Hæstiréttur íslands
Mál nr. 434/2003
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Vis major
|
|
Fimmtudaginn 1.apríl 2004. |
|
Nr. 434/2003. |
Helgi Hermannsson (Jónas Haraldsson hrl.) gegn Festi ehf. og gagnsök (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Vis major.
H var stýrimaður á fjölveiðiskipinu G í eigu F. Þegar skipið fórst við strendur Noregs var H hins vegar staddur í reglubundnu fríi á Íslandi. Taldi F að þar sem H hefði ekki verið staddur erlendis þegar skipið fórst teldist ráðningarsamningi hans ekki slitið erlendis eins og áskilið var í þágildandi 3. mgr. 26. gr. laga nr. 35/1985. Fékk H því ekki greidd laun eftir skipsskaðann. Talið var að skiprúmssamningi H og F hafi verið slitið við það að skipið sökk við strendur Noregs og að eðlileg skýring 3. mgr. 26. gr. laga nr. 35/1985 væri að samningnum hafi verið slitið erlendis gagnvart þeim skipverjum sem ráðnir hafi verið á skipið, þar á meðal H. Var því fallist á að H ætti rétt á greiðslu kauptryggingar í tvo mánuði en kröfu hans um að miða skyldi við meðallaun hans á tilteknu tímabili fyrir skipsskaðann var hafnað. Sjá einnig dóm í máli nr. 435/2003.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. nóvember 2003 og krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér 2.812.357 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júní 2003 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 6. janúar 2004 og krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málavextir eru raktir í héraðsdómi og eru þeir ágreiningslausir.
Aðilar deila í fyrsta lagi um það, hvort aðaláfrýjandi, sem var stýrimaður á fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE 15 en í fríi heima á Íslandi þegar skipið sökk við Leksnes í Noregi í lok veiðiferðar 19. júní 2002, eigi rétt til launa samkvæmt 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Verði svo talið, deila aðilar í öðru lagi um hver laun hans skuli vera.
Í 1. mgr. 26. gr. sjómannalaga er um það fjallað að skiprúmssamningi sé slitið af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem ef skip ferst eða verður fyrir sjótjóni og dæmt óbætandi. Í 3. mgr. sömu greinar segir að verði skiprúmssamningi slitið erlendis af þessum ástæðum eigi skipverji rétt til launa á meðan hann er atvinnulaus af þessum sökum, þó ekki lengur en í tvo mánuði ef hann er stýrimaður.
Á skipinu var svokallað skiptimannakerfi og milli aðila ráðningarsamningur þess efnis að aðaláfrýjandi væri stýrimaður á skipinu í tveimur veiðiferðum en í fríi þá þriðju. Hann var því ráðinn skipverji í skilningi 5. gr. og 6. gr. sjómannalaga og einnig í skilningi 3. mgr. 26. gr. laganna. Málsaðila greinir á hvort ráðningarsamningnum hafi verið slitið erlendis eins og þar greinir. Heldur gagnáfrýjandi því fram að skipverjinn þurfi að vera þar staddur á grundvelli ráðningarsamningsins til þess að njóta réttarins.
Skiprúmssamningi aðila var slitið við það að skipið sökk. Það gerðist við strönd Noregs. Eðlileg skýring 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga er að samningnum hafi verið slitið erlendis gagnvart þeim skipverjum sem ráðnir voru, þar á meðal aðaláfrýjanda. Ber að þessu athuguðu en annars með vísan til forsendna héraðsdóms að staðfesta hann.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. október 2003.
Mál þetta var þingfest 19. mars 2003 og tekið til dóms 2. október sl. Stefnandi er Helgi Hermannsson, [kt.], Heiðarbraut 1c, Keflavík en stefndi er Festi ehf., [kt.], Flatahrauni 5a, Hafnarfirði.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.812.357 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 20. júní 2003 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
I.
Málavextir eru óumdeildir. Stefnandi réði sig á fjölveiðiskipið Guðrúnu Gísladóttur KE 15 í júlí 2001 sem 2. stýrimaður og sem 1. stýrimaður í afleysingum. Skipið hóf síldveiðar 17. nóvember 2001 og var aflinn frystur um borð og honum aðallega landað í Noregi.
Á skipinu var svokallað skiptimannakerfi, þannig að hluti skipverja skipsins var um borð, en hluti í fríi, í svokölluðum frítúr. Skipið landaði í Leksnes í Noregi þann 6. júní 2002 og fór stefnandi þá af skipinu í frítúr. Skipið fór að því búnu strax á veiðar aftur en þann 18. júní 2002 steytti skipið á skeri er það var að koma úr veiðiferð og var á leiðinni til löndunar í Leksnes. Sat skipið fyrsta daginn fast á skerinu en sökk daginn eftir þann 19. júní 2002.
Stefndi greiddi áhöfn skipsins aflahlut vegna þessarar síðustu veiðiferðar. Þá greiddi hann einnig áhöfn skipsins, þ.e. þeim er voru um borð er skipið strandaði, kauptryggingu í einn eða tvo mánuði eftir stöðu viðkomandi, sbr. 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þeir sem voru í frítúr fengu hins vegar ekki greitt frekar.
II.
Stefnandi telur sig tilneyddan til þess að höfða mál þetta þar sem stefndi hafi hvorki fallist á að greiða áhöfn skipsins meðallaun þann tíma sem sjómannalögin segja til um, sbr. 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga, né að greiða nokkur laun yfir höfuð til þeirra skipverja sem voru í fríi er skipið fórst.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi verið ráðinn á skip stefnda sem stýrimaður til óákveðins tíma. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sjómannalaga sé skiprúmssamningi slitið ef skip ferst. Guðrún Gísladóttir KE 15 hafi farist 19. júní 2002 við Noregsströnd og af þeim ástæðum hafi ráðningu stefnanda lokið þann dag og sé ekki um það deilt.
Í 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga segi að verði skiprúmssamningi slitið erlendis af þeim ástæðum að skip ferst, sbr. 1. mgr., eigi skipverji rétt til launa á meðan hann sé atvinnulaus af þeim sökum, þó ekki lengur en í tvo mánuði frá ráðningarslitum, ef hann sé stýrimaður, vélstjóri, bryti eða loftskeytamaður, en í einn mánuð frá sama tíma, ef hann gegni annarri stöðu á skipi. Stefnandi hafi verið ráðinn sem stýrimaður á skipið og eigi því rétt á launum í tvo mánuði. Hann hafi orðið atvinnulaus í kjölfar skipsskaðans og ekki fengið annað starf, hvorki á öðru skipi né annars staðar á þessu tveggja mánaða tímabili.
Ágreiningur aðila snúist því um það annars vegar hvort stefnandi eigi rétt á launum yfir höfuð þar sem hann hafi verið í frítúr er skipið fórst og hins vegar um það hvaða laun stefnandi eigi rétt á að fá greidd á þessu tveggja mánaða tímabili, þ.e. lágmarkslaun, kauptryggingu eða meðallaun miðuð við aflareynslu undanfarinna mánaða eins og stefnandi haldi fram.
Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á launum eins og aðrir skipverjar sem hafi verið í áhöfn skipsins er það fórst. Stefnandi hafi verið í ráðningarsambandi við útgerðina enda þótt hann hafi verið í fríi í umræddri ferð. Engu máli skipti þó að skipverji sé í frítúr, veikur eða slasaður í landi.
Rétt sinn til meðallauna byggir stefnandi á dómum Hæstaréttar og vísar til eftirfarandi dóma: Hrd. 1988/518, mál nr. 326/2000, mál nr. 186/2001, mál nr. 197/2001, mál nr. 457/2001, mál nr. 135/2002, mál nr. 292/2002, mál nr. 319/2002 og mál nr. 342/2002. Í öllum þessum dómum Hæstaréttar komi fram að miða skuli við meðallaun í uppsagnarfresti en ekki eingöngu lágmarkslaun eins og stefndi haldi fram. Miða eigi við aflareynslu síðustu mánaða þannig að fundin verði út heildarlaun stefnanda síðustu mánaða, deilt í með lögskráningardögum hans og þannig fundin út meðallaun fyrir hvern lögskráningardag. Miðar stefnandi við tekjur sínar tímabilið frá 17. nóvember 2001 uns skipið fórst 19. júní 2002 eða u.þ.b. sjö mánaða tímabil.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar á eftirfarandi hátt: Launatekjur stefnanda tímabilið 17. nóvember 2001 til 19. júní 2002 voru samtals 5.936.857 krónur. Lögskráningardagar á þessu tímabili voru 151. Meðaltekjur hvern lögskráningardag voru því 39.316 krónur x 60 dagar = 2.358.960 krónur. Við þessa tölu bætist fæðispeningar, 888 krónur x 60 eða 53.280 krónur. Samtals 2.412.240 krónur. Við það bætist 10,17% orlof eða 245.325 krónur auk 6% hluta atvinnurekenda í lífeyrissjóði af 2.358.960 krónum eða 154.792 krónur. Samtals 2.812.357 krónur. Þar sem stefndi hafi ekki greitt stefnanda nein laun eftir að skipið fórst sé stefnukrafa stefnanda því 2.812.357 krónur.
III.
Stefndi heldur því fram að það sé grundvallarregla í kröfurétti að aðilar samningssambands verði hvor um sig að bera ábyrgð á því ef ekki reynist unnt að efna samning vegna óviðráðanlegra ytri atvika. Í slíkum tilfellum falli niður gagnkvæm efndaskylda aðila án réttar til bóta. Þessi grundvallarregla gildi einnig í vinnurétti og leiði hún til þess að vinnuskylda launþegans falli niður og réttur hans til launa ef aðilar vinnusambands geta ekki uppfyllt vinnuskyldu sína vegna óviðráðanlegra atvika, sbr. til dæmis 3. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla. Réttur stefnanda til launa hafi fallið niður er skipið steytti á skeri 19. júní 2002. Þetta atvik falli undir tilvikið ,,óviðráðanleg ytri atvik “ eða ,,force majeure“ og því geti stefnandi ekki fellt á stefnda ábyrgð á því að hann missi rétt til launa. Með 26. gr. laga nr. 35/1985 sé staðfest að skiprúmssamningur falli sjálfkrafa niður á þeim tímapunkti er skip ferst. Á sama tíma falli niður réttur aðila til þess að hafa uppi kröfur á grundvelli ráðningarsambands aðila.
Í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 35/1985 sé kveðið á um undantekningu frá ofangreindri meginreglu. Þessi undantekning sé bundin við að skiprúmssamningi sé slitið erlendis. Telur stefnandi skýringuna þá að skipverji sem lent hafi í skipsskaða erlendis hafi þurft meiri tíma til þess að komast aftur heim landsins og finna sér vinnu á ný.
Þetta eigi ekki við í tilfelli stefnanda því hann hafi verið í fríi heima hjá sér er skipið fórst. Ákvæði 3. mgr. 26. gr. laga nr. 35/1985 veiti honum því ekki rétt til launa. Forsaga ákvæðisins og athugasemdir með því gefi ekki tilefni til að skýra ákvæði með þeim hætti sem stefnandi byggi á. Þá rúmist slík skýring ekki innan orðalags ákvæðisins. Þessu til staðfestingar vísar stefndi einnig til þeirrar breytingar sem gerð hafi verið á 3. mgr. 26. gr. með lögum nr. 59/2003 frá 15. mars 2003. Með þeirri breytingu hafi verið ætlað að koma til móts við sjónarmið þau er stefnandi setji nú fram í þessu máli.
Ákvæði 26. gr. sjómannalaga um rétt skipverja til launa eftir að skip sekkur feli í sér frávik frá meginreglum kröfu- og vinnuréttar um réttaráhrif ,,force majeure“ atvika og leggi íþyngjandi skyldur á herðar útgerða. Ákvæðið feli einnig í sér frávik frá réttarstöðu annarra vinnuveitenda og launþega, sbr. til dæmis 3. gr. laga nr. 19/1979. Með því séu sérstakar skyldur lagðar á herðar útgerða hér á landi umfram aðra vinnuveitendur. Ákvæði sem leggi sérstakar og íþyngjandi byrðar á aðila verði samkvæmt meginreglu um lögskýringar að skýra þröngt.
Verði talið að stefnandi eigi rétt til launa samkvæmt 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga byggir stefndi á því að stefnandi eigi aðeins rétt til launa samkvæmt kjarasamningi á milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna en eigi ekki rétt til launa miðað við aflareynslu síðustu mánaða. Réttur til aflahlutar samkvæmt kjarasamningi aðila sé algjörlega bundið við það skilyrði að afla sé landað og hann seldur, sbr. ákvæði 1.01-1.07 sem og sérákvæði um skiptakjör vegna einstakra veiða í köflum II - XII í kjarasamningi.
Stefndi telur ljóst að réttur stefnanda til launa samkvæmt kjarasamningi aðila takmarkist við kauptryggingu eða tímakaup. Stefndi hafi í uppgjöri til skipverja miðað við kauptryggingu enda telji stefndi það rétta viðmiðun. Kauptrygging í einn mánuð sé hærri en tímakaup á mánuði miðað við 40 stunda vinnuviku. Samkvæmt framlagðri kaupskrá sé mánaðarleg kauptrygging stefnanda 153.580 krónur auk orlofs 10,17% eða 169.199 krónur á mánuði. Krafa stefnanda um tveggja mánaða kauptryggingu geti því hæst numið 338.398 krónum.
Í kjarasamningi aðila sé að finna ýmis ákvæði um greiðslu til skipverja vegna tafa eða stöðvunar á útgerð. Í þessum ákvæðum sé ávallt gert ráð fyrir að greitt sé annað hvort tímakaup eða kauptrygging. Ekki sé hægt að fallast á að réttur til launa skuli vera meiri eða rýmri ef að skip ferst.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að fordæmi séu í dómum Hæstaréttar. Þau sjónarmið er þar komi fram eigi ekki við í þessu máli.
Þá mótmælir stefndi útreikningum stefnanda á meðallaunum stefnanda. Stefnandi hafi farið í tvær veiðiferðir en verið í fríi þá þriðju. Vilji stefnandi finna út meðallaun á mánuði eða meðallaun á dag verði hann að deila tekjum sínum á alla daga ársins að teknu tilliti til skiptakerfis og almennra fría. Kröfu stefnanda um fæðispeninga og orlof ofan á reiknuð meðallaun sé einnig mótmælt enda séu þessir liðir þegar inni í meðaltalinu og því tvítaldir hjá stefnanda. Kröfu stefnanda um greiðslu á 6% aukatillagi vegna lífeyrisréttinda er mótmælt enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum eða sýnt fram á það hvernig hann hafi eignast kröfu lífeyrissjóðs sjómanna.
IV.
Fjölveiðiskipið Guðrún Gísladóttir KE 15 steytti á skeri við Noregsströnd 18. júní 2002 og sökk daginn eftir. Stefndi var 2. stýrimaður á skipinu samkvæmt munnlegum ráðningarsamningi. Hann var þó ekki um borð er slysið varð heldur í svokölluðum frítúr en samkvæmt skiptimannakerfi um borð fór hluti áhafnar í veiðiferð á meðan hluti áhafnar var í fríi.
Ágreiningur aðila snýst um túlkun á þágildandi ákvæði 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 um það álitaefni hvaða kaup skuli greiða ef skip ferst. Er deilt um hvort stefnanda beri laun yfir höfuð í tvo mánuði eftir slysið, og ef svo er, hvort honum beri þá lágmarkslaun, kauptrygging, eða svokölluð meðallaun miðuð við aflareynslu skipsins mánuðina á undan.
Varðandi fyrra álitaefnið, hvort stefnanda beri laun yfir höfuð, eru varnir stefnda þær að stefnandi hafi verið í fríi heima á Íslandi er skipið fórst. Hann eigi því ekki rétt á launum samkvæmt þágildandi ákvæðum 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Af þessu tilefni þykir rétt að rekja forsögu þessa ákvæðis sem fjallar um launakjör sjómanna er skip ferst. Í 2. mgr. 96. gr. siglingalaga nr. 63/1913 segir: ,,Farist skip eða það meiðist og er dæmt óbætandi, eða það er hernumið og gert upptækt, eða sjóræningjar taka það er ráðning skipshafnar slitið, enda tekur hún þá ekki kaup. Ef skip ferst, er þó skipshöfn skylt, gegn hæfilegri þóknun, að taka þátt í björguninni og má ekki fara burt fyrr en sjóferðaskýrsla er gefin.“
Í sjómannalögum nr. 41/1930 segir í 1. mgr. 41. gr.: ,,Farist skip, eða verði það fyrir sjótjóni og sé dæmt óbætandi eða verði af óviðráðanlegum ástæðum tekið úr þjónustu útgerðarmanna um ófyrirsjáanlegan tíma, er skipsrúmssamningi slitið, nema öðruvísi sé um samið.“ Í 3. mgr. 41. gr. segir að ef skipsrúmssamningi sé slitið erlendis af þessum sökum eigi skipverji rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til heimilis síns hér á landi og greiðist sá kostnaður úr ríkissjóði. Síðan segir í 4. mgr.: ,,Auk kaups þess, er skipverji á rétt á samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar, á hann rétt á kaupi á meðan hann er á heimleið, þó eigi fyrir lengri tíma en tvo mánuði, sé hann stýrimaður, vélstjóri eða loftskeytamaður, og eigi fyrir lengri tíma en einn mánuð, sé hann í lægri stöðu á skipinu.“
Með sjómannalögum nr. 67/1963 er þessu ákvæði ekki breytt efnislega sbr. 41. gr. þeirra laga.
Núgildandi lög nr. 35/1985 eru efnislega óbreytt varðandi ofangreind atriði að öðru leyti en því að nú á skipverji rétt á launum í ákveðinn tíma á meðan hann er atvinnulaus en ekki meðan á heimleið stendur eins og áður gilti, sbr. 3. mgr. 26. gr.: ,,Verði skipsrúmssamningi slitið erlendis af þeim ástæðum sem greinir í 1. mgr. á skipverji rétt til launa á meðan hann er atvinnulaus af þessum sökum, þó ekki lengur en í tvo mánuði frá ráðningarslitum ef hann er stýrimaður, vélstjóri, bryti eða loftskeytamaður, en í einn mánuð frá sama tíma ef hann gegnir annarri stöðu á skipi.“
Því má svo bæta við að þessu ákvæði sjómannalaga var breytt með lögum nr. 59/2003 er tóku gildi 15. mars 2003. Þá er ákvæðinu breytt þannig að fellt er út það skilyrði að skipsskaðinn gerist erlendis. Á skipverji nú rétt til launa í einn mánuð eða tvo eftir stöðu hans á skipinu, burtséð frá því hvort skip ferst erlendis eða hér við land.
Eins og áður sagði byggir stefndi á því að stefnandi eigi ekki rétt til launa þar sem hann var í fríi heima á Íslandi er slysið varð. Þegar forsaga ákvæðisins sé skoðuð sé ljóst að það hafi eingöngu verið sett þeim skipverjum til hagsbóta sem gætu lent í þeirri aðstöðu að vera staddir erlendis er skip þeirra ferst.
Ekki þykir unnt að fallast á þessa túlkun stefnda á ákvæðum 26. gr. laga nr. 35/1985. Verður ekki séð að ákvæði 3. mgr. 26. gr. takmarki rétt þeirra sem ekki eru um borð er skip ferst en eru í ráðningarsambandi við útgerð. Stefnandi var í svokölluðum frítúr er skipið fórst en nú tíðkast að ráða eina og hálfa áhöfn á verksmiðjuskip þar sem þau stoppa stutt í landi eftir hverja veiðiferð og úthald er lengra en áður var. Það sem hér þykir skipta máli er að stefnandi var í ráðningarsambandi við stefnda er slysið varð enda þótt hann væri í fríi í umræddri veiðiferð. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. var ráðningarsamningi hans, eins og annarra áhafnarmeðlima, slitið er skipið fórst. Stöðu stefnanda verður því jafnað við stöðu þeirra skipverja sem voru um borð er skipið fórst. Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi því eiga rétt á launum samkvæmt 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga í tvo mánuði.
Deilt er um hvort stefnanda beri laun fyrir þennan tíma samkvæmt ákvæðum kjarasamnings aðila um kauptryggingu eða hvort honum beri svokölluð meðallaun er taki mið af aflareynslu skipsins mánuðina á undan. Krafa stefnanda er um meðallaun og hefur stefnandi vísað til nokkurra Hæstaréttardóma máli sínu til stuðnings. Telur hann þessa dóma hafa fordæmisgildi í þessu máli.
Í þeim málum er stefnandi vísar til voru atvik með þeim hætti að útgerð lagði skipi og greiddi skipverjum kauptryggingu í uppsagnarfresti. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að greiða ætti meðallaun í uppsagnarfresti, laun er tækju mið af aflahlut mánuðina á undan. Í þessu máli eru atvik með öðrum hætti og verður ekki talið að tilvitnaðir dómar hafi fordæmisgildi í þessu máli. Stefndi átti þess ekki kost að haga ráðstöfunum sínum þannig að starfslok stefnanda féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins heldur leiddi ófyrirsjáanlegt atvik til þess að útgerð skipsins Guðrúnar Gísladóttur var hætt, atvik er stefndi verður ekki talinn bera ábyrgð á. Er því ekki unnt að fallast á með stefnanda að hann eigi rétt á meðallaunum er taki mið af aflahlut síðustu mánaða.
Niðurstaða málsins verður því sú að stefnandi verður talinn eiga rétt á kauptryggingu í tvo mánuði samkvæmt grein 1.09 í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Samkvæmt framlagðri kaupskrá er mánaðarleg kauptrygging stefnanda 153.580 krónur auk orlofs 10,17% eða samtals 169.199 krónur á mánuði. Verður stefndi því dæmdur til þess að greiða tvöfalda þá fjárhæð eða 338.398 krónur með dráttarvöxtum frá 20. júní 2003 til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður á milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Festi ehf., greiði stefnanda, Helga Hermannssyni, 338.398 krónur með dráttarvöxtum frá 20. júní 2003 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.