Hæstiréttur íslands
Mál nr. 61/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsóknarathafnir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Gagn
|
|
Föstudaginn 22. febrúar 2008. |
|
Nr. 61/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri) gegn A (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) |
Kærumál. Rannsóknarathafnir. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Gögn.
A fann á bifreið sinni svokallaðan eftirfararbúnað, sem hann taldi í eigu L. Leitaði hann úrlausnar dómstóla um lögmæti rannsóknarathafna sem hann taldi beint gegn sér, sbr. 75. gr. laga nr. 19/1991. Í dómi 8. febrúar 2008 var L gert að láta af umræddri rannsóknaraðgerð. Í því máli sem hér var til úrlausnar hafði héraðsdómari vísað frá dómi kröfu A um að verjanda hans yrði veittur aðgangur að rannsóknargögnum. Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun aðalkröfu A staðfestur en lagt fyrir héraðsdómara að taka varakröfu hans til efnismeðferðar. Tekið var fram að skipun verjanda hefði fallið niður við uppkvaðningu fyrrnefnds dóms Hæstaréttar en ekki talið loku fyrir það skotið að hann kynni að eiga aðgang að gögnunum sem talsmaður A. Það heyrði hins vegar til efnisúrlausnar máls að skera úr um það hvort veita ætti slíkan aðgang.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2008, þar sem vísað var frá dómi kröfum varnaraðila aðallega um að sóknaraðila yrði með úrskurði gert að afhenda lögmanni varnaraðila ljósrit af öllum gögnum lögreglumáls/lögreglumála, sem til rannsóknar væru á hendur varnaraðila „og lögreglan hefur notað eftirfararbúnað/staðsetningarbúnað, símahleranir og skyldar athafnir við rannsókn málsins/málanna“ og til vara að sóknaraðila yrði með úrskurði gert skylt að afhenda lögmanni varnaraðila „ljósrit af öllum gögnum lögreglumáls, þar sem lögreglan kom fyrir eftirfararbúnaði/staðsetningarbúnaði á bifreið A [...].“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I.
Varnaraðili bar undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu er hún kom fyrir búnaði á bifreið hans til þess að fylgjast með ferðum hans. Varnaraðila var skipaður verjandi við meðferð þess máls. Með dómi Hæstaréttar 8. febrúar 2008 í máli nr. 38/2008 var sóknaraðila gert að láta af þeirri rannsóknaraðgerð þar sem ekki hafði verið gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli hún byggðist. Með uppkvaðningu þess dóms lauk skipun verjanda varnaraðila frá 11. desember 2007.
Varnaraðili byggir kröfur sínar um rétt á aðgangi að umbeðnum gögnum á 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt ákvæðinu á „verjandi“ rétt til aðgangs að gögnum máls. Þar sem varnaraðili hefur ekki skipaðan verjanda verður að taka afstöðu til þess hvort hann geti allt að einu fengið úrlausn um kröfu sína á þeim grundvelli að lögmaður hans hafi réttarstöðu talsmanns í skilningi laga nr. 19/1991. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laganna hefur talsmaður sömu réttindi og skyldur og verjandi eftir því sem við á. Ekki er loku fyrir það skotið að talsmaður sakbornings geti krafist gagna á grundvelli 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Það fellur hins vegar undir efnisúrlausn máls hverju sinni að afmarka hvort varnaraðili hafi stöðu sakbornings þannig að til greina komi að verða við slíkri kröfu og þá hversu víðtækur aðgangur að gögnum skuli vera með tilliti til 2. og 3. málsliðar 1. mgr. 43. gr. og 2. mgr. 37. gr. sömu laga.
II.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um frávísun aðalkröfu varnaraðila.
Varakrafa varnaraðila lýtur að því að fá aðgang að þeim gögnum sem lögregla aflaði með fyrrnefndum eftirfararbúnaði. Verður að skilja varakröfuna svo að hún sé tengd þeim búnaði sem varnaraðili fann á bifreið sinni 12. nóvember 2007. Verður því að telja að þessi krafa sé nægilega afmörkuð svo unnt sé að taka hana til úrlausnar. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varakröfuna varðar og lagt fyrir héraðsdómara að taka hana til efnismeðferðar.
Með vísan til 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um aðalkröfu varnaraðila, en felldur úr gildi að því er snertir varakröfu hans, og er lagt fyrir héraðsdómara að taka hana til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2008.
Mál þetta var tekið til úrskurðar mánudaginn 21. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðili er A, [kt. og heimilisfang].
Varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.
Sóknaraðili gerir eftirfarandi kröfur:
Þess er aðallega krafizt, að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verði með úrskurði gert að afhenda lögmanni sóknaraðila ljósrit af öllum gögnum lögreglumáls/lögreglumála, sem eru nú til rannsóknar á hendur A, og lögreglan hefur notað eftirfararbúnað/staðsetningarbúnað, símahleranir og skyldar athafnir við rannsókn málsins/málanna.
Til vara er þess krafizt, að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verði með úrskurði gert skylt að afhenda lögmanni sóknaraðila ljósrit af öllum gögnum lögreglumáls, þar sem lögreglan kom fyrir eftirfararbúnaði/staðsetningarbúnaði á bifreið A [...].
Þá er krafizt málskostnaðar við að halda fram kröfu þessari að mati hins virðulega dóms.
Af hálfu varnaraðila er þess krafizt aðallega, að framlögðum kröfum Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl., fyrir hönd skjólstæðings síns, A, verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað.
Málavextir
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að við fyrirtöku, 11. desember 2007, í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-645/2007, hafi undirritaður lögmaður verið skipaður verjandi A vegna kröfu hans um úrskurð um lögmæti tiltekinna rannsóknarathafna lögreglu, meðal annars hvort lögreglu sé heimilt að koma fyrir eftirfararbúnaði/staðsetningarbúnaði á bifreið A. Við fyrirtöku málsins, 7. janúar sl., hafi fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu neitað að upplýsa nokkuð um rannsóknarathafnir lögreglu og hvaða máli/málum þær tengdust. Með bréfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. janúar sl., hafi, með vísan til 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, verið krafizt aðgangs að gögnum þeim sem gerð sé grein fyrir hér að ofan. Svar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. janúar sl., hafi borist 10. janúar sl., en þar sé synjað um aðgang að gögnum málsins/málanna, með vísan til þess, að skjólstæðingur undirritaðs lögmanns hafi ekki fengið réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar sakamáls, og því hafi undirritaður ekki öðlazt stöðu verjanda, sbr. VI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eru málsatvik þessi:
Mánudaginn 12. nóvember sl. fann sóknaraðili eftirlitsbúnað undir bifreið sinni. Með bréfi, dagsettu 15. nóvember sl., fór hann þess á leit við embætti ríkissaksóknara, að hafin yrði rannsókn á meintum, ólögmætum rannsóknaraðgerðum lögreglu. Með bréfi ríkissaksóknara frá 20. nóvember sl. var beiðni hans svarað og tekið fram, að um væri að ræða lögmætar rannsóknaraðgerðir lögreglu, og því þyrfti ekki úrskurð dómara til að heimila þær, og þar af leiðandi væru ekki efni til aðgerða af hálfu ríkissaksóknara. Með bréfi, dagsettu 27. nóvember sl., fór sóknaraðili svo fram á úrskurð dómara um, að lögreglu verði gert að láta af meintum rannsóknaraðgerðum sínum, að lögreglu verði framvegis óheimilt að koma fyrir eftirlitsbúnaði hjá sóknaraðila án úrskurðar, og að lögreglu verði með úrskurði gert að láta af meintri hlerun á síma hans. Mál þetta var tekið fyrir hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þriðjudaginn 11. desember og flutt mánudaginn 7. janúar sl., sbr. R-645/2007
Með bréfi, dags. 7. janúar sl., til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu krafðist sóknaraðili aðgangs að gögnum allra þeirra mála, sem verið sé að rannsaka á hendur honum, og þar sem notkun eftirfarabúnaðar er beitt. Með bréfi lögreglustjórans frá 9. janúar sl. er sóknaraðila synjað um aðgang að gögnum með vísan til þess, að hann hafi ekki fengið réttarstöðu sakbornings við rannsókn sakamáls, og þar af leiðandi hafi lögmaður hans ekki öðlazt réttarstöðu verjanda, sbr. VI. kafla áðurnefndra laga. Þann 11. janúar sl. lagði sóknaraðili svo fram kröfu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um aðgang að gögnum á grundvelli 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. kröfugerð sóknaraðila.
Málsástæður sóknaraðila
Við fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. R-645/2007 hafi undirritaður verið skipaður verjandi A. Sá rökstuðningur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, að undirritaður lögmaður hafi ekki öðlast stöðu verjanda, sbr. VI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, standist því ekki. Ástæðan sé sú, að hinn virðulegi dómur hafi tekið þá ákvörðun að skipa A verjanda, sbr. VI. kafla laga nr. 19/1991, vegna eftirfararbúnaðar/staðsetningarbúnaðar, sem hann hafi fundið undir bifreið sinni. En krafan um aðgang að gögnum varði nákvæmlega það mál.
Það sé einnig óumdeilt að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi hafið tilteknar rannsóknaraðgerðir á hendur A. Undir bíl hans hafi fundist eftirfararbúnaður/staðsetningarbúnaður, mánudaginn 12. nóvember sl. Í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki tekið af skarið um það, hvenær maður teljist sakborningur í skilningi laganna. Þrátt fyrir að formleg tilkynning um, að maður sé grunaður um refsivert brot, marki að jafnaði upphafið að því, hvenær maður teljist borinn sökum, sé sú tilkynning ekki skilyrði og ekki alltaf nauðsynleg. Hafi Mannréttindanefnd Evrópu beitt því viðmiði að miða beri við það tímamark, þegar rannsókn eða meðferð máls sé farin að hafa áhrif á stöðu manns, sem grunaður sé um refsiverða háttsemi. Í því sambandi skipti ekki máli hvort sá, sem í hlut eigi, viti af aðgerð, sem beint sé gegn honum. Þröng túlkun á hugtakinu, hvenær maður sé borinn sökum, sé ekki í samræmi við tilgang og markmið mannréttindaákvæða. Í þessu sambandi sé rétt að vísa til tveggja dóma Mannréttindadómstóls Evrópu:
Dómur MDE í máli Foti gegn Ítalíu frá 10. desember 1982
Í dóminum komi fram að formleg tilkynning sé ekki skilyrði og ekki heldur nauðsynleg til þess að aðili teljist sakborningur, heldur beri að miða við það tímamark þegar rannsókn eða meðferð máls sé farin að hafa áhrif á stöðu aðila, sem grunaður sé um refsiverða háttsemi.
Dómur MDE í máli Deweer gegn Belgíu frá 27. febrúar 1980
Í dóminum taki MDE fram, að þröng túlkun á hugtakinu, hvenær maður sé borinn sökum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. MSE, samræmist ekki tilgangi og markmiði ákvæðisins. Meta eigi aðstæður í heild sinni, en ekki aðeins líta á skilgreiningu í löggjöf aðildarríkjanna.
Í því tilviki, sem hér um ræði, sé ljóst, að rannsóknarathafnir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi veruleg áhrif á líf A, en eins og áður segi, hafi hann fundið eftirfararbúnað/staðsetningarbúnað á bifreið sinn 12. nóvember sl. Við fyrirtöku í máli Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-645/2007 hafi hinn virðulegi dómur spurt, hvort umræddum rannsóknarathöfnum lögreglu hefði verið hætt, og hafi fulltrúi lögreglustjóra neitað að upplýsa nokkuð um það. Það liggi því fyrir, að rannsóknarathafnir lögreglu hafi stórkostleg áhrif á líf A, þar sem hann sé í algjörri óvissu um það, hversu lengi, með hvaða hætti og hvort lögreglan sé enn að fylgjast með honum, s.s. með símhlerunum og notkun eftirfararbúnaðar/staðsetningarbúnaðar. Það verði að telja að með þessum athöfnum, og ekki síður þeirri óvissu, sem A búi nú við, sé brotið gróflega á grundvallarmannréttindum hans.
Málsástæður lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu
Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því, að samkvæmt 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé það markmið rannsókna að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða, að henni lokinni, hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Um aðgang sakbornings að þeim gögnum fjalli 43. gr. sömu laga, en þar komi sú meginregla fram, að verjandi eigi jafnskjótt og unnt sé rétt á aðgangi að öllum gögnum sakamáls. Þess beri að geta, að lögmaður sóknaraðila hafi verið skipaður verjandi hans við meðferð kærumáls héraðsdóms nr. R-645/2007, en lögmaður sóknaraðila hafi hvorki verið tilnefndur né skipaður verjandi við neina rannsókn hjá lögreglunni sem standi. Skilja verði ákvæði 43. gr. laganna þannig, að verjandi geti aðeins krafizt aðgangs að gögnum, sem varði mál, þar sem hann hafi verið skipaður verjandi, sbr. Hæstaréttardóm nr. 227/2001 frá 21. júní 2001.
Sóknaraðili hafi ekki hlotið réttarstöðu sakbornings í skilningi VI. kafla laganna við rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafi hvorki verið handtekinn í þágu rannsóknar opinbers máls né yfirheyrður um eitthvert ákveðið sakarefni, sbr. 32. gr. sömu laga. Verði að túlka ákvæði 43. gr. laganna þannig, að verjandi eigi einnig aðeins rétt til skjala, sem varði það sakarefni, sem beint sé að skjólstæðingi hans, sbr. Hæstaréttardóm nr. 500/2002 frá 27. nóvember 2002.
Þá sé í kröfu sóknaraðila ekki getið um, hvaða mál þeir úrskurðir varði, sem hann krefjist endurrita af, heldur óski hann eftir endurriti allra gagna í öllum þeim málum, þar sem sóknaraðili sé til rannsóknar. Í þessu samhengi vísist til áðurnefndra Hæstaréttardóma, og sé talið, að krafa sóknaraðila sé of óljós og óskýr til að hægt sé að taka afstöðu til hennar, og því verði ekki hjá því komizt að vísa málinu frá héraðsdómi.
Varakröfu sína byggir varnaraðili á því, að það sé tilgangur rannsókna opinberra mála að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar á hendur sökuðum manni. Ef verjandi og sakborningur gætu óhindrað kynnt sér rannsóknargögn lögreglu, um leið og þau verði til, gæti sakborningur hagrætt framburði sínum í samræmi við gögnin og fengið vitneskju um framburð annarra sakborninga og vitna fyrir lögreglu. Gæti slíkt skaðað rannsóknir sakamála og jafnvel komið í veg fyrir, að þau upplýstust. Þess vegna sé að finna heimild í 43. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að synja verjanda um aðgang að gögnum, meðan á rannsókn máls standi, þegar verulegir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Þessari heimild lögreglu séu settar verulegar skorður í lögum og því aðeins hægt að halda rannsóknargögnum frá verjendum og sakborningum í ákveðinn tíma, sbr. áðurnefnt ákvæði. Þessir frestir ákvæðisins miðist þó við, að sakborningur sé grunaður um ákveðinn refsiverðan verknað, og hann hafi verið handtekinn vegna sakamáls eða yfirheyrður vegna rannsóknar sakamáls. Megi í þessu samhengi líta til ákvæðis b- liðar 74. gr. a, sömu laga, sem fjalli um skýrslutökur á rannsóknarstigi sem hafi það að markmiði, að hægt sé að tryggja sönnun, áður en sakborningur fái aðgang að gögnum og þar með tækifæri til að hagræða framburði sínum, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 432/1999 frá 29. október 1999. Sóknaraðili í máli þessu hafi ekki hlotið réttarstöðu sakbornings, og því gildi ákvæði VI. kafla laganna ekki, og því beri að hafna kröfum sóknaraðila. Í þessari afstöðu felist engin viðurkenning á því, að fyrir hendi séu einhver þau gögn, sem krafizt sé aðgangs að.
Það myndi skaða rannsóknir sakamála verulega, ef lögreglan þyrfti að afhenda gögn á frumstigi rannsókna og áður en meint sakarefni er kynnt sakborningi. Ljóst sé, að yfirheyra þurfi sakborning, áður en hann geti kynnt sér gögn sakamáls, svo hann samræmi ekki framburð sinn við þau gögn, sem lögreglan hafi aflað. Ef þetta yrði heimilað, myndi það torvelda rannsóknir lögreglu verulega, og þar af leiðandi yrði erfitt að ná markmiðum 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Niðurstaða
Aðalkrafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um, að málinu verði vísað frá dómi, byggir á því í fyrsta lagi, að sóknaraðili hafi ekki hlotið réttarstöðu sakbornings í skilningi VI. kafla laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og honum hafi hvorki verið tilnefndur né skipaður verjandi við neina rannsókn hjá lögreglunni sem stendur.
Sakborningur er sá, sem hafður er fyrir sök eða grunaður um refsivert athæfi. Í lögum um meðferð opinberra mála er ekki að finna skilgreininga á því, hvenær grunaður maður verður sakborningur í skilningi laganna, en engin sérstök formleg athöfn liggur því að baki. Í mörgum tilvikum eru þessi mörk ljós, svo sem við handtöku eða aðrar þvingunarráðstafanir, sem beitt er. Það liggur fyrir í máli þessu, að lögregla kom fyrir eftirfararbúnaði á bifreið sóknaraðila, sem hann fann síðan undir bifreið sinni. Af hálfu lögreglu hefur engin skýring verið gefin á því, hvers vegna þessum búnaði var komið þar fyrir, eða hvaða rannsóknarhagsmunum það þjónaði. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið, að þær ráðstafanir eru þess eðlis, að þær hljóta að vera liður í rannsókn, sem beinist að sóknaraðila vegna gruns um afbrot, sem verið er að rannsaka, en í fylgiskjali með reglum ríkissaksóknara um sérstakar rannsóknaraðgerðir lögreglu nr. 3/1999, þar sem m.a. er heimiluð notkun eftirfararbúnaðar við rannsóknir sakamála, segir, að lögreglu sé heimil notkun eftirfararbúnaðar, sem þáttur í rannsókn mála hjá lögreglu, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um alvarlegt brot. Samkvæmt þessu verður að fallast á með sóknaraðila, að hann hafi hlotið stöðu sakbornings, í síðasta lagi þegar umræddum búnaði var komið fyrir á bifreið hans.
Sóknaraðili kærði notkun umrædds eftirfararbúnaðar til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í máli því, sem hlaut númerið R-645/2007, var honum skipaður verjandi, sem rekur jafnframt mál þetta, sem hér er til meðferðar, fyrir hans hönd. Tengist mál þetta beint þeirri rannsókn, sem var grundvöllur þess, að eftirfararbúnaði var komið fyrir á bifreið sóknaraðila, og er fallizt á með sóknaraðila, að verjandi hans hafi þannig lögformlega heimild til að gera kröfu um afhendingu gagna, sem tengjast því máli.
Varnaraðili byggir á því, að vísa beri málinu frá dómi, þar sem krafan sé of óljós, til að unnt verði að taka afstöðu til hennar.
Aðalkrafa sóknaraðila lýtur að því, að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verði gert að afhenda verjanda ljósrit af öllum gögnum ótiltekinna lögreglumála, sem eru til rannsóknar nú á hendur sóknaraðila, þar sem lögreglan hafi notað eftirfararbúnað, símahleranir og aðrar skyldar athafnir við rannsókn þeirra.
Verður að fallast á með varnaraðila, að krafa þessi sé ekki nægilega skýr til þess að unnt sé að taka á henni efnislega, en m.a. verður ekki séð, að hún tengist sérstaklega þeim eftirfararbúnaði, sem sóknaraðili fann undir bifreið sinni hinn 12. nóvember síðastliðinn. Er aðalkröfu sóknaraðila því vísað frá dómi.
Varakrafa sóknaraðila lýtur að því, að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verði gert að afhenda ljósrit af öllum gögnum lögreglumáls, þar sem lögreglan kom fyrir eftirfararbúnaði á bifreið sóknaraðila, [...].
Varakrafa sóknaraðila er ekki sérstaklega tengd þeim búnaði, sem sóknaraðili fann á bifreið sinni hinn 12. nóvember síðastliðinn. Ekki liggur fyrir í máli þessu, hvort staðsetningarbúnaði hafi verið komið fyrir á umræddri bifreið sóknaraðila í önnur skipti en rakið hefur verið í máli þessu, og getur krafan þannig tengzt fleiri, ótilgreindum málum. Er krafan þannig ekki nægilega afmörkuð til þess að unnt sé að taka á henni efnislega. Er málinu því í heild sinni vísað frá dómi.
Með hliðsjón af þessum úrslitum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.