Hæstiréttur íslands

Mál nr. 718/2012


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Fjárslit
  • Kærumál


                                     

Þriðjudaginn 18. desember 2012.

Nr. 718/2012:

 

M

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

K

(Þórður Clausen Þórðarson hrl.)

 

Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar. Tilteknum kröfum M hafði verið vísað frá héraðsdómi án efnislegrar úrlausnar og gat M því ekki haft þær uppi fyrir Hæstarétti. Með vísan til ýmissa atriða varðandi sambúð og fjármál M og K og gagna um framlög hvors þeirra um sig til byggingar fasteignar í þinglýstri eigu M var hafnað kröfu K um hlutdeild hennar í fasteigninni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. nóvember 2012, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum varnaraðila um hlutdeild í eignum sóknaraðila og allar eignir bús sóknaraðila komi í hans hlut við búskiptin. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 1.000.000 krónur vegna muna sem varnaraðili fjarlægði úr fasteigninni A við lok samvistarslita. Ennfremur krefst sóknaraðili að varnaraðili greiði kostnað við fjárslitin. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.   

I

Með dómi Hæstaréttar 23. mars 2012 í máli nr. 147/2012 var leyst úr ágreiningi aðila þessa máls um það hve lengi óvígð sambúð þeirra hafi staðið og hvort skilyrði væru að lögum fyrir því að opinber skipti vegna slita á óvígðri sambúð færu fram. Í dóminum var komist að þeirri niðurstöðu að sambúð hafi varað í sem næst fimm ár og að skilyrði fyrir opinberum skiptum væru uppfyllt.

Samkvæmt hinum kærða úrskurði var vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um að allar eignir bús hans komi í hans hlut við fjárslit milli aðila. Hinu sama gegndi um kröfu sóknaraðila þess efnis að varnaraðili greiði honum 1.000.000 krónur vegna fjárslitanna. Ennfremur var vísað frá dómi kröfum beggja málsaðila um að hinn skuli greiða kostnað við fjárslitin. Samkvæmt því hefur ekki verið leyst efnislega úr framangreindum kröfum í héraði og leiðir af því að sóknaraðili getur enga þeirra haft uppi fyrir Hæstarétti. Er samkvæmt því til úrlausnar í málinu hvernig fari um eignarrétt að fasteigninni A við fjárslitin.

II

Húseignin að A var reist á sambúðartíma málsaðila á lóð, sem skipt var út úr sameiginlegri landareign sóknaraðila og systkina hans. Sóknaraðili kveðst hafa greitt nafngreindum lögmönnum fyrir vinnu við landskiptin og hefur lagt fyrir Hæstarétt tvo reikninga frá þeim því til sönnunar. Þá hafi hann lagt til alla fjármuni sem mannvirkið kostaði en það hafi hann gert með lántökum hjá Íbúðalánasjóði, eigin tekjum og sparnaði sem hafi verið fyrir hendi í óskiptu búi sem hann sat í eftir látna eiginkonu sína. Húsið hafi að öllu leyti verið byggt af verktökum, sem hann hafi samið við um verkið, og greiðslur fyrir það hafi komið frá honum. Þá kveður hann engin fjárframlög hafa komið frá varnaraðila í þágu þessara framkvæmda. Eiginleg eignamyndun hafi ekki orðið á sambúðartíma á annan hátt en með ávöxtun fjármuna í fasteigninni, sem þegar voru til í eigu sóknaraðila og annarra erfingja eiginkonu hans. Sóknaraðili er þinglýstur eigandi A.

Sóknaraðili mótmælir jafnframt að óbein framlög varnaraðila, svo sem við heimilisstörf, hafi verið þess háttar að í þeim hafi falist framlag til eignamyndunar. Hann kveður sambúð þeirra hafa hafist þegar bæði voru komin á efri ár. Hann hafi sjálfur dvalist löngum utan heimilisins alla virka daga og stundum einnig um helgar í starfi sínu við brúasmíði eins og hann hafi gert áður en sambúðin hófst. Öll innkaup til heimilisins hafi hann sjálfur greitt utan þess sem varnaraðili hafi eytt í matarkaup í fjarveru hans. Varnaraðili hafi annast þrif á heimilinu, en líta verði til þess að hún hafi stundað hundarækt og jafnan haft fjölda hunda í fasteigninni með óþrifnaði sem slíku fylgi. Vegna mikillar fjarveru hans hafi ekki síst verið í þágu hennar sjálfrar að þrífa húsið. Framlag hennar til heimilisstarfa hafi engin áhrif haft á að hann hafi af þeim sökum verið í betri færum til að afla tekna utan heimilis en ella. Þá hafi vinnuframlag varnaraðila vegna húsbyggingarinnar takmarkast við minni háttar samskipti við aðra og að einhverju leyti við að gera blómabeð við húsið, hvort tveggja án beiðni hans um aðstoð. Starfsorka hennar hafi verið takmörkuð vegna örorku. Ef unnt sé þrátt fyrir allt að líta svo á að óbein framlög varnaraðila hafi leitt til eignamyndunar hafi það fyllilega verið bætt með fjárframlögum hans til hennar, samtals að fjárhæð tæplega 1.700.000 krónum, og endurgjaldslausum afnotum af fasteigninni eftir að hann flutti úr henni við sambúðarslit.

Í úrskurði héraðsdóms er rakið hver framlög varnaraðili telur sig hafa innt af hendi vegna húsbyggingarinnar. Í greinargerð til Hæstaréttar kveðst hún hafa tekið þátt í rekstri heimilisins og húsbyggingunni með tekjum sínum og vinnuframlagi og haft yfirumsjón með framkvæmdunum og annast öll samskipti við verktaka. Þá hafi hún séð um að mála allt húsið að innan, fúaverja það að utan og séð um lóðina og gerð hennar.

III

Við slit sambúðar ber að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla þá talin gilda að hvor þeirra tekur þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar eða eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Þá heldur hvor þeim eignum, sem hann er skráður eigandi að, nema sönnun takist um myndun sameignar. Þinglýsing, sem er opinber tilgreining eignarréttar, veitir líkindi fyrir eignarrétti og sá sem heldur fram að sameign hafi stofnast í sambúðinni ber sönnunarbyrði fyrir því að svo sé. Sóknaraðili er einn þinglýstur eigandi fasteignarinnar A, en hér að framan og í úrskurði héraðsdóms greinir frá fjárframlögum og óefnislegum framlögum, sem krafa varnaraðila er studd við, og hún heldur fram að hafi stuðlað að eignamyndun á sambúðartímanum.

Málsaðilar voru komin á miðjan aldur þegar þau hófu sambúð á árinu 2005. Verkaskipti við rekstur heimilisins virðast hafa verið á þann veg að húsverk hafi hvílt á varnaraðila en bæði lagt fram fé til framfærslu þeirra þótt á milli beri í hvaða mæli varnaraðili tók þátt í því. Ekki verður ráðið að um annað heimilisfólk hafi verið að ræða en þau ein. Aðilar töldu allan tímann fram til skatts hvort fyrir sig. Tekjur sóknaraðila voru verulega hærri öll árin, en tekjur varnaraðila voru frá og með árinu 2007 eingöngu frá lífeyrissjóðum komnar. Ekki er fram komið að um sameiginlega bankareikninga hafi verið að ræða eða fjármál þeirra samtvinnast að öðru leyti en varðar rekstur heimilisins. Sóknaraðili lagði til lóð undir húsið, tók lán fyrir því og greiddi einn af þeim á sambúðartímanum. Varnaraðili hefur engum gögnum stutt þær staðhæfingar sínar að hún hafi lagt til fjárframlög vegna húsbyggingarinnar. Hvað varðar vinnuframlag hennar í þágu framkvæmdanna ber verulega á milli aðila, en eins og málið liggur fyrir hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að það hafi verið svo nokkru nemi með öðrum hætti en þeim sem sóknaraðili heldur fram. Samkvæmt öllu framanröktu verður hafnað þeim málatilbúnaði varnaraðila að hún hafi átt þátt í og eignast hlut í eignaaukningu sóknaraðila með fjárframlögum, störfum á heimili eða vinnuframlagi við húsbygginguna. Samkvæmt því verður hafnað kröfu varnaraðila um hlutdeild í eigninni A.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili dæmd til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

          Við opinber skipti til fjárslita telst sóknaraðili, M, einn vera eigandi fasteignarinnar A.

Varnaraðili, K, greiði sóknaraðila samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðs­dóms Suður­lands 9. nóvember 2012.

Mál þetta sem var þingfest þann 26. júní 2012 barst til dómsins með bréfi Jóhannesar Ásgeirssonar hrl., dags. 6. júní 2012, skiptastjóra í búi aðila, sem var tekið til opinberra skipta með úrskurði dómsins 14. febrúar sl., sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 23. mars 2012 í málinu nr. 147/2012.

Dómkröfur sóknaraðila samkvæmt greinargerð eru aðallega þær að henni verði dæmd helmings hlutdeild (50%) í fasteigninni að A sem sé með fastanúmerið [...], ásamt fylgifé þ.m.t. lóðarréttindum.  Til vara krefst sóknaraðili þess að henni verði dæmdur annar og lægri eignarhlutur í fasteigninni að A ásamt fylgifé þ.m.t. lóðarréttindum.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.  Við aðalmeðferð krafðist sóknaraðili þess jafnframt að úrskurðað verði að skiptakostnaður greiðist af varnaraðila og lagðist varnaraðili ekki gegn því að krafan kæmist að.

Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að kveðinn verði upp úrskurður um að allar eignir bús varnaraðila komi í hans hlut að óskiptu við búskiptin og að skiptakostnaður verði greiddur alfarið af sóknaraðila.  Jafnframt krefst varnaraðili þess að ákveðið verði að sóknaraðili skuli greiða varnaraðila alls kr. 1.000.000 vegna muna sem hún fjarlægði úr fasteigninni A við lok samvista aðila.  Þá er gerð krafa um að ákveðið verði að sóknaraðili skuli aflétta ábyrgð af varnaraðila vegna sjálfskuldarábyrgðar hans á yfirdráttarláni hennar á reikningi nr. [...], í Landsbanka Íslands, nú um kr. 1.400.000.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila skv. reikningi.

Fór aðalmeðferð málsins fram 25. september sl. og var málið tekið til úrskurðar að henni lokinni.  Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Málavextir

Í téðu bréfi skiptastjóra, dags. 6. júní sl., segir að krafist sé þess að héraðsdómur leysi úr ágreiningi við skiptin, skv. 122. gr., sbr. 112. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.  Kemur fram að varnaraðili hafi átt eignir áður en til sambúðar kom snemma á árinu 2005, en sóknaraðili geri ekki kröfu til þeirra og verði þær því ekki tíundaðar frekar í bréfi skiptastjóra.  Í beiðni sóknaraðila og kröfugerð komi fram að hún geri kröfu til eignarhlutdeildar í eignum sem hafi myndast á sambúðartímanum.  Eru þær tilgreindar fasteign að A, Ölfusi, allt innbú að A, en frá dragist áhvílandi veðskuldir á 1. og 2. veðrétti fasteignarinnar að A.  Í hnotskurn snúist ágreiningur aðilanna um kröfu sóknaraðila til viðurkenningar á hlutdeild í eignum sem hún telji að hafi orðið til á sambúðartímanum fyrir tilverknað beggja aðila, en fasteignin að A sé þinglýst eign varnaraðila.

Nánar tiltekið sé umrædd fasteign 156,4 fm íbúð og fasteignamat sé kr. 29.550.000 en verðmat hafi ekki farið fram.  Samkvæmt veðbandayfirliti 31. maí 2012 hvíli tvö veðlán á íbúðinni, bæði frá Íbúðalánasjóði.  Á 1. veðrétti upphaflega að fjárhæð kr. 12.000.000, staða 31. desember 2012 [sic.] kr. 12.704.925 og á 2. veðrétti upphaflega að fjárhæð kr. 5.000.000, staða 31. desember 2012 [ sic.] kr. 5.233.979.  Fasteignin sé þinglýst eign varnaraðila og telji hann sig eiga hana einn og óskipt, en sóknaraðili krefjist þess að viðurkenndur verði allt að 50% eignarhlutur hennar í fasteigninni.  Um innbú segir í bréfi skiptastjóra að ekki verði merkt á kröfugerð aðilanna að ágreiningur sé um innbúið að öðru leyti en því að varnaraðili krefji sóknaraðila um skil á háfi í eldhúsi og baðinnréttingu eða jafnvirði þessara hluta í peningum, kr. 1.000.000.  Telji varnaraðili að hlutir þessir hafi verið skeyttir varanlega við húsið og því óheimilt að fjarlægja þá, auk þess að hann hafi sannanlega greitt fyrir þá.  Fjárhæðin miðist við kaupverð sambærilegra hluta.

Segir í bréfi skiptastjóra að ekki sé um að ræða annan ágreining en að framan greini.

Ekki liggja fyrir í gögnum málsins skýrar upplýsingar um hver hefur verið kostnaður við byggingu hússins. Er heldur ekki upplýst hvert var virði lóðarinnar sem húsið reis á.  Í gögnum málsins er skjal frá GH heildverslun með yfirskriftinni „Tilboð“ um ýmsa muni s.s flísar, innréttingar og ljós að fjárhæð kr. 4.616.088.  Segir að verðið miðist við gengi 1. ágúst 2007 og er skjalið dagsett þann dag, en sent með tölvupóstum sem fylgja og eru dagsettir 28. desember 2010.  Fyrir liggur hins vegar að B ehf. varð gjaldþrota og að skiptum lauk í nóvember 2009.   Fylgir þessu bréf frá C um að þarna sé rétt tilgreint verð og að varnaraðili hafi greitt af því kr. 1.000.000, en sóknaraðili hafi gengið frá eftirstöðvunum, án þess að tekið sé fram hvernig það hafi verið.  Er skjali þessu mótmælt af hálfu varnaraðila sem röngu og ekki hafi verið greitt samkvæmt því heldur reikningi, dags. 5. nóvember 2008, sem liggur einnig fyrir í málinu um kr. 761.000, en ekki eru allir sömu hlutir tilgreindir á skjölunum.  Kveðst varnaraðili hafa greitt þann reikning og liggur fyrir kvittun um það.  Þá liggur fyrir frá varnaraðila yfirlit yfir byggingakostnað, að fjárhæð kr. 15.384.613, sem sagt er ekki tæmandi, en hefur verið vefengt og mótmælt af hálfu sóknaraðila sem rangt og of hátt.  Hefur sóknaraðili m.a. sagt að á yfirliti þessu séu fjárhæðir tvíteknar og vísar t.d. til tveggja greiðslna til D, dags. 29. desember 2008 og 5. janúar 2009, önnur að fjárhæð kr. 509.455 og hin kr. 509.315 og kveður sóknaraðili ljóst að um sé að ræða sömu fjárhæð að viðbættu seðilgjaldi gíróseðils.  Er yfirlitið án fylgiskjala og fylgja t.a.m. hvorki reikningar, bankayfirlit né kvittanir.  Á yfirlitinu kemur ekki fram kaupverð eininganna sem húsið er byggt úr en fyrir liggur samningur milli varnaraðila og E hf. um að varnaraðili kaupi húseiningarnar af félaginu fyrir kr. 9.100.000.  Þá liggur fyrir hreyfingalisti varnaraðila hjá Árvirkjanum ehf. frá 1. janúar 2007 til 3. maí 2010 að fjárhæð kr. 1.902.998, en ekki kemur fram fyrir hvað er þar greitt.  Þá liggur fyrir reikningur frá Steypustöðinni ehf. á varnaraðila, dags. 30. september 2008, að fjárhæð kr. 350.688.  Þá liggur fyrir tölvupóstur frá E hf. um að varnaraðili hafi greitt kr. 9.328.509 til félagsins ýmist með korti eða millifærslu, alls í 5 greiðslum.

Varnaraðili kveðst hafa fjármagnað bygginguna með bankainnistæðum sem hann hafi átt.  Samkvæmt framlögðum skattframtölum varnaraðila voru slíkar eignir í árslok 2002 rúmlega 720.000 kr., ekkert í árslok 2003, tæplega 900.000 kr. í árslok 2004, ekkert í árslok 2005, ekkert í árslok 2006, ekkert í árslok 2007, rúmlega 3,3 milljónir króna í árslok 2008, rúmar 2 milljónir króna í árslok 2009 og á þriðja hundrað þúsund krónur í árslok 2010.  Á sama tíma eru fasteignir varnaraðila skv. skattframtölum metnar á rúmar 11 milljónir króna í árslok 2002, tæplega 12,5 milljónir króna í árslok 2003, rúmar 14 milljónir króna í árslok 2004, rúmar 17 milljónir króna í árslok 2005, rösklega 18,5 milljónir króna í lok árs 2006, ríflega 20,5 milljónir króna í árslok 2007, í árslok 2008 rúmlega 21,5 milljónir króna, í lok árs 2009 ríflega 50 milljónir króna og í árslok 2010 tæplega 44 milljónir króna.

Fyrir liggja í málinu skattframtöl sóknaraðila fyrir tekjuárin 2005 til og með 2010.  Er þar engra eigna getið nema bifreiðar sem hafi verið keypt árið 2010, að frátöldum fáeinum  krónum á bankareikningum árin 2008, 2009 og 2010. 

Sóknaraðili lýsir málavöxtum þannig að hún hafi kynnst varnaraðila á árinu 2001.  Þá hafi hún búið í F og varnaraðili verið tíður helgargestur hjá henni, en auk þess hafi hann eytt frítíma sínum með henni.  Hafi hann þannig verið að miklu leyti í fríu fæði og húsnæði hjá sóknaraðila í nokkur ár.  Hann hafi þá haft lögheimili á G.  Þau hafi hafið sambúð með því að flytja í leiguhúsnæði í H í apríl 2005.  Þá fljótlega hafi þau í sameiningu farið að huga að byggingu nýs húss og framkvæmdir hafist eftir að þau hafi verið flutt í I.  Einbýlishúsið að A hafi verið tilbúið í lok ársins 2008 og þau þá flutt inn og búið þar saman uns varnaraðili hafi farið af heimilinu í september 2010.  Sóknaraðili hafi svo flutt út í janúar 2011 og þá aftur í I.  Aðdragandi þess að sóknaraðili hafi flutt úr A hafi verið sá að varnaraðili hafi krafist leigugreiðslna og í kjölfarið krafist útburðar á sóknaraðila.

Strax við flutning í I hafi verið farið að hefjast handa og hafi sóknaraðili fengið lögmann sinn, Þórð Clausen hrl., til að vinna að skiptingu landsins, sem hafi verið í óskiptri sameign með varnaraðila og systkinum hans, eins og staðfest hafi verið í Héraðsdómi Suðurlands í fyrra máli aðila.  Hafi sóknaraðili alfarið séð um uppgjör við Þórð vegna þeirrar vinnu, sem hafi verið talsverð vinna vegna ósættis milli systkinanna.  Síðan hafi verið sótt um leyfi til byggingarinnar og hafi sóknaraðili séð um það að mestu.  Hafi verið keypt einingahús af E. og kaupverðið verið 9,1 milljón króna.  Hafi þetta verið í ágúst 2008 og til að fjármagna kaupin hafi verið tekin tvö lán hjá Íbúðalánasjóði, annars vegar kr. 5.000.000 og hins vegar kr. 12.000.000.  Samkvæmt yfirliti skiptastjóra hafi þessar áhvílandi skuldir staðið í kr. 17.938.904 miðað við áramótin 2011/2012, en bæði lánin séu með veði í A og þinglýst á eignina.  Verðmat fasteignasala sé um 37 milljónir króna og fasteignamat kr. 29.550.000.

Varnaraðili vísar til greinargerðar sinnar til skiptastjóra og greinargerðar í hinu fyrra máli milli aðila, en gerir ekki sérstaka grein fyrir málavöxtum.

Málsástæður sóknaraðila

Kröfu sína um helmingshlutdeild í umræddri fasteign kveðst sóknaraðili styðja þeim rökum að hún hafi, ásamt varnaraðila, hannað og fullbyggt húsið og innréttað það glæsilega.  Sóknaraðili hafi lagt fram, ásamt varnaraðila, fjármuni, vinnu og innréttingar.  Þannig eigi hún jafnt tilkall til eignamyndunar á sambúðartímanum og varnaraðili, enda hafi blandast saman fjármunir og eignir og úr hafi orðið fjárhagsleg samstaða þeirra.  Umrætt hús hafi verið hannað, fullbyggt og klárað á sambúðartímanum og sé því eignamyndun aðilanna jafnmikil. Tekin hafi verið lán fyrir byggingunni upp á um 17 milljónir króna, en eigið fé í húsinu, sem raunar hafi ekki verið mikið, hafi ýmist verið greitt af sóknar- eða varnaraðila með launatekjum í sameiningu.  Sóknaraðili hafi auk þess lagt fram innréttingar og vinnu umfram varnaraðila, en líkur séu hins vegar til þess að varnaraðili hafi einn séð um að að greiða afborganir af skuldum við Íbúðalánasjóð í einhvern tíma.  Þó séu verðmæti framlags sóknaraðila í formi vinnu og innréttinga líklega meiri en þær afborganir, en látið sitja við að krefjast viðurkenningar á 50% eignarhlutdeildar.  Þá hafi fasteignin hækkað mikið í verði á sambúðartímanum en lítið eða ekki eftir að sambúð lauk.  Hljóti því sóknaraðili að njóta eignaaukningar sem orðið hafi á sambúðartímanum, enda hafi hún bæði lagt fram fé og önnur verðmæti.  Annað væri rangt og ósanngjarnt.  Engin gögn hafi verið lögð fram um það af hálfu varnaraðila að hann hafi nýtt fjármuni úr óskiptu búi sínu og látinnar eiginkonu sinnar til að fjármagna bygginguna.  Þvert á móti liggi það fyrir að fasteignin hafi að mestu verið fjármögnuð með framangreindum tveimur lánum frá Íbúðalánasjóði sem hafi nánast dekkað greiðslur fyrir húsið.  Er tekið fram í málsástæðum sóknaraðila að gangi kröfur hennar eftir sé gert ráð fyrir að skuldir verði yfirteknar í sömu hlutföllum.

Vísar sóknaraðili til þess að hún hafi haft ásættanlegar tekjur í formi örorkubóta allan sambúðartímann og þó að varnaraðili hafi að mestu haft hærri tekjur þá hafi tekjur hennar verið allnokkrar og stöðugar og hafi hún greitt kostnað heimilisins til jafns við varnaraðila meðan sambúðin hafi varað.  Hafi tekjur sóknaraðila á árunum 2005 – 2010 skv. skattframtölum verið kr. 14.954.081 en varnaraðila á sama tímabili kr. 27.770.063.  Sé því ekki rétt sem haldið hafi verið fram af hálfu varnaraðila að tekjur sóknaraðila hafi verið óverulegar, en þvert á móti hafi tekjur hennar verið all nokkrar og hafi hún auk þess haft tíma til þess á daginn að sinna öðrum verkefnum við uppbyggingu fasteignarinnar meðan varnaraðili hafi stundað sína vinnu. 

Þá kveðst sóknaraðili hafa séð um ýmis verkefni, þ. á m. að fjármagna vinnu lögmanns við að skipta landinu sem A var byggður á, séð um ýmsa undirbúningsvinnu vegna húsbyggingarinnar, sótt um bætur vegna Suðurlandsskjálftans, unnið við uppslátt hússins og málningu, sem og hönnun, teikningu og framkvæmdir vegna garðs sem leitt hafi til mikillar verðmætaaukningar á eigninni.  Hafi þetta allt verið staðfest í hinu fyrra máli milli aðila, en jafnframt sé þetta staðfest af framkvæmdastjóra E hf.  Þá hafi sóknaraðili séð um öll húsverk allan sambúðartímann.

Þá vísar sóknaraðili til þess að vegna vörukaupa hjá B, sem hafi verið vegna innréttinga, gólfefna, tækja, flísa og o.fl. sem keypt hafi verið í húsið, hafi varnaraðili aðeins þurft að greiða kr. 10.000.000 og tæplega það, en hún hafi séð um mismuninn en reikningurinn hafi verið að fjárhæð kr. 4.616.088, en auk þessa hafi hún lagt til gufugleypi og baðinnréttingu að verðmæti um kr. 200.000.  Hafi hún þannig lagt til megnið af innréttingum og megi ekki vænta þess að það hefði hún gert ef hún hefði ekki talið þetta vera framtíðarheimili sitt og í eigu hennar ásamt varnaraðila.

Fasteignin sé að öllu leyti skráð sem eign varnaraðila, en fordæmi séu fyrir því að í sambúð geti sambúðaraðilar eignast hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma, jafnvel þótt eign sé aðeins skráð á annan sambúðaraðilann með formlegum hætti.  Við mat á því þurfi að kanna framlag hvors fyrir sig til sameiginlegs heimilis, vinnu, lengd sambúðartíma, fjárhagslega samstöðu og sameiginleg not af eignum og tekjum aðila.  Sóknaraðili hafi lagt fram tekjur sínar og önnur verðmæti eins og að framan greini.  Sambúðartími sé langur og hafi aðilar búið saman sem hjón væru frá 2005 og til 2010, en áður hafi þau verið saman allt frá 2001.  Þá sé mikið atriði að öll eignamyndunin hafi átt sér stað eftir að aðilar málsins hafi farið að búa saman og hafi henni verið lokið áður en fjárslit hafi átt sér stað milli þeirra, en til þess hafi verið litið í dómum Hæstaréttar hvaða eignir hafi orðið fullbúnar á sambúðartíma og skipti máli að eign verði til frá grunni og verði fullbúin á sambúðartímanum.

Þá hafnar sóknaraðili því að henni beri að skila háfi, eða gufugleypi, og baðinnréttingu, eða greiða ella kr. 1.000.000, en fyrir liggi að þessir hlutir hafi verið í hennar eigu.

Varakröfu sína kveðst sóknaraðili byggja á sömu rökum.

Vísar sóknaraðili til meginreglna um fjárskipti við sambúðarslit og dómaframkvæmdar, sem og til grundvallarreglna á sviði eigna- og kröfuréttar.  Þá vísar sóknaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 vegna málskostnaðarkröfu sinnar, en krafa um virðisaukaskatt á málsflutningsþóknun er studd vísun til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi verið í óskiptu búi þegar samband aðila hófst.  Allar eignir hans, þegar samband aðila hófst, megi því rekja til hins sameiginlega fjárfélags með látinni eiginkonu hans og eigi börn þeirra erfðarétt gagnvart eignunum.  Meðan samband aðila hafi staðið hafi aðeins orðið sú breyting á samsetningu eigna varnaraðila að hann hafi nýtt sparifé sem hann hafi átt eftir eiginkonu sína, sem og lántöku, til að byggja margnefnt hús að A, á landi sem hann hafi átt í óskiptri sameign með systkinum sínum, en meginhluti landsins sé enn í óskiptri sameign.

Eignir bús varnaraðila séu fasteignin að A með áhvílandi veðskuldum sem nú séu um 19.000.000 kr., að hluta í vanskilum, land í A í óskiptri sameign með systkinum varnaraðila og íbúð að J, en báðar síðasttöldu eignirnar hafi varnaraðili átt löngu áður en hann kynntist sóknaraðila.

Meðan á sambandi aðila hafi staðið þá hafi varnaraðili verið útivinnandi með ágætar tekjur eins og sjáist á skattframtölum hans og hafi hann fjármagnað byggingu A, m.a. með þeim tekjum.  Hann hafi greitt allan heimiliskostnað og ýmsan sérkostnað sóknaraðila meðan þau hafi búið saman, en hún ekki lagt neitt fé til heimilisins á sama tíma, hvorki til rekstrar heimilisins né heldur byggingarkostnaðar.

Aðilar hafi verið komin á efri ár þegar samband þeirra hafi hafist og þau ekki átt nein börn saman og því sameiginlegt heimilishald í lágmarki, enda varnaraðili mikið fjarverandi vegna vinnu sinnar.  Mótmælir varnaraðili því sérstaklega að hann hafi einhvern tíma verið á framfæri sóknaraðila, enda hafi hann alltaf greitt allan matarkostnað og annan kostnað fyrir sjálfan sig.  Aldrei hafi verið sameiginlegt fjárfélag með aðilum s.s. sameiginlegir bankareikningar eða annað, en þau hafi t.a.m. alltaf talið fram til skatts hvort í sínu lagi.

Kröfur varnaraðila byggist á því að hann eigi allar eignir sem hann sé skráður fyrir að óskiptu, en ekki í sameign með sóknaraðila og þ.a.l. eigi hún ekki rétt til hlutdeildar í þeim eignum.  Á samvistatíma þeirra hafi ekki orðið nein eignamyndun hjá varnaraðila heldur aðeins eignabreyting þar sem hann hafi fært eign í formi bankainnistæðu í húsbygginguna og bætt við lántöku, en ekki myndað nýja eign.  Því geti ekki komið til krafa sóknaraðila um hlutdeild í eignum enda hafi hún ekkert greitt eða lagt til myndunar eða breytingar þeirra eigna.

Samkvæmt áratugalangri dómaframkvæmd Hæstaréttar byggist eignaskipti sambýlisfólks annars vegar á almennum reglum um sameign og hins vegar á reglu um gagnkvæma hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma.  Ef krafa um hlutdeild í eignum byggi á reglum um sameign, eins og sóknaraðili geri, þá þurfi viðkomandi eign að vera skráð eign beggja, en það eigi ekki við í þessu tilfelli, eða að aðilar hafi staðið sameiginlega að kaupum á eign með sameiginlegu fjárframlagi og ekki eigi það heldur við enda hafi umrædd jörð verið í eigu varnaraðila áður en aðilar kynntust og tekjur hans af lóðasölu hafi farið beint í fasteignina sem hann hafi látið byggja á sínu landi, en þess vegna geti sóknaraðili ekki haldið fram kröfu um eignahlut í umræddri jörð eða fasteign.  Reglan um gagnkvæma hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma geti heldur ekki átt við þar sem eignir sem falli undir bú hans hafi að mestum hluta verið til áður en samvistir hófust.

Varðandi kröfu sóknaraðila vegna A kveðst varnaraðili byggja á því að samkvæmt hinni dómstólamynduðu reglu þá eigi hún aðeins við um þær eignir sem verða til í sambúðinni og þar með falli aðrar eignir utan skipta, s.s. íbúð varnaraðila að J, sparifé sem aðilar áttu við upphaf samvista og land varnaraðila að A sem hann á í sameign með systkinum sínum.  Hluti umrædds lands hafi verið seldur og sá hluti andvirðisins sem kom í hlut varnaraðila hafi verið notaður til að fjármagna byggingu A.  Annan hluta byggingakostnaðarins hafi varnaraðili greitt af eigin fé sínu, með sparifé sem hann hafi fengið m.a. eftir látna eiginkonu sína, með launatekjum sínum og með tryggingabótum eftir Suðurlandsskjálftann 2008, svo og með lántöku.  Verulegur hluti byggingakostnaðar sé enn ógreiddur sem áhvílandi veðlán. Ekkert hafi sóknaraðili greitt af byggingakostnaði og ekki heldur neinn annan kostnað vegna heimilisrekstrarins s.s. rafmagn og hita.  Ekki hafi sóknaraðili lagt fram nokkurt vinnuframlag vegna húsbyggingarinnar enda hafi varnaraðili samið við verktaka um húsbygginguna og sóknaraðili sé ekki fagaðili í húsbyggingum.  Þá hafi varnaraðili aldrei beðið sóknaraðila um að koma að vinnu við húsbygginguna eða sinna öðrum hlutum sem henni tengdust enda með fagmenn í vinnu við það allt saman, þannig að hafi sóknaraðili haft einhver afskipti af húsbyggingunni, eins og hún haldi fram, þá sé þar um að tefla óbeðinn erindisrekstur sem skapi henni engan rétt til greiðslu.  Eignir sem sóknaraðili geri kröfu til séu þannig allt eignir sem varnaraðili hafi átt fyrir samvistatímann og eigi því sóknaraðili ekki rétt til hlutdeildar í þeim.

Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi haft mjög lágar tekjur á þeim tíma sem kynni þeirra hafi staðið og hann því staðið undir kostnaði við mat og annað sem þurfti fyrir heimilið þegar hann hafi dvalið hjá sóknaraðila um helgar.  Tekjur hennar á þeim tíma hafi ekki getað staðið undir eignamyndun.

Kröfu sína um endurgreiðslu vegna muna, sem sóknaraðili hafi fjarlægt úr A, kveðst varnaraðili byggja á því að hlutirnir, sem voru baðinnrétting og háfur, hafi verið varanlega skeyttir við húsið og því ekki heimilt að fjarlægja þá án leyfis húseigandans.  Varnaraðili hafi greitt fyrir umrædda hluti og hafi þeir því tilheyrt honum einum, sem og öll eignin.  Kveðst varnaraðili meta hlutina á kr. 1.000.000 en það sé innkaupsverð samsvarandi hluta í dag.

Kröfu sína um að sóknaraðili aflétti ábyrgð sem varnaraðili hafi gengist undir í Landsbankanum kveðst varnaraðili byggja á því að ábyrgðin hafi átt að vera tímabundin af hans hálfu og þá sé hún byggð á loforði sóknaraðila um frágang málsins án tjóns fyrir varnaraðila.  Byggir varnaraðili jafnframt á því að samband þeirra hafi verið algjör forsenda fyrir áframhaldandi ábyrgðum hans fyrir hana og þ.a.l. beri henni að aflétta ábyrgðinni án tafar.

Þá telur varnaraðili að hafi sóknaraðili átt einhvern rétt til skipta á eignum á móti varnaraðila þá hafi hún þegar fengið í sinn hlut ríflega það sem hún hafi átt rétt á með greiðslum af hálfu varnaraðila fyrir sóknaraðila meðan samband þeirra stóð og með töku sóknaraðila á hlutum og innréttingum úr húsinu að A við lok sambands þeirra.  Þá hafi hún haft endurgjaldslaus afnot af húsinu í lengri tíma eftir að samvistum þeirra hafi lokið.

Varnaraðili kveðst aðallega vísa til dómafordæma um skiptingu á gagnkvæmri eignamyndun á sambúðartíma svo og meginreglna samninga- kröfu og eignaréttar um stofnun eignaréttar og lögvernd kröfuréttinda.  Þá vísar varnaraðili til dóms Hæstaréttar í máli nr. 211/2001 um sönnun fyrir eignarétti.  Um  málskostnað vísar varnaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Skýrslur fyrir dómi

Sóknaraðili gaf skýrslu við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi kynnst varnaraðila á árinu 2001 og þau hafið samband.  Þau hafi búið saman í I frá árinu 2005 og eftir það í A, en áður hafi varnaraðili mikið verið á heimili hennar.  Ekki hafi sérstaklega verið rætt um eignarhald á húsinu að A.  Hún hafi komið að byggingu þess húss og undirbúningi og ákvarðanatökum, enda hafi hún ekki verið neins konar ráðskona hjá varnaraðila heldur hafi þau verið saman.  Aðspurð um lista yfir byggingakostnað hússins að A í gögnum málsins kvað sóknaraðili listann vera kolrangan.  Verð séu þar rangt færð og tvítekin.  Aðspurð um reikning eða tilboð frá B heildverslun, í gögnum málsins, kvaðst sóknaraðili hafa fengið þessar vörur á góðum kjörum og varnaraðili hafi aðeins þurft að greiða eina milljón kr. af rúmlega 4,6 miljónum.  Hún hafi samið um mismuninn við B heildverslun.  Þessar vörur séu enn í húsinu.  Taldi sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki greitt meira í byggingu hússins en það sem tekið hafi verið að láni.  Hennar vinnuframlag hafi verið mikið.  Baðinnrétting og gufugleypir hafi verið afmælisgjöf til hennar og þessa hluti hafi hún tekið úr húsinu þegar hún hafi flutt úr því.  Hafi verið skorað á hana af lögmanni varnaraðila að fjarlægja allt sitt úr húsinu.  Aðspurð kvaðst sóknaraðili ekki hafa tekið ísskáp úr húsinu.  Hennar aðkoma að byggingu hússins og þeirra málum hafi ekki verið á grundvelli óbeðins erindreksturs, heldur hafi þau verið par.  Hún hafi séð um að hanna og gera garðinn að A.  Hún hafi greitt að langmestu leyti reikning fyrir afruglara, síma og sjónvarpskostnað.  Hún hafi haft frumkvæði að því og aðstoðað við að sækja bætur vegna skemmda eftir jarðskjálfta vorið 2008, en varnaraðili hafi verið ákvarðanafælinn.  Hún hafi séð um alla matseld og öll þrif á heimilinu.  Varnaraðili hafi greitt hita og rafmagnsreikninga.  Byggingakostnaður hafi verið greiddur með láni sem varnaraðili hafi tekið.  Ekki kvaðst sóknaraðili hafa greitt byggingarkostnað, en hún hafi þó keypt ýmislegt s.s málningu, ýmis verkfæri o.fl.  Aðspurð kannaðist sóknaraðili við að hafa fengið lánaðar í nokkra daga kr. 30.000 hjá varnaraðila vegna trygginga vegna hunds.  Hafi hún einnig skuldfært með símgreiðslum á greiðslukort varnaraðila í örfá skipti, með samþykki hans.  Aðspurð kannaðist sóknaraðili við að verktakar hafi komið að byggingu hússins að A.  Hún hafi verið á staðnum allan tíman og ein grunnmálað húsið að innan, en málarar hafi séð um seinni umferðina.  Hún hafi ekki greitt af lánum.  Varnaraðili hafi oftlega beðið sig að hjálpa sér með ýmislegt.  Hafi hún t.a.m. dúklagt grunn sem húsið hafi verið byggt á og slegið upp með varnaraðila.  Hún hafi unnið með varnaraðila í grunninum þar til platan hafi verið steypt.  Aðspurð kvaðst sóknaraðili hafa mikla reynslu af húsbyggingum.  Ekki minnti sóknaraðila að varnaraðili hafi greitt sér sérstaklega fyrir einhver viðvik við húsbygginguna.  Aðspurð kvaðst sóknaraðili hafa haft fjárráð til að kaupa málningu og slíkt.    

Varnaraðili kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að landið í A hafi verið í eigu hans og systkina hans sem arfur eftir föður þeirra.  Hafi varnaraðili lengi haft hug á að byggja þarna en verið hættur að hugsa um það.  Það hafi verið deila milli systkinanna þegar hann hafi viljað byggja þar.  Hann hafi fjármagnað húsbygginguna með fé úr óskiptu búi sínu og látinnar eiginkonu sinnar.  Hann og systkini hans hafi átt land á [...], eftir föður sinn, sem hafi verið selt rétt fyrir „hrun“ á 30 milljónir króna og hans hlutur hafi verið 3 milljónir.  Það hafi hann lagt í bygginguna.  Hann hafi tekið 18 milljón króna lán fyrir byggingakostnaði.  Aldrei hafi verið rætt að hann og sóknaraðili hafi átt að eiga húsið að A saman, enda hafi hann ekkert mátt það þar sem það hafi verið fjármagnað með hinu óskipta búi.  Kvaðst varnaraðili ekki vita til að sóknaraðili hafi lagt neitt fé í húsbygginguna.  Þetta hafi verið sín eign.  Hann hafi borgað allt saman.  Sóknaraðili hafi aldrei beðið um að vera skráður eigandi með honum að húsinu og það hafi aldrei komið til greina.  Hann hafi alltaf verið hræddur við sóknaraðila sem hafi verið ráðrík og viljað stjórna.  Hann hafi leyft henni það, en hún hafi í rauninni tekið stjórnina án þess að hann bæði hana um það.  Þau hafi farið saman til ýmissa erinda enda verið vinir.  Sér hafi fundist það eðlilegt.  Hann hafi hjálpað henni með ýmislegt, s.s. hafi hún verið með hundarækt og hann hafi byggt fyrir hana tvö hundahús.  Hann hafi greitt kostnað vegna hundanna.   Kvaðst varnaraðili hafa greitt mikinn persónulegan kostnað fyrir sóknaraðila meðan þau hafi verið saman.  Hún hafi alltaf verið í peningavandræðum frá því að þau hafi kynnst og sér hafi verið það ljóst.  Honum hafi þótt vænt um hana og viljað hjálpa henni.  Kvaðst telja að hann hafi greitt kannski miljón krónur á ári vegna sóknaraðila.  Hann hafi oftlega verið að leggja inn á reikninginn hennar.  Sóknaraðili hafi notað greiðslukort hennar.  Sjónvarp og sími hafi allt saman verið á hans greiðslukorti án þess að hann vissi.  Kvaðst varnaraðili hafa greitt allan kostnað við rekstur heimilisins að A, en hann hafi verið á ágætum launum.  Kvað varnaraðili rangt hjá sóknaraðila að þau hafi flutt í I 2005, en hið rétta sé að það hafi verið 2007 og hafi hann greitt leigu vegna þess.  Hann hefði ekkert þurft að fara þangað.  Það hafi verið alfarið vegna sóknaraðila þar sem hún hafi verið með hundaræktun.  Hann hafi verið í ágætri íbúð á [...] og hefði ekki þurft að fara í I.  Sóknaraðili hafi ekki viljað koma til hans.  Hafi hann þó ekki hafa talið sig vera í sambúð enda átt sitt heimili og lögheimili á J.  Kvaðst varnaraðili yfirleitt hafa keypt í matinn á A.  Þegar komu gestir hafi hann séð um innkaup.  Hann hafi staðið undir megninu af reksturskostnaði heimilisins og aukinheldur lagt fé á reikning sóknaraðila.  Vegna jarðskjálftabóta tók varnaraðili fram að það hafi komið hálf miljón króna og þá hafi sóknaraðili verið í ferðalagi á Ítalíu og hafi hann sent henni alla peningana þangað inn á reikning.  Hafi sóknaraðili í tvígang hringt í sig meðan á ferðalaginu stóð og hafi hann jafn oft lagt inn á reikning hennar.  Hafi hún verið að hjálpa sér eitthvað sé hún búin að fá það margborgað.  Aðspurður kvaðst varnaraðili sjálfur hafa unnið við grunninn að A og sjálfur sett dúkinn.  Sóknaraðili hafi ekki komið nálægt því verki.  Hún hafi beðið sig að leyfa barnabarni hennar að vinna eitthvað og fá einhvern pening.  Hann hafi leyft þeim báðum að vinna við grunninn og laga til.  Þau hafi bæði farið út að vinna og fengið kr. 5.000 hvort.  Þau hafi verið að hreinsa til.  Sóknaraðili hafi haft nóg að gera við hundaræktunina.  Ekki sé að undra að sóknaraðili hafi séð um þrif innandyra enda hafi hún verið með allt að 10 hunda ýmist í íbúðarhúsinu og úti, en töluvert þurfi að þrífa eftir slíkan fjölda hunda.  Kannaðist varnaraðili við að sóknaraðili hafi séð um samskipti við byggingafulltrúa.  Hún hafi ekkert verið beðin um það en viljað þetta sjálf og haft á þessu áhuga.  Það hafi verið deila við skipulagsyfirvöld vegna hundahúsa og hún hafi staðið m.a. í þeirri deilu.  Hafi sóknaraðili fengið tvo smiði til að innrétta húsið og greitt laun fyrir það.  Þeir hafi átt að mála líka.  Eina helgi hafi þau saman farið út að mála, en hætt eftir 10 mínútur vegna illinda.  Sóknaraðili hafi enga málningu keypt, það hafi hann séð sjálfur um. Hugsanlega hafi hún keypt einhverja málningu fyrir I, eða gróðurhús þar, enda hafi það hús verið fyrir hana og hundana, enda hafi hann átt heima á J.  Ekki vissi hann heldur til þess að sóknaraðili hafi verið að kaupa verkfæri.  Sóknaraðili hafi verið vinkona hans og aldrei hafi þau verið í sambúð.  Aðspurður kvaðst hann hafa kynnst sóknaraðila árið 2001 og verið hrifinn af henni og verið tilbúinn að kynnast henni meira. Aldrei hafi þetta orðið almennilegt samband.  Hann hafi komið á heimili hennar í Reykjavík um helgar en hann hafi ekki átt heima þar.  Kvaðst varnaraðili hafa verið með lögheimili á J.  Aðspurður um jarðskjálftabætur vegna J kvað varnaraðili að það hafi runnið til húsbyggingarinnar í A, en það hafi verið um ein og hálf milljón króna.  Ekki hafi varnaraðili vitað hvað sóknaraðili hafi verið að gera þegar hann var fjarverandi vegna vinnu.  Ekki geti hann útilokað að hún hafi þá málað eitthvað.  Sóknaraðili hafi haft ánægju af garðvinnu og hafi hann ekki lagst gegn því að hún sinnti henni, en hann hafi staðið undir kostnaði vegna garðsins við A.  Varnaraðili kannaðist við að þeir hlutir, flísar og innréttingar, sem tilgreindir eru á yfirliti frá B hafi farið í húsið að A og séu þar.  Sóknaraðili hafi endilega viljað fara í B og hafi varnaraðili samþykkt að kaupa það sem tilgreint er þaðan, en hann hafi greitt það allt saman.  Aðspurður um yfirlit yfir byggingakostnað vegna A kvaðst varnaraðili hafa greitt fyrir húsið og tekið lán.  Lánið hafi að miklu leyti farið í að innrétta húsið.  Hann hafi borgað allt sem hann hafi átt að borga.  Ljósin og háfurinn hafi verið keypt í B af frænda sóknaraðila á kr. 200.000 og hafi varnaraðili borgað það.  Hafi verið keyptir 2 ísskápar þar líka, og hafi þeir verið gamlir og kostað kr. 100.000 hvor.  Annar skápurinn hafi farið til dóttur varnaraðila.  Það sé fjarri lagi að ísskáparnir hafi kostað fleiri hundruð þúsund hvor eins og tilgreint sé á yfirliti frá B.  Hafi varnaraðili greitt kr. 200.000 til B eða C fyrir gufugleypi eða háf og ljós og þar sé kominn háfurinn sem sóknaraðili segist hafa fengið í afmælisgjöf.  Sóknaraðili hafi svo tekið með sér öll ljós sem hún hafi getað, gufugleypinn, allt leirtau hnífapör og slíkt.  Hún hafi líka tekið allt innbú sem hún hafi viljað og m.a.s. málverk sem honum hafi verið fært í sjötugsafmælisgjöf.  Hann hafi ekkert skipt sér af því hvert hennar tekjur hafi runnið.  Þá kvað varnaraðili að hann hafi greitt ýmsan kostnað vegna sóknaraðila.

Vitnið O, framkvæmdastjóri B, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og staðfesti yfirlýsingu sína í gögnum málsins um að aðilar málsins hafi komið sameiginlega fram gagnvart fyrirtækinu vegna húsbyggingar að A.  Ekki hafi orðið vart við að þau væru ótengd og að sóknaraðili hafi tekið virkan þátt í ferlinu.  Hafi þau virst vera að koma sér upp sameiginlegu heimili sem sambýlingar.  Hann hafi verið byggingastjóri hússins og verkefnastjóri félagsins.  Hafi aðilar báðir haft samskipti við félagið vegna húsbyggingarinnar, en þau hafi oft verið saman. Á verksamningi hafi aðeins varnaraðili verið viðsemjandi félagsins en þau hafi virst taka ákvarðanir sameiginlega.  Ekki mundi vitnið hvenær húsið hafi verið tilbúið til afhendingar.

Vitnið P kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa búið að I þegar aðilar hafi verið þar.  I sé næsta hús við A.  Hafi vitninu fundist sóknaraðili taka fullan þátt í því að verið væri að byggja húsið.  Hafi aðilar virst vera sambýlingar. Kvaðst vitnið hafa séð sóknaraðila taka þátt í vinnu á verkstað þegar húsið hafi verið í byggingu og hafi hann séð hana vera að bera timbur og ýmislegt.  Ekki mundi vitnið eftir samtölum þar sem fram hafi komið eitthvað um eignarhald á húsinu.

Vitnið R kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að sóknaraðili hafi „alltaf“ verið á staðnum til að byrja með þegar húsið að A var í byggingu.  Einu sinni hafi hún verið að mála innan húss og verið „alltaf“ í garðinum og alltaf verið að.  Kvaðst vitnið muna eftir að hafa einu sinni orðið var við varnaraðila við vinnu á byggingarstað.  Fannst vitninu að sóknaraðili hafi klárlega unnið meira á staðnum en varnaraðili.  Kvað vitnið að aðilar hafi klárlega búið þarna saman og eins í I, sem sé eign föður vitnisins.  Sóknaraðili hafi standsett íbúðina í I alveg áður en flutt hafi verið inn.  Hafi vitnið komið þarna a.m.k. vikulega yfir sumartímann.

Vitnið S, sonur varnaraðila, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að þegar A var í byggingu hafi vitnið búið í Danmörku.  Hafi hann fylgst með þessu og verið í sambandi við fjölskylduna og fengið sendar myndir.  Kvað vitnið varnaraðila hafa fjármagnað byggingu hússins með sínum eigin peningum og úr arfi eftir föður sinn og úr lóð sem hafi verið seld.  Ekki mundi vitnið til þess að rætt hafi verið að aðilar myndu eiga húsið saman eða að fram hafi komið að sóknaraðili legði fé í framkvæmdina.  Þvert á móti hafi verið talað um að varnaraðili stæði einn að framkvæmdinni.  Sóknaraðili hafi aldrei verið beðin um að taka þátt í húsbyggingunni eftir því sem vitnið vissi til.  Vitnið kvaðst telja að sóknaraðili hafi verið leigjandi að A.

Vitnið Q, bróðir varnaraðila, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hann hafi fylgst með húsbyggingu varnaraðila að A.  Hafi varnaraðili oftlega komið til sín og þeir rætt þetta.  Hafi vitnið ekið fram hjá byggingarstað, en varnaraðili ekki verið heima.  Þegar landi sem varnaraðili og systkin hans hafi erft eftir föður sinn hafi verið skiptar skoðanir en það hafi endað í góðu.  Þegar húsið hafi verið byggt hafi varnaraðili fengið tjónabætur u.þ.b. eina milljón króna fyrir bíl og það hafi farið í bygginguna.  Varnaraðili hafi líka fengið einhverja peninga fyrir sölu á lóðarbleðli.  Hann hafi líka verið í góðri vinnu.  Taldi vitnið að sóknaraðili hafi ekki borgað krónu í byggingu A.  Hafi vitnið orðið var við að varnaraðili hafi greitt ýmislegt fyrir sóknaraðila.  Hafi sóknaraðili notfært sér veikleika og góðmennsku varnaraðila til að láta hann borga fyrir sig.  Hafi sóknaraðili notað varnaraðila „alveg miskunnarlaust“.  Hafi varnaraðili oft komið til sín niðurbrotinn og svefnlaus.  Kom fram hjá vitninu að honum hafi ekki litist á það að varnaraðili væri alltaf að stækka bygginguna og byggja dýrara.  Hafi vitnið óttast að varnaraðili kæmi sér í ógöngur með því ráðslagi.  Hafi varnaraðili sagst vera að byggja þetta einn og hafi vitnið ráðlagt honum að hafa húsið á sínu nafni.  Aldrei hafi vitnið rætt eignarhald á húsinu við sóknaraðila.  Vitninu hafi ekki fundist þau búa saman sem hjón, en varnaraðili hafi þó haldið við sóknaraðila.  Þau hafi í mesta lagi verið kærustupar sem hittust á balli, en eftir að flytja í I hafi mátt líta á þau sem sambýlisfólk.

T kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hann hafi komið u.þ.b. tvisvar á byggingarstað þegar A var í byggingu.  Ekki hafi komið til tals milli hans og varnaraðila hvernig byggingin væri fjármögnuð.  Taldi að varnaraðili hafi fjármagnað bygginguna með eigin fé, enda hafi hann erft land eftir foreldra sína og þá sæti varnaraðili í óskiptu búi eftir móður vitnisins.  Hafi vitnið talið varnaraðila vera að ávaxta sitt pund.  Ekki hafi komið fram að aðilar ættu húsið sameiginlega.  Ekki minntist vitnið þess að sóknaraðili hafi rætt fjármál sín við hann.  Ekki mundi vitnið til að hafa séð aðila vinna sjálf að byggingunni meðan húsið var reist.  Kvaðst telja að varnaraðili hafi engar kröfur gert til sóknaraðila um byggingu hússins, enda hafi varnaraðili sjálfur átt og fjármagnað húsið.  Hann hafi ekki viljað setja nafn sóknaraðila á húsið.  Ekki kvaðst vitnið vita nákvæmlega um fjármögnun hússins en það hafi verið tekið stórt lán.  Ekki hafi hann séð neitt um það hvað fóru miklir peningar úr óskipta búinu til húsbyggingarinnar.  Á fyrstu árum sambúðar aðilanna hafi vitnið haft góð kynni af sóknaraðila og hafi hún reynst vitninu vel.  Ekki hafi sambúðin þó verið skráð.  Hafi vitnið fyrst talið sóknaraðila vera leigjanda hjá varnaraðila, en seinna hafi tekist vinátta eða samband með þeim.  Ekki kvaðst vitnið geta sagt til um hvenær sambúð hófst.

Vitnið U kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa verið verkstjóri varnaraðila frá árinu 2002 og í 8 ár eftir það.  Vinnan hafi verið 8-10 mánuði úti á landi í vinnubúðum.  Þá hafi verið unnið virka daga og farið heim um helgar eða farið heim 3-4 daga í senn eftir lengra úthald.  Annars hafi þeir verið að vinna í Vík.  Hafi varnaraðili ekki alltaf farið heim um helgar. Kvaðst vitnið hafa vitað að varnaraðili væri í sambandi með sóknaraðila.  Kvaðst hafa vitað að aðilar hafi leigt saman hús í I og að þau hafi verið saman í nýja húsinu en varnaraðili hafi talað um sóknaraðila sem „vinkonu sína“.  Hann hafi ekki beint upplifað þau sem sambýlisfólk.  Oft hafi hann rætt væntanlega húsbyggingu við varnaraðila.  Hafi varnaraðili lítið unnið sjálfur við húsbygginguna.  Hafi varnaraðili talað um að þetta væri sitt hús og hann væri að byggja þetta og hafi hlakkað til að þau yrðu þar saman.  

Vitnið V, dóttir varnaraðila, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að kynni aðila hafi tekist árið 2001.  Ekki taldi vitnið að þau hafi farið að búa saman fljótlega eftir það og hafi varnaraðili ekki búið með sóknaraðila í Reykjavík.  Þá hafi hann búið að J.  Ekki hafi þau heldur búið saman í I, enda varnaraðili þá með lögheimili annars staðar, en hann hafi þó verið í A þegar hann hafi ekki verið að vinna.  Mjög oft hafi slitnað upp úr vinskap aðilanna.  Þegar það hafi gerst hafi varnaraðili gist annars staðar.  Kvað vitnið að bygging hússins að A hafi verið fjármögnuð með peningum sem varnaraðili hafi átt inni á reikningi, erfðafé sem hann hafi fengið eftir móður sína, auk fjár sem hafi komið úr sölu á lóð við J. Kvaðst vitnið hafa séð reikninga og fengið um þetta upplýsingar frá varnaraðila.  Fyrir lóðina hafi fengist 3 milljónir króna og 400.000 krónur í arf.  Þá hafi sóknaraðili fengið jarðskjálftabætur.  Kvaðst vitnið vita til að sóknaraðili hafi ekki greitt kostnað vegna byggingar hússins.  Hafi vitnið oft komið á byggingarstað og aldrei séð sóknaraðila við vinnu í húsinu.  Vitnið kvaðst hafa séð sóknaraðila vinna í garðinum við A og hafi séð um blómabeð.  Hafi varnaraðili greitt fyrir möl og steina sem hafi farið í það.  Ekki hafi vitnið séð varnaraðila vera að vinna í húsinu heldur.  Það hafi verið iðnaðarmenn í öllum störfum.  Kvaðst vitnið vita til að varnaraðili hafi látið sóknaraðila hafa fé í tengslum við utanlandsferðir sóknaraðila.  Þá hafi varnaraðili greitt hundatryggingar fyrir sóknaraðila og greitt leigu fyrir sóknaraðila meðan hún bjó í Reykjavík.  Sóknaraðili hafi ekki haft mikið fé milli handa, en hún hafi m.a. fengið smálán hjá vitninu.  Sóknaraðili hafi haft aðgang að visakorti varnaraðila og notað það í búðum.  Þá hafi hún haft reikningsnúmer varnaraðila í Húsasmiðjunni.  Aðspurð kvaðst vitnið telja að aðilar hafi verið saman í A um 15 mánaða skeið, en samband þeirra hafi þó ekki verið stöðugt allan þann tíma.  Aðilar hafi bæði annast innkaup til heimilisins.  Vitnið kannaðist við að hafa fengið útlitsgallaðan og bilaðan ísskáp frá B fyrir 100.000 krónur.  Á sama tíma hafi varnaraðili líka keypt ísskáp frá B á sama verði.  Aldrei hafi verið rætt að ísskáparnir kostuðu mörg hundruð þúsund krónur hvor.  Kvað vitnið að sóknaraðili hafi séð um matseld.  Sambandið hafi verið eins og unglingasamband, eins og „kærustupar“ sundur og saman.  Oft hafi vitnið komið á heimili varnaraðila og hafi aldrei verið rætt að sóknaraðili ætti hluta hússins og hafi sóknaraðili oft sagt í sín eyru að hún hefði engan áhuga á eignum varnaraðila.  Hafi sóknaraðili ekki tjáð sig um að hún ætti hluta hússins.  Sóknaraðili hafi lítið komið að byggingu hússins, en hún hafi aðstoðað varnaraðila í upphafi í samskiptum við byggingafulltrúa og slíkt, en um það hafi hún þó aldrei verið beðin.

Vitnið Y, tengdasonur varnaraðila, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa komið alloft á byggingarstað þegar A var í byggingu, meira en vikulega.  Mjög lítið hafi varnaraðili sjálfur verið að vinna í húsinu, en ekki hafi vitnið séð sóknaraðila vinna við bygginguna.  Ekki vissi vitnið til þess að varnaraðili bæði sóknaraðila að sinna einhverjum verkum vegna hússins.  Sóknaraðili hafi gróðursett blóm við A. Ekki kvaðst vitnið vita með vissu hvernig bygging hússins hefði verið fjármögnuð, en varnaraðili hafi átt til peninga og lóð sem hann hafi erft eftir foreldra sína og væntanlega hafi hann notað þessi verðmæti til að fjármagna húsið.  Hafi varnaraðili alltaf talað um að hann hafi byggt húsið og ætti það einn.  Ekki hafi sóknaraðili talað um að hún ætti neitt í húsinu, heldur hafi hún þvert á móti einhvern tíma skrifað bréf þar sem hún hafi talað um að hún ætlaði ekki að falast eftir einu eða neinu sem varnaraðili ætti.  Ekki hafi aðilar verið skráð í sambúð, en þau hafi verið „kærustupar“ og verið sundur saman, en ekki hafi hann séð milli þeirra samband sem væri byggt á einhverjum stoðum.  Margoft hafi slitnað upp úr á milli þeirra.

Niðurstaða

Ekki þarf í máli þessu að kanna hvort um sé að ræða sameiginlegt bú milli aðila eða hvort skilyrði séu til að það bú sæti opinberum skiptum.  Þeim álitaefnum var svarað með dómi Hæstaréttar í framangreindu máli milli aðila, sem upp var kveðinn 23. mars 2012.

Megin krafa sóknaraðila í þessu máli er að fá viðurkenndan helmingseignarhlut í umræddri fasteign að A, ásamt því sem eigninni fylgir, en til vara krefst hún þess að henni verði ákvarðaður annar og lægri hluti í umræddri fasteign.

Upplýst er að sambúð aðila lauk í september 2010 þegar varnaraðili flutti af sameiginlegu heimili þeirra að A.  Eins og lýst var í framangreindum dómi Hæstaréttar hófst samband aðilanna ekki síðar en á árinu 2002.  Fram hefur komið hjá sóknaraðila að sambúð þeirra hafi hafist ekki síðar en árið 2005 þegar þau hafi flutt í I og nýtur það stuðnings í öðrum framburðum í málinu.  Fullyrðing varnaraðila við aðalmeðferð um að þau hafi ekki flutt í I fyrr en 2007 er ekki í samræmi við þetta og verður hér miðað við að sambúð þeirra hafi hafist á árinu 2005, eins og fram kom í fyrra máli milli aðila, og staðið til september 2010 þegar varnaraðili flutti af heimilinu, en óljós og skammvinn tímabil ósættis geta ekki breytt þessu. 

Fyrir liggur að varnaraðili er einn skráður eigandi fasteignarinnar að A og ber hann jafnframt einn skuldir þær við Íbúðalánasjóð sem á eigninni hvíla og notaðar voru til að fjármagna kaupin á húsinu.  Jafnframt liggur fyrir að húsið sem á eigninni stendur var byggt á sambúðartíma aðilanna og fullbyggt á þeim tíma.

Fyrir liggur í gögnum málsins verðmat á umræddu húsi frá fasteignasala og er miðað við áætlað söluverð kr. 36.800.000.  Verðmat þetta er óstaðfest og hefur viðkomandi fasteignasali ekki komið fyrir dóm og verður ekki byggt á mati þessu við úrlausn málsins.  Samkvæmt gögnum málsins er fasteignamat hússins kr. 29.550.000 fyrir árið 2012 og verður hér miðað við þá fjárhæð sem verðmæti eignarinnar.  Á húsinu hvíla tvö lán, samtals að fjárhæð kr. 17.938.904 miðað við stöðu lánanna 31. desember 2011, en nýrri útreikningur liggur ekki fyrir.  Verður því að miða við að hrein eign í húsinu sé að fjárhæð kr. 11.611.096.

Samkvæmt því sem að framan greinir um það sem upplýst er um byggingarkostnað hússins og eignir varnaraðila verður að telja að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma aðila málsins, en ekki einungis breytingar á eignasamsetningu hans.

Fyrir liggur að varnaraðili greiddi af húsnæðislánum sem tekin voru til að kosta byggingu hússins.  Þá liggur fyrir að varnaraðili greiddi kostnað vegna rafmagns og hita.

Fyrir liggur að sóknaraðili hefur ekki lagt fram fé til byggingar á margnefndu húsi, hvorki með beinum framlögum né lántöku.  Það er upplýst að hennar framlag var fólgið í því að veita aðstoð í samskiptum við byggingar- og skipulagsyfirvöld og þá fékk hún lögmann til að aðstoða við skiptingu á landi því sem varnaraðili átti í sameign með systkinum sínum og húsið var byggt á.  Þá liggur fyrir að sóknaraðili sá um að útbúa og hanna garð kringum húsið eða beð, en varnaraðili mun hafa staðið straum af kostnaði við það.  Óljóst og ósannað þykir hins vegar hversu mikið vinnuframlag hennar var við beinar byggingaframkvæmdir hússins og frágang þess, enda fram komið að ráðnir voru iðnaðarmenn til verksins.  Gegn mótmælum varnaraðila þykir  ósannað að framlag sóknaraðila í formi innréttinga og annars frá B hafi verið að verðmæti 4,6 milljónir króna, að frátöldum kr. 1.000.000 sem varnaraðili hafi greitt, en ekki nýtur við í málinu neins framburðar um þetta frá C eða öðrum frá  umræddri heildverslun, en framlögð gögn um þetta eru nokkuð misvísandi.  Þá liggur fyrir að sóknaraðili sá um þrif og matseld og önnur heimilisstörf.  Þá hefur komið fram að sóknaraðili hafi haft nokkra forgöngu um að sækja bætur vegna jarðskjálftatjóns.  Þá verður ekki annað séð en að öðru leyti hafi þau sameiginlega staðið að rekstri heimilisins með tekjum beggja. 

Varnaraðili hefur vísað til þess að hafa setið í óskiptu búi á sambúðartímanum og allar hans eigur tilheyri þannig hinu óskipta búi.  Á þetta verður ekki fallist.  Í dómi Hæstaréttar í hinu  fyrra máli girti tilvist hins óskipta bús ekki fyrir opinber skipti milli aðila þessa máls.  Verður þannig ekki séð að allar eigur varnaraðila falli undir hið óskipta bú.

Ekki þykja þannig vera fram komin rök til að fallast á að viðurkenna helmings eignarhlut sóknaraðila í umræddri fasteign.  Með hliðsjón af því að nokkur fjárhagsleg samstaða þykir hafa myndast milli aðila á sambúðartímanum, sem stóð í 5 ár, þykja sanngirnisrök á hinn bóginn standa til þess að sóknaraðili, sem sá um heimilið og tók fullan þátt í að undirbúa gerð þess og frágang, fái viðurkenndan nokkurn hlut í eignamyndun á sambúðartímanum, sem stóð í 5 ár, og þykir hann hæfilega áætlaður 15% af fasteigninni A, enda fylgi þeim eignarhluta ábyrgð á skuldum sem á eigninni hvíla að sama marki.

Báðir aðilar krefjast þess að þess að úrskurðað verði að skiptakostnaður greiðist af hinum aðilanum.  Í málinu er ekki fallist á kröfu sóknaraðila um að fá viðurkenndan helmingseignarhlut í umræddri fasteign og ekki heldur fallist á kröfu varnaraðila um að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á hlutdeild í eigninni verði alfarið hafnað.  Í 4. mgr. 101. gr. skiptalaga nr. 20/1991 er kveðið á um að krafa um opinber skipti sé háð því að eignir nægi fyrir skiptakostnaði eða að sá sem krefst skipta setji tryggingu fyrir honum, en ella ábyrgist sá greiðslu skiptakostnaðar sem krefst skiptanna.  Ekki liggur fyrir í málinu hvernig skiptastjóri muni krefjast greiðslu skiptakostnaðar og kemur ekkert fram í erindi skiptastjóra að um þetta sé ágreiningur.  Úrlausnarefni þessa máls þykja afmörkuð við það ágreiningsefni sem fram kemur í bréfi skiptastjóra til dómsins, sbr. 1. mgr. 122. gr . laga nr. 20/1991.   Þykja því ekki efni til að úrskurða um þetta og verður kröfunni vísað frá ex officio.   

Varnaraðili krefst þess í málinu úrskurðað verði allar eignir bús hans komi í hans hlut óskiptu við búskiptin.  Ekki er gerð nein grein fyrir þessari kröfu í málatilbúnaði varnaraðila, s.s. til hvaða eigna hún tekur o.s.frv.  Það er mat dómsins krafa þessi   vanreifuð sbr. d og e liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá horfir krafa þessi til bús varnaraðila en ekki til sameiginlegs bús aðila máls þessa.  Ekkert kemur fram um það í bréfi  skiptastjóra til dómsins ágreiningur um aðrar eignir en A.   Úrlausnarefni þessa máls þykja afmörkuð við það ágreiningsefni sem fram kemur í bréfi skiptastjóra til dómsins, sbr. 1. mgr. 122. gr . laga nr. 20/1991.  Er af þessum söku óhjákvæmilegt vísa kröfu þessari frá dómi ex officio.

  Varnaraðili krefst þess úrskurðað verði sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 1.000.000 vegna muna sem hún hafi tekið úr húsinu við A við lok samvista aðila.  Krafan er sett fram á grundvelli kröfuréttarlegra sjónarmiða, sem innheimtukrafa vegna muna sem hafi verið fjarlægðir úr eign sem varnaraðili eigi einn.  ofan var komist þeirri niðurstöðu sóknaraðila beri 15% eignarhlutdeild í margnefndri húseign.  Krafan er ekki sett fram sem krafa vegna búskipta á þann veg staðreynd hlutirnir voru fjarlægðir hafi áhrif á hlut sóknaraðila við skiptin.  Í þessu máli verður aðeins leyst úr ágreiningi um það hvaða verðmæti komi í hlut hvors fyrir sig, en ekki verður leyst úr því í slíku máli annar hvor skuli greiða hinum skuld.  Þá er þess geta fjárhæð kröfunnar er með öllu ósönnuð og vanreifuð, en í greinargerð varnaraðila segir aðeins um þetta varnaraðili meti hluti þessa á kr. 1.000.000 en það innkaupsverð samsvarandi hluta í dag, en um þetta liggur ekkert fyrir.  Ber vísa kröfunni frá dómi ex officio.

Þá gerir varnaraðili kröfu um sóknaraðili skuli aflétta ábyrgð af varnaraðila vegna sjálfskuldarábyrgðar hans á yfirdráttarláni hennar á reikningi nr. [...], í Landsbanka Íslands, „ um kr. 1.400.000.“  Í gögnum málsins kemur fram yfirlýsing Landsbankans, dagsett 4. maí 2012, um ábyrgðin í gildi til 1. október 2012.  Er hún samkvæmt því fallin niður og er ekki lengur til.  Verður ekki séð að varnaraðili hafi af því lögvarða hagsmuni að fá um þetta úrskurð, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.  Þá kemur ekkert fram um það í bréfi skiptastjóra til dómsins að ágreiningur sé um þetta milli aðila, en úrlausnarefni þessa máls þykja afmörkuð við það ágreiningsefni sem fram kemur í bréfi skiptastjóra til dómsins, sbr. 1. mgr. 122. gr . laga nr. 20/1991.  Ber því að vísa þessari kröfu frá dómi ex officio. 

Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá dómi kröfum beggja aðila um að úrskurðað verði að hinn aðilinn skuli greiða skiptakostnað.

Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila, M, um að allar eignir bús hans komi í hans hlut að óskiptu við búskiptin.

Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að sóknaraðili, K,  skuli greiða varnaraðila kr. 1.000.000.

Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að sóknaraðili skuli aflétta ábyrgð af varnaraðila vegna sjálfskuldarábyrgðar hans á yfirdráttarláni hennar á reikningi nr. [...], í Landsbanka Íslands.

Við skipti á búi aðila skal sóknaraðili teljast vera eigandi að 15% eignarhluta í fasteigninni A.

Málskostnaður fellur niður.