Hæstiréttur íslands

Mál nr. 727/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Ilja Volkovs (Björgvin Jónsson hrl.)

Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skilorðsrof

Reifun

I var sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot. Með brotum sínum rauf I skilorð dóms Hæstaréttar frá 30. október 2014, þar sem hann var dæmdur í 9 mánaða fangelsi. Var sá dómur tekinn upp og refsing I ákveðin í einu lagi fyrir bæði málin, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing hans ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. október 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ilja Volkovs, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 384.059 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 20. september 2016, er höfðað með ákæru, útgefinni  23. ágúst 2016, á hendur Ilja Volkovs, kt. [...], Bergþórugötu 45, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot:

I

Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 8. nóvember 2015, í verslun Bónuss, [...] í Reykjavík, stolið matvöru samtals að verðmæti 8.153 krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II

Þjófnað og áfengislagabrot með því að hafa, laugardaginn 21. nóvember 2015, í verslun 10-11, [...] í Reykjavík, stolið matvöru samtals að verðmæti 1.977 krónur og verið með óspektir sökum ölvunar, en ákærði henti mat í fót lögreglumanns á vettvangi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 21. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr.  75/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

                Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

      Ákærði er fæddur í október [...]. Samkvæmt sakavottorði var honum 22. nóvember 2013 gerð sektarrefsing vegna þjófnaðarbrots. Þann 28. sama mánaðar gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir húsbrot og eignaspjöll. Þá var ákærði dæmdur í Hæstarétti Íslands 30. október 2014 til 9 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn valdstjórninni og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar. Með brotum þeim sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu hefur hann rofið skilorð framangreinds refsidóms. Verður dómurinn tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

      Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hrl., 81.840 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

      Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

      Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

      Ákærði, Ilja Volkovs, sæti fangelsi í 10 mánuði.

      Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hrl., 81.840 krónur.