Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2002
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2002. |
|
Nr. 169/2002. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Kristófer Bjarnasyni (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
K var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum. Héraðsdómur taldi að framburður stúlknanna væri trúverðugur en framburður K afar ótrúverðugur. Þegar atvik málsins voru virt í heild þótti með framburði stúlknanna, þrátt fyrir neitun K, vera fram komin sönnun þess að K hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Voru brot hans talin varða við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 209. gr. sömu laga. Var dómur héraðsdóms um þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og miskabætur til stúlknanna því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2002 í samræmi við ósk ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru 19. júlí 2001 og sakfellingar samkvæmt framhaldsákæru 29. október sama ár. Þess er jafnframt krafist, að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til greiðslu miskabóta, eins og krafist var í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa. Þá krefst hann þess, að bótakröfum verði vísað frá dómi, en ella verði hann sýknaður af þeim eða þær lækkaðar.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð vottorð Ólafar Ástu Farestveit uppeldis- og afbrotafræðings frá 29. ágúst 2002 um líðan þeirra þriggja stúlkna, sem ákærði er sakaður um að hafa brotið gegn. Í þeim öllum kemur fram, að stúlkurnar eigi enn við erfiðleika að etja, sem telja megi tengda kynferðislegri misnotkun, og muni þarfnast frekari aðstoðar, þegar fram líða stundir.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en upphafstíma dráttarvaxta af bótakröfum, en fyrir frávísun þeirra hafa ekki verið færð haldbær rök. Við vaxtaákvörðun er þess að gæta, að kröfur stúlknanna voru ekki settar fram eða kynntar ákærða á sama tíma, en rétt þykir að samræmis verði gætt í þessu efni. Skulu dráttarvextir reiknaðir frá þingfestingardegi 28. ágúst 2001, sbr. 2. málslið 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en upphafstíma dráttarvaxta af bótafjárhæðum, sem reiknaðir skulu frá 28. ágúst 2001.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. febrúar 2002.
Mál þetta sem dómtekið var 30. janúar sl. er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. júlí 2001, og framhaldsákæru dagsettri 29. október s.á., á hendur Kristófer Bjarnasyni, [...].
Með ákæru dagsettri 19. júlí 2001 er höfðað mál á hendur ákærða
„fyrir kynferðisbrot með því að hafa, fyrri hluta árs 2000, á heimili sínu, berað kynfæri sín í viðurvist telpnanna X, fæddrar [...] 1989, Y, fæddrar [...] 1989 og Z, fæddrar [...] 1988, reynt að fá X og Y til að snerta kynfæri sín og káfað á líkömum þeirra.
Telst þetta varða við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992 og 82, 1998
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Með framhaldsákæru dagsettri 29. október 2001
„Ákærist Kristófer jafnframt fyrir kynferðisbrot með því að hafa, fyrri hluta árs 2000, á heimili sínu:
1. Nokkrum sinnum káfað á brjóstum og kynfærum Y, ýmist innan klæða eða eftir að telpan hafði afklæðst, og að minnsta kosti þrisvar sinnum stungið fingri inn í kynfæri telpunnar, berað kynfæri sín í viðurvist telpunnar og strokið getnaðarliminn, og í eitt skipti snert nakin kynfæri hennar með getnaðarlimnum.
2. Í eitt skipti stungið fingri í kynfæri X
Telst þetta varða við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Sömu kröfur eru gerðar og í frumákæru.“
Fyrir hönd brotaþola gerir Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður svofellda skaðabótakröfu:
„1. Að ákærði verði dæmdur til að greiða X kr. 500.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 14. júlí 2001 til greiðsludags.
2. Að ákærði verði dæmdur til að greiða Y kr. 500.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá 9. mars 2001 til 1. júlí 2001 og skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
3. Að ákærði verði dæmdur til að greiða Z kr. 350.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá 9. mars 2001 til 1. júlí 2001 og skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Loks er krafist dóms um þóknun réttargæslumanns.“
Verjandi ákærða, Sigurður Sigurjónsson, hæstaréttarlögmaður, krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til vara er krafist vægustu refsingar, sem lög frekast heimila og að hún verði öll skilorðsbundin. Þá er þess krafist að miskabótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærði verði alfarið sýknaður af bótakröfunum og til þrautavara að fjárhæð miskabóta verði lækkuð verulega. Þá krefst verjandinn málsvarnarlauna að mati réttarins.
Málavextir
Fimmtudagskvöldið 24. ágúst 2000 tilkynntu [...], foreldrar X, formanni barnaverndarnefndar í Sveitarfélaginu [...], að kvöldið áður hefði [...] haft samband við þau og greint þeim frá því að dóttir hennar [...] hefði sagt henni frá því að X hefði trúað henni fyrir því að Kristófer Bjarnason, ákærði í máli þessu, hefði haft í frammi kynferðislega áreitni við hana.
Með bréfi dagsettu 29. sama mánaðar óskaði barnaverndarnefnd Sveitarfélagsins [...] eftir því við lögregluna á [...] að fram færi opinber rannsókn vegna gruns um að X hefði orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu ákærða. Í greinargerð sem fylgdi bréfinu kemur fram að þær X og Y hafi verið að þrífa hjá ákærða og að hann hafi berað sig fyrir þeim báðum og beðið þær um að koma við sig en þær ekki gert það. Þá hafi hann einnig farið með höndina ofan í buxur X.
Hinn 2. nóvember 2000 var ákærði yfirheyrður af lögreglu vegna gruns um meint kynferðisbrot gagnvart X en hann neitaði alfarið sök. Kvað hann X og Y hafa komið óbeðnar á heimili sitt og boðist til að þrífa gegn greiðslu. Þær hafi komið oft í fyrravetur og síðast í apríl eða í byrjun maí.
Vegna hins meinta kynferðisbrots var 10. s.m. tekin skýrsla af X fyrir dómi í Barnahúsi. Hún átti erfitt meðan á yfirheyrslunni stóð og grét af og til. Aðspurð um ástæðu þess að hún væri þangað komin svaraði hún: “Það var reynt að fara inn á okkur og fá okkur til að káfa á tippinu á sér og það var ekki meir.” Kvað hún þann sem það gerði hafa verið ákærða í máli þessu. Hún kvaðst hafa kynnst ákærða þegar hún var að leika sér með Y og [...] frænku hans og þær fóru í heimsókn til hans. Síðan hafi hún farið oftar með Y en þær hafi einnig stundum heilsað upp á ákærða ásamt Z. Kvaðst hún halda að hún hafi farið fimm sinnum til ákærða eða sjaldnar. Ákærði hafi stundum beðið þær að taka til hjá sér og hafi þær gert það. Þegar þetta gerðist hafi hún, Y og Z verið heima hjá ákærða að kvöldi til síðastliðinn vetur að hana minnti. Þær hafi setið ásamt ákærða í sófa í sjónvarpsherberginu. Hún muni ekki í hvaða röð þau sátu en ákærði hafi setið hjá Z. Aðspurð um hvað ákærði hafi gert við hana svaraði hún að hann hefði gert það sama við hana og hinar stelpurnar. Ákærði hafi reynt að fara inn á þær á milli fóta (klofið) en ekki tekist það. Þær hafi beðið hann að hætta en hann ekki gert það. Þær hafi setið áfram í sófanum en ákærði farið fyrir framan sjónvarpið og gyrt niður um sig bæði buxurnar og nærbuxurnar. Hann hafi endalaust tekið í hendurnar á þeim og reynt að pína þær til að káfa á tippinu á sér en ekki tekist það. Hún hafi slegið til hans og haldi að hinar stelpurnar hafi gert það líka. Þær hafi náð að komast út. Hún kvaðst ekki hafa séð tippið á ákærða af því að hún hafi tekið fyrir augun á sér og hún haldi að stelpurnar hafi gert slíkt hið sama. Þetta hafi gerst fyrir páska en þær hafi hætt að heimsækja ákærða eftir þetta. Aðspurð kvað hún ákærða hafa gefið þeim pening einu sinni, hundraðkall eða fimmtíukall og halda að hann hafi gefið þeim peninginn til að reyna að fá þær til að koma aftur til hans.
Hinn 8. janúar 2001 var tekin skýrsla af Y fyrir dómi í Barnahúsi. Hún átti mjög erfitt í yfirheyrslunni og var mjög treg til að tjá sig um það sem gerðist. Oftast svaraði hún spurningum með höfuðhreyfingum. Þegar yfirheyrandi gerði henni grein fyrir að það væri mjög mikilvægt að hún tjáði sig um það sem gerðist ef hún gæti þá þagði hún fyrst en sagði síðan: “Ég fór aldrei ein svo getur þú ekki spurt hinar stelpurnar.” Hjá henni kom fram að hún hafi oft þegar hún var lítil farið með [...] vinkonu sinni til ákærða en hann sé frændi [...] en að þá hefði ekkert gerst. Síðan hafi hún farið með X og Z. Aðspurð um hvort þá hafi eitthvað gerst kinkaði hún kolli. Hún jánkaði því þegar hún var spurð að því hvort henni þætti erfitt að tala um það sem gerðist og kvaðst engum hafa sagt frá því. Aðspurð um hvort þetta hafi gerst oftar en einu sinni þagði hún fyrst en sagðist síðan halda ekki. Þegar hún var beðin um að segja frá því sem gerðist þegar hún fór með X og Z til ákærða hristi hún höfuðið. Hún svaraði ekki þegar hún var fyrst spurð hvort ákærði hefði gert eitthvað við hana. Þegar hún var svo spurð að því hvort hún gæti ekki svarað eða vildi það ekki kvaðst hún ekki vilja tala um þetta mál og helst vilja gleyma því, en tók fram að X hefði ekki getað gleymt því. Aðspurð um það hvort hún hefði gleymt því kinkaði hún kolli. Hún þagði þegar sagt var við hana “en það er eitthvað sem þú manst ennþá” en kinkaði síðan kolli. Spurningum varðandi það hvort ákærði hefði gert eitthvað við X eða hana svaraði hún ekki. Þegar hún var spurð að því hvort hún hefði séð ákærða fara úr fötunum eða sýna sig þagði hún fyrst en kinkaði síðan kolli. Aðspurð um hvort hún gæti sagt aðeins frá því hristi hún höfuðið. Hún kinkaði kolli þegar hún var spurð að því hvort ákærði hefði farið úr að neðan. Hins vegar hristi hún höfuðið þegar hún var spurð að því hvort ákærði hefði farið úr buxunum. Síðar þegar hún var spurð sömu spurningar kinkaði hún aftur á móti kolli. Aðspurð um hvort hún hafi séð tippið á ákærða kinkaði hún kolli, en hristi höfuðið þegar hún var spurð að því hvort hún hefði komið við það. Aðspurð um hvort þau hafi öll verið inni í sama herbergi kinkaði hún kolli. Aðspurð um hvort ákærði hafi gert eitthvað við hana þagði hún fyrst en þegar spurningin var endurtekin kinkaði hún kolli og svaraði því til að það hefði verið eftir að hann sýndi á sér tippið. Hún hristi höfuðið þegar hún var spurð að því hvort hún treysti sér til að segja frá því sem ákærði gerði. Spurð að því hvort að hann hafi komið við hana kinkaði hún kolli en hristi höfuðið þegar hún var spurð að því hvort hún gæti sagt frá því hvar hann kom við hana. Sömuleiðis hristi hún höfuðið þegar hún var spurð að því hvort hún gæti sagt frá því hvort það hefði verið fyrir utan eða innan fötin. Aðspurð um hvort ákærði hafi áður reynt að gera svona við hana þagði hún en hristi höfuðið þegar hún var spurð hvort hann hefði reynt að gera eitthvað eftir þetta.
Z var einnig yfirheyrð fyrir dómi í Barnahúsi 8. janúar 2001. Hún snökti mikið og var í uppnámi alla skýrslutökuna og var framburður hennar á köflum ruglingslegur. Hún kvaðst hafa farið oft til ákærða en Y hefði fundið upp á því að heimsækja hann. Kvaðst hún halda að hún hefði heimsótt hann þrisvar með Y og X. Í fyrsta skiptið sem hún kom til ákærða með þeim hafi Y byrjað með fíflalæti og svo hefði X líka verið með fíflalæti inni í herbergi hjá ákærða. Ákærði hefði orðið svolítið reiður og hún farið út úr herberginu með honum en stelpurnar hafi viljað að hún væri áfram inni. Hún hafi orðið ofboðslega hrædd. Aðspurð um hvers vegna hún hafi orðið hrædd greindi hún frá því að þetta hefði byrjað með því að Y hafi farið að fíflast og svo hefði ákærði káfað á Y og X en ekkert á henni. Þær hafi farið heim en áður hafi ákærði gefið þeim pening. Aðspurð kvað hún ákærða oft hafa gefið þeim peninga en misjafnlega mikið. Þá greindi hún frá því að í annað skipti hafi ákærði farið inn í herbergi með Y og X en að hún hafi beðið fyrir utan. Y hafi alltaf verið að reyna að ná í smokka frá ákærða og hafi hann látið þær fá smokka. Hún svaraði því játandi þegar hún var spurð að því hvort hún hefði séð ákærða káfa á Y. Aðspurð um það hvað hún sá kvaðst hún muna það að ákærði hafi káfað á Y og X utan fata en ekkert á henni. Y og X hafi beðið ákærða að fara úr fötunum og hafi hann gert það. Hann hafi farið bæði úr buxunum og nærbuxunum. Hún hristi höfuðið þegar hún var spurð að því hvort hún hefði séð tippið á honum og kvaðst ekki hafa séð það af því að hún hafi beðið frammi eftir þeim. Hún hafi vitað að ákærði fór úr fötunum af því að X og Y sögðu henni það þegar þær komu út úr herberginu. Þá hafi Y í annað skipti farið úr fötunum þegar ákærði hafi sagt henni að gera það. Aðspurð um það hvort hún hafi einhvern tíma séð ákærða fara úr fötunum kvað hún það hafa gerst einu sinni. Áður en ákærði hafi farið úr fötunum hafi hann spurt X og Y hvort hann mætti fara úr þeim og þær þá sagt nei en hann bara sagt “okey” þá fer ég úr fötunum. Í það skipti hafi hún séð á honum tippið. Ákærði hafi sagt X og Y að koma við tippið á sér og hafi þær gert það önnur í einu. Fyrst X og hafi hún strokið á honum tippið í hálftíma á undan Y. Spurð um hvort hún hafi horft á það kvaðst hún hafa labbað út og hafa verið úti allan tímann. Nánar aðspurð kvað hún ákærða aldrei hafa komið við hana né beðið hana að snerta á sér tippið. Ákærði hafi bannað henni að segja frá þessu og sagt “þú skalt ekki voga þér að tala um þetta þá drep ég þig”. Hann hafi líka sagt það við hinar stelpurnar. Sérstaklega aðspurð kvaðst hún halda að þetta hafi gerst á árinu 1999.
Ákærði var á ný yfirheyrður hjá lögreglu 12. mars 2001. Þá kom fram hjá honum að stúlkurnar hefðu síðast komið til hans í apríl eða byrjun maí 2000. Hann neitaði að hafa farið úr fötunum fyrir framan þær og kvaðst ekki hafa káfað á þeim. Þá neitaði hann að stúlkurnar hefðu komið við kynfæri hans. Aðspurður um hvort einhver stúknanna hefði farið úr fötunum heima hjá honum kvað hann þær hafa gert það þegar þær voru að leika sér heima hjá honum að kvöldi til og að það hefðu líklega verið Y og X sem gerðu það. Hann hafi ekki beðið þær að fara úr fötunum. Þær hafi afklæðst í holi þar sem að hann sé með sjónvarpið og hafi leikur þeirra verið fólginn í því að þær hafi legið naktar til skiptis hvor ofan á annarri á gólfinu. Hann hafi setið í sófanum við hlið Z og haft gaman af. Hann haldi að þær hafi ekki áður afklæðst heima hjá honum.
Í bréfi Ólafar Ástu Farestveit, sérhæfðs rannsakanda dagsettu 21. september 2001 til barnaverndarnefndar [...] kemur fram að eftir skýrslutöku af Y í Barnahúsi 8. janúar 2001 hafi ekki verið óskað frekari afskipta Barnahúss fyrr en tilvísun hafi borist 6. september 2001 um greiningu og meðferð fyrir hana. Hafi Y sótt 2 greiningarviðtöl þann 12. september og 20. september 2001. Í bréfinu kemur m.a. fram að Y hafi greint frá því að ákærði hefði misnotað hana í u.þ.b. 5 skipti og hafi lýst því þannig að hann hafi fært hana úr fötunum eða sagt henni að gera það og hafi svo káfað á brjóstum hennar, kynfærum og einnig reynt að setja lim sinn í kynfæri hennar en ekki tekist. Y finni til ábyrgðar á því sem gerðist og hafi mjög mikla sektarkennd af þeim sökum eins og algengt sé meðal barna sem þolað hafa kynferðislega áreitni/ofbeldi. Hún segist hafa farið mjög oft inn á heimili ákærða en misnotkunin hafi ekki átt sér stað í hvert skipti. Y segist ávallt hafa fengið pening hjá ákærða og hafi það ávallt verið 100 krónur.
Vegna upplýsinga þeirra sem fram komu í bréfi Ólafar Ástu Farestveit óskaði ákæruvaldið þess, með bréfi dagsettu 24. september 2001, með vísan til lokaákvæðis 2. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, að tekin yrði skýrsla að nýju af Y fyrir aðalmeðferð málsins. Þar sem dómari taldi ástæðu til að verða við beiðninni var þinghaldi sem ákveðið hafði verið til aðalmeðferðar málsins miðvikudaginn 26. september 2001 frestað.
Hinn 11. október 2001 var aftur tekin skýrsla fyrir dómi af Y í Barnahúsi. Þá greindi hún frá því að ákærði hefði bæði káfað á brjóstum hennar og kynfærum innan fata. Hún kvað það hafa gerst nokkuð oft, kannski fimm sinnum, í tveimur herbergjum hússins og eldhúsi í kringum árið 2000. Beðin um að greina frá því atviki sem henni finndist alvarlegast svaraði hún því til að það hafi verið þegar þau hafi verið í öðru herberginu og ákærði hafi káfað á henni og reynt að setja tippið á sér inn í hana. Hann hafi tosað niður um hana buxurnar og tekið buxurnar niður um sig. Þau hafi bæði staðið og hann reynt að setja tippið inn í hana en ekki getað það. Hún hafi séð á honum tippið sem hafi komið við kynfæri hennar en ekki farið inn í þau. Hann hafi ekkert sagt við hana og ekki látið hana snerta sig en af því að hann hafi ekki getað sett tippið inn í hana, hafi hann sagt henni að koma aftur einni. Þegar þetta gerðist hafi stelpurnar verið nýfarnar út úr herberginu. Ákærði hafi snert brjóst hennar og kynfæri og hún séð á honum tippið. Upphaflega hafi ákærði beðið þær allar að koma inn í herbergið og látið þær fara úr fötunum. Þær hafi staðið fyrir framan sófann og ákærði setið og horft á þær. Eftir svona hálftíma hafi þær farið aftur í fötin og farið út úr herberginu. Síðan hafi hún og ákærði farið aftur inn í herbergið. Hún kvaðst ekki muna það alveg en halda að fyrst hafi ákærði tekið niður um sig buxurnar meðan þær voru allar inni í herberginu og svo þegar þau voru bara tvö þar. Tippið á ákærða hafi verið beint og hafi hann strokið það nokkrum sinnum. Hún jánkaði því aðspurð að ákærði hefði látið hana koma við tippið á sér.
Beðin um að greina frá því sem síðast hafi gerst heima hjá ákærða greindi hún frá því að ákærði hafi káfað á brjóstum hennar og kynfærum í herberginu sem hann sofi í. Kvað hún X og Z þá hafa verið frammi að horfa á sjónvarpið. Spurð um hvort ákærði hafi sett fingur inn í kynfæri hennar kinkaði hún kolli. Hún kvað það líka einu sinni hafa gerst þegar X var með henni. Hann hafi gert það við þær báðar og hafi þær þá verið í rúminu hans. Ákærði hafi setið á rúmstokkinum. Hún viti að hann hafi gert það við X því hún hafi séð það. Ákærði hafi bara einu sinni gert þetta við X. Aðspurð kvað hún þær sjálfar hafa tekið buxurnar niður um sig en líklega hafi ákærði sagt þeim að gera það.
Þá hafi þetta gerst einu sinni í eldhúsinu hjá ákærða. Hún hafi setið í fanginu á ákærða og þá hafi hann káfað á kynfærum hennar innan fata. Aðspurð um hvernig hann hafi getað það svaraði hún því svo til að hann hafi líklegast tekið niður um hana buxurnar. Aðspurð um hvort að ákærði í þetta skipti hafi sett fingur inn í kynfæri hennar kinkaði hún kolli. Hún haldi að báðar stelpurnar hafi verið í eldhúsinu þegar þetta gerðist.
Með bréfi ríkissaksóknara dagsettu 12. október 2001 var óskað eftir því að X kæmi að nýju fyrir dóm til skýrslutöku fyrir aðalmeðferð málsins. Var skýrsla tekin af henni fyrir dómi í Barnahúsi 29. október 2001. Greindi hún frá því að ákærði hefði reynt að fara inn á hana og Y og fá þær til að koma við tippið á sér. Þegar það gerðist hafi þær setið í sófanum hjá honum og verið að horfa á sjónvarpið og hafi Y setið á milli hennar og ákærða. Fleiri hafi ekki verið þar. Beðin um að greina nánar frá þessu atviki kvaðst hún halda að hún gæti það ekki. Síðan skýrði hún frá því að ákærði hefði bara reynt að komast inn á hana og Y og svo hafi hann reynt að fá þær til að koma við tippið á sér. Aðspurð um hvar hann hafi reynt að komast inn á þær benti hún á klofið á teikningu sem yfirheyrandi sýndi henni. Aðspurð um hvort eitthvað hafi gerst í fleiri herbergjum hússins neitaði hún því. Þegar hér var komið sögu í yfirheyrslu var X farin að gráta og var hlé gert á yfirheyrslu. Þegar hún eftir hlé var spurð hvort hún gæti sagt nánar frá því sem gerðist hristi hún höfuðið grátandi en hún grét meira og minna það sem eftir var yfirheyrslu og átti mjög erfitt með að tjá sig. Aðspurð um hvort ákærði hefði sett fingur inn í kynfæri hennar hristi hún höfuðið mjög ákveðið og svaraði síðan aðspurð nei. Aðspurð um hvort ákærði hafi einhvern tíma látið hana afklæðast svaraði hún því neitandi. Þegar henni var kynnt að Y hefði sagt að hann hefði gert það svaraði hún því til að það hafi þá gerst þegar hún var ein eða með einhverjum öðrum. Hún muni allavega ekki eftir því. Aðspurð um það hvort hún hefði farið inn í svefnherbergi ákærða með Y kvaðst hún ekki muna það.
Í framhaldi af skýrslutökunum 11. og 29. október 2001 gaf ríkissaksóknari út framhaldsákæruna í málinu.
Fyrir dómi neitaði ákærði sakargiftum og kvaðst ekki kannast við að hafa framið þá háttsemi sem í ákæruskjölum greinir. Kvaðst hann ekkert hafa gert við stúlkurnar nema það hafi verið að vilja þeirra. Hann hafi ekkert gert stúlkunum og hvorki berað kynfæri sín í viðurvist þeirra né reynt að snerta þær eða reynt að fá þær til að snerta sig. Þá kvaðst hann ekki hafa fækkað fötum í návist þeirra, en sagði að þær hefðu hins vegar mörgum sinnum fækkað fötum í viðurvist hans. Hann kvaðst ekki hafa þekkt stúlkurnar, þó hefði ein þeirra eitthvað komið til hans áður með frænku hans. Um aðdraganda að kynnum þeirra sagði ákærði að hann hefði ekki haft nokkurn frið fyrir þeim. Þær hefðu alltaf verið að djöflast á hurðinni hjá honum og tína inn klámrit og símanúmer nektarstaða úr Dagblaðinu. Á endanum hefði hann hleypt þeim inn en þær ekkert kannast við að þessi rit væru frá þeim komin. Þær hefðu boðist til að taka til hjá honum gegn greiðslu og hefði hann þegið það. Það hefði verið saklaust. Kvaðst hann hafa greitt hverri stúlku u.þ.b. 100-200 krónur. Sérstaklega aðspurður um ástæðu þess að hann hleypti stúlkunum inn til sín kvaðst ákærði í gegnum áratugi alltaf hafa tekið vel á móti börnum. Börn hefðu sótt til hans og hann umgengist börn mikið. Hann hafi alltaf haft börn í vinnu en aldrei fengið kvörtun.
Hann kvað stúlkurnar oft hafa komið til sín á nokkurra vikna tímabili. Þær hefðu þó ekki komið í hverri viku og stundum hefði hann ekki hleypt þeim inn. Síðustu skiptin sem þær komu hafi þær svo farið að færa sig upp á skaftið og rifið sig úr fötunum. Hann hafi ekki beðið þær að fara út fötunum og ekki narrað þær til þess. Þær hefðu verið í smástund í hvert skipti sem þær komu, e.t.v. upp í hálftíma. Aðspurður hvort þær hefðu lokið hreingerningum á hálftíma sagðist ákærði ekki hafa verið kröfuhraður. Z hefði verið duglegust, hún hefði þurrkað úr gluggum og það hefði verið sópað og ryksugað. Þær hefðu hins vegar verið orðnar slappar í hreingerningum þegar þær tóku upp á því að klæða sig úr. Í síðasta skiptið sem þær komu hafi X og Y strax rifið sig úr fötunum og leikið stúlkur eins og þær sem eru í sýningum á súlum í Reykjavík. Hins vegar hefði Z ekki farið úr fötunum, enda sé hún heiðarlegust af þeim. Aðspurður um viðbrögð hans við því þegar stúlkurnar voru að afklæðast sagði ákærði að sér hefði verið alveg sama. Hann hafi tekið því með jafnaðargeði og ekki gert tilraun til að mótmæla því. Honum hafi ekkert fundist athugavert við framkomu þeirra. Aðspurður um hvort það sé rétt sem fram kemur í framburðarskýrslu sem hann gaf hjá lögreglu, að hann hefði haft gaman af, svarði ákærði, „ja, því ekki það.“ Fram kom hjá ákærða að stúlkurnar hefðu ekki haft í frammi kynferðislega tilburði við hann þegar þær voru naktar og hann kvaðst ekki hafa orðið fyrir kynferðislegri örvun við að horfa á þær. Nánar aðspurður um það hvernig stúlkurnar hefðu hagað sér þegar þær voru naktar sagði ákærði að þegar hann hefði verið að horfa á sjónvarpið í holinu með Z, hefðu þær legið á gólfinu hvor ofan á annarri til skiptis. Þær hefðu líka verið naktar í hjónaherberginu, en á þeim tíma kvaðst ákærði hafa sofið í herberginu við hliðina á hjónaherberginu. Þær hefðu líka fækkað fötum í því herbergi í rúmi hans, en aðallega legið í rúmi í hjónaherberginu. Þær hefðu sleikt hvor aðra “og svoleiðis”. Hann hefði fylgst með því, enda hefði það verið saklaust og ekkert komið honum við. Ákærði vékst undan að svara því hver hefði verið aðdragandi þess að þær fóru úr fötunum og sagði rétt að spyrja Z um það. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hvers vegna þær fækkuðu fötum, hann hefði ekki ýtt undir það. Hann ítrekaði að hann hefði ekkert gert, þær hefðu bara byrjað og Z væri til vitnis um það. Á meðan hefði hann bara verið að horfa á sjónvarpið. Í síðasta skiptið sem þær komu hafi honum ofboðið og hann orðið reiður. Hann hafi þjófkennt þær til að losna við þær en það hefði hann átt að hafa gert miklu fyrr. Eftir að hann gerði það hefðu þær ekki komið aftur. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vilja segja hvað það var sem hann taldi að þær hefðu stolið frá honum. Hann kvað þær hafa verið rólegar þegar þær fóru, en mörgum mánuðum síðar hefði verið hringt í hann frá lögreglu vegna kæru um kynferðislega áreitni. Kvaðst ákærði telja skýringu á framburði stúlknanna vera þá að þær hefðu brugðust reiðar við þegar hann þjófkenndi þær.
[...], faðir X, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvað X ekki hafa þorað að segja foreldrum sínum frá málinu og verið hrædda um að þau yrðu reið en sagt vinkonu sinni frá því og samþykkt að hún segði mömmu sinni frá því og að mamman segði foreldrum X síðan frá því. Þannig hafi hann og móðir hennar fengið vitneskju um málið. Þau hafi lagt áherslu á það við X að hún hafi ekki gert neitt rangt, en ekki reynt að fá hana til segja frá, enda vilji hún ekki ræða þetta mál og sé alveg lokuð. Atburðurinn hafi haft þau áhrif á X að hún hafi orðið mjög skapstygg. Þá eigi hún það til að hreyta í þau, sem hún hefði ekki gert áður. Þeim hafi verið kunnugt um að stúlkurnar væru að þrífa hjá ákærða og fengju sælgæti í staðinn.
[...], móðir Y, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hún greindi frá því að hún hefði fengið vitnesku um málið þegar [...], faðir X, sagði henni frá grunsemdum sínum. Hún kvaðst hafa reynt að ræða málið við Y en hún hafi ekki viljað ræða það og brotnað niður í hvert skipti. Kvað hún Y hafi breyst og vera óttaslegna. Þá sé hún með mikla vanmáttarkennd og full sjálfsásökunar. Y tengist fjölskyldu ákærða, þar sem að vinkona hennar [...] sé frænka hans, og telji hún að sér verði kennt um hvernig fór. Þegar Y var 6-7 ára, hafi hún sótt í að fara heim til ákærða með [...] frænku hans. Hafi Y alltaf verið með sælgæti, enda fengið peninga frá ákærða. Hún kvaðst hafa bannað henni að fara til ákærða þar sem að hún þekkti hann ekkert. Hún kvaðst ekki hafa vitað að Y væri aftur farin að venja komur sínar til ákærða.
[...], faðir Z, gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst fyrst hafa heyrt um málið heima fyrir en ekki hafa rætt það við Z. Hún hafi bara rætt það við móður sína og systur. Hann kvaðst ekki hafa merkt að það hefði haft áhrif á hana að ráði, e.t.v. sé hún þó heldur hlédrægari. Hann hafi vitað að Z og hinar stúlkurnar tvær voru eitthvað við heimili ákærða að sumar- og haustlagi en kvaðst ekki hafa vitað að þær hefðu verið inni hjá honum.
Ragna Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi, gaf skýrslu fyrir dóminum en hún hafði X í viðtalsmeðferð í sex skipti á tímabilinu 24. nóvember 2000 5. febrúar 2001. Hún kvað það mat sitt að X hafi ekki verið meðferðarhæf þegar viðtalsmeðferðinni lauk því hún hefði ekki verið tilbúin til að tala um það sem gerðist. X hafi fengið fræðslu og farið hefði verið yfir fyrirbyggandi þætti. Hún hafi lokað á tilfinningar og hugsanir sem tengdust ofbeldinu. Hún hafi ekki uppfyllt öll skilyrði áfallastreitu, en uppfyllt ákveðna þætti eins og t.d. hliðrun, þ.e. að vilja ekki hugsa um atburðinn heldur loka á hann. Hún hafi hins vegar viðurkennt að það væri erfitt og henni liði illa þegar hún væri minnt á þennan atburð, en hún hefði alls ekki viljað ræða um hann. X hafi staðfest við hana að atburðurinn hefði gerst á þann hátt sem hún lýsti í dómskýrslutöku, en ekki viljað lýsa honum í meðferðarviðtölunum. Hún hafi verið reið og pirruð yfir nánast öllu í umhverfi sínu en það sé sterkt einkenni hjá barni sem líði illa. Þá hafi hún talað illa um skólastjórann, krakka og foreldra sína og borið merki vanlíðunar þó hún hafi ekki viljað viðurkenna það beinum orðum. Hvorki hafi komið fram hjá henni né foreldrum hennar önnur möguleg skýring á vanlíðan hennar en sá atburður sem mál þetta fjalli um. Þó hafi rétt á undan orðið dauðsfall í fjölskyldunni, annað hvort andlát ömmu hennar eða afa en X hafi heldur ekki heldur viljað talað um það. Aðspurð sérstaklega hvort hún hefði merkt það að X hefði orðið fyrir kynferðisbroti kvað hún það að vilja ekki tala um málið sé þekkt einkenni.
Ólöf Ásta Farestveit, starfsmaður Barnahúss, kom fyrir dóminn en hún hafði Y og Z í meðferð en ekki var óskað eftir greiningu og meðferð fyrir þær fyrr en 6. september 2001. Hún kvaðst hafa unnið í sjö ár við meðferð á börnum sem orðið hefðu fyrir kynferðislegu áreiti og í Barnahúsi frá því í maímánuði 2001. Auk þess að vera BA í uppeldis- og afbrotabræði kvaðst hún hafa stundað nám í barnasálfræði og barnamyndgreiningu. Kvað hún Z í fyrsta viðtali hafa sagt frá því sem gerðist á svipaðan hátt og í dómskýrslutöku. Hún hefði þó borið við minnisleysi og verið í vörn, liðið illa og tárast. Á þeim tíma hefði hún ekki verið meðferðartæk vegna þess að hún treysti sér ekki til að tala um það sem gerðist og vegna þess að hún sé aftarlega greindarlega miðað við jafnaldra sína. Meðferðin hefði því einkennst af fræðslu. Kvað hún Z bera merki þess að hafa orðið fyrir reynslu af þessum toga.
Y hefði í fyrsta viðtali sagt sér að hún hefði ekki sagt frá öllu sem gerðist í dómskýrslutökunni. Hún hafi átt erfitt með að ræða þetta, grátið og ekki getað horfst í augu við hana fyrr en eftir að hún hafði sagt henni allt það sem fram kom síðar í dómskýrslutökunni. Um áhrif málsins á Y, kvað hún hana fyrst hafa verið mjög hrædda og verið með ýmis einkenni sem börn hafa sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun og nefndi eftirfarandi í dæmaskyni. Hún hafi aldrei eftir atburðinn gengið fram hjá húsinu þar sem ákærði býr heldur tekið sveig framhjá því á leið til vinkonu sinnar. Hún hafi forðað sér ef hún sá ákærða álengdar. Þá hafi klæðnaður hennar ekki verið í samræmi við aldur. Í upphafi meðferðar hafi hún klætt sig til að vekja athygli á líkama sínum, t.d. verið í flegnum klæðnaði, en það hafi breyst þegar líða tók á meðferðina. Loks sé þess að geta að Y hafi upplifað reiði, sorg og hræðslu og í viðtölum hafi líka borið á sjálfsásökun. Hún kenni sér um hvernig fór. Hún hefði farið aftur og aftur og það hafi verið ástæða þess hve erfitt hún hafi átt með að ræða um þetta. Kvað hún Y bera öll merki þess að hafa orðið fyrir reynslu af þessum toga.
Vitnið kvaðst fjórum sinnum hafa rætt við X eftir seinni dómskýrslutökuna 29. október 2001, enda hefði hún reynst X mjög erfið. Hún hafi verið í afneitun og ekkert viljað ræða um það sem fram kom í skýrslutökunni. X bæri einnig öll merki þess að hafa orðið fyrir reynslu af þessum toga.
Mat sitt á því að stúlkurnar hefðu orðið fyrir kynferðisbroti kvað hún styðjast við viðbrögð þeirra í meðferðinni, hræðslu, ótta og erfiðleika við að segja frá þessu. Þá hefði Y í þremur viðtölum sagt henni að hún hefði sagt satt og rétt frá og staðfest frásögn sína og því hafi hún metið þær trúverðugar hvað þetta varðar.
Niðurstaða
Ákæra dags. 19. júlí 2001
Málið kom upp í ágúst 2000 er foreldrar X tilkynntu barnaverndarnefnd í Sveitarfélaginu [...] að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða.
X var yfirheyrð fyrir dómi 10. nóvember s.á. Hún átti fremur erfitt með að tjá sig en lýsti þó nokkuð skilmerkilega tilteknu tilviki fyrri hluta árs 2000. Kvaðst hún hafa setið ásamt Y, Z og ákærða í sófa á heimili hans. Ákærði hefði þá reynt að fara inn á þær á milli fóta þeirra. Síðan hafi hann berað kynfæri sín fyrir framan þær og reynt að fá þær til að snerta þau. Við síðari yfirheyrslu fyrir dómi 29. október 2001 greindi hún einnig frá tilviki er ákærði hefði reynt að komast inn á hana og Y og fá þær til að koma við kynfæri sín en ekki þykir ljóst hvort um sama tilvik er að ræða.
Y var afar treg til að tjá sig við fyrstu yfirheyrslu fyrir dómi 8. janúar 2001 og kvaðst ekki treysta sér til að tjá sig um atvik. Þegar spurningar voru lagðar fyrir hana svaraði hún þeim yfirleitt með höfuðhreyfingum. Þannig kinkaði hún kolli þegar hún var spurð um hvort hún hefði séð ákærða bera sig að neðan og hvort hún hefði séð á honum kynfærin. Þá kinkaði hún kolli þegar hún var spurð að því hvort ákærði hefði gert eitthvað við hana. Hins vegar tjáði hún sig nokkuð greiðlega við seinni yfirheyrslu 11. október 2001 og greindi frá því að ákærði hefði nokkuð oft káfað á brjóstum hennar og kynfærum innan fata. Hún greindi frá tilteknu tilviki þegar ákærði káfaði á brjóstum hennar og kynfærum og lét þær allar fara úr fötunum og tók niður um sig buxurnar að þeim viðstöddum. Aðspurð jánkaði hún því að ákærði hefði látið hana koma við kynfærin á sér í umrætt sinn.
Z var í miklu uppnámi við yfirheyrslu fyrir dómi 8. janúar 2001 og var meira og minna snöktandi. Var framburður hennar nokkuð samhengislaus en svo virðist sem hún lýsti fleiri tilvikum en X og Y. Í framburði hennar kom fram að hún hefði tvisvar séð ákærða káfa á Y og X utan fata. Þá hefði hún séð ákærða fara úr fötum og séð á honum kynfærin. Kvað hún ákærða hafa sagt Y og X að koma við kynfærin á sér. Þá greindi hún frá tilviki þar sem Y og X hefðu sagt henni frá því að ákærði hefði farið úr fötum.
Ákærði hefur alfarið neitað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Við fyrri yfirheyrslu hjá lögreglu 2. nóvember 2000 kvað hann X og Y hafa komið óboðnar til sín og hafa boðist til að þrífa gegn greiðslu. Hefðu þær komið nokkuð oft og síðast í apríl eða byrjun maí 2000. Við síðari yfirheyrslu hjá lögreglu 12. mars 2001 lýsti hann því að stúlkurnar hefðu í eitt skipti afklæðst þegar þær voru í heimsókn hjá honum að kvöldi til og leikið sér að því að leggjast naktar til skiptis ofan á hvor aðra á gólfinu í holinu þar sem sjónvarpið er. Hann hafi setið í sófanum við hlið Z og haft gaman af.
Við yfirheyrslu fyrir dómi kvaðst hann ekkert hafa gert við stúlkunar nema með vilja þeirra. Í síðustu skipin sem þær komu til hans hafi X og Y tekið upp á því að afklæða sig og í síðasta skiptið hafi þær strax rifið sig úr fötunum og leikið stúlkur eins og á súlustöðum í Reykjavík. Honum hafi verið alveg sama þó að þær gerðu það og tekið því með jafnaðargeði og enga tilraun gert til að koma í veg fyrir það enda ekkert fundist athugavert við framkomu þeirra. Kvað hann stúlkurnar hafa legið á gólfinu hvor ofan á annarri til skiptis og sleikt hvor aðra “og svoleiðis”. Hann hafi fylgst með því enda hafi það verið saklaust og ekkert sem honum kom við. Aðspurður um hvort hann hafi haft gaman af svaraði hann “ja, því ekki það”. Í síðasta skipti sem þær komu hafi honum ofboðið og hann reiðst. Hafi hann þjófkennt þær til að losna við þær.
Frásögn ákærða af háttsemi X og Y af kynferðislegum toga þykir öll vera með miklum ólíkindablæ. Þótt ekki verði fram hjá því litið að stúlkurnar gerðu sér ítrekað ferð til ákærða þykir framburður hans um háttarlag þeirra á heimili hans í heild sinni mjög ótrúverðugur einkum þegar litið er til þess að um samskipti tæplega 70 ára gamals manns var að ræða og 10 ára barna.
Ragna Guðbrandsóttir, félagsráðgjafi, bar fyrir dóminum að X hefði staðfest við hana að atburðurinn hefði gerst á þann veg sem hún lýsti við yfirheyrslu fyrir dómi en að hún hafi ekki viljað lýsa honum. Kvað hún X hafa uppfyllt ákveðin einkenni áfallastreitu eins og t.d. hliðrun, þ.e. að vilja ekki hugsa um atburðinn heldur loka á hann en það sé þekkt einkenni hjá þeim sem orðið hafi fyrir kynferðisbroti. Þá hafi hún viðurkennt að henni liði illa þegar hún væri minnt á atburðinn sem hún vildi ekki ræða.
Ólöf Ásta Farestveit, starfsmaður Barnahúss, bar fyrir dóminum að Z hefði í fyrsta viðtali sagt frá því sem gerðist á svipaðan hátt og við yfirheyrslu fyrir dómi. Hún hafi ekki treyst sér til að tala um það sem gerðist og borið við minnisleysi, verið í vörn og liðið illa. Y kvað hún í fyrsta viðtali hafa sagt sér að hún hafi ekki sagt frá öllu sem gerðist við fyrstu yfirheyrslu. Hún hafi átt erfitt með að ræða málið, grátið og ekki getað horfst í augu við hana fyrr en hún hafði sagt henni frá því sem hún greindi frá í síðari yfirheyrslunni fyrir dómi. Þá hafi hún verið mjög hrædd og verið með ýmis einkenni sem börn hafa sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun. X sem hún ræddi við eftir síðari yfirheyrslu fyrir dómi kvað hún vera í afneitun og ekkert hafa viljað ræða það sem fram kom við yfirheyrsluna. Kvað hún allar stúlkurnar bera þess merki að hafa orðið fyrir kynferðisbroti.
Samkvæmt framanröktu bera allar stúlkurnar að mati þeirra sem hafa haft þær í viðtalsmeðferð einkenni þessi að hafa orðið fyrir kynferðisbroti.
Það hvernig stúlkurnar komu fyrir og hvernig þeim leið við skýrslutökur þykir dóminum styðja að þær hafi orðið fyrir kynferðisbroti og að þær hafi skýrt rétt frá eftir því sem þær treystu sér til og voru færar um. Er það mat dómsins að framburður þeirra sé trúverðugur enda þykir ekkert það hafa komið fram í málinu er dragi úr trúverðugleika þeirra.
Þegar atvik málsins eru virt í heild þykir með framburði stúlknanna þrátt fyrir neitun ákærða vera fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem að honum er gefin að sök í ákæru dags. 19. júlí 2001. Brot ákærða gagnvart X og Y varðar við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40, 1992 og 82,1998 en brot ákærða gagnvart Z þykir varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Framhaldsákæra dags. 29. október 2001.
Y greindi Ólöfu Ástu Farestveit frá því í fyrsta viðtali 12. september 2001 að hún hefði ekki sagt frá öllu við yfirheyrsluna fyrir dómi 8. janúar 2001. Var Y því yfirheyrð á ný fyrir dómi 11. október 2001. Við þá yfirheyrslu greindi hún frá þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í framhaldsákæru. X viðurkenndi hins vegar ekki við dómskýrslutöku 29. s.m. að ákærði hafi í eitt skipti stungið fingri í kynfæri hennar eins og honum er gefið að sök í ákærunni.
Þrátt fyrir að af framburði Z við dómskýrslutöku 8. janúar 2001 þyki mega ráða að tilvikin hafi verið fleiri en það sem ákærða er gefið að sök í fyrri ákæru og ætla megi að X hafi greint frá fleiru en einu tilviki við fyrri dómskýrslutöku 10. nóvember 2000 er framburður þeirra um þetta nokkuð ruglingslegur og óskýr.
Ákærði hefur alfarið neitað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í framhaldsákæru. Framburður hans í málinu þykir eins og áður hefur verið gerð grein fyrir afar ótrúverðugur og frásögn hans af háttsemi X og Y með miklum ólíkindablæ, sérstaklega þegar litið er til þess að þær voru aðeins 10 ára á umræddum tíma.
Þar sem ekki er á öðrum sönnunargögnum að byggja um brot ákærða en framburði Y, þykir gegn eindreginni neitun ákærða ekki fram komin lögfull sönnun fyrir broti hans. Verður hann því sýknaður af ákærunni.
Ákærði hefur ekki áður svo kunnugt sé gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði, en rétt þykir eftir atvikum að skilorðsbinda refsinguna eins og greinir nánar í dómsorði.
Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður, réttargæslumaður stúlknanna hefur krafist þess að X verði greiddar kr. 500.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 14. júlí 2001 til greiðsludags. Þá hefur hún krafist þess að Y verði greiddar kr. 500.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá 9. mars 2001 til 1. júlí 2001 og skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Loks hefur hún krafist þess að Z verði greiddar kr. 350.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá 9. mars 2001 til 1. júlí 2001 og skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst réttargæslumaðurinn málskostnaðar.
Samkvæmt framanröktu og með skírskotun til 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ber að dæma ákærða til að greiða brotaþolum miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn persónu þeirra og friði. Þykja X og Y eiga rétt á miskabótum að fjárhæð 300.000 krónur hvor og Z að fjárhæð 200.000 krónur. Bótafjárhæðirnar beri dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi 8. ágúst 2001 til greiðsludags. Bæturnar greiði ákærði til Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola, sem fer með forræði bótakrafna í umboði foreldra þeirra fyrir þeirra hönd.
Þá verður ákærði dæmdur til að greiða réttargæsluþóknun brotaþola sem þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur í samræmi við 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dóm þennan kveða upp Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari, Ingveldur Einarsdóttir settur dómstjóri og Ólöf Pétursdóttir dómstjóri. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns.
Dómsorð:
Ákærði Kristófer Bjarnason sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X og Y 300.000 krónur hvorri í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði Z 200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Ákærði greiði réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.