Hæstiréttur íslands
Mál nr. 817/2017
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Kjarasamningur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi aflaði stefndi álitsgerðar 22. júní 2015 um líkamstjón sitt í samræmi við samkomulag Landsambands lögreglumanna og ríkislögmanns. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að tjónið yrði rakið til líkamsæfinga stefnda 23. nóvember 2011. Þar sem áfrýjandi hefur hvorki nýtt sér heimild til að bera álitið undir örorkunefnd, sbr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, né aflað matsgerðar eftir almennum reglum til að hnekkja því verður það lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 542/2012. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, A, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2017
Mál þetta, sem dómtekið var 20. október 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 9. janúar 2017. Stefnandi er A, […], en stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.832.508 krónur með 4,5% ársvöxtum af 411.395 krónum frá 23. nóvember 2011 til 23. febrúar 2012 og af 2.832.508 krónum frá þeim degi til 10. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.835.758 krónum frá 10. júlí 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 583.294 krónum sem greiddar voru þann 9. júlí 2016.
Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað, auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar. Þá er einnig krafist málskostnaðar að mati dómsins en til vara að hann verði látinn niður falla.
II
Helstu málsatvik eru óumdeild. Stefnandi er lögreglumaður og starfar sem slíkur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Stefnandi var á næturvakt á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík sem hófst kl. 23.00 þann 22. nóvember 2011 og lauk kl. 07.50 daginn eftir. Á vaktinni, skömmu eftir miðnætti, óskaði stefnandi eftir því við yfirmann sinn, Guðmund Inga Rúnarsson, að fá að fara í líkamsræktaraðstöðuna á lögreglustöðinni og fékk leyfi yfirmannsins til þess. Í málinu liggur frammi upplýsingaskýrsla Guðmundar Inga þar sem þetta er staðfest.
Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði hafið lyftingaræfingar og hafi verið að gera réttstöðulyftu þegar hann fann skyndilega fyrir miklum verk í baki. Hann varð að hætta æfingum þegar í stað og fann strax fyrir miklum dofa og verkjum í baki sem leiddu niður í vinstri fót og ökkla.
Stefnandi fann áfram fyrir verkjum næstu daga en leitaði þó ekki strax til læknis þar sem hann taldi að verkirnir myndu lagast. Það hafi þó ekki gerst og er komið fram í gögnum málsins að stefnandi fór í segulómskoðun á Landspítalanum þann 15. desember 2011. Í ljós kom brjósklos á milli V. mjóhryggjaliðar og spjaldhryggjar.
Stefnandi aflaði vottorðs Nönnu Kristinsdóttur heimilislæknis, dagsett 16. desember 2011, vegna fjarvista frá vinnu þar sem fram kemur að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá slysdegi um óvissan tíma. Þá liggur frammi í málinu vottorð Leifs N. Dungal heimilislæknis, dagsett 17. janúar 2012, um að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss frá slysdegi. Stefnandi mun hafa hafið störf að nýju í janúar 2012 en hann kveðst þó áfram hafa verið með verki.
Tjón stefnanda var metið með örorkumatsgerð dr. Atla Þórs Ólasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsettu 22. júní 2015. Mun matsgerðarinnar hafa verið aflað í samræmi við samkomulag Landsambands lögreglumanna og ríkislögmanns um að afla örorkumats eins læknis í málum sem þessu. Samkvæmt matsgerðinni var stefnandi 100% óvinnufær vegna slyssins frá slysdegi til 16. janúar 2012. Tímabil þjáningabóta án rúmlegu var talið það sama og óvinnufærni og varanlegur miski metinn 3%. Varanleg örorka vegna slyssins var einnig talin 3%. Heilsufar stefnanda var talið stöðugt þann 23. febrúar 2012.
Fyrir liggur að Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnanda slysabætur úr launþegatryggingu þann 9. júlí 2016 að fjárhæð 583.294 krónur. Með bréfi, dagsettu 10. júní 2016, krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda með vísan til 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og stefnda, samtals að fjárhæð 3.020.349 samkvæmt eftirfarandi sundurliðun:
Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. kr. 100.100,-
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (10.376.500 x 3 stig) kr. 311.295,-
Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skbl. (6.139.990 x 12,701 x 3%) kr. 2.339.520,-
Frádráttur vegna greiðslu úr slysatryggingu kr. 583.294,-
Vextir skv. 16. gr. skaðabótalaga kr. 579.251,-
Innheimtuþóknun kr. 220.546,-
VSK kr. 52.531,-
Samtals: kr. 3.020.349,-
Til viðbótar krafðist stefnandi greiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 3.250 krónur.
Með bréfi til lögmanns stefnanda, dagsettu 31. ágúst 2016, hafnaði stefndi bótaskyldu með þeim rökum að stefnandi hefði ekki slasast við framkvæmd lögreglustarfa. Stefnandi höfðaði því mál þetta 9. janúar 2017, svo sem áður er getið.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyss hans þann 23. nóvember 2011 á grundvelli 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd stefnda.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að í 30. gr. lögreglulaga sé kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaábyrgð stefnda á líkams- og munatjóni lögreglumanna sem þeir verða fyrir á vinnutíma og við öll störf sín. Stefnandi vísar til þess að þessi skýring á ákvæðinu hafi verið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 365/2000.
Stefnandi telur hina hlutlægu ábyrgð ákvæðisins fela í sér að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma. Samkvæmt ólögfestum meginreglum skaðabótaréttar feli hlutlæg ábyrgð í sér skilyrðislausa bótaábyrgð, án tillits til sakar. Með hliðsjón af orðalagi 30. gr. lögreglulaga telur stefnandi að skýra verði ákvæðið þannig að með orðalaginu „vegna starfs síns“ sé átt við öll tjónstilvik sem eigi sér stað á meðan lögreglumaður er við störf, óháð tegund tjóns eða orsök.
Þá bendir stefnandi á að samkvæmt c. lið 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga skuli lögreglumaður vera svo líkamlega á sig kominn að hann geti sinnt embættinu. Vegna eðlis starfs lögreglumanna, sbr. fyrrnefnda 28. gr., sé lögreglumönnum nauðsynlegt að stunda líkamsrækt og því sjái lögregluembættin þeim fyrir íþróttaaðstöðu. Jafnframt fari líkamsræktin iðulega fram á vinnutíma. Einnig séu laun lögreglumanna m.a. ákveðin með tilliti til líkamlegrar getu sem mæld sé með þrekprófum.
Fyrir liggi að stefnandi hafi slasast á vinnutíma við lyftingaæfingar í sérútbúinni lyftingaaðstöðu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi slasast í vinnutíma, telur stefnandi stefnda bera hlutlæga ábyrgð á tjóni hans. Þar að auki, í ljósi skyldu lögreglumanna til að halda sér í góðu líkamlegu formi, gefi augaleið að líkamstjón sem verði við æfingar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu á vinnutíma teljist líkamstjón vegna starfs lögreglumanna í skilningi 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Því sé stefndi skaðabótaskyldur vegna tjóns stefnanda.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og ríkissjóðs, dagsettum 30. apríl 2005, með síðari breytingum og framlengingum með kjarasamningum og gerðardómum, sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Nánar tiltekið segi í grein 7.5 í kjarasamningnum:
„7.5.1 Lögreglumenn eiga rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.
7.5.2 Lögreglumenn skulu teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn.“
Stefnandi telur að stefndi sé bundinn af umræddum kjarasamningi og skylt að efna hann samkvæmt orðanna hljóðan á grundvelli meginreglna samninga- og vinnuréttar, m.a. reglunnar um efndir in natura.
Framangreint kjarasamningsákvæði sé ítrekun á hlutlægri ábyrgð stefnda samkvæmt 30. gr. lögreglulaga á líkams- og munatjóni lögreglumanna vegna starfs þeirra. Hafi það m.a. verið tilgangur umrædds ákvæðis að skilgreina með ítarlegri hætti gildissvið hinnar hlutlægu ábyrgðar samkvæmt 30. gr. lögreglulaga. Í því sambandi hafi verið litið til dómaframkvæmdar og venju sem skapast hafi um skýringu ákvæðisins við uppgjör slysabóta vegna slysa lögreglumanna.
Stefnandi telur engan vafa leika á að tjón hans falli undir skilgreiningu á bótaskyldu tjóni í grein 7.5.2 í kjarasamningum og vísar sérstaklega til þess, að stefnandi hafi slasast í vinnu og á vinnustað sínum. Hann hafi því verið að sinna vinnuskyldum sínum í skilningi ákvæðisins. Þá liggi fyrir að þegar stefnandi slasaðist, hafi hann verið að stunda íþróttir, nánar tiltekið réttstöðulyftu, en íþróttir á vegum lögreglunnar séu sérstaklega tilgreindar sem hluti af störfum lögreglumanna í grein 7.5.2. Því eigi stefnandi rétt á bótum samkvæmt grein 7.5.1. í kjarasamningnum.
Stefnandi vísar einnig til þess að til frekari fyllingar ákvæðum fyrrnefnds kjarasamnings lögreglumanna hafi verið gerðir stofnanasamningar milli einstakra lögregluembætta og stéttarfélaga lögreglumanna. Meðal þeirra samninga sé stofnanasamningur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglufélags Reykjavíkur, dagsettur 14. febrúar 2011, um vinnutíma á sólarhringsvöktum. Í 9. gr. samningsins sé vísað til yfirlýsingar lögreglustjórans um líkamsrækt og þjálfun lögreglumanna í vinnutíma. Í umræddri yfirlýsingu í viðauka V við samninginn segi eftirfarandi:
„LRH leggur áherslu á að lögreglumenn séu á hverjum tíma færir um að sinna öllum þeim verkefnum sem upp koma í starfi. Embættið hvetur því til líkamsþjálfunar en einnig til annarra æfinga eins og skotæfinga, handtöku- og sjálfsvarnaræfinga svo dæmi séu nefnd.
Lögreglumönnum skal því gefast kostur á að stunda slíkar æfingar í vinnutíma eftir því em verkefnastaða leyfir og samkvæmt heimild frá stjórnanda hverju sinni.“
Stefnandi telur ljóst af tilvitnuðu samkomulagi að beinlínis sé ætlast til þess af hálfu stefnda og embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lögreglumenn stundi líkamsrækt og að slík líkamsrækt fari fram á vinnutíma og sé þar með hluti af störfum lögreglumanna. Þegar ákvæði greinar 7.5.1 í kjarasamningi lögreglumanna og viðauki V í stofnannasamningum séu skýrð saman, sé ljóst að lögreglumenn eigi rétt á bótum vegna líkamstjóns og slysa sem þeir verða fyrir við slíkar æfingar á vinnutíma.
Þá byggir stefnandi á því að skýra verði ákvæði kjarasamnings lögreglumanna með hliðsjón af bókunum, sem gerðar hafi verið samhliða gerð kjarasamninga, og samningum um framlengingu á kjarasamningum. Í bókun 2 með samkomulagi ríkissjóðs og Landsambands lögreglumanna um framlengingu á kjarasamningi frá 22. október 2008, sem enn fylgi núgildandi kjarasamningi, sé kveðið á um að vegna eðlis lögreglustarfa sé lögreglumönnum nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu formi og hafa tækifæri til að viðhalda því. Þá segir að það sé sameignlegt markmið aðila, þ.e. stefnda og Landsambands lögreglumanna, að lögreglumenn stundi reglubundna líkamsþjálfun og uppfylli tilteknar samræmdar kröfur sem taki mið af því við hvaða aðstæður þeir starfa. Samkvæmt bókuninni hafi lögregluembættunum, í samráði við lögreglumenn, verið falið að útfæra með hvaða hætti lögreglumönnum yrði auðveldað að sinna þessari þjálfun.
Í fylgiskjali 2 með samkomulaginu sé að finna nánari útfærslu á bókun 2 og þar sé kveðið á um að lögreglumenn eigi rétt á sérstakri launagreiðslu, svokölluðu þrekálagi, standist þeir þrekpróf. Í reglum Lögregluskóla ríkisins frá 2009 sé kveðið á um útfærslu á þrekprófi lögreglumanna en það sé í fimm hlutum sem reyni á styrk og þol lögreglumanna. Nánar tiltekið sé prófað í bekkpressu, hnébeygju, niðurtogi, uppsetum, hlaupi og sundi. Stefnandi byggir á því að lyftingaæfingar lögreglumanna á vinnutíma séu hluti af líkamsþjálfun samkvæmt kjarasamningi og undirbúningi lögreglumanna undir þrekpróf og teljist þar af leiðandi hluti af störfum þeirra.
Fyrir liggi að þegar stefnandi slasaðist hafi hann verið í lyftingaaðstöðu á vinnustað sínum á vinnutíma að uppfylla fyrrnefndar kröfur sem til hans séu gerðar um að viðhalda góðu líkamlegu ástandi. Þá hafi stefnandi verið að undirbúa sig undir kjarasamningsbundið þrekpróf sem hafi verið komið á fót af lögregluembættunum og stefnda gagngert til að stuðla að bættu líkamlegu ástandi lögreglumanna. Stefnandi telur því ótvírætt að hann teljist hafa verið við störf umrætt sinn í skilningi grein 7.5.1 í kjarasamningnum þegar hann slasaðist. Með vísan til framangreinds telur stefnandi að tjón hans sé bótaskylt úr hendi stefnda á grundvelli kjarasamningsins.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að gögn málsins og yfirlýsingar af hálfu embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu beri með sér að embættið hafi litið svo á að stefnandi hafi verið við vinnu sem lögreglumaður í skilningi 30. gr. lögreglulaga og kjarasamnings lögreglumanna þegar hann slasaðist. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dagsettri 8. janúar 2013, sem undirrituð sé af fulltrúa starfsmannahalds lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, komi fram að stefnandi hafi slasast „við vinnu“ og hafi slysstaður verið tilgreindur á vinnustað hans að Hverfisgötu 115 í Reykjavík. Sama gildi um tilkynningu embættisins til Vinnueftirlits ríkisins en þar sé slys stefnanda sagt hafa átt sér stað í vaktavinnu. Með hliðsjón af þessum yfirlýsingum vinnuveitanda stefnanda sé ótvírætt að stefnandi hafi verið við vinnu sem lögreglumaður þegar slysið varð.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi um árabil viðurkennt bótaskyldu á grundvelli 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi lögreglumanna vegna slysa sem lögreglumenn hafa orðið fyrir á íþróttaæfingum. Í þeim tilvikum hafi einu gilt hvort um slys við lyftingaæfingar, knattspyrnu eða aðra íþróttaiðkun hafi verið að ræða. Með því hafi stofnast venja um skýringu á ákvæðinu og túlkun aðila á gildissviði þeirra og geti stefndi ekki vikið frá slíkri venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna, án skýrrar lagaheimildar eða breytingar á ákvæðum kjarasamninga. Stefndi sé því bundinn af fyrri framkvæmd sinni og skýringu á hinum umdeildu ákvæðum en það leiði til bótaskyldu stefnda á tjóni stefnanda.
Í fimmta lagi hafnar stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að bótaábyrgð samkvæmt 30. gr. lögreglulaga og grein 7.5 í kjarasamningi lögreglumanna sé bundin við „framkvæmd lögreglustarfa“. Slys stefnanda hafi átt sér stað þegar hann teljist hafa verið við störf sem lögreglumaður, svo sem þau séu skilgreind í lögum og kjarasamningi. Þá bendir stefnandi á að hugtakið „framkvæmd lögreglustarfa“ sé hvergi skilgreint í lögum eða kjarasamningi og því sé óljóst til hvers stefndi vísi með því. Óljós afstaða stefnanda um það hvað teljist lögreglustörf og hvað ekki, sé því haldlaus og feli í sér verulega þrengingu á gildissviði 30. gr. lögreglulaga, án stoðar í orðalagi ákvæðisins eða kjarasamningi. Þá sé engan stuðning fyrir slíkri þrengingu að finna í stofnannasamningum eða dómaframkvæmd.
Stefnandi byggir í sjötta lagi á því að þar sem 30. gr. lögreglulaga feli í sér lögboðna hlutlæga bótaábyrgð, eigi reglur vátryggingaréttar ekki við um slys stefnanda. Þetta taki m.a. til slysahugtaksins og reglna um óhappatilvik. Þá eigi reglur um eigin sök ekki við í málinu, sbr. einnig reglu 23 gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993. Því telur stefnandi að allt tjón, sem sannanlega megi rekja til starfs stefnanda, falli undir ákvæðið, þ.m.t. líkamstjón eins og álagsmeiðsli og brjósklos sem talin séu afleiðing líkamlegs álags í starfi.
Loks telur stefnandi að orsakatengsl milli slyssins og þess líkamstjóns, sem krafist sé bóta fyrir, séu sönnuð með matsgerð matsmanns og læknisvottorði Leifs Dungal, dagsettu 23. janúar 2012, þar sem fram komi að brjósklos stefnanda verði rakið til tognunar í baki í líkamsrækt. Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi ótvírætt og fullsannað að hann hafi verið við vinnu í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og stefnda og því beri stefndi hlutlæga bótaskyldu á líkamstjóni hans.
Stefnukrafan byggist á niðurstöðu örorkumatsgerðar dr. Atla Þórs Ólasonar, dagsettri 22. júní 2015. Stefnandi vísar til þess að hefð hafi verið fyrir því, með fullu samþykki stefnda, að afla mats eins læknis á afleiðingum slysa lögreglumanna og hafi uppgjör á slysabótum á grundvelli lögreglulaga iðulega byggst á slíkum mötum. Þá byggir stefnandi kröfur sínar um skaðabætur og fjárhæð bóta á ákvæðum 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
1) Þjáningabætur
Stefnandi styður kröfu sína um þjáningabætur við 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð hafi stefnandi veikur, án rúmlegu, frá 23. nóvember 2011 til 16. janúar 2012 eða í 55 daga. Þjáningabætur nemi því 100.100 krónum (55x1.820).
2) Varanlegur miski
Kröfu um bætur vegna varanlegs miska styður stefnandi við 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins metinn 3 stig. Miskabótafjárhæð, með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi, nemi 10.376.500 krónum. Vegna þessa þáttar krefjist stefnandi því greiðslu á samtals 311.295 krónum (10.376.500 x 3 stig).
3) Varanleg örorka.
Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, metin 3%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi þegar heilsufar hans í kjölfar slyssins teljist stöðugt, sé margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 12,701. Um tekjuviðmið sé byggt á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðað við launatekjur stefnanda í þrjú ár fyrir slysið, uppreiknaðar miðað við launavísitölu að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð, sbr. 1. mgr. 7. gr. Tekjur stefnanda árin fyrir slys hafi verið 6.038.937 krónur 2009, 6.531.220 krónur 2010 og 5.849.815 krónur 2010. Uppreiknaðar viðmiðunartekjur stefnanda, miðað við framagreindar forsendur, nemi 6.354.127 krónum. Bætur fyrir varanlega örorku reiknist því 2.421.113 krónur (6.354.127x12,701x3%).
4) Útlagður kostnaður.
Kröfu vegna útlagðs kostnaðar reisir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Útlagður kostnaður sé til kominn vegna öflunar skattframtala frá Ríkisskattstjóra en þau hafi verið stefnanda nauðsynleg til sönnunar tjóns síns og til rökstuðnings krafna sinna. Útlagður kostnaður stefnanda nemi samtals 3.250 krónum.
Samtals nemi stefnufjárhæð því 2.832.508 krónum (100.100+311.295+2.421.113 +3.250).
Stefnandi byggir vaxtakröfu sína á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Hann vísar til þess að samkvæmt ákvæðinu beri bætur vegna þjáninga og varanlegs miska 4,5% ársvexti frá slysdegi 23. október 2011 en bætur vegna varanlegrar örorku beri 4,5% ársvexti frá þeim degi þegar heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins teljist stöðugt, eða frá 23. febrúar 2015.
Um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að kröfubréf var sent stefnda, eða við þann 10. júlí 2016, sbr. 9. gr. vaxtalaga.
Stefnandi kveðst hafa fengið greiddar bætur frá Vátryggingafélagi Íslands hf. að fjárhæð 583.294 krónur þann 9. júlí 2015 vegna slysatryggingar lögreglumanna. Sú fjárhæð komi til frádráttar kröfu stefnanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi hins vegar ekki átt rétt á greiðslu örorkubóta frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem metin örorka sé undir 10%, sbr. 6. mgr. 34. gr. þágildandi laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og sé því enginn frádráttur vegna slíkra bóta.
Til viðbótar framangreindum lagaákvæðum og ákvæðum kjarasamninga og annarra samninga byggir stefnandi kröfur sínar á meginreglum samninga- og vinnuréttar og skaðabótaréttar. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnaðarkröfu til 129. og 130. gr. sömu laga. Um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndi reisir sýknukröfur sína á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi bar ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða.
Stefndi kveður ágreiningslaust að í máli þessu reyni á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Hann vísar til þess að í frumvarpi til laganna komi fram að vegna eðlis starfa lögreglumanna þyki eðlilegt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða þeim bætur vegna tjóns sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Þá sé vísað til þess hversu torvelt þeim kunni að reynast að sækja mál á hendur þeim sem tjóni hafi valdið. Reglan um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Ef vafi leiki á hvort lagaákvæði teljist mæla fyrir um hlutlæga ábyrgð, verði svo ekki talið vera nema sá skýringarkostur sé ótvíræður. Þá sé það eitt af meginatriðum við beitingu reglunnar um hlutlæga ábyrgð að sanna orsakatengsl milli þeirrar háttsemi sem hin hlutlæga ábyrgðarregla tekur til og tjóns.
Stefndi er sammála stefnanda um að ákvæði 7.5 hlutaðeigandi kjarasamnings feli í sér ítrekun og nánari útfærslu á hlutlægri ábyrgð stefnda. Það feli jafnframt í sér að skýra verði kjarasamningsákvæðið með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagagreininni. Þær röksemdir lúti öðru fremur að því eðli lögreglustarfsins að halda uppi lögum og reglu og afstýra brotum, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga, en ljóst sé að við framkvæmd þeirra starfa geti komið til líkamlegra átaka.
Stefndi vísar enn fremur til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. júní 2016 í máli nr. E-4045/2015 þar sem litið hafi verið svo á að ákvæði 30. gr. lögreglulaga væri undantekningarregla og að ákvæðið sem slíkt yrði að túlka nokkuð þröngt eða a.m.k. eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt orðanna hljóðan ætti ákvæðið einkum við þau tilvik þegar lögreglumaður væri við reglubundin störf og lyti boðvaldi yfirboðara sinna og einnig þegar lögreglumaður á bakvakt færi í útkall, eða undir öðrum kringumstæðum, þannig að hann sinnti löggæslustörfum. Með tilliti til þess hafi héraðsdómur talið að æfing sem hver og einn lögreglumaður skipulegði upp á sitt eindæmi og fyrir sjálfan sig félli ekki undir ákvæði 7.5.2 í hlutaðeigandi kjarasamningi þannig að bótaskylda yrði lögð á íslenska ríkið á hlutlægum grunni.
Að mati stefnda sé aðstaðan í máli þessu sambærileg við þá sem á reyndi í nefndri dómsúrlausn héraðsdóms. Stefndi vísar til þess að í dómnum hafi því verið hafnað að ríkissjóður bæri hlutlæga skaðabótaábyrgð á tjóni sem lögreglukona á bakvakt hafi orðið fyrir þegar hún slasaðist á hlaupabretti. Dómurinn hafi ekki fallist á að það, að halda sér í góðu formi, teldist til athafna sem lögreglumönnum væri skylt að sinna vegna starfa sinna, þótt þeir væru hvattir til að stunda líkamsþjálfun, m.a. með greiðslu sérstaks þrekálags. Lögreglumaðurinn hefði sjálfur ákveðið að fara á æfingu umrætt sinn og ekki hefði verið um skipulagða æfingu að ræða.
Stefndi telur að sambærileg sjónarmið eigi við í máli stefnanda þessa máls þar sem stefnandi hafi, að eigin sögn, sjálfur óskað eftir að fara á æfingu og fengið til þess leyfi yfirmanns. Enda þótt æfingin hafi átt sér stað á vinnutíma, sé hvorki hægt að líta svo á að stefnanda hafi verið skylt að fara á æfinguna né að um skipulagða æfingu hafi verið að ræða. Þá verði ekki litið svo á að æfing, sem hver og einn lögreglumaður skipuleggi upp á eindæmi sitt og fyrir sjálfan sig, falli undir hlutaðeigandi kjarasamningsákvæði þannig að stefndi verði bótaskyldur á hlutlægum grunni. Ekkert liggi fyrir um að æfingin hafi farið fram í umsjá eða undir eftirliti lögregluembættisins eða, eftir atvikum, félags lögreglumanna. Ekki fái nokkru breytt í því efni yfirlýsingar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem vísað sé til í stefnu, um að slysið hafi orðið í vinnutíma.
Stefndi kveðst ekki víkja frá venjuhelgaðri framkvæmd við uppgjör bótamála lögreglumanna með höfnun á bótaskyldu í þessu máli. Ekki sé óþekkt að starfsmenn, sem tilheyra öðrum starfsstéttum, stundi hreyfingu á vinnutíma, án þess að það verði beinlínis talið hluti af starfsskyldum þeirra. Með því að gefa lögreglumönnum kost á að stunda líkamsæfingar í vinnutíma að því leyti sem verkefnastaða lögreglunnar leyfi, sé verið að greiða götu þeirra til að halda sér í formi og til að fá greitt þrekálag.
Þá vísar stefndi til þess að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni við lyftingaæfingar en engin vitni hafi verið að atvikinu. Í upplýsingaskýrslu Guðmundar Inga Rúnarssonar lögregluvarðstjóra komi ekkert fram um að stefnandi hafi slasast á þeirri líkamsræktaræfingu sem hann hafi fengið heimild til að fara á, auk þess sem fram komi í stefnu að stefnandi hafi ekki leitað læknis dagana eftir atvikið. Samkvæmt örorkumatsgerð dr. Atla Þórs Ólasonar frá 22. júní 2015 hafi stefnandi verið kominn með brjósklos þegar atvikið átti sér stað og hefði leitað á heilsugæslu 8. september 2011 vegna bakóþæginda sem hann tengdi við umferðarslys. Þá hafi segulómmynd af mjóbaki frá 15. desember 2011 sýnt sama útlit og rannsókn frá 15. ágúst 2011 sem leitt hefði í ljós brjósklos. Að mati stefnda valdi þessi atvik verulegri óvissu um orsakir tjónsins, auk þess sem þau gefi tilefni til að ætla að stefnandi hefði vegna bakvandamála sinna átt að gæta tilhlýðilegrar varúðar, svo sem með því að stunda lyftingar undir eftirliti viðeigandi fagaðila. Það að stefnandi hafi ekki gert það, geti enginn annar borið ábyrgð á en hann sjálfur.
Verði ekki fallist á kröfu um sýknu krefst stefndi þess að kröfur stefnanda sæti verulegri lækkun með tilliti til eigin sakar stefnanda og óvissu um orsakatengsl. Í greinargerð sinni áskildi stefndi sér jafnframt rétt til að gera við meðferð málsins athugasemdir við og afla gagna um forsendur, sem búa að baki útreikningi stefnanda á einstökum tjónsliðum, svo sem útreikningi á varanlegri örorku, eftir atvikum með dómkvaðningu. Þá var í greinargerð skorað á stefnanda að leggja fram allar upplýsingar um þær greiðslur, sem hann hefði móttekið eða hafi átt rétt á og dragast eigi frá bótum, sbr. einkum 2. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Loks mótmælir stefndi kröfum stefnanda um dráttarvexti af kröfunni, auk þess sem stefndi telur að bætur úr sjúkratryggingu launþega eigi að dragast beint frá höfuðstól áður en vextir séu reiknaðir af fjárhæðinni.
Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi gáfu skýrslur stefnandi málsins og Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og þurfa þykir.
Eins og áður er getið eru helstu málsatvik ágreiningslaus og hafa þau verið rakin í kafla II hér að framan. Þá er ágreiningslaust að í máli þessu reynir á hlutlæga bótaskyldu íslenska ríkisins samkvæmt 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ákvæði greinar 7.5 í gildandi kjarasamningi Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs þar sem kveðið er á um að lögreglumenn eigi rétt til bóta fyrir meiðsli og tjón sem þeir verði fyrir vegna starfs síns. Þá lýstu lögmenn beggja aðila því yfir í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð að ekki væri tölulegur ágreiningur í málinu.
Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að samkvæmt hinni hlutlægu ábyrgð 30. gr. lögreglulaga sé stefndi skaðabótaskyldur vegna alls líkamstjóns sem lögreglumenn verða fyrir í vinnutíma, án tillits til sakar. Skýra verði ákvæðið þannig að öll tjónsatvik, sem eigi sér stað meðan lögreglumaður er því störf, eigi hér undir, óháð tegund tjóns eða orsök. Þá hafi stefnandi verið á vakt þegar slysið varð og teljist því hafa verið að störfum í skilningi greinar 7.5 í kjarasamningum. Þá vísar stefnandi til ákvæða c. liðar 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga, sem mælir fyrir um að lögreglumenn skuli vera svo líkamlega á sig komnir að þeir geti sinnt embættinu, og því sé lögreglumönnum nauðsynlegt að stunda líkamsrækt. Af þeim sökum sjái lögregluembætti lögreglumönnum fyrir íþróttaaðstöðu og líkamsræktin fari iðulega fram á vinnutíma. Jafnframt séu laun þeirra m.a. ákveðin með tilliti til líkamlegrar getu sem mæld sé með þrekprófum. Af hálfu stefnanda er öllum málsástæðum stefnda í greinargerð mótmælt.
Stefndi reisir kröfur sínar á því að slys stefnanda verði rakið til aðstæðna sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á og að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi vísar til þess að regla 30. gr. lögreglulaga um hlutlæga ábyrgð sé undantekningarregla og verði ekki beitt nema sýnt sé fram á gild rök fyrir því að hún eigi við. Það hafi ekki verið gert í máli þessu, auk þess sem ekki liggi fyrir sönnun orsakatengsla milli háttsemi stefnanda umrætt sinn og tjóns hans. Þá beri að skýra ákvæði greinar 7.5 í kjarasamningnum með hliðsjón af þeim undirstöðurökum sem búi að baki lagaákvæðinu. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi jafnframt til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4045/2015 sem kveðinn var upp 24. júní 2016.
Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skal ríkissjóður bæta lögreglumönnum líkams- og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Að baki þessari lagareglu búa sjónarmið um að lögreglumönnum sé tryggð greiðsla svo þeir þurfi ekki að sækja bætur á hendur þeim sem hafa valdið þeim tjóni. Hefur þá verið litið til þess að slík mál geti tekið langan tíma og að engin trygging sé fyrir því að tjónvaldur reynist borgunarmaður. Eðlilegt hefur þótt að hafa í lögum sérstakt ákvæði sem skyldar ríkissjóð til að greiða bætur í slíkum tilvikum. Ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt ákvæðinu er hlutlæg, að uppfylltum öðrum bótaskilyrðum.
Við mat á því hvort 30. gr. lögreglulaga eigi við í tilviki stefnanda verður að leggja mat á það, hvort hann teljist hafa orðið fyrir líkamstjóni sínu vegna starfs síns. Hér verður því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hafi umrætt sinn verið við störf í skilningi 30. gr. laganna þegar hann slasaðist.
Litið hefur verið svo á að ákvæði 30. gr. lögreglulaga eigi samkvæmt orðanna hljóðan einkum við um þau tilvik þegar lögreglumaður er við reglubundin störf og lýtur boðvaldi yfirboðara sinna, þegar það á við. Einnig hefur verið talið að hún eigi við þegar lögreglumaður er kallaður til starfa þegar hann er á bakvakt eða undir öðrum kringumstæðum þannig að hann sinni löggæslustörfum.
Hér verður að líta til þess sem óumdeilt er í málinu og ljóst af gögnum að stefnandi var á reglubundinni næturvakt frá kl. 23.00 hinn 22. nóvember 2011 til kl. 07.50 hinn 23. sama mánaðar. Framlögð gögn bera með sér að stefnandi telst hafa orðið fyrir slysi eða slasast á vinnutíma. Þannig er því lýst í lögregluskýrslu, sem gerð var vegna slyss stefnanda, að stefnandi hafi tilkynnt um að hann hefði lent í slysi við æfingu á vinnutíma og er þar skráð að slysið hafi orðið 23. nóvember 2011 kl. 02.00. Þá kemur fram í tilkynningu um slysið til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er fyrir hönd lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. janúar 2013, að stefnandi hafi verið við vinnu þegar slysið varð og að slysið hafi orðið á vinnustað á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, auk þess sem sérstaklega er þar tekið fram að það hafi verið í æfingasal í kjallara. Í tilkynningu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Vátryggingafélags Íslands hf. um tjón stefnanda, dagsettri 8. janúar 2013, er spurningu um hvar slysið hafi orðið svarað með því að haka í reitinn: „Í vinnutíma/á beinni leið í/úr vinnu“. Samkvæmt ódagsettri tilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlitsins er stefnandi tilgreindur sem hinn slasaði og slysið sagt hafa orðið kl. 02.00 hinn 23. nóvember 2011. Jafnframt er því lýst að stefnandi hafi verið við æfingar í vinnutíma í líkamsræktaraðstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í kjallara Hverfisgötu 113-115 þegar hann hafi skyndilega fundið fyrir verk og dofa í baki og niður í vinstri fót. Að þessu gættu verður að líta svo á að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í vinnutíma á skipulagðri lögregluvakt.
Í málinu liggur frammi hluti kjarasamnings Landsambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Þar er í kafla 7.5 fjallað um skaðabótaskyldu ríkissjóðs. Ekki verður annað ráðið af ákvæðum greina 7.5.1 og 7.5.2 en að með þeim hafi réttarstaða lögreglumanna verið bætt enn frekar og gildissvið hinnar hlutlægu reglu 30. gr. lögreglulaga víkkað með frjálsum samningum lögreglumanna við vinnuveitanda sinn. Samkvæmt grein 7.5.1 eiga lögreglumenn rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Í grein 7.5.2 segir síðan að lögreglumenn skuli teljast að störfum, auk venjulegrar vinnuskyldu, þegar þeir eru á leið í eða úr vinnu, sitja lögregluskóla og lögreglunámskeið eða stunda lögregluæfingar, íþróttir og kappleiki á vegum félaga lögreglumanna. Hið sama gildir ef þeir ráðast í lögregluaðgerðir að eigin frumkvæði sem lögreglumenn.
Í bókun 2 með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, dagsettri 30. júní 2011, segir að vegna eðlis lögreglustarfa sé lögreglumönnum nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu formi og hafa tækifæri til að viðhalda því. Þetta sé áréttað bæði með greiðslu þrekálags samkvæmt fylgiskjali 2 með kjarasamningi aðila frá 22. október 2008 í starfsmannastefnu lögreglunnar, áherslum Landssambands lögreglumanna og sé rökrétt framhald af inntökuskilyrðum Lögregluskólans. Síðan segir í bókuninni að aðilar séu sammála um að vísa því til lögregluembætta að útfæra, í samráði við Landssamband lögreglumanna, með hvaða hætti þeim verði auðveldað að sinna líkamsþjálfun í starfstíma sínum eftir því sem við verði komið.
Í yfirlýsingu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og fyrrverandi formanns Félags yfirlögregluþjóna, dagsettri 16. október 2017, er lýst skilningi aðila að framangreindum kjarasamningi á kjarasamningnum og samkomulagi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglufélags Reykjavíkur um vinnutíma lögreglumanna á sólarhringsvöktum. Þar kemur fram að við gerð framangreinds samkomulags hafi það verið skilningur aðila að líkamsrækt á vinnutíma, m.a. til undirbúnings fyrir þrekpróf og til að stuðla að almennri hreysti lögreglumanna vegna starfa þeirra, væri hluti af starfsskyldum þeirra. Sömuleiðis hafi þeir talið að við slíkar æfingar teldust lögreglumennirnir við störf í skilningi 30. gr. lögreglulaga og greinar 7.5 í kjarasamningnum. Líkamsræktaraðstöðu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hafi verið komið upp í þeim tilgangi að lögreglumenn gætu stundað líkamsrækt á vinnutíma í þessu skyni. Fram er komið í málinu að vitnið, Geir Jón, undirritaði framangreint samkomulag fyrir hönd Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar litið er til alls framangreinds er það mat dómsins að þær líkamsæfingar, sem stefnandi lagði stund á þegar hann slasaðist umrætt sinn, verði felldar undir ástundun lögregluæfinga í skilningi greinar 7.5.2 í margnefndum kjarasamningi og telst stefnandi því, eftir orðalagi ákvæðisins, hafa verið að störfum þegar slysið varð. Í ljósi alls ofangreinds þykir ekki ráða hér úrslitum þótt þessi tiltekna lögregluæfing hafi ekki verið skipulögð eða sérstaklega til hennar mælst af yfirboðara eða öðrum aðilum. Liggur enda fyrir að til hennar fékkst leyfi stjórnanda næturvaktar stefnanda umrætt sinn, svo sem stefnandi lýsti í skýrslu sinni hér fyrir dóminum og hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Að þessu virtu verður því að líta svo á að uppfyllt sé það skilyrði fyrir hlutlægri bótaskyldu samkvæmt 30. gr. lögreglulaga að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna starfs síns. Í ljósi alls þess sem rakið hefur verið og þegar litið er til orðalags og gildissviðs framangreindra ákvæða laga og kjarasamnings þykir hér engu breyta þótt tjón stefnanda verði ekki rakið til þeirrar sérstöku hættu sem framkvæmd lögreglustarfa fylgir.
Um orsakatengsl milli tjóns síns og umrædds slyss vísar stefnandi til örorkumats dr. Atla Þórs Ólasonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsetts 22. júní 2015, sem aflað var samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Í matsgerðinni er rakið efni læknisfræðilegra gagna, m.a. úr sjúkraskrá stefnanda vegna bakverkja sem stefnandi lýsti 8. september áður en umrætt slys varð, og tengdi umferðslysi frá því fyrr á sama ári. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er farið ítarlega yfir framangreind gögn. Þá er tekið fram að við mat á varanlegu líkamstjóni af völdum vinnuslyss 23. nóvember 2011 sé fyrst litið til þess að stefnandi hefði verið með mjóbaksóþægindi fjórum mánuðum fyrir slysið og gerð hafi verið segulómskoðun af lendhrygg sem hafi leitt í ljós brjósklos í neðsta mjóhryggjarliðbili. Jafnframt er litið til þess að á árinu 2008 hafi stefnandi hlotið væga mjóbakstognun í umferðarslysi og hafi þá verið metinn til 3% varanlegs miska. Matsmaðurinn telur að við líkamsræktaræfinguna 23. nóvember 2011 hafi stefnandi hlotið viðbótaráverka á mjóbak sem hafi leitt til skyndilegs verkjar í mjóbaki með útleiðslu niður í vinstri ganglim. Núverandi einkenni megi að hluta til rekja til slyssins í nóvember 2011, einkum verkjaaukningu en síður til einkenna um brjósklosið. Matsmaðurinn kemst því að þeirri niðurstöðu að slasaði hafi við slysið 23. nóvember 2011 orðið fyrir skaða þar sem hann hafi hlotið viðbótaróþægindi í mjóbak sem litið verði á sem tognungaráverka með viðbótareinkennum sem metin verði til 3% varanlegs miska og 3% varanlegrar örorku. Fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda er jafnframt byggð á þessari niðurstöðu.
Að þessu virtu og þegar jafnframt er litið til annarra gagna málsins sem bera með sér að stefnandi leitaði til læknis vegna bakverkja sem hann rakti til slyssins, er það mat dómsins að stefnanda hafi tekist að sanna orsakatengsl milli umrædds slyss og tjóns hans. Þá hefur stefnandi gefið haldbæra skýringu á því af hverju fyrsta læknisheimsókn hans átti sér ekki stað fyrr en 16. desember 2011, svo sem gögn málsins bera með sér. Hann kvaðst í fyrstu hafa vonast til að bakverkirnir myndu lagast en síðan pantað sér tíma hjá heimilislækni nokkrum dögum síðar sem ekki hefði fengist fyrr. Þykja þessi atvik því ekki ráða úrslitum um sönnun orsakatengsla, auk þess sem ekkert er fram komið í málinu sem leiðir líkur að því að umræddar líkamsæfingar stefnanda hafi ekki orsakað það viðbótartjón sem stefnandi krefst bóta fyrir.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni stefnanda sem framlögð örorkumatsgerð ber með sér. Ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þá málsástæðu stefnda að stefnandi hafi við framkvæmd lyftingaæfinga umrætt sinn af ásetningi eða stórfelldu gáleysi átt sök á tjóni sínu að hluta. Verður þeirri málsástæðu stefnda því hafnað sem og kröfu hans um að bætur til stefnanda verði lækkaðar á grundvelli eigin sakar stefnanda.
Eins og áður er getið er fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda byggð á niðurstöðum framlagðrar örorkumatsgerðar. Fyrir liggur að enginn ágreiningur er milli aðila um tölulegan útreikning bótakröfunnar. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Verður krafa stefnanda því tekin til greina eins og hún er sett fram í stefnu og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.475.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 2.832.508 krónur með 4,5% ársvöxtum af 411.395 krónum frá 23. nóvember 2011 til 23. febrúar 2012 og af 2.832.508 krónum frá þeim degi til 10. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.835.758 krónum frá 10. júlí 2016 til greiðsludags, allt að frádregnum 583.294 krónum sem greiddar voru þann 9. júlí 2016.
Stefndi greiði stefnanda 1.475.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.