Hæstiréttur íslands
Mál nr. 332/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 9. ágúst 2004. |
|
Nr. 332/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. ágúst 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Samkvæmt gögnum málsins neitaði varnaraðili við yfirheyrslur hjá lögreglu að eiga aðild að þeim brotum, sem gerð er grein fyrir í úrskurði héraðsdóms. Fyrir héraðsdómi játaði hann hins vegar aðild sína að þessum brotum án þess að tjá sig nánar um málsatvik. Þá viðurkenndi hann að munir þeir sem fundust í fórum hans þegar hann var handtekinn væru þýfi. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að lögreglan hafi enn sem komið er einungis tengt hluta þessara muna við tiltekin mál. Þá hafi frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar vaknað grunur um að varnaraðili eigi aðild að þjófnaði úr bifreið 29. júlí sl. Þar sem munir, sem þaðan var stolið, hafi fundist í fórum hans. Þá þurfi að taka skýrslur af vitnum og frekari skýrslur af varnaraðila. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [...] verði á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins
Í greinargerð lögreglu segir að kærði hafi verið stöðvaður af lögreglunni kl. 04:12 sl. nótt á bifreiðinni K á Hringbraut í Reykjavík. Í bifreiðinni hafi fundist ýmsir munir, meint þýfi sem lögregla hafi lagt hald á (sjá haldlagningarskýrslu og meðfylgjandi myndir). Einnig hafi lögregla séð er kærði lét detta tvo poka sem innihéldu meint fíkniefni og þá hafi kærði gefið upp rangt nafn er lögregla hafi beðið hann um að gera grein fyrir sér.
Rannsókn lögreglu sé enn á frumstigi. Á þeim stutta tíma sem liðinn sé frá handtöku kærða hafi lögreglu ekki unnist tími til að yfirfara gaumgæfilega þá muni sem kærði hafi verið með í fórum sínum og tengja þá sérstökum brotum, enda um fjölda muna að ræða.
[...]
Þann 5. maí sl. hafi kærði verið dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir fjölda auðgunarbrota. Kærði hafi áfrýjað dómi þessum til Hæstaréttar. Á meðan á málsmeðferð hafi staðið fyrir héraðsdómi og meðan á áfrýjunarfresti stóð sætti kærði gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml. Lögreglustjórinn í Reykjavík hafi ekki krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli 106. gr. oml eftir að áfrýjunarfrestur var liðinn. Hvoru tveggja vegna þess að fyrirsjáanlegt hafi verið að nokkur bið væri í að endanlegur dómur Hæstaréttar lægi fyrir auk þess sem kærði hafði margsinnis lýst því yfir að hann hygðist fara í meðferð og snúa lífi sínu til betri vegar [...].
Kærði hafi undanfarin ár verið í mikilli brotastarfsemi. Hann hafi margsinnis sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna og síbrota en ávallt hafið brotastarfsemi aftur þrátt fyrir afskipti lögreglu.
Kærði eigi enn nokkur óafgreidd mál hjá lögreglu auk þess sem hann hefur hlotið fyrrgreindan dóm sem nú sé til meðferðar hjá Hæstarétti.
Hér sé aftur á móti gerð krafa um gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. oml., þ.e. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, vegna nýrra mála sem enn séu á frumrannsóknarstigi hjá lögreglu. Lögreglan þurfi rúm til að vinna að rannsókn málanna, finna þýfi stað og taka skýrslur af kærða og vitnum.
Að mati lögreglu séu mjög miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo ofangreind mál verði upplýst.
Lögregla kveður X grunaðan um brot gegn 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot gegn fíkniefnalögum.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.
Eins og fram kemur í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík og framlögðum gögnum var kærði handtekinn sl. nótt og er rökstuddur grunur um brot hans gegn 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo og um fíkniefnabrot. Þessi brot geta varðað hann fangelsisrefsingu ef sök sannast. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi.
Samkvæmt þessu og með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er sett fram.
Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. ágúst 2004 kl. 16:00.