Hæstiréttur íslands
Mál nr. 473/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Útburður
- Frávísun frá héraðsdómi
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 18 .september 2008. |
|
Nr. 473/2008. |
Eggert Haukdal(Gestur Jónsson hrl.) gegn Runólfi K. Maack og Benediktu Haukdal (Guðmundur Siemsen hdl.) |
Kærumál. Útburður. Frávísun frá héraðsdómi. Sératkvæði.
E krafðist þess að aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli, þar sem E var borinn út úr fasteign með beinni aðfarargerð, yrði ógilt. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför veitti aðfararþola ekki heimild til að bera undir héraðsdóm lögmæti útburðar sem þegar hefði farið fram í samræmi við úrskurð héraðsdóms. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. ágúst 2008, en með honum var hafnað kröfu sóknaraðila um að ógilda aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli 2. apríl 2008, þar sem sóknaraðili var borinn út úr nánar tilgreindum hluta fasteignarinnar að Bergþórshvoli 2 í Rangárþingi eystra.
Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umrædd aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli verði dæmd ógild. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 18. mars 2008 var fallist á kröfu varnaraðila um að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út úr nánar tilgreindum hluta fasteignarinnar að Bergþórshvoli 2 í Rangárþingi eystra. Sóknaraðili kærði þann úrskurð til Hæstaréttar. Með dómi 18. apríl 2008 í málinu nr. 196/2008 var málinu vísað frá Hæstarétti á þeim grunni að útburðargerð hefði farið fram í samræmi við úrskurð héraðsdóms og hefði sóknaraðili því ekki lengur réttarhagsmuni af því að fá úrskurðinum hnekkt.
Með kröfu sinni nú freistar sóknaraðili þess að fá ógilta með dómi útburðargerðina sjálfa sem fór fram 2. apríl 2008. Vísar hann til 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um heimild til þess. Lagaákvæði þetta heimilar ekki aðfararþola að bera undir héraðsdóm lögmæti útburðar sem þegar hefur farið fram í samræmi við úrskurð dóms um heimild til gerðarinnar. Verður málinu því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi, en ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málkostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar er staðfest.
Sóknaraðili, Eggert Haukdal, greiði varnaraðilum, Runólfi K. Maack og Benediktu Haukdal, hvoru um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Ég tel að staðfesta eigi efnisniðurstöðu hins kærða úrskurðar með skírskotun til forsendna hans, en er sammála ákvörðun meiri hluta dómsins um kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. ágúst 2008.
Sóknaraðili er Eggert Haukdal, kt. 260433-7419, Bergþórshvoli 2, Rangárþingi eystra, og varnaraðilar eru Benedikta Haukdal, kt. 140457-5829 og Runólfur Maack, kt. 151149-2199, Bergþórshvoli 2, Rangárþingi eystra.
Með bréfi dagsettu 3. apríl sl. og mótteknu 4. apríl sl. krafðist sóknaraðili þess að aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli í máli nr. 031-2008-02, sem fram fór 2. apríl sl., verði ógild.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara krefjast varnaraðilar þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila og að staðfest verði aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli í máli nr. 031-2008-02. Varnaraðilar krefjast þess jafnframt að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu.
Mál þetta var þingfest þann 21. apríl sl. og fór aðalmeðferð fram þann 6. júní sl.
Málavextir.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 18. mars sl. í máli nr. A-5/2008, var fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði, ásamt öllu því sem honum tilheyrði, borinn út úr bílskúr, vélageymslu, eldhúsi, þvottahúsi og aðliggjandi gangi á neðri hæð íbúðarhússins að Bergþórshvoli 2, Rangárþingi eystra, með beinni aðfarargerð. Í úrskurðarorði sagði m.a. að málskot til Hæstaréttar Íslands frestaði ekki aðför samkvæmt úrskurðinum. Með bréfi, dagsettu 27. mars sl. kærði lögmaður sóknaraðila framangreindan úrskurð til Hæstaréttar Íslands. Þann 2. apríl sl. fór hin umdeilda aðfarargerð fram. Með dómi Hæstaréttar þann 18. apríl sl. í máli nr. 196/2008 var málinu vísað frá Hæstarétti með vísan til þess að útburðargerð hefði farið fram í samræmi við framangreindan úrskurð Héraðsdóms Suðurlands og sóknaraðili hefði því ekki lengur réttarhagsmuni af því að úrskurðurinn kæmi til endurskoðunar.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands í úrskurði uppkveðnum 18. mars sl. í máli nr. A-5/2008 hafi verið reist á röngum ályktunum um það hvaða réttindi varnaraðila séu í andstöðu við íbúðarrétt sóknaraðila. Af þeim sökum sé ranglega lýst þeim ágreiningi sem uppi sé um inntak íbúðarréttar samkvæmt kaupsamningi. Þannig sé m.a. byggt á því í forsendum úrskurðarins að sóknaraðili hafi meinað varnaraðilum aðgang að eldhús-, bað- og þvottaaðstöðu og ennfremur að framkvæmdum í skjóli útburðargerðarinnar sé ætlað að gera þær breytingar á húsnæði að báðir aðilar geti haft þar mannsæmandi aðstöðu til íveru. Sóknaraðili telur þetta hvort tveggja stangast á við staðreyndir sem legið hafi fyrir með fullnægjandi hætti í gögnum málsins eða sýslumaður hefði getað kynnt sér með einfaldri skoðun við framkvæmd gerðarinnar. Þannig hafi mátt vera ljóst að enginn ágreiningur væri uppi með aðilum um aðgang að baði, enda hefðu varnaraðilar komið sér upp prýðilegri aðstöðu af því tagi á efri hæð hússins. Það sé því úr lausu lofti gripið að sóknaraðili hafi meinað varnaraðilum um slíkan aðgang. Sóknaraðili telur jafnframt ljóst að með því að taka af honum eldhús hans og aðgang að þvottahúsi sé í reynd verið að kippa grundvellinum undan áframhaldandi búsetu sóknaraðila á staðnum, enda hafi hann eftir þær ráðstafanir ekki mannsæmandi aðstöðu til íveru í húsinu. Tilgangur varnaraðila með útburðargerðinni sé ljóslega sá að freista þess að hrekja sóknaraðila af heimili hans og í burtu af jörðinni.
Í öðru lagi telur sóknaraðili að sýslumaður hafi ekki, þegar gerðin fór fram, gætt að þeim atriðum sem sóknaraðili hafi borið fyrir sig og sem hafi varðað skerðingu á réttindum sóknaraðila sem myndi hljótast af ef aðfarargerðin hefði farið fram með þeim hætti sem varnaraðilar hefðu krafist. Með þessu hafi sýslumaður brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sýslumanni hafi mátt vera ljóst við gerðina að varnaraðilar hefðu ekki krafist útburðar sóknaraðila úr tveimur herbergjum sem séu hluti af heimili hans en sem gengið sé í úr rýmum sem útburðarbeiðnin hafi tekið til. Ennfremur hafi sýslumanni mátt vera ljóst að leiða myndi af gerðinni, ef hún færi fram með þeim hætti sem varnaraðilar krefðust, að sóknaraðili yrði útilokaður frá aðgangi að þessum herbergjum án þess að það ætti sér stoð í lögum eða löglega uppkveðnum úrskurði. Þrátt fyrir áskorun um að sýslumanni væri rétt og skylt að taka afstöðu til þess hvernig tryggja bæri sóknaraðila aðgang að þessum tveimur herbergjum hafi gerðinni verið fram haldið.
Með vísan til þessara röksemda kveðst sóknaraðili hafa sýnt fram á að hin umdeilda aðfarargerð hafi verið haldin svo alvarlegum efnislegum annmörkum að óhjákvæmilegt sé að fella hana úr gildi.
Um lagarök vísar sóknaraðili til meginregla aðfararlaga um skilyrði þess að aðfararbeiðnir nái fram að ganga, og einkum til þeirrar reglu sem m.a. hafi stoð í 78. gr. laga um aðför um að réttindi gerðarþola eigi einungis að þoka fyrir skýrum og afdráttarlausum réttindum gerðarbeiðanda. Þá vísar sóknaraðili til 2. mgr. 27. gr. laganna þar sem mælt sé fyrir um atriði sem sýslumanni beri að gæta af sjálfsdáðum við framkvæmd aðfarargerðar og með hvaða hætti hann skuli taka tillit til mótmæla gerðarþola. Sóknaraðili tekur fram að kröfur hans í málinu varði það hvernig sýslumaður hafi gætt að skyldum sínum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laganna. Af þeirri ástæðu sé ekki um að ræða að kröfur séu hafðar uppi í andstöðu við fyrir dómsúrlausn um málefnið, sbr. 2. mgr. 88. gr. og 94. gr. aðfararlaga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðilar rökstyðja frávísunarkröfu sína með því að í kröfugerð sóknaraðila felist krafa um að héraðsdómur endurskoði úrskurð Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. A-5/2008, en í því máli hafi verið leyst úr því álitaefni hvort heimila ætti varnaraðilum að fá sóknaraðila borinn út úr tilgreindum hlutum íbúðarhússins að Bergþórshvoli með beinni aðfarargerð. Niðurstaða héraðsdóms í því máli hafi falið í sér endanlega úrlausn þess ágreinings, enda hafi framkvæmd aðfarargerðarinnar ein verið eftir að úrskurðinum uppkveðnum. Varnaraðilar telja að það ágreiningsefni verði ekki borið undir dómstólinn að nýju með vísan til meginreglna réttarfars um heimildir dómstóla til að endurmeta úrlausnir hliðsettra dómstóla og með vísan til eðlis máls. Ljóst væri að það fæli í sér verulega röskun og óþægindi fyrir gerðarbeiðendur almennt ef ekki mætti byggja á að úrlausn dómstóla í málum af þessu tagi væri endanleg.
Um lagarök fyrir frávísunarkröfu sinni vísa varnaraðilar til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 2. mgr. 88. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og almennra meginreglna réttarfars í einkamálum.
Fallist dómurinn ekki á frávísunarkröfu varnaraðila telja varnaraðilar að synja verði kröfu sóknaraðila í málinu, enda hafi ekkert komið fram í málinu sem réttlætt geti ógildingu aðfarargerðarinnar. Sóknaraðili haldi því fram að forsendur úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. A-5/2008 hafi verið rangar, þar sem byggt hafi verið á því að sóknaraðili hafi meinað varnaraðilum um aðgang að eldhús-, bað- og þvottaaðstöðu og að með aðilum hafi ekki verið ágreiningur um aðgang að baði. Varnaraðilar segja að sóknaraðili hafi meinað varnaraðilum um aðgang að baðherbergi, eldhúsi og þvottahúsi í upphafi árs 2007 og hafi varnaraðilar orðið að komast af án þessara þæginda allt fram til síðastliðins hausts þegar gengið hefði verið frá hita og vatni á efri hæð hússins, en þá hafi varnaraðilar komið sér upp baðherbergi á efri hæð hússins. Varnaraðilar segjast ekki hafa haft fullnægjandi eldunar- og þvottaaðstöðu til þessa tíma en framkvæmdir sem nú standi yfir í húsinu miði að því að tryggja varnaraðilum slíka aðstöðu. Varnaraðilar geti því með engu móti séð að héraðsdómur hafi í máli nr. A-5/2008 stuðst við rangar forsendur að þessu leyti. Varnaraðilar benda á að meginforsenda héraðsdóms í málinu sé mat dómsins á rétthæð eignarréttinda varnaraðila og búseturéttar sóknaraðila.
Varnaraðilar segjast harma dylgjur sóknaraðila um að varnaraðilar ætli sér að hrekja sóknaraðila af jörðinni. Ljóst sé að varnaraðilar hafi ítrekað skorað á sóknaraðila að víkja úr tilgreindum hlutum fasteignarinnar, sem varnaraðilar hafi tekið til eigin afnota. Þá hafi varnaraðilar í upphafi boðist til þess að innrétta eldhús fyrir sóknaraðila í þeim hluta hússins sem varnaraðilar hafi ætlað sóknaraðila til búsetu, en ekki hafi getað orðið af þeirri fyrirætlan varnaraðila vegna afstöðu sóknaraðila í málinu. Sóknaraðili hafi þegar komið sér upp eldunar- og þvottaaðstöðu í þeim hluta hússins sem hann hafi til afnota og telji varnaraðilar að þær aðstæður sem sóknaraðili búi við í dag séu miklum mun betri en þær aðstæður sem sóknaraðili hafi neytt varnaraðila til að búa við til þessa tíma.
Sóknaraðili hafi til stuðnings kröfu sinnu um ógildingu aðfarargerðarinnar einnig vísað til ákvörðunar sýslumannsins á Hvolsvelli um að halda gerðinni áfram þrátt fyrir mótmæli sóknaraðila. Varnaraðilar segjast benda á að sóknaraðila hefði borið að gera athugasemdir og koma á framfæri mótmælum við meðferð aðfararbeiðnarinnar fyrir héraðsdómi, enda hafi sóknaraðila verið fullkunnugt um hverra aðgerða varnaraðilar hafi ætlað að grípa til að gerðinni fullnægðri og afleiðinga þeirra. Sóknaraðila hafi allt frá upphafi máls þessa verið ljóst að varnaraðilar hafi ætlað að afmarka þá hluta hússins sem hvor aðili hefði til umráða þannig að þau herbergi sem láðst hefði að geta í aðfararbeiðni yrðu í hluta varnaraðila. Þá verði að hafa í huga að engar takmarkanir séu gerðar á rétti gerðarþola til að koma að athugasemdum og mótmælum við meðferð beinna aðfarargerða fyrir héraðsdómi áður en lagt sé fyrir sýslumann að framkvæma gerðirnar. Af þeirri ástæðu hljóti andmæli gegn beinni aðfarargerð að meginreglu að koma fram fyrir dómi þar sem leyst sé úr þeim áður en lengra sé haldið, en ekki fyrir sýslumanni eins og þegar um annars konar aðfarargerðir sé að ræða. Í þessu sambandi megi benda á að sýslumaður geti ekki lagt mat á þau atriði sem dómari hafi þegar lagt mat á við meðferð beinna aðfarargerða fyrir héraðsdómi, enda bindi ákvarðanir dómara hendur sýslumanns í þeim efnum. Þá sé að sama skapi ljóst að mótmæli gerðarþola stöðvi að meginreglu ekki framgang aðfarargerðar.
Ljóst sé að Héraðsdómur Suðurlands hafi þegar í máli nr. A-5/2008 slegið því föstu að varnaraðilar eigi eignarrétt að fasteigninni Bergþórshvoli 2 og að ekki verði ráðið af ákvæði kaupsamnings aðila um búseturétt sóknaraðila að hann hafi meiri rétt en eigendur fasteignarinnar yfir neðri hæð hússins frekar en öðrum hlutum þess. Þetta séu þær forsendur sem einkum liggi til grundvallar úrskurði héraðsdóms í málinu og verði ekki lagt mat á þær að nýju í máli þessu. Það sé því útilokað að líta svo á, að varnaraðilar hafi með uppsetningu veggjar á milli eldhúss og stofu á neðri hæð hússins meinað sóknaraðila aðgang að hluta heimilis hans. Með útburði sóknaraðila og þeim framkvæmdum sem varnaraðilar hafi þegar gripið til séu varnaraðilar fyrst og fremst að neyta sannanlegra réttinda sinna sem þinglýstir eigendur fasteignarinnar, m.a. til að ráðstafa hluta hússins til búsetu hvors aðila um sig. Sóknaraðili hafi ekkert getað fært fram til stuðnings þeim fullyrðingum sínum að honum beri yfirráð yfir tilgreindum hlutum neðri hæðar hússins, s.s. því herbergi sem hefði láðst að geta í aðfararbeiðninni. Varnaraðilar mótmæli því alfarið að með aðfarargerðinni hafi sóknaraðili verið útilokaður frá aðgangi að hluta heimilis síns.
Með vísan til framangreinds segja varnaraðilar óhjákvæmilegt að synja kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðarinnar og fallast á kröfu varnaraðila um staðfestingu hennar. Í máli þessu verði ekki hróflað við þeim forsendum sem lagðar hafi verið til grundvallar úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. A-5/2008. Sóknaraðili hafi ekki haft uppi þau mótmæli sem hann vilji nú byggja á í því máli og telji varnaraðilar þau of seint fram komin. Þá hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á rétt sinn til tilgreindra herbergja á neðri hæð hússins gegn óumdeilanlegum eignarrétti varnaraðila að húsinu öllu. Þannig hafi ekkert komið fram sem varðað geti ógildingu gerðarinnar í heild sinni.
Um lagarök fyrir varakröfunni vísa varnaraðilar til ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 2. mgr. 27. gr., 1. mgr. 78. gr., 3. mgr. 83. gr., 3. mgr. 84. gr. og 2. mgr. 88. gr.
Um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu vísa varnaraðilar til 94. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða.
Varnaraðilar krefjast þess að máli þessu verði vísað frá dómi á þeim grundvelli að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. A-5/2008 hafi verið leyst úr því álitaefni hvort heimila ætti varnaraðilum að fá sóknaraðila borinn út úr tilgreindum hlutum íbúðarhússins að Bergþórshvoli með beinni aðfarargerð. Er í því sambandi vísað til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 2. mgr. 88. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og almennra meginreglna réttarfars í einkamálum. Með framangreindum úrskurði var því slegið föstu að varnaraðilar eigi eignarrétt að umræddri fasteign og að ekki verði ráðið af ákvæði kaupsamnings aðila um búseturétt sóknaraðila að hann hafi meiri rétt en eigendur fasteignarinnar yfir neðri hæð hússins frekar en öðrum hlutum þess. Þessari niðurstöðu verður ekki haggað hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar liggur fyrir dóminum að fjalla um ágreining aðila um framkvæmd aðfarargerðarinnar og verður máli þessu því ekki vísað frá dómi.
Sóknaraðili byggir á því að sýslumaður hafi ekki, þegar gerðin fór fram, gætt að þeim atriðum sem sóknaraðili hafi borið fyrir sig og sem hafi varðað skerðingu á réttindum sóknaraðila sem myndi hljótast af ef aðfarargerðin hefði farið fram með þeim hætti sem varnaraðilar hefðu krafist. Hafi sýslumaður með þessu brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Með framangreindum úrskurði dómsins uppkveðnum 18. mars sl., var heimilað að sóknaraðili yrði, ásamt öllu því sem honum tilheyrði, borinn út úr bílskúr, vélageymslu, eldhúsi, þvottahúsi og aðliggjandi gangi á neðri hæð íbúðarhússins að Bergþórshvoli 2 með beinni aðfarðargerð. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989 skulu mótmæli að jafnaði ekki stöðva gerðina, nema þau varði atriði, sem sýslumanni beri að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur mótmælin af öðrum sökum valda því, að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi þau réttindi, sem hann krefst fullnægt, eða að hann eigi rétt á að gerðin fari fram með þeim hætti, sem hann krefst. Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. laganna verða kröfur ekki hafðar uppi í máli samkvæmt 14. kafla laganna í andstöðu við fyrri úrlausn dómstóls um málefnið. Sóknaraðila hlaut að vera ljóst er hann tók til varna í aðfararmálinu að yrði fallist á kröfur gerðarbeiðanda í því máli gæti það leitt til þess að hann yrði útilokaður frá aðgangi að tilteknum tveimur herbergjum er hann taldi tilheyra heimili sínu. Hafi sóknaraðili viljað afstýra því bar honum að gera kröfur þar að lútandi við meðferð aðfararmálsins. Með hliðsjón af framansögðu og þar sem ekki verður séð að útburðargerð sýslumannsins á Hvolsvelli sé haldin neinum þeim annmörkum er varðað geta ógildingu hennar verður kröfum sóknaraðila hafnað.
Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða sóknaraðila til að greiða varnaraðilum 150.000 krónur í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan úrskurð. Uppkvaðning hans hefur dregist vegna embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Eggerts Haukdal, um að aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli í máli nr. 031-2008-02, sem fram fór 2. apríl sl., verði ógild, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Runólfi K. Maack og Benediktu Haukdal, 150.000 krónur í málskostnað.