Hæstiréttur íslands

Mál nr. 75/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Uppgjör


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. september 2001.

Nr. 75/2001.

Alda Kristrún Sölvadóttir

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Uppgjör.

A lenti í umferðarslysi á árinu 1995 og var í framhaldi af því fengið álit örorkunefndar á varanlegum miska og örorku sem hún hlaut við slysið. Örorkunefnd áleit að varanlegur miski A næmi 7%, en hafnaði að meta varanlega örorku með vísan til þágildandi 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á grundvelli álits nefndarinnar samdi lögmaður A við vátryggingafélag hennar um greiðslu skaðabóta. Á kvittun sem félagið bjó út vegna þessa kom fram að um væri að ræða greiðslu á þjáningabótum, bótum fyrir varanlegan miska, heimilistryggingu og lögfræðikostnaði og að um væri að ræða lokagreiðslu. Af hálfu lögmanns A var gerður fyrirvari um útreikning á þjáningabótum og fjárhæð lögmannsþóknunar, en aðilar náðu síðar samkomulagi um þessa þætti. Tveimur og hálfu ári síðar krafðist lögmaðurinn þess að vátryggingafélagið greiddi A bætur fyrir varanlega örorku í ljósi nýrra dóma Hæstaréttar. Í framhaldi af því fór hann fram á að matsmenn yrðu dómkvaddir til að meta varanlegan miska og örorku A. Í dómsmáli sem A höfðaði á hendur vátryggingafélaginu krafðist hún greiðslu bóta fyrir annars vegar varanlega örorku og hins vegar mismun á niðurstöðu matsmanna og örorkunefndar á varanlegum miska. Héraðsdómur taldi að A væri bundin af bótauppgjöri lögmanns síns sem hefði verið án fyrirvara um hina umdeildu bótaþætti. Af því leiddi að málsástæður A um ólögmæti þágildandi ákvæða skaðabótalaga hefðu ekki þýðingu við úrlausn málsins. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2001. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 729.912 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 4. júní 1995 til 30. ágúst 1999, frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli þá niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Öldu Kristrúnar Sölvadóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

                                               

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2000.

                Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 26. júní 2000 og dómtekið 24. þ.m.

                Stefnandi er Alda Kristrún Sölvadóttir, kt. 060176-4779, Austurbergi 16, Reykjavík.

                Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykja­vík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 729.912 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 4. júní 1995 af 1.030.744 krónum til 11. desember 1996, en af 729.912 krónum frá þeim degi til 30. ágúst 1999.  Frá þeim degi er krafist dráttarvaxta til greiðsludags.  Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 26. júlí 1999.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar en til vara að kröfur hennar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Sunnudaginn 4. júní 1995 er stefnandi ók fólksbifreiðinni Y-18152 vestur frá Grundarfirði áleiðis til Ólafsvíkur lenti bifreiðin í lausamöl með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og valt á hliðina.  Við þetta hlaut stefnandi áverka sem mál þetta varðar.

Bifreiðin Y-18152 var skylduvátryggð hjá Vátryggingafélaginu Skandia hf. en stefndi hefur yfirtekið vátryggingaskuldbindingar þess og er ekki deilt um ábyrgð hans á grundvelli 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Stefnandi  leitaði samdægurs á Heilsugæslustöðina í Grundarfirði og var talið að hún hefði tognað á hálsi og efri hluta baks.  Daginn eftir voru teknar röntgenmyndir af hálsinum á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík og voru þær taldar eðlilegar.  Stefnandi var meðhöndluð með hálskraga og verkjalyfjum; notaði hún hálskragann í 6 vikur og kom einu sinni til eftirlits hjá sérfræðingi á slysadeild á því tímabili.  Eftir það var hún í eftirliti hjá Gerði Jónsdóttur heimilislækni er sendi hana í sjúkraþjálfun í ágúst 1995 sem hún naut fram til loka júní 1996. 

Í nóvember 1995 leitaði stefnandi til Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis vegna versnunar á fyrri einkennum.  Um það leyti lýsti hún stöðugum dofa eða verk í höfðinu sem versnaði þegar leið á dag og við alla áreynslu.  Við skoðun hjá Sigurjóni fundust skertar hreyfingar í hálsinum en röntgenmyndir sýndu  eðlilega hæð liðbola og liðþófabila og engar beinbreytingar.  Taldi Sigurjón áverka stefnanda vera “whiplash” (þ.e. hálshnykks-) áverka.

Í álitsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis, dags. 28. nóvember 1995, segir  að vegna tognunar stefnanda við bílveltu hafi verið lýst miklum óþægindum í höfði, hálsi, herðum og  mjóbaki og hafi hún verið  óvinnufær í nær 6 mánuði. Varanleg örorka sé líkleg 5 – 10%.

Í áverkavottorði Sigurjóns Sigurðssonar læknis, dags. 16. júlí 1996, segir að stefnandi hafi töluverð einkenni um verki í hálsi, sem aukist við allt álag.  Þetta hái henni mjög þannig að hún eigi erfitt með mörg störf og í miklum erfiðleikum með öll erfiðari heimilisstörf.  Þrátt fyrir ýmiss konar meðferð sé hún enn með töluverð einkenni.  Vegna þess megi segja að hér sé um nokkuð varanlegan áverka að ræða.

Á slysdegi var stefnandi einstæð móðir ársgamals barns og hafði unnið í um sex mánuði í veitingahúsinu Hard Rock Café.  Eftir slysið hefur hún ekki unnið úti en eignast þrjú börn með sambýlismanni sínum, tvíbura fædda 1997 og barn fætt 1999.

Stefndi óskaði í júní 1996 álits örorkunefndar samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993 um varanlega örorku og miskastig stefnanda.  Í niðurstöðukafla álitsgerðar­innar, sem er dags. 19. október 1996, segir að eftir 1. júní 1996 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum umferðarslyssins 4. júní 1995 en þá var orðinn og telji nefndin varanlegan  miska hennar vegna slyssins hæfilega metinn 7%.  Vinnutekjur tjónþola, sem hafi verið 19 ára gömul á slysdegi, hafi verið svo litlar á því ári og næstu ár á undan að hún teljist hafa að meginstefnu nýtt vinnugetu sína til annars en öflunar vinnutekna.  Af því leiði að um uppgjör bóta vegna hugsanlegrar varanlegrar örorku vegna afleiðinga slyssins fari samkvæmt ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Því verði að vísa beiðni um mat á varanlegri örorku frá örorkunefnd.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 4. desember 1996, til stefnda var sett fram krafa um bætur.  Þar er tekið fram að tímabundið atvinnutjón hafi verið greitt að fullu en krafa gerð um þjáningarbætur, bætur vegna varanlegs miska á grundvelli niðurstöðu örorkunefndar um 7% varanlegan miska og lögmannsþóknun.  Lögmaðurinn gekk síðan fyrir hönd stefnanda til uppgjörs við stefnda þ. 11. desember 1996 og kvittaði fyrir “bætur f. varanlegan miska 300.832, þjáningarb. 94.762 og heimilistr. 108.713 + lögfrkostn. 107.350.”  Merkt er við í reit sem segir að um sé að ræða lokagreiðslu.  Fyrirvari var gerður varðandi útreikning þjáningarbóta og þóknunar lögmanns og áskilinn réttur til viðbótarkröfu.  Náðu aðilar síðar samkomu­lagi um þessa þætti.

Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 30. júlí 1999, til stefnda segir að ljóst sé miðað við nýlega dóma Hæstaréttar að stefnandi eigi rétt á bótum fyrir varanlega örorku.  Krafist var bóta fyrir varanlega örorku stefnanda miðað við 7% örorkustig og krafan “reiknuð í hlutföllum miðað við 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dóma sem gengið hafa.”  Gerður var áskilnaður um viðbótarkröfur kæmi í ljós að varanlega örorkan væri hærri samkvæmt niðurstöðu matsmanna, en boðuð var dómkvaðning þeirra til að meta varanlega örorku og miskastig stefnanda.

Í samræmi við þetta voru læknarnir Halldór Jónsson bæklunarskurðlæknir og Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir læknir, sérfræðingur í taugasjúkdómum, dómkvaddir á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 1999.  Auk framangreindra meginatriða var þess óskað að matsmennirnir létu í té mat á nokkrum öðrum atriðum, m.a. það hvenær ástand stefnanda hafi verið orðið það stöðugt að ekki hafi verið að vænta frekari bata.  Verður hér greint frá helstu niðurstöðum matsmanna samkvæmt matsgerð dags. 14. janúar 2000.

Um mat á tímabili þjáningabóta segir að fyrir liggi að matsbeiðandi hafi verið í hefðbundinni meðferð með hálskraga, lyfjum og sjúkraþjálfun fram til loka júní 1996.  Eftir þann tíma hafi öll einkenni verið viðvarandi og telji matsmenn að tjónþoli hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 30. júní 1996.

Um mat á varanlegum miska segir að með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum og læknisskoðun matsmanna telji matsmenn að matsbeiðandi hafi hlotið varanlegt heilsutjón í umræddu umferðaróhappi og séu helstu afleiðingarnar tognun á hálshrygg.  “Framangreint líkamstjón eitt og sér veldur því að matsmenn telja hæfilegt að meta varanlegan miska 5%, en með hliðsjón af þeim sérstöku erfiðleikum sem líkamstjónið veldur henni, sem ungri konu með 3 (svo) börn, telja matsmenn rétt að hækka þetta mat í 10%.  Matsmenn vilja hér einnig benda á að þeir telja einsýnt að líkamstjónið valdi matsbeiðanda þjáningum og ýmiss konar óþægindum við framkvæmd starfa hennar og taka tillit til þess hér.  Varanlegur miski telst því hæfilega metinn 10%.”

Um mat á varanlegri örorku segir að fyrir liggi að matsbeiðandi hafi enga framhaldsmenntun.  Tekjuleysi frá óhappi til matsdags telja matsmenn skýrast af samverkandi þáttum af afleiðingum óhappsins, erfiðleikum við fjölda barnsburða á skömmu tímabili svo og miklum veikindum eins barnsins.  Telja þeir að líklegast liggi fyrir matsbeiðanda að sinna líkamlega þungri vinnu á starfsævi sinni.  Áhrif slyssins á tekjuöflun verði því meiri en hefði hún t.d. sinnt skrifstofustörfum.  “Matsmenn telja að þegar litið er til þess að í 2. mr. 5. gr. (skaðabótalaga-innskot dómara) eru gerðar kröfur til tjónþola um að hann reyni að takmarka tjón sitt eftir því sem sanngjarnt má teljast, en í því felst að matsbeiðandi verður að reyna að velja sér vinnu þar sem afleiðingar líkamstjónsins verða sem minnstar, að hæfilegt sé að meta varanlega örorku 10%.”

Í stefnu segir að stefndi hafi einungis samþykkt að greiða það, sem samkvæmt matsgerð vantaði upp á varðandi þjáningarbætur, en neitað að bæta varanlega örorku og mismuninn á varanlegum miska.

Á því er byggt af hálfu stefnanda  að hann eigi rétt á bótum fyrir varanlega örorku.  Stefndi geti ekki skotið sér á bak við ákvæði 1. ml. 2. mgr. 8. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993 og hafnað greiðslu örorkubóta þannig að þar sem miskastig stefnanda sé undir 15% leiði það til þess að hún fái engar örorkubætur.  Um þetta er vísað til þess að Hæstiréttur hafi í máli nr. 317/1997 frá 4. júní 1998 staðfest að þeir, sem hafi haft miskastig undir 15%, skuli fá tjón sitt bætt þar sem framangreint ákvæði brjóti í bága við jafnræðisreglu og eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar.  Þá brjóti það gegn meginreglum skaðabótalaga nr. 50/1993 og skaðabótaréttarins sjálfs að stefnandi fái ekki bætt tjón sitt og sé ljóst að ákvæði 8. gr. skaðabótalaganna um að engar örorkubætur greiðist sé miskastig minna en 15% hafi verið andstætt þeim markmiðum sem að hafi verið stefnt með setningu laganna.

Fjárhæð dómkröfunnar byggist á 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. þá breytingu sem gerð var á greininni með lögum nr. 42/1996, og dómi Hæstaréttar frá 4. júní 1998 greininni til skýringar.  Samkvæmt mati dómkvaddra lækna sé varanleg örorka stefnanda 10%.  Hún hafi verið tekjulítil fyrir slys og þess vegna falli hún í hóp þeirra tjónþola sem fylgi reiknireglum 8. gr. laganna.

Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku nemur 553.344 krónum og er þannig reiknuð:  4.000.000 kr. x 10% = 400.000 kr., sem með verðbótum frá slysdegi til þingfestingardags nemi 461.120 krónum, en bæturnar eigi síðan að vera 120% af bótum fyrir varanlegan miska.

Að auki krefst stefnandi bóta fyrir miska þar sem í ljós hafi verið leitt að miski hennar  hafi verið hærri en upphaflega var talið, þ.e.a.s. 10% í stað 7%.  Afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en í fyrstu hafi verið talið og verið stefnanda sérstaklega erfiðar.  Skilyrði endurupptöku, að um sé að ræða hækkun á miskastigi, sé uppfyllt.

Krafa stefnanda um bætur fyrir aukinn miska nemur 176.568 krónum og er þannig reiknuð:  4.000.000 kr. x 10% m. verðbótum = 477.400 krónur en frá þeirri upphæð dregst innborgun miðað við 7% miska, 300.832 krónur.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að stefnandi eigi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta úr hendi stefnda en hún hafi þegar fengið.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi sé bundin af samnings­uppgjörinu 11. desember 1996 sem hafi verið án nokkurs fyrirvara um bætur fyrir varanlega örorku eða frekari bætur fyrir varanlegan miska.  Stefnandi hafi notið lögmannsaðstoðar við uppgjörið, sem hafi farið fram á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga, og hvorki þá né annars gert kröfu um bætur fyrir varanlega örorku.  Aðilar hafi þannig tekið afstöðu við uppgjörið til bóta fyrir varanlega örorku.  Það sé meginregla í kröfurétti að fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör kröfu eða kröfuþátta leiði til þess að viðbótarkrafa vegna sama atviks eða sömu skuldaskipta verði ekki höfð uppi eftir það. 

Þá er sýknukrafa stefnda reist á því að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga sé ekki fullnægt í tilviki stefnanda, hvorki varðandi varanlega örorku né varanlegan miska.  Vísað er til þess að samkvæmt framlögðu bréfi örorkunefndar frá 7. október 1998 hafi nefndin gefið það svar, á grundvelli dóms Hæstaréttar frá 22. maí 1998 í máli nr. 311/1997, að hún telji að í þeim tilvikum, er bótauppgjör skuli fara eftir ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga, sé ekki fyrir hendi annar betri mælikvarði á örorkustig tjónþola en að það sé hið sama og miskastigið.  Samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda talin 10%, en hækkun úr 7% í 10% sé fjarri því að vera veruleg hækkun.  Þá komi ekki heldur neitt fram í matsgerðinni sem bendi til þess að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda af völdum slyssins frá því bótauppgjörið fór fram.

Því er haldið fram af hálfu stefnda að það sé meginregla að samningur eða kröfu­upp­gjör byggt á “röngum” skilningi á umdeilanlegum eða vandtúlkuðum lagaákvæðum verði ekki tekið upp aftur þó að síðar komi til dómafordæmi sem kveði á um annan skilning á ákvæðunum.

Varakrafa stefnda er byggð á því að hvað sem öðru líði geti stefnandi aldrei átt rétt til frekari bóta fyrir varanlegan miska en hún hafi fengið bættan með uppgjörinu 11. desember 1966.  Þá séu eldri vextir en fjögurra ára frá birtingardegi stefnu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og dráttarvöxtum er andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Þegar tjónsatvikið varð gilti sú regla samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, miðað við það hvernig högum stefnanda var háttað, að bætur fyrir varanlega örorku skyldi ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. s.l.  Mat hinna dómkvöddu matsmanna á varanlegri örorku stefnanda hefur því ekki þýðingu.  Samkvæmt 1. ml. 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga skyldu engar örorkubætur greiðast væri miskastig minna en 15%.  Með lögum nr. 42/1996, sem öðluðust gildi 1. júlí 1996, var þetta lágmark fært í 10% og skyldu örorkubætur þá vera 120% af bótum fyrir varanlegan miska.

Til grundvallar úrlausn málsins verður lagt að stefnandi sé samkvæmt almennri reglu kröfuréttar bundin við bótauppgjör lögmanns síns sem var án fyrirvara um hina umdeildu bótaþætti.  Af því leiðir að afstaða til þess, sem fram er haldið af stefnanda um ólögmæti umrædds ákvæðis, hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Frá framangreindri meginreglu er sú undantekning í 11. gr. skaðabótalaga að heimilt er að kröfu tjónþola að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur hafi ófyrirsjáanlegar breytingar orðið á heilsu hans þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.  Ekki er fram komið að um slíkar breytingar hafi orðið að ræða á heilsu stefnanda eftir að gengið var frá samningsuppgjöri 11. desember 1996.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. 

Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefn­anda, 475.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar 200.000 krónur.

 Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Öldu Kristrúnar Sölvadóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 475.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar 200.000 krónur.