Hæstiréttur íslands
Mál nr. 254/2013
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Riftun
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 31. október 2013. |
|
Nr. 254/2013.
|
K7 ehf. (Skúli Bjarnason hrl.) gegn Gunnari Hilmarssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) og gagnsök |
Vinnusamningur. Riftun. Skuldajöfnuður.
G höfðaði mál gegn K7 ehf. og krafðist launa fyrir störf sín fyrir félagið auk orlofs og orlofsuppbótar fyrir nánar tiltekin tímabil. G hafði verið sagt upp störfum frá og með 1. mars 2012. Uppsagnarfrestur var þrír mánuðir og var krafist vinnuframlags G á uppsagnartímanum. Þann 26. apríl 2012 var G tilkynnt að hann skyldi láta tafarlaust af störfum. Talið var að K7 ehf. hefði verið þetta heimilt en félaginu hefði á hinn bóginn borið að greiða G laun fyrir þann tíma í apríl sem hann var við störf auk orlofs og orlofsuppbótar í samræmi við það. Var því fallist á kröfu G að þessu leyti. K7 ehf. hafði uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar á grundvelli 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups skyldi greiða verkkaup með peningum og að ekki mætti greiða það með skuldajöfnuði nema sértaklega hefði verið um það samið. Var gagnkröfu K7 ehf. því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 10. júní 2013. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem honum verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi var gagnáfrýjanda 27. febrúar 2012 sagt upp störfum hjá aðaláfrýjanda frá og með 1. mars sama ár og var uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Af hálfu aðaláfrýjanda var gerð var krafa um vinnuframlag gagnáfrýjanda á uppsagnartímanum. Með bréfi aðaláfrýjanda 26. apríl 2012 til gagnáfrýjanda var hinum síðarnefnda tilkynnt að hann skyldi láta tafarlaust af störfum vegna ýmissa ávirðinga. Í héraði gerði gagnáfrýjandi kröfu um laun fyrir apríl og maí 2012 auk orlofs fyrir tímabilið frá 1. maí 2011 til 30. apríl 2012, áunnið og ógreitt orlof í uppsagnarfresti fyrir maí 2012 og orlofsuppbót og desemberuppbót fyrir árið 2012. Nam krafa gagnáfrýjanda samtals 2.717.412 krónum. Ágreiningslaust er með aðilum að aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda laun fyrir mars 2012. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu launa úr hendi aðaláfrýjanda frá 1. til 26. apríl 2012 auk orlofs og orlofsuppbótar fyrir tímabilið 1. maí 2011 til 26. apríl 2012 og hlutfallslegrar desemberuppbótar síðargreint ár. Með því að héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðaláfrýjanda hafi verið heimilt að víkja gagnáfrýjanda fyrirvaralaust úr starfi var aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu launa eftir að svo hafði verið gert. Samkvæmt þessu var aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 1.800.935 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Gagnáfrýjandi unir niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en því að hann gerir kröfu málskostnað þar fyrir dómi.
Um rétt gagnáfrýjanda til launa og annarra greiðslna úr hendi aðaláfrýjanda vegna vinnu hins fyrrnefnda í þágu hins síðarnefnda, þar á meðal á uppsagnarfresti, fer eftir ráðningarsamningi þeirra í millum frá 20. ágúst 2009 og kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Verslunarmannafélags Reykjavíkur er gilti á þeim tíma sem mál þetta tekur til. Eigi er um það deilt að gagnáfrýjandi var í starfi að boði aðaláfrýjanda frá 1. apríl 2012 þar til honum var vikið fyrirvaralaust úr því 26. sama mánaðar. Ber honum því réttur til greiðslu launa fyrir það tímabil. Þá eru ekki efni til annars en að fallast á kröfu hans um greiðslu orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að aðaláfrýjanda beri að greiða gagnáfrýjanda þau laun og launatengdar greiðslur sem þar er kveðið á um.
Í málinu hefur aðaláfrýjandi uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu gagnáfrýjanda og vísar aðaláfrýjandi í því sambandi til heimildar í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar segir að varnaraðila sé rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði eru fyrir hendi. Í lögum nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups er mælt fyrir um tiltekin starfskjör launamanna í störfum, sem þar eru talin upp, og fellur starf gagnáfrýjanda innan skilgreinds gildissviðs þeirra. Kveðið er á um það í 1. mgr. 1. gr. laganna að verkkaup skuli greiða með peningum og megi ekki greiða það með skuldajöfnuði nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið. Verður gagnkröfu aðaláfrýjanda hafnað þegar af þessari ástæðu.
Samkvæmt gögnum málsins voru laun gagnáfrýjanda greidd mánaðarlega eftir á. Féll krafa hans því í gjalddaga 1. maí 2012 og skal hún samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu bera dráttarvexti eftir 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Að framangreindu virtu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, K7 ehf., greiði gagnáfrýjanda, Gunnari Hilmarssyni, 1.800.935 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2012 til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2013.
Mál þetta var höfðað 15. nóvember 2012 og dómtekið 13. mars 2013 að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Gunnar Hilmarsson, til heimilis að Fellsmúla 22, Reykjavík, en stefndi er Andersen & Lauth ehf., (nú K7 ehf.) Kringlunni 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.717.412 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. apríl 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði verulega lækkaðar. Þá er krafist skuldajöfnunar fyrir allri stefnukröfunni 2.717.412 krónum ásamt vöxtum. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar.
II.
Málsatvik
Stefnandi hóf störf hjá stefnda sem er hönnunar- og framleiðslufyrirtæki á sviði tískufatnaðar í ágúst 2009. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2012, var honum sagt upp störfum hjá stefnda frá og með 1. mars 2012. Uppsagnarfrestur var þrír mánuðir og var gerð krafa um vinnuframlag stefnanda á uppsagnarfrestinum eða til 31. maí s.á. Með bréfi stefnda, dags. 26. apríl s.á. var stefnanda tilkynnt að ekki væri óskað frekara vinnuframlags af hans hálfu þótt uppsagnarfrestur væri ekki liðinn og að frekari launagreiðslur til hans kæmu ekki til álita, þ.e. fyrir mánuðina apríl og maí 2012. Stefnandi telur að hann eigi rétt á launagreiðslum allan uppsagnarfrestinn, þ.e. fyrir mánuðina apríl og maí, en laun hafi verið greidd fyrir marsmánuð.
Í greindu uppsagnarbréfi stefnda, dags. 27. febrúar 2012, segir að ástæður uppsagnarinnar megi m.a. rekja til langvarandi samstarfsörðugleika og trúnaðarbrests milli stefnanda og stefnda. Stefnandi hafi ekki skilað verkefnum á réttum tíma, ekki mætt á boðaða fundi með fyrirsvarsmönnum og unnið fyrir aðra aðila án heimildar. Hann hafi einnig skuldbundið stefnda fjárhagslega án þess að hafa til þess heimild og fegrað efnahags- og rekstrarreikninga félagsins í tengslum við kaup Frumtaks slhf. árið 2009.
Stefndi hefur andmælt kröfum stefnanda og byggir sýknu- og varakröfu sína á því að stefnandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið starfs- og trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda og þannig valdið honum tjóni. Af þeim sökum hafi honum verið vikið fyrirvaralaust úr starfi í kjölfar uppsagnar, áður en uppsagnarfestur hafi verið liðinn og án greiðslu launa í uppsagnarfresti.
Í málinu hefur stefnandi uppi kröfu á hendur stefnda um greiðslu launa fyrir apríl og maí 2012 samtals að fjárhæð 1.663.750 krónur, um greiðslu orlofs fyrir tímabilið 1. maí 2011 til 30. apríl 2012 að fjárhæð 921.320 krónur og fyrir tímabilið 1. maí til 31. maí 2012 að fjárhæð 84.602 krónur, um greiðslu orlofsuppbótar 2012 að fjárhæð 21.000 krónur og desemberuppbótar 2012 að fjárhæð 26.740 krónur eða samtals 2.717.412 krónur.
Fyrir liggur skriflegur ráðningarsamningur á milli aðila, dags. 20. ágúst 2009. Í 3. gr. samningsins segir að starfsmaður heiti því að vinna af trúmennsku og skyldurækni þau störf sem hann hafi tekist á hendur og aðhafast ekkert það sem geti skaðað félagið og orðstír þess. Í 6. gr. samningsins kemur fram að upplýsingar um verklag og vinnuferli sé atvinnuleyndarmál og eign stefnda. Samkvæmt c-lið sömu greinar skuldbatt stefnandi sig til að gæta trúnaðar varðandi upplýsingar frá þriðja aðila og að hagnýta þær ekki nema í tengslum við starf sitt í þágu stefnda, nema fyrir liggi skýlaus og skrifleg heimild stjórnar stefnda. Þagnar- og trúnaðarskylda samkvæmt 6. gr. ráðningarsamningsins er ótímabundin og brot bótaskyld samkvæmt ákvæðinu. Segir í niðurlagi greinarinnar að verði ákvæðum greinarinnar ekki fullnægt sé litið á það sem alvarlegt brot á starfsskyldum er geti leitt til fyrirvaralausrar uppsagnar og bótaskyldu starfsmanns. Ákvæði um samkeppnishömlur eru í 1. mgr. 8. gr. ráðningarsamningsins, þar sem mælt er fyrir um að stefnanda sé óheimilt á ráðningartíma að taka að sér launuð störf eða verkefni sem sjálfstæður aðili, svo sem verktaki eða ráðgjafi eða taka sér launaða sem ólaunaða aukavinnu nema með sérstöku skriflegu samþykki framkvæmdastjóra. Þá sé stefnanda óheimilt að taka við starfi á sama starfssviði og hann starfi á hjá stefnda, hvorki beint né óbeint, hjá samkeppnisaðilum, hefja eða tengjast slíkri starfsemi í a.m.k. sex mánuði frá starfslokum nema með skriflegu leyfi frá framkvæmdastjóra félagsins, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Þá er um það mælt í 4. mgr. sömu greinar að brjóti stefnandi gegn ákvæðum um samningshömlur geti hann bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnda.
Samkvæmt gögnum málsins var hlutafé stefnda aukið um 200.000.000 króna á árinu 2009, með aðkomu samlagssjóðsins Frumtaks slhf., og samhliða gengið frá hluthafasamkomulagi sem stefnandi átti aðild að. Í 6. gr. samkomulagsins sem fjallar um ákvæði í ráðningarsamningum um trúnað, höfundarrétt og samkeppni var m.a. lagt bann við því að stefnandi tæki að sér störf fyrir aðra meðan á ráðningu stæði hjá félaginu, nema með leyfi stjórnar, bann var lagt við samkeppni stefnanda við félagið og bent á lögbannsrétt fyrirtækisins gegn samkeppnisbrotum starfsmanns í allt að sex mánuði eftir að störfum hans lyki fyrir félagið. Þá var bent á þagnarskyldu, trúnað um málefni félagsins og skil á gögnum. Í 12. gr. greinds hluthafasamkomulags er mælt fyrir um að stefnandi sé skuldbundinn til að vinna hjá stefnda og hafi ekki haft heimild „til að hanna vörur fyrir önnur fyrirtæki nema með leyfi stjórnar‟ auk þess sem á honum hvíli samkeppnishömlur. Í viðauka V, sem er yfirlýsing við hluthafasamkomulagið, kemur fram að stefnandi staðfesti og ábyrgist að hann muni starfa hjá stefnda og skuldbindi sig til að taka ekki við starfi á starfssviði stefnda hjá samkeppnisaðilum, hefja, eiga hlutdeild í eða tengjast, svo sem með samstarfssamningum eða öðrum hætti, slíkri starfsemi á meðan hann sé hluthafi í félaginu og a.m.k. í tvö ár eftir að hann selji hlutabréf sín í því nema með skriflegu leyfi stefnda, sbr. 1. gr. A-hluta yfirlýsingarinnar. Þá segir í 3. gr. að stefnandi skuldbindi sig til þess að eiga ekki viðskipti né samstarf með öðrum hætti við viðskiptavini, birgja eða samstarfsaðila sem stefndi hefur átt á meðan stefnandi var hluthafi í stefnda og ekki í tvö ár eftir að stefnandi selji hlutabréf sín í stefnda. Í 5. gr. A-hluta viðaukans segir að brot á ákvæðum hans leiði til bótaskyldu gagnvart stefnda og honum sé heimilt að leggja lögbann við þeim störfum stefnanda og viðskiptum eða samstarfi sem fari í bága við greinda yfirlýsingu.
Þann 13. október 2010, undirritaði stefnandi samning um afsal á öllu hlutafé sínu í stefnda í tengslum við endurfjármögnun stefnda. Kemur fram í samningnum að samningsaðilum sé ljóst að grípa þurfi til umfangsmikilla aðgerða til þess að afstýra gjaldþroti stefnda, svo sem með afléttingu skulda og endurfjármögnun. Sem lið í þeim aðgerðum og í ljósi þess að hlutafé í stefnda væri í raun einskis virði, og að Frumtak slhf. hafi fjárfest í félaginu fyrir 200.000.000 króna á grundvelli fjárhagsupplýsinga sem reynst hafi að verulegu leyti rangar geri aðilar með sér samning um að stefnandi afsali til Frumtaks slhf. öllu hlutafé sínu í stefnda.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann hafi ekki fengið greidd laun og launatengdar greiðslur frá stefnda fyrir mánuðina apríl og maí 2012.
Dómkrafa stefnanda er sundurliðuð þannig að mánaðarlaun hans hafi verið 831.875 krónur og hann hafi átt rétt á launagreiðslum fyrir mánuðina apríl og maí samtals að fjárhæð 1.663.750 krónur að viðbættu orlofi fyrir tímabilið 1. maí 2011 til 30. apríl 2012 að fjárhæð 921.320 krónur, óunnu ógreiddu orlofi í uppsagnarfresti fyrir tímabilið 1. 31. maí 2012 að fjárhæð 84.602 krónur, orlofsuppbót 2012 að fjárhæð 21.000 krónur og desemberuppbót 2012 26.740 krónur, eða samtals 2.717.412 krónur. Krafa stefnanda á hendur stefnda hafi gjaldfallið þann 26. apríl 2012, þegar stefndi hafi krafist þess að stefnandi léti af störfum. Auk þess kemur sú krafa fram í greinargerð stefnanda að verði ekki fallist á að dómkrafa stefnanda á hendur stefnda beri dráttarvexti frá 26. apríl 2012, skuli miðað við að dómkrafan beri dráttarvexti frá 1. maí 2012 en til þrautavara frá 1. júní 2012.
Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við lög nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups, lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lög nr. 30/1987, um orlof, lög um vexti og verðtryggingu og meginreglur kröfuréttar, vinnuréttar og kjarasamninga VR og vinnuveitenda. Málskostnaðarkrafa sé reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti brotið starfs- og trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda. Af þeim sökum hafi honum verið vikið fyrirvaralaust úr starfi og án greiðslu launa. Ráðningarsamningi hafi verið rift án bótaskyldu í samræmi við meginreglur vinnuréttar, kröfuréttar, samningaréttar og skaðabótaréttar, um brot starfsmanna í starfi. Stefndi tekur fram að stefndi sé hönnunar- og framleiðslufyrirtæki á sviði tískufatnaðar og fylgihluta. Hafi stefnandi staðið að stofnun stefnda á árinu 2006 og hafi verið á meðal aðaleigenda þess. Stefnandi hafi verið í persónulegum tengslum við alla viðskiptavini og samstarfsaðila stefnda og hafi búið yfir upplýsingum og kunnáttu sem verðmæti félagsins hafi að miklu leyti verið byggt á. Telur stefndi að stefnandi hafi brotið allar samningsskyldur sem hann hafi undirgengist og þannig bakað honum stórfellt tjón. Það hafi réttlætt tafarlausa brottvikningu úr starfi án launa í uppsagnarfresti.
Stefndi telur sannað að brot stefnanda hafi byrjað í nóvember 2011, og verið viðvarandi út gildistíma samkeppnisákvæða þann 1. desember 2012. Brot stefnanda felist m.a. í misnotkun trúnaðarupplýsinga í eigin þágu, vanrækslu starfsskyldna og samstarfi við samstarfsaðila stefnda er hafi farið í bága við skýra samningsskyldu. Stefnandi hafi tekið að sér aukavinnu fyrir aðra á starfssviði stefnda í trássi við samningsákvæði og vilja stefnda auk þess sem hann hafi ráðið sig til starfa hjá samkeppnisaðila og sjálfur hafið samkeppni við stefnda í andstöðu við samningsskuldbindingar hans, m.a. með því að taka að sér hönnun starfsmannabúninga fyrir WOW air í nóvember 2011, og hafist handa við hönnun og framleiðslu fatnaðar undir eigin vörumerki Freebird á meðan hann var samningsskuldbundinn stefnda. Þá hafi stefnandi á starfstíma sínum hjá stefnda átt í viðskiptum vegna eigin hönnunar við framleiðandann Mastice sem hefði verið samstarfsaðili og aðalframleiðandi stefnda á sama tímabili. Auk þess sem hann hafi gert samkomulag við sama aðila um að 10 prósent af greiðslum stefnda til Mastice fyrir framleiðslu vor- og sumarlínu stefnda árið 2012 yrðu greiddar stefnanda persónulega. Hefði þetta valdið stefnda fjárhagslegu tjóni sem væri fólgið í ofgreiddum framleiðslukostnaði. Þá hafi stefnandi á gildistíma samkeppnisákvæða tekið að sér störf fyrir samkeppnisaðila stefnda, E-Label.
Varakrafa stefnda er sett fram til öryggis (ex tuto) og kveður stefndi hana byggja á sömu málsatvikum og málsástæðum og aðalkrafan. Verði ekki fallist á sýknu, krefst stefndi skuldajöfnunar vegna þeirra bótakrafna sem hann telur sig eiga á stefnanda vegna bótaskyldra brota stefnanda á starfsskyldum.
Stefndi mótmælir sérstaklega vaxtakröfu stefnanda að því er varðar upphafstíma dráttarvaxta, vaxtafót.
Stefndi vísar til stuðnings dómkröfum sínum til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, laga nr. 7/1936, til almennra reglna samningaréttar og vinnuréttar og kröfu- og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar innan samninga og utan.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi starfaði sem fatahönnuður hjá stefnda og hafði verið starfsmaður hans frá árinu 2009. Honum var sagt upp störfum hinn 27. febrúar 2012 með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. mars 2012 að telja á þeim grunni að hann hefði brotið starfs- og trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda. Síðar var honum gert að láta af störfum áður en uppsagnarfrestur var liðinn eða þann 26. apríl 2012.
Óumdeilt er að stefnandi fékk greidd laun og aðrar launatengdar greiðslur í uppsagnarfrestinum til 1. apríl 2012, en greiðslur fyrir mánuðina apríl og maí 2012 voru ekki inntar af hendi. Af hálfu stefnda er á því byggt að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum án bótaskyldu vegna samningsbrota stefnanda. Stefnandi heldur því fram að hann hafi átt rétt á launagreiðslum allan uppsagnarfrestinn og að þær kröfur hafi gjaldfallið 26. apríl 2012. Þannig gerir stefnandi kröfu um að fá greidd laun í uppsagnarfresti fyrir tímabilið 1. apríl til 31. maí 2012, auk orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar.
Stefndi hefur, m.a. með aðila- og vitnaskýrslum núverandi framkvæmdastjóra stefnda og rekstraraðila E-label ehf. sem átti í viðskiptum við stefnanda eftir að hann lét af störfum hjá stefnda, leitast við að renna stoðum undir þá málsvörn sína að stefnandi hafi með margvíslegum hætti brotið starfs- og trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda. Af hálfu stefnda er staðhæft að brot stefnanda hafi byrjað í nóvember 2011, og verið viðvarandi út gildistíma samkeppnisákvæða þann 1. desember 2012. Stefnandi mótmælir öllum ávirðingum stefnda.
Af gögnum þeim sem stefndi lagði fram með greinargerð sinni verður ekki annað ráðið en að stefnandi máls þessa hafi brotið starfsskyldur sínar svo verulega að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans hinn 26. apríl 2012. Er það helst að nefna að stefnandi tók að sér hönnun gegn greiðslu fyrir WOW air í nóvember 2011, sbr. tölvubréf á milli stefnanda og fyrirsvarsmanna WOW air sem dagsett eru í nóvember og desember 2011, og hélt þeirri starfsemi áfram án þess að séð verði að leitað hafi verið skriflegs samþykkis stefnda á þeirri tilhögun. Þessi háttsemi fór í bága við 1. mgr. 8. gr. ráðningarsamnings þess sem fyrr er getið en samkvæmt ákvæðinu var stefnanda óheimilt að taka að sér launuð störf eða verkefni sem sjálfstæður aðili, svo sem verktaki eða ráðgjafi á ráðningartíma sínum nema með skriflegu samþykki framkvæmdastjóra.
Að auki lagði hann með margvíslegum hætti grunn að eigin starfsemi sem tengdist fatahönnun undir vörumerkinu Freebird á starfstíma sínum hjá stefnda og án hans samþykkis. Var það m.a. gert með stofnun lénsins „freebirdclothes.com“ og með pöntunum á fatamerkingum undir sama nafni. Því hefur ekki verið mótmælt með rökstuddum hætti að þessi hegðun hafi farið í bága við þau samkeppnisákvæði sem stefnanda var skylt að hlíta. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að kynningarbók fyrir fatalínu stefnanda undir greindu merki hafi verið tilbúin í júlí 2012 og síðan kynnt opinberlega á sýningu í Þjóðmenningarhúsi 1. nóvember 2012. Loks var haft eftir stefnanda í blaðaviðtali sama dag, þann 1. nóvember, að tíminn sem það tæki að hanna vöru og koma henni í verslun væri heilt ár. Þessu viðtali hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.
Kröfu stefnda um skuldajöfnun er synjað, sbr. 1. gr. laga nr. 28/1930 i.f.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.