Hæstiréttur íslands
Mál nr. 182/2009
Lykilorð
- Rán
- Líkamsárás
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 8. október 2009. |
|
Nr. 182/2009. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X(Gylfi Thorlacius hrl.) |
Rán. Líkamsárás. Sýkna.
X var ákærður fyrir líkamsárás og rán, með því að hafa í húsasundi í Reykjavík, í félagi við óþekktan mann, veist að Z, slegið hann nokkrum sinnum í andlitið þannig að hann féll í jörðina og tekið af honum seðlaveski sem í voru 100.000 krónur og farsíma. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vitnið Y hefði tvisvar bent á annan mann en ákærða við myndsakendingu. Þá hefði ekkert komið fram við húsleit, rannsókn á símanotkun ákærða eða buxum hans sem gæti tengt hann við ákæruatriði. Vísað var til þess að X hefði verið óskýr í svörum sínum um dvalarstað A, sem mun hafa verið með honum á veitingastaðnum M á sama tíma og Z, og um notkun sína á fötum þeim er hann kvað A hafa átt og X var í umrætt kvöld. Í því fælist hins vegar ekki fullnægjandi sönnun um það að X væri sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök í málinu og var hann því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Z verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.
Z hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Litið er svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms um bótaþátt málsins.
Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Í héraðsdómi er réttilega rakinn framburður ákærða að öðru leyti en því að fyrir dómi kvað hann leiðir þeirra A fyrst hafa skilið fyrir utan veitingastaðinn Mónakó eftir lokun staðarins.
Vitnið Y, sem kvaðst hafa séð árásarmennina og gaf skýrslu fyrir dómi, skoðaði 482 ljósmyndir úr svokölluðu sakamyndasafni lögreglu 6. október 2007. Hann benti á mynd af manni, sem honum fannst vera líkur öðrum árásarmanninum, en kvaðst ekki vera viss í sinni sök. Sá maður mun ekki tengjast þessu máli. Við svokallaða myndsakbendingu hjá lögreglu 17. október 2008 var mynd af ákærða ein af níu myndum er vitninu voru sýndar. Í lögregluskýrslu segir að vitnið hafi bent á mynd sem ekki er af ákærða, en ekki hafa treyst sér til að skrifa nafn sitt undir myndina þar sem hann væri ekki alveg viss að um sama mann væri að ræða. Ekkert kom fram við húsleit, rannsókn á símanotkun ákærða, eða buxum hans er tengir hann við ákæruatriði. Ákærði var ásamt öðrum samlanda sínum á veitingastaðnum Mónakó á sama tíma og Z og var óskýr í svörum um dvalarstað A á Íslandi og notkun sína á fötum sem hann kvað A hafa átt. Í þessu felst ekki fullnægjandi sönnun sem leiðir til þess að ákærði skuli fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í málinu. Verður hann því sýknaður af kröfu ákæruvalds og skaðabótakröfu vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn saka.
Skaðabótakröfu Z er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Gylfa Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 20. febrúar 2009 á hendur X, kt. og heimilisfang [...],, fyrir líkamsárás og rán, með því að hafa að morgni sunnudagsins 5. október 2008, í húsasundi til móts við Laugaveg 49 í Reykjavík, í félagi við óþekktan mann, veist að Z, slegið hann nokkrum sinnum í andlitið þannig að hann féll í jörðina og tekið af honum seðlaveski, sem í voru 100.000 krónur, og farsíma. Af árásinni hlaut Z brot í augntóftargólfi, tvo skurði á vinstri kinn, mar á augnvefi og yfirborðsáverka á brjóstkassa.
Brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 218. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu Z, kt. [...],, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta og fjártóns að fjárhæð 2.100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. október 2008 að liðnum mánuði frá þeim degi er bótakrafa er birt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Klukkan 03.29 að morgni sunnudagsins 5. október 2008 var óskað eftir aðstoð lögreglu við að huga að manni sem talið var að ráðist hafi verið á í húsasundi á móts við hús nr. 49 við Laugaveg í Reykjavík. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi verið rætt við Y, sem tilkynnt hafi lögreglu um atburðinn. Hafi Y vísað lögreglu á mann sem legið hafi við hús alblóðugur í andliti og með skerta meðvitund. Hinn slasaði reyndist vera Z. Fram kemur að Z hafi legið á vinstri hlið. Hafi Z tjáð lögreglumönnum að hann hafi verið laminn og að 100.000 krónur sem hann hafi verið með á sér í peningum hafi verið teknar. Í viðræðum við Y hafi komið fram að Y hafi talið sig sjá tvo menn af erlendum uppruna leiða mann í umrætt húsasund. Hafi Y fundist það skrýtið og því farið á eftir mönnunum til að kanna málið betur. Er hann hafi komið að sundinu hafi mennirnir tveir komið hlaupandi á móti Y og hlaupið fram hjá honum. Eftir hafi legið Z í blóði sínu. Y hafi gefið þá lýsingu á mönnunum að þeir hafi verið tveir og á aldrinum 25 til 30 ára. Annar þeirra hafi verið með ljósbláa prjónahúfu á höfði, í ljósum leðurjakka með hvítum röndum þvert yfir brjóstkassa. Hinn aðilinn hafi verið með dökka húfu, í dökkum jakka og hugsanlega í ljósum gallabuxum. Fram kemur í skýrslunni að Z hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss. Hafi hann verið með mikla áverka á andliti, mikið bólginn við vinstra auga og með áverka á kvið.
Guðmundur Haukur Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður hefur 5. október 2008 ritað lögregluskýrslu um atvikið eftir að hafa rætt við Z á slysadeild í framhaldi af flutningi þangað. Samkvæmt skýrslunni hafi Z tjáð lögreglumönnum að hann hafi verið á Mónakó þessa nótt. Hefði hann unnið 100.000 krónur í spilakassa. Fjárhæðina hafi hann unnið í spilakassa á 2. hæð en þegar um slíka fjárhæð væri að ræða fengi hann kvittun úr spilakassanum sem hann þyrfti að fara með á barinn þar sem upphæðin væri greidd út. Hafi Z tekið við peningunum og sett þá í brúnt seðlaveski sitt. Eftir það hafi hann farið niður á neðri hæð staðarins og dvalið þar í einhvern tíma með fólki sem þar hafi verið. Í framhaldi af því hafi hann ákveðið að tími væri kominn til að halda niður í gistiskýli. Ekki hafi hann verið búinn að ganga lengi niður Laugaveginn þegar hann hafi skyndilega verið rifinn inn í húsasund þar sem hann hafi verið laminn illa og rændur. Ekki hafi Z getað gert sér grein fyrir árásaraðilum þar sem hann hafi ekki tekið eftir þeim heldur hafi hann einungis fundið fyrir barsmíðunum. Hafi árásarmennirnir náð af honum farsíma og veskinu með peningum í. Eftir að hafa fengið umræddar upplýsingar frá Z hafi Guðmundur Haukur rætt við eiganda Monakó og óskað eftir að kannað yrði með eftirlitsmyndavélar í húsnæðinu. Um kl. 19.00 á sunnudeginum hafi eigandi staðarins haft samband og sagt að hann hefði undir höndum myndskeið er sýndi tvo aðila er svipaði til lýsingar lögreglu á árásarmönnunum. Þá hafi eigandinn rætt við starfsfólk á staðnum sem hafi munað eftir því að Z hafi þessa nótt unnið um 100.000 krónur í peningakössum. Við skoðun á umræddum myndskeiðum megi sjá tvo aðila sem svipi til lýsingar vitnis á árásarmönnunum vera inni á Mónakó skömmu fyrir ránið. Sjá megi af myndupptöku að þeir fylgist með manni sem sé að spila á einn kassa. Megi sjá Z standa á fætur og sé hann að öllum líkindum að yfirgefa staðinn. Þá megi sjá annan mannanna yfirgefa staðinn á sama tíma en áður en hann fari út virðist hann ræði við hinn manninn. Sá hafi orðið eftir inni og hafi hann farið að þeim manni sem hafi verið nýbúinn að vinna 100.000 krónur eins og Z. Svo til strax hafi manninum verið vísað út af staðnum og hafi ránið verið framið skömmu síðar.
Þórður Geir Þorsteinsson rannsóknarlögreglumaður hefur ritað lögregluskýrslu 6. október 2008 í tengslum við rannsókn málsins. Í skýrslunni er rakið að Þórður Geir hafi farið á slysadeild í framhaldi af flutningi Z á deildina. Er Þórður hafi komið þangað hafi Z verið í aðgerð og því ekki unnt að ræða við hann. Næsta dag hafi Þórður farið á deildina og rætt við Z. Hafi Z lýst því að hann hafi verið inni á Mónakó við Laugaveg. Þar hafi hann drukkið áfengi og verið að spila í spilakössum. Hafi hann unnið um 100.000 krónur í spilakössum og skömmu eftir það yfirgefið staðinn. Hafi hann gengið niður Laugaveg. Eftir um 10 mínútna gang hafi honum verið ýtt inn í húsasund af tveim mönnum. Þar hafi hann verið sleginn bylmingshöggi í andlitið. Gæti Z lítið meira sagt um málið nema honum fyndist eins og þessir menn hefðu verið útlendingar. Ekki hafi hann séð mennina og gæti því enga lýsingu gefið á þeim. Mennirnir hafi tekið seðlaveski Z með um 100.000 krónum í. Þá hafi þeir sennilega tekið af honum farsíma með farsímanúmerið [ ]. Í skýrslu lögreglumannsins kemur fram að sömu nótt hafi verið tilkynnt um annað rán þar sem ungri konu hafi verið hrint á Lindargötu og handtaska sem hún hafi haldið á verið hrifsuð frá henni. Það atvik hafi verið um einni og hálfri klukkustundu eftir árásina á Z. Tveir menn hafi verið á ferð og lýsingu á þeim svipað til þeirra er væru grunaðir um að hafa ráðist á Z. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 13. október 2008 kl. 12.40 mætti X, ákærði í máli þessu, á lögreglustöð á þeim tíma. Kemur fram að vinnufélagi ákærða hafi óskað eftir því að ákærði gæfi sig fram í þágu rannsóknar málsins. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá þriðjudeginum 14. október 2008 fór ákærði í fylgd lögreglu á dvalarstað sinn að Hverfisgötu 55 í Reykjavík, en fyrir lá úrskurður héraðsdóms um húsleit á staðnum. Fram kemur að nokkrir einstaklingar frá Litháen búi á staðnum. Hafi ákærði upplýst að hann gæti ekki vísað lögreglu á þann fatnað sem hann hafi verið klæddur í aðfaranótt sunnudagsins 5. október, en hann hafi áður verið búinn að bera kennsl á sig af myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó. Hafi hann lýst því að hann hafi fengið jakka sem hann hafi verið í og skó að láni frá vini sínum að nafni A og væri hann búinn að skila honum fatnaðinum. Húfunni hafi ákærði sennilega týnt í vinnu hjá sér. Hafi ákærði framvísað nýþvegnum gallabuxum úr ferðatösku og sagt að hann hafi verið í þeim umrætt kvöld. Ekkert frekar hafi fundist við húsleitina sem hafi getað tengst þeim atburðum sem verið hafi til rannsóknar.
Þriðjudaginn 14. október 2008 var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til föstudagsins 17. október 2008 vegna rannsóknar málsins.
Ása E. Einarsdóttir sérfræðilæknir hefur 7. október 2008 ritað læknisvottorð vegna komu Z á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss kl. 03.40 að morgni sunnudagsins 5. október 2008. Í vottorðinu kemur m.a. fram að Z hafi við komu fengið vökva í æð og fengið verkjalyf. Fyrirhuguð hafi verið aðgerð vegna andlitsbrots. Hann hafi verið með 2 djúpa skurði á vinstri kinn. Saumuð hafi verið 4 spor í annan skurðinn og 5 spor í hinn. Lítið brot muni vera í augntóttargólfi vinstra megin. Áverkar samsvari alvarlegri líkamsárás sem geti haft í för með sér varanlegan skaða.
Mánudaginn 6. október 2008 mætti Y í svokallaða myndflettingu á lögreglustöð. Í niðurstöðu er fært að Y finnist mynd af tilgreindum manni vera líkur þeim sem hafi verið sá minni í árásinni en Y væri þó ekki viss. Ekki gat Y bent á mynd af ákærða í myndsakbendingunni. Y mætti aftur á lögreglustöð föstudaginn 17. nóvember 2008 og þá í myndsakbendingu. Er fært í niðurstöðu að Y treysti sér ekki til að rita nafn sitt undir mynd þar sem hann sé ekki viss um hvort um árásarmanninn sé að ræða.
Z lagði fram kæru vegna málsins hjá lögreglu 18. febrúar 2009.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu vegna málsins mánudaginn 13. október 2008. Kvaðst hann hafa verið með vini sínum sem heiti A inni á Mónakó aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Hafi þeir fengið sér bjór að drekka og verið að spila. Eftir að staðnum hafi lokað hafi ákærði farið heim en vinur hans hafi orðið eftir. Ekki vissi ákærði eftirnafn A. Hafi nefndur A unnið með ákærða, en ákærði væri ekki viss um hvort A væri enn í vinnu. Ekki vissi ákærði hvar A héldi sig og ekki vissi ákærði hvar hann ætti heima. Vissi ákærði að A hafi áður búið þar sem Vegas væri á Frakkastíg. A hafi ákærði hitt fyrir tilviljun umrætt kvöld inni á Mónakó. Ekki hefði ákærði heyrt í A eftir að ákærði hafi yfirgefið staðinn. Er ákærða var sýnt myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó á Laugavegi frá aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 kvaðst ákærði þekkja sig sem þann aðila sem væri með svarta húfu á höfði og væri A sá með hvítu húfuna. Ákærði kvað það geta staðist að nefndur A væri farinn af landi brott.
Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 17. október 2008. Kvaðst ákærði ítreka það að hann hafi komið einn inn á Mónakó en áður hafi hann verið heima hjá sér á Hverfisgötu með vini sínum B. Á staðnum hafi hann hitt A. Hann hafi verið á staðnum fram að lokun en þá hafi hann kvatt A og farið beint heim. Ákærði kvaðst telja að hann hafi ekkert hitt A eftir þetta kvöld. Ákærði kvaðst einungis hafa átt sjálfur þær buxur er hann hafi verið í umrætt kvöld en A hafi átt annan fatnað. A hafi átt húfuna, jakkann og skóna. Fötin hafi ákærði fengið lánuð hjá A skömmu áður en þeir hafi farið á Mónakó, en A hafi komið með fötin heim til ákærða. Ákærði kvaðst ekki vita hvar fötin væru lengur. Er hann hafi komið heim hafi hann klætt sig úr fötunum. Næsta dag hafi hann skroppið út í búð en þau verið horfin er hann hafi komið til baka. A hafi örugglega tekið fötin. Ákærði kvaðst ekki vita hvar A ætti heima en síðast þegar hann vissi hafi A átt heima á Vegas á Frakkastíg. Ákærði kvað fjóra einstaklinga búa að Hverfisgötu [ ] í Reykjavík. Er borið var undir hann að B hafi lýst því að A byggi einnig á Hverfisgötunni þá kvaðst ákærði ekki hafa vitað að svo væri. Ef það væri tilfellið byggju fimm einstaklingar þar. Ákærði kvaðst neita því að hafa ráðist á gamlan mann aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 í húsasundi til móts við hús nr. 49 við Laugaveg.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði umrætt kvöld hafa farið að spila á spilakassa á Mónakó. Þar hafi ákærði verið ásamt B og kærustu hans og A. B hafi farið fyrstur út af staðnum og heim. Ákærði hafi farið næstur en það hafi verið þegar verið var að loka staðnum. A hafi verið eftir og haldið áfram að skemmta sér og ákærði því kvatt hann inni á staðnum. Af staðnum hafi ákærði farið beint heim til sín að Hverfisgötu [...] í Reykjavík. Hafi hann gengið niður Laugaveginn og síðan niður á Hverfisgötu fram hjá Vegas. Er ákærði hafi komið heim hafi B verið háttaður. Ekki vissi ákærði hvort B hafi orðið var við er ákærði kom heim. Ákærði kvaðst ekki sérstaklega hafa tekið eftir eldri manni inni á Mónakó umrætt kvöld sem hafi unnið peninga í spilakössum. Fjöldi fólks hafi verið inni á staðnum. Ákærði kvaðst ekki hafa ráðist á eldri mann síðar þessa nótt í húsasundi við Laugaveg. Ákærði kvaðst vera kunningi A. A hafi átt heima á Spáni og þeir þekkst þar. Eftir að A hafi komið til landsins hafi þeir rifjað upp kynni sín. Ákærði og A hafi unnið hjá sama fyrirtæki frá sumri 2008, en ákærði væri búinn að vera búsettur á Íslandi í eitt ár. Aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 hafi ákærði verið í fötum sem A hafi lánað honum. Ákærði hafi ekki átt hlý föt og því fengið föt lánuð hjá A. A hafi átt húfuna, úlpuna, skóna og buxurnar. Ákærði hafi verið ölvaður er hann hafi farið að hátta og reiknað með að A hafi tekið fötin því hann viti ekki hvað hafi orðið um þau. A hafi eftir komu til landsins búið í húsnæði þar sem Las Vegas hafi verið til húsa við Laugaveg en er atburðir hafi gerst hafi A verið fluttur inn á Hverfisgötu [ ]. Þeir hafi því búið saman á þessum tíma. Ákærði kvaðst fyrst hafa frétt af málinu er hann hafi verið boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu. Þá hafi hann verið í starfi en nú hafi honum verið sagt upp. Stefni hann á að fara af landi brott er máli þessu lýkur en enga vinnu sé lengur að hafa hér. Málið hafi haft mikil áhrif á ákærða en m.a. hafi verið birtar myndir af honum í fjölmiðlum í tengslum við rannsókn málsins. Ákærði kvaðst staðfesta að hafa hjá lögreglu borið kennsl á sig á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó. Kvaðst hann vera 181 cm á hæð.
Z kvaðst hafa farið á spilastaðinn Háspennu aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Á staðnum hafi hann verið að vinna ,,smá potta“. Eftir það hafi hann farið á Mónakó. Þar hafi hann haldið áfram að spila og verið ,,í stuði“. Hafi hann drukkið bjór á staðnum og geti bjórarnir hafa verið fleiri en tveir því mikið fjör hafi verið. Hafi hann verið búinn að græða 100.000 krónur í spilakössum, en fjárhæðina hafi hann unnið í nokkrum litlum spilum. Hann hafi látið starfsstúlkur á bar staðarins geyma fyrir sig peningaveski. Síðan hafi hann fengið úr spilakössunum miða og út á þá fengið peningaseðla sem farið hafi í veskið. Er hann hafi hætt að spila hafi hann tekið veskið til sín. Hann hafi gefið einhverjum dreng í glas og drengurinn sagt að ákærði væri búinn að græða 100.000 krónur. Peningana hafi ákærði ekki talið sjálfur. Ákærði hafi síðan farið út af staðnum nærri lokun. Hafi hann gengið áleiðis niður Laugaveg. Eftir um 10 til 15 mínútna gang hafi einhverjir komið aftan að honum og myndi Z eftir því að hann hafi fengið högg. Eftir það myndi hann ekki meira en hann hafi misst meðvitund við barsmíðar. Myndi hann næst eftir sér á sjúkrahúsi. Hafi hann m.a. fengið brot í andlit og ætti hann erfitt með sjón á öðru auga eftir þetta. Hefðu læknar tjáð honum að hann hefði tapað varanlega 20% sjón á auganu. Af Z hafi verið tekið vegabréf, veskið með peningunum í og farsími. Z kvaðst aldrei hafa séð þá menn sem komið hafi aftan að honum og gæti hann því ekki borið kennsl á þá. Hann myndi eftir því að hafa sagt við lögreglu að mennirnir útlendingar eða Pólverjar. Hann gæti í dag ekki fullyrt hvort svo hafi verið.
Y kvaðst umrædda nótt hafa ekið niður Laugaveg. Hafi hann séð tvo menn styðja eldri mann. Hafi honum fundist eitthvað óeðlilegt við aðstæðurnar en hann hafi séð mennina bera manninn inn í sund. Hafi Y lagt bifreið sem hann hafi ekið og farið að sundinu. Í því er hann hafi komið að sundinu hafi tveir menn komið hlaupandi á móti Y út úr sundinu. Gamli maðurinn hafi legið í blóði sínu í sundinu. Y hafi ekki sjálfur séð hvernig manninum hafi verið veittir áverkarnir. Hafi Y tekið eftir því að allt hafi verið í lagi með gamla manninn er mennirnir hafi farið með hann inn í sundið en hann hafi séð á andlit hans þá. Y kvaðst hafa hringt á lögreglu og gefið lögreglu lýsingu á mönnunum. Hafi það verið fært niður í lögregluskýrslu. Kvaðst Y um þá lýsingu vilja vísa til lögregluskýrslna í málinu. Y gaf skýrslu hjá lögreglu mánudaginn 6. október 2008 kl. 10.02. Lýsti hann árásarmönnunum þá á þann veg að annar hafi verið talsvert hærri en hinn og sennilega 185 til 190 cm á hæð. Hafi hann verið með ljósbláa húfu, klæddur í snjóþvegnar gallabuxur, í dökkan leðurjakka með hvíta rönd yfir brjóstkassa og bak. Hinn hafi verið talsvert lægri í vextinum og sennilega um 175 til 180 cm á hæð. Hafi hann verið í dökkum fötum og með dökka húfu. Báðir hafi verið stuttklipptir því ekkert hár hafi sést undan húfunum. Þeir hafi verið á aldrinum 25 til 30 ára og væri Y handviss um að mennirnir væru frá Austur-Evrópu því klæðnaður þeirra og andlitsfall hafi verið með þeim hætti. Í lögregluskýrslu kemur fram að með Y þetta kvöld hafi verið C, en C hafi verið með honum í bifreiðinni. Y kvað það rangt sem fram kæmi í frumskýrslu lögreglu í málinu varðandi jakka þess manns sem hafi verið með ljósbláa húfu á höfði. Í frumskýrslu væri fært að sá hafi verið í ljósum leðurjakka. Það væri ekki rétt og hafi Y reynt að koma þeim skilaboðum til lögreglumannsins að jakkinn hafi verið dökkur. Sá lögreglumaður sem tekið hafi niður lýsinguna hafi hins vegar verið nokkuð ör og ekki gripið þetta. Y kvaðst ekki hafa heyrt árásarmennina segja neitt. Af yfirbragði þeirra að dæma hafi honum hins vegar fundist þeir væru af erlendu bergi brotnir. Mennirnir hafi hlaupið fram hjá Y og áfram niður Laugaveg að Vegas þar sem þeir hafi hlaupið í átt að Hverfisgötu. Í viðræðum við gamla manninn, sem hafi verið mjög illa farinn, hafi maðurinn sagt að hann hafi verið rændur og hafi hann sennilega sagt að mennirnir hafi verið Pólverjar. Y kvað enga aðra hafa komið til greina en mennina sem valdið hafi áverkum mannsins þar sem engir aðrir hafi verið í sundinu er hann hafi komið að og hafi einungis verið unnt að komast út úr sundinu út á Laugaveg.
C var boðaður fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Mætti hann ekki til þinghaldsins. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins hafði lögreglumaður samband við C símleiðis mánudaginn 6. október 2008 kl. 14.19. Lýsti C því þá að hann hafi verið með Y í bifreið og hafi bifreiðinni verið ekið niður Laugaveg í Reykjavík. Hafi þeir séð tvo menn halda um handleggina á eldri manni og teyma hann inn í húsasund. C og Y hafi grunað að ekki væri allt með felldu og hinkrað við. C hafi farið út úr bifreiðinni til að kanna hvað væri í gangi en mennirnir þá komið rösklega út úr húsasundinu og síðan hlaupið niður Laugaveg. Y hafi þá hringt í lögregluna. C kvaðst hafa veitt því athygli að annar mannanna hafi verið í dökkum gallabuxum og með bláleita húfu á höfði.
B kvaðst þekkja ákærða, en þeir félagar hafi verið á sama tíma í grunnskóla í Litháen. Þeir hafi ekki verið samferða til Íslands, en verið í samskiptum hér á landi. Þeir hafi unnið saman og hafi B útvegað ákærða húsnæði. Í október 2008 hafi þeir búið saman að Hverfisgötu [ ] í Reykjavík. B kvaðst hafa lýst atburðum í kringum sunnudaginn 5. október 2008 er lögregla hafi tekið af honum skýrslu. Vildi hann vísa til þess er þar hafi verið skráð niður eftir honum um atvik. Á meðal rannsóknargagna málsins er lögregluskýrsla er tekin var af B 15. október 2008. Lýsti B því að myndir hafi verið birtar í fjölmiðlum af mönnun er grunaðir hafi verið um að hafa ráðist á gamlan mann á Laugavegi og rænt hann. Kvaðst B hafa þekkt ákærða sem einn þeirra manna sem myndir hafi verið birtar af. Kvaðst B vita að hinn maðurinn héti A, en hann hafi komið til landsins frá Spáni sumarið 2008. Er atvik átt sér stað hafi A nýlega verið fluttur inn á Hverfisgötu [ ]. Kvaðst B hafa ekið A út á flugvöll miðvikudaginn 8. október 2008 en hann hafi flogið til Lettlands í gegnum Osló í Noregi. Er B voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó frá aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 kvaðst hann kannast við ákærða og A á myndunum. Ákærði hafi verið með dökka húfu en A með ljósa. Hafi B kvatt ákærða til að gefa sig fram við lögreglu eftir að A hafi verið farinn af landi brott. Ákærði hafi hins vegar ekki haft neinn áhuga á því. A hafi fengið greidd laun á mánudeginum 6. október eða þriðjudeginum 7. október 2008 og hafi hann þá strax keypt flugmiða í gegnum internetið. Hafi hann sagt að hann þyrfti að yfirgefa landið. Kvaðst B hafa verið með ákærða og A inni á Mónakó þessa nótt. Hafi B og kona hans yfirgefið staðinn um kl. 02.30 en ákærði og A orðið eftir. Hafi þau farið heim að sofa og ekkert hitt ákærða og A meira um nóttina. Hafi B sofið lengi fram eftir á sunnudeginum. Ekki hafi hann tekið eftir neinu óeðlilegu í fari tvímenninganna næsta dag. Kvaðst B oft áður hafa séð ákærða í þeim fötum er hann hafi klæðst aðfaranótt 5. október og teldi hann þetta vera hans föt.
D kvaðst hafa unnið sem starfsmaður á Mónakó aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Hafi Z verið gestur staðarins þessa nótt. Hafi hann unnið eitthvað af vinningum. Vinningana hafi hann fengið greidda út á bar staðarins. Kvaðst D muna eftir að hafa greitt honum einu sinni 34.000 krónur og áður einu sinni fjárhæð yfir 30.000 krónur. Z hafi tekið við þessum fjármunum og sett í veski sitt. Hafi D geymt veskið í afgreiðslunni á meðan Z hafi spilað. Hafi hann síðan fengið veskið afhent áður en hann hafi farið út af staðnum. Staðnum hafi verið lokað milli kl. 3.00 og 3.30 um nóttina. Z hafi spilað í nágrenni við D og hún því séð hann vinna vinninga. Margir hafi verið á staðnum að fylgjast með þeim sem hafi spilað. Myndi hún eftir að tveir menn hafi verið á staðnum að fylgjast með og hafi hún borið kennsl á þá á mynd úr eftirlitsmyndavél af staðnum. Hafi mennirnir verið rólegir og myndi hún eftir að þeir hafi verið að fylgjast með þeim sem hafi verið að spila og sérstaklega tveim spilurum. Algengt sé að fylgst sé með spilurum með þessum hætti en það sem hafi verið óvenjulegt hafi verið að þessir tveir menn hafi sjálfir ekki spilað neitt. Þá hafi þeir verið nýir á staðnum og hún ekki séð þá áður. Myndi D sérstaklega eftir vinningsmiða frá Z ríflega að fjárhæð 30.000 krónur en Z hafi misst miðann í gólfið og hafi þurft að leita að honum.
Ása Einarsdóttir læknir staðfesti læknisvottorð er hún gaf út 7. október 2008 vegna Z og gerði grein fyrir innihaldi þess. Ása kvað Z hafa verið með marga áverka og hafi það því verið útilokað að þeir hafi getað komið vegna falls. Þá hafi verið til staðar vökvi í brjóstholi sem komið hafi heim og saman við að Z hafi orðið fyrir höggum sem hafi verið fleiri en eitt. Brot í augntóftargólfi geti komið vegna hnefahöggs eða eftir barefli eða alvarlegt fall á hlut.
Niðurstaða:
Aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 var lögregla kölluð að húsasundi á móts við hús nr. 49 við Laugaveg í Reykjavík vegna árásar á gamlan mann. Tilkynnandi var Y, en Y hafði ásamt félaga sínum orðið var við er tveir ungir menn báru gamlan mann inn í húsasundið. Er Y kom að sundinu hlupu mennirnir á brott en eftir lá gamli maðurinn liggjandi í blóði sínu. Tjáði maðurinn Y að hann hefði verið rændur veski með peningum í og síma. Gamli maðurinn reyndist vera Z. Var Z fluttur á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss og gekkst hann þar undir aðgerð vegna áverka er hann hlaut þessa nótt. Samkvæmt vottorði læknis hlaut Z við atlöguna brot á augntóftargólfi, tvo skurði á vinstri kinn, mar á augnvef og yfirborðsáverka á brjóstkassa. Ekki gat Z lýst árásarmönnunum að öðru leyti en að þeir hafi verið tveir. Y gaf lögreglu hins vegar greinargóða lýsingu á mönnunum. Þá greindi C, sem samferða var Y þessa nótt, frá því að mennirnir hafi verið tveir. Gat hann að auki gefið þá lýsingu á mönnunum að annar þeirra hafi verið í dökkum gallabuxum og með bláleita húfu á höfði. Z tjáði lögreglu að hann hefði þessa nótt verið á Mónakó við Laugaveg að spila í spilakössum. Eftir að myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó höfðu verið skoðuð beindist grunur að tveim ungum mönnum sem sjá má á myndskeiðum á staðnum, en lýsing Y kom heim og saman við mennina. Í framhaldi voru birtar myndir af mönnunum í fjölmiðlum. Ákærði gaf sig fram við lögreglu í kjölfarið. Hefur hann frá upphafi vega neitað sök í málinu.
Ákærði hefur borið kennsl á sig á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó frá aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Þá hefur hann lýst því að með honum þetta kvöld hafi verið maður að nafni A og sé hann einnig á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfinu. Framburður ákærða hefur við rannsókn og meðferð málsins að verið á reiki og óstöðugur varðandi mikilverð atriði málsins. Svo sem rakið var gaf hann í tvígang skýrslu vegna málsins hjá lögreglu. Að auki gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Það rýrir trúverðugleika framburðar ákærða á hvern hátt hann hefur lýst kynnum sínum af A samferðamanni sínum þessa nótt. Ákærði skýrði frá því við aðalmeðferð málsins að A væri kunningi ákærða og hefði hann búið með ákærða á þessum tíma að Hverfisgötu [ ] í Reykjavík. Er það í samræmi við framburð B er þá bjó að Hverfisgötu, en B kvaðst hafa útvegað A húsnæði þar. Við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hins vegar ekki vita hvar A héldi sig eða vita hvar hann ætti heima. Endurtók ákærði þennan framburð sinn við næstu skýrslutöku hjá lögreglu 17. október 2008 er hann kvaðst ekki vita hvar A ætti heima. Eins og áður sagði gengur þetta gegn framburði ákærða fyrir dómi sem og vitnisins B. Skipti þetta atriði miklu varðandi rannsókn málsins þar sem grunur beindist á þessum tíma að ákærða og A sem árásarmönnunum. Síðar hefur komið í ljós, eftir því sem B hefur greint frá, að A fór af landi brott um miðja næstu viku eftir atburðinn.
Þá hefur framburður ákærða um fatnað þann er hann klæddist þessa nótt ekki verið á einn veg, en í ljósi þess að reynt var að bera kennsl á árásarmennina út frá klæðnaði þeirra lagði lögregla frá upphafi mikla áherslu á að ákærði gerði grein fyrir þeim fatnaði sem hann hefði klæðst þessa nótt. Í skýrslu sem lögregla hefur ritað vegna húsleitar að Hverfisgötu [ ] þriðjudaginn 14. október 2008 er fært eftir ákærða að ákærði hafi fengið jakka þann og skó er hann hafi verið í umrædda nótt frá A vini sínum og væri hann búinn að skila A fatnaðinum. Húfunni hafi hann sennilega týnt í vinnunni. Hafi hann framvísað nýþvegnum gallabuxum úr ferðatösku og sagt að hann hafi klæðst þeim þessa nótt. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 17. október 2008 bar ákærði á þann veg að A hafi lánað ákærða húfuna, úlpuna og skóna. Ákærði ætti hins vegar buxurnar sem hann hafi klæðst. Við aðalmeðferð málsins bar ákærði að A hafi átt allan þennan fatnað og buxurnar þar á meðal. Við skýrslugjöf hjá lögreglu bar B að hann hafi oft verið búinn að sjá ákærða klæðast þessum fatnaði þegar þessir atburðir hafi gerst og talið að ákærði ætti fötin. Við skýrslugjöfina 17. október kvaðst ákærði ekki vita hvað orðið hafi um fötin. Fyrir dómi kvaðst hann telja að A hafi tekið þau.
Þá hefur ákærði ávallt fullyrt að hann hafi kvatt A inni á Mónakó og farið á undan honum heim. Samkvæmt myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfi Mónakó, sem er á meðal rannsóknargagna málsins, sjást ákærði og nefndur A saman inni á staðnum. Má ráða af myndskeiði að er starfsmenn staðarins loka staðnum fara ákærði og A út af staðnum og eru nánast samferða.
Við mat á niðurstöðu liggur það fyrir að ákærði var ásamt félaga sínum A inni á Mónakó aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008 þegar Z var þar inni að spila í spilakössum. Z hefur lýst því að hann hafi unnið vinninga þessa nótt og hefur D, sem vann á staðnum, staðfest það. Af myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfi staðarins sést Z yfirgefa staðinn og ákærði og A fara út af honum nánast í beinu framhaldi. Tveir ungir menn, sem samkvæmt greinargóðum framburði vitnis voru klæddir í samskonar fatnaði og ákærði og A og svara að öðru leyti til lýsinga á þeim, réðust á Z er hann var á gangi frá Mónakó þessa nótt áleiðis á næturstað sinn. Þegar þessi atriði eru virt og haft er í huga að starfsmaður Mónakó sá ákærða og A fylgjast með Z og öðrum manni um nóttina og að framburður ákærða hefur verið reikull um tengsl við nefndan A þessa nótt, þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi verið annar þeirra tveggja er réðust á Z í húsasundi til móts við hús nr. 49 í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 5. október 2008. Í félagi við þennan mann veitti ákærði Z þá áverka er í ákæru og læknisvottorði greinir. Læknir hefur staðfest að áverkar þessir hafi komið af fleiri en einu höggi, en slíkt sé umfang þeirra. Verður við það miðað að ákærði hafi í félagi við annan mann slegið Z nokkrum sinnum í andlitið, svo sem ákæra miðar við.
Í ákæru er við það miðað að Z hafi verið rændur farsíma og 100.000 krónum sem voru í seðlaveski. Í málinu nýtur ekki annars við um nefndan farsíma en þess er fram kemur í frumskýrslu að sennilega hafi verið tekinn farsími. Þá er fram komið um fjárhæð er í veskinu var að ungur drengur hafði þessa nótt talið peninga í veski Z inni á Mónakó. Ekki kvaðst Z hafa talið peningana sjálfur. Reynt var að varpa ljósi á þá vinninga sem Z vann þetta kvöld með því að starfsmaður Mónakó var leiddur fyrir dóminn. Staðfesti starfsmaðurinn að Z hafi a.m.k. tvívegis unnið háar fjárhæðir. Hafi önnur þeirra numið 34.000 krónum og hin svipaðri upphæð. Í ljósi þess sem upplýst er um vinninga þetta kvöld telur dómurinn einungis liggja fyrir sönnun um að Z hafi verið rændur 64.000 krónum um nóttina. Þar sem óljóst er um farsímann verður ekki talin fram komin fullnægjandi sönnun um að af honum hafi verið tekinn farsími. Með framangreindum athugasemdum verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í júlí 1986. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði hefur með háttsemi sinni gerst sekur um rán og meiri háttar líkamsmeiðingu. Var brot ákærða einkar fólskulegt, en í félagi við annan mann réðst hann á gamlan mann í húsasundi og barði hann illilega. Á ákærði sér engar málsbætur. Er refsing hans, með hliðsjón af 1., 2., 3. og 7. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í tvö ár. Í ljósi eðlis verknaðarins verður refsingin að engu leyti skilorðsbundin. Frá refsingu dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða, svo sem í dómsorði greinir.
Z hefur krafist þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu fjártjóns að fjárhæð 100.000 krónur og miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Þá hefur verið krafist vaxta. Svo sem að framan var rakið liggur einungis fyrir sönnun um að ákærði og félagi hans hafi tekið 64.000 krónur af Z. Verður ákærði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar. Að því er miska varðar hefur verið vísað til þeirra alvarlegu áverka er Z hlaut þessa nótt en um hafi verið að ræða ólögmæta meingerð í garð Z. Er um skaðabótagrundvöll vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af þeim áverkum er Z hlaut þessa nótt verður við það miðað að Z hafi orðið fyrir miska af hálfu ákærða. Eru bætur fyrir miska ákveðnar samkvæmt dómvenju og þykja hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Fjárhæð skaðabóta ber vexti svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, ásamt virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Kolbrúnu Benediktsdóttur fulltrúa ríkissaksóknara.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 14. til 17. október 2008.
Ákærði greiði Z skaðabætur að fjárhæð 764.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. október 2008 til 3. mars 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 343.468 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ómars Hafsteinssonar héraðsdómslögmanns, 209.160 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 97.608 krónur.