Hæstiréttur íslands
Mál nr. 575/2015
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Gjöf
- Endurgreiðslukrafa
- Aðild
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. september 2015. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Á hluthafafundi í stefnda 19. febrúar 2016 var félaginu breytt úr hlutafélagi í einkahlutafélag.
Að því gættu að kaup á bandaríkjadölum og evrum vegna fyrirhugaðra verðbréfakaupa í þágu einkalífeyrissparnaðar áfrýjanda fóru fram í áföngum dagana 26. og 28. ágúst 2008 er málsatvikum nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi.
I
Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að aðild málsins sé röng bæði til sóknar og varnar. Hvað aðild sína varði þá hagi svo til að greiðsla sú sem deilt sé um hafi verið ráðstafað inn á reikning lífeyrissparnaðar hans, þá í vörslu Landsbanka Íslands hf., nú Kvika banki hf., og hafi áfrýjandi ekkert forræði haft á þeirri ráðstöfun og þeim reikningi, þar sem lífeyrissjóðssparnaður hans hafi í raun verið sjálfstæður aðili með sérstaka kennitölu. Þá geti áfrýjandi fyrst nýtt umrædd verðmæti þegar hann nái sextíu ára aldri. Af þessu leiði að með réttu beri að beina kröfum að vörsluaðila lífeyrissparnaðarins en sýkna hann á grundvelli aðildarskorts.
Hvað sem líður vörslu á lífeyrissparnaði áfrýjanda þá er til þess að líta að hann er einn rétthafi þeirra verðmæta sem um er að ræða, svo sem samningur hans um viðbótarlífeyrissparnað og viðauki við þann samning 19. ágúst 2008, bera með sér. Í 2. gr. reglna Landsbanka Íslands hf. um lífeyrissparnað, sem áritaðar voru af aðilum sama dag, kemur fram að umrædd réttindi séu séreign áfrýjanda. Þó svo vörslu umræddra verðmæta hafi verið hagað með sérstökum hætti og þrátt fyrir skilyrði um að þau séu eigandanum ekki til frjálsrar ráðstöfunar fyrr en náð sé sextíu ára aldri er það vafalaust að áfrýjandi er einn eigandi umræddra verðmæta og að umþrætt greiðsla, sem fram fór 2. október 2008, var innt af hendi í hans þágu. Aðild áfrýjanda á sér þannig fullnægjandi stoð í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá ber jafnframt að gæta að því að riftun ráðstafana samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti beinist að þeim aðila sem haft hefur hag af viðkomandi ráðstöfun. Í þessu tilviki er það engum vafa undirorpið að þar er áfrýjanda einum til að dreifa og verður sýknukrafa hans því ekki byggð á aðildarskorti hans.
Áfrýjandi hafði fyrst uppi við aðalmeðferð málsins í héraði þá málsástæðu, að af málflutningsyfirlýsingu lögmanns stefnda fyrir héraðsdómi mætti ráða, að krafa um riftun og endurgreiðslu hafi á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 flust til Nýja Landsbankans hf. Ráðstöfun sú sem krafist er riftunar á átti sér stað 2. október 2008 eins og áður greinir og var innt af hálfu stefnda í þágu áfrýjanda. Gegn andmælum stefnda hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að krafan hafi verið meðal þeirra réttinda, samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu viðskiptavina Landsbanka Íslands hf., sem Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtók þann 9. október 2008, sbr. 5. töluliður ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sama dag. Með vísan til þessa er hafnað kröfu áfrýjanda um sýknu á grundvelli aðildarskorts stefnda.
II
Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega rakinn aðdragandi þeirrar ráðstöfunar 2. október 2008 sem stefndi krefst að rift verði á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Fallist er á það með stefnda að uppfyllt séu skilyrði ákvæðisins um að greiðslan hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, hún hafi verið til hagsbóta fyrir áfrýjanda og falið í sér skerðingu á eigum stefnda.
Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því að greiðslan sem innt var af hendi 2. október 2008 hafi ekki falið í sér gjöf í skilningi áðurgreinds ákvæðis laga nr. 21/1991, heldur hafi tilgangur hennar verið viðskiptalegs eðlis, það er að bæta áfrýjanda tjón sem hann hefði orðið fyrir vegna mistaka starfsmanna stefnda í tengslum við kaup á skuldabréfum í tilgreindu félagi. Stefndi byggir á hinn bóginn á því að greiðslan hafi farið fram í gjafatilgangi eða örlætisskyni. Sú staðhæfing áfrýjanda að ákveðið hafi verið seinni hluta ágústmánaðar 2008 að fjárfesta fyrir 1.000.000 sterlingspund í svokölluðu millilagsláni, sem breska verslunarkeðjan Iceland Food gaf út, á sér stoð í fyrirliggjandi gögnum og framburðum þáverandi starfsmanna stefnda. Fyrir dómi báru starfsmennirnir að fyrir mistök hefðu sterlingspund ekki verið keypt samhliða því að verðbréf í félaginu Iceland Food voru pöntuð. Greiðslan 2. október að fjárhæð 35.140.000 krónur hafi því átt að bæta áfrýjanda þann neikvæða gengismun sem orðið hafði frá því ákveðið var að stofna til kaupanna til greiðsludags skaðabótanna. Um hefðbundið verklag hafi verið að ræða undir þeim kringumstæðum þegar mistök af þessu tagi hafi komið upp.
Um þetta er til þess að líta að slík framkvæmd og verklag virðist ekki hafa stuðst við neinar formlega settar eða skráðar reglur. Þá má ráða af framburði regluvarðar og forstöðumanns á eignastýringasviði stefnda fyrir dómi að umrædd kaup á gjaldeyri helguðust alfarið af því að af viðskiptum með millilagslánið yrði. Sá skilningur á sér jafnframt stoð í þeirri fjárfestingarstefnu sem fram kemur í viðauka um eignastýringu frá 19. ágúst 2008 þar sem ekki er gert ráð fyrir því að fjárfest sé sérstaklega í gjaldeyri. Af gögnum málsins verður ekki nákvæmlega ráðið hvenær pöntun vegna umræddra viðskipta kom fram og hefur ýmist verið vísað til 21. eða 22. ágúst 2008 í því sambandi. Hins vegar er það óumdeilt að aðilum var ljóst að ferill vinnslu í tengslum við kaup á skuldabréfum í Iceland Food myndi taka nokkurn tíma. Í skriflegri aðilaskýrslu sinni tiltók áfrýjandi að slíkt tæki að jafnaði um 2-3 mánuði og í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að frágangur kaupa á slíkum skuldabréfum tæki að jafnaði 8 til 12 vikur. Að þessu gættu fæst ekki séð hvaða ástæður gátu búið því að baki að greiða skaðabætur vegna neikvæðs gengismunar 2. október 2008. Ekkert hefur komið fram um að á þeim tíma hafi legið fyrir hvenær af kaupunum yrði og hvenær stefnda bæri, fyrir hönd áfrýjanda, að greiða tilgreinda fjárhæð í sterlingspundum. Hvað sem líður umdeildri bótaskyldu stefnda af þeim sökum að hafa ekki keypt sterlingspund þá þegar viðskiptin voru afráðin í ágúst og mögulega ábyrgð á gengismun, þá lá ekkert staðreynt tjón fyrir af þeim sökum 2. október 2008. Slíkt mögulegt tjón gat fyrst legið fyrir þegar af kaupunum varð og greiða bar kaupverðið en ágreiningslaust er að ekkert varð af þeim. Eðli málsins samkvæmt var ekki ljóst 2. október 2008 hvort gengismunur yrði áfram neikvæður á þeim degi þegar til greiðslu kæmi ellegar hið öndverða yrði ofaná og gengi krónunnar rétti úr kútnum gagnvart sterlingspundi.
Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á það með stefnda að umrædd greiðsla 2. október 2008 hafi verið umfram skyldu og hefur áfrýjanda ekki tekist, gegn andmælum stefnda, að sýna fram á að viðskiptalegar forsendur hafi búið að baki henni. Greiðslan fól því í sér örlætisgerning sem verður að kröfu stefnda rift á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fjárkröfu stefnda að fjárhæð 35.140.000 krónur auk dráttarvaxta verður staðfest með vísan til forsendna og að því gættu að sú inneign áfrýjanda í krónum sem nýta átti til kaupa á umræddu millilagsláni var allan tímann varðveitt á innlánsreikningi hjá stefnda með þeirri ávöxtun sem um slíka reikninga gilti. Þá verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að ekki séu skilyrði til þess að fjárkrafan á hendur áfrýjanda verði lækkuð með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms skal vera óröskuð. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sigurjón Þorvaldur Árnason, greiði stefnda, LBI ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2015.
Mál þetta var höfðað 27. apríl 2012 og dómtekið 20. maí 2015.
Stefnandi er LBI hf., Austurstræti 16 í Reykjavík, en stefndi er Sigurjón Þorvaldur Árnason, Granaskjóli 28 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að staðfest verði riftun dagsett 30. ágúst 2011 á ráðstöfun sem fólst í greiðslu Landsbanka Íslands hf. í séreignalífeyrissparnaðarsjóð í þágu stefnda 2. október 2008 samtals að fjárhæð 35.140.000 kr.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 35.140.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2011 til greiðsludags.Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Loks krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Málavextir
Stefndi var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. hinn 21. apríl 2003. Í ráðningarsamningi hans við bankann er fjallað um launakjör stefnda í nokkrum töluliðum. Í einum töluliðnum segir að bankinn skuli greiða sem næmi 20% af launum stefnda í lífeyrisiðgjöld á móti 4% mótframlagi stefnda. Skyldi lífeyrisiðgjaldið greitt í séreignarlífeyrissjóð samkvæmt heimildum laga og samkvæmt nánari ákvörðun stefnda. Um viðbótarlífeyrissparnaðinn skyldu gilda ákvæði kjarasamnings bankamanna hverju sinni. Í fjórða lið er að finna ákvæði um kauprétt stefnda í Landsbanka Íslands hf. og loks er í fimmta lið fjallað um rétt stefnda til árlegra bónusgreiðslna.
Hinn 24. janúar 2005 var gerður viðauki við ráðningasamninginn. Föstum launum hans var breytt með þessum viðauka, auk þess sem bankinn skyldi nú greiða sem næmi 30% af launum stefnda í lífeyrisiðgjöld á móti 4% framlagi stefnda.
Enn var gerður viðauki við ráðningarsamninginn, þar sem föst laun stefnda voru hækkuð frá og með 1. ágúst 2005 auk þess sem mótframlag bankans á móti iðgjaldi stefnda í lífeyrissjóð var hækkaði um 10 prósentustig. Þá var ákvæðum um bónusgreiðslur breytt og skyldu þær nú greiddar út 1. mars ár hvert vegna liðins starfsárs en 30% af bónusgreiðslu skyldi greidd inn í séreignasjóð í eigu stefnda.
Hinn 1. desember 2006 var enn gerður viðauki við ráðningarsamning stefnda og sneri sá viðauki að breytingum á föstum mánaðarlegum greiðslum og bifreiðahlunnindum.
Fyrir liggur að Landsbankinn hf. rak lífeyrissparnaðarstarfsemi sína undir lífeyrissjóðsnúmerum 931 (lífeyrisbók) og 932 (fjárvörslureikningur). Hið síðara kom til eftir að bankinn hafði tekið yfir starfsemi dótturfélags síns, Landsbréfa hf.
Hinn 17. apríl 2008 samþykkti bankastjórn stefnanda tillögu rekstrarhóps lífeyrissparnaðar að bjóða upp á samninga um lífeyrissparnað í sérgreindum verðbréfasöfnum. Í þessu fólst að viðskiptavinir bankans, sem gerðu eða höfðu gert samning um vörslur viðbótalífeyrissparnaðar síns við hann, gætu, auk lífeyrisbóka í vörslum bankans, óskað eftir því að fjárfest væri fyrir þá í sérgreindum verðbréfasöfnum, eftir fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu. Féll þessi lífeyrissjóðsstarfsemi undir lífeyrissjóðsnúmerið 932. Fyrir liggur að stefndi hafði undirritað samning um ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar á lífeyrisbók.
Stefndi undirritaði þrjú skjöl 19. ágúst 2008. Í fyrsta lagi reglur um lífeyrissparnað Landsbankans hf. sem m.a. hafa að geyma reglur um greiðslu iðgjalds, ávöxtun þess og útborgun. Kemur þar fram að rétthafi skuli gera samning um lífeyrissparnað við vörsluaðila og sé iðgjald rétthafa séreign hans. Þá segir að vörsluaðili ávaxti iðgjald rétthafa í samræmi við ákvæði samnings aðila um lífeyrissparnað eða viðauka við samninginn. Þá eru talin upp skilyrði þess að rétthafi geti hafið úttekt á lífeyrissparnaði sem er í fyrsta lagi þegar hann yrði 60 ára. Í öðru lagi undirritaði stefndi tvo samninga um viðbótarlífeyrissparnað. Annar ber yfirskriftina „samningur um viðbótarlífeyrissparnað“ og snýst um ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar á fjárvörslureikning nr. 111-26-502960, númer 932. Kemur þar fram sú yfirlýsing að stefndi óski eftir því að inneign hans samkvæmt samningnum yrði ávöxtuð í samræmi við sérstakan viðauka við samninginn. Í þriðja lagi undirritaði stefndi svo tilvitnaðan viðauka sem ber yfirskriftina „viðauki við eignastýringu við samning um viðbótarlífeyrissparnað skv. lögum nr. 129/1997, um skiljutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóðs“ og snerist um ávöxtun í erlendum verðbréfum eingöngu. Samkvæmt fjárfestingastefnu þess samnings skyldi fjárfest í erlendum skuldabréfum eða lánaskjölum að lágmarki, viðmið væri 90% og hámark 100%.
Í viðaukanum er að finna yfirlýsingu um stöðu rétthafa sem fagfjárfestis en sem slíkur falli hann utan við ákvæði laga og reglna er snúi að fjárfestavernd í viðskiptum með fjármálagerninga. Í kafla um forsendur fjárfestingastefnu er vísað til þess að rétthafi hafi sjálfur sett sér fjárfestingastefnu og feli Landsbankanum hf. að ávaxta eignir hans með fjárfestingum innan ramma hennar. Þá sé honum ljós sú áhætta sem kunni að felast í í fjárfestingum samkvæmt stefnunni og beri ábyrgð á sjálfur að sé við hæfi rétthafa og í samræmi við markmið hans með viðbótarlífeyrissparnaðinum. Landsbanki Íslands hf. beri ekki ábyrgð á árangri fjárfestinga samkvæmt samningnum. Þá er að finna sérstök fyrirmæli rétthafa vegna fjárfestingastefnunnar en þar segir að miðað sé við að fjárfestingar verði í samráði við hann þó þannig að laust fé og innborganir ávaxtist á innlánsreikningum.
Að þessu frágengnu voru stefnanda afhentar til vörslu og ávöxtunar 292.522.693 krónur. Var fjárhæðin færð þann 22. ágúst 2008 inn á reikning nr. 0111-26-57030, Fjárvörslureikning 3 hjá bankanum með kennitöluna 570299-9219, af reikningi hjá Verðbréfasviði Landsbankans.
Þann 20. ágúst 2008 sendi Stefán H. Stefánssyni, þá framkvæmdastjóri einkastýringar Landsbanka Íslands hf., Þórði Örlygssyni, regluverði stefnanda, tölvubréf. Þar upplýsti Stefán H. regluvörðinn um fyrirhuguð viðskipti sem sneru að einkalífeyrissparnaði stefnda. Í tölvubréfinu segir um þetta; „Í framhaldi af spjalli við Sigurjón, þá vildi ég fá staðfestingu hjá þér og upplýsa þig varðandi viðskipti sem við erum að undirbúa fyrir Einkalífeyrissparnað fyrir Sigurjón Þ. Árnason. Ætlunin er að fjárfesta nokkurn vegin í þeim hlutföllum sem fram koma í exel skjalinu í þremur skuldabréfaverkefnum: Gazprom, TAQA og Iceland. Heildarfjárhæðin verður nærri 280 mkr. Viðskiptin ganga þó hugsanlega ekki í gegn á einum degi.“ Þá kemur fram að umsjónarmaður safnsins sé Friðrik Nikulásson. Af öðrum gögnum málsins má ráða að Taqa vísar til vatnsveitunnar í Abu Dhabi en Iceland til bresku matvörukeðjunnar Iceland Food. Í viðhengi, sem fylgdi tölvubréfinu og vísað er til, stendur efst „Einkalífeyrissparnaður.“ Þar fyrir neðan er kennitala stefnda og upphæð í íslenskum krónum 282.076.532 krónur. Þá kemur fram gengi punda 153,8, evra 121,97 og dollara 82,86. Að lokum er eftirfarandi stillt upp:
Skuldabréf Mynt Upphæð ISK
Iceland GBP 1.000.000 153.769.500
Gasprom USD 750.000 62.145.000
TAQA EUR 500.000 60.985.000
Samtals: 276.899.500
mismunur 5.177.032
Í svari Þórðar snemma næsta dag kemur fram að hann geri ekki athugasemdir við þessi viðskipti en óski eftir afriti af samningnum. Þá óskar hann upplýsinga um það hver taki ákvörðun um einstakar fjárfestingar. Þá segir; „Ef hann er að taka einstakar ákvarðanir sjálfur þá verðum við að hafa einhvern feril um að leitað sé álits svo ekki komi upp deilur seinna við FME eða IE um að hagsmunaárekstrar séu til staðar.“
Af framlögðum reikningsyfirlitum má ráða að 26. ágúst 2008 voru af hálfu bankans keyptir tæplega 850.000 Bandaríkjadalir og 504.000 evrur og lagðar inn á gjaldeyrisreikninga sem féllu undir Fjárvörslureikning 3. Samkvæmt uppgjörsnótum dagsettum 27. ágúst 2008 voru þann sama dag keypt skuldabréf í Gazprom fyrir samtals 848.627,56 Bandaríkjadali og skuldabréf í TAQA Abu Dhabi National fyrir samtals 548.457,31 evrur.
Ferill vinnslu í tengslum við kaup á skuldabréfum var í Iceland Food lengri og flóknari en í tengslum við hin félögin en fyrsta fyrirspurn frá Friðriki Nikulássyni um það til starfsmanna Landsbankans í London er frá 22. ágúst 2008. Má sjá af tölvubréfasamskiptum á milli þessara aðila frá 26., 27. og 28. ágúst 2008 að ástæða vinnslutímans var sú að viðskiptin gerðust með kaupum á hlutdeild í fjármálagerningum útgefnum af bresku verslunarkeðjunni, svokölluðum millilagslánum (e. mezzanine loans) og fylgdi því nokkur skjalavinna. Í tengslum við kaupin óskuðu starfsmenn ytra eftir tilteknum upplýsingum sem m.a. lutu að viðskiptavininum en áður hafði Friðrik upplýst að um einkalífeyrissjóð væri að ræða. Kemur m.a. fram í tölvubréfi starfsmanns ytra að upplýsingar verði að liggja fyrir um lífeyrissjóðinn sem lánin verði framseld til, Iceland Foods þurfi að samþykkja fyrirhugað framsal lánanna, auk þess sem fyrir þurfi að liggja upplýsingar um það um hvaða lífeyrissjóð sé að ræða og tengsl við Landsbankann. Einnig þurfi að afla nauðsynlegra upplýsinga um kaupandann vegna reglna um aðgerðir gegn peningaþvætti og afhenda umsýslubankanum sem samþykkja þurfi upplýsingarnar áður en framsalið færi fram.
Samkvæmt gögnum málsins voru bresku pundin keypt 30. september 2008. Þennan sama dag ráðstafaði bankinn 156.380.000 krónum á áðurnefndan reikning lífeyrissparnaðar, Fjárvörslureikning 3, nr. 0111-26-57030, til kaupa á 825.834,39 breskum pundum. Þar sem gengi krónu hafði veikst mjög í september 2008 vantaði liðlega 174.000 bresk pund upp á þá fjárhæð sem greiða þurfti fyrir hlutdeild í millilagslánið til þess að ná fyrirhugaðri fjárhæð, þ.e. 1.000.000 punda.
Í tengslum við ráðstöfun þessa var útbúið skjal dagsett 30. september 2008 sem hljóðar svo: „Viðskiptavinur óskaði eftir að keypt yrðu 1.000.000 GBP og skuldabréf í Iceland Food debt þann 22. ágúst. Uppgjör viðskiptanna drógust á langinn í útibúi Landsbankans í London. Misskilningur var um það innanhús [sic] hvort kaupa ætti GBP um leið og ósk um viðskipti barst eða við uppgjör viðskipta á skuldabréfinu. En ljóst varð að það átti kaupa [sic] GBP um leið og fjárfestingin var ákveðin. Mismunur á gengi GBP þann 21. ágúst (154,22) og uppgjörsgengis þann 30. september (189,36) er 35,14. Greiðsla: Greiða á 1.000.000x35,14=35.140.000 kr. inn á 111-26-057030, kt. [...] og sendið staðfestingu um greiðslu á stefan@landsbanki.is.“ Undir skjalið ritar Friðrik Nikulásson, starfsmaður á eignastýringasviði, svo og Stefán H. Stefánsson, næsti yfirmaður, auk Halldórs J. Kristjánssonar, þáverandi bankastjóra Landsbankans hf. en undir nafnritun hans stendur „séð“.
Í kjölfarið eða 2. október 2008 voru samtals 35.140.000 krónur lagðar inn á fyrrnefndan reikning stefnda á Fjárvörslureikning 3 og næsta dag keypt 174.180 sterlingspund, sem lögð voru inn á gjaldeyrisreikning í sterlingspundum nr. 111-38-200428, en reikningar þessir voru einnig skráðir á Fjárvörslureikning 3.
Þann 6. október 2008 voru sett lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Lögin heimiluðu íslenskum stjórnvöldum að yfirtaka fjármálafyrirtæki, meðal annars banka í greiðsluerfiðleikum. Á grundvelli þessara laga óskaði stjórn Landsbanka Íslands hf. eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn og starfsemi bankans og var það gert með ákvörðun þess 7. október 2008 og bankanum skipuð sérstök skilanefnd. Stefndi sagði upp störfum sínum sem bankastjóri stefnanda þann 8. október 2008 og voru þá kaup á ofangreindu millilagsláni í Iceland Food ófrágengin.
Með lögum nr. 129/2008 var fjármálafyrirtækjum veitt sérstök heimild til þess að fá greiðslustöðvun. Samkvæmt lögunum var ákveðið að frestdagur samkvæmt 2. gr. laga nr. 21/1991 vegna greiðslustöðvunar, sem fengin yrði á grundvelli laganna, skyldi vera gildistökudagur þeirra.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008 var Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar og stóð sú heimild til 26. febrúar 2009. Með úrskurði 3. mars 2009 var heimildin framlengd til 26. nóvember 2009.
Með setningu laga nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, varð breyting á inntaki greiðslustöðvunar bankans með því að slitameðferð hans hófst innan hennar með þeim hætti sem nánar greinir í lögunum. Í því felst meðal annars að um málsmeðferðina gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira. Frestdagur í slitameðferð Landsbanka Íslands hf. er 15. nóvember 2008.
Með yfirlýsingu dagsettri 30. ágúst 2011, sem birt var sama dag, var stefnda tilkynnt um riftun á þeirri ráðstöfun Landsbankans hf. 2. október 2008 sem fólst í greiðslu 35.140.000 króna inn á séreignalífeyrissparnaðarreikning stefnda. Þá var hann krafinn um greiðslu þeirra fjármuna sem greiddir höfðu verið í þágu stefnda auk vaxta. Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 21. september 2011, var riftun mótmælt og fjárkröfum hafnað.
Aðila greinir á um hvort skilyrði riftunar samkvæmt 131. gr. laga 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt, og þá einkum þau er lúta að því hvort gjafatilgangur hafi búið að baki ráðstöfuninni 2. október 2008.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að greiðsla sú sem innt var af hendi 2. október 2008 inn á reikning stefnda hjá Fjárvörslureikningi 3, safn SA3109, hafi verið umfram skyldu, án gagngjalds og hafi greiðslan leitt til auðgunar stefnda á kostnað bankans. Byggir stefnandi því á því að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi byggir á því að Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið skylt að greiða stefnda hina umdeildu fjárhæð og hafi verið greitt í rangri trú um greiðsluskyldu bankans. Enginn samningur liggi fyrir á milli stefnda og Landsbanka Íslands hf. um greiðslu vegna meints gengismismunar. Þurfi stefndi að bera hallann af því að þau gjaldeyrisviðskipti sem fyrirhuguð voru í tengslum við kaup verðbréfa í Iceland Food Group hafi ekki átt sér stað þegar ósk var sett fram um verðbréfaviðskiptin. Byggir stefnandi þannig á að stefndi hafi ekki átt lögvarða fjárkröfu á hendur Landsbanka Íslands hf. vegna mismunar á gengi sterlingspunds (GBP) 21. ágúst 2008 (154,22) og uppgjörsgengi gjaldmiðilsins 30. september 2008 (189,36).
Stefnandi segir fjárkröfu sína styðjast við 142. gr. laga nr. 21/1991. Á grundvelli þessa ákvæðis sé stefnda skylt að greiða stefnanda þá fjármuni sem krafist er en með greiðslu þeirrar fjárhæðar auk vaxta og málskostnaðar fengi stefnandi rýrnun eigna vegna hinnar riftanlegu ráðstöfunar að fullu til baka.
Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða tjónsbætur enda hafi honum verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, eins og stöðu hans og atvikum var háttað í september og október 2008.
Stefnandi byggir jafnframt á því að þó tjónsbætur yrðu ekki viðurkenndar hafi umkrafin fjárhæð komið stefnda að notum og samsvari tjóni Landsbanka Íslands hf. og því beri honum að endurgreiða hana að fullu. Á því er byggt að hin umdeilda greiðsla bankans hafi komið stefnda að notum.
Vaxtakröfu sína kveðst stefnandi byggja á því að stefnda beri að greiða dráttarvexti frá því liðinn var mánuður frá því að stefnda var tilkynnt um riftun og hann krafinn um greiðslu. Það hafi verið gert 30. ágúst 2011 og sé stefndi því krafinn um dráttarvexti frá og með 30. september 2011.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann eigi ekki aðild að máli þessu. Stefnandi hafi sjálfur greitt stefnufjárhæðina inn á bankareikning sem var hluti af fjárvörslureikningi stefnanda og hafi stefnandi ekki haft neitt forræði yfir þeim reikningi. Upphaflega hafi stefnandi einn haft heimild til að ráðstafa fé af þeim reikningi. Þann 9. október 2008 hafi lífeyrissparnaðarsamningur stefnda við stefnanda verið fluttur með stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins til Nýja Landsbanka Íslands hf. Þann 15. mars 2012 samdi stefndi við MP-banka hf. um varðveislu og ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðarins. Telur stefndi að stefnanda beri því að beina kröfu sinni að MP-banka hf. sem hafi nú vörslur lífeyrissparnaðar stefnda og fari með öll réttindi og skyldur varðandi viðbótarlífeyrissparnað hans. Fé á lífeyrissparnaðarreikningi sé ekki aðgengilegt stefnda með neinum hætti.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í annan stað á því að greiðsla stefnanda hafi hvorki verið gjöf né laun eða annað endurgjald og sé því ekki riftanleg á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Stefnandi hafi ekki innt greiðsluna af hendi í þeim tilgangi að gefa, hún hafi ekki leitt til eignaaukningar hjá stefnda og greiðslan hafi ekki rýrt eignir stefnanda. Greiðsla stefnanda hafi falið í sér skaðabætur sem stefnanda hafi verið skylt að inna af hendi til séreignarsparnaðar stefnda vegna þeirrar handvammar starfsmanna sinna að kaupa ekki sterlingspund eins og þeim hafi borið þegar þeir hafi tekið við lífeyrissparnaði stefnda. Skylda til kaupa á gjaldeyri hafi stofnast í síðasta lagi 27. ágúst 2008 en þá hafi stefnandi skuldbundið sig með ótvíræðum hætti. Stefndi hefði með sérstökum samningi falið stefnanda að annast vörslur og ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar síns og greitt honum þóknun fyrir og hafi skaðabótagreiðslan því verið fyllilega réttmæt.
Stefndi leggur áherslu á að umrædd greiðsla hafi haft hverfandi áhrif á fjárhag stefnanda og vísar í þessu sambandi m.a. til hálfsársuppgjörs stefnanda sem er á meðal gagna málsins.
Stefndi mótmælir fjárhæð endurheimtukröfu í málinu og hafnar því að stefnandi geti endurheimt alla greiðsluna verði hún talin riftanleg. Verði greiðslu rift á grundvelli þess að um gjöf hafi verið að ræða eigi stefnandi aðeins auðgunarkröfu á hendur stefnda. Á stefnanda hvíli sönnunarbyrgði um að hvaða marki riftanleg greiðsla hafi komið stefnda að notum. Stefndi bendir á að hann eigi engan rétt til greiðslna úr séreignarsparnaði sínum fyrr en eftir liðlega einn og hálfan áratug.
Forsenda skaðabótagreiðslna úr hendi stefnda sé að stefnandi sanni að stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika greiðslna stefnanda 2. og 3. október 2008. Hvergi í stefnu eða öðrum framlögðum skjölum er gerð minnsta tilraun til að sanna grandsemi stefnda. Þá sé ljóst að stefndi hafi ekki bakað stefnanda tjón. Skaðabótakrafa stefnanda er algjörlega vanreifuð í stefnu og því með öll ódómtæk.
Stefndi krefst þess, hvernig sem á endurheimtu kröfu stefnanda verður litið, að krafan verði felld niður eða lækkuð verulega með heimild í 145. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
V.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort ráðstöfun sú, sem framkvæmd var 2. október 2008 og fólst í greiðslu á 35.140.000 krónum inn á lífeyrissparnaðarreikning stefnda, sé riftanleg samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Stefndi reisir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að hann sé rangur aðili að málinu en stefnanda beri að beina kröfu sinni að MP-banka hf., sem frá 15. mars 2012 hafi verið nýr vörsluaðili alls lífeyrissparnaðar stefnda Á þessa málsástæðu stefnda fellst dómurinn ekki. Í málinu er dregið í efa að stefndi hafi í reynd átt rétt á greiðslu þeirrar fjárhæðar sem lögð var inn á reikning hans hjá stefnanda, nú MP-banka hf. Með vísan til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kröfu um riftun og endurgreiðslu fjár réttilega beint að stefnda en hann er sá sem á þau réttindi sem um ræðir og ber skyldur að sama skapi. Breytir hér engu þó að lífeyrisréttindi hans séu vistuð hjá vörslumanni enn um sinn, þ.e. að stefndi fái ekki notið réttindanna fyrr en eftir tiltekinn árafjölda í samræmi við samning þar um. Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað.
Í málflutningsræðu sinni lét lögmaður stefnda að því liggja að skilja mætti umfjöllun í ræðu lögmanns stefnanda um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf., á þann veg að í henni fælist yfirlýsing um að sú krafa sem höfð sé uppi í máli þessu sé í reynd á forræði Nýja Landsbankans hf. Mætti þannig draga í efa að stefnandi gæti átt aðild að máli þessu. Þessari framsetningu hafnaði lögmaður stefnanda með öllu.
Stefnandi hefur frá upphafi beint kröfum sínum að stefnda og telur þær tilheyra sér. Hafði Nýi Landsbanki Íslands enga aðkomu að þeirri ráðstöfun sem hér er deilt um. Þá stofnaðist endurgreiðslukrafa sú sem stefndi hefur uppi í málinu ekki fyrr en hann lýsti yfir ritun gagnvart áfrýjanda þann 30. ágúst 2011. Er stefnandi þannig að lögum réttur aðili til að beina kröfu sinni að stefnda. Þess utan er um málsástæðu að ræða sem er of seint fram komin en hana hefði mátt hafa uppi í greinargerð óháð því sem fram kom í málflutningi lögmanns stefnanda.
Í 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 segir að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Ákvæðið hefur verið skýrt þannig að undir það falli hver sú ráðstöfun sem rýri eignir þrotamanns og leiði til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af henni enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni og hún falli ekki undir 3. mgr. sömu greinar sem taki til venjulegra tækifærisgjafa og svipaðra ráðstafana af smærra tagi. Þá hafa gagnkvæmir samningar verið taldir til örlætisgerninga ef umtalsverður munur er á greiðslu þrotamanns og því gagngjaldi sem hann fékk í staðinn.
Í hinni umdeildu ráðstöfun fólst að fjármunir voru þann 2. október 2008 færðir af reikningi Landsbanka Íslands hf. inn á annan reikning til hagsbóta fyrir stefnda, þ.e. lífeyrissparnaðarreikning nr. 0111-26-57030, Fjárvörslureiknings 3. Var það gert innan þeirra tímamarka er 1. mgr. 131. gr. áskilur, en frestdagur við skiptin var 15. nóvember 2008. Í samræmi við heimild í reglum um lífeyrissparnaðinn flutti stefndi lífeyri sinn til MP-banka hf., eins og áður er fram komið. Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi hann frá því að hann hefði skipt pundunum sem lágu eftir á gjaldeyrisreikningi í íslenskar krónur og síðan keypt íslensk ríkisskuldabréf.
Dómurinn fellst á það með stefnanda að uppfyllt séu hlutbundin skilyrði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um að ráðstöfunin hafi verið til hagsbóta fyrir stefnda en að sama skapi falið í sér skerðingu á eignum stefnanda. Þegar metið er hvort hin umdeilda ráðstöfun feli í sér gjöf í merkingu 131. gr. laganna þarf jafnframt að skoða hvort hún hafi átt sér stað í gjafatilgangi eða í örlætisskyni til aðgreiningar frá ráðstöfunum sem eru viðskiptalegs eðlis.
Í málinu er óumdeilt að stefndi óskaði eftir því í ágúst 2008 að bankinn keypti fyrir hönd lífeyrissparnaðarreiknings stefnda m.a. skuldabréf í Iceland Food fyrir 1.000.000 punda. Viðskiptin með skuldabréf í félaginu gerðust með kaupum á hlutdeild í svokölluðu millilagsláni sem breska verslunarkeðjan gaf út. Ósk stefnda var komið á framfæri af Stefáni H. Stefánssyni, þáverandi framkvæmdastjóra eignastýringasviðs Landsbanka Íslands, í tölvubréfi til Þórðar Örlygssonar, regluvarðar bankans. Frá því að stefndi bar fram ósk sína og þar til bankinn keypti pundin féll gengi íslensku krónunnar gagnvart breska pundinu verulega og lá þá fyrir að fjármunir þeir sem stefndi ætlaði í kaupin nægðu ekki.
Stefnandi byggir á því að sú ákvörðun bankans að greiða það sem upp á vantaði til þess að kaupin gætu gengið í gegn samkvæmt upphaflegri beiðni hafi verið tekin án þess að bankanum bæri skylda til þess samkvæmt samningi. Hafi stefndi því átt að bera hallann af gengismuninum en ekki bankinn.
Stefndi byggir hins vegar á því að bankinn hafi viðurkennt mistök í tengslum við umbeðin viðskipti og ástæða þess sé sú að pundin hafi ekki verið keypt á sama tíma og annar gjaldeyrir á því gengi sem þá var skráð. Greiðslan hafi því verið réttmætar skaðabætur vegna þeirra mistaka.
Stefndi gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Hann kvað beiðni sína hafa verið afgreidda í bankanum í samræmi við óskir hans nema hvað varðaði kaup á pundum. Þannig hafi kaup á millilagsláninu verið sett af stað en kaup á pundunum ekki framkvæmd. Kvað hann það ávallt vera svo að gjaldeyririnn væri keyptur, „í öllum meginatriðum“ á sama tíma og verðbréfin væru pöntuð, því annars væru menn með „opna gjaldeyrisáhættu“. Stefndi kvað mistökin hafa uppgötvast í samtali hans við Stefán H. í september í tengslum við sveiflur á gengi krónunnar. Stefndi kvaðst hafa vitað að afgreiðsla á millilagsláninu tæki um 2-3 mánuði á meðan hefðbundin afgreiðsla kaupa á erlendum skuldabréfum tæki alla jafna 2-3 daga. Stefndi taldi líklega skýringu mistakanna þá að starfsmenn sem önnuðust kaupin hafi ekki gert sér grein fyrir því að það væri lykilatriði að kaupa gjaldeyrinn á nákvæmlega sama tíma og óskað væri eftir kaupum á millilagsláninu. Spurður um millilagslánið kvað stefndi aðeins þá sem vel þekktu til í fjárfestingum gera sér grein fyrir því að hægt væri að kaupa þau á markaði. Markaðurinn væri hins vegar ekki skráður en stæði „tæknilega“ öllum til boða.
Vitnin Friðrik Nikulásson, þáverandi forstöðumaður á eignastýringarsviði Landsbankans hf., og fyrrnefndur Stefán H. báru fyrir dómi að það hefði verið fyrir mistök bankans að pund voru ekki keypt á sama tíma og millilagslánið var pantað en Friðrik hafi verið ábyrgðarmaður viðskiptanna. Hafi staðið til að kaupin færu fram samhliða kaupum á öðrum gjaldeyri vegna hinna skuldabréfanna. Hafi þannig þurft að skipta krónum í pund til að forðast gengissveiflur á mörkuðum. Bar Stefán H. að alla jafna hefði átt að miða við þau tímamörk er óskað væri heimildar frá regluverði um að kaupa skuldabréfin. Uppgjörsferill væri lengri í viðskiptum með millilagslán og væri því litið svo á að viðskiptin væru komin á við pöntun. Þá báru bæði vitnin um að í tilfelli sem þessu væru mistökin ávallt leiðrétt með sama hætti og væri það hefðbundið verklag í bankanum. Kvað Stefán H. að það verklag hefði viðgengist bæði fyrir og eftir að skilanefnd tók bankann yfir.
Þórður Örlygsson staðfesti fyrir dómi að kannað hefði verið hvort hugsanlegir hagsmunaárekstrar í sambandi við verðbréfaviðskiptin, vegna stöðu stefnda sem bankastjóra, væru til staðar. Hafi stefndi rætt við hann og í framhaldinu hafi Stefán H. sent honum tölvubréf. Um hafi verið að ræða beiðni um erlend verðbréfaviðskipti og líti hann svo á að slík viðskipti hefðu ávallt í för með sér ákveðin gjaldeyrisviðskipti. Hafi hann því verið að gefa álit sitt á verðbréfaviðskiptunum sem slíkum en ekki kaupum á gjaldeyri. Aðspurður kvað hann rétt vera að það fæli í sér að ef fallið væri frá kaupum á verðbréfum kæmi ekki til gjaldeyrisviðskiptanna.
Áður hefur verið rakið efni þess skjals sem útbúið var í bankanum þann 30. september 2008 en þar kemur m.a. fram að óskað hafi verið eftir því að keypt yrðu 1.000.000 punda og skuldabréf í Iceland Food þann 22. ágúst 2008. Uppgjör viðskiptanna hafi dregist á langinn í London. Misskilningur hafi orðið um það innanhúss hvort kaupa ætti pundin um leið og ósk um viðskipti barst eða við uppgjör viðskipta á skuldabréfinu. Hafi átt að kaupa pundin um leið og fjárfestingin var ákveðin. Mismunur á gengi pundsins 21. ágúst og 30. september hafi verið lagður inn á lífeyrissparnaðarreikning nr. 0111-26-57030, Fjárvörslureiknings 3.
Ekki liggur fyrir hvernig vinnslu millilagslánsins ytra leið þegar hér er komið sögu og hvort allar upplýsingar hafi legið fyrir sem óskað var eftir. Miðað við að vinnsla lánanna gæti tekið 2-3 mánuði var þó ljóst að viðskiptin myndu ekki ganga í gegn strax.
Á því er byggt af hálfu stefnda að nauðsynlegt hafi verið að kaupa pund á sama tíma og ósk var sett fram um kaup á millilagsláninu eða pöntun gerð. Þetta staðfestu Friðrik og Stefán H. einnig í sínum skýrslum eins og rakið hefur verið. Af þeim gögnum sem liggja frammi í málinu verður þó ekki skýrt ráðið hvenær sú pöntun er í reynd gerð. Er annars vegar um að ræða tölvupóstsamskipti á milli starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og hins vegar milli starfsmanna bankans og starfsmanna bankans í London. Í ofangreindu skjali frá 30. september 2008 er miðað við að pöntunin hafi verið sett fram með tölvubréfum starfsmanna bankans hér á landi. Í skjalinu er reyndar ósamræmi í dagsetningum hvað viðmiðunardagsetningar varðar.
Stefndi hefur vísað til þess að kaup á pundum hafi átt að afgreiða með sama hætti og kaup á evrum og dollurum. Til þess er að líta að markaðspöntun á skuldabréfum í Gazprom og TAQAU var sérstaklega færð á þar til gert eyðublað og er dagsetning viðskipta með skuldabréfin tilgreind 27. ágúst 2008. Kaup á gjaldeyri vegna þeirra áttu sér stað bæði daginn fyrir og daginn eftir þau viðskipti og voru ekki að fullu í samræmi við þær fjárhæðir sem tilgreindar voru í tölvubréfi Stefáns H. til Þórðar regluvarðar. Þannig er ljóst að gjaldeyririnn var ekki allur til reiðu er kaupin gerðust heldur að hluta til daginn eftir.
Hvað sem líður dagsetningu pöntunar millilagslánsins verður ekki séð af gögnum málsins að bankanum hafi, vegna þess hversu langan tíma vinnslan tók, borið að líta svo á að viðskiptin væru komin á við pöntun skuldabréfa í Iceland og að á þeim tímapunkti þyrfti að vera til staðar gjaldeyrir til að mæta kaupunum. Er það mat dómsins að það hefði þurft að liggja fyrir með óyggjandi hætti.
Þrátt fyrir skýran framburð vitna um að tilgangur greiðslunnar frá 2. október 2008 hafi verið sá að gera bankanum kleift að standa við viðskipti sem stefndi hafði óskað eftir, og að sú afgreiðsla hafi verið í samræmi við framkvæmd í sambærilegum málum, var ljóst að kaupin á millilagsláninu náðu ekki fram að ganga. Bresku pundin lágu því inni á gjaldeyrisreikningi Fjárvörslureiknings 3 þar til keypt voru fyrir þau ríkisskuldabréf. Ljóst var að viðskiptin með hin erlendu skuldabréf og kaup á gjaldeyri voru samhangandi. Fær þetta stoð af fyrrgreindum framburði regluvarðar. Þannig voru kaup á bréfum í samræmi við fjárfestingastefnu viðbótarlífeyrissparnaðarins forsenda fyrir kaupum á gjaldeyri.
Það er mat dómsins, þegar litið er til þess sem rakið hefur verið, að ofangreind ráðstöfun hafi verið umfram skyldu enda ekki tímabær fyrr en skuldabréfin í Iceland Food höfðu verið afgreidd. Tilgangur greiðslunnar var aldrei sá að greiða stefnda skaðabætur ef ekkert yrði af viðskiptunum, eins og stefndi telur sig eiga rétt til. Fól ráðstöfunin þannig, eins og á stóð, í sér örlætisgerning í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 og ber því að fallast á kröfu stefnanda um staðfestingu riftunar.
Fjárkrafa stefnanda er reist á 142. gr. laga nr. 21/1991. Í ofangreindu ákvæði felst sú meginregla að þegar riftun fer fram á grundvelli hlutlægra riftunarreglna svo sem 131. gr. laganna, skuli sá sem hafði hag af hinni riftanlegu ráðstöfun, endurgreiða þrotabúinu þá auðgun, sem hann hafði af ráðstöfuninni. Eins og rakið hefur verið fólst auðgun stefnda í því að lagðar voru 35.140.000 krónur inn á sérgreindan reikning lífeyrissparnaðar hans. Svarar það til þeirrar skerðingar sem stefnandi hefur orðið fyrir á eignum sínum. Gildir hér einu að lífeyrisgreiðslur til stefnda eigi ekki að hefjast fyrr en hann nær 60 ára aldri. Krafa stefnanda er því tekin til greina ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2011, en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi tilkynnti stefnda um riftun með bréfi dagsettu 30. ágúst 2011 og setti fram fjárkröfu sína.
Ekki þykja efni til þess að fella kröfu stefnanda niður eða lækka hana verulega með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991. Þó ekki sé dregið í efa að málsóknir stefnanda á hendur stefnda hafi verið honum þungbærar hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu stefnda að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt í tilviki stefnda.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem er ákveðinn 980.000 kr. og er þá tekið tillit til þóknunar vegna flutnings um frávísunarkröfu.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Staðfest er riftun stefnanda LBI hf., frá 30. ágúst 2011 á ráðstöfun, sem fólst í greiðslu Landsbanka Íslands hf. þann 2. október 2008 að fjárhæð 35.140.000 krónur, í séreignalífeyrissparnaðarsjóð í þágu stefnda, Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar,
Stefndi greiði stefnanda 35.140.000 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 30. september 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 980.000 krónur í málskostnað.