Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-231
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisleg áreitni
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 11. júní 2019 leitar Elvar Daði Guðjónsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. maí sama ár í málinu nr. 670/2018: Ákæruvaldið gegn Elvari Daða Guðjónssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir að hafa brotið gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa afklætt sig og lagst nakinn upp í rúm til brotaþola. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola skaðabætur. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem við úrlausn málsins hafi verið litið framhjá því skilyrði að háttsemi sem veki ótta brotaþola og talist geti á þeim grunni kynferðisleg áreitni, sem varði við 199. gr. almennra hegningarlaga, þurfi að fela í sér stöðugt áreiti sem nálgist einelti. Telur leyfisbeiðandi að af þessum sökum hafi málið verulegt almennt gildi um túlkun þessa refsiákvæðis.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.