Hæstiréttur íslands
Mál nr. 742/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Húsleit
|
|
Þriðjudaginn 3. nóvember 2015. |
|
Nr. 742/2015.
|
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum (Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri) gegn X (enginn) |
Kærumál. Húsleit.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að synja um heimild til húsleitar á heimili X þar sem ekki hafði verið sýnt fram á að rökstuddur grunur væri um að X hefði framið brot sem sætt gæti ákæru.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. október 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til húsleitar á lögheimili varnaraðila að [...] í [...]. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fallist verði á kröfu hans eins og hún er fram sett.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. október 2015.
Með bréfi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dagsettu 29. október 2015, er þess krafist að heimilað verði að leit fari fram á heimili X, kt. [...], [...] [...], [...]. [...]-[...] og [...] [...]-. Einnig er þess krafist að heimildin nái til læstra hirslna og geymsla á heimili kærða. Samkvæmt gögnum málsins er fasteignin [...] í eigu kærða.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að tilefni máls þessa sé frétt [...] þann [...] sl., þess efnis að ónefndur maður hafi ljósmyndað táningsstúlkur [...] án þeirrar vitundar, en lögreglu hafi borist upplýsingar um að þar hafi verið að verki kærði, [...]. Þá hafi, eftir að fulltrúi lögreglustjóra skoðaði fésbókarsíðu kærða, vaknað rökstuddur grunur um að kærði hefði undir höndum ólöglegt efni. Á fésbókarsíðu kærða hafi verið að finna mjög mikið magn af ljósmyndum og myndböndum sem sýndu fáklæddar ungar konur í kynferðislegum stellingum, þar á meðal af ungum konum [...]. Þá hafi einnig mátt sjá myndir af ungum konum/stúlkum á gangi og hafi litið svo út sem að þær hafi verið teknar án þeirra vitundar. Hafi tvær þeirra verið nafngreindar. Með vísan til eðli myndanna hafi grunur vaknað um að kærði gæti, eins og áður er rakið, haft undir höndum ólöglegt efni, svo sem barnaklám. Þá segir að þegar lögregla hafi ætlað að taka afrit af myndunum hafi verið búið að fjarlægja allar upplýsingar á fésbókarsíðu kærða, þar á meðal fyrrnefndar myndir og myndbönd.
Lögregla telur miklar líkur á því að kærði hafi undir höndum ólöglegt efni sem sýni konur og börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Rannsókn málsins sé á frumstigi en lögreglu sé nauðsynlegt að fá heimild til húsleitar svo leggja megi hald á tölvubúnað kærða og annan búnað svo rannsókn geti hafist á því hvort að um ólöglegt efni sé að ræða. Til að tryggja rannsóknarhagsmuni og að sakargögnum verði ekki spillt sé lögreglu nauðsynlegt að fá framangreinda heimild. Ætluð brot þyki varða við 210. gr. og 210. gr. a almennrar hegningarlaga nr. 19/1940, og geti þau varðar allt að 2 ára fangelsi.
Lögreglustjóri vísar til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008.
Með kröfu lögreglustjóra fylgdi útprentun af áðurnefndri frétt [...]. Þar kemur fram að á fésbókarsíðunni „[...]“ hafi um nokkur ára skeið verið myndir af stúlkum, líklega á grunnskólaaldri, á leið heim úr skóla. Á mynd af umræddri fésbókarsíðu, sem fylgdi fréttinni, má sjá fjórar myndir af fullklæddum stúlkum, sem virðast teknar úti við. Lögreglustjóri vísar einnig til þess að við skoðun á fésbókarsíðu kærða hafi lögregla séð mikið magn af ljósmyndum og myndböndum sem sýndu fáklæddar ungar konur í kynferðislegum stellingum. Þá vísar lögreglustjóri einnig til mynda af ungum konum/stúlkum á gangi, sem virðast hafa verið teknar án þeirra vitundar, og hafi tvær stúlkur verið nafngreindar. Lögreglustjóri kveður eðli myndanna vera slíkt að grunur sé um að kærði hafi undir höndum ólöglegt efni, svo sem barnaklám.
Samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 eru skilyrði fyrir húsleit í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum o.s.frv., sbr. 1. mgr. 74. gr. laganna, að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.
Eins og rakið er hér að framan telur lögreglustjóri að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 210. gr. og 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu lögreglu sem benda til þess að kærði hafi undir höndum ólöglegt efni, svo sem barnaklám. Að því virtu og málatilbúnaði lögreglu að öðru leyti, er það mat dómsins að lögreglustjóri hafi ekki sýnt fram á að rökstuddur grunur leiki á að kærði hafi framið brot sem sætt getur ákæru. Eru því ekki uppfyllt skilyrði 1. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra og verður henni því hafnað.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um húsleit á heimili [...], kt. [...]-[...], [...], er hafnað.