hafi komið í ljós að um væri að ræða amfetamínvökva. Með heimild Héraðsdóms Reykjaness hafi lögregla fengið heimild til að hlusta síma A og koma fyrir eftirfararbúnaði undir bifreiðinni. Þá hafi lögregla fylgt bifreiðinni eftir þar sem henni hafi verið ekið áleiðis til Reykjavíkur. A hafi komið til Reykjavíkur seint sama kvöld og lögregla fylgst með ferðum hans.
Er A hafi komið til Reykjavíkur hafi hann lagt bifreiðinni við Hótel Hilton við Suðurlandsbraut í Reykjavík þar sem hann hafi beðið þar til Lexus bifreið, sem í hafi verið X, B og C, hafi verið ekið að honum og úr henni komið C og sest inn í Audi bifreiðina. Bifreiðunum hafi síðan báðum verið ekið að gistiheimili við [...] í Reykjavík þar sem fjórmenningarnir hafi farið inn. Á leiðinni að gistiheimilinu hafi mátt heyra A og B ræða saman m.a. um það hvort leitað hafi verið í Audi bifreiðinni á tollsvæðinu á Seyðisfirði. Skömmu síðar hafi mennirnir sést fara út og skoða Audi bifreiðina. Að morgni 25. ágúst sl. hafi síðan B og C keyrt Audi bifreiðina um miðborgina og að lokum inn í bílskúr við [...] í Reykjavík þar sem B og C hafi verið handteknir skömmu síðar. Um svipað leiti hafi X komið keyrandi á Lexus bifreiðinni og lagt henni utan við [...] til móts við bílskúrinn en þegar hann hafi orðið var við lögreglu hafi hann tekið til fótanna og hlaupið suður [...] þar sem hann hafi verið handtekinn stuttu síðar. Í framhaldi hafi A verið handtekinn á gistiheimilinu við [...].
Þann 25. ágúst sl. hafi kærðu öllum, með úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Gæsluvarðhaldið hafi svo verið framlengt 8. september til dagsins í dag.
Við rannsókn á Audi bifreiðinni hafi komið í ljós að við haldlagningu í framhöggvara bifreiðarinnar hafi verið 1.328 millilítrar af amfetamíni en við mælingar lögreglu hafi komið í ljós að höggvarinn rúmi 5.240 millilítra. Þá hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að B og C hafi komið hingað til lands, með flugi frá Póllandi þar sem þeir séu búsettir, að kvöldi 24. ágúst sl., þ.e. sama dag og A hafi komið til landsins með ferjunni. Við yfirferð á hlustunum hafi einnig komið fram að A hafi átt í símasamskiptum við nokkra aðila meðan hann keyrði frá Seyðisfirði til Reykjavíkur en þeirra á meðal hafi verið C. Það sé grunur lögreglu að X, sem sé búsettur hér á landi, hafi átt að taka á móti mönnunum og vera þeim innan handar með aðstöðu, en við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að X sé sá sem pantaði herbergi fyrir B, C og A á gistiheimilinu. Hann hafi samkvæmt eigin framburði haft afnot af bílskúrnum í [...] og þá hafi fundist talstöðvar bæði í Audi bifreiðinni og Lexus bifreið X sem talið sé að notaðar hafi verið í samskiptum fjórmenningarnir eftir að þeir hittust við Hótel Hilton að kvöldi 24. ágúst sl.
Rannsókn lögreglu miði vel áfram, en um sé að ræða yfirgripsmikla rannsókn. Kærði neiti sök. Hann segi að hann þekki B en ekki C. Hann hafi leyft vinum sínum að fara í bílskúrinn. Hann hafi reddað þeim aðstöðu til að gera við bílinn og það sé eina aðkoma hans að málinu. Hann hafi hitt B deginum áður og þá hafi hann beðið hann um að redda bílskúr. Hann hafi komið á Lexus bifreið fyrir utan Hilton hótelið, en þar hafi maður verið á Audi bifreið og sá aðili ekið á eftir honum á gistiheimilið. Kærði hafi sagt að hann hafi reddað hóteli fyrir B að beiðni sonar hans sem hann kannist eitthvað við.
Kærði sé undir sterkum grun um aðild að broti gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Aðild kærða sé mikil og sé talin tengjast skipulagningu og flutningi fíkniefnanna hingað til lands. Þá sé einnig lagt til grundvallar kröfu um gæsluvarðhald að um mjög mikið magn af hættulegum fíkniefnum er að ræða. Hið ætlaða brot kærða þyki mjög alvarlegt og þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar. Telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði gangi laus áður en máli ljúki með dómi, þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 504/2017, 790/2015, 763/2015, 152/2013, 149/2013, 269/2010, þar sem sakborningi hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms, þegar legið hafi fyrir sterkur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Telur lögreglustjóri því skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem liggja fyrir er það mat lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af sterkum fíkniefnum hingað til lands. Ljóst sé að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Fallist er á með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna. Um er að ræða 1.328 ml af vökva með 49% amfetamínbasa. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins væri hægt að framleiða tæplega 9,9 kg af amfetamíni úr efninu miðað við 5,8% styrkleika. Rannsókn málsins miðar vel áfram. Ekki er fallist á með kærða að aðild hans að málinu sé minni háttar og að því komi ekki til álita að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til alls framangreinds og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. október 2017 kl. 16:00.