Hæstiréttur íslands
Mál nr. 117/2008
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2008. |
|
Nr. 117/2008. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Robert Olaf Rihter (Brynjar Níelsson hrl. Bjarni Hauksson hdl.) |
Manndráp. Tilraun. Miskabætur.
R var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérlega hættulega líkamsárás, með því að hafa slegið A ítrekað með brotinni glerflösku í höfuð, háls og víðar í líkamann, með þeim afleiðingum að A fékk mar á augnknetti og augntóftarvefjum, yfirborðsáverka á brjóstkassa, öxl og upphandlegg og djúp sár í gegnum hálsvöðva. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, sagði að við atlögu R hafi A meðal annars hlotið svöðusár á hálsi, en samkvæmt vottorði læknis og framburði hans fyrir dómi, var atlagan lífshættuleg og réði hending því að ekki hlaust bani af. Óljóst væri hvað R gekk til verksins en honum hljóti að hafa verið ljóst að mannsbani gæti hlotist af árásinni. Var R sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gert að sæta fangelsi í 5 ár. Þá var hann einnig dæmdur til að greiða A 790.030 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður að líta svo á að ákærða hljóti að hafa verið ljóst að mannsbani gæti hlotist af árásinni, sem um ræðir í ákæru. Með þeirri athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Robert Olaf Rihter, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 519.014 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. janúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 6. desember 2007 gegn Robert Olaf Rihter, kt. [...], pólskum ríkisborgara, [...], ,,fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 8. nóvember 2007, á heimili sínu, slegið [A] ítrekað með brotinni glerflösku í höfuð, háls og víðar í líkamann, með þeim afleiðingum að A fékk mar á augnknetti og augntóftarvefjum, yfirborðsáverka á brjóstkassa, öxl og upphandlegg og djúpt sár í gegnum hálsvöðva.
Telst þetta aðallega varða við 211. gr. sbr. 20. gr., en til vara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.”
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir brotaþoli, A, skaðabótakröfu að fjárhæð 790.030 krónur auk vaxta samkvæmt III. kafla laga nr 38/2001 frá 8. nóvember 2007 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu en til vara vægustu refsingar. Málsvarnarlauna er krafist. Þess er krafist aðallega að bótakröfu verði vísað frá en til vara að krafan verði lækkuð verulega.
I.
Aðfaranótt fimmtudagsins 8. nóvember 2007 kl. 01:44 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna slasaðs manns. Sá sem tilkynnti til lögreglu talaði ekki íslensku og var því óljóst um staðsetningu. Talið var líklegt að um Vesturgötu í Keflavík væri að ræða. Lögreglubifreið fór á vettvang og við Hafnargötu í Keflavík urðu lögreglumenn varir við B sem stóð á gatnamótum Tjarnargötu og Hafnargötu. Hann veifaði lögreglubifreiðinni og hljóp síðan af stað vestur Tjarnargötu og ók lögreglubifreiðin á eftir. Maðurinn fór síðan inn Suðurgötu að húsi nr. 4 og þar fyrir utan lá brotaþoli í götunni og hjá honum var þriðji maður, C. Brotaþoli var með sár á hálsi og hafði misst töluvert blóð. Að mati lögreglunnar var hann með litla meðvitund. Óskað var eftir sjúkrabifreið og kom hún með forgangi ásamt vakthafandi lækni frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í frumskýrslu lögreglu segir að B og C hafi gefið til kynna að gerandi í málinu væri ennþá inni í íbúðinni. Tveir lögreglumenn fóru inn í íbúðina og sáu þeir ákærða þar sem hann lá upp í rúmi í næsta herbergi við stofu. Segir í lögregluskýrslu að ákærði hafi verið ógnandi er hann hafi séð lögreglumennina og hafi því annar lögreglumaðurinn slegið einu höggi með lögreglukylfu í hægri handlegg ákærða en síðan hafi hann verið færður í handjárn. Ákærði hafi verið undir sæng og klæddur í bol og nærbuxur. Áður en hann hafi verið fluttur á lögreglustöð hafi hann verið klæddur í buxur og færður í skó. Hann hafi verið færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa. Sjáanlegir hafi verið áverkar á úlnliðnum, höndum og andliti. Einnig hafi föt hans verið blóðug. B og C hafi gefið til kynna að ákærði hafi stungið brotaþola, A. Brotaþoli var fyrst fluttur á Heilbrigðissofnun Suðurnesja en síðan á slysadeild Landspítala- háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Vegna rannsóknar málsins voru B og C handteknir og vistaðir í fangaklefa. Í frumskýrslu lögreglu segir að allir hinna handteknu hafi verið undir áhrifum áfengis.
Í lögregluskýrslu er íbúðinni að Suðurgötu 4 lýst svo að hún sé íbúð á neðri hæð með 2 herbergi, stofu, gang og eldhús. Í svefnherbergjunum hafi verið 4 uppbúin rúm. Ákærði hafi verið í því herbergi sem sé nær stofunni. Þar hafi ekki verið unnt að greina nein merki um átök. Í stofunni hafi verið glerbrot á gólfi og ummerki um neyslu áfengis. Í hinu svefnherberginu hafi verið greinileg merki um átök, m.a. brotið náttborð og blóð á gólfi og á rúmi. Einnig hafi verið glerbrot á gólfi í því herbergi. Í eldhúsi hafi verið glerbrot á gólfi og einnig hafi ísskápur verið opinn og matvæli á gólfinu. Blóð hafi verið sjáanlegt á veggjum á gangi.
Ásbjörg Geirsdóttir heilsugæslulæknir var fengin til þess að skoða ákærða og vitnin C og B á lögreglustöðinni. Segir í læknabréfi hennar að ákærði hafi verið með mikið storknað blóð á báðum höndum og fingrum. Einnig hafi mátt sjá grunnan u.þ.b. 5 sm langan skurð eða rispu á vinstra úlnlið en mjög ólíklegt að blóð á fingrum ákærða gæti verið frá þessum áverka. Ekki hafi verið að sjá neina aðra áverka sem gætu skýrt út þetta blóð. C hafi ekki verið með neina áverka en liðið illa vegna veikinda en hann hafi verið með flensu og kominn með hita. B hafi verið með blóð á höndum en enga áverka sem bent gætu til þess að blóðið væri úr honum.
Þá segir í læknisvottorði Ásbjargar, dagsett 13. nóvember 2007, að brotaþoli hafi verið með meðvitund er hún hafi komið á vettvang en virst fjarrænn. Gróf áverkaskoðun hafi gefið til kynna áverka á höfði, hálsi, brjóstkassa og kvið. Hann hafi verið fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til frekara mats. Við komu þangað hafi hann verið með fulla meðvitund. Eftir aðhlynningu hafi hann verið fluttur á slysadeild Landspítala- háskólasjúkrahúss til sneiðmyndatöku og til frekara mats og meðferðar.
Í vottorði Ásu Einarsdóttur, sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítala- háskólasjúkrahúss, Fossvogi, dagsettu 22. nóvember 2007, segir m.a. að brotaþoli hafi verið með mar á víð og dreif um höfuð, stórt mar hægra megin og neðan við vinstra auga. Dreifðir marblettir á brjóstkassa og efri útlimum. Rispur, misdjúpar á brjóstkassa og ein 12 sm löng á baki ofan til sem virðist eftir heitan og skarpan hlut. Djúpur skurður vinstra megin á hálsi. Eymsli við þrýsting á brjósthol. Tekin hafi verið sneiðmynd af höfði, hálsi, lungum og kvið sem sýni skurð á hálsi sem fari í gegnum vöðva og liggi alveg inn að stóru hálsæðunum. Annað óeðlilegt greinist ekki á tölvusneiðmynd. Í vottorðinu segir ennfremur að ljóst sé að áverkinn, sem brotaþoli hafi hlotið á hálsi, hafi aðeins verið nokkra millimetra frá því að geta valdið honum lífláti.
Rannsóknarlögreglan rannsakaði vettvang. Fyrir utan húsið mátti sjá blóðpoll á götunni þar sem brotaþoli hafði legið. Segir m.a. í skýrslu rannsóknarlögreglu að í eldhúsi hafi glerbrot verið á gólfi og borðum og svo hafi virst sem einhver hafi rifið og tætt matvörur út úr ísskáp og frysti og fleygt á gólfið. Inni á baðherbergi og þvottahúsi hafi allt verið eðlilegt að sjá. Á hægri hönd er komið hafi verið út úr forstofu í stofu hafi allt verið í óreiðu og mikið af glerbrotum á gólfi. Hægra megin við stofuna sé svefnherbergi með svefnaðstöðu fyrir tvo. Þar hafi ekkert óeðlilegt verið að sjá en ákærði hafi legið í öðru rúminu í því herbergi er hann var handtekinn. Við hlið þessa herbergis við enda gangsins sé annað herbergi, einnig með svefnaðstöðu fyrir tvo. Á gólfi milli þessara tveggja herbergja hafi legið stútur af glerflösku og hafi hann verið þakinn blóði. Í herberginu þar sem brotaþoli hafi haft aðstöðu hafi verið mikið blóð á gólfi og á rúmi. Augljós merki um átök hafi verið í herberginu. Allur vettvangur hafi verið ljósmyndaður og hlutir, sem taldir voru tengjast árásinni, hafi verið haldlagðir. Í skýrslu Sigvalda Arnar Lárussonar, rannsóknarlögreglumanns, kemur fram að hann hafi gert tilraun til að ræða við ákærða og vitni á lögreglustöðinni en það hafi reynst ógerlegt sökum ölvunarástands þeirra. Hann hafi skoðað áverka á ákærða sem hafi verið með skurð á úlnliðunum og aðspurður hafi hann sagt að hann myndi ekki hvernig hann hafi hlotið þessa áverka.
Jóhann Eyvindsson, rannsóknarlögreglumaður, fór á vettvang að morgni 8. nóvember. Segir í skýrslu hans að mikið blóð hafi verið á gólfi, bæði sem hafi dropað á gólf og blóð sem hafi kastast líkt og við högg. Þá hafi blóði verið makað um gólfið, hugsanlega í átökum. Þó nokkuð blóð hafi verið í rúmi brotaþola. Segir í skýrslu Jóhanns að sjá hafi mátt af blóði að átök hafi átt sér stað í herbergi brotaþola. Brotaþola hafi bersýnilega blætt þar. Telja megi að hann hafi fengið á sig högg eftir að hann byrjaði að blæða og þá ekki verið í mikilli hæð er það hafi gerst. Fjórir blóðugir fingur hafi smitað blóði og blætt hafi á dýnu í rúmi brotaþola. Blóði hafi verið kámað um gólfið og sé það samsvarandi við átök í beinu framhaldi af blæðingu á gólfið. Blóð hafi smitast í sæng ákærða. Þá hafi blóð smitast í sófa í stofu og á vegg á gangi, blóðdropaslóð, sambærileg við að blæðandi manneskja hafi gengið eða blóðugu áhaldi haldið og gengið með hafi verið frá forstofu og alla leið út á stétt þar sem brotaþoli hafi legið. Í íbúðinni hafi húsgögn og aðrir munir legið á gólfi og verið brotnir eða færðir úr stað. Ummerki hafi verið um átök eða berserksgang.
Í málinu hafi verið lagðar fram ljósmyndir af ákærða sem teknar voru af áverkum hans á lögreglustöð svo og ljósmyndir af brotaþola sem teknar voru á sjúkrahúsi.
Eins og áður sagði lagði lögreglan hald á flöskustút úr gleri. Við rannsókn málsins fannst glerbrot í herbergi brotaþola og passar flöskustúturinn við það brot. Fingrakám var á flöskustútnum en ekki nothæf fingraför. Leifar af blóði voru bæði á flöskustútnum og glerbrotum. Tekin voru lífssýni af hvoru tveggja og eru þau geymd hjá lögreglu.
II.
Kærandi, A, skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi búið að Suðurgötu 4, Reykjanesbæ, ásamt þremur öðrum löndum sínum, ákærða og vitnunum B og C. Hann hafi verið í herbergi með C, sem hafi verið veikur umrætt kvöld og verið sofnaður. Ákærði hafi búið með þeim í u.þ.b. tvo mánuði. Kærandi kveðst hafa komið heim úr vinnunni um kl. 19.00 þetta kvöld. Hann hafi fengið sér kvöldmat og síðan áfengan drykk og bjór. Ákærði hafi síðan komið heim með einhverjum félaga sínum, sem vitnið kvaðst ekki þekkja, og hafi ákærði verið drukkinn. Ákærði hafi farið aftur út með félaga sínum og komið síðar einn heim og þá hafi þeir tveir sest að drykkju. Þeir hafi drukkið eitthvað saman en síðan kveðst kærandi hafa farið inn í herbergið sitt til þess að fara að sofa. Hafi hann þá heyrt brothljóð og læti frammi og farið að athuga hvað um væri að vera. Hafi hann þá séð ákærða ganga berserksgang, brjóta gler og flöskur og rífa mat út úr ísskápnum og skella ísskápshurðinni. Hann kveðst hafa beðið ákærða að hætta þessu því það væri í leigusamningi að þeir þyrftu að borga fyrir allar skemmdir. Ákærði hafi ekki látið af þessu og hafi hann þá sagt við ákærða að hann ætlaði að hringja í lögregluna. Hafi hann síðan gengið inn í herbergið sitt og tekið upp síma og búið sig undir að hringja í lögregluna. Hafi hann snúið baki í herbergisdyrnar og fundið mikið högg á bakið. Hann hafi snúið sér við og séð ákærða með gler í hendinni eins og það væri brotin flaska. Hafi ákærði slegið hann nokkur högg í brjóst, handlegg og fleiri staði og hann reynt að verjast eins og hann gat. Hann hafi dottið í rúmið á bakið og ákærði lagst yfir hann og haldið áfram barsmíðum. Aðspurður um hvers vegna ákærði hafi verið með áverka á andliti, hálsi og vinstri hönd, kvaðst kærandi ekki hafa veitt honum þessa áverka en vel geti verið að hann hafi klórað ákærða eitthvað þegar hann var að reyna að verjast. Kærandi kvaðst hafa fundið fyrir miklum hita á hálsi og meira muni hann ekki eftir atvikum því að líklegast hafi liðið yfir hann um þetta leyti því hann myndi ekki meira frá atvikum. Enginn ágreiningur hafi verið milli kæranda og ákærða fyrr um kvöldið og hafi þeir aldrei rifist þessa tvo mánuði sem þeir hafi búið saman. Afleiðing árásarinnar hafi verið sú að kærandi heyri ekki lengur með vinstra eyra.
Ákærði kvaðst hafa búið u.þ.b. tvo mánuði með kæranda og hafi þeir verið kunningjar. Ákærði kvaðst lítið muna eftir kvöldinu. Þeir hafi drukkið mikið áfengi þetta kvöld. Hann hafi fyrst setið að drykkju með C og öðrum félaga sínum, D að nafni, sem komið hafi heim með honum. Hann hélt að kærandi hafi komið heim milli kl. 19.00 og 20.00 þetta kvöld. Kærandi hafi farið inn í eldhús að útbúa sér mat og fljótlega hafi D farið heim til sín. Síðan hafi ákærði og kærandi byrjað að drekka saman, líklegast upp úr kl. 20.00. Ekki mundi ákærði eftir samskiptum þeirra, þ.e. hvort þau hafi verið vinsamleg eða ekki. Hann mundi þó að þeir hafi byrjað að slást. Kvaðst hann muna eftir flösku í hendi kæranda og hafi kærandi slegið hann með brotinni flösku. Honum hafi mjög brugðið við þetta og sjálfur tekið flösku og brotið hana til þess að verjast. Þetta hafði gerst í herbergi kæranda. Þegar hann hafi séð blóð á hálsi kæranda hafi hann sleppt flöskubrotinu. Hann kveðst muna að hafa slegið til kæranda með flöskubrotinu. Ekki mundi hann hve oft það hafi verið en mundi þó að það hafði verið oftar en einu sinni. Kærandi hafi reynt að slá hann á móti. Fyrst hafi þeir verið standandi en hann hafi hent kæranda í rúmið. Hann kvaðst muna eftir að kærandi hafi verið að reyna að kyrkja sig. Allt hafi þetta tekið nokkrar sekúndur. Þegar hann hafi séð áverkana á kæranda hafi honum brugðið og látið flöskubrotið detta í gólfið. Aðspurður um framburð kæranda og C um að ákærði hafi sagst ætla að drepa kæranda svaraði ákærði því til að hann myndi ekki eftir því. Ákærði kvaðst hafa verið hræddur um líf sitt og verið að reyna að verja sig. Hann hafi ekki slegið vísvitandi í háls kæranda eða andlit. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir að það gæti leitt til dauða að slá með flösku. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa verið að brjóta glerílát og flöskur í eldhúsinu. Hann mundi að hann hafi verið sofandi þegar lögreglan kom og handjárnaði hann. Ákærði kvaðst sjá mjög eftir þessu en hann hafi staðið í þeirri trú að kærandi hafi ætlað að ráðast á hann og gera honum mein.
C kvaðst hafa verið með flensu umræddan dag og því farið snemma að sofa. Hann hafi farið inn í herbergið sitt en hann deili herbergi með kæranda. Hann hefði vaknað við hávaða og þá séð ákærða sitja ofan á kæranda og hafi ákærði verið með brotna flösku í hendi og slegið kæranda nokkrum höggum. Ákærði hafi öskrað að hann ætlaði að drepa kæranda. Hann sagðist ásamt B hafa tekist að afvopna ákærða með því að slá hendi hans í ofninn þannig að flöskubrotið hafi dottið úr höndum hans. Ákærði hafi þá róast niður og farið inn í herbergið sitt og farið að sofa en þeir B kallað á lögreglu og aðstoðað kæranda.
B var herbergisfélagi ákærða. Hann kvaðst hafa komið heim um kl. 22.00 umrætt kvöld og hafi þá ákærði og kærandi setið saman að drykkju. C hafi verið farinn að sofa enda verið veikur. B kvaðst hafa fengið sér tvö glös af vodka og bjór og staldrað við hjá þeim félögum í u.þ.b. eina klukkustund en síðan farið að sofa enda átt að mæta til vinnu morguninn eftir. Þegar hann hafi farið að sofa hafi ákærði og kærandi verið að spjalla saman eins og bestu vinir. Hann kvaðst síðar hafa vaknað við það að verið var að brjóta gler. Hann hafi farið inn í eldhús og séð þar ákærða vera að brjóta gler og skella ísskápshurðinni. Ákærði hafi virst mjög reiður. Hann hafi nú brotið glerflösku og haldið á henni, sagt sér að fara frá, og gengið rakleitt inn í herbergi kæranda. B kvaðst hafa séð ákærða slá kæranda með flöskubrotinu og í þann mund hafi C vaknað. B kvaðst hafa staðið í gættinni og hafi hann séð ákærða leggjast ofan á kæranda og slá hann ítrekað með flöskunni en hann hafi ekki séð hvar höggin lentu. Allt í einu hafi ákærði staðið upp eins og hann hafi gert sér grein fyrir því hvað hann væri að gera og látið flöskubrotið detta á gólfið. Kærandi hafi staðið upp og haldið um hálsinn. C hafi strax hringt á lögreglu en ákærði hafi farið til síns herbergis.
Auk framangreindra vitna komu fyrir dóminn lögreglumennirnir Vignir Elísson og Einar Þorgeirsson en þeir komu fyrst á vettvang. Þá kom fyrir dóminn Jóhann Eyvindsson rannsóknarlögreglumaður og skýrði frá rannsókn málsins. Ásbjörg Geirsdóttir heilsugæslulæknir skýrði frá aðkomu sinni að málinu en hún fór á vettvang og annaðist fyrstu hjálp og skoðun kæranda svo og skoðun á ákærða er hann var í haldi lögreglu. Sár ákærða hafi ekki verið þess háttar að gera hafi þurft að þeim. Ása E. Einarsdóttir, sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala- háskólasjúkrahúss, kom fyrir dóm og staðfesti vottorð sitt frá 22. nóvember 2007. Hún sagði að skurður á hálsi kæranda hafi verið 10-12 sentimetra langur. Tekin hafi verið tölvusneiðmynd til að átta sig á dýpt hans. Skurðurinn hafi legið í gegnum stóran hálsvöðva og alveg inn að æðum. Aðeins hafi munað um 2 millimetrum á að skurðurinn færi í slagæð. Því hafi litlu mátt muna að ekki hlytist bani af. Áverkar á kæranda hafi einnig verið þess eðlis að eins og um högg hafi verið að ræða. Háls-, nef- og eyrnalæknir hafi verið fenginn til að skoða kæranda vegna skurðsins á hálsi.
III.
Ákærði hefur neitað sök og borið við minnisleysi um sumt í atburðarás sökum mikillar ölvunar. Hann mundi að hann hafði setið með ákærða að drykkju og þeir farið að slást. Fyrir dómi kvað hann kæranda hafa ráðist að sér með brotinni flösku og hafi hann þá gripið til þess ráðs að vopnast á sama hátt. Hann mundi eftir að hafa slegið kæranda nokkrum höggum en kvaðst hafa hætt um leið og hann hafi séð blóð á hálsi kæranda.
Framburðir kæranda og vitnisins B eru samhljóma. Ber þeim saman um að ákærði hafi gengið berserksgang í eldhúsi, brotið gler og kastað matvælum út úr frysti og ísskáp. Hann hafi síðan veist að kæranda með brotnum flöskustút en kærandi hafi ætlað að hringja í lögreglu til þess að láta fjarlægja ákærða. Þessi tvö vitni ásamt vitninu C bera á sama hátt um að kærandi hafi verið óvopnaður og ákærði haft kæranda undir og látið högginn dynja á honum með flöskubrot í hönd. Kærandi hafi einungis reynt að verja sig. Við þessa atlögu ákærða hlaut kærandi m.a. svöðusár á hálsi, sem samkvæmt vottorði læknis og framburði hans hér fyrir dómi, var lífshættuleg atlaga og réði hending því að ekki hlaust bani af. Við rannsókn lögreglu fannst aðeins einn brotinn flöskustútur á vettvangi og var hann alblóðugur. Stenst því ekki framburður ákærða um að kærandi hafi einnig verið vopnaður flöskubroti enda er það einnig í andstöðu við framburð vitna eins og áður sagði. Viðhlítandi sönnun er því komin fram fyrir því sem ákærða er gefið að sök í ákæruskjali.
Samkvæmt frásögn sinni hefur ákærði ekki að öllu leyti verið með sjálfum sér vegna mikillar áfengisneyslu. Að sögn vitninsins B sátu kærandi og ákærði að drykkju og spjölluðu saman í mesta bróðerni er vitnið fór að sofa fyrr um kvölið og samkvæmt framburði kæranda og ákærða hafði þeim aldrei orðið sundurorða frá því er þeir kynntust og fóru að leigja saman um tveimur mánuðum áður. Óljóst er því hvað ákærða gekk til verksins en honum mátti vera ljóst að mannsbani gæti hlotist af.
Samkvæmt 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal beita refsingu enda þótt brot hafi verið framið í ölæði. Ákærði þykir því hafa gerst sekur um tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu svo vitað sé. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Engar refsilækkandi ástæður þykja koma til greina hjá ákærða.
Kærandi hefur gert bótakröfu í málinu sem sundurliðast þannig: Miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 750.000 krónur, þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 11.788 krónur og útlagður kostnaður vegna sjúkraflutnings og komugjalda að fjárhæð 28.242 krónur eða samtals 790.030 krónur. Skilyrði eru til að dæma ákærða til að greiða kæranda miskabætur samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skaðabótalaga og verður fallist á kröfuna eins og hún er fram sett. Jafnframt er fallist á að ákærði greiði útlagðan kostnað kæranda vegna brotsins. Loks er krafa um þjáningarbætur tekin til greina. Ber því að dæma ákærða til að greiða samtals 790.030 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2007 til 12. janúar 2008 en ákærða var kynnt krafan 12. desember 2007. Frá 12. janúar 2007 til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. lagannna.
Í skýrslu sinni við aðalmeðaferð kvað ákærði afleiðingar brotsins m.a. vera þær að hann heyrði ekki lengur með vinstra eyra. Engin gögn eru hins vegar lögð fram um það í málinu og þessa er ekki getið í skaðabótakröfu kæranda. Kemur þetta atriði því ekki til frekari athugunar í málinu.
Sakarkostnaður í málinu er 30.700 krónur. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ingimars Ingimarssonar hdl., ákvarðast 650.000 krónur að meðtöldum virðisaukskatti. Laun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., ákvarðast 170.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Sakarkostnaður er því samtals 850.700 krónur og samkvæmt framangreindum málalokum verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Ákærði, Robert Olaf Rihter, sæti fangelsi í 5 ár.
Ákærði greiði A 790.030 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2007 til 12. janúar 2008 en frá þeim degi til til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. lagannna.
Ákærið greiði allan kostnað sakarinnar að fjárhæð 850.700 krónur, þar af 650.000 krónur til skipaðs verjanda, Ingimars Ingimarssonar hdl., og 170.000 krónur til skipaðs réttargæslumanns, Gunnhildar Pétursdóttur hdl.