Hæstiréttur íslands
Mál nr. 432/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gagn
- Verjandi
|
|
Föstudaginn 29. otkóber 1999. |
|
Nr. 432/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gögn. Verjandi.
Gæslufanginn X krafðist þess að lögregla afhenti verjanda hans öll gögn, sem vörðuðu rannsókn máls er beindist gegn honum, þar með talin endurrit símhlerana. Héraðsdómari hafnaði kröfum X um afhendingu gagna yngri en þriggja vikna en taldi að lögreglu væri skylt að afhenda verjanda X endurrit símhlerana, eldri en þriggja vikna, sem vörðuðu X. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 1999, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að verjanda hans yrðu afhent gögn yngri en þriggja vikna, sem eru í vörslum lögreglu og sóknaraðila gert að afhenda verjanda varnaraðila endurrit símhlerana, eldri en þriggja vikna, sem varða varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðila verði gert að afhenda verjanda varnaraðila endurrit allra þeirra gagna, er málið varða, og voru ekki afhent 19. október sl., þar með talin afrit allra símhlerana, sem varða málið. Í þeim tilvikum þar sem símtöl hafi verið vélrituð upp eða skrifuð á tölvu krefst varnaraðili jafnframt að verjandi sinn fái þegar í stað afhent endurrit þeirra skjala. Til vara er krafist afhendingar ofangreindra gagna, sem eru eldri en vikugömul.
Sóknaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 24. október 1999. Krefst hann þess að fellt verði úr gildi ákvæði úrskurðarins um að sóknaraðili skuli afhenda verjanda varnaraðila endurrit símhlerana, sem eru eldri en þriggja vikna og varða varnaraðila. Krefst hann þess að sér verði ekki gert skylt að afhenda verjanda þessi endurrit símhlerana fyrr en þau hafi verið borin undir varnaraðila. Að öðru leyti krefst hann staðfestingar úrskurðarins.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 1999.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september sl. var kærða gert á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. desember 1999 kl. 16 vegna rannsóknar stórfellds fíkniefnamáls. Þann sama dag var með úrskurði héraðsdóms fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um skýrslutöku fyrir dómi af kærða samkvæmt b. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 vegna rannsóknar málsins. Þá var jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur til að synja verjanda kærða um aðgang að rannsóknargögnum málsins. Í úrskurðinum var jafnframt kveðið á um að upphafstími frestsins miðaðist við framsal kærða til íslenskra yfirvalda. Báðir þessi úrskurðir voru kærðir til Hæstaréttar sem staðfesti þá með dómum sínum 5. október sl. Skýrslutaka fór fram af kærða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 19. október sl. Að skýrslutöku lokinni voru verjanda kærða afhent þau rannsóknargögn málsins sem voru orðin þriggja vikna gömul miðað við framsal kærða 28. september sl. Gerði verjandi kærða athugasemdir þar að lútandi og krafðist þess að honum yrðu afhent öll rannsóknargögn málsins en því var hafnað af hálfu lögreglustjóra. Að beiðni verjanda kærða var þinghaldinu frestað til málflutnings um ágreininginn til 20. október sl. Að loknum málflutningi þann dag var málið tekið til úrskurðar.
Verjandi kærða krefst þess aðallega að honum verði þegar í stað afhent afrit allra þeirra gagna er varðar rannsókn fyrrgreinds máls og ekki voru afhent honum í þinghaldi 19. október sl., þar með talin afrit allra símhlerana er málið varðar. Í þeim tilvikum þar sem símtöl hafa verið vélrituð eða rituð á tölvu er þess jafnframt krafist að verjandi kærða fái þegar í stað afhent endurrit þeirra skjala. Til vara er þess krafist að afhent verði sömu gögn og greinir í aðalkröfu en aðeins þau sem orðin eru viku gömul.
Verjandi byggir kröfu sína á því að frestur sá sem lögreglu hafi verið veittur til að synja verjanda aðgang að gögnum málsins með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar sé liðinn þar sem skýrsla hafi verið tekin af kærða fyrir dómi sbr. b. lið 74. gr. a. liðar laga nr. 19/1991 og meira en þrjár vikur séu liðnar frá framsali kærða til íslenskra yfirvalda sem fór fram 28. september sl. Beri því lögreglu að afhenda verjanda kærða endurrit allra rannsóknargagna málsins jafnskjótt og unnt sé, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 svo og aðstöðu til að kynna sér önnur þau gögn sem ekki verði endurrituð. Vísar verjandinn til athugasemda við 23. gr. í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 36/1999 þar sem segi að ekkert sé því til fyrirstöðu að sakborningur fái aðgang að málsgögnum eftir að hann hafi gefið skýrslu skv. b. lið 74. gr. a. laga nr. 19/1991. Þá verði ekki annað séð en að Hæstiréttur hafi með fyrrgreindum dómi sínum hafnað þeim skýringarkosti er lögregla vilji nú byggja á, að upphaf frestsins skv. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 miðist við aldur gagnanna í vörslum lögreglu þar sem miða skuli við framsal kærða til íslenskra yfirvalda. Þá vísar verjandinn til þess að stór hluti þeirra símtala sem hleruð hafi verið í þágu rannsóknar málsins liggi fyrir í skjallegu formi og hafi slík gögn legið frammi í dóminum er krafist hafi verið gæsluvarðhalds yfir kærða. Varakröfu sína byggir verjandinn á 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 en samkvæmt því ákvæði eigi að miða við aldur viðkomandi rannsóknargagns í vörslum lögreglu og því geti lögregla eigi synjað verjanda aðgang að einstökum gögnum í lengri tíma en þar er heimilað eða í eina viku. Frestur samkvæmt síðastgreinda ákvæðinu verði ekki framlengdur oftar gagnvart kærða í málinu þar sem skýrslutaka hafi farið fram fyrir dómi.
Fulltrúi lögreglustjóra hefur mótmælt því að verjanda verði afhent gögn málsins sem ekki séu orðin þriggja vikna gömul með þeim rökum að skýrslutökum í máli þessu fyrir dómi sé ekki lokið þar sem eigi eftir að yfirheyra aðra sakborninga hjá lögreglu og fyrir dómi. Gæti framburður þeirra leitt til þess að kærði yrði aftur færður fyrir dóm til skýrslutöku. Rannsókninni sé hvergi nærri lokið. Þannig hafi aðili verið handtekinn fyrr í dag sem grunaður sé um aðild að málinu og muni væntanlega verða krafist gæsluvarðhalds yfir honum á morgun.
Hvað varði símhleranir lögreglu þá geti verjandi kærða kynnt sér þær hjá lögreglu og fengið afrit á segulbandsspólu eða geisladisk af þeim símtölum sem varði hans skjólstæðing. Símtöl verði ekki afhent verjanda í skriflegu formi fyrr en þau hafi verið borin undir kærða, þar sem um sé að ræða vinnuplögg lögreglu. Þá hvíli engin lagaskylda á lögreglu að afhenda símtöl í skriflegu formi, auk þess sem aðeins hluti símtalanna hafi verið skrifaður upp. Um mikið magn samtala sé að ræða sem aðeins sé til á tölvutæku formi og því sé ógjörningur að afhenda afrit af öllum þessum diskum þar sem slíkt útheimti margra daga vinnu hjá rannsóknaraðilum. Í öðru lagi vísar fulltrúi lögreglustjóra til þess að aðeins hluti þessara símtala varði kærða. Um sé að ræða mikinn fjölda einkasamtala milli annarra kærðu og maka þeirra og sé það mat lögreglu að það varði við 71. gr. stjórnarskrárinnar að afhenda afrit af þeim samtölum verjanda og kærða. Loks er af hálfu lögreglu vísað til þess að þó svo að fallist verði á með verjanda kærða að þriggja vikna fresturinn sé liðinn, þá hafi lögregla heimild til að synja verjanda kærða um aðgang að gögnum í allt að eina viku frá því að þau verða til skv. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991.
Niðurstaða.
Í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, eins og henni var breytt með 12. gr. laga nr. 36/1999, er lögfest sú meginregla að verjandi skuli jafnskjótt og unnt sé fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verði endurrituð. Þó geti lögregla neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Í 2. mgr. sömu greinar er síðan kveðið á um að verjanda sé heimilt, eftir að hann hefur fengið aðgang að gögnum málsins, að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti. Er hér um nýmæli að ræða. Í athugasemdum í greinargerð með 12. grein laga nr. 36/1999 segir að með því að verjandi geti á þennan hátt óhindrað kynnt gögn og efni fyrir sakborningi um leið og hann hafi fengið aðgang að þeim, gæti sakaður maður hagrætt framburði sínum t.d. eftir að hafa fengið vitneskju um framburð annarra sakborninga eða vitna fyrir lögreglu. Þar eð slíkt geti skaðað rannsókn máls og jafnvel komið í veg fyrir að það upplýsist sé lagt til að lögreglu sé fengin heimild til að synja verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Þá segir einnig í greinargerðinni að þessi heimild lögreglu sé hugsuð sem undantekningarákvæði sem aðeins ætti að beita þegar sérstaklega standi á og verulegir hagsmunir séu í húfi. Þá sé í 23. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að lögregla geti, meðan á rannsókn máls stendur, farið fram á að tekin verði skýrsla af sakborningi eða vitnum fyrir dómi áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum.
Tilgangurinn með skýrslutöku fyrir dómi á rannsóknarstigi samkvæmt b. lið 74. gr. a. laga um meðferð opinberra mála, eins og henni var breytt með 23. gr. laga nr. 36/1999, er að stuðla að því að mál verði upplýst áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess. Í greinargerð með fyrrgreindri 23. gr. segir að með tilliti til sönnunargildis skýrslu sem gefin sé fyrir dómi í samanburði við lögregluskýrslu geti lögregla með því að leita atbeina dómara á þennan hátt á rannsóknarstigi leitast við að tryggja sönnun áður en sakborningur fær aðgang að gögnum og þar með tækifæri til að hagræða framburði sínum, t.d. með hliðsjón af framburði annarra sakborninga eða vitna í málinu. Ef þörf krefji geti dómari framlengt frest skv. 1. mgr. 43. gr. í allt að þrjár vikur svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans. Þá sé jafnframt ekkert því til fyrirstöðu að sakborningur fái aðgang að málsgögnum eftir að hann hefur gefið skýrslu skv. b. lið 74. gr.a.
Af framansögðu þykir vera ljóst að meðan mál er enn á rannsóknarstigi þurfi að gæta að því að rannsókn þess sé ekki stofnað í hættu við það að verjanda og kærða sé veittur aðgangur að rannsóknargögnum. Mál það sem hér er til rannsóknar beinist að stórfelldum innflutningi fíkniefna til landsins og sölu efnanna hér. Kærði er einn tíu manna sem þegar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins. Í gær var einn aðili til viðbótar handtekinn vegna gruns um aðild að málinu og að öllum líkindum mun verða krafist gæsluvarðhalds yfir honum. Er ljóst að rannsókn málsins er ekki nærri lokið og eftir er að taka frekari skýrslur af kærðu bæði hjá lögreglu og fyrir dómi.
Með vísan til þess sem hér er að framan rakið um umfang rannsóknar málsins þykir verða að fallast á það með lögreglu að skýrslutöku af kærða fyrir dómi í skilningi b. liðar 74. gr. a. laga nr. 19/1991 sé ekki lokið þótt ein skýrsla hafi verið tekin af honum fyrir dóminum. Þá er það álit dómsins að skýra verði þriggja vikna frest þann sem lögreglu var veittur með dómi 29. september á grundvelli síðari málsliðar b. liðar 74. gr. a., sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 til að synja verjanda kærða um aðgang að rannsóknargögnum málsins á þann veg að upphafstími frestsins miðist við aldur hvers skjals í vörslum lögreglu, þótt fresturinn hafi ekki byrjað að líða fyrr en við handtöku kærða varðandi þau skjöl sem þá voru í vörslum lögreglu. Samkvæmt þessu verður niðurstaðan sú að hafnað er kröfum verjanda kærða um að hann fái afhent önnur gögn en þau sem hafa verið í vörslum lögreglu í þrjár vikur eða lengur frá handtöku kærða. Varðandi kröfu verjanda um afrit af öllum símtölum sem hleruð hafi verið í málinu þá hvílir sú lagaskylda á lögreglu samkvæmt 1. mgr. 43. gr að afhenda verjanda jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verði endurrituð. Af hálfu lögreglu hefur því verið lýst yfir að verjanda kærða sé heimill aðgangur að öllum upptökum af símahlerunum í málinu á starfsstöð lögreglu auk þess sem hann geti fengið afrit af þeim símtölum sem varði hans skjólstæðing á segulbandsspólu eða geisladisk. Með þessu þykir lögregla hafa uppfyllt þá lagaskyldu sem á henni hvílir samkvæmt fyrrgreindri 1. mgr. 43. gr. Þá þykir verjandi kærða ekki eiga kröfu á að fá afhent afrit símhlerana er ekki snerta kærða þar sem um getur verið að ræða persónuleg málefni annarra. Hins vegar liggur fyrir að einhver símtöl varðandi kærða hafa verið endurrituð og eru meðal rannsóknargagna málsins. Þykir því með vísan til þess sem að framan er rakið verða að fallast á kröfu verjanda kærða um afhendingu endurrita þeirra símhlerana sem varða kærða og hafa verið í vörslum lögreglu í þrjár vikur eða lengur.
Sigurjóna Símonardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfum verjanda kærða, X, um afhendingu gagna yngri en þriggja vikna í vörslum lögreglu.
Lögregla skal afhenda verjanda kærða endurrit símahlerana, eldri en þriggja vikna, sem varða kærða.