Hæstiréttur íslands

Mál nr. 62/2011


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Verðtrygging
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 8. desember 2011.

Nr. 62/2011.

Ólafur Veturliði Björnsson og

Áslaug Dröfn Heiðarsdóttir

(Björn Þorri Viktorsson hrl.

Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Andri Árnason hrl.)

Skuldabréf. Gengistrygging. Verðtrygging. Kröfugerð. Málsástæður. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Í hf. höfðaði mál gegn Ó og Á til innheimtu á kröfu á grundvelli lánssamnings milli Í hf. og Ó. Héraðsdómur hafði leyst úr málinu á grundvelli þess að ágreiningslaust væri að skuldbinding Ó væri í erlendum myntum. Í greinargerð til Hæstaréttar krafðist Í hf. staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Fyrir munnlegan flutning málsins féll Í hf. frá kröfu sínu um staðfestingu héraðsdóms og lagði fram nýja kröfu sem var tilgreind í íslenskum krónum og var samhljóða einni þeirra varakrafna sem bankinn gerði í héraði. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafði tekið gildi ákvæði til bráðabrigða X. við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem Í hf. taldi að leiddi til þess að honum bæri að umreikna kröfu sína í íslenskar krónur þótt skuldbinding Ó í erlendum gjaldmiðlum hefði verið gild. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt afsakanlegt væri að Í hf. hefði ekki borið þessa málsástæðu fyrir sig í héraði hefði hún ekki komið fram í greinargerð hans fyrir Hæstarétti og að með henni hefði grundvelli málsins algjörlega verið raskað. Af þessum sökum skorti mjög á að öllum skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt til þess að Hæstiréttur gæti byggt á þessari nýju málsástæðu við úrlausn málsins. Hún fæli óhjákvæmilega í sér að bankinn hefði í reynd fallið frá öllum málsástæðum varðandi útreikning kröfunnar, sem hann byggði á fyrir héraðsdómi. Í raun væru engar málsástæður lengur tiltækar af hendi Í hf. til að byggja úrlausn málsins á að því er varðaði ákvörðun á fjárhæð kröfunnar. Málinu var því vísað frá héraðsómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2011 og krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda. Til vara krefst áfrýjandinn Ólafur Veturliði Björnsson þess að eftirstöðvar skuldabréfs, sem hann gaf út til Glitnis banka hf. 5. september 2007, verði miðað við 22. desember 2008 færðar niður aðallega í 16.211.486 krónur, til vara 8.198.529,14 japönsk yen og 87.369,35 svissneska franka, til þrautavara 9.122.804,75 japönsk yen og 97.238,15 svissneska franka, að því frágengnu 9.413.265,46 japönsk yen og 103.190,44 svissneska franka, en ella 9.807.116,07 japönsk yen og 104.511,60 svissneska franka. Í öllum tilvikum öðrum en í aðalkröfu krefst áfrýjandinn Ólafur Veturliði að gjaldfelling 22. desember 2008 á skuldabréfinu verði felld úr gildi og dómurinn „staðfesti greiðsluskyldu áfrýjandans Ólafs Veturliða á afborgunum frá þeim degi, til samræmis við ákvarðaðan höfuðstól og samningsvexti.“ Verði fallist á að krafa stefnda beri aðra vexti en kveðið er á um í skuldabréfinu skuli sú ákvörðun ekki hafa áhrif fyrr en frá uppkvaðningu dóms í málinu. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að áfrýjandanum Ólafi Veturliða verði gert að greiða sér 19.997.149 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. desember 2008 til greiðsludags, en héraðsdómur verði að öðru leyti staðfestur. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandinn Ólafur Veturliði gaf út skuldabréf 5. september 2007 til Glitnis banka hf., sem bar fyrirsögnina „skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Fjárhæð skuldarinnar var 174.186 svissneskir frankar og 16.345.211 japönsk yen og var hún tilgreind bæði í tölustöfum og bókstöfum. Í texta bréfsins var tekið fram að jafnvirði lánsins miðað við 17. ágúst 2007 væri 20.000.000 krónur og var sú fjárhæð einnig tilgreind bæði í tölustöfum og bókstöfum. Lánið skyldi endurgreitt með 300 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta skipti 20. október 2007. Lánsféð átti að greiða inn á tilgreindan bankareikning í íslenskum krónum í eigu áfrýjandans og skyldu afborganir af láninu skuldfærðar á sama reikning. Lánið átti að bera LIBOR vexti auk 3,1% álags sem greiddir yrðu á sömu gjalddögum og afborganir af höfuðstól. Bankanum var heimilt að breyta vaxtaálagi einhliða á gjalddaga fjórum árum frá útborgun lánsins og síðan á fjögurra ára fresti, en sætti útgefandi sig ekki við slíka breytingu gat hann greitt skuldina upp innan 30 daga án kostnaðar. Í stöðluðum texta skuldabréfsins, sem var á eyðublaði merktu bankanum, voru einnig skilmálar um að lánshlutar í evrum skyldu bera EURIBOR vexti, en lánshlutar í íslenskum krónum REIBOR vexti. Í skilmálum bréfsins var tekið fram að lánveitandi gæti „leyft færslu skuldarinnar yfir á aðra gjaldmiðla“. Skyldi við umreikning yfir í aðra gjaldmiðla  taka mið af síðustu almennu gengisskráningu Glitnis banka hf. á íslenskum krónum með nánar tilteknum hætti. Í bréfinu var ákvæði um að yrðu vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldinni eða aðrar vanefndir væri heimilt að fella hana alla í gjalddaga fyrirvaralaust án uppsagnar, en bankanum væri þá heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags.

Lánið var greitt inn á fyrrnefndan reikning áfrýjandans Ólafs Veturliða 1. október 2007. Það var framkvæmt þannig að frá fjárhæð láns í hvorum gjaldmiðli samkvæmt skuldabréfinu var dregið lántökugjald, þóknun og stimpilgjald í viðkomandi mynt og mismunurinn síðan umreiknaður í íslenskar krónur miðað við tiltekið gengi svissnesks franka og japansks yens. Til útborgunar komu samtals 17.408.236 krónur. Útborgun lánsins miðaðist þannig við höfuðstól þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir voru í skuldabréfinu, en ekki það jafnvirði þeirra í íslenskum krónum sem þar kom fram.

Áfrýjandinn Ólafur Veturliði hafði 12. maí 2006 gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 15.000.000 krónur fyrir öllum skuldum sem hann væri eða yrði síðar í við Glitni banka hf. og var bankanum veittur fyrsti veðréttur í fasteigninni Tröllhólum 1 á Selfossi. Skilmálum tryggingarbréfsins var eftir þetta ítrekað breytt, en samkvæmt gögnum málsins stendur það nú til tryggingar á öllum skuldum beggja áfrýjenda við bankann og er tryggt með 7. veðrétti í fyrrgreindri fasteign.

Skilmálbreyting var gerð 19. nóvember 2008 á skuldabréfinu þannig að eftirstöðvar lánsins 17. sama mánaðar, 166.633 svissneskir frankar og 15.636.919 japönsk yen án vaxta, skyldu „endurgreiðast með 6 vaxtagjalddögum á 1 mánaða fresti, í fyrsta sinn 20.11.2008 og 287 afborgunum á 1 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 20.05.2009.“ Áttu vextir að „reiknast frá síðasta greidda gjalddaga.“

Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 14. október 2008, sem sætti síðan breytingum, um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Glitnis banka hf., sem nú ber heiti stefnda, en óumdeilt er að á þeim grunni fari hann nú með kröfuréttindi samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi.

Stefndi kveður vanskil hafa orðið á skuldabréfinu frá vaxtagjalddaga 22. desember 2008. Hann hafi gjaldfellt skuldina og hafi umreiknaðar eftirstöðvar þess í íslenskum krónum miðað við þann dag numið 39.913.111 krónum. Stefndi höfðaði mál þetta 6. apríl 2010 og krafðist þess að áfrýjandinn Ólafur Veturliði yrði aðallega dæmdur til að greiða sér þá fjárhæð en til vara 167.249,19 svissneska franka og 15.691.183,71 japönsk yen, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Þá krafðist hann þess gagnvart báðum áfrýjendum að viðurkennt yrði að 18.943.966 krónur ásamt sömu dráttarvöxtum og að ofan greinir hvíli á 7. veðrétti í fasteigninni Tröllhólum 1 í Árborg. Loks krafðist stefndi málskostnaðar.

Áfrýjendur tóku til varna og kröfðust í greinargerð aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara að krafa stefnda yrði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla. Í greinargerðinni var byggt á þeirri málsástæðu að í fyrrgreindu skuldabréfi hafi með ólögmætum hætti verið kveðið á um verðtryggingu fjárskuldbindingar í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá voru varnir einnig meðal annars á því reistar að brostnar væru forsendur fyrir skuldbindingu samkvæmt skuldabréfinu og að það væri óskuldbindandi að hluta með vísan til nánar tiltekinna ákvæða í III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum.

Í þinghaldi 22. september 2010 lagði stefndi fram bókum um breytta kröfugerð. Stóðu þar óbreyttar kröfur hans um greiðslu úr hendi áfrýjandans Ólafs Veturliða, viðurkenningu á veðrétti og málskostnað, en við fjárkröfur á hendur áfrýjandanum var aukið fjórum nýjum varakröfum. Með áorðnum breytingum varð þannig fyrsta varakrafa stefnda að áfrýjandanum yrði gert að greiða sér 167.249,19 svissneska franka og 15.691.183,71 japönsk yen, í annarri varakröfu 20.337.879 krónur, í þeirri þriðju 19.997.149 krónur, í fjórðu varakröfu 19.851.795 krónur og í þeirri fimmtu 16.211.486 krónur, en í öllum tilvikum krafðist stefndi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Áfrýjendur andmæltu því ekki að þessar kröfur kæmust að í málinu.

Í upphafi þinghalds í héraði 1. október 2010, þar sem málið kom til aðalmeðferðar, lögðu áfrýjendur fram bókun um breytta kröfugerð, sem ekki sætti andmælum stefnda. Samkvæmt henni stóð óbreytt aðalkrafa áfrýjenda um sýknu og málskostnað, en í stað upphaflegrar varakröfu um lækkun á kröfu stefnda komu fimm varakröfur. Fyrstu varakröfurnar fjórar áttu það sammerkt að með þeim var krafist að eftirstöðvar skuldabréfsins yrðu færðar niður miðað við 22. desember 2008 í tilteknar fjárhæðir, í þeirri fyrstu í 8.198.529,14 japönsk yen og 87.369,35 svissneska franka, í annarri 9.122.804,75 japönsk yen og 97.238,15 svissneska franka, í þriðju 9.413.265,46 japönsk yen og 103.190,44 svissneska franka, en í fjórðu 9.807.116,07 japönsk yen og 104.511,60 svissneska franka. Í fimmtu varakröfu var loks krafist að staðfest yrði að lán samkvæmt skuldabréfinu væri „í íslenskum krónum í skilningi laga nr. 38/2001, með ólögmætri gengistryggingu sbr. 13. og 14. gr. laganna.“ Jafnframt var þess krafist „að lánið beri samningsvexti bæði í fortíð og framtíð.“ Í öllum varakröfunum var þess einnig krafist að gjaldfelling 22. desember 2008 á skuldbréfinu yrði felld úr gildi og staðfest yrði greiðsluskylda áfrýjandans Ólafs Veturliða „á afborgunum frá þeim degi, til samræmis við ákvarðaðan höfuðstól og samningsvexti.“

Í forsendum hins áfrýjaða dóms, sem kveðinn var upp 29. október 2010, greinir meðal annars að í munnlegum málflutningi af hálfu áfrýjenda hafi komið skýrlega fram að þau byggi á því að um væri að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum. Taldi dómurinn að líta yrði svo á að áfrýjendur hefðu horfið frá málsástæðum sem reistar væru á því að um væri að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Héraðsdómur leysti úr málinu á grundvelli þess að ágreiningslaust væri að skuldbinding áfrýjandans Ólafs Veturliða samkvæmt skuldabréfinu væri í erlendum myntum, en tók afstöðu til annarra málástæðna áfrýjenda.

Kröfugerð áfrýjenda fyrir Hæstarétti er lýst hér að framan. Eins og þar kemur fram er fyrsta varakrafa áfrýjandans Ólafs Veturliða nú að eftirstöðvar skuldabréfsins verði færðar niður í 16.211.486 krónur miðað við 22. desember 2008. Þessi krafa, sem ekki var höfð uppi í héraði, er reist á því að skuldbinding samkvæmt skuldabréfinu hafi verið í íslenskum krónum og beri að líta fram hjá ákvæðum þess um skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum. Í greinargerð til Hæstaréttar krafðist stefndi staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar hér fyrir dómi. Með bréfi 25. nóvember 2011 breytti stefndi á hinn bóginn kröfugerð sinni í það horf sem að framan er rakið og krefst þess nú að áfrýjandanum Ólafi Veturliða verði gert að greiða sér 19.997.149 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Þetta er sama krafa og stefndi hafði endanlega uppi í héraði sem þriðju varakröfu. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti stafa framangreindar breytingar á kröfugerð aðilanna af því að eftir uppkvaðningu héraðsdóms tóku gildi 29. desember 2010 breytingar á lögum nr. 38/2001, sem gerðar voru með lögum nr. 151/2010. Í þessu sambandi byggir stefndi nú á því að vegna ákvæðis til bráðabirgða X. við lög nr. 38/2001, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010, beri honum að umreikna kröfu sína á grundvelli skuldabréfsins í íslenskar krónur miðað við gengi á útgáfudegi þess, þótt skuldbinding áfrýjandans Ólafs Veturliða í erlendum gjaldmiðlum hafi verið gild. Eftir þann umreikning eigi krafan að bera vexti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá útgáfudegi skuldabréfsins án tillits til þess hvort áfrýjandinn hafi þegar greitt afborganir og vexti eftir upphaflegum skilmálum þess, en slíkar greiðslur komi síðan til frádráttar heildarkröfu stefnda, allt samkvæmt því, sem nánar er mælt fyrir um í 1., 3. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Áfrýjandinn Ólafur Veturliði gengur í fyrstu varakröfu sinni út frá sömu forsendum, en þó þannig að virðist að stefnda sé óheimilt að endurreikna vexti af kröfunni vegna tímabils fram til uppkvaðningar dóms í málinu.

II

Í héraðsdómsstefnu krafðist stefndi þess sem áður segir að áfrýjandanum Ólafi Veturliða yrði aðallega gert að greiða sér 39.913.111 krónur en til vara 167.249,19 svissneska franka og 15.691.183,71 japönsk yen. Aðalkrafan var við það miðuð að stefnda hafi verið heimilt að færa fjárhæð kröfu sinnar samkvæmt skuldabréfinu 5. september 2007 úr þessum erlendu gjaldmiðlum yfir í íslenskar krónur eftir gengi þeirra þann dag, sem skuldin hafi verið gjaldfelld, en varakrafan var reist á því að skuldin yrði áfram látin standa í erlendu gjaldmiðlunum. Þessu til samræmis sneri umfjöllun í stefnunni um málsástæður einungis að atriðum, sem vörðuðu skuldbindingu áfrýjandans eftir hljóðan skuldabréfsins, og var að öllu leyti við það miðað að hún hafi verið í erlendum gjaldmiðlum svo að gilt væri að lögum. Við þessar tvær kröfur hélt stefndi þegar hann setti fram sem áður segir nýjar varakröfur í þinghaldi í héraði 22. september 2010, en í þeim öllum var lagt til grundvallar að ekki yrði fallist á að skuldbindingin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, heldur í íslenskum krónum með ólögmætri verðtryggingu miðað við gengi þessara sömu gjaldmiðla. Þótt þriðja varakrafa stefnda hafi verið sömu fjárhæðar og krafan, sem hann hefur nú eina uppi fyrir Hæstarétti, var hún af augljósum ástæðum ekki reist á því að útreikningur hennar ætti að ráðast af ákvæðum laga nr. 151/2010, sem höfðu þá ekki enn verið sett. Í hinum áfrýjaða dómi var aðalkrafa stefnda sem fyrr segir tekin til greina og lagt þar meðal annars til grundvallar að óumdeilt væri milli aðilanna að skuldbinding áfrýjandans Ólafs Veturliða samkvæmt skuldabréfinu í erlendum gjaldmiðlum væri ekki andstæð ákvæðum laga nr. 38/2001.

Málatilbúnaður stefnda fyrir Hæstarétti er á hinn bóginn reistur á því að ákvæði til bráðabirgða X. við lög nr. 38/2001, sem eins og fyrr greinir tók gildi 29. desember 2010, leiði til þess að umreikna beri skuldbindingu áfrýjandans úr erlendu gjaldmiðlunum yfir í íslenskar krónur frá öndverðu. Vexti af kröfunni eigi síðan að reikna eftir reglum 18. gr. laganna, sem tóku gildi sama dag. Þessi málsástæða að baki kröfu stefnda kemur hvergi nærri málatilbúnaði hans í héraðsdómsstefnu og var fyrst höfð uppi við munnlegan flutning málsins í Hæstarétti. Þótt afsakanlegt sé að stefndi hafi ekki borið þessa málsástæðu fyrir sig í héraði kom hún ekki fram í greinargerð hans fyrir Hæstarétti og er með henni algjörlega raskað grundvelli málsins, sem eftir munnlegum flutningi þess hér fyrir dómi á orðið lítið skylt við þann, sem héraðsdómur tók mið af. Af þessum sökum skortir mjög á að öllum skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994, sé fullnægt til þess að Hæstiréttur geti byggt á þessari nýju málsástæðu við úrlausn málsins. Þótt hún komist þannig ekki að í málinu felur hún óhjákvæmilega í sér að stefndi hefur í reynd fallið frá öllum málsástæðum varðandi útreikning kröfunnar, sem hann byggði á fyrir héraðsdómi. Málið er þannig nú í því horfi að í raun eru engar málsástæður lengur tiltækar af hendi stefnda til að byggja úrlausn þess á að því er varðar ákvörðun á fjárhæð kröfunnar. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 29. október 2010.

                Mál þetta, sem var þingfest 21. apríl 2010 og dómtekið þann 1. október, var höfðað af Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með birtingu stefnu þann 6. apríl sl. gegn Ólafi Veturliða Björnssyni, kt. 030869-4279 og þann sama dag gegn Áslaugu Dröfn Heiðarsdóttur, báðum til heimilis að Tröllhólum 1, Selfossi. 

Endanlegan dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi, Ólafur Veturliði Björnsson, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 39.913.111, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Ólafur Veturliði, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð CHF 167.249,19 (svissneskir frankar) og JPY 15.691.183,71 (japönsk jen), ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af CHF 167.249,19 og JPY 15.691.183,71 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi, Ólafur Veturliði, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 20.337.879, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að stefndi, Ólafur Veturliði, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 19.997.149, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Til þrautaþrautaþrautavara krefst stefnandi þess að stefndi, Ólafur Veturliði, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 19.851.795, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags. Að lokum gerir stefnandi þá kröfu, verði ekki fallist á framangreindar kröfur, að stefndi, Ólafur Veturliði, verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 16.211.486, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu, Ólafur Veturliði og Áslaug Dröfn, verði dæmd til að þola viðurkenningu á 7. veðrétti í fasteigninni Tröllhólum 1, Árborg, fastanr. 227-3816, fyrir kr. 18.943.966,00, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags, auk alls kostnaðar af innheimtuaðgerðum þessum.

Loks krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk virðisaukaskatts af honum.

Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndu verði sýkn af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi, Ólafur Veturliði Björnsson, þess að héraðsdómur færi eftirstöðvar skuldabréfsins miðað við 22. desember 2008 niður í 8.198.529,14 JPY og 87.369,35 CHF. Í annarri varakröfu krefst stefndi Ólafur Veturliði þess að héraðsdómur færi eftirstöðvar skuldabréfsins miðað við 22. desember 2008 niður í 9.122.804,75 JPY og 97.238,15 CHF. Í þriðju varakröfu krefst stefndi Ólafur Veturliði þess að héraðsdómur færi eftirstöðvar skuldabréfsins miðað við 22. desember 2008 niður í 9.413.265,46 JPY og 103.190,44 CHF. Í fjórðu varakröfu krefst stefndi Ólafur Veturliði þess að héraðsdómur færi eftirstöðvar skuldabréfsins miðað við 22. desember 2008 niður í 9.807.116,07 JPY og 104.511,60 CHF. Að lokum er þess krafist, fallist héraðsdómur ekki á neina af framangreindum varakröfum stefnda Ólafs, að staðfest verði með dómi að umdeilt lán sé lán í íslenskum krónum í skilningi laga nr. 38/2001, með ólögmætri gengistryggingu sbr. 13. og 14. gr. laganna.  Verði það niðurstaðan, er þess jafnframt krafist að lánið beri samningsvexti bæði í fortíð og framtíð.

Þá er þess jafnframt krafist í fyrstu til fimmtu varakröfu, að héraðsdómur felli gjaldfellingu skuldabréfsins hinn 22. desember 2008 úr gildi og staðfesti greiðsluskyldu stefnda Ólafs Veturliða á afborgunum frá þeim degi, til samræmis við ákvarðaðan höfuðstól og samningsvexti.

Loks er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk virðisaukaskatts af honum.

Þar að auki gerir stefndi kröfu þess efnis, telji hinn virðulegi réttur sér ekki fært að byggja úrlausn sína á aðalkröfu stefndu, né heldur fyrstu til fjórðu varakröfu stefnda Ólafs Veturliða, að rétturinn kveði upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. og ákvæði 1. sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994. 

Málavextir

Stefnandi kveður málavexti vera þá að skuld þessi sé skv. skuldabréfi í erlendum gjaldmiðlum útg. 5. september 2007 af stefnda Ólafi Veturliða, til Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., en Íslandsbanki hf. hafi tekið yfir skuldabréfið, sbr. ákvörðun fjármálaeftirlitsins dags., 14. október 2008. Skuldabréfið sé að fjárhæð CHF. 174.186.-, svissneskir frankar, og JPY. 16.345.211.-, japönsk yen. Jafnvirði þá kr. 20.000.000,00.

Hafi borið að greiða LIBOR-vexti af láninu, en LIBOR vextir séu vextir á millibankamarkaði í London eins og þeir eru auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í London á BBA síðu Reuters og vísar stefnandi til 3. gr. skuldabréfsins. Fyrsta vaxtatímabil hafi borið að greiða Libor CHF 2,8% og Libor JPY 0,86875%. Fast vaxtaálag hafi verið 3,1%. Vegnir meðaltalsvextir hafi verið 4,934375%

Skuldabréfið hafi borið að greiða með 300 afborgunum með eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 20.10.2007.

Skilmálar skuldabréfsins kveði svo á, að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldabréfinu eða aðrar vanefndir sé lánveitanda heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Ennfremur að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim myntum sem skuldin samanstandi af. Einnig sé kveðið á um að greiða beri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

Skilmálum skuldabréfsins hafi verið breytt með skilmálabreytingu þann 19. nóvember 2008, þannig að eftirstöðvarnar, þá CHF 166.633 og JPY 15.636.919, án vaxta skyldu framvegis endurgreiðast með 6 vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 20. nóvember 2008 og 287 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 20. maí 2009.

Skuldabréf þetta sé í vanskilum frá vaxtagjalddaga 22. desember 2008. Skuldabréfið hafi verið gjaldfellt og eftirstöðvar skuldabréfsins umreiknaðar þann dag í íslenskar krónur, í samræmi við 10. gr. í skilmálum bréfsins, vegna vanskila. Uppreiknaðar eftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu, séu samtals kr. 39.913.111,00 sem sé stefnufjárhæð máls þessa.

Stefnufjárhæðin kr. 39.913.111,00 sé þannig fundin að þann 22. desember 2008, á gjaldfellingardegi skuldabréfsins, séu eftirstöðvar þess færðar yfir í íslenskar krónur, sbr. heimild í 10. gr. skuldabréfsins en á þeim degi hafi svissneskir frankar, þ.e. leggur nr. 852701, verið CHF 166.633,02. Gengi CHF á gjaldfellingardegi hafi verið 111,27 og uppreiknaðar eftirstöðvar þess leggs í íslenskar krónur séu því kr. 18.541.256,00 auk ógreiddra vaxta frá 20. nóvember 2008 kr. 69.111,00 samtals hafi því eftirstöðvar CHF leggs skuldabréfsins verið kr. 18.610.367,00, við gjaldfellingu þann 22. desember 2008.

Japönsk Yen þ.e. leggur nr. 852702, hafi á gjaldfellingardegi verið JPY 15.636.905,91. Gengi JPY á gjaldfellingardegi hafi verið 1,357590 uppreiknaðar eftirstöðvar þess leggs í íslenskar krónur séu því kr. 21.228.507,00 auk ógreiddra vaxta frá 20. nóvember 2008 kr. 74.237,00 samtals hafi því eftirstöðvar JPY leggs skuldabréfsins verið kr. 21.302.744,00 við gjaldfellingu þann 22. nóvember 2008.

Heildareftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu þess þann 22. desember 2008 hafi því verið kr. 39.913.111,00 sem sé stefnufjárhæð málsins.

Varakröfu sína um að stefndi Ólafur Veturliði verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð CHF 167.249,19 svissneskir frankar og JPY 15.691.183,71 japönsk jen, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/20001 af CHF 167.249,19 og JPY 15.691.183,71 frá 22. desember 2008 til greiðsludags, byggi stefnandi á því að við gjaldfellingu skuldabréfsins við fyrstu vanskil þann  22. desember 2008 hafi eftirstöðvar CHF leggs skuldabréfsins verið CHF 166.633.02 og áfallnir vextir frá 20. nóvember 2008 voru CHF 616,17 samtals hafi því CHF leggur skuldabréfsins verið CHF 167.249,19 svissneskir frankar, JPY leggur skuldabréfsins hafi við gjaldfellingu verið JPY 15.636.905.91 og áfallnir vextir frá 20. nóvember 2008 verið JPY 54.277,00 samtals hafi því JPY leggur skuldabréfsins verið JPY 15.691.183,71 japönsk jen.

Kveður stefnandi allar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hafa reynst árangurslausar og sé stefnanda því nauðsyn að höfða mál þetta á hendur stefnda Ólafi. Stefnandi byggi kröfu sína um greiðslu skuldabréfsins á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga auk skýrra ákvæða skuldabréfsins.

Skuldin sé tryggð með tryggingarbréfi útgefnu þann 12. maí 2006 af stefnda Ólafi V. Björnssyni. Með tryggingarbréfinu hafi fasteignin Tröllhólar 1, Selfossi, verið veðsett með 1. veðrétti og uppfærslurétti, til tryggingar á öllum skuldum útgefanda, við Glitni banka hf. kt. 550500-3530 en stefnandi hafi tekið yfir tryggingarbréfið sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 14. október 2008. Tryggingarbréfið sé að fjárhæð kr. 15.000.000,00 verðtryggt með vísitölu neysluverðs m.v. grunnvísitölu þá 255,2 stig, auk dráttarvaxta og alls kostnaðar við innheimtuaðgerðir, hverju nafni sem nefnist.  Þann 18. október 2006 hafi stefnanda einnig verið sett að veði, með 7. veðrétti fasteignin Lambhagi 8, Selfossi og með veðbandslausn þann 3. apríl 2007 hafi fasteignin Lambhagi 8, Selfossi verið leyst úr veðböndum vegna tryggingarbréfsins.

Með áritun á tryggingarbréfið þann 14. september 2007 hafi verið skipt um útgefanda að tryggingarbréfinu, þannig að framvegis skyldi bréfið vera til tryggingar öllum skuldum BRM ehf. kt. 670807-2580, jafnframt hafi verið fallið frá öllum kröfum á hendur Ólafi V. Björnssyni vegna tryggingarbréfsins. En með nýrri áritun á tryggingarbréfið þann 16. apríl  2008 hafi skilmálum bréfsins verið breytt þannig að framvegis skyldi bréfið vera til tryggingar öllum skuldum BRM ehf. og / eða Ólafs Veturliða Björnssonar og /eða Áslaugar Drafnar Heiðarsdóttur, við stefnanda.

Tryggingarbréf þetta hvíli nú á 7. veðrétti fasteignarinnar Tröllhólar 1, Selfossi fastanr. 227-3816.

Tryggingarbréfinu sé stefnt gjaldfelldu miðað við 22. desember 2008 og dráttarvextir miðaðir við þá dagsetningu í dómkröfum, sbr. heimild í  tryggingarbréfinu er segi að við vanefnd sé heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og ganga að veðinu. Við gjaldfellingu hafi vísitala neysluverðs verið 322,3 stig. Uppreiknuð staða tryggingarbréfsins við gjaldfellingu sé því kr. 18.943.966,00 eins og getið sé í dómkröfum. Dráttarvaxtakrafa sé einnig miðuð við þá dagsetningu sbr. heimild í skilmálum tryggingarbréfsins.

Stefndu séu eigendur hinnar veðsettu eignar samkvæmt þinglýsingarbók, sbr. tilgreiningu á meðfylgjandi veðbandayfirliti. Stefnanda beri nauðsyn til að nýta veðrétt sinn skv. tryggingarbréfinu, þar sem útgefandi þess hafi ekki staðið í  skilum við stefnanda með greiðslu skulda sem bréfið átti að tryggja.

                Stefndu lýsa málavöxtum þannig að þau hafi tekist á hendur skuld við stefnanda að fjárhæð 20.000.000 kr. Samkvæmt yfirskrift skuldabréfsins hafi það átt að vera í erlendum myntum, nánar tiltekið í svissneskum frönkum (CHF) og japönskum jenum (JPY) til helminga. Skuldabréfið hafi átt að bera LIBOR-vexti. Fjárhæðin skyldi lögð inn á íslenskan krónureikning stefndu nr. 586-26-2421 og afborganir af láninu skyldu vera greiddar af sama reikningi. Stefndu hafi greitt af skuldabréfinu fram til desember 2008.  Eftir það hafi þau orðið efins um lögmæti lánsins og um það hvort forsendur lánsins stæðust, enda hafi greiðslur þeirra farið úr 112.540 kr. í 241.081 kr. í október 2008. Greiðsla á gjalddaga í nóvember 2008 hafi svo átt að vera 332.527 kr. þannig að frá upphaflegri greiðslu, aðeins rúmu ári áður hafi hún hækkað um 195%. Þetta hafi stefndu ekki getað sætt sig við.  Þau hafi farið fram á leiðréttingu á skuldabréfinu og tiltekið röksemdir sínar því til stuðnings.  Efnislegt svar hafi ekki borist.

                Stefndi Ólafur Veturliði gaf skýrslu fyrir dóminum og kom fram hjá honum að þau hjón hafi staðið í húsbygginu og farið í Íslandsbanka til að sækja um lán fyrir framkvæmdinni, en áður hafi hann fjármagnað bygginguna með yfirdráttarláni.  Hafi hann sóst eftir láni fyrir 20 milljónum íslenskra króna, en þjónustufulltrúinn hafi bent honum á þetta lán, sem mjög hagstætt gengistryggt lán.  Þjónustufulltrúinn hafi gert grein fyrir að gengi gætið sveiflast til um 20%, en þjónustufulltrúinn hafi mælt mjög með láninu.  Þetta hafi verið nokkrum dögum fyrir undirritun lánsins þann 5. september 2007.  Lánið hafi ekki verið greitt út fyrr en 1. október s. á. og það hafi verið vegna þess að þjónustufulltrúinn hafi talað um að samkvæmt spá bankans myndi gengi krónunnar verða hagstæðara síðar og stefndi fengi því hærri upphæð ef hann gæti hinkrað nokkra hríð með að innleysa bréfið.  Hafi því verið ákveðið að hinkra um sinn.  Hafi spá bankans ekki gengið eftir og hafi því stefndi innleyst lánið en honum hafi verið þörf á því til að greiða upp yfirdráttinn, sem hafi kostað sig um 500.000 kr. í vexti á mánuði af yfirdrættinum.  Við bankahrunið haustið 2008 hafi gengið fallið mikið og mun meira en um þau 20% sem bankinn hafi spáð og hafi því forsendur lánsins brostið á þeim tíma.  Greiðslubyrði lánsins hafi verið um kr. 130.000 fyrir bankahrun, en hún hafi eftir það farið hæst yfir 300.000 kr. á mánuði.  Ekki hafi verið greitt af bréfinu síðan í desember 2008, en áður hafi verið sótt um frystingu á láninu og hafi aðeins verið boðið upp á sex mánaða frystingu og ekki hægt að framlengja henni eftir það og þá hafi allir sjóðir heimilisins verið tæmdir, auk þess að vinna hafi þá minnkað verulega hjá stefnda.  Kvaðst stefndi hafa verið í sambandi við starfsfólk bankans, sem hafi ekki fengið svör frá höfuðstöðvum bankans um hvað væri til ráða.  Ekki kvað stefndi sér hafa verið upp á greiðslujöfnun á þessum tíma.  Ekki hafi stefndi farið í greiðsluaðlögun eða leitað eftir því.  Stefndi skýrði frá því að vinna hans og tekjur hafi minnkað um 40% frá október 2008, en fjölskyldutekjur hafi lækkað í samræmi við það, en tekjur eiginkonunnar hafi hins vegar haldist svipaðar.  Tekjur þeirra hjóna séu í íslenskum krónum.  Kom fram að stefnda hefði lánast að ljúka húsbyggingunni.     

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu skuldabréfsins á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga auk skýrra ákvæða skuldabréfsins.

Varakröfu sína byggir stefnandi á sömu sjónarmiðum og sé um að ræða sömu fjárhæð og í aðalkröfu að því undanskildu að í varakröfu hafi fjárhæðin ekki verið umreiknuð í íslenskar krónur.

Þrautavarakröfur sínar byggir stefnandi á þeirri málsástæðu, verði ekki á það fallist að skuldbindingin sé í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. myntunum CFH og JPY, að um sé að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónur. Þrautavarakröfur stefnanda byggja á mismunandi vaxtaútreikningum þannig að fyrsta þrautavarakrafa stefnanda miðar við að krafan beri REIBOR-vexti í samræmi við 3. tölul. skilmála skuldabréfsins. REIBOR vextir ákvarðist tveimur dögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu vaxtaálagi. Með REIBOR (Reykjavík Inter Bank Offerd Rate) vöxtum sé átt við vexti á millibankamarkaði með íslenskar krónur eins og þeir séu auglýstir kl. 11 að staðartíma í Reykjavík. Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggir á því að lánsamningur aðila hafi átt að bera vexti en að um hæð þeirra verði ekki litið til þess sem um var samið í lánssamningi heldur beri að miða vexti við það að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir væri, þ.e. vextir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum, sbr. 1. ml. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og sem birtir eru skv. 2. mgr. 10. gr. s.l. Þrautaþrautaþrautavarakrafa stefnanda byggir á því að fjárskuldbinding samkvæmt skuldabréfinu miðist við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001, frá upphafsdegi samningsins, og að fjárskuldbindingin beri vexti, en að um hæð þeirra verði ekki litið til þess sem um var samið í lánssamningi, heldur beri að miða vexti við það að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir væri, þ.e. vextir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum, sbr. 2. ml. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og sem birtir eru skv. 2. mgr. 10. gr. s.l.

Kröfu sína um greiðslu á fjárhæð kr. 16.211.486, sem sett er fram verði ekki fallist á aðrar fram komnar kröfur byggir stefnandi á því að ef ekki verði fallist að skuldbindingin sé í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. myntunum CFH og JPY, sé um að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónur. Kröfu þessa styður stefnandi ennfremur þeim rökum að lánssamningur aðila hafi átt að bera samningsvexti eins og þeir eru tilgreindir í skuldabréfinu, miðað við að lánið sé í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. LIBOR vextir ásamt föstu 3,1% álagi.

Kröfu um dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22.12.2008 til greiðsludags byggir stefnandi á 10.gr. skilmála skuldabréfsins sem kveði á um að við vanskil beri að greiða dráttarvexti af gjaldfelldri eða gjaldfallinni skuld skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kröfu sína um viðurkenningu veðréttar á fasteigninni Tröllhólum 1, Selfossi, styður stefnandi þeim rökum að honum beri nauðsyn til að nýta veðrétt sinn skv. tryggingarbréfinu, þar sem útgefandi þess hafi ekki staðið í skilum við stefnanda með greiðslu skulda sem bréfið hafi átt að tryggja. Tryggingarbréfinu sé stefnt gjaldfelldu miðað við 22.  desember 2008 og dráttarvextir miðaðir við þá dagsetningu í dómkröfum, sbr. heimild í  tryggingarbréfinu er segir að við vanefnd sé heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og ganga að veðinu. Við gjaldfellingu hafi vísitala neysluverðs verið 322,3 stig. Uppreiknuð staða tryggingarbréfsins við gjaldfellingu sé því kr. 18.943.966,00 eins og getið er í dómkröfum. Dráttarvaxtakrafa sé einnig miðuð við þá dagsetningu sbr. heimild í skilmálum tryggingarbréfsins.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningarréttar um greiðslu fjárskuldbindinga sem og almennra reglna veðréttarins auk aðfararlaga.

Dráttarvaxtakröfu sína byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 sé stefnandi ekki virðisaukaskattskyldur. Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu

Í greinargerð sinni byggja stefndu í fyrsta lagi á því að um sé að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónur og sé verðtrygging skuldabréfsins ólögmæt á grundvelli VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þannig hafi stefndu sóst eftir láni hjá stefnanda að fjárhæð 20.000.000 kr. og hafi lánsfjárhæðinni verið ráðstafað inn á íslenskan krónureikning stefndu hjá bankanum auk þess sem afborganir hafi verið greiddar í íslenskum krónum. Engin erlend mynt hafi skipt um hendur.  Í munnlegum flutningi málsins við aðalmeðferð lýsti lögmaður stefndu því yfir og staðfesti sérstaklega aðspurður af dómara málsins að ekki væri lengur byggt á því að um íslenskt lán væri að ræða.  Þannig væri það nú viðurkennt af stefndu að um væri að ræða lán í erlendri mynt, en ekki lán í íslenskum krónum með verðtryggingu sem byggði á dagsgengi erlendra gjaldmiðla, s.s. japansks jens eða svissnesks franka.  Þó væri enn byggt á þessum sjónarmiðum í 5. varakröfu stefndu.  Að öðru leyti væri það viðurkennt að um væri að ræða erlent lán. 

Í öðru lagi byggja stefndu á því að forsendur skuldabréfsins séu brostnar og því sé skuldabréfið óskuldbindandi að hluta. Benda stefndu þessu til stuðnings á að samkvæmt útreikningum sínum hafi greiðslur vegna lánsins hækkað sem nemur 195% frá fyrsta gjalddaga til 20. nóvember 2008, þegar síðasta greiðsla barst frá skuldara, hefði stefndi greitt bæði afborgun og vexti.  Hafi lánið skuldin þannig tæplega tvöfaldast á rúmu ári, og það að frátöldum þeim 2.400.000 kr. sem þau þó hafi greitt.  Þannig hafi orðið stórvægilegur og alvarlegur forsendubrestur stefndu í óhag. 

Kveða stefndu að þau hefðu aldrei gert þennan lánasamning á þessum grundvelli, enda heimili þeirra að veði.  Vísa stefndu til aðstöðumunar aðila, en stefnandi sé fjármálafyrirtæki og sérfræðingur í lánveitingum en stefndu aðeins neytendur. Hafi því stefnandi borið ríka leiðbeiningarskyldu sem hvergi í gögnum málsins sé sýnt fram á að stefnandi hafi uppfyllt.  Þvert á móti hafi starfsmenn bankans tjáð stefnda að lán með gengisviðmiði væri besti kosturinn.  Stefnanda hafi borið að vara hann við fyrirsjáanlegri lækkun krónunnar enda hafi greining bankans gert ráð fyrir gengisfalli eftir haustið 2007.  Stefnanda hafi borið að upplýsa hann um spá bankans sem hafi gert ráð fyrir lækkun krónunnar á árinu 2008.  Þá bendir stefndi á að haustið 2007 hafi stefnandi hvatt fjárfesta til að taka stöðu gegn íslensku krónunni.  Með þessu hafi stefnandi brotið trúnaðarsamband sem verði að ríkja milli aðila.  Stefnandi sem sé aðeins neytandi verði að geta treyst sérfræðingum stefnanda í gjaldeyrismálum.  Vísar stefndi til þess að í Rannsóknarskýrslu Alþingis komi fram að bankarnir hafi með auknum lánveitingum til almennings hafi bankarnir flutt myntáhættu vegna eigin lána yfir á almenning. og það brjóti gegn góðum viðskiptaháttum.  Aðgerðir stefnanda hafi raskað fjárhagslegri hegðun stefndu. Þannig hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til að halda fast við lánasamninginn.  Forsendur lánasamningsins séu þannig brostnar og beri að beita ógildingarreglu 36. gr. laga nr. 7/1936.  Í fyrsta lagi sé efni samningsins afar hæpið, þ.e. tenging verðtryggingar við erlenda gjaldmiðla, í öðru lagi sé staða samningsaðila mjög ólík.  Þegar forsendur hafi brostið hafi ekki verið sanngjarnt fyrir stefnanda að bera samninginn fyrir sig, enda sé ljóst að stefnandi viðurkenni forsendubrestinn með því að bjóða upp á 25% meðaltals lækkun á höfuðstól erlendra lána.  Hrun krónunnar sé atvik sem síðar komi til í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936.  Sé gert ráð fyrir slíkum tilvikum sem þessu í frumvarpi að lögum nr. 11/1986 sem hafi innleitt 36. gr. laga nr. 7/1936. Telja stefndu að samningurinn sé ósanngjarn, enda raski hann til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðilanna, stefndu í óhag.

Í þriðja lagi byggja stefndu á málsástæðum varðandi yfirtöku stefnanda á kröfunni og force majeure reglum.  Frá því að stefnandi tók við kröfunni af upphaflegum lánveitanda, Glitni, hafi orðið talsverðar afskriftir af lánasafni stefnanda en ekki hafi verið gefið upp og hafi stefndu aldrei fengið skýringar á því með hvaða kjörum stefnandi hafi fengið það skuldabréf það sem deilt er um í máli þessu. Hafi það verið með miklum afskriftum telja stefndu að sanngjarnt sé að þau njóti góðs af þeim afskriftum. Sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að halda samningsákvæðunum upp á stefndu.  Að auki byggja stefndu á því að um svokallað force majeure tilvik hafi verið að ræða sem valdi því að stefndu geti með réttmætum hætti hlutast til um að samningi verði vikið til hliðar. Telja stefndu að bankahruninu 6. október 2008, og því ástand sem fylgt hafi í kjölfarið verði fullkomlega jafnað til efnahagslegra hamfara þar sem heimilt er að byggja á óskráðri reglu um óviðráðanleg ytri atvik. Stefndu hafi ekki getað gert sér grein fyrir þeim hamförum sem áttu eftir að eiga sér stað við hrun bankanna. Lánssamningur sá sem um ræðir sé staðlaður samningur sem hafi verið saminn einhliða af stefnanda og stefndu enga möguleika haft til að koma svokölluðu Force Majeure ákvæði inn í samninginn.

Fyrsta til fjórða varakrafa stefndu byggja allar á því að með því að lánið, í íslenskum krónum, hafi hækkað um 124,3% á aðeins 14 mánuðum frá október 2007 til desember 2008, hafi orðið mikill og alvarlegur forsendubrestur og því sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að halda við samninginn. Miða stefndu því fyrstu varakröfu sína við að lánsfjárhæðin í erlendum myntum verði reiknuð til samræmis við vísitölu neysluverðs en ársverðtryggingin bundin við 4% þak  á hverju ári, í samræmi við vikmörk Seðlabanka Íslands frá 2001. Aðra varakröfu sínu í málinu, miða stefndu við að höfuðstóll skuldabréfsins verði færður niður til samræmis við það að lánið tæki hækkunum í IKR til samræmis við lán sem bundin eru vísitölu neysluverðs frá lántökudegi. Þriðju varakröfu sína miða stefndu við að höfuðstóll skuldabréfsins verði færður niður til samræmis við meðalgengi gjaldmiðlanna JPY og CHF frá 29. september 1995 til 29. september 2010, auk 10% álags. Fjórðu varakröfu sína miða stefndu við að fjárhæð skuldabréfsins í erlendum myntum á meintum gjaldfellingardegi verði lækkuð um 40% að álitum.

                Fimmtu varakröfu sína, um að staðfest verði með dómi að umdeilt lán sé lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, auk þess að lánið beri samningsvexti bæði í fortíð og framtíð, byggir stefndi á þeim sjónarmiðum sem fram koma í málunum nr. 92/2010 og 153/2010 sem dæmd voru í Hæstarétti Íslands hinn 16. júní 2010.  Kröfu um að samningsvextir skuli gilda, þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010 sem kveðin var upp hinn 16. sept. sl., byggja stefndu á því, að samningur sá sem um ræðir í máli þessu innihaldi sérstök samningsákvæði, sbr. 2. gr. skuldabréfsins, um það hvernig standa skuli að vaxtabreytingum á samningstímanum, en slíkum ákvæðum hafi ekki verið til að dreifa í þeim samningi sem lá til grundvallar í hæstaréttarmálinu nr. 471/2010. Ákvæði skuldabréfsins séu í fullkomnu samræmi við grundvallarreglur samninga- og kröfuréttar og fela m.a. í sér heimild stefnda um að losna undan síðar til komnum samningsákvæðum um vexti, með því að greiða skuldina upp innan 30 daga frá því honum berst tilkynnig um fyrirhugaðar breytingar á samningskjörum.

Kröfu sína um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins styðja stefndu þeim rökum að þar sem slíks álits var ekki aflað í Hæstaréttarmálinu nr. 471/2010, þyki stefndu rík ástæða til að aflað verði slíks álits, enda telji þeir að horft hafi verið með afgerandi hætti fram hjá lögfestum neytendareglum, sem byggðar séu á tilskipunum Evrópusambandsins við útleiðingu þeirrar niðurstöðu, einkum 36. gr. a-d, laga nr. 7/1936, sbr. og ákvæði laga um neytendalán nr. 121/1994, einkum 8. og 14. gr. laganna, sem og ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Forsendur og niðurstaða

Mál þetta varðar greiðslu kröfu samkvæmt skuldabréfi sem dómurinn telur að óumdeilt sé að feli í sér lán í erlendri mynt, enda er það í samræmi við gögn málsins. Í málflutningi lögmanns stefndu við aðalmeðferð málsins þann 1. október sl. kom skýrlega fram að byggt væri á því af hálfu stefndu að um væri að ræða erlent lán. Telur dómurinn því að líta verði svo á að stefndu hafi horfið frá þeim málsástæðum sínum er byggja á því að um sé að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengisverðtryggingu, jafnvel þó lögmaður stefndu hafi jafnframt sagt að ekki væri fallið frá neinum málsástæðum, en málatilbúnaður og málflutningur stefndu er að þessu leyti mótsagnakenndur og ómarkviss. Telur dómurinn að stefndu geti ekki viðurkennt að um lán í erlendri mynt sé að ræða en á sama tíma byggt varnir sínar áfram á því að lánið sé ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Þar að auki telur dómurinn gögn málsins bera með sér að skuldabréfið feli í sér lán í erlendri mynt og vísar sérstaklega til þess, hvað það varðar, að er lánið var greitt út nokkru eftir útgáfu skuldabréfsins miðaði útgreidd fjárhæð lánsins við hinn erlenda höfuðstól en ekki þá íslensku fjárhæð er tilgreind er sem jafnvirði hins erlenda höfuðstóls í skuldabréfinu sjálfu. Verður það ekki talið skipta máli hvað þetta varðar að stefndi Ólafur hafi fengið lánið greitt út í íslenskum krónum enda má telja að það hann hafi hlotið af því nokkurt hagræði og jafnframt losnað undan kostnaði sem fylgir gjarnan kaupum og sölum á gjaldeyri.  Var bent á það í munnlegum flutningi málsins af hálfu lögmanns stefnanda að á umræddum tíma hafi ekki verið neinar gjaldeyrishömlur og hefðu stefndu getað fengið lánið greitt út í þeim gjaldmiðli sem þau hefðu kosið.

Krafa stefnda Ólafs um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins kom fyrst fram við upphaf aðalmeðferðar þegar gagnaöflun í málinu var lokið eðli málsins samkvæmt.  Dómurinn telur að aðilar málsins hafi ekki hagsmuni af því að kveðinn verði upp sérstakur úrskurður um álitsumleitan enda úrskurður um það efni ekki kæranlegur eftir upphaf aðalmeðferðar máls, sbr. 2. mgr. 145. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Verður því tekin afstaða til kröfunnar í dóminum án sérstaks úrskurðar.  Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur dæmt áþekk mál án þess að talin hafi verið þörf á því að afla slíks ráðgefandi álits EFTA dómstólsins, sbr. dóma í Hæstaréttarmálunum nr. 92, 153 og 471/2010, en ekki hafa verið færð fram sérstök rök fyrir því að mál það sem hér er til meðferðar sé svo ólíkt hinum að annað eigi við um það.  Krafan byggir á þeirri forsendu að um sé að ræða íslenskt lán með ólögmætri gengisviðmiðun.  Spurningar þær sem stefndu telja þörf á að bera upp við EFTA dómstólinn byggja á þessari forsendu.  Hafa stefndu nú fallið frá þeirri málsástæðu eins og rakið var að ofan.  Þá þykir það ótækt að setja fram slíka kröfu sem hluta dómkrafna, en krafan varðar ekki efnislega niðurstöðu málsins heldur gagnaöflun í því.  Þá þykir ótækt að setja fram slíka kröfu við upphaf aðalmeðferðar þegar gagnaöflun á að vera lokið og málið reiðubúið til flutnings, en jafnframt gera lög nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið ekki ráð fyrir að slík krafa sé skilyrt líkt og stefndu hafa þó kosið að gera.  Verður því ekki leitað umrædds álits og málið dæmt án þess.  Þykir ekki ástæða til að taka þetta fram í dómsorði, enda varðar þetta ekki efnislega  niðurstöðu málsins.

Aðalkrafa stefnanda er um að stefndi, Ólafur Veturliði, verði dæmdur til að greiða tiltekna fjárhæð, sem samsvarar til eftirstöðva umrædds láns í erlendum gjaldeyri á þeim degi sem lánið var gjaldfellt, þann 22. desember 2008.  Aðalkrafa stefnda Ólafs Veturliða er um að hann verði sýknaður af þeirri kröfu.  Þá hefur stefndi gert varakröfur og þrautavarakröfur um verulega lækkun stefnufjárhæðar sem að ofan er lýst. 

Til stuðnings sínum kröfum hefur stefndi fært fram sínar málsástæður, en sú fyrsta þeirra lýtur að því að um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem sé verðtryggt með ólögmætum hætti með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Líkt og gerð hefur verið grein fyrir hefur stefndi nú fallist á að um sé að ræða erlent lán, eða lán í erlendum gjaldmiðli,  og geta því varnir á þessum grundvelli ekki komist að.  Í öllum aðalkröfum sínum byggir nú stefndi á því sem staðreynd að um sé að ræða lán í erlendri mynt og er þá ekki unnt að byggja líka á því sem staðreynd að um sé að ræða lán í íslenskum krónum.  Auk þess er það mat dómsins að ekki sé um að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu, heldur hafi lánið raunverulega verið í erlendri mynt, en engu máli skiptir hvort það var greitt út í íslenskum krónum eða ekki, en á þeim tíma sem lánið var greitt út voru ekki gjaldeyrishömlur hér á landi og var stefnda í lófa lagið að fá lánið greitt út í erlendri mynt ef hann hefði svo kosið.  Dómurinn lítur í þessu efni til þess að útgreiddur höfuðstóll lánsins í krónum hafði tekið breytingum eftir útgáfu skuldabréfsins vegna breytinga á gengi íslensku krónunnar gagnvart umræddum myntum, svissneskum franka og japönsku jeni, en útgreiddur höfuðstóll var í samræmi við fjárhæð lánsins í erlendri mynt.  Þykir þetta til marks um að lánið hafi raunverulega verið í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum.  Verður því ekki fallist á kröfur stefnda Ólafs á þessum forsendum. 

Önnur málsástæða stefnda Ólafs er að forsendur skuldabréfsins séu brostnar og að skuldabréfið sé því óskuldbindandi að hluta.  Með því að um var að ræða erlent lán þykir mismunur á gengi umræddra gjaldmiðla og íslenskri krónu ekki skipta máli í þessu sambandi.  Ljóst er að verðmæti íslenskrar krónu féll eftir að stefndi tók umrætt lán, en ekkert liggur hins vegar fyrir um að raunverulegt verðgildi svissnesks franka og japansks jens hafi breyst, nema í samanburði við hina íslensku krónu.  Greiðslur af láninu hækkuðu fyrst og fremst þegar þær voru reiknaðar yfir í íslenskar krónur, en með því að um var að ræða erlent lán þá þykir það ekki skipta máli.  Almennar aðstæður í efnahagslífi á Íslandi geta að mati dómsins ekki talist til brostinna forsendna, enda gæti slík niðurstaða leitt til þess að allar fjárskuldbindingar gætu staðið meira og minna á brauðfótum ef breytingar yrðu í efnahagslífinu.  Þá er það ljóst að breytingar á gengi íslensku krónunnar gátu farið í hvora áttina sem var eftir að lánið var afgreitt, hvort heldur sem er lækkað eða hækkað.

Í greinargerð stefnda kemur fram að hann hefði aldrei gert lánasamning á þeim grundvelli að greiðslubyrði hækkaði um 195% á rúmu ári.  Ljóst er þó að hann gerði samning um lán í erlendri mynt en hann gat ekki gengið þess dulinn að breytingar gætu orðið á gengi íslensku krónunnar, sem hann hefur tekjur sínar í, gagnvart þeim gjaldmiðlum sem lánið var veitt í.  Þykir engu breyta að greiningardeild bankans hafi spáð tiltekinni þróun á gengi, enda ljóst að spár geta brugðið til beggja vona.  Rétt er það að stefndi er neytandi og stefnandi fjármálafyrirtæki.  Það breytir hins vegar ekki því að stefndi gat ekki gert ráð fyrir því að gengi íslensku krónunnar héldist stöðugt á lánstímanum, en þess er að geta að lánið var til 25 ára og var gert ráð fyrir að það endurgreiddist með 300 mánaðarlegum afborgunum.  Var ljóst að útilokað væri að spá fyrir um gengisþróun á slíku tímabili.  Þá liggur ekkert fyrir um annað en að lánið hafi verið hagstætt þegar það var tekið, og raunar liggur ekkert fyrir um það nú hvort lánið er hagstætt eða óhagstætt að liðnum fullum endurgreiðslutíma miðað við að greitt væri af því allan tímann.  Þá kemur það fram á prentuðu eyðublaði þar sem stefndi sótti um lánið að hann hafi leitað sér ráðgjafar og gert sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta gæti haft á höfuðstól og greiðslubyrði.  Er þessi texti prentaður á eyðublaðið beint og næst fyrir ofan undirritun stefnda Ólafs á lánsumsóknina og gat ekki farið fram hjá honum.  Þykir því óvarlegt að fullyrða að stefnandi hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu. 

Stefndi hefur vísað til þess að í frétt í Morgunblaðinu 12. október 2007 hafi komið fram að greiningardeild Glitnis hafi talið að stöðutaka í erlendum gjaldmiðlum yrði vænlegur kostur um áramótin 2007/2008.  Í sömu frétt kemur það fram að bankinn hafi talið að krónan myndi lækka í gengi á árinu 2008 um 14% en styrkjast eftir það.  Þrátt fyrir þetta hafi stefnda Ólafi verið veitt umrætt lán og með því hafi bankinn rofið við hann trúnað.  Það er mat dómsins að stefnandi hafi með þessu ekki rofið neinn trúnað við stefnda.  Lánasamningur milli aðilanna var til 25 ára, en ekki liggur fyrir til hve langs tíma slíkar „stöðutökur“ voru, en ætla verður að það sé mun skemmri tími.  Um er að ræða fjármálafyrirtæki sem þjónar ólíkum hagsmunum margra viðskiptavina og þó að spá bankans hafi verið á þessa lund þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á það að stefnandi hafi unnið beinlínis gegn hagsmunum stefnda eða rofið við hann viðskiptalegan trúnað.  Ber að líta til þess að samkvæmt fréttinni gerði bankinn ráð fyrir að krónan styrktist þegar liði fram á árið 2009.  Ekki var óheimilt að „taka stöðu í erlendum gjaldmiðli“ eins og það er kallað, en jafnframt þykir alls ósannað að stefnandi, eða forveri hans, hafi með slíkri stöðutöku beinlínis orsakað það að gengi íslensku krónunnar féll svo sem raun ber vitni og þar með hækkað greiðslubyrði lánsins þegar hún er reiknuð í íslenskum krónum.

Stefndi byggir á því að í Rannsóknarskýrslu Alþingis komi það fram að með auknum lánveitingum til einstaklinga frá árinu 2006 og fram að hausti 2008 hafi myntáhætta sem skapaðist vegna fjármögnunar bankanna erlendis verið flutt frá bönkunum til einstaklinga.  Stefnandi hafi með þessu stuðlað að því að höfuðstóll og greiðslubyrði umrædds láns hækkuðu og hafi það falið í sér óréttmæta viðskiptahætti gagnvart stefnda, en stefnandi hafi aldrei í þessu efni gætt að hagsmunum stefnda.  Með þessu hafi stefnandi raskað fjárhagslegri hegðun stefnda og fyrirgert rétti sínum til að halda samningnum upp á stefnda og krefjast fullrar greiðslu.  Á þetta fellst dómurinn ekki.  Það fær ekki staðist að mati dómsins að það að stefnandi hafi endurlánað til einstaklinga og fyrirtækja þau lán sem hann sjálfur hafi fengið erlendis, geti leitt til þess að þau lán verði óskuldbindandi fyrir lántaka á innlendum lánamarkaði.

Meginregla laga er sú að gerða samninga skuli efna að fullu samkvæmt efni sínu.  Undantekningar frá því verða að eiga sér trausta efnislega og lögfræðilega stoð.  Efni samningsins var að mati dómsins lögmætt.  Staða samningsaðilanna var vissulega ólík, en það verður ekki fallist á að stefnandi hafi beitt blekkingum eða gefið vísvitandi ranga ráðgjöf.  Þvert á móti gat stefndi ekki gengið þess dulinn að útilokað væri að spá um gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum til 25 ára.  Þá verður ekki litið fram hjá því að stefndi Ólafur staðfesti með undirritun sinni að hafa leitað sér ráðgjafar og gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta hæti haft á höfuðstól og afborganir.  Liggur heldur ekki fyrir hvort lánið yrði meti hagstætt eða óhagstætt að liðnum fullum endurgreiðslutíma.    

Fellst því dómurinn ekki á sjónarmið stefnda Ólafs um að brostnar forsendur leiði til þess að skuldabréfið sé óskuldbindandi að hluta.  Verður heldur ekki fallist á kröfur stefnda Ólafs á grundvelli neytendasjónarmiða. 

Í þriðja lagi kveðst stefndi byggja á málsástæðum sem varða yfirtöku stefnanda á kröfunni og force majeure sjónarmiðum.  Vísar stefndi til þess að þegar lánasafn Glitnis hafi verið fært yfir til Nýja Íslandsbanka, sem nú er Íslandsbanki, sem er stefnandi þessa máls, þá hafi það verið með talsverðum afskriftum, en ekki hafi verið upplýst um hlutfallstölur í því efni.  Hafi það verið með þeim hætti að afskriftir hafi verið miklar þá sé ósanngjarnt að stefndi njóti þess ekki með stefnanda.  Um þetta liggur hins vegar ekkert fyrir í málinu og hefur ekki verið upplýst um það hvort stefnandi fékk kröfu í þessu máli með afskriftum frá fyrri kröfuhafa, eða hvort stefnandi fékk allt lánasafnið með tilteknum afskriftum og þá hve miklum.  Verður niðurstaða ekki byggð á þessu, enda ekki upplýst um þetta, auk þess að þó að sum lán úr lánasafninu innheimtist að fullu þá má gera ráð fyrir að önnur geri það ekki.  Verður þannig ekki talið að stefndi hafi með þessu sýnt fram á að það sé ósanngjarnt af þessum sökum af stefnanda að krefjast efnda samkvæmt samningnum.

Þá hefur stefndi vísað til force majeure reglna og telur að svokölluðu bankahruni 6. október 2008 og afleiðingum þess verði jafnað til náttúruhamfara sem leyst geti skuldara réttarsambands undan skyldu sinni.  Á þetta fellst dómurinn ekki.  Svokallað bankahrun varð ekki vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna heldur vegna manngerðra aðstæðna í efnahagslífi landsins og nánasta umhverfis þess.  Verður t.a.m. svokölluðu bankahruni ekki á nokkurn handa máta líkt við eldgosið á Heimaey árið 1973.  Telur dómurinn að það efnahagsástand sem hefur orðið eftir nefnt bankahrun geti ekki leyst skuldara réttarsambands undan efndaskyldu sinni.  Skiptir þannig ekki máli að mati dómsins sú staðreynd að um hafi verið að ræða staðlaða samningsskilmála sem stefndi hafi ekki haft tök á að breyta eða bæta við.

Í bókun sem stefndu lögðu fram við upphaf aðalmeðferðar eru gerðar tilteknar varakröfur og þrautavarakröfur um niðurfærslu á höfuðstól eða eftirstöðvum lánsins eins og að ofan greinir.  Í fyrstu til fjórðu varakröfu er vísað til forsendubrests sem orðið hafi vegna hækkunar lánsins þegar það er umreiknað í íslenskar krónur.  Hefur ekki verið gerð grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli stefndi byggir þá aðferð sem hann notar við útreikning í varakröfum þessum.  Eins og að ofan greinir fellst dómurinn ekki á að um sé að ræða brostnar forsendur í réttarsambandi aðila málsins og á það jafnt við um þessar fjórar varakröfur sem og um sýknukröfu stefndu.  Í sömu bókun er tiltekin fimmta varakrafa um að staðfest verði að framangreint lán sé lán í íslenskum krónum í skilningi laga nr. 38/2001 með ólögmætri gengistryggingu sbr. 13. og 14. gr. laganna.  Um þessa kröfu vísar stefndi Ólafur til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 92/2010 og 153/2010 sem kveðnir voru upp 16. júní 2010.  Eins og að framan er lýst hefur stefndi Ólafur í öllum öðrum kröfum sínum nú viljað byggja á því og viðurkennt sem staðreynd að um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðli en ekki í íslenskum krónum.  Þykir ótækur málatilbúnaður af hálfu stefnda Ólafs að byggja kröfu sína í þessum lið á að staðreyndir málsins séu á annan veg en hann gerir í öðrum kröfum sínum.  Það er jafnframt mat dómsins, eins og að ofan var lýst, að ekki sé um að ræða lán í íslenskum krónum heldur sé um að ræða lán í erlendum gjaldmiðli og er því þessari varakröfu stefnda Ólafs hafnað.  Í framangreindum varakröfum stefnda Ólafs er þess jafnframt krafist að dómurinn felli úr gildi gjaldfellingu skuldabréfsins og staðfesti greiðsluskyldu stefnda Ólafs  á afborgunum frá gjaldfellingardegi til samræmis við ákvarðaðan höfuðstól og samningsvexti.  Með hliðsjón af öllu því sem að framan greinir er ekki fallist á þessa kröfu af hálfu dómsins og jafnframt vísað til þess að óumdeilt er að vanskil urðu á bréfinu og að í bréfinu er heimild til að gjaldfella alla skuldina þegar þannig stendur á fyrirvaralaust og án uppsagnar.  Er jafnframt óumdeilt að í bréfinu er kröfuhafa veitt heimild til að umreikna skuldina í íslenskar krónur á gjaldfellingardegi.  Hefur ekki verið byggt á því af hálfu stefnda Ólafs að ranglega hafi verið staðið að gjaldfellingunni.  Verður því þessari kröfu stefnda hafnað.

Verður því fallist á að stefndi Ólafur Veturliði verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 39.913.111, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags, en ekki er ágreiningur með aðilum um tölulegan útreikning kröfunnar sjálfrar.

Stefnandi hefur gert kröfu um að stefndu, Ólafur Veturliði og Áslaug Dröfn, verði dæmd til að þola viðurkenningu á 7. veðrétti í fasteigninni Tröllhólum 1, Árborg, fastanr. 227-3816, fyrir kr. 18.943.966,00, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags, auk alls kostnaðar af innheimtuaðgerðum þessum.  Stefndu hafa krafist sýknu af kröfu þessari, sem og öðrum kröfum stefnanda, en ekki hafa verið færðar fram neinar málsástæður sem lúti sérstaklega að þessari kröfu stefnanda.  Með því að öðrum málsástæðum stefndu hefur verið hafnað verður fallist á þessa kröfu stefnanda, enda ekkert í gögnum málsins sem leiðir til þess að ekki sé unnt að fallast á hana lögum samkvæmt.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákveðst hann kr. 600.000 sem stefndu ber að greiða in solidum sbr. 132. gr. sömu laga, en þá hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

                Stefndi, Ólafur Veturliði Björnsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., kr. 39.913.111, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags.

                Stefndu, Ólafur Veturliði og Áslaug Dröfn Heiðarsdóttir, þoli viðurkenningu á 7. veðrétti í fasteigninni Tröllhólum 1, Árborg, fastanr. 227-3816, fyrir kr. 18.943.966,00, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2008 til greiðsludags, auk alls kostnaðar af innheimtuaðgerðum þessum.

Stefndu greiði stefnanda in solidum kr. 600.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.