Hæstiréttur íslands

Mál nr. 248/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Lögmaður


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. maí 2002.

Nr. 248/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Elínborg J. Björnsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Lögmenn.

X óskaði eftir því að hafa lögmann sér til aðstoðar þegar héraðsdómari tæki skýrslu af sér vegna rannsóknar á mannshvarfi. Héraðsdómari kvað þá upp úrskurð um að lögmaðurinn skyldi víkja af dómþingi þar sem til stæði að yfirheyra X sem vitni. Væru ríkir hagsmunir af því að hann væri yfirheyrður án þess að lögmaður væri viðstaddur. Þá stæðu lög heldur ekki til þess að vitni, sem ekki væri jafnframt brotaþoli, hefði lögmann sér til aðstoðar við skýrslutöku á rannsóknarstigi. Í dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á að með úrskurði héraðsdómara hafi X verið meinað að hafa sér til aðstoðar lögmann við skýrslutökuna. Sé kæra því heimil samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2002, þar sem héraðsdómslögmanni, sem varnaraðili hafði óskað eftir að yrði viðstaddur skýrslutöku af sér, var gert að víkja af dómþingi. Líta verður svo á að með úrskurði héraðsdómara hafi varnaraðila verið meinað að hafa sér til aðstoðar lögmann við skýrslu varnaraðila, sem taka átti í þinghaldi 28. þessa mánaðar. Er kæra því heimil samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að honum verði heimilað að hafa lögmann sinn viðstaddan þegar hann gefur skýrslu sem vitni fyrir dómi.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að skýrsla verði tekin fyrir dómi af vitninu X vegna rannsóknar á hvarfi Y. Skýrslutökunnar er óskað með vísan til c-liðs 1. mgr. 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Ástæða þess að skýrslutöku er krafist fyrir dómi er sú að X hefur neitað að gefa skýrslu fyrir lögreglu nema að viðstöddum lögmanni sínum.

Vitnið mætti fyrir dóminn til skýrslutöku með Elínborgu Björnsdóttur hdl. og óskaði eftir að hún yrði viðstödd skýrslutökuna. Því var andmælt af fulltrúa lögreglu­stjóra.

Fyrir dómi hefur því verið haldið fram af hálfu lögreglu að ekki standi til að yfirheyra vitnið sem sakborning og lög standi ekki til þess að lögmenn séu viðstaddir skýrslutöku á rannsóknarstigi af öðrum en sakborningum og brotaþolum. Andmælin byggist einnig á rannsóknarhagsmunum en þess sé ekki óskað að aðrir heyri hvað vitnið hafi að segja. Þá starfi lögmaðurinn í sama húsnæði og skipaður verjandi sakbornings sem nú sæti gæsluvarðhaldi vegna þess máls sem verið sé að rannsaka. Sá sakborningur sé grunaður um refsiverða aðild að hvarfi Y.

Vitnið hélt því m.a. fram að hann óskaði eftir að lögmaður yrði viðstaddur þar sem hann óttist að verið væri að draga hann inn í rannsókn á "nýju Geirfinnsmáli" og hann treysti hvorki lögreglunni né dómstólum til að gæta hagsmuna sinna við þessa skýrslutöku af gefnu tilefni. Hann telur það vera mannréttindi sín að fá að hafa lögmann viðstaddan við skýrslugjöf.

Niðurstaða:

Lögregla rannsakar nú hvarf Y en hann hvarf að heiman frá sér á árinu 1994 og hefur ekki sést síðan. Maður að nafni Z hefur verið hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um refsiverða aðild að hvarfi hans. Fallist er á með lögreglu að ríkir rannsóknarhagsmunir séu að því að vitnið verði yfirheyrt án þess að lögmaður sé viðstaddur. Þá standa ekki lög til þess að vitni, sem ekki er jafnframt brotaþoli, hafi lögmann sér við hlið við skýrslutöku á rannsóknarstigi. Er því fallist á kröfu lögreglunnar um að Elínborg Björnsdóttir víki úr þinghaldinu sem háð er fyrir luktum dyrum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Elínborg Björnsdóttir hdl. skal víkja af dómþinginu.