Hæstiréttur íslands
Mál nr. 793/2013
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Skilorð
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2014. |
|
Nr. 793/2013.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Róberti Guðmundssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Skilorð. Upptaka.
R var sakfelldur fyrir fíkniefnabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 12 kannabisplöntur auk 56,42 g af kannabislaufum og 17,05 g af maríhúana og fyrir að hafa um nokkurt skeið ræktað fíkniefnin. Var refsing R ákveðin fangelsi í 3 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá voru gerð upptæk fíkniefni og búnaður.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Róbert Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 264.839 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 1. nóvember 2013.
Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 28. maí sl. á hendur ákærða, Róberti Guðmundssyni, kt. [...], til heimilis að [...], [...]
„fyrir fíkniefnabrot
með því að hafa að morgni miðvikudagsins 20. febrúar 2013 á heimili sínu að [...] í [...] haft í vörslum sínum 12 kannabisplöntur [5-120 cm á hæð] er samtals vógu 1453,84 g auk 56,42 g af kannabislaufum og 17,05 g af maríhúana og fyrir að hafa um nokkurt skeið fram til þessa dags ræktað framangreind fíkniefni, en fíkniefnin fundust við húsleit lögreglu á heimili ákærða umrætt sinn.
Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá lögreglu nr. 24513) og búnaðar til ólögmætrar ræktunar og meðferðar fíkniefna sbr. munaskrá lögreglu nr. 96371 samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði gerir þá kröfu aðallega að ákæru í máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Til þrautavara er kafist vægustu refsingar sem lög leyfa og verði hún skilorðsbundin. Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa auk greiðslu vegna aksturs.
Málavextir.
Þann 20. febrúar 2013 kl. 11:00 fóru lögreglumenn að heimili ákærða að [...] í [...] en talið var að hann hefði verið með hótanir í garð A ráðherra. Í lögregluskýrslu segir að ákærði hafi komið til dyra og hafi þá fundist megn kannabislykt innan úr íbúðinni. Lögreglumenn hafi beðið ákærða um að hleypa sér inn en hann hafi ekki viljað það. Þeir hafi samt farið inn og sagt ákærða að hann væri handtekinn grunaður um fíkniefnamisferli. Honum hafi verið boðið að hafa samband við lögmann og fyrst hann veitti ekki húsleitarheimild yrði hann færður í fangageymslu þar til dómsúrskurður fengist. Skömmu seinna hafi ákærði veitt húsleitarheimild og hafi hann undirritað skjal þess efnis kl. 11:17. Á skjalinu stendur að leit hafi lokið kl. 11:17. Ákærði hafi þá boðist til þess að vísa lögreglu á fíkniefnin og vísaði hann þá á ætluð fíkniefni í skáp inni í stofu, skunk og stilka í krukku. Hann hafi einnig vísað á þurrkuð lauf sem verið hafi í skáp á móti eldhúsi. Hann hafi opnað herbergi á móti eldhúsinu og vísað á fjórar kannabisplöntur sem verið hafi á gólfinu, 88-120 cm háar. Hann hafi síðan opnað skáp í herberginu og vísað þar á átta kannabisplöntur, 5-50 cm háar. Í lögregluskýrslunni segir að herbergið hafi verið sérútbúið til kannabisræktunar, búið hafi verið að byrgja glugga með svörtu plasti, þar hafi verið tveir gróðurhúsalampar og loftræstiblásari.
Tekin var skýrsla af ákærða samdægurs á lögreglustöðinni og viðurkenndi hann að hafa verið með fjórar kannabisplöntur í blómstrun og átta litla græðlinga á heimili sínu. Þá viðurkenndi hann að hafa átt um 50-60 g af kannabis í þurrkun. Hann kvað það hafa verið blautt og ekki hægt að reykja það. Ákærði kvað ræktunina hafa staðið frá því um það bil 10. janúar sl. og hafi efnið verið ætlað til eigin neyslu og engum öðrum. Annað hafði ákærði ekki um málið að segja og afsalaði sér öllum þeim munum sem lögregla lagði hald á sem og fíkniefnum og plöntum.
Lögð hefur verið fram í málinu matsgerð rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði vegna rannsóknar á tveimur sýnum. Annað sýnið var græn blómstrandi planta og var þyngd sýnis við komu 207,29 g en eftir þurrkun var þyngdin 91,39 g. Með smásjárskoðun, gasgreiningu á súlu og massagreiningu fannst að sýnið var kannabis. Magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni var samkvæmt matsgerðinni 81 mg/g, sem samsvaraði 36 mg/g í sýninu fyrir þurrkun. Hitt sýnið var græn planta sem við komu var 10,26 g, en eftir þurrkun 2,92 g. Með smásjárskoðun, gasgreiningu á súlu og massagreiningu fannst að sýnið var kannabis. Magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni var samkvæmt matsgerðinni 6,3 mg/g, sem samsvaraði 1,8 mg/g í sýninu fyrir þurrkun.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að lögreglumenn hafi bankað upp á hjá sér og borið það á hann að hann hafi verið að hóta ráðherra, en það hafi ekki verið rétt. Hann hafi ætlað að kveðja þá en þá hafi þeir sagt að þeir hafi fundið kannabislykt úr íbúðinni. Þeir hafi síðan ruðst inn í íbúðina án heimildar og hafi ákærði margsagt þeim að þeir mættu ekki ráðast svona inn. Hann kvað fáránlegt að þeir hefðu fundið einhverja lykt úr íbúðinni. Þeir hafi heimtað að ákærði skrifaði undir húsleitarheimild og kvaðst hann hafa orðið við því. Hann kvaðst ekki telja það vera mikinn glæp að vera með fjórar kannabisplöntur og átta litla græðlinga og hafi hann því ákveðið að sýna þeim þetta. Hann taldi græðlingana ekki vera kannabisplöntur í skilningi laga því þeir hafi ekki verið komnir í blómstrun. Ákærði kannaðist við að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem hann játar sakargiftir. Hann kvaðst hafa neitað sök fyrir dómi á þeim grundvelli að hann hafi verið handtekinn með ólögmætum hætti og þá hafi aðgerðir lögreglu verið ólögmætar. Ákærði kvaðst hafa átt tiltekin samskipti við sýslumann sem gerðu það að verkum að hann og starfsmenn hans væru vanhæfir til þess að fjalla um mál sín. Hann viðurkenndi hins vegar að hann hefði brotið lög með háttsemi sinni.
Vitnið Rúnar Oddgeirsson, lögreglumaður, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að kvartað hefði verið undan ákærða og hefði hann komið til dyra. Fundist hefði megn kannabislykt úr íbúðinni og hefði ákærði í fyrstu ekki viljað hleypa lögreglumönnunum inn og hefði komið til einhverra stympinga. Hann hefði síðan hleypt þeim inn og vísað á plöntur og lauf inni í íbúðinni og hefði ákærði þá verið ljúfur og samvinnuþýður. Hann gat ekki skýrt hvers vegna húsleit var talið lokið á sama tíma og hún hófst en hugsanlega væri um mistök að ræða.
Vitnið Haukur Páll Ægisson lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að lögreglan hefði haft afskipti af ákærða á heimili hans vegna gruns um hótanir af hans hálfu í garð A. Fundist hefði megn kannabislykt úr íbúðinni og hefði ákærði í fyrstu ekki viljað hleypa þeim inn. Þeir hefðu farið inn gegn vilja ákærða til að tryggja ástandið og eftir nokkrar viðræður við ákærða hefði hann heimilað þeim leit í íbúðinni og vísað þeim á ætluð fíkniefni. Hann hefði síðar skrifað undir húsleitarheimild. Hann taldi leitina hafa tekið 30-45 mínútur en ákærði hefði hjálpað til við hana og sýnt allt sem hann hefði haft að fela. Hann gat ekki skýrt hvers vegna húsleit var talið lokið á sama tíma og hún hófst en greinilega væri um mistök að ræða.
Vitnið Bogi Sigvaldason lögreglumaður staðfesti afskipti sín af máli þessu fyrir dómi. Hann kvað engan greinarmun gerðan á plöntum og græðlingum, um væri að ræða plöntu þegar laufblöð væru komin.
Vitnið Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að hann hefði tekið lögregluskýrslu af ákærða og hefði hann verið mjög rólegur og svarað þeim spurningum sem lagðar hefðu verið fyrir hann. Hann mundi ekki eftir að hann hafi rætt um að hann hefði verið beittur einhverju ofbeldi á vettvangi, en svo kynni vel að vera. Ekki hafi þó þótt ástæða til að skrá slíkt í skýrsluna.
Vitnið Ingibjörg Halla Snorradóttir, lyfjafræðingur hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti efni matsgerðar í símaskýrslu fyrir dómi.
Niðurstaða.
Frávísunarkrafa ákærða virðist á því byggð að sýslumaðurinn á [...] beri þungan hug í garð ákærða vegna samskipta þeirra fyrr á árum. Þessi staðhæfing ákærða er engum gögnum studd og ber að hafna frávísun af þessum sökum.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum á heimili sínu tiltekið magn af kannabisplöntum, kannabislaufum og marihúana og hefur hann kannast við að hafa ræktað umræddar plöntur. Með matsgerð Rannsóknastofu í lyfja-og eiturefnafræði er staðfest að um var að ræða fíkniefni í skilningi laga um ávana- og fíkniefni og ber því að hafna þeim skilningi ákærða að græðlingar sem hann hafði ræktað væru ekki fíkniefni þar sem þeir væru ekki komnir í blómstrun. Ákærði undirritaði húsleitarheimild og viðurkenndi við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa átt og ræktað umrædd fíkniefni. Ekkert er fram komið í máli þessu sem styður það að aðgerðir lögreglu á vettvangi hafi verið ólögmætar, fram hefur komið hjá þeim lögreglumönnum sem voru á vettvangi að fundist hefði megn kannabislykt úr íbúð ákærða og var þeim því rétt að grípa til aðgerða af þeim sökum. Með hliðsjón af framansögðu og játningu ákærða að hluta er því sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði nokkurn sakaferil að baki, síðast hlaut hann dóm 10. desember 2012, 175.000 króna sekt og 15 mánaða sviptingu ökuréttar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og akstur undir áhrifum fíkniefna. Fyrir utan þann dóm hefur ákærða ekki verið refsað síðan árið 2005 og þykir fyrri sakaferill ákærða ekki hafa áhrif á refsingu hans nú.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði en fullnustu refsingarinnar þykir mega fresta og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir ber að fallast á upptökukröfu ákæruvaldsins.
Þá ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað, 147.497 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 225.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 28.000 krónur vegna aksturs.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.
Dómsorð:
Ákærði, Róbert Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Upptæk eru gerð fíkniefni samkvæmt efnaskrá lögreglu nr. 24513 og búnaður samkvæmt munaskrá lögreglu nr. 96371.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 147.497 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 225.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 28.000 krónur vegna aksturs.