Hæstiréttur íslands
Mál nr. 505/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 27. ágúst 2015. |
|
Nr. 505/2015.
|
APA ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn þrotabúi IEMI ehf. (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkennt var að kröfu A ehf. yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Aðilar höfðu gert með sér þjónustusamning í febrúar 2012 þar sem I ehf. skuldbatt sig til þess að greiða A ehf. samningsbundnar skaðabætur ef kæmi til slita á samningnum innan 30 mánaða frá stofnun hans. Í tengslum við þjónustusamninginn gerðu aðilar með sér handveðssamning þar sem I ehf. skuldbatt sig til þess að leggja að veði með 1. veðrétti tiltekinn bankareikning og innstæðu á honum til tryggingar á ákvæðum fyrrnefnds þjónustusamnings. A ehf. krafðist þess að viðurkennt yrði að krafa hans á grundvelli handveðssamningsins nyti stöðu sem veðkrafa, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að I ehf. hefði hætt flugrekstri í október 2012 og hefðu forsendur því brostið fyrir áframhaldandi samstarfi á grundvelli þjónustusamningsins. Var A ehf. því talinn hafa með réttu gert tilkall til hinna samningsbundnu skaðabóta þegar ljóst var að samningssambandi aðila væri lokið. Héraðsdómur hafnaði því aftur á móti að krafan nyti stöðu sem veðkrafa. Taldi dómurinn að handveðréttur A ehf. samkvæmt handveðssamningnum hefði aldrei öðlast réttarvernd í skilningi 3. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð þar sem umráðamaður veðsins, L hf., neitaði því frá upphafi að hafa umráð hins veðsetta þegar honum var tilkynnt um veðsetninguna. Krafan var því viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við skipti I ehf. Úrskurður héraðsdóms var staðfestur með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, en í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ekki yrði ráðið með óyggjandi hætti að næg ástæða hafi verið af hálfu héraðsdómara til þeirra athugasemda í garð lögmanns A ehf. sem um ræðir í hinum kærða úrskurði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2015, þar sem viðurkennt var að kröfu, er sóknaraðili lýsti í þrotabú varnaraðila að fjárhæð 15.404.300 krónur, skyldi skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu hans verði skipað í réttindaröð sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og „að sá hluti kröfunnar sem ekki fæst greiddur af veðinu verði viðurkenndur sem almenn krafa með stöðu í skuldaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um rétthæð framangreindrar kröfu sóknaraðila.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið með óyggjandi hætti að næg ástæða hafi verið af hálfu héraðsdómara til þeirra athugasemda í garð lögmanns sóknaraðila sem um ræðir í hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, APA ehf., greiði varnaraðila, þrotabúi IEMI ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2015.
Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 18. nóvember 2014, var þingfest 30. janúar 2015 og tekið til úrskurðar 23. júní sl. Sóknaraðili er APA ehf., kt. 610806-0230, Byggingu 10, Keflavíkurflugvelli, og varnaraðili er þrotabú IEMI ehf., kt. 700497-2919, Ránargötu 18, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að kröfu hans að fjárhæð 15.404.300 krónur með númerið 57 í kröfuskrá varnaraðila verði skipað í réttindaröð við gjaldþrotaskipti varnaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt er þess krafist að sá hluti kröfunnar sem ekki fæst greiddur af veðinu verði viðurkenndur sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst sýknu af kröfum sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
I
Málsatvik
Sóknaraðili og félagið Ísland Express ehf., sem síðar varð félagið IEMI ehf., gerðu með sér þjónustusamning 2. febrúar 2012 meðal annars um hlaðþjónustu en aðilar störfuðu að farþegaflutningum með flugi og þjónustu við farþega. Samningurinn skyldi vera til þriggja ára. Fram kemur í aðfaraorðum hans að aðilar geri „með sér eftirfarandi samning til lúkningar og uppgjörs á deilumáli er varðar ágreining um fjárhæð viðbótargjalds fyrir þjónustu APA við ÍE fyrir tímabilin 1. janúar 2010 til og með 31. maí 2011. Nú er í gangi matsmál vegna þess ágreinings fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. M-85/2011. Með undirritun samnings þessa og að uppfylltum þeim fyrirvörum og skilmálum sem fram koma í honum þá lýsa aðilar því yfir að ágreiningsmáli á milli þeirra skv. framansögðu sé lokið.“ Þá segir að aðilar hafi ákveðið að hefja samstarf að nýju með nýjum þjónustusamningi um hlaðþjónustu o.fl.
Í I. kafla samningsins sagði nánar að ágreiningsmáli aðila varðandi viðbótargjald skyldi lokið með þeim hætti að Ísland Express ehf. greiddi sóknaraðila allan útlagðan kostnað er hlotist hafi af ágreiningsmáli er varðar fjárhæð viðbótargjalds fyrir þjónustu sóknaraðila við Ísland Express ehf. samkvæmt eldri samningi aðila um flugafgreiðslu o.fl. Sé um að ræða kostnað vegna lögmannsþjónustu vegna málsins, sem og kostnað sem fallið hafi til vegna dómkvaðningar matsmanns, þ.e. fyrir þá vinnu sem hann hafi þegar innt af hendi. Nemi heildarfjárhæð vegna þess 2.500.000 krónum auk virðisaukaskatts sem greiða skuli með tilteknum hætti innan þriggja daga frá undirritun samningsins. Skuli sóknaraðili innan þriggja vikna frá móttöku greiðslu fella niður áðurnefnt matsmál og lýsa því yfir að félagið eigi ekki frekari kröfur á hendur varnaraðila, hverju nafni sem þær kunni að nefnast, vegna áðurnefnds ágreinings. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að umrædd fjárhæð hafi verið greidd.
Í 3. lið II. kafla þjónustusamningsins sagði um vanefndir: „Falli samningurinn úr gildi innan 30 mánaða frá gildistöku hans vegna stórfelldra vanefnda ÍE, eða vegna verulegra breytinga á starfsemi ÍE, sem raska samningi aðila s.s. með breytingu úr staðarflugum (point to point) í tengiflug (via hub), og aðilar ná ekki samkomulagi sín á milli um breytingar á samningsverðum, vegna þeirrar röskunar, skal ÍE greiða APA samningsslitabætur að fjárhæð kr. 15.000.000 króna,-. Framangreind bótafjárhæð er verðtryggð og skal taka breytingum sem orðið hafa á vísitölu neysluverðs í hverjum mánuði frá grunnvísitölu janúarmánaðar 2012.“
Í 4. lið II. kafla samningsins var kveðið á um að varnaraðili skyldi veita sóknaraðila bankatryggingu eða aðra fullnægjandi tryggingu að mati sóknaraðila til tryggingar á efndum samningsins sem skyldi ýmist vera 50.000.000 króna eða 30.000.000 króna eftir tímabilum.
Í 5. lið II. kafla. samningsins sagði að kæmi til stórfelldra vanefnda af hálfu Ísland Express ehf. á samningnum, félagið færi í greiðslustöðvun eða bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta sem og ef félagið ákvæði að breyta úr staðarflugum í tengiflug eða stórfelld breyting yrði á tíðni fluga væri sóknaraðila heimilt að segja samningi aðila upp með þriggja mánaða fyrirvara. Væri sóknaraðila þá heimilt að ganga að tryggingunni sem um var getið í 4. tölulið greinarinnar án undangengins dóms eða aðfarar fyrir „a) öllum útlögðum kostnaði sínum sem leiðir af vanefndum og/eða samningsslitum ÍE s.s. vegna launa, launatengdra gjalda og annarra útgjalda, þ.m.t. missir hagnaðarvonar sem APA telur sig verða fyrir og b) samningsbundinni kr. 15.000.000 eingreiðslu vegna samningsslita skv. tl. 3 hér að framan, ef við á“. Mun varnaraðili hafa greitt þá fjármuni sem þarna var kveðið á um aðra en þá sem vörðuðu samningsslitabætur.
Í framhaldi af gerð þjónustusamningsins gerðu aðilar með sér handveðssamning 27. febrúar 2012 sem bar yfirskriftina „Um handveð í innstæðu á bankareikningi sbr. 22. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð“. Í aðfaraorðum hans er vísað til þjónustusamnings aðila frá 2. sama mánaðar sem aðilar hafi gert um hlaðþjónustu o.fl., auk þess sem samningurinn hafi falið í sér lúkningu á deilumáli milli aðila. Í þjónustusamningnum væri kveðið á um að veðsali legði fram bankatryggingu eða aðra fullnægjandi tryggingu að mati veðhafa. Væru aðilar sammála um að „veðsali leggi fram að veði með 1. veðrétti; bankareikning nr. 1101-15-631118 í Landsbankanum hf.“. Í samræmi við þetta lýsti veðsali því yfir í 1. gr. samningsins „að til tryggingar á efndum veðsala samkvæmt samningnum frá 2. febrúar 2012, sbr. 3.-5. liður 2. gr. samningsins, setji hann að veði ofangreindan bankareikning ásamt innstæðu hans“.
Í 2. mgr. 1. gr. handveðssamningsins var að finna sambærilegt vanefndaúrræði og í II. kafla þjónustusamningsins en nánar tiltekið sagði: „Komi til stórfelldra vanefnda á skyldum veðsala á samningnum eins og þær eru þar skilgreindar, veðsali fari í greiðslustöðvun eða bú hans tekið til gjaldþrotaskipta, sem og ef stórfelldar breytingar verða á flugi veðsala, er veðhafa heimilt að ganga að hinni veðbundnu innstæðu án undangengis dóms eða aðfarar fyrir a) öllum útlögðum kostnaði sínum er leiðir af vanefndum veðsala, s.s. vegna launa, launatengdra gjalda og annarra útgjalda, þ.m.t. missir hagnaðarvonar sem veðhafi telur sig verða fyrir og b) samningsbundinni kr. 15.000.000 eingreiðslu vegna samningsslita.“
Þá sagði í 1. mgr. 2. gr. handveðssamningsins um vörslu fjármunanna: „Hinn veðsetti reikningur er í vörslu og umsjón Landsbankans hf. fyrir hönd veðhafa, þannig að veðsali afsalar sér öllum umráðum yfir veðandlaginu á meðan veðsetningin er í gildi og hefur veðsali því engan ráðstöfunarrétt yfir reikningnum nema með skriflegu samþykki veðhafa. Öllum þeim fjármunum sem safnast inn á framangreindan reikning er veðhafa heimilt að ráðstafa einhliða til greiðslu útlagðs kostnaðar sem leiða má af þeim tilvikum sem talin eru upp í 5. mgr. 2. gr. samningsins frá 2. febrúar 2012. Veðsala er þó heimilt að taka út og leggja inn fjármuni til samræmis við umsamda, breytta innstæðu á hverju tímabili, sbr. það sem að framan greinir og þarf þá ekki skriflegt leyfi veðhafa.“
Þá var í 3. mgr. 2. gr. handveðssamningsins kveðið á um bankatryggingu sem skyldi ýmist vera 50.000.000 króna eða 30.000.000 króna líkt og í þjónustusamningnum. Þar var jafnframt kveðið á um að þegar samningurinn félli úr gildi skyldi handveðssamningurinn einnig gera það.
Þá kom fram í 2. mgr. 2. gr. samningsins að hann væri óuppsegjanlegur af hálfu veðsala á gildistíma hans og félli aðeins niður ef veðhafi samþykkti það með skriflegum hætti og sérstakri tilkynningu til Landsbankans. Veðsala bæri að tilkynna Landsbankanum hf. um handveðsetninguna og skyldi bankinn skrá hana og staðfesta við veðhafa um að hann hefði móttekið innstæðuna á forsendum veðsamningsins.
Sóknaraðili greinir svo frá að veðsetningin hafi í kjölfarið verið tilkynnt Landsbankanum hf. og samningurinn sendur bankanum í tölvupósti. Í bréfi sóknaraðila til Landsbankans hf. 26. apríl 2012 segir að áðurnefndir samningar hafi verið sendir bankanum í tölvupósti en handveðssamningurinn fylgi einnig með bréfinu. Í ljósi þess að bankanum hafi verið tilkynnt um handveðsetningu bankareikningsins telji sóknaraðili að bankanum sé skylt að skrá handveðsetninguna í bækur sínar og staðfesta við sóknaraðila að bankinn hafi móttekið innstæðuna á forsendum handveðssamningsins. Jafnframt sagði að samkvæmt lögum nr. 75/1997 væri bankanum skylt að tryggja að innstæða hins handveðsetta reiknings væri ávallt til staðar í samræmi við ákvæði handveðssamningsins. Þá kom fram að í ljósi 22. gr. laganna um réttarvernd handveðréttar, þess að bankinn hefði fengið tilkynningu um veðsetninguna og að eigandinn réði ekki yfir veðinu og bankinn hefði sannarlega umráð veðsins, að bankanum bæri í kjölfar þessara formlegu tilkynningar að varðveita veðið í samræmi við ákvæði hins tilvitnaða samnings en hann væri að öðru leyti skaðabótaskyldur reyndist veðandlagið ekki vera til staðar ef á reyndi.
Í tölvubréfum frá Landsbankanum hf. 18. apríl og 3. maí 2012 var því hafnað að bankinn hefði samþykkt að hafa umráð hins veðsetta fyrir veðhafa og gæti veðrétturinn því ekki hafa öðlast réttarvernd við tilkynningu um veðsetningu til umráðamanns, sbr. 2. málslið 3. töluliðar 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.
Í lok október 2012 mun varnaraðili hafa selt flugrekstur sinn WOW air ehf. og hætt starfsemi. Hinn 30. október sama ár sendi sóknaraðili Landsbankanum hf. bréf þar sem vísað var í ofangreinda 2. mgr. 1. gr. handveðssamningsins og til 3. liðar I. kafla þjónustusamningsins, þar sem fram kom að ef varnaraðili sliti þjónustusamningi aðila innan 30 mánaða frá stofnun hans, skyldi félagið greiða sóknaraðila samningsslitabætur að fjárhæð 15.000.000 króna, auk verðtryggingar, frá 1. janúar 2012. Með vísan til þessa krafðist sóknaraðili þess að öll innstæða hins veðsetta reiknings sem næmi 30.000.000 króna, auk vaxta, yrði greidd inn á vörslureikning lögmanns sóknaraðila sökum vanskila varnaraðila við sóknaraðila sem næmi 33.548.486 krónum. Þar með taldar væru samningsbundnar skaðabætur vegna ótímabærra slita á þjónustusamningi aðila frá 2. febrúar 2012 með því að varnaraðili hefði hætt starfsemi sinni.
Í bréfi Landsbankans hf. 31. október 2012 sem mun hafa verið svar við bréfi sóknaraðila deginum áður þar sem hann krafðist þess að fá greidda innstæðu hins veðsetta bankareiknings, ítrekaði bankinn fyrri afstöðu sína um að hann væri ekki aðili að handveðssamningnum og hefði ekki tekið að sér umráð veðsins fyrir hönd sóknaraðila. Því myndi bankinn ekki lúta fyrirmælum um ráðstöfun á innstæðu reikningsins nema frá þeim sem hefði heimild til þess fyrir hönd eiganda reikningsins. Að sögn sóknaraðila hafi varnaraðili þó fallist á að það sem féll undir veðsamninginn, annað en samningsslitabæturnar, mætti greiða sóknaraðila og hafi Landsbankinn hf. þá heimilað greiðslu af reikningnum.
Í bréfi til Landsbankans hf. 4. nóvember 2012 mótmælti sóknaraðili afstöðu bankans og vísaði til þess að sóknaraðili hefði samþykkt skriflega að varnaraðili fengi 20.000.000 króna greiddar vegna tímabundinnar lækkunar á tryggingu samkvæmt 3. mgr. 1. gr. handveðssamningsins. Þetta samþykki hefði verið sýnt bankanum og á grundvelli þess hefði útgreiðsla af bankareikningnum til varnaraðila verið heimiluð. Að mati sóknaraðila hefði bankinn með þeirri háttsemi sinni fallist á efni veðsamningsins og liti sóknaraðili því svo á að bankinn hefði tekið að sér vörslur handveðsins fyrir hönd hans.
Sóknaraðili höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Landsbankanum hf. sem var þingfest 8. mars 2013 og gerði kröfu um að 15.000.000 króna, sem hann ætti rétt á samkvæmt handveðssamningi 27. febrúar 2012 og væru í vörslum varnaraðila á reikningi nr. 1101-15-631118, yrðu teknar úr vörslum bankans og fengnar sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Með úrskurði dómsins 23. október 2013 í máli nr. A-1125/2012 var kröfu sóknaraðila hafnað þar sem sóknaraðili þótti ekki hafa sýnt fram á að fjármunirnir væru nægilega sérgreindir í vörslum varnaraðila.
Í 3. mgr. 1. gr. handveðssamningsins var eins og áður sagði mælt fyrir um að innstæða á reikningnum skyldi nema 30.000.000 króna á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert og hækka í 50.000.000 króna á tímabilinu 1. maí til 30. september á hverju ári. Þetta fyrirkomulag skyldi gilda á meðan þjónustusamningur aðila frá 2. febrúar 2012 væri í gildi en þó þannig að fjárhæðin á reikningnum skyldi í upphafi vera 50.000.000 króna en lækka niður í 30.000.000 króna 1. október 2012. Frá þeim tíma skyldi framangreint fyrirkomulag gilda eftir tímabilum. Hinn 10. september 2012 óskaði starfsmaður varnaraðila eftir því að fá greiddar 20.000.000 króna af hinum handveðsetta reikningi nr. 1101-15631118 inn á reikning varnaraðila vegna lækkunar tryggingarinnar sem fyrirhuguð var 1. október 2012. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila samþykkti það í tölvupósti 18. september s. á. Varnaraðili endurgreiddi fjármunina síðan inn á vörslureikning lögmanns sóknaraðila 7. nóvember 2012.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2013 var bú varnaraðila IEMI ehf., áður Ísland Express ehf., tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila 7. júní 2013 að fjárhæð 15.404.300 krónur vegna ætlaðra slita varnaraðila á þjónustusamningi aðila, sbr. 3. tölulið I. gr. hans. Skiptastjóri þrotabús varnaraðila mun hafa hafnað kröfunni 20. júní 2014 þar sem skaðabótaréttur hefði að hans mati ekki stofnast og jafnvel þótt hann hefði stofnast, liti skiptastjóri svo á að hann nyti ekki fullgilds veðréttar. Ágreininginn tókst ekki að jafna á jöfnunarfundi 4. nóvember 2014. Í ljósi þess var ágreiningnum í kjölfarið vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.
Í í þinghaldi 22. apríl sl. lagði sóknaraðili fram bókun þar sem fram kom að með greinargerð varnaraðila sem lögð hefði verið fram í þinghaldi 10. sama mánaðar hefðu fyrst komið fram upplýsingar um að hinn handveðsetti reikningur í Landsbankanum nr. 631118 sem málið snerist um hefði verið eyðilagður árið 2013 og innstæðunni ráðstafað af skiptastjóra varnaraðila án samráðs við sóknaraðila. Atvikum væri því þannig háttað að löngu eftir að veðkröfu sóknaraðila hefði verið lýst í þrotabú varnaraðila hafi skiptastjóri ráðstafað hinum umþrættu veðsettu fjármunum og blandað þeim saman við annað fé þrotabúsins. Slík ráðstöfun væri að mati sóknaraðila ólögmæt með öllu. Sú málsástæða varnaraðila að hafna bæri veðkröfu sóknaraðila þar sem reikningurinn væri ekki lengur til og enginn veðréttur væri því til staðar væri reist á ólögmætri ráðstöfun skiptastjóra varnaraðila á hinu veðsetta fé. Var skorað á varnaraðila að falla frá þessari málsástæðu og lýsa því yfir með formlegum hætti að ágreiningur málsins sneri eingöngu að því hvort sóknaraðili ætti kröfu á varnaraðila og hvort stofnað hafi verið til veðréttarins með lögformlegum hætti. Að lokum var ítrekuð áskorun til skiptastjóra, sem fram hafði komið í tölvupósti lögmanns sóknaraðila til skiptastjóra 10. apríl sl., að færa fjármunina aftur inn á hinn veðsetta reikning. Í bókun varnaraðila í þinghaldi 22. apríl sl. kom fram að af hálfu þrotabúsins væri litið svo á að í máli þessu væri, auk þess að deilt væri um tilvist kröfu sóknaraðila, einnig deilt um það hvort slíkri kröfu, ef hún væri til, hafi fylgt gildur veðréttur í eignum þrotabúsins. Þá staðfesti lögmaður varnaraðila að við töku búsins til gjaldþrotaskipta hafi verið til staðar á sérgreindum reikningi innstæða sú sem sóknaraðili telur að hafi verið veðsett sér. Að öðru leyti var vísað til yfirlýsingar skiptastjóra til lögmanns sóknaraðila í tölvupósti 13. apríl sl. Þá liggur fyrir að 3. júní sl. færði skiptastjóri áðurnefnda fjárhæð inn á sérgreindan reikning í Landsbankanum hf. nr. 526-14-640313.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að varnaraðili hafi skuldbundið sig með skýrum og ótvíræðum hætti til þess að greiða sóknaraðila samningsbundnar skaðabætur ef til slita kæmi á þjónustusamningi aðila frá 2. febrúar 2012, innan 30 mánaða frá stofnun hans, af ástæðum sem greindar séu í 3. og 5. lið II. kafla þess samnings, sbr. 2. mgr. 1. gr. handveðssamnings frá 27. febrúar 2012. Þar segi að falli þjónustusamningur aðila úr gildi vegna stórfelldra vanefnda varnaraðila eða verulegra breytinga á starfsemi hans innan 30 mánaða frá gildistöku hans, þá skuli varnaraðili greiða sóknaraðila samningsslitabætur að fjárhæð 15.000.000 króna, auk verðtryggingar frá 1. janúar 2012. Hið sama gilti ef varnaraðili yrði tekinn til gjaldþrotaskipta á tímabilinu.
Ástæðu þess að ákvæði um samningsslitabætur hafi verið sett í samninginn kveður sóknaraðili vera þá að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna fyrri viðskipta aðila, sem reynst hafi kostnaðarsamt og flókið að reikna til hlítar en meðal annars hafi verið farið í matsmál vegna þeirra. Í því skyni að komast hjá kostnaði og fyrirhöfn við að staðreyna rauntjón sóknaraðila sem leitt hafi af samningsslitum varnaraðila á nýjum þjónustusamningi, hafi aðilar ákveðið að nálgast fjártjón sóknaraðila og orðið sammála um 15.000.000 króna sem hæfilegar bætur, þegar tekið væri tillit til allra hlutaðeigandi þátta.
Ágreiningslaust sé að varnaraðili hafi selt allan rekstur sinn út úr félaginu til WOW air ehf. 23. október 2012 og með því hafi varnaraðili látið af öllum flugrekstri. Varnaraðili hafi þar með í reynd slitið þjónustusamningnum, enda hafi ekki orðið af frekari kaupum hans á þjónustu af sóknaraðila á grundvelli samningsins. Þá hafi vanefndaúrræði samningsins orðið virk, þar með talin skylda varnaraðila til þess að greiða sóknaraðila umsamdar skaðabætur. Samningsslitin hafi orðið innan 30 mánaða frá stofnun þjónustusamningsins og raunar hafi úrskurður um gjaldþrot varnaraðila einnig fallið innan þess tímabils. Réttur sóknaraðila til innstæðu á téðri bankabók í samræmi við ákvæði veðsamnings aðila sé því ótvíræður, enda hafi falist í samningi um fjárhæð samningsbóta að fjárhæðin sem slík sætti ekki endurskoðun.
Sóknaraðili byggir veðkröfu sína á veðsamningi aðila dagsettum 27. febrúar 2012 þar sem honum hafi verið veitt handveð í bankareikningi varnaraðila í Landsbankanum hf. nr. 631118, eins og nánar tilgreinir í veðsamningi. Stofnun handveðs í bankareikningnum hafi uppfyllt öll skilyrði 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð og hafi varnaraðili verið sviptur vörslum handveðsins og öllum möguleikum á að nálgast innstæðu hins veðsetta bankareiknings nema fyrir atbeina sóknaraðila. Landsbankanum hf., sem hafi haft vörslur bankainnstæðunnar, hafi verið tilkynnt um handveðsetningu reiknings nr. 631118 og að varnaraðili réði ekki yfir innstæðunni heldur sóknaraðili samkvæmt skilmálum veðsamningsins, sbr. og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997. Handveðrétturinn hafi þá öðlast fullnægjandi réttarvernd gagnvart öllum skuldheimtumönnum varnaraðila og hafi skilyrðum 137. gr. laga nr. 21/1991 um stofnun veðréttinda til handa sóknaraðila þá verið fullnægt. Um fullgilt handveð hafi verið að ræða sem hafi öðlast réttarvernd við tilkynningu um handveðsetninguna. Varnaraðili hafi lagt fé inn í bankann og þar með hafi verið kominn á gagnkvæmur samningur, geymslusamningur, um geymslu fjármunanna. Bankanum hafi því verið skylt að hafa umráð veðsins.
Hvað umráð veðsins varði sé sérstaklega vísað til tölvupóstsamskipta er hafi átt sér stað á tímabilinu 10.-18. september 2012 milli Sigþórs Skúlasonar forstjóra sóknaraðila og Gunnars Más Petersen f.h. varnaraðila sem sýni með skýrum hætti að varnaraðili hafi við stofnun veðsins verið sviptur möguleikanum á því að ganga að hinni veðsettu innstæðu og að sóknaraðili þyrfti að samþykkja allar greiðslur af hinum veðsetta reikningi.
Í fyrrnefndum tölvupóstsamskiptum komi skýrlega fram að varnaraðili hafi beint sérstakri beiðni til sóknaraðila um heimild til úttektar af reikningi nr. 631118 í þeim tilgangi að geta sannað gagnvart bankanum að sóknaraðili hafi heimilað millifærslu af reikningnum. Sú beiðni staðfesti að Landsbankinn hf. hafi krafist og talið nauðsynlegt að sóknaraðili gæfi samþykki sitt fyrir úttekt af reikningnum á grundvelli veðsamningsins. Með því hafi Landsbankinn hf. staðfest skyldur sínar sem vörsluaðili hinnar veðsettu innstæðu samkvæmt veðsamningnum frá 27. febrúar 2012. Bæði bankinn og varnaraðili hafi því samþykkt færslu fjármunanna. Síðar hafi svo bankinn læst reikningnum.
Þá mótmælir sóknaraðili þeirri málsástæðu sem fram hafi komið hjá varnaraðila við munnlegan málflutning sem of seint fram kominni að ekki hafi getað stofnast til samningsslitabóta á grundvelli þjónustusamningsins þar sem honum hafi þegar verið lokið er varnaraðili var tekinn til gjaldþrotaskipta.
Þá tekur sóknaraðili fram að eftir að varnaraðili var tekinn til gjaldþrotaskipta virðist skiptastjóri hafa náð að knýja fram ráðstöfun á hinni handveðsettu innstæðu í krafti stöðu sinnar sem bústjóri en í andstöðu við handveðssamning aðila og fyrirmæli Landsbankans hf. um að reikningurinn skyldi læstur fyrir öllum úttektum. Sóknaraðili hafi gert athugasemdir við þá ráðstöfun og borið fram kröfu við Héraðsdóm Reykjavíkur um að skiptastjóra yrði vikið úr starfi án tafar, sbr. mál nr. Ö-15/2015. Lyktir málsins hafi orðið þær að innstæðunni hafi verið ráðstafað inn á sérstakan reikning í Landsbankanum með númerið 640313 eins og fram komi í fundargerð 29. maí 2015 í áðurnefndu máli og sé nú sérgreind þar. Kveðst sóknaraðili mótmæla því að ekki sé hægt að viðurkenna veðréttinn þar sem búið sé að eyðileggja reikninginn líkt og varnaraðili haldi fram. Kveðst sóknaraðili hafna því að skiptastjóri geti tekið sig til og eyðilagt eða selt hvert það veðandlag sem honum detti í hug og þar með njóti veðkrafa engrar réttaverndar og ekki sé hægt að samþykkja hana sem veðkröfu. Vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar frá 11. júní 2009 í máli 43/2009 um slíka ráðstöfun skiptastjóra.
Með því að nú hafi komið fram að skiptastjóri hafi látið umrædda fjárhæð inn á sérstakan bankareikning í Landsbankanum hf. kveðst sóknaraðili byggja á því að veðréttur hafi við það færst yfir á þann reikning í samræmi við þá reglu veðréttarins að veðréttur færist yfir á þær eignir eða réttindi sem komi í stað þess upprunalega.
Að lokum kveðst sóknaraðili með vísan til 72. gr. laga nr. 21/1991 alfarið hafna þeim sjónarmiðum varnaraðila að ekki sé hægt að halda samningnum upp á varnaraðila því að það sé ekki sami aðili og gerði hann og þá sé þrotabúið ekki heldur sami aðili. Ljóst sé að þrotabú tekur við öllum réttindum og skyldum og þessi rök varnaraðila séu því fráleit.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 75/1997 um samningsveð og þá sérstaklega til 22. gr. laganna, auk almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, sem og almennra reglna kröfuréttar um vanefndir og vanefndaúrræði. Jafnframt er vísað til 111. gr. og 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili telur að skýra verði ákvæði þjónustusamnings sóknaraðila og Ísland Express ehf. þannig að samningsslitabætur kæmu til ef sóknaraðili yrði fyrir tjóni vegna rekstrarstöðvunar Ísland Express ehf. Ákvæðin hafi verið sett með hliðsjón af fyrri reynslu aðila og gert ráð fyrir því að vegna gagnkvæms tillits samningsaðila hvors gagnvart öðrum, væri eðlilegt í ljósi reynslunnar að sóknaraðila væru tryggðar bætur ef til tjóns kæmi vegna atvika sem vörðuðu Ísland Express ehf.
Þegar starfsemi Ísland Express ehf. var hætt, hafi það borið að með þeim hætti að reksturinn var seldur til annars flugfélags, WOW air ehf. Sóknaraðili hafi þannig haldið starfsemi sinni áfram undir merkjum Wow air ehf. og engin truflun hafi orðið á henni þrátt fyrir að starfsemi Ísland Express ehf. hafi verið hætt. Sóknaraðili hafi því ekki þurft að raska starfsemi sinni á nokkurn hátt og ekki orðið fyrir neinu tjóni.
Jafnvel þótt fallist yrði á að sóknaraðili ætti kröfu í bú varnaraðila þá gæti slík krafa ekki verið tryggð með veðrétti. Varnaraðili byggir á því að handveðréttur sá sem sóknaraðili reisir kröfur sínar á hafi ekki stofnast á bindandi hátt fyrir varnaraðila. Þannig hafi áskilnaði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um stofnunarhætti handveðs aldrei verið fullnægt en í greininni sé áskilið að réttarvernd handveðréttar stofnist ekki fyrr en við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hafi að sér að hafa umráð veðsins fyrir hann þannig að veðsalinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Þá telur varnaraðili að féð sem sóknaraðili telji að hafi verið sett sér að veði hafi aldrei verið sérgreint á þann hátt að fullnægi áskilnaði laga nr. 75/1997 um samningsveð eða þannig að bindi varnaraðila eða kröfuhafa hans.
Um þetta sé vísað til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. A-1125/2012. Þá byggir varnaraðili á því að jafnvel þótt talið yrði að handveðréttur sá sem sóknaraðili byggir kröfur sína á hafi stofnast með þeim hætti að bindi varnaraðila verði að líta svo á að sá handveðréttur hafi fallið niður í síðasta lagi þegar bú IEMI ehf., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, með því að þrotabúið sé ekki sami aðili og sá sem stofnaði til hins ætlaða veðréttar.
Þá telur varnaraðili ekki unnt að viðurkenna kröfu sóknaraðila um veðrétt fyrir ætlaðri kröfu hans þar sem ljóst sé að eignin sem sóknaraðili telji að veðrétturinn hafi tekið til, þ.e. reikningur nr. 1101-26-631118, sé ekki lengur til. Varnaraðili telur að ákvæði 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. standi ekki til þess að skiptastjóri viðurkenni veðkröfur sem einhvers konar almennar veðkröfur heldur aðeins að viðurkenna kröfur sem njóti veðréttar eða annarra tryggingarréttinda í eign að því leyti sem þeim verði fullnægt af andvirði eignar þrotabúsins og arði eða öðrum tekjum sem þrotabúið hafi fengið greitt af henni. Þá tekur varnaraðili fram að orðið hafi verið við áskorun sóknaraðila og umræddir fjármunir færðir inn á sérstakan reikning í Landsbankanum hf. nr. 640313. Réttarstaðan sé því sú sama og hún var áður en skiptastjóri lét loka áðurnefndum reikningi nr. 631118.
Varnaraðili kveður ekki hafa stofnast til gilds veðréttar því að umráðamaðurinn hafi ekki verið aðili að handveðssamningnum enda var innstæðan laus til umráða og ráðstöfunar þrotabúsins.
Þá hafi ekki getað stofnast til kröfu vegna samningsslitabóta þar sem samningnum var lokið er varnaraðili varð gjaldþrota.
Hvað sem öðru líði þá telji varnaraðili, með vísan til traustfangsreglna, að aðrir kröfuhafar þrotabús varnaraðila þurfi ekki að una því að þeirra hlutdeild í eigum búsins rýrni sem því nemi að krafa sóknaraðila njóti veðréttar, sé hún til, þó ekki væri nema vegna þess að gildur veðréttur fyrir kröfunni hafi aldrei stofnast.
Þá kveðst varnaraðili benda á að félagið IEMI ehf. og Ísland Express ehf. sé ekki sami aðili. Þá sé þrotabúið annar lögaðili að lögum en Ísland Express.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 75/1997 um samningsveð og um málskostnað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Varnaraðili máls þessa, IEMI ehf., sem áður mun hafa heitið Ísland Express ehf. með sömu kennitölu, var tekið til gjaldþrotaskipta 25. mars 2013. Sóknaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 15.404.300 krónur í búið með kröfulýsingu 7. júní 2013. Krafa hans var þar sögð vera krafa vegna samningsslitabóta og var henni lýst sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á grundvelli handveðssamnings frá 27. febrúar 2012. Kröfunni mun hafa verið hafnað af hálfu skiptastjóra 20. júní 2014. Ekki tókst að jafna ágreininginn á jöfnunarfundi sem haldinn var 4. nóvember 2014 og var ágreiningnum því réttilega skotið til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að krafa hans í þrotabú varnaraðila njóti stöðu veðkröfu, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á grundvelli handveðssamnings sem aðilar málsins gerðu með sér 27. febrúar 2012. Byggir sóknaraðili á því að samkvæmt þjónustusamningi milli aðila hafi varnaraðili skuldbundið sig með skýrum og ótvíræðum hætti til þess að greiða sóknaraðila samningsbundnar skaðabætur ef til slita kæmi á þjónustusamningi aðila frá 2. febrúar 2012 innan 30 mánaða frá stofnun hans. Samhliða hafi málsaðilar gert með sér umræddan handveðssamning þar sem varnaraðili hafi skuldbundið sig til að leggja fram að veði með 1. veðrétti tiltekinn bankareikning og innstæðu á honum til tryggingar á ákvæðum fyrrnefnds þjónustusamnings. Fyrir liggi í málinu að varnaraðili seldi WOW air ehf. flugrekstur og áætlunarflug 23. október 2012. Í því hafi falist að WOW air ehf. tók yfir allt leiðakerfi varnaraðila. Þar með hafi verið ljóst að varnaraðili myndi ekki kaupa neina þjónustu af sóknaraðila á grundvelli þjónustusamningsins og með því hafi varnaraðili slitið samningi aðila með ólögmætum hætti. Varnaraðila beri því samningsbundin skylda til að greiða umsamdar bætur vegna ótímabærra slita á þjónustusamningi aðila. Krafan hafi verið tryggð með handveði í tilteknum bankareikningi samkvæmt ákvæðum handveðssamningsins. Telur sóknaraðili ljóst að með samningnum hafi gilt handveð stofnast og að veðinu hafi verið veitt réttarvernd með tilkynningu til Landsbankans hf. þar um. Andmæli bankans við því hafi ekki þýðingu varðandi réttarvernd veðsins þar sem ljóst sé að til geymslusamnings hafi stofnast milli hans og varnaraðila þegar sá síðarnefndi hafi lagt inn fjármuni í bankann og bankanum hafi borið að rækja skyldur sínar sem umráðamaður veðsins í samræmi við lög nr. 75/1997 um samningsveð.
Varnaraðili hefur hafnað því að ákvæði þjónustusamnings aðila um samningsslitabætur hafi orðið virkt við sölu rekstursins til WOW air. ehf. enda hafi sóknaraðili ekki orðið fyrir neinu tjóni og ekki reynt að sýna fram á að svo hafi verið. Sóknaraðili eigi því ekki neina kröfu í bú varnaraðila. Þá hefur varnaraðili einnig byggt á því að jafnvel þótt talið yrði að varnaraðili ætti slíka kröfu þá gæti sú krafa ekki verið tryggð með veðrétti þar sem ekki hafi stofnast til handveðréttar svo að gilt væri í umræddum bankareikningi sem njóti handveðsréttar.
Samkvæmt ofansögðu er ágreiningur aðila því tvíþættur og lýtur annars vegar að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli þjónustusamnings aðila frá 2. febrúar 2012 og ef svo er hvort sú krafa njóti veðréttar á grundvelli handveðssamnings aðila frá 27. febrúar 2012 og rétthæðar sem slík við gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
Í málinu hefur varnaraðili haldið því fram að hann sé ekki sami aðili og Ísland Express ehf. og þá sé þrotabú IEMI ehf. ekki sami lögaðili og IEMI ehf. Með vísan til 72 gr. laga nr. 21/1991 er þessum mótbárum varnaraðila vísað á bug. Ljóst má vera að þrotabú varnaraðila tók við skyldum varnaraðila m.a. samkvæmt ákvæðum áðurnefnds samnings og þá liggur einnig fyrir að félagið Ísland Express ehf. er sami aðili og IEMI ehf. sem rekinn var undir sömu kennitölu en öðru nafni.
Í málinu liggur fyrir að varnaraðili hætti flugrekstri í október 2012 og seldi reksturinn félaginu Wow air ehf. Við sölu til annars aðila var ljóst að samningssamband sóknaraðila og varnaraðila, samkvæmt áðurnefndum þjónustusamningi, leið undir lok enda liggur ekkert fyrir um að félagið Wow air ehf. hafi með nokkrum hætti tekið yfir skuldbindingar varnaraðila samkvæmt áðurnefndum samningi. Ljóst má því vera að forsendur voru brostnar fyrir áframhaldandi samstarfi á grundvelli þjónustusamnings aðila. Í ljósi aðstæðna, og ekki síst forsögu samningsgerðarinnar sem tíundaðar eru í aðfaraorðum samningsins, verður að telja að við þessar aðstæður hafi stofnast skylda varnaraðila til greiðslu samningsslitabóta samkvæmt 3. lið II. kafla samningsins, enda ljóst að ekki yrði um frekari viðskipti þeirra á milli að ræða á grundvelli samningsins. Samkvæmt ákvæðum samningsins skyldi varnaraðili greiða sóknaraðila 15.000.000 króna vegna samningsslita. Fjárhæð samningsslitabóta var ákveðin og umsamin milli aðila í ljósi fyrri viðskipta þeirra og verður að telja að í því hafi falist að sóknaraðili þyrfti ekki sérstaklega að sýna fram á umfang tjóns síns yrði á annað borð talið að skylda til greiðslu samningsslitabóta samkvæmt fyrrnefndu ákvæði hefði stofnast. Dómurinn telur því samkvæmt framansögðu að sóknaraðili hafi með réttu gert tilkall til umræddrar fjárhæðar úr hendi varnaraðila þegar ljóst var að samningssambandi þeirra var lokið fyrir tilstuðlan og vegna aðgerða varnaraðila.
Varnaraðili hefur eins og áður var lýst gert tilkall til þess að krafa hans um samningsslitabætur samkvæmt ákvæðum þjónustusamningsins njóti rétthæðar sem veðkrafa við slit varnaraðila og vísar þar um til ákvæða handveðssamnings sem aðilar gerðu með sér í tengslum við gerð þjónustusamningsins. Eins og rakið er með ítarlegum hætti í málavaxtalýsingu mun Landsbankanum hf. hafa verið tilkynnt um handveðssamninginn 18. apríl 2012. Ekki liggja fyrir gögn í málinu um samskipti sóknaraðila við bankann þann dag. Sóknaraðili ritaði bankanum bréf 26. sama mánaðar þar sem hann áréttaði veðsetninguna og skyldu bankans til að skrá hana. Skoraði sóknaraðili jafnframt á Landsbankann hf. að senda sér staðfestingu á því að bankinn myndi rækja skyldur sínar sem umráðamaður veðsins í samræmi við lög nr. 75/1997 um samningsveð. Með tölvupósti 3. maí 2012 var því hafnað af hálfu bankans að hann hefði samþykkt að hafa umráð hins veðsetta fyrir veðhafa og gæti veðrétturinn því ekki hafa öðlast réttarvernd við tilkynningu um veðsetningu til umráðamanns, sbr. 2. málslið 3. tl. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Í tölvupóstinum var vísað til samskipta frá 18. apríl sama ár, sem eins og áður sagði liggja ekki fyrir í málinu, en ekki er deilt um að áttu sér stað.
Þegar ljóst varð að varnaraðili hafði selt öðru félagi rekstur sinn 23 október 2012 krafðist varnaraðili þess í bréfi til Landsbankans hf. 30. sama mánaðar að fá greidda innstæðu hins veðsetta bankareiknings. Í svarbréfi bankans degi síðar ítrekaði bankinn fyrri afstöðu sína um að hann væri ekki aðili að handveðssamningnum og hefði ekki tekið að sér umráð veðsins fyrir hönd sóknaraðila. Því myndi bankinn ekki lúta fyrirmælum um ráðstöfun á innstæðu reikningsins nema frá þeim sem hefði heimild til þess fyrir hönd eiganda reikningsins. Sóknaraðili mótmælti afstöðu bankans í bréfi 4. nóvember 2012.
Dómurinn telur ljóst af atvikum málsins að handveðréttur sóknaraðila samkvæmt títtnefndum handveðssamningi öðlaðist aldrei réttarvernd í skilningi 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 þar sem umráðamaður veðsins, Landsbankinn hf., neitaði því frá upphafi að hafa umráð hins veðsetta fyrir veðhafa þegar honum var tilkynnt um hana. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 3. mgr. 22. gr. laganna gat veðrétturinn ekki öðlast réttarvernd við þær aðstæður. Skiptir þá ekki máli þótt einhverjar millifærslur kunni að hafa átt sér stað út af reikningnum, að ósk varnaraðila og með samþykki sóknaraðila, í því skyni, að því er virðist, að sýna fram á að sóknaraðili ætti handveð í umræddum reikningi og að varnaraðili væri sviptur umráðum veðsins. Gátu slíkar tilfæringar og tilfærslur af hálfu fyrirsvarsmanna aðila ekki leitt til þess að veðrétturinn öðlaðist réttarvernd í andstöðu við vilja Landsbankans hf. sem hafnaði því strax í upphafi að hann væri umráðamaður veðsins. Þá verður Landsbankinn hf. með þessum millifærslum ekki á nokkurn hátt talinn hafa samþykkt eða viðurkennt skyldu sína sem vörsluaðili umræddra fjármuna. Þá verða þær heldur ekki taldar til marks um það að varnaraðili hafi verið sviptur umráðum veðsins. Ekki verður heldur talið að réttarvernd hafi skapast þar sem bankanum hafi borið skylda til að taka umráð veðsins á grundvelli þess að til gagnkvæms samnings milli hans og varnaraðila hefði stofnast er varnaraðili lagði þar inn fé. Er ekki unnt að líta svo á að til geymslusamnings í skilningi 3. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 hafi stofnast við það eitt að varnaraðili var með þessum hætti viðskiptamaður bankans. Er sjónarmiðum sóknaraðila hvað þetta varðar hafnað.
Ljóst má því vera að samkvæmt skýru orðalagi 3. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 öðlaðist innstæða á títtnefndum bankareikningi ekki réttarvernd þrátt fyrir tilkynningu til Landsbankans hf. um samning aðila þar sem bankinn neitaði að hafa umráð hins veðsetta. Verður kröfu sóknaraðila um að krafa hans njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 því hafnað.
Við munnlegan málflutning byggði varnaraðili á því að ákvæði þjónustusamnings aðila um samningsslitabætur gæti ekki átt við í málinu þar sem samningi aðila hefði verið lokið er varnaraðili varð gjaldþrota. Sóknaraðili mótmælti þessari málsástæðu, sem ekki var byggt á í greinargerð varnaraðila, sem of seint fram kominni. Kemur hún því ekki frekar til álita við úrlausn málsins auk þess sem ekki verður séð að varnaraðila sé hald í henni þar sem sérstaklega var kveðið á um það í samningnum að réttur til samningsbóta gæti stofnast yrði samningi aðila slitið innan ákveðins tíma og við ákveðnar aðstæður, t.d. ef bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Þar sem fallist hefur verið á að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna samningsslita á grundvelli ákvæða þjónustusamnings aðila frá 2 febrúar 2012 en því hafnað að krafa hans njóti stöðu sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, þar sem hún njóti ekki þeirrar réttarverndar sem nauðsynleg er gagnvart skuldheimtumönnum og síðari viðsemjendum varnaraðila, verður á hinn bóginn talið að hún njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna og verður hún því viðurkennd sem slík í réttindaröð við slit varnaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Í málinu liggja fyrir tölvupóstar lögmanns sóknaraðila og skiptastjóra í tilefni af upplýsingum sem fram komu í greinargerð varnaraðila um að umræddum bankareikningi, sem sóknaraðili taldi að hefði verið veðsettur sér, hafi verið lokað og hann eyðilagður samkvæmt fyrirmælum skiptastjóra. Voru tölvupóstar þessir lagðir fram af hálfu sóknaraðila. Tölvupóstssamskipti þessi og efni þeirra urðu svo tilefni framlagningar bókunar af hálfu sóknaraðila í þinghaldi 22. apríl sl. og bókunar varnaraðila í kjölfarið í sama þinghaldi. Leiddi það einnig til máls nr. Ö-15/2015 um frávikningu skiptastjóra. Dómurinn vill af þessu tilefni taka fram að ummæli lögmanns sóknaraðila í framangreindum gögnum um skiptastjóra, störf hans og ráðstafanir varðandi margnefndan reikning eru að mati dómsins óviðeigandi. Það sama má segja um málflutning sóknaraðila fyrir dóminum hvað þetta varðar. Með hliðsjón af atvikum öllum telur dómurinn þó ekki efni til að beita réttarfarssekt samkvæmt e-lið 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með hliðsjón af úrslitum málsins og atvikum þess að öðru leyti þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Af hálfu sóknaraðila flutti máli Jón Ingi Þorvaldsson hdl., vegna Hróbjarts Jónatanssonar hrl, en hálfu varnaraðila, Ástráður Haraldsson hrl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 10. apríl sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, APA ehf., um að krafa hans á hendur varnaraðila, þrotabúi IEMI ehf., að fjárhæð 15.404.300 krónur, sem hann lýsti í þrotabú varnaraðila á grundvelli handveðssamnings frá 27. febrúar 2012 og er nr. 57 á kröfuskrá, njóti við gjaldþrotaskipti varnaraðila rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en viðurkennt að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Málskostnaður fellur niður.