Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. janúar 2004.

Nr. 479/2003.

Sigrún A. Bjarnadóttir

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

gegn

Hreini Hreinssyni

(enginn)

 

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S leitaði viðurkenningar á eignarrétti sínum á tiltekinni spildu á mörkum tveggja sumarhússlóða. Talið var að síðari hluti kröfugerðar S væri ekki svo skýr að á hann yrði felldur dómur að svo vöxnu. Var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur um annað en málskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.    

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. nóvember 2003, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.                                                                           

Í málinu leitar sóknaraðili viðurkenningar á eignarrétti sínum á tiltekinni spildu á mörkum sumarhússlóðar sinnar nr. 17 við Kjarrbraut í landi Vaðness í Grímsnes- og Grafningshreppi og lóðar varnaraðili nr. 19 við sömu götu. Í síðari hluta kröfugerðarinnar er jafnframt tekið fram að með slíkri viðurkenningu ráði mörkum milli lóða aðila „hnit í samræmi við deiliskipulag“ af svæðinu. Þar sem ekki liggur fyrir hnitasett deiliskipulag er þessi hluti kröfugerðarinnar ekki svo skýr að á hann verði felldur dómur að svo vöxnu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað, sem fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. nóvember 2003.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 31. október sl., er höfðað 3. apríl sl.

Stefnandi er Sigrún A. Bjarnadóttir, Boðagranda 4, Seltjarnarnesi.

Stefndi er Hreinn Hreinsson, Árskógum 6, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: ,,Stefnt er til að fá viðurkenningu með dómi á því, að landsvæði á mörkum sumarbústaðalands stefnda við Kjarrbraut 19, Vaðneslandi Grímsnesi og lands stefnanda við Kjarrbraut 17,  sem afmarkað er af eftirfarandi hnitum

                austur                                     norður                    heiti

1.             408680.033                            393122.279             LM1

2.             408681.131                             393115.284             girðing

3.             408621.310                             393109.958             girðing

4.             408620.791                             393112.732             girðing

sé eign stefnanda, en skiki þessi er merktur á loftmynd frá Verkfræðistofu Suðurlands frá því í júní 2002. Með þessu þá ráði mörkum milli lóða aðila þessa máls hnit í samræmi við deiliskipulag sem samþykkt var af oddvita Grímsneshrepps í október 1997 og endurnýjað með samþykkt í september 1998 án breytinga á þessum lóðum.”

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts.

                Stefndi gerir aðallega þær dómkröfur að málinu verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu. Auk þess krefst stefndi málskostnaðar.

 

Málsatvik

Mál þetta má rekja til sölu Kjartans Pálssonar, eiganda jarðarinnar Vaðness í Grímsneshreppi á sumarbústaðalóðum úr landi sínu. Með afsali 1. janúar 1998 seldi hann Gunnlaugi Helga Gunnlaugssyni og Hrund Eðvarðsdóttur 7.000 m² sumarbústaðalóð við Kjarrbraut 17 sem síðar seldu stefnanda lóðina með afsali 16. júlí 1998. Kjartan seldi og Rannveigu Árnadóttur 6.000 m² sumarbústaðalóð við Kjarrbraut 19 en hún seldi sína lóð til stefnda með afsali 1. desember 1998.

Af hálfu stefnda voru lögð fram ljósrit afsala þessara og á bakhlið þeirra er uppdráttur deiliskipulagstillögu fyrir sumarbústaðahverfið, dags. maí 1997. Ágreiningslaust er að tillagan hlaut ekki samþykki skipulagsyfirvalda. Breytingatillögur voru gerðar á deiliskipulaginu og birtist auglýsing um breytingar í Lögbirtingablaði 6. febrúar 1998. Sex athugasemdir við breytingatillögur bárust hreppsnefnd Grímsneshrepps og var fallist á þær. Breytt deiliskipulag var samþykkt í sveitarstjórn 8. september 1998. 

Af framlögðum uppdrætti um breytt deiliskipulag má sjá þá breytingu frá skipulagstillögu í maí 1997 að mörk lóða nr. 17, 19, og 21 hafa verið færð til norðurs. Uppdrátturinn er ekki hnitsettur.

 Ágreiningur málsins snýst um hvar mörk lóðanna nr. 17 og 19 við Kjarrbraut liggi.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um afmörkun lóðar sinnar í landi jarðarinnar Vaðness á samþykktum skipulagsuppdrætti frá 8. september 1998 á grundvelli tillögu frá október 1997, sbr. auglýsingu um breytingar á deiliskipulagi sumarbústaðabyggðar í landi Ásgarðs og Vaðness, Grímsneshreppi, sem birt var í Lögbirtingarblaði 6. febrúar 1998. Þær breytingar sem urðu frá skipulagstillögu frá því í maí 1997 til endanlegs skipulags 8. september 1998, hafi meðal annars varðað staðsetningu eignarmarka lóðanna nr. 17 og 19 við Kjarrbraut, sem færst hafi 7 metra til norðurs eins og nánar komi fram á uppdrætti Verkfræðistofu Suðurlands fyrir lóðina nr. 17 við Kjarrbraut.

Stefnandi hafi keypt lóð sína eftir að skipulagsbreytingarnar hafi verið teiknaðar, samþykktar og auglýstar og sé því bundinn af þeirri lóðarafmörkun og stefndi sé einnig bundinn af þeirri lóðarafmörkun.  

 Stefndi sé þannig bundinn af afmörkun lands Rannveigar Árnadóttur sem upphaflega hafi keypt sumarbústaðalandið nr. 19 við Kjarrbraut.

                Stefnandi vísar ennfremur til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

                 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi telur sjónarmið stefnanda reist á lögvillu sem lúti að tvennu:

                Í fyrsta lagi að stjórnvaldsgerningur, sem deiliskipulag sé, geti fært eignarréttindi milli manna án þess að nokkuð annað komi til.

                Í öðru lagi að eignarréttindi yfir landi ráðist af stærð og magni en ekki afmörkuðum hluta lands. 

                 Þá mótmælir stefndi málavöxtum stefnanda í öllum aðalatriðum.

Stefndi kveður eiganda sumarbústaðalandsins hafa útbúið uppdrætti að löndum sem hann hafi selt og afhent og hafi uppdráttunum verið þinglýst.

Þá telur stefndi að eiganda landsins hafi brostið heimild til að breyta merkjum og ráðstafa eignarréttindum eftir að hann hafði selt frá sér landið. Engu máli skipti þótt hann hafi staðið að gerð deiliskipulags sem sé í andstöðu við eignarheimildir.

 Stefndi bendir á að 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geri ráð fyrir eignarnámsheimild ef þörf sé á að koma á annari skipan eignarheimilda til samræmis við gildandi skipulag. Málsmeðferð geri ráð fyrir að sveitarstjórn geti, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags, framkvæmt eignarnám vegna framkvæmda skipulags en áður þurfi hún að leita samninga við alla hlutaðeigandi og ákvarða skaðabætur. 

Þá kveður stefndi að nálægð sumarbústaðar við lóðarmörk breytist þegar lóðarmörkum sé raskað, auk þess sem landslagið breytist og geti það falið í sér verðmætarýrnun, jafnvel þótt bætt yrði við fermetrum annars staðar. 

Aðalkröfu um frávísun byggir stefndi á því að kröfugerð stefnanda lúti í reynd að því að fá viðurkenningu fyrir því að eignarréttindi í Vaðneslandi fari að gildandi deiluskipulagi. Í reynd snerti dómurinn alla þá sem þurfi að þola breytingu á merkjum af þessum sökum. 

Varakrafa um sýknu er á því byggð að stefndi hafi keypt það land sem Rannveigu Árnadóttur hafi verið afhent í samræmi við uppsett merki og þinglýsta uppdrætti og ekkert hafi farið fram í skipulagi sem breyti eignarheimildum. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda, en uppdrættinum hafi verið þinglýst með afsalinu. 

Stefndi vísar til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 25. og 32. gr. þeirra og stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 72. gr. hennar, til stuðnings kröfum sínum.

 

Niðurstaða

Mál þetta er höfðað til að fá leyst úr ágreiningi um mörk milli lóða aðila. Stefnandi hefur meðal annars lagt fram loftmynd af lóð sinni við Kjarrbraut 17, þar sem hnitsettur er sá skiki sem stefnandi krefst viðurkenningardóms fyrir. Lýtur dómkrafa stefnanda að því að fá viðurkenningu á því að skiki þessi sé eign stefnanda og að ,,með þessu ráði mörkum milli lóða aðila þessa máls hnit í samræmi við deiliskipulag sem samþykkt var af oddvita Grímsneshrepps í október 1997 og endurnýjað með samþykkt í september 1998 án breytinga á þessum lóðum.” Stefnandi hefur og lagt fram uppdrátt af breyttu deiliskipulagi, en hann er ekki hnitsettur. Þar sem hnit skortir er hvorki unnt að staðreyna hversu langt til norðurs lóðamörk tilgreindra lóða voru færð með breyttu deiliskipulagi né hvort lóðamörk á framlagðri loftmynd samrýmist breyttu deiliskipulagi. Krafa stefnanda er samkvæmt framangreindu vanreifuð og kröfugerð með þeim hætti að ekki er unnt að taka dómkröfuna upp óbreytta sem dómsorð, enda leiddi slík dómsúrlausn ekki til málaloka um sakarefnið sem til úrlausnar er. Kröfunni er því vísað sjálfkrafa frá dómi með vísan til d- og e-liðar 80 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í ljósi þessara úrslita og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

 Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.