Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2014


Lykilorð

  • Varnarþing
  • Lúganósamningurinn
  • Farmflutningur
  • Farmskírteini


                                     

Fimmtudaginn 2. október 2014.

Nr. 197/2014.

HOBAS Scandinavia AB

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Samskipum hf. 

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Varnarþing. Lúganósamningurinn. Farmflutningar. Farmskírteini.

S hf. höfðaði mál gegn H til heimtu farmgjalds fyrir flutning á vörum til landsins. Með vísan til ákvæða í samningi aðilanna féllst Hæstiréttur ekki á að málið væri höfðað á röngu varnarþingi. Þá var ekki fallist á það með H að skilyrði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 um starfstöðvarvarnarþing væru ekki uppfyllt í málinu. Var því hafnað að vísa málinu frá héraðsdómi. Hvað fjárhæð kröfunnar snerti var ekki talið að komist hefði á skuldbindandi samningur um farmgjaldið. Bæri H því að greiða það gjald fyrir flutninginn sem almennt hefði verið þegar ferming fór fram, sbr. 1. mgr. 74. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Í því sambandi tók Hæstiréttur fram að flutningurinn hefði reynst mun umfangsmeiri en miðað hefði verið við í upphaflegu tilboði S hf. Þá hefði H ekki leitt í ljós að krafa S hf. væri óhæfileg. Var niðurstaða héraðsdóms, um að taka kröfu S hf. til greina, því staðfest.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2014. Tekur áfrýjun hans bæði til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013 og úrskurðar dómsins 16. janúar sama ár þar sem hafnað var kröfu hans um að máli stefnda gegn honum yrði vísað frá dómi. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda, en að því frágengnu að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

 Krafa áfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er reist á því að málið sé höfðað á röngu varnarþingi. Áfrýjandi sé sænskt félag með varnarþing í Malmö í Svíþjóð og engin heimild hafi staðið til að reka málið á hendur sér fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Telur áfrýjandi að reglur Lúganósamningsins frá 30. október 2007 um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 7/2011, girði fyrir að málið verði rekið hér á landi, en þær reglur gangi framar reglum um varnarþing í V. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá andmælir áfrýjandi því að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 36. gr. þeirra laga til að höfða málið á starfstöðvarvarnarþingi. Stefndi mótmælir frávísunarkröfu áfrýjanda og verður krafa hans um staðfestingu héraðsdóms skilin á þann veg að hrinda beri þeirri kröfu.

Stefndi höfðaði málið á hendur áfrýjanda til heimtu farmgjalds fyrir flutning á vörum til landsins frá Þýskalandi en slík lögskipti falla undir Lúganósamninginn, sbr. 1. gr. hans. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. samningsins hafa samningsaðilar heimild til að semja um að dómstólar í ríki, sem bundið er af samningnum, hafi dómsvald um ágreining sem þegar er risinn eða kann að rísa í tengslum við tiltekin lögskipti þeirra og að minnsta kosti annar á heimili í samningsríki. Í farmskírteini 17. júní 2010 vegna flutningsins var tekið fram að sendandi féllist á skilmála þess með samþykki sínu á flutningi vörunnar, en þeir voru prentaðir á bakhlið skírteinisins. Þar segir í 26. grein að íslensk lög gildi um samning þann sem felist í farmskírteininu og hvers kyns deilumál, sem rísi samkvæmt honum, beri að úrskurða af íslenskum dómstólum samkvæmt íslenskum lögum og útiloki það lögsögu dómstóla í öðrum löndum. Með þessu var fullnægt áskilnaði 1. mgr. 23. gr. Lúganósamningsins, enda liggur fyrir að samningur um varnarþing er í því formi sem greinir í c. lið þeirrar málsgreinar hans. Samkvæmt þessu gilda ekki varnarþingsreglur Lúganósamningsins í lögskiptum aðila.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 má sækja mál til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu, sem hefur verið fengin eða þegin í verslun eða annarri fastri starfstöð, í þeirri þinghá þar sem verslunin eða starfstöðin er ef það er atvinna upphaflega skuldarans að láta slíka vöru eða þjónustu í té. Stefndi er með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík og rekur flutningastarfsemi með kaupskipum. Fellur sú þjónusta undir umrætt ákvæði laganna og skiptir þá ekki máli hvort þjónustan hafi verið þegin í þeirri þinghá þar sem starfstöðin er eins og haldið er fram af hálfu áfrýjanda. Samkvæmt þessu var stefnda rétt að höfða málið á starfstöðvarvarnarþingi sínu í Reykjavík og verður kröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi hafnað.

II

   Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi fékk áfrýjandi tilboð frá stefnda í flutninginn 14. maí 2010 en samkvæmt því bar að samþykkja það skriflega innan gildistíma þess sem var til 13. júní sama ár. Gegn andmælum stefnda hefur áfrýjandi ekki sannað að stefndi hafi samþykkt tilboðið áður en það rann út. Þá verður ekki fallist á það með héraðsdómi að komist hafi á samningur samkvæmt tilboðinu þótt fram komi í farmskírteini að samið hafi verið um farmgjaldið, enda sagði þar ekkert um hvort það ætti að greiða eftir tilboðinu eða gjaldskrá stefnda. Samkvæmt þessu verður ekki lagt til grundvallar dómi í málinu að stefndi sé bundinn af tilboðinu þannig að farmgjaldið fyrir flutninginn miðist við það.

Af framansögðu leiðir að greiða ber gjald fyrir flutninginn sem almennt var þegar ferming fór fram, sbr. 1. mgr. 74 gr. siglingalaga nr. 34/1985. Í því efni er þess að gæta að flutningurinn reyndist mun umfangsmeiri en miðað var við í fyrrgreindu tilboði stefnda. Þannig er óumdeilt að farmurinn hafi verið fluttur í sex gámum í stað þriggja og í sex flutningabílum í stað tveggja landleiðina frá Reykjavík til áfangastaðar á Þingeyri. Samkvæmt reikningi stefnda nam útlagður kostnaður til þriðja aðila fyrir flutninginn á landi 135.642 sænskum krónum í stað 26.221,50 sænskrar krónu samkvæmt tilboðinu. Þegar þetta er virt hefur áfrýjandi ekki leitt í ljós að krafa stefnda um farmgjald fyrir flutninginn sé óhæfileg en fyrir því ber hann sönnunarbyrðina í samræmi við almennar reglur kröfuréttar. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að taka til greina kröfu stefnda eins og hún er fram sett með dráttarvöxtum frá 13. febrúar 2011.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti og verður hann ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, HOBAS Scandinavia AB, greiði stefnda, Samskipum hf., samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl., var höfðað 2. maí 2012 af Samskipum hf., Kjalarvogi í Reykjavík á hendur HOBAS Scandinavia AB, Engelbrektsgatan 15, Malmö í Svíþjóð til innheimtu greiðslu samkvæmt útgefnum reikningi, auk dráttarvaxta, vegna flutnings stefnanda á farmi fyrir stefnda.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 318.974,24 sænskar krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 23. ágúst 2010 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 145.347,55 sænskra króna hinn 19. janúar 2011.

Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti sem lagt var fram við aðalmeðferð málsins.

Í greinargerð sinni krafðist stefndi þess aðallega að öllum kröfum stefnanda yrði vísað frá dómi. Frávísunarkröfunni var hafnað með úrskurði dómsins 16. janúar 2013.

Endanleg aðalkrafa stefnda, sem var upphaflega varakrafa hans, er að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Upphafleg þrautavarakrafa stefnda, sem er endanleg varakrafa hans, er að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Yfirlit málavaxta og ágreiningsefna

Málavextir eru þeir að stefnandi tók fyrir stefnda farm um borð í skip í Cuxhaven í Þýskalandi 17. júní 2010 og flutti til Reykjavíkur og þaðan landleiðina til Þingeyrar. Mál þetta snýst um það hvað stefnda beri að greiða stefnanda fyrir flutninginn. Það er höfðað til innheimtu reiknings stefnanda, að fjárhæð 318.974,24 sænskar krónur, að frádregnum 145.347,55 sænskum krónum sem stefndi greiddi stefnanda 19. janúar 2011 og telur sig þar með hafa að fullu greitt fyrir þjónustuna.

Aðdragandi flutningsins var með þeim hætti að starfsmaður stefnda óskaði 21. janúar 2010 eftir tilboði frá stefnanda í flutning á fjórum kollíum sem hægt væri að setja á tvo pallvagna (flatbed-tengivagna) og þrjú kollí, stærð euro bretti frá höfn í Þýskalandi til Þingeyrar. Nánari upplýsingar um stærð og þyngd farmsins voru þyngd/kollí um 5000 kg, stærð/kollí 6,2 x 2,5 x 2,8 metrar og þyngd EUR-bretta um 200 kg. Stefnandi gerði stefnda tilboð í þennan flutning 25. janúar s.á., sem gilda skyldi til 24. febrúar s.á. og var heildarverð tilboðsins 121.664,34 sænskar krónur. Í tilboðinu var tekið fram að farmurinn væri sameinuð vara, 180 rúmmetrar að ummáli og 21 tonn að þyngd. Tölvupóstar gengu milli umboðsmanna aðila 29. janúar s.á. um þennan farmflutning. Stefnandi gerði stefnda nýtt tilboð 9. febrúar s.á., sem gilda skyldi til 11. mars s.á., og var heildarverð fyrir flutninginn samkvæmt því 127.459,36 sænskar krónur. Í þessu tilboði var gert ráð fyrir því að ummál farmsins væri 184 rúmmetrar og að hann væri 25 tonn að þyngd. Loks gerði stefnandi stefnda nýtt tilboð þann 14. maí 2010 í umræddan flutning, sem gilda skyldi til 13. júní s.á., en þar var gert ráð fyrir að farmurinn yrði 130 rúmmetrar og 5,2 tonn. Heildarverð tilboðsins var 108.186,49 sænskar krónur og sem fyrr var miðað við að flutt yrði sameinuð vara. 

Stefndi afhenti stefnanda 17. júní 2010, í Cuxhaven í Þýskalandi, farm til flutnings þaðan til Þingeyrar og þann dag var gefið út sjófarmskírteini fyrir samsettan flutning. Í farmskírteininu kemur fram að farmurinn sé sex gámar og ekkert umfram það. Nánar, að fjöldi gáma/umbúða sé sex (6x 1x40FR) með samtals 13 kollí. Þar kemur fram að þyngd farmsins sé tæp sextán tonn og rúmmál hans um 189 rúmmetrar. Þar segir einnig að farmgjald greiði viðtakandi og loks að farmgjald sé umsamið.

Farmurinn reyndist því að þyngd eða umfangi hvorki vera í samræmi við það sem fram hafði komið í flutningsbeiðni stefnda né tilboðum stefnanda. Stefnandi lýsir þessum mun svo að hinn móttekni farmur hafi verið tæplega 42% meiri að rúmmáli en óskað hafði verið eftir tilboði í flutning á, ríflega þrefalt þyngri og á þrefalt fleiri fletum. Þurft hafi að nota sex fleti til flutnings farmsins og sex flutningabíla í stað tveggja til þess að flytja hann frá skipshlið í Reykjavík til umsamins áfangastaðar, Þingeyrar. Stefnandi gaf út reikning vegna umrædds flutnings 23. júlí 2010, að fjárhæð 318.974,24 sænskar krónur, sem krafist er greiðslu á í málinu. Í reikningnum er tekið mið af lýsingu farms samkvæmt sjófarmskírteini og gjaldskrá stefnanda. Stefnandi lítur svo á að síðasta tilboð hans til stefnda vegna flutnings á farmi hafi runnið út ósamþykkt 13. júní 2010. Stefndi byggir á hinn bóginn á því að það tilboð eigi að gilda um flutninginn. Samkvæmt því tilboði hafi flutningur farms, sem væri 130 rúmmetrar að ummáli, átt að kosta 108.186,49 sænskar krónur. Umfang farmsins hafi verið 54 rúmmetrum meira og því megi bæta við tilboðsverðið greiðslu í hlutfalli við hið aukna umfang farmsins í rúmmetrum talið, sem sé 41,5%. Á grundvelli þess útreiknings greiddi stefndi stefnanda 145.347,55 sænskar krónur 19. janúar 2011, sem fullnaðargreiðslu fyrir flutninginn.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur starfsmenn stefnanda, sem áttu samskipti við stefnda um umræddan flutning og komu að gerð verðtilboða stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi á því að stefnda beri að greiða stefnanda 318.974,24 sænskar krónur samkvæmt reikningi hans útgefnum 23. júlí 2010 að teknu tilliti til innborgunar stefnda þann 19. janúar 2011 að fjárhæð 145.437,55 sænskar krónur.

Með vísan til 1. mgr. 74. gr. siglingalaga nr. 34/1985 beri stefnda að greiða það gjald sem almennt hafi verið í gildi samkvæmt gjaldskrá stefnanda þegar ferming hafi farið fram en á því sé fjárhæð dómkröfu stefnanda byggð, sbr. sjófarmbréf sem gefið hafi verið út 17. júní 2010 vegna flutningsins. Sjófarmbréf sé samningur aðila um flutning vörunnar, sbr. ákvæði 110 gr. siglingalaga nr. 34/1985.

Stefnandi telji að honum hafi verið rétt að reikna gjald fyrir flutning vörunnar samkvæmt gjaldskrá félagsins og að reikningur stefnanda að fjárhæð 318.974,24 sænskar krónur feli í sér réttmætan reikning vegna flutninga stefnanda fyrir stefnda á umræddum farmi. Byggi stefnandi á því að umrætt tilboð stefnanda til stefnda frá 14. maí 2010 (SIS019695) hafi eingöngu gilt til 13. júní 2010. Komi það skýrt fram í texta tilboðsins hver gildistími þess hafi verið. Gildistími tilboðsins hafi sannanlega verið liðinn er stefndi hafi afhent umræddar vörur til stefnanda þann 17. júní 2010. Sé þannig alfarið mótmælt fullyrðingum og tilvísun stefnda til hins útrunna tilboðs.

Þá hafi stefndi ekki staðfest við stefnanda að hann hygðist taka umræddu tilboði stefnanda frá 14. maí 2010. Geti stefndi af þeim sökum ekki byggt kröfur sínar í máli þessu á því. Aðilar hafi verið í viðskiptum á þessum tíma og stefnandi hafi því mátt vænta viðbragða ef stefndi vildi taka tilboðinu. Þá vísi stefnandi til þess að óumdeilt sé, og þegar staðfest af hálfu stefnda, að sá farmur sem stefndi hafi afhent stefnanda til flutnings hafi ekki verið í nokkru samræmi við þann farm sem tilboð stefnanda 14. maí 2010 hafi byggt á, hvorki hvað varði þyngd né ummál.

Í 74. gr. siglingalaga nr. 34/1985 komi fram að hafi verið flutt á skip meira en um hafi verið samið af þeirri vöru sem samningur taki til skuli gjalda fyrir það sem umfram sé að réttri tiltölu við hitt sem um hafi verið samið. Í 16. gr. skilmála farmbréfs stefnanda, samnings aðila, komi jafnframt fram að flutningsgjöld greiðist af raunverulegum brúttó þunga eða máli við móttöku og reynist upplýsingar viðskiptamanns rangar beri að greiða viðbótarflutningsgjald.

Verði talið að miða eigi við að tilboðið hafi verið gilt, þá telji stefnandi að honum hafi verði rétt að reikna viðbótarflutningsgjald á þá vöru sem stefndi hafi afhent til flutnings. Stefndi hafi óskað eftir tilboði í flutning á fjórum einingum af rörum sem unnt væri að flytja á tveimur fletum 2 x 40 FR og þremur euro brettum um 5.000 kíló, stærð pakkninga 6,2 x 5 x 2,8 metrar og að þyngd bretta yrði um 200 kg. Það sem stefnandi hafi móttekið hafi verið 13 einingar, sem hafi verið fluttar á sex fletum, 6 x 40FR, og verið 15.815 kíló.

Tilboð stefnanda, 108.186,49 sænskar krónur, hafi tekið mið af því að um væri að ræða flutning vöru sem unnt væri að flytja á tveimur fletum, í samræmi við beiðni þar að lútandi, en hinn móttekni farmur hafi verið fluttur á sex fletum og hafi flutningskostnaður farmsins samkvæmt gjaldskrá stefnanda numið 318.974,24 sænskum krónum. Farmurinn hafi verið fluttur á þrisvar sinnum fleiri fletum en tilboðsverðið hafi miðast við. Einnig hafi hinn flutti farmur verið ríflega þrisvar sinnum þyngri en sá farmur sem óskað hafi verið eftir tilboði í flutning á. Óskað hafi verið eftir tilboði í flutning á 5.000 kílóum, en hinn móttekni farmur hafi verið þrisvar sinnum þyngri eða 15.815 kíló. Krafa stefnanda um flutningskostnað nemi rétt tæplega réttri tiltölu við umrætt tilboð, sbr. ákvæði 74. gr. siglingalaga og 16. gr. flutningsskilmála stefnanda eða rétt tæplega þrisvar sinnum hærri fjárhæð en umrætt tilboð hafi kveðið á um.

Farmurinn hafi verið 41,5 % meiri að ummáli en sá farmur sem óskað hafi verið eftir tilboði í flutning á, og hafi stefndi uppreiknað einhliða tilboðsverðið um 41,5% og greitt í samræmi við það og hafi hafnað kröfu stefnanda um að greiða eftirstöðvar flutningsgjaldsins.

Stefnandi mótmæli því alfarið að unnt sé að uppreikna farmgjaldið með hliðsjón af ummálsaukningu umrædds farms, þar sem hin aukna þyngd farmsins og hin aukna stærð hans hafi leitt til talsvert flóknari og umfangsmeiri flutningsaðferða af hálfu stefnanda með tilheyrandi kostnaðaraukningu. Sé því ítrekað mótmælt að stefndi hefði getað uppreiknað tilboðið með þeim hætti sem hann hafi gert. Eðli farmsins og stærð hinna mótteknu eininga og hinn aukni fjöldi fleta, þ.e að í stað tveggja fleta hafi þurft sex fleti til flutnings, hafi einnig leitt til umtalsverðrar aukningar á útlögðum kostnaði ekki síst vegna framhaldsflutnings, sem stefnandi hafi þegar greitt þriðja aðila fyrir.

Í samantekt stefnanda megi sjá í hverju munur á fjárhæð tilboðsins og hins raunverulega flutnings liggi. Vegna stærðar farmsins og einstakra eininga, hafi þurft sex fleti til að flytja farminn til áfangastaðar en farmurinn sé fluttur hluta leiðarinnar með flutningabílum, þ.e. frá Reykjavík til Þingeyrar. Fram komi í tilboðinu að for - og framhaldsflutningur geti breyst án fyrirvara og einnig komi fram að tilboðsverðin taki mið af gjaldskrá stefnanda á útgáfudegi tilboðsins og taki þeim breytingum sem kunni að verða á gjaldskrám stefnanda á gildistímanum. Hefði umrætt tilboð, eða krafa stefnanda vegna flutnings, mögulega numið hærri fjárhæð en fram komi á tilboðinu, jafnvel þó að umræddur farmur hefði verið í samræmi við það sem óskað hafi verið eftir tilboði í flutning á. 

Undir engum kringumstæðum sé unnt að líta svo á að stefnandi sjálfur skuli bera ábyrgð á greiðslu umframkostnaðar vegna aukins magns vöru sem stefndi afhendi til flutnings, sbr. samanburð á tilboði og reikningi vegna umrædds flutnings. Ljóst sé að stefnanda hafi verið rétt að krefja stefnda um greiðslu þess viðbótargjalds sem hið aukna magn vörunnar hafi leitt af sér. Reikningur stefnanda, sem dómkrafa málsins byggi á, sé því bæði í samræmi við ákvæði 74. gr. siglingalaga og skilmála farmbréfsins, sem gilt hafi um flutninginn. Þetta hafi stefnda mátt og átt að vera ljóst sem framleiðanda og sendanda varningsins. Mótmæli stefnandi alfarið þeirri aðferðafræði stefnda við einhliða uppreikning flutningsgjalds að nota einungis rúmmál vörunnar.

Stefnandi bendi á að sérstaklega sé tekið fram í tilboði hans frá 14. maí 2010 (SIS019695) varðandi viðbótargjöld, að greiðslur vegna viðbótarfarms og tryggingargjalds séu reiknaðar í samræmi við hafnarþjónustugjöld á viðkomandi stað. Stefnandi hafni alfarið fullyrðingum stefnda um að líta beri á umræddan farm sem eina heild en ekki sjálfstæðar einingar, enda sjáist skýrt á sjófarmbréfi útfylltu samkvæmt fyrirmælum stefnda að um sé að ræða sjálfstæðar einingar. Stefnandi hafni því enn fremur alfarið að í slíkri yfirlýsingu, hafi hún verið gefin varðandi umræddan farm, felist sönnun um verðgrundvöll tilboðsins. Skýrlega komi fram í beiðni stefnanda um flutning 21. janúar 2010 að miðað væri við að varan væri 5.000 kíló og að varan væri í tiltekinni stærð sem unnt væri að flytja á tveimur fletum og þremur euro-brettum.

Fyrir liggi með skýrum hætti afstaða þess starfsmanns stefnanda sem átt hafi í samskiptum við stefnda til umrædds flutnings. Stefnandi hafni því alfarið að rúmmál vörunnar hafi ráðið tilboðsgerð og að reikna beri verð fyrir umframvöruna eingöngu með hliðsjón af auknu rúmmáli hennar. Stefnandi telji ljóst, að stefnda beri, í ljósi hins aukna farms sem hann hafi afhent stefnanda til flutnings, að greiða stefnanda hina dómkröfðu fjárhæð samkvæmt útgefnum reikningi stefnanda vegna flutningsins.

Um greiðsluskyldu stefnda sé jafnframt vísað til 62. gr. siglingalaga nr. 34/1985 en þar komi fram að taki viðtakandi við farmi, þá skuldbindi hann sig til að greiða farmgjöld og aðrar kröfur sem farmflytjandi geti krafist greiðslu á samkvæmt farmskírteini eða öðru skjali sem segi til um flutning farmsins. Óumdeilt sé að stefndi hafi þegar tekið við öllum þeim farmi sem fluttur hafi verið og reikningar gefnir út vegna. Greiðsluskylda stefnda sé því ótvíræð, en hann hafi ekki sinnt áskorun um greiðslu skuldarinnar.

Vísað sé til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Þá sé vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Enn fremur sé vísað til siglingalaga nr. 34/1995, einkum ákvæða V. kafla um farmflutninga og skilmála farmbréfs stefnanda. Kröfur um dráttarvexti styðji stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísist til 35. og 36. gr., sbr. 43. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 25. kafla farmskírteina stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggi sýknukröfu sína á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Vísað sé til meginreglna um þýðingu tilboða og þess að tilboð séu samþykkt. Bindandi samningur hafi stofnast um flutningaþjónustu stefnanda fyrir stefnda, sem miða verði við í lögskiptum aðila. Þar af leiðandi hafi stefndi efnt allar skyldur sínar gagnvart stefnanda vegna flutningaþjónustunnar.

Flutningaþjónustan hafi verið bundin þeirri sérstöku forsendu af hálfu stefnda að tilboðsverð miðaðist við farminn í heild, þannig að fjöldi eininga eða stærð þeirra skipti ekki máli um verð fyrir hvern rúmmetra. Stefnanda hafi verið þessi forsenda að fullu kunn og að hún hefði verið ákvörðunarástæða fyrir viðskiptum stefnda við stefnanda. Stefnandi hafi gefið stefnda loforð um að verðviðmiðun yrði með þessum hætti. Um þetta vísist til samskipta aðila í janúar 2010. Þá hafi stefnanda verið ljóst, eða hafi að minnsta kosti mátt vera ljóst, að þyngd og stærð farms stefnda tæki breytingum. Það væri þess vegna mikilvægt fyrir stefnda að geta gengið út frá því að endurgjaldið, sem stefnandi áskildi sér fyrir flutningaþjónustuna, breyttist hlutfallslega í takti við breytingar á stærð farmsins.

Í 2. mgr. 74. gr. siglingalaga nr. 34/1985 sé kveðið á um að í þeim tilvikum þegar flutt hafi verið meira á skip en um hafi verið samið af þeirri vöru sem samningur taki til þá skuli gjalda fyrir það sem umfram hafi verið að réttri tiltölu við hitt sem um hafi verið samið. Stefndi hafi greitt fyrir það magn sem umfram hafi verið samkvæmt þessari lagareglu. Taki stefndi undir tilvísun stefnanda til reglunnar í stefnu. Stefndi hafni því hins vegar að 1. mgr. sömu greinar eigi við í málinu, eins og stefnandi haldi fram. Bindandi samningur hafi verið í gildi á milli aðila og hafi gjaldskrá stefnanda því enga þýðingu í málinu. Í þessu sambandi sé bent á að í samskiptum aðila við afhendingu farmsins hafi verið notast við tilvísunarnúmer tilboðsins, SIS019695. Stefnandi hafi þar með viðurkennt gildi tilboðsins. Stefndi hafni einnig almennri tilvísun stefnanda til „skilmála farmbréfa sem giltu um flutninginn“ enda allsendis óljóst við hvaða skilmála sé átt.

Stefndi leggi áherslu á að samkvæmt fyrri tilboðum stefnanda hafi verið gert ráð fyrir að þyngd og stærð farmsins yrði talsvert meiri en raunin hafi orðið. Eigi að síður hafi þau verðtilboð ekki verið nema um 20-30% hærri en tilboð auðkennt SIS019695. Það sé því ekki með nokkurri sanngirni hægt að ætlast til þess að stefndi greiði stefnanda meira en tvöfalda fjárhæð miðað við upphaflega tilboðið. Stefnandi hafi heldur engan áskilnað gert um miklu hærra endurgjald fyrir þjónustuna, færi stefndi ekki í einu og öllu eftir tilboðinu, hvorki áður en að flutningi farmsins hafi komið né eftir að stefndi hafi afhent hann til flutnings. Þvert á móti hafi stefnandi gefið stefnda loforð um að verð miðaðist við heildarstærð farmsins. Þá hafi starfsmenn stefnanda staðfest að farmurinn hafi verið móttekinn og lestaður án vandkvæða miðað við það tilvísunarnúmer sem stefndi hafi gefið upp. Stefndi hafi ekki haft neitt boðvald um það hvernig farmurinn hafi verið lestaður, fluttur eða losaður eða verið gefinn kostur á að hafa áhrif á það. Þannig hafi stefnandi ekki sýnt stefnda þann trúnað og tillitssemi sem aðila að samningssambandi beri að sýna viðsemjanda sínum. Stefnandi verði því sjálfur að bera ábyrgð á meintum tæknilegum vandamálum við flutning farmsins.

Túlkun stefnanda á ákvæði 62. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, sé mótmælt. Svo virðist sem stefnandi túlki ákvæðið þannig að honum sé heimilt að hafa uppi hverjar þær kröfur sem honum sýnist á þeim grundvelli að stefndi hafi tekið við farminum. Ákvæðið færi farmflytjendum ekki aukinn rétt umfram samninga, heldur mæli einungis fyrir um, að sá sem taki við farmi, beri greiðsluskyldu gagnvart farmflytjanda í samræmi við það sem um hafi verið samið.

Stefndi telji ástæðu til að mótmæla þýðingum stefnanda á málsskjölum og tilvitnunum í stefnu á ensku. Öllum kröfum og málsástæðum stefnanda sé mótmælt og þess krafist að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Varakrafa stefnda um verulega lækkun dómkrafna sé reist á öllum sömu málsástæðum og raktar séu til stuðnings sýknukröfu. Verði ekki fallist á sýknukröfu telji stefndi eigi að síður, með vísan til þeirra málsástæðna, að stefnandi verði að bera meiri hluta þess meinta umfram kostnaðar sem af flutningunum hafi hlotist.

Stefndi mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda og telji að dráttarvextir verði í fyrsta lagi reiknaðir frá þingfestingu málsins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Niðurstaða

Mál þetta snýst um ágreining aðila um endurgjald fyrir flutning stefnanda á farmi fyrir stefnda. Farmskírteini er grundvöllur réttarstöðu milli farmflytjanda og viðtakanda farms um flutning og afhendingu vöru samkvæmt 110. gr. siglingalaga, nr. 34/1985. Samkvæmt 62. gr. laganna skuldbindur viðtakandi sig, með viðtöku farms, til að greiða farmgjöld og aðrar kröfur sem farmflytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt farmskírteini eða öðru skjali sem segir fyrir um flutninginn.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi tekið við farminum til flutnings á grundvelli beiðni hans um flutning í janúar 2010 og verðtilboðs frá stefnanda 14. maí sama ár, merktu SIS019695. Stefnandi heldur því fram að ekki hafi komist á samningur á grundvelli þess tilboðs, sem gilti til 13. júní sama ár, þar sem það hafi ekki verið samþykkt af hálfu stefnda á gildistíma þess. Fyrir liggur að aðilar höfðu verið í samskiptum frá því að stefndi óskaði eftir flutningi á farmi í janúar sama ár, eins og rakið er í kafla um málavexti hér að framan. Stefnandi gerði stefnda eitt tilboð í janúar og annað í febrúar og tilboðið, sem gert var 14. maí 2010, var framhald á þeim samskiptum. Þótt ekkert liggi fyrir um að það tilboð hafi sérstaklega verið samþykkt innan tilgreinds frests, þá var engu að síður ritað á sjófarmskírteinið, sem stefnandi gaf út 17. júní sama ár, að farmgjald væri um samið. Verður að telja það staðfestingu á því að tekið væri við farminum til flutnings á grundvelli fyrri samskipta og er nærtækast að telja að áritunin um að farmgjald sé um samið vísi til síðasta verðtilboðs stefnanda.

Í verðtilboðinu, sem nefnt er í löggiltri þýðingu staðfesting á verðtilgreiningu, kemur fram að heildarverðið, 108.186,49 sænskar krónur, er saman sett úr fjórtán mismunandi þar tilgreindum verðþáttum, þar sem einingarverð er tiltekið, þó með þeim fyrirvörum um verðbreytingar, sem fram koma í nánari skilmálum tilboðsins, en þar sagði m.a.:

Vörugjöld og öryggisgjöld vegna vöru eru reiknuð samkvæmt hafnarþjónustugjöldum viðeigandi yfirvalds. Eldsneytisjöfnunarþáttur (BAF) er álag sem tekur mið af sveiflum í verði á eldsneyti til skipa og breytist mánaðarlega. Forflutnings- og áframflutningsgjöld kunna að breytast án fyrirvara. Ofangreind gjöld eru byggð á gjaldskrá Samskipa á þeim degi sem verðtilgreiningin er útgefin og breytast til samræmis við hugsanlegar breytingar á henni meðan á gildistíma stendur.  Verðtilgreiningin er reiknuð út frá gengisaðlögunarþætti farmgjalds eins og hann er á útgáfudegi. Flutningsskilmálar eru byggðir á Incoterms 2000 og almennum skilmálum og skilyrðum flutnings eins og tilgreint er í farmskírteini Samskipa hf.

Þá kemur fram í tilboðinu að vörugjöld og farmverndargjöld væru ekki innifalin í því. Miðað var við að fjöldi gáma/umbúða væri þrjú kollí, brúttóþungi (KGM) væri 5.200 kíló og mál (CBM) væri 130 rúmmetrar. Einingaverð einstakra verðþátta tilboðsins gat tekið mismunandi breytingum eins og tilgreint er í framangreindum skilmálum. Það lá því þegar fyrir, að það heildarverð sem tilboðið fól í sér gat tekið breytingum, þó að forsendur um farminn yrðu óbreyttar.

Ágreiningslaust er að sá farmur sem stefnandi tók til flutnings 17. júní 2010 var sá sem tilgreindur er í farmskírteini. Fjöldi gáma/umbúða var sex (6x1x40FR), fimm þeirra innihéldu eitt kollí hver, en hinn sjötti innihélt átta kollí, samtals 13 kollí. Þyngd farmsins var 15.814 kíló og rúmmál hans 188,8 rúmmetrar. Farmurinn var því ekki í samræmi við þær forsendur sem verðtilboð stefnanda miðaði við. Þá er upplýst að til flutnings vörunnar á landi þurfti sex flutningabíla, en í beiðni stefnda í janúar 2010 var miðað við flutning á tveimur pallvögnum.

Mælt er fyrir um það hvernig fari um fjárhæð farmgjalds þegar svo stendur á í 2. mgr. 74. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, en þar segir: Nú hefur verið flutt á skip meira en um var samið af þeirri vöru sem samningurinn tekur til og skal þá gjalda fyrir það, sem umfram var, að réttri tiltölu við hitt sem um var samið.

Sú greiðsla, sem stefndi hefur innt af hendi fyrir flutninginn, er miðuð við heildarverð tilboðs stefnanda, að viðbættri fjárhæð sem hækki heildarverðið um 41,5%, á þeim forsendum að ummál farmsins hafi verið 41,5% meira en samið var um. Stefndi heldur því fram að orðin að réttri tiltölu í framangreindu ákvæði beri að skilja þannig að gjalda beri fyrir það sem umfram var, sé flutt meira á skip en um hafi verið samið, með þessum hætti. Á þetta getur dómurinn ekki fallist.

Tilboð stefnanda var sett fram í fjórtán mismunandi verðþáttum, auk þess sem það fól í sér að greiða skyldi fyrir tvo aðra þætti, þar sem ákveðið verð var ekki tilgreint. Breytingar á ummáli farmsins hefur mismunandi áhrif á einstaka þætti verðtilboðs stefnanda og það sama má segja um breytingar á þyngd hans og fjölda eininga. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að reikna hlutfallslega hækkun, með þeim rökum sem stefndi styðst við, út frá þeirri fjárhæð sem tilgreind er sem heildarfjárhæð tilboðsins. 

Stefndi hefur bent á að í tilboðum um flutninginn hafi komið fram að farmurinn væri ein heild, Sameinuð vara, eins og segir í þýðingu tilboðsins, það hafi verið ákvörðunarástæða stefnda varðandi flutninginn og stefnanda hafi mátt vera það kunnugt. Í samskiptum aðila sem fyrir liggja kemur fram að farmurinn sé sameinuð vara (enhet) og telst það óumdeilt, en ekki verður séð að sú málsástæða eigi sér stoð í gögnum málsins, að það geti haft þau áhrif að aðeins ummál farmsins skipti máli um útreikning á endurgjaldi að réttri tiltölu fyrir flutning hans.

Stefndi telur að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess að hann greiði meira en tvöfalda þá fjárhæð sem tilboð stefnanda hafi numið. Í þessu sambandi er til þess að líta að sá verðþáttur sem hækkaði hvað mest var flutningur á landi þar sem nota þurfti sex flutningabíla í stað tveggja, sem áætlun, byggð á upplýsingum frá stefnda, gerði ráð fyrir. Þá var farmurinn fluttur í sex gámum í stað þeirra þriggja sem gert var ráð fyrir í tilboðinu. Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt sér þann trúnað og tillitssemi sem aðila að samningssambandi beri að sýna viðsemjanda sínum og bendir á að ekki hafi verið haft samráð við hann um það hvernig farmurinn hafi verið lestaður, fluttur eða losaður. Samkvæmt skilmálum farmskírteinisins ræður farmflytjandi bæði hleðslu og flutningsaðferðum og þarf ekki að tilkynna viðskiptamanni um ákvarðanir sínar þar að lútandi. Stefndi gat því ekki með réttu vænst þess að vera hafður með í ráðum um flutninginn eftir afhendingu farmsins.

Samkvæmt gögnum málsins er reikningur sá, sem stefnandi gaf út 23. júlí 2010 og krefur stefnda í málinu um greiðslu á, í fullu samræmi við þann farm sem fluttur var samkvæmt því farmskírteini sem gefið var út 17. júní 2010. Þá er í reikningnum miðað við þær forsendur sem fram koma í tilboði stefnanda frá 14. maí 2010, að teknu tilliti til fyrirvara í tilboðinu um forsendur breytinga á einingaverði hvers verðþáttar fyrir sig, þar á meðal um að forflutnings- og áframflutningsgjöld kunni að breytast án fyrirvara og að teknu tilliti til skilmála farmskírteinis.

Að öllu framangreindu virtu er fallist á það með stefnda að samningur hafi komist á milli aðila um umræddan flutning og að miða beri við forsendur síðasta verðtilboðs stefnanda við útreikning farmgjaldsins. Einnig er fallist á það með stefnda að 2. mgr. 74. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, eigi við um þann útreikning.

Það er engu að síður niðurstaða dómsins að þetta leiði til þess að stefnda beri að greiða þann reikning sem stefnandi gaf út 23. júlí 2010 og verður því fallist á dómkröfu stefnanda, eins og hún er fram sett, að því er varðar höfuðstól kröfunnar.

Stefndi mótmælir kröfu um dráttarvexti fyrr en frá þingfestingu málsins. Krafa stefnanda byggir á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, en samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Krafist er dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá 23. ágúst 2010, en þá var liðinn mánuður frá dagsetningu reiknings stefnanda. Ekki liggja fyrir gögn um það hvenær stefnda barst reikningurinn, en fyrir liggur að aðilar áttu í samskiptum á haustmánuðum 2010 um fjárhæð reikningsins. Með bréfi lögmanns stefnanda 13. janúar 2011 var stefndi sannanlega krafinn um greiðslu reikningsins og þykir með hliðsjón af framangreindu og með vísun til 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga rétt að miða upphafsdag dráttarvaxta við 13. febrúar 2011.

Í samræmi við framangreinda niðurstöðu málsins, og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðinn er 1.500.000 krónur.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, HOBAS Scandinavia AB, greiði stefnanda, Samskipum hf., 173.626,69 sænskar krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 13. febrúar 2011 til greiðsludags.

Stefndi, HOBAS Scandinavia AB, greiði stefnanda, Samskipum hf. 1.500.000 krónur í málskostnað.