Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2011
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 20. október 2011. |
|
Nr. 256/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
X var gefið að sök að hafa með ofbeldi þvingað A til samræðis og til að hafa við sig munnmök. Framburður X þótti ótrúverðugur þar sem töluverðs ósamræmis gætti í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi um klæðaburð A á meðan brotinu stóð. Einnig þótti framburður hans ekki vera í samræmi við staðsetningu lífsýna á vettvangi, áverka A eða samskipti þeirra á milli í kjölfar hins ætlaða brots. Aftur á móti þóttu framangreind atriði vera í samræmi við frásögn A og var framburður hennar talinn vera trúverðugur. Var X því fundinn sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og honum gert að sæta fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. X var einnig gert að greiða A 1.000.000 krónur auk vaxta í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A krefst þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu hennar verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 621.098 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2011.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 17. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. nóvember 2010, á hendur X, kt.[...], áður að [...], [...], en nú að [...], [...], „fyrir nauðgun, með því að hafa að morgni sunnudagsins 7. mars 2010, á heimili A að [...], [...], með ofbeldi þvingað hana til samræðis og til að hafa við sig munnmök. Afleiðingar árásarinnar voru þær að A hlaut eymsli í sjalvöðva í herðum, utarlega á vinstri öxl, eymsli og mar á mjaðmakömbum, eymsl og mar á enni og rispur á framhandleggjum.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 194. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 7. mars 2010 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa verði lækkuð. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu mætti brotaþoli, A, á lögreglustöðina í [...] hinn 18. mars 2010 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna nauðgunar. Í kæruskýrslu sinni hjá lögreglu þennan dag skýrði brotaþoli svo frá að hún og ákærði hefðu verið í sambandi frá því í ágúst 2008 og fram á mitt ár 2009, en þá hefðu þau slitið samvistum.
Í skýrslu sinni greindi brotaþoli svo frá að undir morgun hinn 7. mars 2010 hefði ákærði hringt í hana og beðið hana um að sækja sig til [...], en hann hefði verið að skemmta sér þar og hefði ekkert far heim. Hún hefði sjálf verið búin að neyta áfengis og því hefði hún ætlað að útvega ákærða far með öðrum hætti. Þegar til kom hefði ákærði hins vegar verið búinn að útvega sér far með einhverjum manni, sem brotaþoli kunni ekki deili á. Í samtalinu hefði ákærði óskað eftir að fá að koma í heimsókn til hennar og brotaþoli í fyrstu sagt nei, en síðan fallist á að ákærði kæmi við hjá henni áður en hann héldi til síns heima, en hann væri búsettur við sömu götu í [...].
Þegar ákærði hefði komið til hennar hefði hann strax haft í frammi kynferðislega tilburði gagnvart henni, en hún sagðist jafnóðum hafa gert honum grein fyrir því að slíkt væri ekki í boði enda hefði ákærði verið í sambandi við aðra stúlku og átt von á barni með henni í júní. Ákærði hefði þrátt fyrir tilmæli brotaþola haldið áfram og elt hana inn í eldhús og gert ítrekaðar tilraunir til að kyssa hana og sagt við hana margoft að hann vildi hafa við hana kynmök. Brotaþoli hefði á endanum slitið sig lausa frá ákærða og farið inn í stofu, en hann fylgt á eftir. Í stofunni hefði ákærði orðið harðhentari og tekið um handleggi brotaþola, snúið upp á þá og rifið í hár hennar. Hann hefði einnig skellt henni upp við vegg og reynt að fara með hendur sínar inn undir peysu hennar og einnig ofan í buxur hennar. Brotaþoli tjáði lögreglu að hún hefði margoft beðið ákærða um að hætta en hann neitað og endurtekið að hann langaði til að hafa við hana kynmök.
Brotaþoli greindi frá því að þau ákærði hefðu í þessum átökum borist inn í anddyrið og þá hefði ákærði verið búinn að taka lim sinn út. Hann hefði snúið brotaþola niður á gólfið og þvingað hana til munnmaka. Henni hefði tekist að ýta honum frá sér og standa upp og jafnframt beðið hann ítrekað um að hætta. Ákærði hefði þá tekið um hönd brotaþola og snúið upp á hana og leitt hana inn í eldhús. Þar hefði ákærði kippt peysu og bol brotaþola upp yfir höfuð hennar þannig að hendur hennar hefðu verið fastar. Hún hefði ítrekað beðið ákærða um að hætta en hann hefði ekki hlustað á hana. Þegar þarna var komið sögu hefði ákærði beitt hana meiri hörku, þ.e. rifið í hár hennar, snúið upp á handleggi hennar, klórað og skellt henni á borð. Við eldhúsinnréttinguna hefði hann svo haldið henni með valdi á meðan hann þvingaði lim sínum inn í leggöng hennar. Hún hefði reynt að berjast á móti með því að spyrna sér í burtu og beðið ákærða um að hætta, en hann hefði ekki hlustað og snúið meira upp á handleggi hennar. Ákærði hefði síðan tekið lim sinn út úr leggöngunum og byrjað að fróa sér á meðan hann hélt brotaþola. Hún hefði reynt að ýta ákærða í burtu og tekið um hendur hans og beðið hann að hætta, en án árangurs. Á endanum hefði hún gefist upp og beðið þangað til ákærði lauk sér af. Ákærði hefði fengið sáðlát yfir maga og læri brotaþol, en þá hefði hann sleppt henni og hún farið inn á baðherbergi. Ákærði hefði komið þangað, ekkert sagt en kysst hana bless.
Brotaþoli tjáði lögreglu að hún hefði haft sms-símasamskipti við ákærða daginn eftir og framvísaði farsíma sínum hjá lögreglu.
Þá sagði brotaþoli að á mánudeginum eftir hina ætluðu nauðgun hefði hún brotnað niður í skólanum og fengið að fara heim. Hefði hún sagt foreldrum sínum frá því sem gerðist. Hún hefði í fyrstu leitað á [...], en þar hefði verið pantaður tími fyrir hana á neyðarmóttöku vegna nauðgunar.
Á meðal gagna málsins er skýrsla B læknis um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola hinn 8. mars 2010 kl. 19.30. Þar er haft eftir brotaþola að brotið hafi verið framið eftir klukkan 6.30 daginn áður. Hann hafi smogið sér inn til hennar og byrjað að kyssa hana og hún strax sagt nei, hann mætti þetta ekki. Hann hafi tekið utan um hana, hún hafi sjálf verið í hettupeysu og buxum. Þau hafi farið inn í eldhús þar sem hún hafi verið að laga te, en þar hafi hann aftur tekið utan um hana, snúið henni við og kysst hana. Hún hafi sagt nei. Hann hafi þá orðið reiður og rifið í hárið. Þrátt fyrir neitun hennar hafi hann haldið áfram og skellt henni utan í vegg. Þá hafi þau farið inn í stofu og hún haldið áfram að segja nei. Hann hafi skellt henni út í vegg og reynt að fara inn á hana. Hann hafi snúið upp á handleggi hennar, snúið henni við, skellt henni upp að vegg, reynt að taka niður buxur hennar og tekið liminn út. Hún hafi haldið áfram að mótmæla og reynt að losa sig. Farið aftur inn í eldhús, en þar hafi hann rifið í hár hennar, skellt henni upp að innréttingu, tekið hana úr bolnum og hafi hún þá verið berbrjósta. Hann hafi m.a. sleikt brjóst hennar. Hann hafi skellt henni utan í vegg og á borð, rifið niður um hana buxurnar og hafi þær verið á hælum hennar. Þá hafi hann stungið limnum inn í leggöng hennar, en ekki haft sáðlát, og hafi hún ýtt honum frá sér og barist á móti. Hann hafi reynt að þvinga hana til að hafa við sig munnmök. Síðan hafi hann fróað sér og haft sáðlát yfir maga hennar og læri. Hafi sæði lekið niður á sokka hennar. Að lokum hafi hann farið.
Um ástand við skoðun segir í skýrslunni að brotaþoli hafi setið í hnipri. Hún hafi átt erfitt með að segja frá, en gefið greinargóða sögu. Brotaþoli hafi grátið og verið með hroll. Þá hafi brotaþola greinilega þótt óþægilegt að láta snerta sig þegar hún var skoðuð.
Um áverka og önnur verksummerki kemur fram að við þreifingu hafi brotaþoli verið með eymsli í sjalvöðva í herðum og í vöðvum utarlega á vinstri öxl. Þá hafi brotaþoli verið með eymsli við þreifingu og blátt mar beggja vegna á mjaðmakömbum, þó meira áberandi vinstra megin. Á báðum framhandleggjum hafi verið húðrispa. Innan á vinstri framhandlegg hafi verið tveggja sm rispa og utan á hægri framhandlegg hafi sömuleiðis verið tveggja sm rispa. Loks hafi verið eymsli við þreifingu og mar hægra megin á enni, ca. 3x3 sm.
Í skýrslunni kemur fram að buxur og sokkar frá brotaþola hafi verið teknir til skoðunar. Þá hafi verið tekin sýni úr leggöngum/leghálsi og lífsýni af húð.
Niðurstöður læknisins eru eftirfarandi: „23 ára gömul kona sem fær fyrrv. kærasta í heimsókn sem ræðst á hana, á hennar heimili. Lýsing á líkamsmeiðingum samsvara áverkum sem koma fram við skoðun. Hann mun hafa þvingað lim í leggöng en haft sáðlát á kvið og læri hennar. Einnig sleikt brjóst hennar. Tekin eru sýni frá leggöngum, brjóstum, kvið og læri. Sýni tekin í chlamydiu og lekanda, ásamt þvag og blóðsýni. Fær neyðargetnaðarvörn ásamt sýklalyfjum.“
Á meðal gagna málsins er skýrsla C rannsóknarlögreglumanns, dags. 23. mars 2010, um leit að lífsýnum. Samkvæmt skýrslunni fór leitin fram hinn 22. sama mánaðar í eldhúsi í íbúð brotaþola að [...] í [...]. Svörun hafi komið fram á þremur stöðum, þ.e. á gólfi nærri eldhúsvaski, á skápshurð neðan við eldhúsvask og á skáphurð hægra megin til hliðar við þá fyrrnefndu, eins og segir í skýrslunni. Tekin hafi verið sýni á þessum stöðum.
Þá eru á meðal gagna málsins ljósmyndir af fatnaði brotaþola, svo og af vettvangi þar sem sjá má m.a. skemmdir á hurð á fataskáp í anddyri. Þá er á meðal gagnanna afstöðumynd af íbúð brotaþola.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 5. maí 2010, kemur fram að sýni, sem tekin voru á vettvangi, hafi verið tekin til rannsóknar 4. maí 2010. Niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið sú að sýni, sem tekið var af eldhúsgólfi, gaf jákvæða svörun við prófunum sem sæði og smásjárskoðun leiddi í ljós að sæðisfrumur voru í sýninu. Sýni sem tekin voru af skápahurð undir vaski og skápahurð á hornskáp gáfu hins vegar ekki svörun við prófunum sem sæði.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 19. maí 2010, kemur fram að sýni, sem safnað var á neyðarmóttöku hinn 8. mars sama ár, hafi verið tekin til rannsóknar hinn 3. maí 2010. Niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið sú að á brún á aftanverðum hægri sokk fannst blettur sem gaf jákvæða svörun sem sæði og frekari rannsókn leiddi í ljós að sæðisfrumur voru í sýninu. Einnig voru sæðisfrumur í sýnum, sem tekin voru af maga og hægra læri brotaþola. Sýni sem tekin voru í leggöngum brotaþola gáfu hins vegar ekki svörun við prófunum sem sæði.
Sýni, sem tekið var af eldhúsgólfi og sýni af hægri sokk og af maga og hægra læri brotaþola, sem og stroksýni af brjóstum hennar voru send til DNA-rannsóknar í Svíþjóð. Með sýnunum voru einnig send samanburðarsýni úr brotaþola og ákærða. Óskað var eftir að sýnin yrðu rannsökuð með tilliti til þess hvort í þeim væri að finna lífsýni sem rekja mætti til karlmanns og þá hvort bera mætti DNA-snið sýnanna við DNA-snið hins grunaða. Einnig var óskað eftir því að stroksýni af brjóstum brotaþola yrðu rannsökuð með tilliti til þess hvort í þeim væri að finna amylasa úr munnvatni.
Í greinargerð lögreglu vegna DNA-rannsóknar Statens Kriminalteknisk Laboratorium, dags. 8. júlí 2010, segir að svar rannsóknarstofunnar hafi nú borist með bréfi, dags. 2. júlí 2010. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segi að sáðfrumur hafi komið í ljós í sýnum af eldhúsgólfi og hægra sokki, sem og af maga og hægra læri brotaþola. Greining á sýnunum hafi leitt í ljós að DNA-snið þeirra allra hafi verið hið sama og DNA-snið ákærða. Rannsókn á stroksýni af hægra brjósti hafi leitt í ljós að munnvatn var til staðar í sýninu, en ekki í stroksýni af vinstra brjósti. Í hvorugu sýnanna hafi verið nægilegt magn DNA til að greining á því væri möguleg.
Í samantekt vottorðs D sálfræðings, dags. 8. janúar 2011, segir eftirfarandi:
„A, 24 ára gamalli konu, var vísað til sálfræðiþjónustu Neyðarmóttöku LSH í sálfræðilegt mat og áfallahjálp af E á Neyðarmóttökunni á Bráðasviði LSH þann 8. mars 2010 í kjölfar meintrar nauðgunar sem átti sér stað þann 7. mars. A hefur hlotið 24 viðtöl á tímabilinu 30. mars 2010 til 6. janúar 2011 þar sem henni hefur verið veittur sálrænn stuðningur og formleg hugræn atferlismeðferð við einkennum áfallastreituröskunar og öðrum afleiðingum meintrar nauðgunar. Endurtekið greiningarmat hefur verið gert á afleiðingum meintrar nauðgunar. Viðmót og hegðun A bendir allt til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, bjargarleysi og hrylling í kjölfar meintrar nauðgunar. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að A þjáist af áfallastreituröskun (Post Traumatic Stress Disorder) í kjölfar meintrar nauðgunar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru vel þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll einsog nauðgun, líkamsárás, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum hennar og einnig móður, í viðtölum. Hún hefur ávallt virst hreinskilin og verið trúverðug og samkvæm sjálfri sér.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur A sýnt jákvæð viðbrögð við hugrænni atferlismeðferð við afleiðingum meintrar nauðgunar þar sem hún hefur sýnt vaxandi getu til að takast á við minningar og dregið hefur úr einkennum áfallastreitu. Þrátt fyrir þetta valda einkennin henni ennþá verulegri vanlíðan og truflun í daglegu lífi. Þykir ljóst að meint nauðgun hefur haft víðtæk og langvarandi áhrif á hana. Undirrituð gerir ráð fyrir að meðferðarvinna haldi áfram en ekki er hægt að segja með vissu hve langan tíma meðferð tekur eða hvort fullur bati náist.“
Loks er á meðal gagna málsins skýrsla lögreglu um skoðun á farsímatæki brotaþola, dags. 18. mars 2010. Þar kemur fram að síðdegis hinn 7. mars 2010 fóru eftirfarandi sms-skilaboð á milli síma brotaþola og viðtakanda, sem nefndur er X í símaskrá brotaþola:
Brotaþoli: „Leytadu ter hjalpar X sem fyrst!!“
X: „Ja“.
Sími brotaþola: „Tu getur ekki haldi afram ad gera mer tetta“.
X: „Ja en fekk eg tad med ter i nott eda???“
Sími brotaþola: „Please ekki koma med tad bull ad tu munir ekki hvad gerdist“.
X: „Eg man allveg ad eg reid ter en fekk eg tad???“
Sími brotaþola: „Ja“
X: „Ok hvert fekk eg tad???“
Sími brotaþola: „Skiptir tad fokkin mali X tu reidst mer ekki bara i gær tu gerdir meira en tad“
X: „Hvad gerdi eg“
Sími brotaþola: „Segjum bara ad eg er aum i hnakkanum, enninu og hondunum eftir slaksmalin vid tig svo er eg lika med sar a hendinni“
X:„Fyrirgefdu eg æltadi ekki ad meida tig...“
Sími brotaþola: „Nei X en eg veit ad eg er fyrir horku og allt tad en tegar eg gratbid tig um ad hætta ta er tad ad hætta ekki ad snua meira upp a hendina a mer og skella mer a bordid“
X: „Ok fyrirgefdu eg held ad vid verdum ad hætta ad tala saman i sma tima Tetta endar alltaf svona “
Sími brotaþola: Tetta tarf ekkert ad enda svona X, mer tykir gedveikt vænt um tig og tess vegna er eg ad segja tetta vid tig“
X: Ok og hvad vil tu gera i tessu “
Sími brotaþola: Hvad meinaru? Ertu ta ad tala um ad kæra eda“
X: „Ja eda eitthvad??
Síðar í skýrslunni koma eftirfarandi samskipti fram:
Sími brotaþola: „Veistu eg veit eiginlega ekki hvad eg a ad segja eg skil bara ekki hvad fær tig til ad gera tetta, er tetta tad sem æsir tig?
X: „Veit ekki en viltu seija mer hvert eg fekk tad??
Sími brotaþola: „Yfir mig.“
X: „Ja sæll kom mikid ur honum?“
Sími brotaþola: „Hefur einhvern timan komid litid ur honum?“
X: „Nei“
Sími brotaþola: „Nákvæmlega en af hverju eg? Af hverju ferdu ekki til F ?
X: „Veit ekki langar i horku og langar ad taka vel a .“
Síðar koma eftirfarandi samskipti fram í skýrslunni:
Sími brotaþola: „Omg tetta er i annad skiptid sem tu gerir mer tetta ertu ekki ad grinast i mer“
X: „Hvad“
Sími brotaþola: „Tu ert buin ad radast a mig adur en hættir fljotlega i fyrsta skiptid“
X: „Ha hvad attu vid “
Sími brotaþola: „Eg var ad muna ad eg hef lent i tvi adur ad eg segi nei vid tig og bid tig um ad hætta en tu hlustadir ekki“
X: „Ok eg man ekki eftir tvi“
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:
Ákærði neitaði sök. Hann sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að þau brotaþoli hefðu verið kærustupar. Umrædda nótt, þ.e. aðfaranótt 7. mars 2010, hefðu þau brotaþoli verið búin að tala saman í síma og senda hvort öðru sms-skilaboð, en þau hefðu bæði verið úti að skemmta sér, hún í [...] en hann í [...]. Hann sagðist síðan hafa spurt brotaþola hvort hún gæti reddað honum fari heim, en hún hefði ekki getað það þar sem hún hefði sjálf verið búin að neita áfengis. Ákærði sagðist þá hafa gengið af stað heim, en síðan fengið far. Hann hefði ákveðið að fara heim til brotaþola til að láta hana vita af því að hann væri kominn heim, en brotaþoli hefði haft áhyggjur af honum. Ákærði sagðist aðspurður hafa átt aðra kærustu á þessum tíma.
Þau brotaþoli hefðu síðan byrjað að tala saman og farið að kyssast og faðmast og síðan káfa hvort á öðru. Á meðan á þessu stóð hefðu þau verið stödd í forstofunni og eldhúsdyrunum. Hann sagði aðspurður að brotaþoli hefði verið í bol og buxum og sagði jafnframt að þau hefðu hvorug farið úr fötunum. Ákærði sagðist hafa káfað á brjóstum brotaþola utanklæða. Þá hefði brotaþoli haft við hann munnmök. Hann sagði að brotaþoli hefði einu sinni sagt honum að hætta, en síðan hefði hún haldið áfram, þ.e. að hafa við hann munnmök.
Ákærði sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis þegar þetta átti sér stað og brotaþoli einnig. Ákærði neitaði því að hafa beitt brotaþola harðræði. Hann neitaði því einnig að hefðu haft kynmök um leggöng. Hann sagði að þetta hefði endað með því að hann fékk fullnægingu við munnmök brotaþola og sagði að sæðið hefði farið á föt brotaþol og á gólfið. Þau hefðu þá verið stödd í forstofunni.
Skýrsla lögreglu um sms-samskipti frá 8. mars 2010, skjal nr. VI-1, var borin undir ákærða. Kvaðst ákærði kannast við þessi sms-samskipti. Hann kvaðst ekki geta skýrt skilaboðin: „Fyrirgefdu eg ætladi ekki ad meida tig “. Þá var ákærði spurður út í skilaboðin: „Veit ekki langar i horku og langar ad taka vel a “. Sagði ákærði að á meðan hann og brotaþoli voru saman hefði kynlíf þeirra verið mjög hart og þau hefðu bæði óskað eftir því að hafa það með þeim hætti. Hann sagði að þegar þau hefðu hætt saman hefðu þau samt haldið áfram að sofa saman. Hann sagði að brotaþoli hefði viljað láta taka fast á sér og hann hefði sjálfur oft verið með útklórað bak eftir hana.
Þá var ákærði spurður út í skilaboðin: „Eg man allveg ad eg reid ter en fekk eg tad???“ Var að hann beðinn um að skýra þau í ljósi þess að hann hefði nú borið um það að þau hefðu ekki haft kynmök um leggöng. Sagðist ákærði þá hafa notað þetta orð yfir það sem þau gerðu, þ.e. munnmökin og káfið.
Ákærði sagðist kannast við skilaboðin frá brotaþola þar sem hún hefði beðið hann um að leita sér hjálpar sem fyrst. Hann sagðist ekki geta skýrt af hverju brotaþoli sendi honum þessi skilaboð. Þá sagðist hann ekki vita hvað brotaþoli var að meina þegar hún sendi honum eftirfarandi skilaboð: „Tu getur ekki haldid afram ad gera mer tetta“ og „Skiptir tad fokkin mali X tu reidst mer ekki bara i gær tu gerdir meira en tad“, en hann sagðist muna eftir skilaboðunum. Þá sagðist hann muna eftir að brotaþoli sendi henni skilaboðin: „Segjum bara ad eg er aum i hnakkanum, enninu og hondunum eftir slaksmalin vid tig svo er eg lika med sar a hendinni“, en kvaðst ekki kannast við að hafa beitt brotaþola ofbeldi.
Næst var ákærði spurður út í eftirfarandi skilaboð fá brotaþola: „Nei X en eg veit ad eg er fyrir horku og allt tad en tegar eg gratbid tig um ad hætta ta er tad ad hætta ekki ad snua meira upp a hendina a mer og skella mer a bordid“. Kannaðist ákærði ekki við að hafa skellt brotaþola á borð. Einnig voru eftirfarandi skilaboð borin undir ákærða: „Veistu eg veit eiginlega ekki hvad eg a ad segja eg skil bara ekki hvad fær tig til ad gera tetta, er tetta tad sem æsir tig?“ Ákærði kannaðist við þessi skilaboð, en svaraði því til að þetta æsti hann ekki neitt. Skilaboðin „Omg tetta er i annad skiptid sem tu gerir mer tetta ertu ekki ad grinast i mer“ og „Tu ert buin ad radast a mig adur en hættir fljotlega i fyrsta skiptid“ voru borin undir ákærða. Kvaðst hann aldrei hafa ráðist á brotaþola áður. Ákærði kvaðst kannast við skilaboðin: „Eg var ad muna ad eg hef lent i tvi adur ad eg segi nei vid tig og bid tig um ad hætta en tu hlustadir ekki“. Kvaðst hann ekki muna eftir að hún hefði beðið hann um að hætta, en hann hefði ekki hætt. Sagðist hann ekki vita hvað brotaþoli ætti við með þessu.
Ákærði var inntur út í áverka á brotaþola, sem greint er frá í ákæru. Kvaðst ákærði ekki kannast við þessa áverka og sagði að ekkert hefði séð á brotaþola umrædda nótt. Hann neitaði því að hafa rifið í hárið á brotaþola eða skellt henni upp við vegg.
Aðspurður af verjanda sagði ákærði að hann hefði upplifað samskipti þeirra brotaþola umrædda nótt á svipaðan hátt og þegar þau voru í sambandi og stunduðu kynlíf. Hann sagði að þau brotaþoli hefðu verið í sambúð í átta eða níu mánuði og einnig verið í tengslum eftir það. Hann sagði að meðan á sambúðinni stóð hefði það alveg komið fyrir að hann hefði tekið í hárið á brotaþola þegar þau stunduðu kynlíf.
Ákærði sagði að brotaþoli væri aneroxiu- og bulimiusjúklingur og hún hefði átt við það vandamál að stríða lengi og löngu áður en þau kynntust. Ákærði sagðist sjálfur hafa átt við þunglyndi að stríða á þessum tíma og sagðist hann hafa gengið til sálfræðings vegna þess. Aðspurður af verjanda kvaðst ákærði ekki hafa upplifað sms-samskipti þeirra brotaþola daginn eftir atburðinn með þeim hætti að hún hefði verið að saka hann um nauðgun.
Ákærði kvaðst ekki geta skýrt hvað hann átti við í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 31. mars 2010 þegar sms-skilboðin voru borin undir hann og hann svaraði: „Já, ég fatta ekki hvað hún er að tala um annað skiptið, ég hef aldrei gert henni þetta áður.“
Ákærða var kynnt að samkvæmt rannsókn lögreglu hefði fundist sæði úr honum á eldhúsgólfinu og var hann beðinn um að skýra það með hliðsjón af fyrri framburði hans. Sagði ákærði þá að þetta hefði átt sér stað í forstofunni og eldhúsdyrunum. Var ákærði að beðinn um að skýra hvernig sæðið hefði borist á eldhúsgólfið. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt það. Ákærði var einnig beðinn um að skýra það af hverju sæði hefði fundist á maga brotaþola í ljósi þess að hann hafði áður borið um að þau hefðu hvorug farið úr fötunum. Sagði ákærði þá að bolurinn hljóti að hafa lyfst upp. Sækjandi bað þá ákærða að skýra það nánar hvernig það hefði gerst, en ákærði kaus að gera það ekki.
Ákærða var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu hefði hann borið um það að hafa káfað á brjóstum brotaþola innanklæða, en fyrir dóminum hefði hann aðeins sagst hafa káfað á brotaþola utanklæða. Sagði ákærði þá að hann hefði í fyrstu strokið brotaþola utanklæða, en í eitt skiptið hefði hann farið inn undir bolinn hjá brotaþola og sennilega hefði bolurinn lyfst upp við það. Ákærði var beðinn um að skýra það nánar, en það gerði hann ekki. Ákærði sagði að þetta hefði átt sér stað áður en hann fékk sáðlát. Aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hefði verið í buxum. Ákærða var þá bent á að hjá lögreglu hefði hann borið um það að brotaþoli hefði farið sjálf úr buxunum.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 31. mars 2010. Þar sagði ákærði oftar en einu sinni að þau brotaþoli hefðu verið fullklædd allan tímann. Þau hefðu látið vel að hvort öðru í forstofunni, í eldhúsdyrunum og aðeins í eldhúsinu. Þá sagðist hann hafa strokið brjóst og læri brotaþola utanklæða og ekkert farið inn undir föt brotaþola. Sagðist hann hafa tekið liminn út á sér og brotaþoli haft við hann munnmök í forstofunni, sem endað hefðu með því að honum varð sáðfall og hefði sæðið farið yfir peysu eða bol brotaþola. Brotaþoli hefði kropið á hnjánum á meðan hún hafði við hann munnmök. Ákærði neitaði því að hafa beitt brotaþola harðræði af nokkru tagi.
Ákærði gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 23. júlí 2010 og voru honum þá kynntar niðurstöður rannsóknar á lífsýnum, sem safnað var á vettvangi og á neyðarmóttöku. Þegar hann var beðinn um að skýra það af hverju sæði hefði fundist á maga brotaþola sagði ákærði að bolurinn og peysan hefðu lyfst upp á meðan þau voru að láta vel hvort að öðru í forstofunni. Sagðist hann hafa tekið peysuna upp þegar hann var að þukla á maga og brjóstum brotaþola. Þá sagðist hann halda að brotaþoli hefði farið úr buxunum og síðar í skýrslunni lýsti hann því að brotaþoli hefði farið úr buxunum á meðan þau voru að kyssast í eldhúsdyrunum. Ákærði ítrekaði fyrri framburð um það að honum hefði orðið sáðfall á meðan þau brotaþoli voru í forstofunni, en sagði nú að sæðið hefði farið á peysu og maga brotaþola. Sagði hann að brotaþoli hefði setið út á hlið þegar hún hafði við hann munnmök. Þegar ákærða var kynnt að sæði hefði einnig fundist á sokk og hægra læri brotaþola sagði ákærði að sæðið hefði farið í peysuna, bolinn, lærið og síðan lekið beint niður.
Brotaþoli, A, sagði að ákærði hefði reynt að kyssa hana um leið og hún hefði opnaði fyrir honum dyrnar. Sagðist hún hafa beygt sig frá, en hann hefði þá tekið utan um hana. Þau hefðu síðan gengið inn í eldhús þar sem hún hefði gefið honum að drekka og þau hefðu spjallað saman. Hann hefði síðan gengið til hennar og byrjað að kyssa hana og hún hefði kysst hann á móti. Hún sagðist síðan hafa ýtt honum frá sér því hann hefði átt aðra kærustu. Hann hefði samt haldið áfram að reyna að kyssa hana og hún hefði ýtt honum í burtu, en hann hefði samt ekki stoppað. Hann hefði síðan farið að verða harðhentari en áður, þ.e. taka í hárið á henni, en hún hefði ýtt honum í burtu. Hann hefði þá tekið í handlegginn á henni og snúið upp á hann og reynt að halda henni. Þetta hefði endað með því að hún hefði ýtt honum í burtu og gengið inn í stofu. Hann hefði komið á eftir henni og tekið utan um hana að aftan og snúið henni við og reynt að kyssa hana. Hún hefði þá ýtt honum í burtu, en þá hefði hann tekið um handlegginn á henni, snúið upp á hann og skellt henni upp við vegginn. Hann hefði síðan farið að kyssa hana á hálsinn og koma við hana og farið að setja hendurnar inn undir buxurnar hjá henni, en hún hefði náð að taka hendurnar á honum í burtu. Hún sagðist síðan hafa reynt að ýta sér frá veggnum því hann hefði þrýst sér alveg upp að henni. Hann hefði þá tekið hana frá veggnum og skellt henni utan í næsta vegg og snúið henni við og ætlað að kyssa hana en hún hefði tekið fyrir munninn á honum. Hann hefði þá tekið í höndina á henni og snúið upp á hana aftur og skellt henni út í eitt hornið á ganginum í íbúðinni. Hefði verið eins og hann væri að reyna að hafa við hana mök í fötunum því hann hefði þrýst sér alveg upp að henni og kysst hana og reynt að stinga hendinni inn undir buxurnar hjá henni. Síðan hefði hann rifið í hana og hún dottið inn í fataskápinn á ganginum. Hann hefði síðan togað hana upp og þá hefði hann verið búinn að taka liminn á sér út. Hann hefði rifið í hárið á henni og reynt að fá hana niður. Hún hefði fyrst reynt að berjast á móti, en hann hefði rifið svo fast í hárið að hann hefði náð að draga hana niður á gólfið og þar hefði hann reynt að láta hana hafa við sig munnmök, en hún hefði ýtt honum frá, en hann hefði samt náð að stinga limnum upp í hana. Um leið og það hafði tekist hefði hann sleppt takinu á hárinu á henni og þá hefði hún ýtt honum í burtu og staðið upp aftur og gengið inn í eldhús. Þar hefði hann komið aftan að henni og tekið í hana þannig að hún hefði dottið á eldhúsborðið. Hann hefði síðan tekið í hana og snúið henni við og tekið utan um hana og sagt fyrirgefðu. Þegar hann hefði losað takið hefði þetta byrjað aftur, þ.e. hann hefði byrjað að kyssa hana aftur og koma við hana og orðið ennþá ágengari, þ.e. hann hefði rifið ennþá fastar í hárið á henni og snúið ennþá fastar upp á handlegginn á henni og skellt henni út í borðkrókinn í eldhúsinu þar sem hann hefði tekið hana úr peysunni og bolnum. Hún sagðist hafa sagt við hann: „Please, viltu hætta“, en það eina sem hann hefði sagt hefði verið: „Mig langar að ríða þér.“ Þegar hún hefði verið að ýta honum í burtu hefði hann tekið í handlegginn á henni og snúið upp á hann og þá hefði hún skollið í borðið. Hann hefði síðan byrjað að taka hana úr buxunum og hún reynt að halda þeim uppi. Hann hefði þá tekið svo fast í handlegginn á henni og snúið svo fast upp á hann að hún hefði orðið hálf lömuð og sagðist hún ekkert hafa getað gert. Hann hefði síðan tekið hana úr buxunum og reynt að stinga limnum í endaþarminn á henni, en það hefði honum ekki tekist og þá hefði hann stungið limnum inn í leggöngin. Hefði hann gert þetta svo fast að hana hefði verkjað í mjaðmakambana. Hann hefði síðan stoppað eftir nokkrar mínútur og tekið liminn út og þá hefði hún haldið að þetta væri búið. Hann hefði þá tekið hana og snúið henni við og haldið enn um hárið á henni. Hún hefði þá séð að hann var að fróa sér og sagðist hún hafa beðið hann um að hætta, en hann hefði sagt: „Bíddu.“ Hún sagðist hafa reynt að taka í hann til að láta hann stoppa og reynt að ýta honum í burtu, en það hefði endað með því að hann hefði tekið í hárið á henni og þrýst henni afturábak þannig að hún hefði lagst á bakið á eldhúsbekkinn og þannig hefði hann haldið henni alveg niðri. Þá sagðist brotaþoli hafa gefist upp og ekki getað meir. Ákærða hefði síðan orðið sáðfall og sæðið farið yfir magann og lærið á henni og þá hefði hann sleppt taki. Þá sagðist hún hafa gengið inn á bað og byrjað að þrífa sig og hefði ákærði komið á eftir henni, kysst hana á kinnina og gengið út án þess að segja neitt. Aðspurð sagði brotaþoli að hún hafi margsinnis beðið ákærða um að hætta, en hann hefði ekki stoppað og aðeins sagt: „Mig langar svo að ríða þér.“
Brotaþoli staðfesti að hafa fengið áverka þá, sem greinir í ákæru, við árás ákærða og þá sagðist brotaþoli hafa fundið til í höfðinu því ákærði hefði rifið svo fast í hárið á henni. Einnig hefði hún verið aum í hársverðinum.
Brotaþoli sagðist hafa sent ákærða sms-skilaboð daginn eftir og spurt hann að því af hverju þetta hefði átt sér stað og af hverju hann hefði ekki bara farið heim til kærustunnar sinnar. Ákærði hefði þá sagt að hann hefði viljað hörku og taka vel á því. Hún sagðist þá hafa sagt ákærða að hann hefði gengið aðeins lengra en það og hefði ákærði þá beðið hana fyrirgefningar og sagt að hann hefði ekki ætlað að meiða hana.
Brotaþoli sagði að sér hefði liðið hræðilega eftir atvikið. Sagðist hún hafa brotnað niður í skólanum á mánudeginum og orðið að fara heim. Sagðist hún þá hafa farið á bráðamóttökuna. Hún kvaðst vera með mikla innilokunarkennd og ekki geta verið ein heima og sagðist alltaf vera hrædd, kvíðin, taugaóstyrk og vör um sig. Þá sagðist hún sífellt vera lasin, með höfuðverk og í maganum. Þá ætti hún mjög erfitt með að treysta karlmönnum, hvað þá að vera í sambandi við karlmann.
Brotaþoli sagðist hafa sagt móður sinni og systkinum, þeim G og H frá þessu. Þau hefðu öll orðið mjög reið og sagt henni að kæra þetta.
Brotaþoli sagði að þau ákærði hefðu verið í sambúð áður og sagðist hún hafa slitið sambúðinni. Hún sagði aðspurð að kynlíf þeirra hefði stundum verið harkalegt upp að vissu marki en ákærði hefði þó aldrei meitt hana og það hefði aldrei séð á henni eftir kynlíf þeirra. Hún sagðist aðspurð hafa verið í buxum, hlýrabol, sem náð hefði niður á mjaðmir og renndri peysu þegar atvikið átti sér stað. Hún sagðist aðeins hafa verið beðin um að afhenda buxur og sokka á neyðarmóttökunni.
Brotaþoli sagðist hafa verið á konukvöldi kvöldið áður og sagðist hafa neytt þar áfengis, en þó ekki mikils. Þá sagði hún að ákærði hefði verið undir áhrifum áengis þegar hann kom, en hann hefði þó alveg vitað hvað hann var að gera. Sagðist hún þekkja hann og vita hvernig hann væri þegar hann væri slæmur, en hann hefði ekki verið slæmur í umrætt skipti. Hún sagði að þau ákærði hefðu ekki verið í neinu sambandi á þessum tíma, en þau hefðu ræðst við í síma eða á msn og þá hefðu þau sent hvoru öðru sms-skilaboð.
Sms-samskipti á skjali merktu VI-1-6 voru borin undir brotaþola og kvaðst hún kannast við hafa átt þessi samskipti við ákærða daginn eftir að hin ætlaða nauðgun átti sér stað.
Brotaþoli sagði aðspurð að ákærði hefði nauðgað henni í horninu á eldhúsinnréttingunni þar sem talan 15 væri á afstöðumynd af íbúðinni á skjali nr. VI-2, þ.e. upp við eldhúsbekkinn. Hún hefði sjálf snúið inn í hornið og ákærði haft mök við hana aftan frá.
Brotaþoli staðfesti að hún hefði lent í umferðarslysi. Þá sagðist hún hafa verið haldin lystarstoli í tæp tvö ár, en sjúkdómurinn hefði legið niðri frá árinu 2006.
I, móðir brotaþola, sagði að brotaþoli hefði komið til sín á mánudeginum og hefði hún grátið og verið óskaplega brotin. Hún hefði tjáð sér að ákærði hefði hringt í hana á sunnudagsnóttina og beðið hana um að sækja sig. Hún hefði neitað því. Hann hefði síðan komið heim til brotaþola og hún hleypt honum inn, en hún hefði ætlað að gefa honum eitthvað heitt að drekka þar sem honum hefði orðið svo kalt. Ákærði hefði síðan viljað fá að kyssa hana, en hún neitað honum um það. Hann hefði haldið áfram og sífellt orðið harðhentari og m.a. snúið upp á handlegginn á henni og skellt henni upp við vegg. Þetta hefði gengið svona áfram, þ.e. ákærði hefði skellt henni upp við vegg og tekið í hárið á henni, einnig hefði hann skellt henni upp við borð. Brotaþoli hefði síðan dottið á skáp frammi á gangi á móti eldhúsinu og hefði skápurinn gengið inn og haldan brotnað. Átökin hefðu einnig borist inn í stofu að henni skildist. Hún sagði að brotaþoli hefði tjáð sér að ákærði hefði komist inn í hana og nauðgað henni. Þá hefði hann ætlað aftan á hana en ekki komist. Hann hefði síðan leikið sér eitthvað með tólið sitt, eins og vitnið orðaði það, og síðan hefði hann klárað sig af. Hún sagði að brotaþoli hefði verið með áverka á höndum og á mjaðmakömbum og þá hefði hún verið aum í hársverðinum. Hún sagði að brotaþoli væri mjög breytt eftir atvikið og að hún gengi til sálfræðings í hverri viku. Hún hefði verið á lyfjum vegna þessa, en væri nú hætt á þeim. Loks sagði vitnið að brotaþoli þyrði ekki að vera ein og hún væri mjög hrædd og taugaveikluð.
G, systir brotaþola, sagði að brotþoli hefði sagt henni frá atvikinu á mánudeginum. Brotaþoli hefði tjáð henni að ákærði hefði hringt í hana og í fyrstu hefði hún ekki leyft honum að koma. Ákærði hefði síðan hringt í hana aftur og þá hefði hún leyft honum að koma til hennar. Hann hefði síðan komið inn og reynt að kyssa hana. Hún hefði beygt sig frá, en þá hefði ákærði tekið hana og ýtt henni á skápinn á ganginum og við það hefði handfangið brotnað af skápnum. Ákærði hefði síðan haldið henni inni í eldhúsi og haldið höndum hennar upp yfir höfuðið á henni og rifið í hárið á henni. Hann hefði reynt að girða niður um hana, en ekki tekist, en ákærði hefði náð að taka typpið á sér út og hefði hann fróað sér yfir hana. Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki sýnt sér áverka og þá sagðist hún ekki hafa spurt brotaþola nánar um atburðarás. Hún sagði að brotaþoli hefði ekki komið að fyrra bragði til hennar til að segja sér þetta, en vitnið sagðist strax hafa séð á brotaþola að eitthvað var að. Sagðist hún hafa spurt brotaþola að því hvort eitthvað hefði komið fyrir og þá hefði brotþoli sagt henni frá þessu.
H, bróðir brotaþola, sagði að brotaþoli hefði kom heim til hans tveimur til þremur vikum eftir atburðinn og tjáð sér að umrætt kvöld hefði hún verið á konukvöldi og morguninn eftir hefði ákærði hringt í hana og óskað eftir að fá að koma til hennar. Hún hefði neitað því í fyrstu, en síðan hefði hún leyft honum að koma. Ákærði hefði síðan komið til hennar og strax haft í frammi kynferðislega tilburði gagnvart henni, en hún beðið hann um að láta af þeim. Hann hefði síðan farið að sýna henni vald og farið að taka á henni og hún reynt að verja sig fyrir honum. Ákærði hefði rifið í hárið á henni og hún reynt að ýta honum frá og þá hefði ákærði snúið upp á hendurnar á henni. Hann hefði síðan ýtt henni utan í vegg og reynt að koma fram vilja sínum, en ekki tekist í það skiptið. Ákærði hefði síðan ýtt henni á annan vegg og síðan hefði verið eins og hann sæi að sér. Þau hefðu farið inn í eldhús og hann beðið hana afsökunar. Hann hefði síðan haldið áfram síðar og sýnt henni þá enn meiri hörku en áður og ýtt henni út í horn í anddyrinu við eldhúsið, tekið hana með valdi þar og slegið henni utan í fataskáp í anddyrinu og hún fallið við það. Þá hefði hann haldið í hárið á henni og á þeim tímapunkti verið búinn að taka út á sér typpið og reynt að stinga því upp í hana. Atlaga ákærða hefði síðan hætt aftur og síðan byrjað að nýju og þá hefði hann náð fram vilja sínum gegn henni og nauðgað henni. Ákærði hefði reynt að fara í endaþarminn á brotaþola, en síðan hefði hann fróað sér yfir henni og klárað sig af og síðan yfirgefið svæðið.
C rannsóknarlögreglumaður staðfesti skýrslu sína um leit lífsýna í eldhúsi brotaþola. Þá staðfesti hann skýrslu sína um skoðun á farsíma brotaþola.
J rannsóknarlögreglumaður staðfesti að hafa tekið ljósmyndir í skýrslu, sem áðurgreindur C gerði um leit lífsýna. Sagðist hún aðeins hafa verið C til aðstoðar við þá rannsókn. Þá staðfesti hún að hafa tekið ljósmyndir af vettvangi, sbr. skýrslu frá 29. júní 2010.
K, sérfræðingur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti skýrslur sínar um rannsókn á sýnum sem safnað var á vettvangi og gögnum sem safnað var á neyðarmóttöku. Hann sagði að sáðfrumur hefðu reynst vera í sýnum, sem tekin voru af eldhúsgólfi, úr sokk og af maga og hægra læri brotaþola. Sýni úr leggöngum og leghálsi brotaþola hefðu hins vegar ekki reynst innihalda sæðisfrumur. Aðeins hefðu því verið send til rannsóknar í Svíþjóð sýni af eldhúsgólfi, úr sokk og af maga og hægra læri og sæðisfrumur úr þeim sýnum hefðu allar verið samkenndar við ákærða. Munnvatnsleifar hefðu reynst vera í sýninu, sem tekið hefði verið af hægra brjóstinu, en ekki af því vinstra, en í hvorugu sýninu hefði reynst vera nægileg gögn til DNA-rannsóknar. Hann sagði að sáðfrumur gætu fundist í leggöngum í allt að þrjá sólarhringa. Það að sæðisfrumur hefði ekki fundist í leggöngum þýddi því annað hvort að um mök um leggöng hefði ekki verið að ræða eða að viðkomandi hefði ekki orðið sáðfall. Hann sagði að for- og staðfestingarpróf hans leituðu að ensímum, sem væru í sáðvökva, án þess að um sáðfrumur væri að ræða, en þau próf hefðu gefið neikvæðar niðurstöður.
B staðfesti skýrslu sína um læknisfræðilega skoðun. Hún sagði að brotaþoli hefði komið á neyðarmóttökuna og sagt sögu sína eins og fram kæmi í framlagðri skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun. Hún sagði að greinilegt hefði verið að brotaþoli hafði orðið fyrir áfalli og hún hefði átt erfitt með að láta snerta sig og skoða sig. Hún sagði að áverkar brotaþola hefðu samræmst lýsingu hennar á atburðinum.
D sálfræðingur sagði að frá 31. mars 2010 hefðu hún hitt brotaþola 28 sinnum og beitt hugrænni atferlismeðferð við áfallastreituröskun í 24 af þessum skiptum. Hún sagði að brotaþoli hefði greinst með alvarleg einkenni áfallastreituröskunar fljótlega eftir ætlaða nauðgun. Hún sagði að þetta hefði haft mikil áhrif á hana, þ.e. hún hefði átt mjög erfitt með að mæta í skólann og ætti það til að brotna niður í skólanum og verða að fara heim. Þá ætti hún erfitt með að einbeita sér og sinna námi vegna þess. Þá ætti hún erfitt með að vera ein og forðaðist það. Einnig ætti hún erfitt með að vera í aðstæðum þegar henni fyndist hún vera innilokuð og þá upplifði hún gjarnan ofsakvíða. Brotaþoli hefði ekki treyst sér til að fara aftur í íbúð sína og því væru ákveðnar aðstæður mjög erfiðar fyrir brotaþola. Hún sagði að einkenni brotaþola hefðu farið versnandi eftir áramót. Sagðist vitnið rekja þessi einkenni til hinnar ætluðu nauðgunar hinn 7. mars 2010.
Hún sagði aðspurð að brotaþoli hefði lent í bílslysi og einnig hefði hún átt við átröskunarsjúkdóm að stríða, en sá sjúkdómur hefði legið niðri síðustu fimm ár. Hún sagði að fyrri áfallasaga og geðsaga viðkomandi gæti aukið á einkenni áfallastreituröskunar í kjölfar kynferðisofbeldis síðar. Þá gæti verið að brotaþoli hefði verið með einkenni áfallastreituröskunar fyrir atburðinn, en einkenni röskunar brotaþola tengdust hins vegar þessum atburði, t.d. forðaðist hún íbúðina þar sem atburðurinn á að hafa átt sér stað. Hún sagði að sér hefði verið kunnugt um símasamskipti brotaþola og ákærða daginn eftir atburðinn, en upplýsingar um þau samskipti hefðu komið fram í samtölum við brotaþola. Hún sagði að sér hefði ekki þótt ástæða til að rekja forsögu brotaþola í vottorði sínu þar sem viðbrögð hennar við hinu meinta broti væri í samræmi við brotið, en áfalla- og geðsaga brotaþoli gæti vissulega hafa aukið á viðkvæmni brotaþola.
III.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa þvingað brotaþola með ofbeldi til samræðis og til að hafa við sig munnmök á heimili brotaþola að morgni sunnudagsins 7. mars 2010. Ákærði hefur staðfastlega neitað sök í málinu.
Mikið ber í milli framburðar ákærða og brotaþola um það sem gerðist umræddan sunnudagsmorgun. Hefur brotaþoli borið um að ákærði hafi strax haft í frammi kynferðislega tilburði gagnvart henni þegar hann kom á heimili hennar, en hún hafi margsinnis ýtt honum frá sér og beðið hann um að hætta. Hann hafi samt sem áður haldið áfram og sífellt orðið harðhentari. Hafi hann margsinnis snúið upp á handlegginn á henni, skellt henni upp við vegg og rifið í hárið á henni. Hefur brotaþoli borið um að átök þeirra hafi borist úr eldhúsinu inn í stofu, þaðan fram á gang og í forstofuna og síðan í eldhúsið aftur. Hafi ákærði þvingað hana til munnmaka í forstofunni og þá hafi hann þvingað hana með ofbeldi til samræðis í eldhúsinu.
Ákærði hefur hins vegar borið um það að þau brotaþoli hafi fljótlega byrjað að kyssast og láta vel hvort að öðru eftir að hann kom á heimili hennar umræddan morgun. Þá hefur hann borið um það að brotaþoli hafi haft við hann munnmök í forstofunni og honum orðið sáðfall við þau, en eftir það hafi hann farið. Allt hafi þetta gerst með samþykki brotaþola. Brotaþoli hafi að vísu beðið hann nokkrum sinnum um að hætta þar sem hann ætti kærustu, en samt haldið áfram að láta vel að honum og hafa við hann munnmök.
Nokkur atriði þykja draga úr trúverðugleika framburðar ákærða. Í fyrsta lagi gætir töluverðs ósamræmis í framburði ákærða, bæði í skýrslum hans hjá lögreglu, svo og hér fyrir dómi. Í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að þau brotaþoli hefðu látið vel hvort að hvoru, aðallega í forstofunni og eldhúsdyrunum, en einnig í eldhúsinu. Þá hefði brotaþoli haft við hann munnmök í forstofunni og hefði brotaþol kropið á hnjánum á meðan. Honum hefði orðið sáðfall við munnmökin og hefði sæðið farið yfir peysu eða bol brotaþola, en ákærði staðhæfði að þau hefðu bæði verið fullklædd allan tímann. Þá sagðist ákærði aðeins hafa strokið brotaþola utanklæða og ekkert farið inn undir föt hennar.
Í seinni skýrslu sinni hjá lögreglu sagðist hann í fyrstu ekki vilja breyta fyrri framburði sínum og sagðist engu hafa við hann að bæta. Aðspurður ítrekaði ákærði að hann hefði strokið brjóst og læri brotaþola utanklæða og að brotaþoli hefði verið fullklædd allan tímann. Einnig staðfesti hann að honum hefði orðið sáðfall við munnmök brotaþola, sem átt hefðu sér stað í forstofunni, og að sæðið hefði farið yfir bol eða peysu brotaþola. Eftir að niðurstöður rannsóknar á lífsýnum, sem fundust á vettvangi og sem safnað var á neyðarmóttökunni, höfðu verið kynntar ákærða sagðist hann hafa tekið peysu brotaþola upp þegar hann var að þukla á maga hennar og brjóstum. Þá sagði hann að brotaþoli hefði farið úr buxunum. Einnig sagði hann að brotaþoli hefði setið út á hlið á meðan hún hafði við hann munnmök og að sæðið hefði farið í peysu, bol og læri brotaþola og síðan lekið niður.
Hér fyrir dómi bar ákærði í fyrstu á sama veg og í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu, þ.e. að hvorugt þeirra hefði farið úr fötunum og að hann hefði káfað á brjóstum brotaþola utanklæða. Þá sagði hann að brotaþoli hefði haft við hann munnmök í forstofunni og að sæðið hefði farið á föt brotaþola og á gólfið. Hann gat ekki skýrt það hvernig sæðið hefði borist á eldhúsgólfið. Ákærði var beðinn um að skýra hvers vegna sæði úr honum hefði fundist á maga brotaþola í ljósi framburðar hans um að brotaþoli hefði verið fullklædd og sagði ákærði þá að bolurinn hlyti að hafa lyfst upp, en gat eða vildi ekki skýra það frekar hvernig það gerðist. Síðar í skýrslunni sagði hann að í fyrstu hefði hann strokið brotaþola utanklæða, en í eitt skiptið hefði hann farið inn undir bolinn hjá henni og sennilega hefði bolurinn lyfst við það. Þá bar ákærði um það að brotaþoli hefði verið í buxum, en það er ekki í samræmi við síðari skýrslu hans hjá lögreglu.
Í öðru lagi er framburður ákærða ekki í samræmi við niðurstöður rannsóknar á lífsýnum, sem fundust á eldhúsgólfi brotaþola, á brún á aftanverðum hægri sokk hennar, svo og á maga og læri, en skýringar ákærða á því hvers vegna sæði úr honum fannst á sokk, maga og læri brotaþola eru óskýrar, óákveðnar og þykja ótrúverðugar. Þá gat ákærði ekki skýrt það hvers vegna sæði úr honum fannst á eldhúsgólfinu í ljósi framburðar hans um að munnmökin hefði farið fram í forstofunni og að þar hefði honum orðið sáðfall.
Í þriðja lagi þykja áverkar þeir, sem fundust við skoðun á brotaþola daginn eftir, samrýmast framburði brotaþola um að ákærði hafi beitt hana ofbeldi, samanber framlagt læknisvottorð, sem staðfest var af viðkomandi lækni hér fyrir dómi. Í framlögðu læknisvottorði kemur fram að eymsli og blátt mar hafi verið beggja vegna á mjaðmakömbum, en þeir áverkar þykja samrýmast mjög framburði brotaþola um að ákærði hafi þvingað hana til samræðis upp við eldhúsbekkinn, þ.e. í horninu á eldhúsinnréttingunni, en brotaþoli hefur lýst því að hún hafi sjálf snúið inn í hornið á meðan ákærði hafi haft harkaleg mök við hana aftan frá. Þá voru húðrispur á báðum framhandleggjum, sem þykja samrýmast frásögn brotaþola um að ákærði hafi margsinnis tekið í handleggina á henni og snúið upp á þá. Einnig þykja aðrir áverkar samrýmst vel framburði brotaþola um ofbeldi ákærða, svo sem eymsli í sjalvöðvum og vöðvum utarlega í vinstri öxl, sem og mar á enni.
Í fjórða lagi þykja sms-skilaboð, sem ákærði og brotaþoli hafa bæði staðfest að farið hafi á milli þeirra daginn eftir umræddan atburð, ekki samrýmast framburði ákærða um að hann hafi ekki haft samræði við brotaþola og að það sem gerðist á milli þeirra umræddan morgun hafi verið með samþykki hennar. Þykja skýringar ákærða á skilaboðunum: „Eg man allveg ad eg reid ter en fekk eg tad???“ ótrúverðugar, þ.e. að hann hafi notað þetta orð yfir munnmökin og káfið. Þá gat hann hvorki skýrt eftirfarandi skilaboð brotaþola: „Skiptir tad fokkin mali X tu reidst mer ekki bara i gær tu gerdir meira en tad“, né eftirfarandi skilaboð sín: „Fyrirgefdu eg ætladi ekki ad meida tig “. Loks hefur ákærði ekki gefið trúverðugar skýringar á skilaboðum brotaþola þar sem hún sakar hann um að hafa beitt hana ofbeldi og að hann þyrfti að leita sér hjálpar.
Í ljósi alls framangreinds þykir framburður ákærða um samskipti hans og brotaþola umrædda nótt ekki trúverðugur.
Brotaþoli hefur frá upphafi rannsóknar málsins gefið skýra og greinargóða lýsingu á atburðarás eftir að ákærði kom á heimil hennar í umrætt sinn. Hefur framburður hennar verið stöðugur og hún verið sjálfri sér samkvæm í frásögn sinni af atvikum málsins. Þá þykja áðurgreindir áverkar brotaþola og sms-samskipti ákærða og brotaþola daginn eftir atvikið styðja mjög framburð brotaþola um að ákærði hafi í greint sinn þvingað hana með ofbeldi til samræðis. Framburði brotaþola til stuðnings er og staðsetning sæðisbletta úr ákærða, sem fundust á vettvangi og á líkama brotaþola. Sæðisblettur, sem fannst á eldhúsgólfi samræmist framburði brotaþola um að ákærða hafi orðið sáðfall þar, en ekki í forstofunni eins og ákærði hefur haldið fram, og sæðisblettir á maga og læri hennar þykja benda til þess að hún hafi ekki verið fullklædd eins og ákærði hefur haldið fram. Sömuleiðis þykir sú staðreynd að í stroksýni af öðru brjósti brotaþola hafi verið staðar munnvatn vera framburði brotaþola til stuðnings. Þá kom fram í framburði móður brotaþola að brotaþoli hefði grátið og verið mjög brotin þegar hún skýrði henni frá atvikum á mánudeginum og systir brotaþola bar um það að hún hefði strax séð á brotaþola að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir hana þegar brotaþoli kom á fund hennar, einnig á mánudeginum. Þykir þetta og styðja framburð brotaþola. Með vísan til alls framangreinds þykir framburður brotaþola mjög trúverðugur.
Með vísan til trúverðugs framburðar brotaþola, áverka þeirra sem hún bar og framburðar læknis um að þeir geti samræmst lýsingu brotaþola á atvikum, staðsetningu sæðisbletta úr ákærða og sms-samskipta ákærða og brotaþola daginn eftir atvikið, svo og með vísan til þeirra sálrænu einkenna sem hrjáð hafa brotaþola eftir atburðinn þykir í ljós leitt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað brotaþola til samræðis og til að hafa við sig munnmök eins og nánar greinir í ákæru. Er refsing ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Aðferð ákærða var niðurlægjandi og með háttsemi sinni braut hann gróflega gegn persónu- og kynfrelsi brotaþola, sem hann var áður tengdur tilfinningaböndum. Hefur brot ákærða haft í för með sér miklar andlegar þjáningar hennar og félagslega erfiðleika. Þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Brotaþoli hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 krónur með vöxtum og málskostnaði eins og nánar greinir í ákæru. Í greinargerð brotaþola segir að verknaður ákærða hafi haft umtalsverðar afleiðingar fyrir brotaþola og lýsi sér í miklum einbeitingarskorti, sem geri henni erfitt fyrir í námi, sem og í daglegu lífi. Finni brotaþoli jafnframt fyrir viðvarandi síþreytu. Þá eigi hún erfitt með að vera heima hjá sér og dvelji flestum stundum á heimili móður sinnar eða systur. Einnig séu afleiðingar verknaðarins sérstaklega erfiðar vegna þess tilfinningasambands sem hún hafi áður staðið í með ákærða. Líkur séu á því að afleiðingarnar muni hafa mikil áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu brotaþola um ókomna framtíð. Til stuðnings kröfunni er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um málskostnaðarkröfu er vísað til 172. gr. laga nr . 88/2008og kröfu um vexti til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
Ákærði hefur verið fundinn sekur um þá háttsemi sem er grundvöllur bótakröfunnar og er fallist á bótaábyrgð með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun fjárhæðar miskabótanna er litið til verknaðarins og þess hvaða áhrif hann hefur haft á líðan brotaþola sem hefur þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar. Að þessu gættu er miskabótakrafa brotaþola tekin til greina að fullu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákærði er jafnframt dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Bragadóttir, Sandra Baldvinsdóttir og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómarar. Uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna embættisanna dómsformanns.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Ákærði greiði brotaþola, A, 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. mars 2010 til 23. ágúst 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 708.974 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 313.750 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 183.224 krónur.