Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2003


Lykilorð

  • Eignaspjöll
  • Matsgerð
  • Geðhagir


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 164/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Eignarspjöll. Matsgerð. Geðhagir.

X var sakfelldur fyrir eignaspjöll, með því að hafa kveikt í bifreið með þeim afleiðingum að bifreiðin eyðilagðist. Að virtum þeim gögnum sem fyrir lágu um geðhagi X, þóttu ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1940 ekki standa því í vegi að honum yrði gerð refsing í málinu. Var honum gert að sæta fangelsi í 3 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi.

Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti og í málflutningi skipaðs verjanda hans fyrir réttinum 1. október 2003 voru reifuð sjónarmið þess efnis að framlagt læknisvottorð tiltekins sérfræðings í heimilis- og embættislækningum, 23. júlí 2003, gæfi tilefni til að kanna nánar hvort ákvæði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ætti við um geðhagi ákærða. Af hálfu ákæruvalds var ekki brugðist við ábendingum þessum. Að loknum fyrrnefndum málflutningi 1. október 2003 var með ákvörðun Hæstaréttar sama dag lagt fyrir ríkissaksóknara, með vísan til d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að hlutast til um að aflað yrði gagna frá geðlækni og eða sálfræðingi um andlegan þroska og heilbrigði ákærða. Í þinghaldi í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. október 2003 voru Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir og Brynjar Emilsson sálfræðingur dómkvaddir til starfans. Í  niðurstöðu rannsóknar geðlæknisins 17. nóvember kemur fram að ákærði hafi haft geðröskunareinkenni allt frá barnsaldri og allt bendi til að hann hefði um margra ára skeið þjáðst af geðsjúkdómi með endurteknum geðslagssveiflum. Segir ennfremur í niðurstöðunni að ákærði sé að afplána refsivist og við hæfi að hann hljóti viðeigandi faglega meðferð, ekki síst í því skyni að fyrribyggja að geðheilsu hans hraki enn frekar, en það geti leitt til langvinns geðrofs (psykosis). Verði að telja að veruleg áhætta fylgi „einhliða refsivist í fangelsi.“ Þá segir meðal annars í niðurstöðu rannsóknar áðurnefnds sálfræðings 14. nóvember að ljóst sé að ákærði þjáist af talsverðum langtíma sálarmeinum og að „einhliða refsivist“ muni ekki bera árangur án meðferðarvinnu. Mælt sé með því að ákærði fái langtímameðferð sálfræðings og eða geðlæknis því andlegt ástand hans muni líklega versna fái hann ekki aðstoð. Matsmennirnir komu fyrir dóm 28. nóvember og staðfestu þar matsgerðir sínar. Í skýrslu sinni kvaðst Helgi Garðar hafa takmarkaða trú á því að „einhliða refsing“ bæri árangur og betra væri að hann væri á geðdeild hjá fagmönnum, að minnsta kosti um tíma. Þá kom fram í skýrslu Brynjars að hann héldi að „einhliða refsivist“ bæri „ekki mikinn árangur“. Hann væri ekki viss um að ákærði  „læri af því.“

Málið var tekið til munnlegs málflutnings að lokinni framangreindri gagnaöflun 10. desember 2003.

Þegar þau gögn eru virt, sem nú liggja fyrir um geðhagi ákærða, þykja ákvæði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga ekki standa því í vegi að ákærða verði dæmd refsing í málinu. Til þess er að líta að samkvæmt lögum nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist skulu fangar njóta viðeigandi heilbrigðisþjónustu á meðan á afplánun stendur og þess að fangelsismálastofnun getur, um stundarsakir eða allan refsivistartímann, heimilað að fangi sé vistaður á sjúkrahúsi eða annarri stofnun svo að hann fái notið sérstakrar meðferðar ef slíkt er talið henta vegna heilsufars hans.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var ákærði síðast dæmdur í héraði 1. nóvember 2002 í fangelsi í sex mánuði fyrir fjársvik og umferðarlagabrot. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar, sem dæmdi ákærða 15. apríl 2003 fyrir þau brot í fangelsi í níu mánuði. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

       Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2003.

                Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 2. desember 2002

                “á hendur X, [ . . . ], óstaðsettum í hús í Reykjavík, fyrir eignaspjöll, með því að hafa að morgni mánudaginn 17. júní 2002, kveikt í bifreiðinni V, þar sem bifreiðin stóð við [ . . . ] í Reykjavík, með þeim afleiðingum að bifreiðin eyðilagðist.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

                Í málinu gerir Þ, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 95.415.”

                Ákærði krafðist sýknu af ákærunni en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist ákærði frávísunar á skaðabótakröfunni en til vara að fjárhæð hennar yrði lækkuð. Þá krafðist ákærði þess að sakarkostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði. Loks krafðist hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

                Málið var dómtekið 6. mars sl.

I.

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst henni tilkynning kl. 07.11 að morgni 17. júní 2002 þess efnis að eldur logaði í bifreið fyrir utan [ . . . ]. Þegar lögreglan kom á vettvang var eldur laus í farþegarými bifreiðarinnar V þar sem bifreiðin stóð í bifreiðastæði fyrir framan fjölbýlishúsið. Barst svartur reykur út um brotna hliðarrúðu við ökumannssæti bifreiðarinnar. Þau H og I voru að hella vatni á eldinn þegar lögreglu bar að en I býr með Þ, eiganda bifreiðarinnar V, og H er dóttir Þ og býr á [ . . . ], í stigagangi við hliðina á [ . . . ]. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn.

                Þau Þ, H og I kváðust hafa vaknað upp við mikinn hvell og farið út í glugga og þá séð ákærða vera að bogra inn um brotna rúðuna við ökumannssæti bifreiðarinnar V. Kvaðst I hafa farið út á svalir og kallað til ákærða hvað hann væri að gera og þá hafi ákærði litið upp og horft á hann. Kváðust þau svo hafa séð ákærða teygja hendurnar í átt að ökumannssæti bifreiðarinnar og síðan hafi skyndilega blossað upp mikill eldur inni í bifreiðinni. Að því búnu hafi ákærði hlaupið í átt að svartri Honda bifreið sem lagt var með ljósin kveikt fyrir framan bifreiðina V og bakkað út af bifreiðastæðinu og ekið á brott. Kvaðst H hafa séð skráningarnúmer Honda bifreiðarinnar og að það hafi byrjað á [ . . . ]. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hefur ákærði verið á bifreiðinni [ . . . ] sem er svört Honda bifreið.

                Þ, H og I sögðust kannast við ákærða þar sem hann væri fyrrum sambýlismaður systurdóttur Þ. Hefði ákærði áður skemmt bifreiðina V og verið með hótanir og leiðindi í garð Þ og fjölskyldu hennar, líklega vegna þess að hann gæti ekki náð til fyrrum sambýliskonu sinnar sem færi huldu höfði vegna ofsókna ákærða. Kváðu þau ákærða ekki vera í andlegu jafnvægi.

                Við þingfestingu málsins 18. desember 2002 neitaði ákærði sök. Aðspurður fyrir dóminum um framburð ofangreindra vitna kvað hann framburð þeirra vera lygi en þau hötuðu hann mikið. Aðspurður um ferðir sínar aðfararnótt 17. júní 2002 kvaðst ákærði hafa verið á veitingastaðnum Nasa fram til um klukkan fimm en þá hafi hann farið yfir á veitingastaðinn Astró og verið þar fram til um sjöleytið. Hann hafi síðan farið á Hlöllabáta milli sjö og átta eftir lokun á Astró. Þar hafi hann fengið sér að borða og síðan tekið leigubíl úr bænum og heim til sín. Ákærði kvaðst eiga bifreiðina [ . . . ] og hafi hún verið fyrir utan Vegghamra 24 alla þessa nótt. Aðspurður um hvort hann hefði verið með einhverjum þessa nótt sagðist ákærði hafa verið með einhverri stelpu, sem líklega heiti [ . . . ], alla nóttina en sagðist ekki hafa náð í hana þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Í lögregluskýrslu dags. 18. júní sl. skýrði ákærði svo frá að hann hefði verið niðri í bæ alla nóttina og hefði hann verið að skemmta sér á skemmtistaðnum Nasa. Hann hefði hitt þar stelpu og farið með henni á veitingastaðinn Astró og verið þar með henni þar til lokað var. Þá hefði hann tekið leigubíl heim og taldi að klukkan hefði verið um átta þegar hann fór úr bænum. Kvaðst hann hafa verið með stelpunni í bænum og kvatt hana um klukkan átta þegar hann hefði farið heim.

                Vitnið Þ, eigandi bifreiðarinnar V, kom fyrir dóminn og sagðist hafa verið með barnabarn sitt í pössun þessa nótt og um klukkan hálf sjö um morguninn komið með það inn í svefnherbergi þar sem I, sambýlismaður hennar, var og hafi hún vakið hann. Þá hafi þau heyrt brothljóð og farið út í glugga en I hafi sagt að þarna væri hann kominn maðurinn einu sinni enn. Síðan hafi I rokið út á svalir. Þá hafi vitnið séð ákærða sem hún þekki vel enda hafi systurdóttir hennar búið með honum  

Vitnið kvaðst hafa séð hvar ákærði var að bogra inn í bílinn og þegar hann hafi komið út aftur hafi blossað upp eldur í framsætinu. Þá hafi sambýlismaður hennar kallað til ákærða og ákærði því litið upp og kveðst vitnið þá hafa náð augnsambandi við hann. Ákærði hafi síðan stokkið upp í bíl sinn, sem lagt hafi verið þarna fyrir aftan, og ekið í burtu. Vitnið kvað þau síðan hafa hringt á lögreglu. Hafi hún síðan séð dóttur sína koma út úr næsta stigagangi, þar sem hún býr, með vatnsfötu og skvett vatni inn í bílinn. Þá hafi sambýlismaður hennar einnig farið út með aðra fötu og dóttirin með þriðju fötuna áður en tekist hafi að slökkva í bílnum. Hafi þau séð gangstéttarhellu liggjandi í framsæti bílsins. Aðspurð um bíl ákærða kvað vitnið hann hafa verið á bíl af gerðinni Honda sem hún viti að sé bíll hans.

                Vitnið kvað ákærða hafa ráðist á bifreið hennar og barið með kúbeini þann 21. mars 2002 en það mál hafi verið látið niður falla hjá lögreglu. Hins vegar hafi ákærði sakað hana um ýmislegt, m.a. að hafa stolið frá honum tölvu og málningu. Aðspurð kvað vitnið samskipti þeirra ákærða og vitnisins hafa verið erfið í um það bil eitt og hálft ár. 

                Vitnið I, sambýlismaður vitnisins Þ, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa heyrt smell og við það rokið út í glugga og séð þar sem ákærði stakk hausnum inn um gluggann bílstjóramegin á bíl Þ. Hafi blossinn síðan komið út á eftir ákærða. Kvaðst vitnið þá hafa öskrað á ákærða ofan af svölunum en síðan farið og náð í vatnsfötu. Hann hafi hitt H þar sem hún var búin að ausa fyrstu fötunni. Hann kvað ákærða hafa ekið burt á bíl sínum, sem sé svartur og líklega af gerðinni Honda Civic. Bílnum hafi verið lagt fyrir aftan bílana á bílastæðinu og verið í gangi með ljósin á. Vitnið kvað slökkvilið hafa komið á vettvang eftir að þau H hefðu slökk eldinn.

                Vitnið H, dóttir vitnisins Þ, kom fyrir dóminn og sagði frá atburðum aðfararnætur 17. júní sl. þannig að hún hefði vaknað við eitthvert hljóð og rokið út í glugga og séð ákærða vera að skvetta einhverju inn í bifreiðina V og kveikja í. Síðan hafi hann hlaupið út í bíl, sem staddur var þarna rétt hjá, og ekið í burtu. Aðspurð kvaðst hún vera alveg viss um að þetta hefði verið ákærði enda þekkti hún hann vel. Vitnið kvað bifreið ákærða hafa verið annað hvort dökkbláa eða svarta. Sagðist hún hafa sagt lögreglu númer bílsins á sínum tíma en mundi það ekki nákvæmlega fyrir dóminum. Vitnið staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu sem tekin var af henni 18. júní 2002. Er sú skýrsla í öllum aðalatriðum til samræmis við skýrslu vitnisins fyrir dóminum.

                Vitnið B, sem býr að [ . . .], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa vaknað við háan skell og öskur og því farið út í svefnherbergisglugga og litið út. Hafi hún þá séð svartan lítinn bíl aka í burtu. Hún hafi náð númerinu á honum en myndi það ekki nú þar sem komið væri hálft ár síðan þetta var en taldi sig hafa gefið lögreglu upp númerið. Síðan hafi augu hennar beinst að logandi bíl á stæðinu og vegna öskursins sem hún heyrði hefði hún í fyrstu talið að það væri einhver að brenna inni í bílnum. Þá hafi eigandi bílsins, karlmaður, komið út og annað hvort stjúpdóttir hans eða dóttir með vatnsfötur og hafi vitnið þá farið í fötin og ætlað að ná í slökkvitæki á göngunum en þá hafi lögreglan verið að koma. Aðspurð kvaðst vitnið ekki geta lýst manninum, sem var í bifreiðinni, sem ók á brott. Þá kvaðst hún aðspurð ekki þekkja þau Þ og I en viti að þau búi í næsta húsi. Borin var undir vitnið lögregluskýrsla sem hún gaf 27. júní sl. og staðfesti hún hana. Er hún í samræmi við skýrslu vitnisins fyrir dóminum.

                Vitnið BH sem býr að [ . . . ] gaf skýrslu fyrir dóminum. Hún kvaðst hafa vaknað upp aðfararnótt 17. júní sl. við brothljóð og farið út að glugganum og þá heyrt einhvern kalla og síðan séð hvar maður fór inn í bíl, bakkaði og sneri við á dökkum bíl sem gæti verið af gerðinni Honda Civic. Kvaðst vitnið síðan hafa hringt á lögregluna. Aðspurð kvaðst vitnið ekki geta lýst þessum manni og kvaðst heldur ekki hafa séð það sem gerðist áður en þetta var.

Aðspurð um tengsl sín við Þ sagðist hún ekki hafa þekkt hana á þessum tíma en þær hafi verið nágrannar í lengri tíma. [ . . . ]. Vitnið staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu 21. júní sl. en efni hennar er í samræmi við skýrslu hennar fyrir dóminum.

                R, rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn en hann tók ljósmyndir á vettvangi af bifreiðinni V og tók sýni úr farþegarými hennar sem send voru til rannsóknar á því hvort fyndust eldhvetjandi efni. Kvað hann sýnin hafa verið tekin úr ökumannssæti bifreiðarinnar V og farþegarými þar í kring. Mestur bruninn hefði verið í kringum ökumannssætið eins og framlagðar myndir beri með sér.

                Vitnið GK, fyrrverandi dyravörður á veitingahúsinu Astró, kom fyrir dóminn og kvað sig minna að hafa verið að vinna á Astró aðfararnótt 17. júní sl. Hann kvað veitingahúsið vera með leyfi til klukkan hálf sjö sem þýði að þá sé lokað klukkan hálf sex. Hann kvað miðað við að allir gestir væru farnir út klukkan hálf sjö en sagðist ekki muna nákvæmlega hvenær síðustu gestir hefðu farið af staðnum aðfararnótt 17. júní sl.

Vitnið kvaðst kannast við ákærða því hann væri félagi félaga vitnisins. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir að hafa hitt ákærða að morgni 17. júní sl. Hann kvað um 100-200 manns vera að jafnaði inni á veitingastaðnum Astró í einu en í heild kæmu milli 400-600 manns inn á staðinn frá miðnætti til klukkan sex að morgni. Hann kvað engar skýrslur til um fjölda gesta.

Tekin var skýrsla í gegnum síma af vitninu RT þar sem hann var staddur á lögreglustöðinni á Bolungarvík. Kvaðst hann hafa verið að skemmta sér á veitingastaðnum Astró aðfararnótt 17. júní sl. Hann hafi verið kominn út af staðnum rétt fyrir klukkan sjö. Inni á Astró hafi hann hitt ákærða og hafi þeir farið saman út og verið að spjalla saman fram til klukkan tíu til fimmtán mínútur yfir sjö um morguninn þegar vitnið tók leigubíl í Lækjargötu. Kvaðst hann vera viss um tímasetninguna því konan hans hefði hringt í hann rétt yfir sjö þennan morgun.

Í málinu liggur frammi skýrsla Rannsóknastofu í lyfja – og eiturefnafræði dags. 24. júní 2002. Þar kemur fram að rannsökuð hafi verið þrjú sýni  sem tekin voru af brunavettvangi í þessu máli. Var lagt fyrir rannsóknarstofuna að kanna hvort í sýnunum væru leifar af eldhvetjandi efnum. Fram kemur að niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið sú að mjög mikið af lífrænum efnum hafi mælst í sýnunum og hafi samsetningin verið mjög lík í öllum sýnum og samsvarað samsetningu efna í bensíni nema hvað innbyrðis hlutföll efnanna hefðu verið að einhverju leyti frábrugðin því bensínsýni sem til er á rannsóknastofunni. Niðurstaðan væri því sú að sýnin innihéldu leifar bensíns í umtalsverðu magni.

Verjandi ákærða ritaði dómara málsins bréf dags. 6. mars sl. þar sem komið var á framfæri því áliti ákærða að hann teldi útilokað að unnt væri, a.m.k. frá 4. hæð hússins[ . . . ], að greina með fullri vissu skráningarnúmer bifreiða á bifreiðastæðinu þar fyrir utan.

II.

Ákærði hefur neitað sök en framburður hans hefur ekki verið að öllu leyti stöðugur. Ber þar helst í milli að í lögregluskýrslu og fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa verið að skemmta sér með stúlkunni [ . . . ] fram til klukkan átta en eftir að aðalmeðferð málsins var hafin nefndi ákærði nafn RT og kvað hann hafa verið með sér í einhvern tíma þennan morgun.

Framburðir vitnanna Þ, H og I hafa allir verið á sama veg. Framburður þeirra var staðfastur og trúverðugur en þau báru öll þrjú að þau hefðu  séð ákærða bogra inn um bílrúðu bifreiðarinnar V og þar hefði síðan gosið upp eldur. Framburðir annarra vitna styðja framburði þeirra ef frá er talinn vitnisburður vitnisins RT. Þá er þess að gæta að þegar ákærði gaf skýrslu fyrir dóminum við framhaldsaðalmeðferð málsins þann 13. febrúar sl. kvaðst hann hafa verið alla nóttina að skemmta sér með stúlkunni [ . . . ]. Ekki vissi ákærði frekari deili á henni og tókst ekki að hafa upp á henni til að leiða hana fyrir dóminn til skýrslutöku. Við framhaldsaðalmeðferð 27. febrúar sl. nefndi ákærði fyrst að framangreindur RT hefði verið á tali við hann á þeim tíma sem tilkynning barst lögreglu um bílbrunann að morgni 17. júní sl.

Með vísan til þessa og þess að frásögn RT er í ósamræmi við framburði framangreindra vitna verður ekki hjá því komist að telja framburð hans ótrúverðugan.

                Með staðföstum samhljóða framburði vitnanna Þ, I og H, sem studdur er af framburði annarra vitna en RT, þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um brot það sem honum er gefið að sök og er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði á að baki nokkurn sakarferil. Þann 24. apríl 1996 hlaut ákærði tveggja ára fangelsisdóm skilorðsbundinn í 2 ár fyrir skjalafals. Ákærði var síðan aftur dæmdur í 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár þann 19. desember 2001 fyrir fjárdrátt. Þann 1. nóvember 2002 hlaut ákærði 6 mánaða fangelsisdóm fyrir fjársvik og brot á umferðarlögum. Í þeim dómi var dómurinn frá 19. desember 2001 tekinn upp og dæmdur með. Refsing sú er ákærða verður ákveðin nú er hegningarauki við dóminn frá 1. nóvember 2002 sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ekki verður talið að ákærði eigi sér einhverjar málsbætur. Með vísan til framanritaðs þykir hæfileg refsing ákærða vera fangelsi í 3 mánuði.

 

Bótakrafa:

          Í málinu liggur frammi bótakrafa frá kæranda Þ að fjárhæð 95.415. Er vísað til þess að tjónaskoðun Tryggingamiðstöðvarinnar hafi metið bifreiðina V ónýta en hún hafi verið metin á 1.384.400 krónur miðað við staðgreiðsluverð. Þá fjárhæð fái Þ greidda frá tryggingafélaginu að frá dreginni eigin áhættu sem nemur skv. framlögðu bréfi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 67.000 krónum auk bónusmissis vegna kaskótryggingar sem talinn er vera að fjárhæð 32.415 krónur í ár og að hluta vegna næsta árs en sú fjárhæð liggi ekki fyrir.

          Af gögnum málsins er ljóst að tjón kæranda er eigin áhætta að fjárhæð 67.000 krónur en hins vegar er fjárhæð bónusmissis vegna kaskótryggingar ekki ljós. Rétt þykir því gegn mótmælum ákærða að vísa þeim hluta skaðabótakröfunnar frá dómi vegna vanreifunar en dæma ákærða til að greiði kæranda 67.000 krónur í skaðabætur.

          Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl. sem ákvarðast í einu lagi 160.000 krónur.

          Af hálfu ákæruvalds flutti málið Stefanía G. Sæmundsdóttir fulltrúi Lögreglustjórans í Reykjavík.

          Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.       

DÓMSORÐ:

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði.

                Ákærði greiði Þ 67.000 krónur í skaðabætur.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar 160.000 krónur.