Hæstiréttur íslands
Mál nr. 483/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 6. september 2010. |
|
Nr. 483/2010. |
Tryggingamiðstöðin hf. (Valgeir Pálsson hrl.) gegn Írisi Björgu Krishna Bergsdóttur (Óðinn Elísson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms, þar sem kveðið var á um að dómkvaddir skyldu læknir og lögfræðingur til að meta nánar tilgreind atriði vegna líkamstjóns sem Í kvaðst hafa orðið fyrir vegna umferðarslyss. Í samræmi við beiðni matsbeiðanda var lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo hæfa og óvilhalla lækna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010, þar sem kveðið var á um að dómkvaddir skyldu læknir og lögfræðingur til að meta nánar tilgreind atriði vegna líkamstjóns sem varnaraðili kveðst hafa orðið fyrir vegna umferðarslyss. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo hæfa og óvilhalla lækna og að minnsta kosti annan þeirra sérfræðing í bæklunarskurðlækningum. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með bréfi 26. apríl 2010 lagði sóknaraðili fram beiðni um að dómkvaddir yrðu samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 tveir læknar til að láta í té rökstutt álit um orsakatengsl og þá eftir atvikum varanlegar afleiðingar slyss sem varnaraðili kveðst hafa orðið fyrir 11. janúar 2009 og skyldi að minnsta kosti annar matsmanna vera bæklunarlæknir. Varnaraðili andmælti því að tveir læknar yrðu dómkvaddir til starfans og krafðist þess að annar matsmanna yrði lögfræðingur að mennt.
Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila og er málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðila þar ítarlega lýst.
Ekki er ágreiningur um að skilyrði fyrir öflun matsgerðar séu fyrir hendi samkvæmt 77. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki fullyrt að bersýnilegt sé að matsgerð samkvæmt beiðni sóknaraðila skipti ekki máli né verði tilgangslaus til sönnunar í dómsmáli. Kostnaður vegna matsgerðarinnar mun falla á sóknaraðila samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991. Komi til þess að matsgerðin verði lögð fram sem gagn í dómsmáli kemur í hlut dómara að meta sönnunargildi hennar, þar á meðal hvort einhverjir brestir kunni að vera á þekkingu matsmanna á matsefni að áhrif hafi á gildi hennar, sbr. dóm Hæstaréttar 1995, bls. 704 í dómasafni það ár. Þá er ekki girt fyrir það í lögum nr. 91/1991 að aflað verði nýrrar matsgerðar til viðbótar þessari þótt ný matsgerð taki að einhverju leyti eða öllu til sömu atriða og hin eldri gerði, enda verði ekki talið að svo sé ástatt sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laganna, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá árinu 2000, bls. 2598 og 3517 í dómasafni það ár. Af þessum sökum ber að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn í samræmi við beiðni sóknaraðila.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn í samræmi við beiðni sóknaraðila, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., 26. apríl 2010.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010.
Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 28. apríl sl., hefur matsbeiðandi, Tryggingamiðstöðin hf. kt. 660269-2079, Síðumúla 24, Reykjavík, óskað þess, með vísan til XII. sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn, læknar og a.m.k. annar þeirra bæklunarlæknir, til þess að láta í té rökstutt álit um orsakatengsl og eftir atvikum varanlegar afleiðingar slyss sem Íris Björg Bergsdóttir, varð fyrir þann 11. janúar 2009.
Matsþoli, Íris Björg Bergsdóttir, krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila, um að dómkvaddir verði tveir læknar til að meta varanlegar afleiðingar slyss sem varnaraðili lenti í. Þess er um leið krafist að dómkvaddir verði einn læknir og einn lögmaður til að meta varanlegar afleiðingar slyssins, í stað tveggja lækna.
Málið var tekið til úrskurðar 28. júní sl. að afloknum munnlegum málflutningi.
Málsatvik
Sóknaraðili greinir þannig frá málsatvikum að þann 11. janúar 2009 hafi tjónþoli verið farþegi í bifreiðinni SL 445 á ferð frá Dalvík til Reykjavíkur. Bifreiðin hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá matsbeiðanda. Hafi tjónþoli verið farþegi í framsæti en unnusti hennar hafi ekið bifreiðinni. Er bifreiðinni hafi verið ekið upp Öxnadalsheiði hafi hún mætt flutningabifreið. Að sögn ökumanns hafi hann hægt á akstri og vikið út í kant en ekki hafi þá viljað betur til en að hann hafi misst stjórn á bifreiðinni sem hafi snúist og hafnað utan vegar. Ekki hafi orðið neinar skemmdir á bifreiðinni og eftir að hafa fengið aðstoð við að koma bifreiðinni upp á veginn hafi verið haldið áfram til Reykjavíkur eins og nánar greini í lögregluskýrslu frá 14. janúar 2009.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili telur með hliðsjón af aðdraganda umferðaróhappsins sem varnaraðili lenti í 11. janúar 2009 það er þeirri staðreynd að bifreiðin sem varnaraðili var farþegi í skemmdist ekkert og því að varnaraðili lenti í bílveltu á árinu 2005, að vafi leiki á því að varnaraðili hafi hlotið varanlegar afleiðingar sem rekja megi til atburðarins 11. janúar 2009.
Matsspurningarnar taki mið af þessu en matsmönnum beri fyrst að svara því: „Hvort orsakasamband teljist sannað milli umferðarslyssins 11. janúar 2009 og þeirra einkenna sem tjónþoli telur að rekja megi til slyssins. Er óskað eftir að matmenn taki rökstudda afstöðu til hvers og eins áverka/einkennis fyrir sig.“
Fáist jákvætt, rökstutt svar við þessari spurningu að öllu leyti eða einhverju, sé matsmönnum falið það verkefni að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum.
Að mati sóknaraðila reyni því fyrst og fremst á mat á því hvort líkamleg einkenni og óþægindi varnaraðila megi rekja til tiltekins atburðar og það álitaefni sé fyrst og fremst læknisfræðilegs eðlis. Tilgangur og efni matsbeiðninnar kalli því á að tveir læknar séu kvaddir til frekar en einn læknir og lögfræðingur með honum.
Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að réttarfarsleg skilyrði séu ekki fyrir því að dómurinn taki fram fyrir hendurnar á matsbeiðanda og ákveði að hverfa frá skýrri og rökstuddri beiðni hans um að kveðja til tvo lækna og fá í staðinn til þess lækni og lögfræðing. Meginreglan sé að málsaðilar hafi forræði á sönnunarfærslu máls. Aðilum sé þannig ætlað að ákveða hvor fyrir sitt leyti hvort ástæða sé til að afla gagna um tiltekið atriði og hvernig það verði gert, en dómarinn eigi þá aðeins að vera viðtakandi sönnunarfærslunnar, sem eigi ekki að skipta sér af hvernig aðilarnir handleiki hagsmuni sína að þessu leyti.
Í þessu samhengi og beiðni sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar sem er birtur í dómasafni réttarins 1995 á bls. 704. Þar hafi vátryggingarfélag farið fram á að dómkvaddir yrðu læknir og lögfræðingur til að leggja mat á heilsufarslegt ástand tjónþola og meta fjárhagsleg örorku hans. Tjónþoli, sóknaðili fyrir Hæstarétti, hafi mótmælt þessu og talið að dómkveðja ætti tvo lækna. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni matsbeiðanda. Forsendur dóms Hæstaréttar hafi verið þessar: „Varnaraðili hefur óskað eftir matsgerð og farið þess á leit, að annar matsmanna verði lögfræðingur. Kostnaður vegna matsgerðarinnar fellur á hann sjálfan samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 nema að því leyti, sem tillit kynni að vera tekið til þess kostnaðar við ákvörðun málskostnaðar. Við úrlausn um efnishlið málsins kemur í hlut héraðsdómara að meta sönnunargildi matsgerðarinnar, þar á meðal, hvort einhverjir þeir brestir kunni að vera á þekkingu matsmanna á matsefninu, sem áhrif hafi á gildi hennar. Standa þá engin rök til þess að játa sóknaraðila rétti til þeirrar íhlutunar í málatilbúnað varnaaðila, sem hér er deilt um.“ Sóknaraðili telur því í raun að réttarfarslög, einkum málsforræðisreglan sem feli m.a í sér forræði á sönnunarfærslu máls, leiði til þess að taka verði kröfu hans til greina.
Í þriðja lagi vísar sóknaraðili til þess að ákvæði skaðabótalaga standi ekki í vegi fyrir því að dómkvaddir verði tveir læknar í þessu matsmáli. Með skaðabótalögum nr. 50/1993 hafi m.a. falist þær breytingar að við mat á afleiðingum líkamstjóna hafi verið horfið frá því að miða eingöngu við læknisfræðilegt örorkumat þegar ákvarðaðar hafi verið bætur vegna fjárhagslegs tjóns. Fram að þeim tíma hafi venjan verið að örorkumöt í skaðabótamálum væru unnin af einum lækni. Boðuð hafi verið ný aðferðafræði við mat á fjárhaglegri örorku með skaðabótalögunum og því hafi verið mælt svo fyrir um að nauðsynlegt yrði að örorkumöt væru ekki einungis í höndum lækna eins og segir í athugasemdum með 10. gr. frumvarps til laga þar sem fjallað er um örorkunefnd.
Þessi ummæli sé hins vegar ekki hægt að skilja svo að með því væri verið að útiloka að tveir eða fleiri læknar geri örorkumat í máli. Í greinargerð með frumvarpinu hafi eingöngu verið lögð áhersla á að horfið yrði frá fyrri skipan mála. Því síður verði ummælin skilin svo að þar með hafi löggjafinn ætlast til að læknir og lögfræðingur væru ávallt til staðar þegar metnar væru afleiðingar líkamstjóns samkvæmt skaðabótalögum. Það sé fráleitur skilningur og hefði þá þurft að koma fram með skýrum hætti í ákvæðum laganna.
Sóknaraðili bendir á að frá gildistöku laganna hafi framkvæmdin verið sú að tveir læknar hafa komið að örorkumötum innan sem utan réttar þótt algengara sé að læknir og lögfræðingur vinni örorkumat. Fjölmargir læknar hafi því mikla reynslu að meta alla þætti afleiðinga slysa samkvæmt skaðabótalögum og verði því ekki borið við sem gildri mótbáru að óskað sé tveggja lækna til að annast matið.
Sé horft til hæfisreglna sem taka þurfi mið af við dómkvaðningu matsmanns, þ.e. 3. mgr. 61. gr. einkamálalaga þar sem segi að þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem sé orðinn 20 ára að aldri, sé að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta og hafi nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi, sé ljóst að vanhæfisreglur einkamálalaga standa því ekki í vegi að dómkvaddir verði tveir læknar með reynslu af matsstöfum í þessu máli til að leggja mat á orsakatengsl og eftir atvikum afleiðingar líkamstjóns varnaraðila.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir fyrst á því að samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála sé læknir vanhæfur til að meta varanlega örorku. Yrði fallist á kröfu sóknaraðila, um að dómkvaddir verði tveir matsmenn, báðir læknar, til að meta varanlegar afleiðingar slyssins, þá væri með því brotið gegn 3. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem segi að þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem sé orðinn 20 ára að aldri, sé að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem eigi að meta og hafi nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi eða annars þá kunnáttu sem bestrar sé kostur.
Að mati varnaraðila sé læknir vanhæfur til þess að meta ákveðna veigamikla þætti í örorkumatinu, svo sem varanlega örorku og orsakatengsl. Það hafi beinlínis verið tilgangurinn með setningu skaðabótalaganna að afnema það sem áður tíðkaðist, að eingöngu læknar mætu örorku. Eftir setningu skaðabótalaganna, og með tilkomu ákvæða um mat á varanlegri örorku, hafi það verið ótvíræður vilji löggjafans að örorkumöt yrðu framvegis ekki í höndum lækna heldur skyldu læknar deila verkum með öðrum sérfróðum aðila sem hefði sérstaka þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins og reglum um hvernig vinna eigi örorkumat. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar, sé tjónþoli ungur og eigi langa starfsævi fyrir höndum. Mat á varanlegri örorku sé því sérstaklega mikilvægur þáttur í máli hans.
Varnaraðili vísar í öðru lagi til sjónarmiða sem sett séu fram í frumvarpi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og tilgangs laganna. Í athugasemdum með 10. gr. laganna segi að verði frumvarpið að lögum verði gerbreyting á forsendum og grunni örorkumats. Horfið verði frá mati sem í aðalatriðum sé talið læknisfræðilegt. Í stað þess komi svonefnt fjárhagslegt örorkumat sem feli í sér álit á því hvort og að hve miklu leyti geta tjónþola til að afla vinnutekna hafi skerst varanlega. Vegna þess sé nauðsynlegt að örorkumat verði ekki einungis í höndum lækna. Það hafi því verið vilji löggjafans að afnumið yrði það fyrirkomulag að læknar væru einir að meta afleiðingar slysa.
Í þriðja lagi vísar varnaraðili til skrifa fræðimanna og bendir á að sömu sjónarmið hafi einnig verið til umfjöllunar hjá þeim. Af þeirra skrifum sé ljóst að mat á varanlegri örorku sé fjárhagslegt, eða félagslegt, en ekki læknisfræðilegt í þeim skilningi, að læknisfræðileg sjónarmið ráði matinu eins og við mat á varanlegum miska. Stundum skipti eðli líkamstjóns ekki neinu um matið, en hafi þó oft áhrif, en fræðimenn taki fram, að læknisfræðileg sjónarmið eigi ekki að vera ráðandi við mat á varanlegri örorku.
Það sé einnig álit fræðimanna að mat á varanlegri örorku, eitt og sér, verði best framkvæmt af lækni eða sérfræðingi með sambærilega þekkingu á líkamstjóninu og afleiðingum þess, t.d. sálfræðingi eða öðrum sérmenntuðum heilbrigðisstarfsmanni og manni, sem sérfróður sé um sem flesta af öðrum þáttum, sem til skoðunar koma. Þar geti komið til greina lögfræðingur, viðskiptafræðingur, löggiltur endurskoðandi, félagsfræðingur eða aðrir, sem hafi sérstaka þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins og reglum um hvernig vinna eigi örorkumat.
Fræðimenn hafi ennfremur bent á að algengt sé að læknir og lögfræðingur annist mat á varanlegri örorku, að beiðni tjónþola eða hins bótaskylda, eða að þeir séu dómkvaddir sem matsmenn enda sé það líklega oftast hin rétta og eðlilega samsetning, þegar tveir eða fleiri meti varanlegar afleiðingar slysa samkvæmt skaðabótalögum. Óheppilegra sé að slíkt mat sé unnið af læknum eingöngu.
Í fjórða lagi vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi einnig beðið um mat á orsakasambandi milli tjónsatburðar og þeirra líkamlegu afleiðinga sem varnaraðili telji sig hafa orðið fyrir. Mat á orsakatengslum sé að miklu leyti lögfræðilegt og sé læknir því vanhæfur til að standa að mati á þeim, án atbeina lögfræðings.
Í fimmta lagi telur varnaraðili ekki vera neinar forsendur til að víkja frá viðtekinni venju um dómkvaðningu lögmanns og læknis til að vinna örorkumat. Frá þessu hafi helst verið vikið þegar tjónþolar séu það ungir að árum að þeir hafi ekki neina atvinnusögu og langt þar til þeir fari út á vinnumarkaðinn, eða tjónþoli sé það fullorðinn að hann sé kominn út af vinnumarkaði þegar slysið á sér stað og verði það fyrirsjáanlega til allra framtíðar, annað hvort vegna elli eða sjúkdóma af einhverju tagi. Í slíkum málum þurfi ekki að leggja mat á neina varanlega örorku.
Tjónþoli í þessu máli sé ekki í þessari stöðu. Þessi stúlka hafi verið ríflega tvítug þegar hún hafi slasast. Ekkert í heilsufars- eða tekjusögu hennar gefi til kynna að hún hafi ekki haft neina eða skerta starfsgetu áður en slysið varð. Tjónþoli hafi lokið námi í snyrtifræði og starfað sem snyrtifræðingur á slysdegi. Þessi tjónþoli eigi fyrir höndum tugi ára úti á vinnumarkaði, að öllu óbreyttu. Ekkert komi fram í beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna, um ástæður þess að hann kjósi að víkja frá viðtekinni venju við val á matsmönnum og ekkert í gögnum málsins bendi til þess að tilefni sé til þess.
Ætli sóknaraðili, gegn eindregnum mótmælum varnaraðila, að krefjast einhvers sem víki frá viðtekinni venju og kunni að verða varnaraðila til tjóns, þurfi sóknaraðili að færa veigamikil rök fyrir máli sínu og gera grein fyrir því hvers vegna þau rök eigi að vega þyngra heldur en hagsmunir varnaraðila af því að matsmenn uppfylli hæfisskilyrði laga um meðferð einkamála.
Sóknaraðili og varnaraðili hafi staðið sameiginlega að fyrirliggjandi örorkumati, og hafi sóknaraðili þá ekki haft neinar athugasemdir við það að læknir og lögmaður mætu afleiðingar slyssins. Sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir því hvað hafi breyst síðan þá. Þar sem sóknaraðili leitist nú við að hnekkja fyrirliggjandi mati, sem unnið hafi verið af lækni og lögmanni, sé eðlilegt að dómkvaddir séu einnig læknir og lögmaður til þess að endurmeta afleiðingarnar.
Í sjötta lagi vísar varnaraðili til þess að skipun örorkunefndar samkvæmt skaðabótalögum veiti vísbendingu um það hverjir séu best fallnir til að meta varanlegar afleiðingar samkvæmt skaðabótalögum. Í nefndinni séu tveir læknar og einn lögmaður. Lögmaðurinn sé formaður nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Að mati fræðimanna sé þessi samsetning nefndarinnar miðuð við það að hún geti gegnt hlutverki sínu sem best.
Varnaraðili vísar til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 61. gr. og ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum.
Niðurstaða
Í þessu máli greinir málsaðila á um það hvaða fagþekkingu sé best að dómkvaddir matsmenn hafi til að svara matsspurningum um orsakatengsl og örorku.
Sóknaraðili, sem telur þekkingu í læknisfræði og bæklunarlækningum mestu máli skipta í því máli sem hér er til meðferðar, vísar til meginreglunnar um forræði málsaðila á sönnunarfærslunni.
Þrátt fyrir þá meginreglu þykir 61. gr. laga nr. 91/1991 veita dómara nokkuð svigrúm til eigin mats um viðeigandi fagþekkingu matsmanns eða matsmanna þegar skera þarf á hnút sem þennan. Ákvæði 2. mgr. virðist ekki ganga út frá því að fara eigi eftir óskum matsbeiðanda ótvírætt heldur er útgangspunktur þess að málsaðilar nái samkomulagi um „hæfan matsmann“. Ekki er hægt að líta svo á að tilvitnað orðalag eigi einvörðungu við um samkomulag um hæfan matsmann innan fagþekkingarsviðs að vali matsbeiðanda heldur taki það einnig til samkomulags um þá fagþekkingu sem æskilegast sé að matsmaður hafi hverju sinni. Takist ekki samkomulag með málsaðilum á valið undir ákvörðun dómara. Hæfisskilyrði 3. mgr. 61. gr. marka valinu þó ramma.
Að mati dómsins er ekki hægt að fullyrða að fagþekking lækna geri þá betur til þess fallna en löglærða að leggja mat á sennilega afleiðingu umferðarslyss og orsakatengsl þess og meints líkamstjóns, nema þeir hafi sérstaklega lagt sig eftir að skilja þessi skilyrði skaðabótaréttar umfram það sem löglærðir þurfa að gera. Gera má ráð fyrir að læknar sem hafa nokkra reynslu af örorkumötum hafi öðlast sambærilega þekkingu til að meta orsakatengsl og sennilega afleiðingu og ætlast er til að lögfræðingar hafi. Að mati dómsins verður því ekki slegið föstu að önnur fagþekkingin vegi þyngra en hin við val á matsmanni til að svara þeirri spurningu.
Eins og báðir málsaðilar hafa gert grein fyrir var með setningu skaðabótalaga nr. 50/1993 horfið frá fyrri venju þess efnis að örorkumat væri eingöngu læknisfræðilegt. Með lögunum var samþykkt gerbreyting á forsendum og grunni örorkumats. Í stað læknisfræðilega matsins var tekið upp fjárhagslegt örorkumat. Um leið var horfið frá því að dómkveðja ætíð tvo lækna til slíkra verka en þess í stað að jafnaði dómkvaddir læknir og lögfræðingur. Með þessu hefur löggjafinn gefið til kynna að það sé málsaðilum ekki algerlega í sjálfsvald sett að ákveða hvaða fagþekkingu þeir matsmenn þurfa að hafa sem ætlað sé að meta varanlegar afleiðingar slysa.
Að mati dómsins verður, vegna þess máls sem hér er til umfjöllunar, að lesa 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 með hliðsjón af þeirri stefnu um örorkumat sem mörkuð var með skaðabótalögum nr. 50/1993. Ekkert í málinu þykir kalla á að vikið sé frá þeirri stefnu við val á fagþekkingu þeirra sem svara spurningum um örorku, miska og stöðugleikapunkt. Þegar þar að auki ekki þykir leitt í ljós að læknar séu færari löglærðum til að meta orsakatengsl og sennilega afleiðingu, jafnvel þótt tjón sé líkamlegt, þykir sú spurning ein og sér ekki heldur geta leitt til þess að dómkvaddir séu tveir læknar.
Jafnvel þótt málsaðilar kæmu sér saman um hæfan matsmann getur dómari horft framhjá samkomulagi þeirra mæli sérstakar ástæður gegn því sbr. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Þegar litið er til þeirrar heimildar sem dómaranum er þarna fengin til að taka fram fyrir hendur málsaðila við dómkvaðningu matsmanna, þrátt fyrir málsforræðisregluna telur dómurinn, eins og áður greinir, þá mikilvægu meginreglu ekki standa í vegi fyrir því að vikið sé til hliðar óskum sóknaraðila og mælt svo fyrir að í þessu máli skuli dómkveðja einn lækni og einn löglærðan mann til að annast umbeðið mat þar sem rök þykja eindregið styðja þá niðurstöðu.
Hvorugur málsaðila gerði kröfu um málskostnað og því verður hann ekki dæmdur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Dómkveðja skal einn lækni og einn löglærðan mann til að vinna mat í máli sóknaraðila, Tryggingamiðstöðvarinnar, gegn varnaraðila, Írisi Björgu Bergsdóttur, M-62/2010 sem rekið er fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.