Hæstiréttur íslands
Mál nr. 85/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Forgangskrafa
- Laun
|
|
Föstudaginn 2. mars 2012. |
|
Nr. 85/2012. |
Glitnir hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Sigurgeiri Erni Jónssyni (Hörður Felix Harðarson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Forgangskrafa. Laun.
G hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem krafa S vegna umsaminna greiðslna samkvæmt ráðningarsamningi var viðurkennd við slit G hf. sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Deila aðila fyrir Hæstarétti laut að aðild málsins og réttmæti einstakra liða kröfu S við slit G hf. Fallist var á að S hefði réttilega beint kröfum sínum að G hf. Þá var kröfu S um orlof samkvæmt ráðningarsamningi skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Kröfu S um greiðslur vegna kaupauka auk dráttarvaxta þar af, húsnæðiskostnaðar og skólagjalda barna hans var hins vegar skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, enda teldust þær ekki laun eða annað endurgjald í merkingu 1. tölul. 1. mgr. 112 gr. sömu laga, en það ákvæði hefði að geyma undantekningu frá meginreglu laganna um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti sem yrði ekki skýrt á rýmri veg en leiddi af orðanna hljóðan
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. janúar 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 142.218.623 krónur var viðurkennd við slit varnaraðila sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þann veg aðallega, að tekin verði til greina tiltekin krafa varnaraðila í kröfuskrá sóknaraðila að fjárhæð 7.505.368 krónur og henni skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst hann þess að tekin verði til greina krafa varnaraðila að fjárhæð 138.215.368 krónur og henni skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem almennri kröfu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerði varnaraðili ráðningarsamning við sóknaraðila sem ber með sér að vera undirritaður 1. júní 2008 og þann dag skyldi varnaraðili samkvæmt 1. gr. samningsins hefja störf í bankanum. Varnaraðili gegndi starfi yfirráðgjafa í fjárstýringu sóknaraðila og heyrði starf hans samkvæmt skipuriti undir framkvæmdastjóra fjárstýringar bankans, en samkvæmt samningnum og framburði vitna var starfstöð varnaraðila ákveðin í New York. Gegndi varnaraðili fyrrgreindu starfi þar til skilanefnd, sem þá hafði tekið yfir stjórn bankans, sagði honum upp starfi 31. október 2008. Voru varnaraðila þá greidd laun fyrir tímabilið frá 1. júní til loka október það ár og einnig kaupauki sem honum hafði með fyrrgreindum samningi verið tryggður við upphaf ráðningar.
Sóknaraðila var skipuð slitastjórn 12. maí 2009 sem gaf út innköllun til kröfuhafa 26. sama mánaðar. Varnaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 1.240.877 bandaríkjadalir auk kostnaðar að fjárhæð 3.501.799 krónur með kröfulýsingu 23. nóvember 2009 sem móttekin var 26. sama mánaðar. Kvað varnaraðili lýsta kröfu leiða af umsömdum starfskjörum sínum hjá sóknaraðila og væri hún af fernum toga. Í fyrsta lagi krafðist varnaraðili greiðslu launa á tilteknu tímabili áður en ráðningarsamningur aðila tók samkvæmt efni sínu gildi. Í annan stað krafðist hann kaupauka sem leiddi af samningi aðila. Í þriðja lagi krafðist hann umsaminna launa í uppsagnarfresti. Í fjórða lagi krafðist hann greiðslna vegna tiltekinna annarra hlunninda sem hann kvað leiða af samningi aðila, þar á meðal vegna orlofs, húsnæðiskostnaðar og skólagjalda barna sinna. Varnaraðili krafðist þess að allri kröfu sinni yrði við slit sóknaraðila skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi sóknaraðila 4. desember 2009 var varnaraðila tilkynnt að krafa hans vegna hluta húsnæðiskostnaðar, 25.000 bandaríkjadalir, og hluta skólagjalda, 32.240 bandaríkjadalir, samtals 57.420 bandaríkjadalir, 7.505.368 krónur, hefði verið samþykkt sem almenn krafa við slitin. Varnaraðili vildi ekki una afstöðu slitastjórnar og var ágreiningi málsaðila vísað til héraðsdóms með bréfi slitastjórnar 23. ágúst 2010.
Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu varnaraðila um greiðslu launa fyrir tímabilið áður en ráðningarsamningur hans tók gildi samkvæmt efni sínu. Jafnframt var hafnað tilkalli hans til launa í uppsagnarfresti ásamt kröfum um greiðslu fyrir tiltekin hlunnindi á þeim tímabilum. Hins vegar var í úrskurðinum viðurkennd krafa varnaraðila um kaupauka og kröfunni skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá voru og viðurkenndar kröfur varnaraðila um greiðslu fyrir ótekið orlof, húsnæðiskostnað og skólagjöld vegna menntunar barna, en hvað síðastnefndu tvo liðina varðar náði viðurkenningin einungis til greiðslu fyrir þann tíma er varnaraðili starfaði í þágu sóknaraðila. Síðastnefndu kröfunum, vegna orlofs, skólagjalda og húsnæðiskostnaðar, var eins og kaupaukanum í úrskurði héraðsdóms skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.Varnaraðili, sem ekki hefur kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti, unir niðurstöðu úrskurðarins og krefst staðfestingar hans.
Deila málsaðila fyrir Hæstarétti lýtur annars vegar að aðild málins og hins vegar réttmæti einstakra liða í lýstri kröfu varnaraðila við slit sóknaraðila. Sóknaraðili telur sig sem fyrr bundinn af viðurkenningu sinni á kröfum varnaraðila vegna skólagjalda og húsnæðiskostnaðar en hafnar kröfu hans um orlof og kaupauka. Að því marki sem fallist verði á kröfur varnaraðila hafnar sóknaraðili því að viðurkenndum kröfum sé skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu koma einungis til úrlausnar fyrir Hæstarétti þeir liðir í lýstri kröfu varnaraðila er lúta að rétti hans til orlofs og kaupauka og staða þeirra kröfuliða í réttindaröð við slit sóknaraðila. Einnig kemur til úrlausnar hver sé staða viðurkenndra krafna vegna greiðslu skólagjalda og húsnæðiskostnaðar í réttindaröð við slit sóknaraðila. Loks deila málsaðilar um rétt varnaraðila til dráttarvaxta af lýstri kröfu vegna kaupaukans og lögum hvers lands sú krafa lýtur.
II
Eins og áður greinir réð varnaraðili sig til starfa sem ráðgjafi í fjárstýringu sóknaraðila með starfstöð í New York í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þar í borg starfaði hann í þágu sóknaraðila og sinnti auk þess tilfallandi verkefnum í höfuðstöðvum bankans í Reykjavík. Gögn málsins renna ekki nægum stoðum undir þær staðhæfingar sóknaraðila að dótturfyrirtæki hans í Bandaríkjunum, Glitnir Capital Corporation, hafi tekið yfir skuldbindingar sóknaraðila gagnvart varnaraðila samkvæmt fyrrgreindum ráðningarsamningi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á með varnaraðila að hann beini kröfum sínum í málinu réttilega að sóknaraðila.
III
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðili eigi í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningnum 1. júní 2008 rétt til greiðslu launa fyrir ótekið orlof að fjárhæð 9.614 bandaríkjadalir. Jafnframt er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að krafa þessi njóti við slit varnaraðila stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
IV
Kröfu sína um greiðslu kaupauka fyrir árið 2008 reisir varnaraðili á ákvæði í fyrrgreindum ráðningarsamningi. Þar sagði að varnaraðili skyldi eiga rétt til kaupaukagreiðslu vegna ársins 2008 sem yrði að fjárhæð 1.000.000 bandaríkjadalir að lágmarki, en þó að því gefnu að forstjóri sóknaraðila staðfesti í tvígang á því ári að frammistaða varnaraðila í starfi væri í samræmi við væntingar forstjórans. Þær staðfestingar gaf forstjórinn og er samkvæmt því fallist á með héraðsdómi að þar með hafi verið fullnægt þeim skilyrðum sem greiðsla kaupaukans var komin undir, en hann skyldi koma til greiðslu 1. mars 2009.
Föst umsamin grunnlaun varnaraðila, 250.000 bandaríkjadalir á ári að frádregnum sköttum, voru tengd vinnuframlagi hans og hefur sóknaraðili þegar greitt varnaraðila þann hluta fastra launa sem er fyrir tímabilið frá 1. júní til loka október 2008. Réttur varnaraðila til kaupaukans fyrir árið 2008 var hins vegar samkvæmt orðalagi ráðningarsamningsins án áskilnaðar um vinnuframlag. Til grundvallar kaupauka vegna fyrsta árs varnaraðila í starfi virðast einkum hafa legið væntingar forstjóra sóknaraðila um frammistöðu varnaraðila við úrlausn aðkallandi verkefna sem tengdust fjármögnun bankans og mikilvægi varnaraðila sem starfsmanns í ljósi þekkingar hans og reynslu af sambærilegum verkefnum í starfi hjá fyrri vinnuveitanda. Jafnframt virðist hafa verið horft til þess að ekki kæmist rót á atvinnuleyfismál varnaraðila í Bandaríkjunum.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins forgangsréttar við skipti að fullnægðum skilyrðum greinarinnar. Ákvæði þetta skipar vissum kröfum framar í réttindaröð og víkur þar með frá grundvallarreglu laganna um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Verður ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiðir af orðanna hljóðan. Jafnframt þykir orðalag ákvæðisins ótvírætt benda til þess að réttur til launa og annars endurgjalds þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu. Samkvæmt þessu og að gættu því er að framan er rakið er ekki unnt að líta svo á að þessi hluti kröfu hans heyri undir hugtakið laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu er því hafnað að kaupaukinn fyrir árið 2008, að fjárhæð 1.000.000 bandaríkjadalir, sé forgangskrafa en fallist á með sóknaraðila að krafan njóti rétthæðar við slit sóknaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Í fyrrgreindum ráðningarsamningi sagði að til viðbótar grunnlaunum og kaupaukum greiddi bankinn varnaraðila 5.000 bandaríkjadali mánaðarlega vegna húsnæðiskostnaðar. Sérhver skattgreiðsla af þeirri fjárhæð skyldi vera á ábyrgð varnaraðila en hugsanlega yrði þess krafist af bankanum að hann héldi eftir tekjuskatti af slíkri greiðslu. Ákvæði ráðningarsamningsins um rétt varnaraðila til greiðslu kostnaðar vegna skólagjalda barna hans er skipað í þann kafla samningsins sem ber yfirskriftina Lífeyrir og fríðindi. Þar segir í grein 9.3 að bankinn greiði allan kostnað við grunn- og miðskólagöngu barna. Bankinn greiði einnig sanngjarnan flutningskostnað. Skyldugur skólabúningur verði einnig greiddur sem nemi 500 bandaríkjadölum á ári hið mesta fyrir hvern nemanda, gegn framvísun kvittana. Annar kostnaður, bækur, gögn, málsverðir, tómstundastarf og aðrar greiðslur sem tengdust skólagöngunni væru á ábyrgð varnaraðila. Þegar framangreint er virt og höfð er í huga áðurgreind meginregla laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við skipti er fallist á með sóknaraðila að hvorki krafa varnaraðila vegna skólagjalda að fjárhæð 32.240 bandaríkjadalir né krafa hans vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð 25.000 bandaríkjadalir teljist laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Ber því við slit sóknaraðila að skipa kröfum þessum í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga.
V
Sóknaraðili telur að hafna beri dráttarvaxtakröfu varnaraðila, enda sé krafan vanreifuð og skýringar á henni of seint fram komnar. Skýringar varnaraðila á kröfunni í héraði beri með sér að hún styðjist, að því er virðist, við íslenska dráttarvexti á fjárhæð í bandaríkjadölum þótt hvergi sé þar vísað til forsendna dráttarvaxtanna. Slík krafa hafi ekki verið höfð uppi í greinargerð varnaraðila í héraði og hefði þegar af þeirri ástæðu ekki átt að koma til athugunar við úrlausn málsins þar. Rökstuðningur varnaraðila fyrir dráttarvöxtunum sé því of seint fram kominn og að auki ekki í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá komi fram í upphaflegri kröfulýsingu varnaraðila að ráðningarsamningurinn lúti bandarískum reglum og sé þar sérstaklega tekið fram að af þeim sökum verði ekki reiknaðir hærri dráttarvextir en 9% í samræmi við þær reglur. Sóknaraðili telur því að dráttarvextir geti aldrei verið umfram það hlutfall og ljóst að íslensk lög eigi ekki við.
Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðili einungis dráttarvaxta af kaupaukanum en ekki öðrum liðum lýstrar kröfu sinnar. Dráttarvaxtakröfuna kveður hann reista á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og njóti hún fram til 22. apríl 2009 sömu stöðu í skuldaröð og sá höfuðstóll sem sé grundvöllur kröfunnar. Dráttarvextir af kaupaukanum frá 1. mars til 22. apríl 2009 nemi 34.833 bandaríkjadölum. Dráttarvaxtakröfunni sé að sönnu vanlýst við slitin eins og fram komi í hinum kærða úrskurði, en sökum þess að einungis sé krafist dráttarvaxta að fjárhæð 21.193 bandaríkjadalir sé ekki varhugavert að taka þá kröfu til greina að fullu og þá með sömu stöðu í skuldaröð og kaupaukinn. Þá áréttar varnaraðili mótmæli sín við því að beitt verði erlendum réttarreglum um dráttarvexti við úrlausn málsins.
Í löggiltri þýðingu á ráðningarsamningnum segir að hann skuli „ætíð lúta, og gerður samkvæmt, túlkaður og fullnustaður í samræmi við efnisleg ákvæði laga í New York ríki, án tillits til ágreinings lagareglna.“ Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá sem ber fyrir sig venju eða erlenda réttarreglu leiða tilvist og efni hennar í ljós. Í málinu liggur ekkert fyrir um efni bandarísks réttar að þessu leyti annað en fullyrðing sóknaraðila um að þeir séu 9% í New York fylki í Bandaríkjunum. Í slíkri fullyrðingu einni saman felst ekki sönnunarfærsla um tilvist og efni erlendrar réttarreglu sem þýðingu getur haft þannig að lagt verði til grundvallar dómi í máli. Við úrlausn ágreinings málsaðila um dráttarvexti verður því byggt á íslenskum réttarreglum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest úrlausn hans um dráttarvaxtakröfu varnaraðila. Nýtur krafan sömu stöðu í réttindaröð og höfuðstóll sá sem er grundvöllur kröfunnar.
VI
Samkvæmt öllu því er að framan greinir er staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að viðurkenna sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila kröfu varnaraðila um greiðslu fyrir ótekið orlof að fjárhæð 9.614 bandaríkjadalir sem umreiknast, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991, í 1.256.646 krónur miðað við gengi bandaríkjadals 22. apríl 2009 en gengið var 130,71 króna þann dag.
Kröfum varnaraðila um kaupauka að fjárhæð 1.000.000 bandaríkjadalir, skólagjöld að fjárhæð 32.240 bandaríkjadalir, húsnæðiskostnað að fjárhæð 25.000 bandaríkjadalir og dráttarvexti að fjárhæð 21.193 bandaríkjadalir, verður skipað í réttindaröð sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 umreiknast þessar kröfur, sem samtals eru að fjárhæð 1.078.433 bandaríkjadalir, til 140.961.977 íslenskra króna miðað við gengi bandaríkjadals 22. apríl 2009 sem þá var 130,71 króna. Viðurkenndar almennar kröfur verða dæmdar í einu lagi og tilgreindar í íslenskum krónum.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Krafa varnaraðila, Sigurgeirs Arnar Jónssonar, að fjárhæð 1.256.646 krónur, er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila, Glitnis hf.
Krafa varnaraðila, að fjárhæð 140.961.977 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012.
Mál þetta var þingfest 1. október 2010 og tekið til úrskurðar 8. desember 2011. Sóknaraðili er Sigurgeir Örn Jónsson, 11 Park Lane, New Canaan, 08640 Connecticut, Bandaríkjunum, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að við slitameðferð varnaraðila verði krafa hans að fjárhæð 1.240.877 bandaríkjadalir viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú afstaða hans vegna kröfu númer CL20090706-3 í kröfuskrá varnaraðila, að samþykkja 7.505.368 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, en að öðrum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til vara krefst hann þess að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar í 138.215.368 krónur og að sú fjárhæð verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Í greinargerð sinni lýsir sóknaraðili málsatvikum svo að hann sé fyrrum starfsmaður varnaraðila en hafi verið sagt upp störfum 31. október 2010, eða skömmu eftir að skilanefnd hafi verið skipuð yfir bankann. Umsamdar og gjaldfallnar launagreiðslur hans hafi ekki verið gerðar upp við starfslokin, þrátt fyrir áskoranir. Launakröfu sóknaraðila hafi af þeim sökum verið lýst við slitameðferð varnaraðila en aðeins samþykkt að litlum hluta. Þá hafi ekki verið fallist á að krafan nyti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fl.
Sóknaraðili kveðst hafa starfað sem einn af framkvæmdastjórum Bank of America í New York áður en hann hafi ráðið sig hjá varnaraðila. Meðan hann hafi enn verið á launum hjá framangreindum vinnuveitanda, eða í marsmánuði 2008, hafi Lárus Welding, þáverandi forstjóri varnaraðila, haft samband við hann og boðið starf hjá bankanum. Aðstæður í rekstri bankans, rétt eins og flestra fjármálafyrirtækja, hafi á þessum tíma verið mjög krefjandi. Stjórnendur varnaraðila hafi verið að leita eftir starfsmanni með reynslu og þekkingu á fjármálamörkuðum, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, til að finna lausn á skammtímafjármögnun bankans og freista þess að bæta fjárstýringu bankans með breyttum verkferlum. Um vandasamt verk hafi verið að ræða sem verið hafi til þess fallið að hafa veruleg áhrif á afkomu og framtíð varnaraðila.
Sóknaraðili hafi verið reiðubúinn að taka að sér starfið ef tryggt yrði að launakjör hans yrðu sambærileg þeim kjörum sem hann hafi haft hjá Bank of America. Á umræddum tíma hafi sóknaraðili einnig átt í viðræðum við annan evrópskan banka, með starfsemi í New York, um að hefja þar störf. Umsamin árslaun sóknaraðila hjá Bank of America hafi verið um 1.8 milljónir dollara.
Sóknaraðili hafi gert forstjóra varnaraðila grein fyrir því á fyrsta fundi þeirra að forsenda þess að hann kæmi til starfa hjá varnaraðila væri að unnt væri að tryggja honum sambærileg kjör og hann hafi haft í fyrra starfi. Forstjóri varnaraðila hafi í grunninn fallist á þá kröfu en hafi fyrst í stað sett fram þá tillögu að laun sóknaraðila yrðu árangurstengd að verulegum hluta og fjárhæð þeirra á endanum háð mati forstjóra. Sóknaraðili hafi ekki verið reiðubúinn að samþykkja slíkt fyrirkomulag og hafi gert kröfu um að fjárhæð launa yrði ákveðin fyrirfram en ekki háð mati.
Eftir frekari viðræður hafi aðilar sammælst um að sóknaraðili fengi rúmlega 1.600.000 dollara í árslaun ef hann hæfi störf hjá varnaraðila, auk nánar tilgreindra hlunninda. Hluti launa sóknaraðila hafi hins vegar verið árangurstengdur þannig að ekki kæmi til greiðslu þess hluta ef störf sóknaraðila stæðust ekki væntingar varnaraðila. Þetta hafi verið útfært nánar í 2. ml. gr. 6.3 í ráðningarsamningi aðila. Umrædd grein samningsins hljóðar svo í þýðingu löggilts skjalaþýðanda:
„Þér fáið að lágmarki kaupauka fyrir 2008 að upphæð USD 1.000.000 (Ein milljón dala) sem verður eingöngu greiddur ef og þegar forstjóri Glitnis banka staðfestir að frammistaða yðar hafi verið samkvæmt væntingum hans. Þetta á sér stað tvisvar á þessu ári, fyrst 1. júlí 2008, ef forstjórinn staðfestir að frammistaða yðar sé samkvæmt væntingum hans, tryggir það 50% af lágmarkskaupaukanum (USD 500.000) og seinna skiptið er 1. október, 2008, þar sem hann þarf að staðfesta að frammistaða yðar sé enn í samræmi við væntingar og þá tryggir það seinni 50% af lágmarkskaupaukanum (USD 500.000).“
Þá kemur og fram í greinargerð sóknaraðila að hann hafi samkvæmt tilvitnaðri grein ráðningarsamningsins átt rétt á 1.000.000 dollara launagreiðslu frá Glitni að framangreindum skilyrðum uppfylltum. Út frá því hafi verið gengið að ef frammistaða hans væri ekki í samræmi við væntingar gæti komið til þess að honum yrði sagt upp störfum áður en framangreindum tímamörkum væri náð. Launauppbótin skiptist í tvennt. Fyrri greiðslan (500.000 dollarar) hafi átt að koma til greiðslu 1. júlí 2008 eftir staðfestingu frá forstjóra Glitnis um að störf sóknaraðila væru í samræmi við þær væntingar sem hafi verið gerðar til hans. Síðari greiðslan (500.000 dollarar) hafi síðan átt að koma til greiðslu 1. október 2008 eftir aðra staðfestingu forstjórans. Til viðbótar við framangreint hafi sóknaraðili átt rétt á hóflegum mánaðarlaunum (20.833 bandaríkjadölum), 350.000 bandaríkjadala eingreiðslu við undirritun ráðningarsamningsins og nánar tilgreindum hlunnindum.
Ástæða sé til að taka fram að hvorki rekstur Glitnis né það umhverfi sem bankinn hafi starfað í hafi gefið tilefni til að ætla að bankinn færi í greiðsluþrot hálfu ári eftir að gengið hafi verið frá ráðningu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi engar vísbendingar talið um annað en að bankinn væri fjárhagslega sterkur og gæti staðið við skuldbindingar sínar á næstu árum. Sjáist það best af því að sóknaraðili hafi ekki gengið hart eftir greiðslu fyrri hluta launauppbótarinnar sumarið 2008, þrátt fyrir skýran rétt til greiðslunnar fyrri hluta júlímánaðar.
Sóknaraðili hafi byrjað störf hjá varnaraðila í aprílmánuði 2008, sbr. tölvupóst hans til Lárusar Welding, dags. 7. apríl 2008 sem liggi fyrir í málinu. Ráðningarsamningurinn hafi hins vegar ekki verið dagsettur fyrr en tveimur mánuðum síðar, 1. júní 2008. Hafi þetta verið gert að ósk sóknaraðila þar sem ganga hafi þurft frá flutningi atvinnuleyfis í Bandaríkjunum frá Bank of America áður en hann hæfi formlega störf hjá varnaraðila. Það hafi hins vegar verið ágreiningslaust milli Lárusar Welding og sóknaraðila að hann fengi greitt fyrir vinnu í apríl og maí á grundvelli ráðningarsamningsins.
Kemur loks fram í greinargerð sóknaraðila að allt frá því að hann hafi byrjað störf í apríl 2008 og þar til varnaraðili hafi verið þjóðnýttur 29. september sama ár hafi sóknaraðili unnið af krafti og samviskusemi að verkefnum tengdum fjármögnun bankans. Störf sóknaraðila hafi í einu og öllu verið í samræmi við væntingar stjórnenda varnaraðila enda liggi fyrir að forstjóri varnaraðila, Lárus Welding, hafi í tvígang, fyrst 9. júlí 2008 og síðan 1. október 2008, staðfest að sóknaraðili hefði á umræddum tíma náð þeim árangri sem að hafi verið stefnt. Varnaraðili hafi átt í verulegum lausafjárvandræðum fyrri hluta árs 2008 og megi segja að þau hafi náð hámarki um það leyti sem leitað hafi verið til sóknaraðila. Aðgerðir stjórnenda varnaraðila hafi reynst árangursríkar og um sumarið 2008 hafi mat manna verið að bankinn væri kominn yfir erfiðasta hjallann. Sumarið hafi hins vegar reynst lognið á undan storminum þar sem fall fjárfestingabankans Lehman Brothers hafi haft geigvænlegar afleiðingar fyrir fjármálamarkaði heimsins. Lánalínur hafi lokast og fjármálafyrirtæki hafi leitað leiða til að komast undan skuldbindingum sem þau hafi þegar undirgengist um lánveitingar. Þessir atburðir hafi bitnað hart á varnaraðila og svo hafi farið að lokum að bankinn hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar.
Fyrir liggur að samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Bankanum var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár.
Fram kemur í greinargerð varnaraðila að hann hafi gefið út kröfuskrá þann 8. desember 2009 þar sem birtur var listi yfir kröfur sem lýst var innan kröfulýsingarfrests og afstaða til þeirra að því marki sem hún hafi legið fyrir. Kröfuskráin hafi verið lögð fram á kröfuhafafundi þann 17. desember 2009. Á fundinum hafi jafnframt verið veittar skýringar eftir föngum á ástæðum fyrir afstöðu til viðurkenningar einstakra krafna, framkomin mótmæli kynnt og mótmæli fundarmanna móttekin. Enn fremur hafi verið haldnir kröfuhafafundir til að fjalla um afstöðu varnaraðila til krafna 19. maí og 2. desember 2010. Sökum fjölda krafna hafi ekki verið unnt að reyna að jafna ágreining um kröfur á framangreindum kröfuhafafundum og hafi því verið upplýst að haldnir yrðu sérstakir fundir í því skyni þar sem boðaðir yrðu þeir sem hlut ættu að máli.
Sóknaraðili hafi lýst kröfu við slitameðferð Glitnis banka hf., með kröfulýsingu, dags. 23. nóvember 2009, sem móttekin hafi verið af varnaraðila þann 26. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 1.240.877 bandaríkjadalir ásamt kostnaði að fjárhæð 3.501.799 krónur. Krafa sóknaraðila varði: laun áður en ráðningarsamningur hafi tekið gildi, skilyrtan kaupauka, laun í uppsagnarfresti og önnur hlunnindi. Kröfunni hafi allri verið lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.
Kemur og fram í greinargerð varnaraðila að krafa sóknaraðila byggi á ráðningarsamningi sem dagsettur sé 1. júní 2008 og samkvæmt 1. gr. hans hafi sóknaraðili átt að hefja störf þann dag. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi sóknaraðili starfa hjá dótturfélagi Glitnis í New York. Sóknaraðili hafi þegið laun frá dótturfélaginu frá því að hann hafi byrjað störf sín hjá því. Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi í raun hafið störf fyrr en gögn málsins styðji ekki þá staðhæfingu né heldur sú staðreynd að laun hafi ekki verið greidd vegna þess tímabils. Krafa um greiðslu launa fyrir það tímabil hafi fyrst verið sett fram eftir fall varnaraðila í október 2008.
Hér að neðan getur að líta sundurliðun fjárhæðar lýstrar kröfu sóknaraðila eins og hún birtist í kröfulýsingu hans.
|
Tegund kröfu |
Lýst fjárhæð USD |
|
Launakrafa apríl- og maímánuður 2008. |
41.666 |
|
Kaupauki |
1.000.000 |
|
Húsnæðisstyrkur |
30.000 |
|
Skólagjöld í The Dwight School |
64.840 |
|
Laun í uppsagnarfresti |
66.834 |
|
Orlofslaun (13,04%) |
16.344 |
|
Dráttarvextir |
21.193 |
|
Samtals USD: |
1.240.877 |
|
Lögmannsþóknun í íslenskum krónum |
3.501.799 |
Fram kemur í greinargerð varnaraðila að með bréfi, 4. desember 2009, hafi hann tilkynnt sóknaraðila að krafan hefði verið samþykkt með breytingum. Krafa sóknaraðila að fjárhæð 7.505.368 hafi verið samþykkt sem almenn krafa. Nánar tiltekið hafi verið samþykkt greiðsla vegna húsnæðiskostnaðar og hluta skólagjalda. Grundvöllur þess samþykkis hafi verið sá að varnaraðili hefði haft greiðskyldu þar sem um hafi verið að ræða útlagðan kostnað vegna flutnings sóknaraðila og sömuleiðis hafi ekki legið fyrir á þeim tíma, að öll laun sóknaraðila hefðu verið greidd af dótturfélagi varnaraðila. Þar sem sóknaraðili hafi verið starfsmaður dótturfélagins og hafi ekki þegið laun frá varnaraðila hafi dótturfélaginu borið að greiða þennan kostnað. Varnaraðili sé hinsvegar bundinn af því að hafa samþykkt kröfuna á þennan hátt. Í raun hafi varnaraðili ekki borið ábyrgð á greiðslunni og sé því nauðsynlegt að taka fram að í þessari afstöðu hafi ekki falist nein viðurkenning á því að ráðningarsamband hafi verið til staðar milli sóknar- og varnaraðila. Nánar tiltekið var krafa sóknaraðila samþykkt með eftirfarandi hætti:
|
Kröfur |
Afstaða USD |
Afstaða ISK |
|
Húsnæðisstyrkur |
25.000 |
3.267.750 |
|
Skólagjöld |
32.240 |
4.214.090 |
|
Samtals |
57.420 |
7.505.368 |
Fram kemur í bréfi varnaraðila til héraðsdóms að hann telur heildarkröfu sóknaraðila nema 165.696.832 krónum. Þá má sjá í gögnum málsins að miðað er við gengi bandaríkjadals 22. apríl 2009 sem hafi verið 130,71 íslensk króna.
Í greinargerð sóknaraðila er þess einnig getið að í kjölfar skipunar skilanefndar fyrir varnaraðila hafi hann átt viðræður við fulltrúa skilanefndar um uppgjör launakröfunnar. Að frumkvæði sóknaraðila hafi verið reifaðar hugmyndir um umtalsverða lækkun kröfunnar gegn því að gengið yrði strax til uppgjörs. Hafi það annars vegar verið gert vegna óvissu sem þá hafi verið uppi um það hvenær kæmi til greiðslu forgangskrafna í búið. Hins vegar hafi verið horft til áætlana sem þá hafi verið uppi um frekari störf sóknaraðila fyrir varnaraðila eða Nýja Glitni banka hf. (nú Íslandsbanka hf.) enda afar óheppilegt að launakröfur sóknaraðila væru óuppgerðar á sama tíma og aðilar störfuðu saman að öðrum verkefnum. Fram hafi komið tillaga frá skilanefndinni um greiðslu að fjárhæð 350.000 bandaríkjadalir til fullnaðaruppgjörs launakröfu sóknaraðila. Þótt sóknaraðili hafi verið samningsfús þá hafi verið ljóst að málinu yrði ekki lokað á þessum grundvelli. Frekari viðræður aðila hafi reynst árangurslausar og hafi sóknaraðili lýst launakröfunni eftir að slitastjórn hafi verið skipuð fyrir varnaraðila.
II
Í greinargerð sinn kveður sóknaraðili að í erindi varnaraðila til héraðsdóms sé ekki að finna röksemdir fyrir afstöðu varnaraðila til kröfu sóknaraðila og ekki verði heldur ráðið af fyrri samskiptum aðila af hverju kröfu sóknaraðila hafi að stærstum hluta verið hafnað. Taki það jafnt til fjárhæðar kröfunnar og stöðu hennar í réttindaröð. Sóknaraðili áskilji sér af þessum sökum rétt til að koma að málsástæðum og nýjum gögnum á síðari stigum málsins, gefi málatilbúnaður varnaraðila tilefni til þess.
Í greinargerð sóknaraðila kemur í fyrsta lagi fram að í fundargerð frá fundi slitastjórnar 24. mars sl. sé gerð grein fyrir því að kröfu sóknaraðila hafi verið hafnað þar sem ekki hafi verið litið á hana sem laun í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili telji hins vegar engan vafa geta leikið á því að krafa hans teljist til launa eða annars endurgjalds fyrir vinnu hans í þágu sóknaraðila og því forgangskrafa við slit varnaraðila.
Samkvæmt ráðningarsamningi aðila hafi sóknaraðili starfað sem ráðgjafi (e. senior advisor) við fjárstýringu hjá varnaraðila en næsti yfirmaður hans hafi verið framkvæmdastjóri fjárstýringar (e. Treasury) Glitnis banka á Íslandi. Um hefðbundinn ráðningarsamning hafi verið að ræða á milli sóknaraðila, sem launþega, og varnaraðila, sem vinnuveitanda. Varnaraðili hafi samkvæmt umræddum ráðningarsamningi haft skýrt boðvald yfir sóknaraðila, bæði að því er varði skilgreiningu verkefna og starfsstöð sóknaraðila. Þá sé að finna í samningnum hefðbundnar skilgreiningar á vinnutíma, bann við störfum annars staðar á sama tíma, ákvæði um orlof, veikindarétt, lífeyrisréttindi og uppsagnarfrest. Af ráðningarsamningnum sé ljóst að um hafi verið að ræða hefðbundið vinnusamband en ekki verksamning.
Fyrir liggi í málinu að launaseðlar vegna sóknaraðila hafi stafað frá dótturfélagi Glitnis í New York, Glitnir Capital Corporation. Sóknaraðili vænti þess að varnaraðili hafi haft þennan háttinn á vegna búsetu sóknaraðila. Varnaraðili hafi eftir sem áður verið viðsemjandi og vinnuveitandi sóknaraðila og geti þessi framkvæmd varnaraðila þar engu breytt enda hafi sóknaraðili ekki starfað fyrir dótturfélagið. Verður ekki annað séð en að slitastjórn varnaraðila sé sama sinnis enda hafi skuldbinding varnaraðila gagnvart sóknaraðila þegar verið viðurkennd að hluta.
Í áðurnefndri fundargerð slitastjórnar varnaraðila sé ennfremur tilgreint að krafa sóknaraðila sé samþykkt að hluta sem almenn krafa sökum þess að sóknaraðili hafi setið í framkvæmdastjórn varnaraðila. Hér sé um augljósan misskilning að ræða af hálfu varnaraðila. Sóknaraðili hafi aldrei átt sæti í framkvæmdastjórn varnaraðila enda hafi hann samkvæmt skýrum ákvæðum ráðningarsamnings verið ráðinn til starfa sem sérfræðingur í fjárstýringu hjá varnaraðila og hafi starfað þar undir stjórn framkvæmdastjóra þeirrar deildar. Þegar af þessari ástæðu sé ljóst að ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 taki ekki til sóknaraðila. Þess megi jafnframt geta að sóknaraðili hafi ekki setið í neinum nefndum innan bankans. Sóknaraðili hafi hins vegar setið nokkra fundi efnahagsnefndar (ALCO) vegna þeirra verkefna sem hann hafi komið að innan fjárstýringar.
Sóknaraðili telji með vísan til framangreinds að krafa hans samkvæmt ráðningarsamningi aðila teljist til launa og annars endurgjalds í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Nánar verði fjallað um einstaka liði kröfunnar hér á eftir.
Sóknaraðili kveður dómkröfu sína byggjast á kröfulýsingu, dags. 23. nóvember 2010.
Kveðst sóknaraðili í fyrsta lagi krefjast ógreiddra grunnlauna að fjárhæð 41.666 bandaríkjadalir. Hann hafi komið til starfa hjá Glitni í aprílmánuði 2008. Fyrir liggi gögn þessu til staðfestingar, sbr. m.a. tölvupóst sóknaraðila til Lárusar Welding, fyrrum forstjóra varnaraðila frá 7. apríl 2008 sem fylgt hafi með kröfulýsingu sóknaraðila. Þar sem atvinnuleyfi sóknaraðila í Bandaríkjunum hafi á þeim tíma ekki verið flutt frá Bank of America hafi aðilum samist svo um að ráðningarsamningurinn yrði dagsettur 1. júní 2008. Launagreiðslur til sóknaraðila fyrir apríl og maí 2008 hafi hins vegar átt að vera á grundvelli ráðningarsamningsins. Uppgjör launagreiðslna fyrir umrædda mánuði hafi ekki átt sér stað áður en skilanefnd hafi verið skipuð fyrir varnaraðila.
Umsamin árslaun samkvæmt ráðningarsamningi sóknaraðila hafi verið 250.000 bandaríkjadalir. Mánaðarlaun sóknaraðila hafi verið 20.833 bandaríkjadalir og krafa sóknaraðila samkvæmt þessum lið því 41.666 bandaríkjadalir. Sóknaraðili telji ljóst að krafa hans samkvæmt þessum lið um vangoldin laun teljist forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili kveður kröfu um ógreidda launauppbót að fjárhæð 1.000.000 bandaríkjadalir reista á grein 6.3 í ráðningarsamningi sóknaraðila. Samkvæmt umræddu ákvæði hafi sóknaraðili átt rétt á launauppbót á árinu 2008 að þeirri fjárhæð. Greiðsluna hafi borið að inna af hendi í tveimur hlutum, þ.e. 1. júlí og 1. október 2008, og hafi verið háð því að forstjóri varnaraðila staðfesti að störf sóknaraðila væru í samræmi við þær væntingar sem til hans hafi verið gerðar. Fyrir liggi að Lárus Welding, forstjóri varnaraðila, hafi staðfest „með ánægju“ frammistöðu sóknaraðila með tölvupósti dags. 9. júlí 2008 og síðari staðfestingin hafi verið send sóknaraðila 1. október 2008.
Krafa sóknaraðila til framangreindrar launagreiðslu sé skýr og afdráttarlaus. Um sé að ræða hluta umsaminna launa sóknaraðila fyrir störf hans í þágu varnaraðila. Hafa verði í huga í þessu sambandi þann aðdraganda að ráðningu sóknaraðila sem að framan sé rakinn. Varnaraðili hafi að fyrra bragði leitað til sóknaraðila vegna þeirrar sérþekkingar og reynslu sem hann hafi búið yfir. Sóknaraðili hafi í fyrra starfi hjá Bank of America haft árslaun sem verið hafi um 1,8 milljónir bandaríkjadala auk fríðinda. Það hafi því verið ljóst að engar forsendur hafi verið til þess að sóknaraðili fengist til starfa hjá varnaraðila gegn greiðslu þeirra grunnlauna sem kveðið hafi verið á um í grein 6.1. í ráðningarsamningi.
Launauppbótin hafi annars vegar gjaldfallið 9. júlí 2008 og hins vegar 1. október sama ár. Sóknaraðili hafi þá í einu og öllu verið búinn að uppfylla þær kröfur sem til hans hafi verið gerðar og hafi þannig áunnið sér rétt til umræddra launa. Sóknaraðili telji engin rök standa til þess að gera greinarmun á þessum þætti launa hans fyrir störf hans í þágu varnaraðila og grunnlaunum samkvæmt ákvæði 6.1. Í báðum tilvikum sé um að ræða endurgjald fyrir vinnu sem þegar hafi verið innt af hendi og launakrafan gjaldfallin innan þeirra tímamarka sem tiltekin séu í 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa um ógreiddan húsnæðisstyrk að fjárhæð 30.000 bandaríkjadalir sé reist á grein 6.4 í ráðningarsamningi þar sem tiltekið sé að sóknaraðili eigi rétt á mánaðarlegum húsnæðisstyrk að fjárhæð 5.000 bandaríkjadalir á mánuði. Gerð sé krafa um greiðslu húsnæðisstyrks fyrir þann tíma sem sóknaraðili hafi verið í vinnu hjá Glitni en styrkurinn hafi aldrei verið greiddur. Um hlunnindi sé að ræða sem verið hafi hluti af launum sóknaraðila. Forgangsréttur samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 taki til endurgjalds samkvæmt ráðningarsamningi sem greitt sé í formi hlunninda eða í fríðu. Greiðsla kostnaðar vegna húsnæðis teljist til slíkra hlunninda.Krafa um greiðslu vegna skólagjalda að fjárhæð 64.840 bandaríkjadalir sé reist á grein 9.3 í ráðningarsamningi aðila þar sem fram komi að varnaraðili muni standa skil á skólagjöldum barna sóknaraðila, auk nánar tilgreindra kostnaðarliða. Sóknaraðili hafi lagt út fyrir skólagjöldum barna sinna. Ekki sé ágreiningur um fjárhæð skólagjaldanna enda hafi varnaraðili viðurkennt kröfuna sem slíka. Aðilar deili hins vegar um stöðu kröfunnar í réttindaröð. Sóknaraðili telji kröfuna til hlunninda samkvæmt ráðningarsamningi sem beri að meðhöndla með sama hætti og önnur laun sóknaraðila. Sóknaraðili krefjist þess að krafan verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Umsaminn uppsagnarfrestur sóknaraðila hafi verið fjórir mánuðir samkvæmt 3. gr. ráðningarsamnings aðila. Sóknaraðili hafi verið launalaus í nóvember og desember 2008 og sé gerð krafa um fulla greiðslu launa fyrir þá mánuði, samtals 41.666.- USD. Fyrir liggi að sóknaraðili og Nýi Glitnir Banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) hafi gert með sér verktakasamning 15. janúar 2009 þar sem sóknaraðili hafi tekið að sér tiltekin sérverkefni fyrir fjárstýringu og markaðsviðskipti bankans gegn 1.000.000.- kr. greiðslu (auk 24,5 % vsk.) á mánuði. Tillit hafi verið tekið til þessara umsömdu greiðslna í kröfulýsingu sóknaraðila og krafa sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti lægri sem þessu nemi í janúar og febrúar 2009.
Laun í uppsagnarfresti fyrir janúar og febrúarmánuð 2009 sundurliðist því með þeim hætti að vegna janúar sé gerð krafa um 13.089 bandaríkjadali. Umsamin laun hafi verið 20.833 bandaríkjadalir en frá þeirri fjárhæð dragist 7.744 bandaríkjadalir sem samsvari 1.000.000 íslenskra króna miðað við gengi bandaríkjadals 20. janúar 2009, sem hafi verið 129,13 krónur. Á sama hátt sé gerð krafa um greiðslu 12.079 bandaríkjadala vegna febrúarmánaðar 2009. Umsamin laun hafi sem fyrr verið 20.833 bandaríkjadalir en frá þeirri fjárhæð dragist 8.754 bandaríkjadalir sem samsvari 1.000.000 íslenskra króna miðað við gengi bandaríkjadals 20. febrúar 2009, sem hafi verið 114,24 krónur. Samtals nemi krafa sóknaraðila vegna þessa liðar því 66.834 bandaríkjadölum. Laun í uppsagnarfresti njóti forgangs samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 112. laga nr. 21/1991.
Kröfu sína um orlofslaun að fjárhæð 16.344 bandaríkjadalir kveðst sóknaraðili annars vegar reisa á grein 7.2 í ráðningarsamningi aðila þar sem kveðið sé á um að sóknaraðili eigi rétt á tíu daga orlofi sumarið 2008 en hann hafi ekki haft tök á að nýta umrætt orlof áður en honum hafi verið sagt upp störfum. Samkvæmt 8. gr. laga um orlof, nr. 30/1987 skuli vinnuveitandi greiða öll áunnin orlofslaun við lok ráðningartíma. Orlofslaun sóknaraðila á grundvelli greinar 7.2 í ráðningarsamningi nemi samtals 9.614 bandaríkjadölum (20.833/21,67 x 10). Hins vegar geri sóknaraðili jafnframt kröfu um orlof á laun í uppsagnarfresti því samkvæmt gr. 7.1 í ráðningarsamningi aðila hafi hann átt rétt á 20 daga orlofi á hverju ári. Sóknaraðili gerir því kröfu um að fá 7 daga greidda sem orlofslaun ofan á laun í uppsagnarfresti, samtals 6.730 bandaríkjadali. Krafa um orlof njóti forgangs samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa sóknaraðila sé að síðustu til komin vegna dráttarvaxta af framangreindum kröfuliðum frá gjalddaga hverrar kröfu fram til 22. apríl 2009. Vextir sem fallið hafi til fyrir slitameðferð varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 líkt og hinar gjaldföllnu kröfur. Dráttarvextirnir nema samtals 21.193 bandaríkjadölum. Við munnlegan málflutning var gerð grein fyrir því að þegar greinargerð sóknaraðila hafi verið rituð hafi ekki verið vitað að útreikningar dráttarvaxta væru umdeildir heldur hafi verið talið að deilan lyti fyrst og fremst að réttmæti krafna. Þegar ljóst hafi verið að varnaraðili byggði á að krafan væri óljós hafi einstakir kröfuliðir verið settir inn í vaxtaforrit ásamt tímabilum sem dráttarvaxta væri krafið fyrir. Liggi skjal með þessum útreikningum fyrir í málinu og sjáist af því að dráttarvaxtakrafa sóknaraðila sé mun lægri en þeir vextir sem hann eigi rétt til. Dráttarvöxtum sé því vanlýst en það eigi ekki að koma í veg fyrir að á þá verði fallist.
Verði ekki fallist á að launakrafa sóknaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sé þess krafist að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa með vísan til 113. gr. sömu laga. Sóknaraðili telji að ekki verði deilt um það að hann eigi gilda kröfu á hendur varnaraðila enda sé með skýrum hætti mælt fyrir um skyldu varnaraðila til greiðslu þeirra krafna sem raktar hafi verið hér að framan í ráðningarsamningi sóknaraðila. Varnaraðili sé bundinn af þeim samningi. Þá liggi fyrir að efndatími umræddra krafna sé kominn og sóknaraðili hafi staðið í einu og öllu við skyldur sínar samkvæmt samningnum. Verði talið að krafa sóknaraðila, eða einstakir þættir hennar, njóti ekki forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 telji sóknaraðili kröfurnar falla í flokk almennra krafna skv. 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili kveðst til stuðnings kröfum sínum vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga sem og meginreglna vinnuréttar. Kröfu um málskostnað kveðst hann styðja við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili kveðst í greinargerð sinni mótmæla málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Varnaraðili telji að kröfunni sé beint að röngum aðila og beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna öllum kröfum sóknaraðila öðrum en þeim sem samþykktar hafi verið. Verði talið að ráðningarsamband hafi verið á milli aðila, telji varnaraðili útilokað að kröfur sóknaraðila geti notið forgangs skv. 112. gr. gþl.
Málsaðilar hafi gert með sér ráðningarsamning dags. 1. júní 2008, þar sem sóknaraðili hafi verið ráðinn sem deildarstjóri fjárstýringar (e. senior advisor in treasury) og skyldi hann heyra undir framkvæmdastjóra fjárstýringar (e. managing director of treasuary). Fram að þeim tíma hafi sóknaraðili starfað hjá Bank of America. Í 4 gr. ráðningarsamningsins komi fram að sóknaraðili verði að störfum hjá dótturfélagi Glitnis í New York, Glitni Capital Corporation í NY, sem hér eftir verði nefnt GCC til styttingar. Á grundvelli þess samnings hafi sóknaraðili byrjað störf hjá GCC í júní 2008.
Þrátt fyrir að varnaraðili hafi skrifað undir ráðningarsamninginn, þá hafi sóknaraðili aldrei þegið laun frá varnaraðila, enda hafi sóknaraðili starfað hjá dótturfélagi varnaraðila, eftir að hann hafi verið ráðinn og hafi fengið öll sín laun greidd frá GCC eins og sjá megi af gögnum málsins. Þá hafi sóknaraðili sjálfur m.a. fyllt út svokallað Glitnir Capital Corporation Profit Sharing Plan, auk svokallaðs W-4 eyðublaðs vegna atvinnuleyfis sóknaraðila í USA, en þar komi skýrt fram að varnaraðili hafi ekki verið vinnuveitandi heldur dótturfélagið GCC í NY. Ennfremur hafi sóknaraðili fyllt út líftryggingareyðublað þar sem GCC sé einnig sagt vera vinnuveitandi.
Það sé grundvallaratriði hvað varði skuldbindingargildi samninga að samningur sé milli réttra aðila. Í tilviki sóknaraðila hafi háttað þannig til að hann hafi verið starfsmaður GCC, sem hafi verið dótturfélag Glitnis banka hf. í Bandaríkjunum. Sóknaraðili hafi fengið laun fyrir vinnu sem unnin hafi verið í þágu GCC og hafi starfsskyldur hans verið á starfsstöð GCC, en ekki hjá varnaraðila. Sóknaraðili hafi lagt fram launaseðla sína, en þar komi ótvírætt fram að GCC hafi verið launagreiðandi. Jafnframt megi sjá á launaseðlum, að kaupaukagreiðsla sem um hafi verið samið að sóknaraðili fengi fyrir að hefja störf (svokallaður signing bonus) hafi verið greidd af GCC, en ekki varnaraðila. Af þessu sé ljóst að varnaraðili hafi aldrei greitt neinn hluta launa sóknaraðila og hafi samningssambandið því í reynd, strax frá upphafi, færst frá móðurfélaginu til dótturfélagsins GCC. Sóknaraðili hafi m.a. með tilkynningum sínum til yfirvalda í USA fallist á þetta framsal samningsins, og einnig með móttöku launaseðla frá GCC án nokkurra andmæla.
Móðurfélög beri ekki ábyrgð á skuldbindingum dótturfélaga og því sé um að ræða skuldbindingu sem sé á ábyrgð GCC. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili beri neina ábyrgð á skuldbindingum GCC. Fyrir liggi að varnaraðili hafi selt GCC þann 15. október 2008 og að skuldbindingar móðurfélagsins, ef þær hafi einhverjar verið, hafi fallið niður við þann samning, sbr. grein 3.2. í kauptilboði því er varnaraðili hafi samþykkt. Með þessum samningi hafi GCC tekið yfir allar skuldbindingar varnaraðila gagnvart sóknaraðila, ef þær hafi þá verið nokkrar. Áhrif þess að kauptilboðinu hafi verið tekið verði þau að samningsskuldbindingin nái aldrei til varnaraðila, jafnvel þó móðurfélagið hafi annast greiðslur fyrir GCC áður en kauptilboð nýrra eigenda GCC hafi verið samþykkt. GCC hafi einfaldlega tekið yfir samningsskuldbindingu varnaraðila, ef ekki strax við greiðslu fyrstu launanna, þá í síðasta lagi þegar nýir eigendur hafi tekið yfir allar skuldbindingar varnaraðila gagnvart GCC þann 15. október 2008.
Sóknaraðili geti ekki borið það fyrir sig, eftir á, að honum hafi ekki mátt vera kunnugt um að dótturfélagið hefði tekið yfir allar skuldbindingar varnaraðila, enda hafi sóknaraðili samviskusamlega staðfest að dótturfélagið væri hans vinnuveitandi á fjölda eyðublaða.
Kröfur sóknaraðila um að varnaraðila beri að samþykkja kröfu hans sem forgangskröfu, þar sem um sé að ræða kröfu sem uppfylli skilyrði 1. mgr. 112. gr. gþl., geti þannig ekki verið á hendur neinum öðrum en GCC. Það félag hafi verið selt með þeim skuldbindingum sem til hafi stofnast fyrir 15. október 2008. Vegna þessa sé kröfunni beint að röngum aðila, og sé henni því hafnað að því leyti sem afstaða hafi ekki verið tekin til hennar.
Telji dómurinn að sóknaraðili eigi engu að síður kröfu á varnaraðila á grundvelli ráðningarsamningsins sé nauðsynlegt að gera efnislega grein fyrir skilyrðum krafnanna.
Með ákvæði 112. gr. gþl., sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð við gjaldþrotaskipti, sé vikið frá grundvallarreglu laganna um jafnræði kröfuhafa. Af því leiði að ákvæðið verði ekki skýrt rúmt. Ákvæði 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna taki til launa, og óumdeilt sé að greiðslur sem þar falli undir þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu í þjónustu þrotamanns og vera hluti af reglubundnu endurgjaldi, en fyrir liggi að sóknaraðili hafi unnið hjá dótturfélagi varnaraðila og hafi laun hans verið greidd af því félagi. Þegar af þeirri ástæðu geti krafan ekki talist forgangskrafa.
Greiðslur samkvæmt ráðningarsamningnum verði þannig að uppfylla skilyrði 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gþl. til að geta talist forgangskröfur. Til þess að varnaraðili geti fallist á að um forgangskröfu sé að ræða þurfi sóknaraðili að sýna fram á að vinna sóknaraðila, kaupaukar, hlunnindi og aðrar kröfur uppfylli skilyrði laganna. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki sýnt fram á að þessum skilyrðum sé fullnægt.
Kröfur sóknaraðila byggi á mismunandi ákvæðum ráðningarsamningsins og sé því nauðsynlegt að sundurgreina dómkröfur sóknaraðila og fjalla sérstaklega um hverja kröfu fyrir sig, en allar eigi þær það þó sameiginlegt að uppfylla ekki skilyrði 112. gr. laga 21/1991 til að geta talist forgangskröfur.
Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að upphaf ráðningarsambands hans við varnaraðila hafi verið í apríl 2008. Engin gögn séu þó lögð fram sem sýni fram á þetta og sé þvert á móti vísað til tölvupóstsamskipta, sem geri ekkert annað en staðfesta að aðilar hafi ekki gengið frá samningum sín á milli. Komi þar fram að sóknaraðili virðist þá fyrst, 7. apríl 2008 tilkynna þáverandi vinnuveitanda sínum, Bank of America, að hann hygðist færa sig um set og að hann vonaðist eftir því að þeir tefðu ekki málið. Þessi lýsing gefi til kynna að ekki hafi þá verið búið að ganga frá starfslokum hans hjá fyrri vinnuveitanda. Þann 7. apríl 2008 hafi þannig ekki verið gengið frá neinu samkomulagi milli aðila og engin gögn bendi til annars en að ráðning sóknaraðila hafi miðast við þann dag sem ráðningarsamningur hafi tekið gildi, þ.e. 1. júní 2008.
Hafi sóknaraðili byrjað störf hjá varnaraðila fyrir 1. júní 2008, eins og hann haldi fram, beri honum að sanna að svo sé og sýna fram á að hann hafi átt að fá greitt sérstaklega fyrir þann tíma. Tekið skuli fram að ráðningarsamningur aðila tiltaki sérstaklega að sóknaraðili fái 350.000 bandaríkjadali fyrir að hefja störf hjá varnaraðila. Ekki hafi verið sýnt fram á að sóknaraðili hafi átt að fá frekari greiðslur vegna vinnu sem kynni að hafa verið unnin áður en ráðningarsamningur hafi verið gerður. Varnaraðili fari því fram á að kröfunni, að fjárhæð 41.666 bandaríkjadalir, verði allfarið hafnað, þar sem engin sönnun liggi fyrir að vinnuframlag hafi verið innt af hendi á þessum tíma eða að greiðsluskylda hafi verið fyrir hendi.
Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að hann eigi rétt á að fá greiðslu á kaupauka samkvæmt grein 6.3. í ráðningarsamningi aðila, samtals að fjárhæð 1.000.000 bandaríkjadala. Greiðslan sé sögð vera lágmarksgreiðsla, þó með því lausnarskilyrði, að bankastjóri varnaraðila staðfesti að starfsárangur sóknaraðila hafi staðist „þær væntingar sem til hans voru gerðar“ eins og segi í greinargerð sóknaraðila. Greiðslan sé tvískipt og teljist krafan ekki hafa stofnast fyrr en hún hafi verið staðfest af bankastjóra varnaraðila. Þessar staðfestingar hafi verið veittar af Lárusi Welding.
Fyrri staðfestingin hafi verið veitt fyrir 500.000 bandaríkjadölum þann 9. júlí 2008, og hafi átt að taka til árangurs varnaraðila fyrir einn mánuð þ.e. frá 1. júní 2008 til 1. júlí 2008. Samtals hafi sóknaraðili því átt að fá 870.833 bandaríkjadali fyrir fyrsta mánuð sinn í starfi, eða sem svari til ríflega 100 milljóna króna. Síðari staðfestingin fyrir árangri fyrir tímabilið 1. júlí 2008 til 1. október 2008 hafi verið veitt þann 1. október 2008. Á þessum tíma hafi bankinn verið kominn að fótum fram og öllum ljóst hvert stefndi og því með miklum ólíkindum að staðfestingin hafi verið veitt. Ekki sé úr vegi að minna á að þetta hafi gerst viku eftir að stjórnarformaður bankans hafi farið á fund Seðlabanka Íslands og beðið um neyðaraðstoð og stjórn bankans hafi setið á tíðum neyðarfundum, jafnvel um miðjar nætur. Þá hafi Seðlabankinn, fyrir hönd ríkissjóðs, ákveðið að eignast 75% hlut í bankanum, ef það mætti verða til að bjarga honum frá falli. Þannig megi jafnvel efast um umboð bankastjórans til að stofna til þessa kostnaðar.
Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að umræddar kaupaukagreiðslur séu launakröfur og byggi þær á 112. gr. gþl. Undantekningar frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa beri hins vegar að túlka þröngt, þar á meðal launahugtakið og forgangsréttinn sem laun hafi skv. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gþl. Það sé afstaða varnaraðila að krafan geti aldrei notið forgangsréttar við slitameðferð Glitnis banka enda eigi krafan ekki rætur að rekja til vinnu sóknaraðila og sé því ekki um að ræða endurgjald fyrir vinnu.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 416/2010 segi m.a. „Af gögnum málsins verður ráðið að við ákvörðun um kaupaukann og fjárhæð hans hafi einkum verið litið til frammistöðu varnaraðila í starfi, mikilvægis hans sem starmanns fyrir sóknaraðila og afkomu sóknaraðila á árinu 2008.... Af þessum ástæðum er ekki unnt að líta svo á að kaupaukinn, að fjárhæð 200.000 evrur, teljist laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 378/2010“.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2010 segi svo „Samkvæmt efni viðaukans var greiðsla á grundvelli hans háð árangri varnaraðila í starfi ásamt því að hann gegndi því enn á þeim tíma, sem til greiðslunnar kynni að koma. Til þess er á hinn bóginn að líta að ekki var mælt þar fyrir um kröfu varnaraðila til greiðslu, heldur var greiðslan háð ákvörðun sóknaraðila, sem hafði samkvæmt grein 4.2 í ráðningarsamningi aðilanna óskert forræði á því að breyta henni eða fella hana niður hvenær sem honum svo sýndist“.
Líkt og í þessum dómum Hæstaréttar hafi það verið varnaraðila að ákveða hvort að greiðslan skyldi greidd eða ekki og hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á annað en að texti ráðningarsamningsins gildi. Varnaraðili hafi því haft fullt forræði á því hvort að greiðslan skyldi samþykkt og árangur sóknaraðila metinn fullnægjandi. Ekki hafi því verið sýnt fram á að krafan sé endurgjald fyrir vinnu, enda hafi ekki einungis verið áskilnaður um að sóknaraðili mætti til vinnu, heldur hafi það verið skilyrði að starfsárangur væri fullnægjandi, og hafi bankastjóra því verið gefið fullt forræði á þeirri greiðslu sem skyldi greiða. Beri því að líta á kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu skv. 113. gr. gþl.
Skilyrði í 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gþl. um að vinna sé unnin í þágu þrotamanns hafi auk þess ekki verið uppfyllt. Sóknaraðili hafi sjálfur lagt fram launaseðla sem sýni að sóknaraðili hafi þegið laun sín frá GCC, sem hafi verið dótturfélag varnaraðila. Allar þær greiðslur sem sóknaraðili hafi fengið greiddar hafi komið frá GCC enda hafi sóknaraðili unnið hjá því félagi og hafi haft starfsskyldur gagnvart því. Þannig sé ekki um að ræða vinnu í þjónustu þrotamanns eins og áskilnaður sé um í tilvitnuðu ákvæði gþl. heldur annars félags, GCC, sem selt hafi verið öðru félagi.
Sóknaraðili haldi því fram að krafa hans um húsnæðiskostnað sé forgangskrafa skv. 1. tl. 1. mgr 112. gr. gþl. og að fjárhæð 30.000 USD. Ekki hafi verið sýnt fram á í málinu að sóknaraðili eigi kröfu um meira en 5 mánuði í húsnæðisstyrk. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi starfað í fimm mánuði, frá júní 2008 til október 2008, og hafi ekki haft lengri uppsagnafrest en til loka síðarnefnds mánaðar.
Til þess að krafa sóknaraðila sé forgangskrafa þurfi krafan að vera endurgjald fyrir vinnu og vinnan unnin í þágu þrotamanns. Með sömu rökum og um kaupaukagreiðslu sóknaraðila telji varnaraðili ekki vera fyrir hendi kröfu byggða á því skilyrði, að um sé að ræða endurgjald fyrir vinnu. Styrkurinn sem veittur hafi verið, allt að 5.000 bandaríkjadölum á mánuði, hafi ákvarðast af varnaraðila. Greiðslan hafi því verið háð sömu skilyrðum og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 378/2010 og komið hafi í veg fyrir í því máli að forgangskrafa myndaðist, sbr. fyrri umfjöllun. Auk þessa hefði GCC átt að greiða viðkomandi styrk og því ekki um að ræða vinnu í þjónustu þrotamanns. Varnaraðili fari því fram á að kröfu sóknaraðila um að krafan verði talin forgangskrafa verði hafnað.
Sóknaraðili heldur því fram að krafa hans um greiðslu skólagjalda sé forgangskrafa skv. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gþl. og að fjárhæð 64.840 bandaríkjadalir. Ekki hafi verið sýnt fram á í málinu að sóknaraðili eigi rétt til greiðslu fyrir allt skólaárið, enda ekki um neinar samningsskuldbindingar að ræða eftir 30. október 2008. Varnaraðili fallist hins vegar á að ef ráðningarsamband sé talið vera á milli aðila að þá beri varnaraðila að greiða skólagjöld barnanna, en aðeins á haustönn, þ.e. helming kröfunnar. Varnaraðili fari fram á að forgangskröfu sóknaraðila verði hafnað, með sama rökstuðningi og varðandi húsnæðisstyrk sóknaraðila.
Sóknaraðili haldi því fram að hann eigi rétt á því að fá greidd laun í fjóra mánuði í uppsagnarfresti samkvæmt 3. gr. ráðningarsamningsins. Sóknaraðili skauti hins vegar algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að aðilar hafi báðir skrifað undir ráðningarsamning, sem kveði skýrt á um, sbr. 2. mgr. 3. gr. samningsins, að fyrstu sex mánuði sóknaraðila í starfi, þ.e. frá 1. júní til 30. nóvember 2008, skuli aðeins greiða laun til loka uppsagnarmánaðar komi til uppsagnar. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. samningsins eigi því einfaldlega ekki við í tilfelli sóknaraðila og fari varnaraðili því fram á það að kröfunni verði alfarið hafnað.
Sóknaraðili krefjist orlofslauna fyrir 10 daga orlof sem hann hafi átt rétt á að taka yfir sumarið 2008 skv. grein 7.2 í ráðningarsamningi. Engin gögn liggi fyrir um að sóknaraðili hafi ekki nýtt sér orlofsrétt sinn. Þrátt fyrir að slík sönnun kæmi fram sé ljóst að sóknaraðili geti ekki krafist greiðslu fyrir það orlof sem hann hafi ekki nýtt sér enda sé ákvæðið valkvætt og geti því ekki myndað kröfu eftir að tímabilinu hafi lokið. Af þessum sökum sé farið fram á að kröfunni verði hafnað.
Verði ekki fallist á að hafna kröfunni beri að líta til þess að krafa sóknaraðila nái einnig til orlofs í uppsagnarfresti, en sú krafa sé ekki til staðar, sbr. fyrri umfjöllun, og ávallt beri því að hafna þeim hluta kröfunnar. Auk þessa hafi GCC átt að greiða sóknaraðila umrætt orlof, og það félag hafi tekið yfir allar skuldbindingar, sem á því hafi hvílt þegar það hafi verið selt.
Sóknaraðili leggi ekki fram neinn útreikning á dráttarvaxtakröfu sinni og því ómögulegt að leggja mat á kröfuna, enda miðist dráttarvaxtakrafa vegna hverrar kröfu við mismunandi vaxtadaga. Varnaraðili fari því fram á að afstaða varnaraðila verði staðfest og kröfunni hafnað vegna vanreifunar.
Þá byggir varnaraðili á því að allar kröfur sóknaraðila séu settar fram í bandaríkjadölum og beri því að umreikna þær í íslenskar krónur samkvæmt 99. gr. gþl. miðað við 22. apríl 2009 en á þeim degi hafi allar kröfur á hendur varnaraðila fallið í gjalddaga. Á þeim degi hafi sölugengi bandaríkjadollars verið 130,71 króna. Varnaraðili fari fram á að allar kröfur sóknaraðila verði færðar til íslenskra króna samkvæmt því gengi.
Þá geri varnaraðili kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila ásamt virðisaukaskatti. Byggir hann kröfu sína um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggi á lögum nr. 50/1988, en varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili vísar til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hlutafélagalaga nr. 2/1995, laga um ábyrgðarsjóð launa nr. 88/2003 laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og meginreglna gjaldþrota-, samninga- og kröfuréttar. Varðandi kröfu um málskostnað kveðst varnaraðili vísa til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og vegna kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun til laga nr. 50/1988.
IV
Deila aðila lýtur í fyrsta lagi að því hvort kröfu þeirri sem sóknaraðili hefur uppi í málinu sé réttilega beint að varnaraðila og ef svo er hver staða hennar skuli vera í skuldaröð við slit varnaraðila.
Í máli þessu liggur fyrir ráðningarsamningur sem óumdeilt er að sóknaraðili gerði við varnaraðila og dagsettur er 1. júní 2008. Sóknaraðili undirritaði samninginn sjálfur en fyrir hönd varnaraðila var hann undirritaður af Lárusi Welding þáverandi forstjóra og Elvari Rúnarssyni þáverandi mannauðsstjóra varnaraðila. Báðir síðastnefndir menn gáfu skýrslu fyrir dómi og staðfestu undirritun sína á samninginn fyrir hönd varnaraðila. Kröfur sóknaraðila í máli þessu byggjast á umræddum samningi. Aðalkrafa varnaraðila um að kröfum sóknaraðila verði hafnað umfram þær sem varnaraðili hafi þegar viðurkennt byggjast á hinn bóginn á því að sóknaraðili hafi verið starfsmaður dótturfélags varnaraðila en ekki varnaraðila sjálfs. Hafi skyldur varnaraðila samkvæmt samningnum flust yfir til dótturfélagsins og byggir varnaraðili á því aðallega að það hafi gerst þegar frá upphafi ráðningar en til vara að það hafi í síðasta lagi gerst þegar varnaraðili hafi selt umrætt dótturfélag 15. október 2008.
Í 2. gr. ráðningarsamningsins kemur meðal annars fram að sóknaraðili sé ráðinn sem yfirráðgjafi í fjársýslu og heyri undir framkvæmdastjóra fjársýslu varnaraðila á Íslandi eða hvern þann aðila sem bankinn kunni hverju sinni að tilnefna og starfi fyrir bankann sem slíkur eða með öðrum svipuðum hætti sem varnaraðila sé heimilt að ákveða að geðþótta. Þá kemur fram að varnaraðili feli sóknaraðila verkefni og að ásamt þeim verkefnum sem tengist eðlilega starfsheiti sóknaraðila þurfi hann öðru hverju að taka að sér aukaverkefni eða aðrar skyldur sem nauðsynlegar þyki til að fullnægja viðskiptaþörfum bankans. Þá kemur fram að aðalverkefni sóknaraðila sé ráðgjöf við almenna fjársýslu og fjármögnunarstarfsemi bankans. Í 4. gr. samningsins undir fyrirsögninni „vinnustaður“ segir að sóknaraðili verði fyrst staðsettur í dótturfélagi varnaraðila, Glitnir Capital Corporation, á nánar greindu heimilisfangi í New York borg í Bandaríkjum Norður Ameríku. Þá kemur fram að varnaraðili geti einnig krafist þess af sóknaraðila að hann starfi á öðrum stað um tíma eins og varnaraðila sé heimilt með sanngirni að fara fram á hverju sinni.
Fyrir liggur að sóknaraðili fékk greitt samkvæmt ráðningarsamningnum mánaðarlaun fyrir mánuðina júní til og með október en í lok þess mánaðar sagði varnaraðili honum upp störfum. Þá fékk sóknaraðili greiddan umsaminn upphafskaupauka að fjárhæð 350.000 bandaríkjadalir. Þessar greiðslur voru inntar af hendi af Glitnir Capital Corporation sem þá var dótturfélag varnaraðila. Varnaraðili hefur lagt fram skjöl sem hann byggir á að sýni að sóknaraðili hafi tilgreint fyrrnefnt dótturfélag sem vinnuveitanda sinn gagnvart Bandarískum yfirvöldum. Er þar fyrst að nefna skjal sem hefur yfirskriftina „Form W-4 (2007)“ og sagt er útfyllt í tengslum við atvinnuleyfisumsókn í Bandaríkjunum. Byggir varnaraðili á að sóknaraðili hafi þar tilgreint Glitnir Capital Corporation sem vinnuveitanda sinn. Þessi fullyrðing varnaraðila fær ekki stoð í afriti af umræddu skjali sem liggur fyrir í málinu en þar er óútfylltur sá reitur þar sem tilgreina á vinnuveitanda. Skjalið er dagsett 8. maí 2008. Fyrir liggur skjal sem ber yfirskriftina Glitnir Capital Corporation Profit Sharing Plan sem sóknaraðili hefur útfyllt. Skjalið er dagsett 23. maí 2008. Þá liggur fyrir skjal frá Guardian Life Insurance Company of America, þar sem sóknaraðili tilgreinir Glitnir Capital Corporation sem tryggingartaka en sjálfan sig sem starfsmann. Skjalið er dagsett 23. maí 2008. Þá liggur fyrir skjal þar sem sóknaraðili heimilar Glitnir Capital Corporation að leggja fjármuni inn á tilgreindan bankareikning sinn í Bank of America og er skjalið dagsett 23. maí 2008. Eins og áður segir er ráðningarsamningur málsaðila dagsettur 1. júní 2008.
Ráðningarsamningur sá sem að framan er lýst er sannanlega gerður milli aðila þessa máls. Er í honum lýst nokkuð ítarlega starfsskyldum sóknaraðila gagnvart varnaraðila og á hvaða starfssviði honum var ætlað að starfa. Eru þessar upplýsingar í fullu samræmi við framburð þáverandi forstjóra varnaraðila og þeirra Elvars Rúnarssonar, Ragnars Torfa Geirssonar sem var deildarstjóri launadeildar og framburð Vilhelms Más Þorsteinssonar sem samkvæmt skipuriti sem lagt hefur verið fram í málinu var yfirmaður sóknaraðila innan varnaraðila. Ragnar Torfi Geirsson lýsti því í skýrslu sinni að það fyrirkomulag að greiða laun sóknaraðila í gegn um dótturfélag varnaraðila hafi verið til hagræðis fyrir varnaraðila. Með vísan til framangreinds og þá einkum ráðningarsamnings þess sem hér hefur verið lýst verður talið að sóknaraðila hafi tekist sönnun þess að ráðningarsamband hafi stofnast milli hans og varnaraðila. Er það mat dómsins að þegar framangreint liggur fyrir verði að leggja sönnunarbyrði á varnaraðila um fullyrðingar um brottfall skyldna samkvæmt þeim samningi sem hann gerði í öndverðu, sem og hvaða atvik nákvæmlega hafi leitt til þess brottfalls. Er það mat dómsins að tilvísun til útfyllingar sóknaraðila á þeim eyðublöðum sem að framan er lýst eða athugasemdalaus viðtaka sóknaraðila á launum frá dótturfélagi varnaraðila geti ekki talist fullnægjandi sönnun þess að varnaraðili hafi losnað undan þeim skyldum sem hann gekkst undir gagnvart sóknaraðila við undirritun ráðningarsamningsins. Verður og að hafa í huga að engar vísbendingar liggja fyrir í máli þessu um að sóknaraðili hafi unnið nokkurt verk í þágu nefnds dótturfélags og hefur varnaraðili ekki gert tilraun til að færa fram sönnun fyrir slíku. Er því fallist á með sóknaraðila að kröfu hans sé réttilega beint að varnaraðila málsins.
Verður þá fyrst vikið að þeirri málsástæðu sóknaraðila að leggja eigi til grundvallar í málinu að hann hafi hafið störf hjá varnaraðila í byrjun apríl 2008 en ekki 1. júní sama ár eins og ráðningarsamningur ber með sér. Byggir sóknaraðili á því að samningurinn hafi að hans ósk verið dagsettur fram í tímann til að forðast hugsanleg neikvæð áhrif á umsókn hans um atvinnuleyfi í Bandaríkjunum, en fram er komið að sóknaraðili starfaði fyrir annan banka í Bandaríkjunum áður en hann réði sig til varnaraðila. Var þetta staðfest af þáverandi forstjóra varnaraðila og kvað hann að sóknaraðili hafi komið til starfa í lok mars þetta ár. Önnur vitni gátu ekki staðfest hvenær sóknaraðili tók til starfa en töldu að það hefði verið fyrr en ráðningarsamningur segi til um. Sóknaraðili lagði einnig fram tölvupóstsamskipti sem hann taldi sýna fram á að hann hafi verið að störfum hjá varnaraðila í apríl og maí 2008 og byggir einnig á að ef varnaraðili hefði orðið við áskorun sem hann hafði uppi undir rekstri málsins um að leggja fram tölvupóstsamskipti starfsmanna bankans við nánar tilgreind netföng í eigu sóknaraðila þá hefði komið í ljós að þessi samskipti hefðu verið umtalsverð. Hvað sem líður framangreindum gögnum og framburði vitna um aðkomu sóknaraðila að starfsemi varnaraðila fyrir 1. júní 2008 verður að mati dómsins að hafa hér í huga að fyrir liggur ítarlegur skriflegur samningur milli aðila þar sem skýrlega kemur fram að fyrsti dagur samfelldrar vinnu sóknaraðila í þágu varnaraðila sé 1. júní 2008. Verður að fallast á með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að jafnvel þó leiða megi líkur að því að hann hafi að einhverju leyti komið til starfa fyrir nefndan dag að honum beri sérstök greiðsla úr hendi varnaraðila vegna þess. Hefði aðilum enda verið í lófa lagið að geta um rétt til slíkrar greiðslu í samningi sínum. Það styður og þessa niðurstöðu að sóknaraðili gerði fyrst kröfu vegna þessa tímabils eftir að honum hafði verið sagt upp störfum hjá varnaraðila, en hafði fram að því þegið, að því er virðist án athugasemda, greiðslur sem miðuðust við að fyrsti starfsdagur hans hafi verið í samræmi við ákvæði samningsins. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að unnt sé að miða við að sóknaraðili hafi verið búinn að starfa hjá varnaraðila í sex mánuði þegar honum var sagt upp störfum undir lok októbermánaðar 2008. Er því ekki unnt að fallast á þá kröfuliði hans sem lúta að launum vegna apríl og maí 2008 eða launa í uppsagnarfresti, enda átti hann fyrst rétt á launum í uppsagnarfresti eftir samfellt sex mánaða starf eins og fram kemur í 3. gr. samningsins. Af þessu leiðir að hafna ber kröfu sóknaraðila um greiðslu orlofsdaga í uppsagnarfresti sem og kröfu hans um greiðslu húsnæðiskostnaðar umfram þá 25.000 bandaríkjadali sem varnaraðili hafði áður fallist á.
Varnaraðili hefur þegar fallist á að greiða 32.240 bandaríkjadali vegna skólagjalda barna sóknaraðila. Fyrir liggja í málinu reikningar vegna skólagjalda og útskýrði sóknaraðili uppbyggingu þeirra í skýrslu sinni fyrir dómi. Varnaraðili byggði á því við munnlegan málflutning að í þeim útskýringum fælist engin sönnun og varnaraðili héldi sig því við þá afstöðu sína að fallast aðeins á hluta hinnar lýstu kröfu. Það er mat dómsins að í ljósi þess að sóknaraðila var sagt upp störfum á miðju skólaári hafi hann ekki rökstutt svo fullnægjandi sé greiðsluskyldu varnaraðila umfram þá 32.240 bandaríkjadali sem varnaraðili hefur þegar viðurkennt.
Hér að framan er rakin orðrétt 2. mgr. greinar 6.3 í ráðningarsamningi aðila sem fjallar um kaupaukagreiðslur á árinu 2008. Er þar greint skýrlega að kaupauki skuli að lágmarki nema 1.000.000 bandaríkjadala og greiðsla hans sé bundin því að frammistaða sóknaraðila hafi verið samkvæmt væntingum að mati forstjóra varnaraðila, sem á þessum tíma var Lárus Welding. Staðfestingar skyldi veita annars vegar 1. júlí 2008 og hins vegar 1. október 2008 á því að sóknaraðili stæðist umræddar væntingar. Fyrir liggur að þáverandi forstjóri varnaraðila veitti fyrri staðfestinguna 9. júlí 2008 en þá síðari 1. október 2008. Samkvæmt 1. mgr. sömu greinar ráðningarsamningsins skyldi greiða kaupauka ársins 2008 þann 1. mars árið eftir. Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á að framangreint ákvæði ráðningarsamningsins sé af einhverjum ástæðum óskuldbindandi eða að horfa beri framhjá staðfestingum forstjóra varnaraðila. Með því að staðfesta umræddar kaupaukagreiðslur stofnaði forstjóri varnaraðila til greiðsluskyldu vegna kaupaukans þó ákvæði fyrrnefndar 1. mgr. greinar 6.3. í ráðningarsamningnum bendi til þess að gjalddagi greiðslunnar hafi átt að vera 1. mars 2009. Eru ekki forsendur til annars í máli þessu en að fallast á með sóknaraðila að hann eigi ofangreinda kröfu á hendur varnaraðila.
Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að sóknaraðili hafi tekið orlof eftir að hann hóf störf hjá varnaraðila og eru því ekki skilyrði til annars en að fallast á með sóknaraðila að hann eigi kröfu til greiðslu þeirra 10 orlofsdaga sem mælt er fyrir um í grein 7.2 í ráðningarsamningi. Er enda gert ráð fyrir því í grein 7.4 í samningnum að áunnið ótekið orlof skuli reiknað til peningagreiðslu við starfslok með tiltekinni hlutfallstölu. Í kröfulýsingu er krafist 9.614 bandaríkjadala vegna umræddra 10 orlofsdaga. Varnaraðili hefur ekki haft uppi sérstök andmæli við þeirri fjárhæð og er því ekki efni til annars en að taka hana til greina.
Greiðslur vegna húsnæðiskostnaðar og vegna skólagöngu barna byggjast á skýru ákvæði í ráðningarsamningi og eru ekki efni til annars en að fallast á með sóknaraðila að umræddar greiðslur feli í sér endurgjald fyrir vinnu hans í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Engum vafa veldur að krafa sóknaraðila um greiðslu vegna ótekins orlofs nýtur stöðu samkvæmt 3. tl. sama lagaákvæðis.
Liggur þá fyrir að skera úr um það hvort krafa sóknaraðila um greiðslu kaupauka að fjárhæð 1.000.000 bandaríkjadala teljist forgangskrafa eins og hann krefst eða að henni verði skipað í flokk almennra krafna eins og varnaraðili byggir á að rétt sé að gera. Af framburði þáverandi forstjóra varnaraðila fyrir dómi liggur fyrir að sóknaraðili var ráðinn til starfa vegna sérþekkingar sem forstjórinn taldi hann hafa sem hentaði til að takast á við aðkallandi og brýn verkefni sem lutu að skammtímafjármögnun varnaraðila. Hafi ákvæði um staðfestingu forstjórans á árangri sóknaraðila verið sett inn í samninginn til öryggis þar sem ekki hafi verið bein reynsla af störfum hans innan bankans. Bar forstjórinn um það að sóknaraðili hefði staðið fyllilega undir væntingum og sá árangur hafi náðst með störfum hans sem að hafi verið stefnt.
Kaupaukagreiðsla sóknaraðila var tilgreind með tiltekinni lágmarksfjárhæð í ráðningarsamningi hans. Einnig var tilgreint að hún kæmi aðeins til ef forstjóri varnaraðila staðfesti að frammistaða sóknaraðila hafi staðist þær væntingar sem til hans voru gerðar. Í samningnum var tiltekið hvenær þetta skyldi gert og var síðari dagsetningin 1. október 2008 en þá hafði sóknaraðili aðeins unnið hjá varnaraðila í fjóra mánuði samkvæmt ráðningarsamningi. Hvað sem síðastnefndri staðreynd líður var greiðsluskylda vegna kaupaukans staðfest af forstjóra á fyrirfram ákveðnum dögum og verður ekki annað séð en að forsendur sem byggja átti á við mat forstjórans hafi eingöngu lotið að hæfni sóknaraðila og árangri í starfi. Þegar sóknaraðili hafði staðist það mat ákvað forstjóri varnaraðila honum umrædda launagreiðslu. Með vísan til framangreindra atriða þykja engin efni til annars en að líta á kaupauka þennan sem endurgjald fyrir vinnu sóknaraðila. Var krafan orðin til og vinna sú sem var grundvöllur staðfestingar forstjóra varnaraðila þegar unnin þegar sóknaraðila var sagt upp störfum í lok október 2008. Verður því að líta svo á að umrædd krafa sé endurgjald fyrir vinnu í þágu varnaraðila og njóti stöðu samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina.
Varnaraðili telur dráttavaxtakröfu sóknaraðila vanreifaða og krefst þess að henni verði hafnað þegar af þeirri ástæðu. Sóknaraðili kveður kröfu um dráttarvexti hafa verið rangt reiknaða þegar kröfunni hafi verið lýst en hefur lagt fram útreikning á sérstöku dómskjali þar sem greindar eru tilteknar höfuðstólsfjárhæðir og tilgreind vaxtatímabil og fjárhæð dráttarvaxta vegna hverrar fjárhæðar fyrir sig. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 372/2011 og að teknu tilliti til þess að dráttarvaxtakröfur eru einfaldar og byggja einfaldlega á viðurkenndum gjalddögum og fjárhæðum, má líta svo á að viðurkenningarkrafa sóknaraðila um dráttarvexti að fjárhæð 21.193 bandaríkjadalir sé sett fram á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Má sjá af útreikningi sem hann hefur lagt fram í málinu að dráttarvextir af 1.000.000 bandaríkjadala frá 1. mars 2009 til 22. apríl sama ár nema 34.833 bandaríkjadölum sem er hærri fjárhæð en sóknaraðili krefst. Er því ekki varhugavert að fallast á viðurkenningu á kröfu hans um dráttarvexti og verður hún ekki talin vanreifuð þó henni sé vanlýst. Umrædd krafa nýtur sömu stöðu í réttindaröð eins og sá höfuðstóll sem er grundvöllur kröfunnar.
Í máli þessu eru því samkvæmt því sem að framan greinir viðurkenndar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð samtals 1.088.047 bandaríkjadalir og þykir rétt í samræmi við ákvæði 3. mgr. 99. gr. laga 21/1991 að umreikna kröfu sóknaraðila til íslenskra króna miðað við gengi bandaríkjadals 22. apríl 2009 sem var 130,71 króna. Verður krafa sóknaraðila því viðurkennd að fjárhæð 142.218.623 krónur og nýtur krafan stöðu í skuldaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila.
Með hliðsjón af málsúrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með hliðsjón af umfangi málsins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts 627.500 krónur.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist nokkuð fram yfir þann frest sem þar er mælt fyrir um vegna embættisanna dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Sigurgeirs Arnar Jónssonar, að fjárhæð 142.218.623 krónur er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila Glitnis banka hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 627.500 krónur í málskostnað.