Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 9. febrúar 2001. |
|
Nr. 45/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Elín Vigdís Hallvarðsdóttir fulltrúi) gegn X (Magnús Brynjólfsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
X var sakaður um að hafa ráðist á karlmann og veitt honum tvö djúp stungusár með hnífi. Krafðist L þess að X sætti áfram gæsluvarðhaldi, með vísan til a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en til vara með vísan til 2. mgr. sömu lagagreinar. Ekki varð séð hvernig áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X gæti þjónað rannsóknarhagsmunum. Var skilyrðum tilvitnaðra lagaákvæða að öðru leyti ekki talið fullnægt. Með vísan til þess og þess málatilbúnaðar L að byggja kröfu sína ekki á öðrum forsendum var kröfu L um að X sætti gæsluvarðhaldi því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
I.
Varnaraðili var handtekinn 5. janúar 2001. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er hann grunaður um að hafa sama dag ráðist á Y fyrir utan veitingastaðinn Z í [...] og veitt honum tvö stungusár með hnífi. Varnaraðili neitar sök.
Sóknaraðili reisir kröfu um gæsluvarðhald á a. og b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en til vara á 2. mgr. sömu lagagreinar. Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laganna vísar sóknaraðili til þess að vitni hafi lýst fatnaði manns, sem eltur var af vettvangi við [...] janúar sl. Þessi fatnaður hafi ekki fundist, en nauðsynlegt sé að hafa upp á honum, meðal annars til að ganga úr skugga um hvort á honum sé blóð og þá úr hverjum það sé. Kunni varnaraðili að hafa komið fatnaði þessum undan. Varðandi skilyrði b. liðar 1. mgr. 103 gr. laganna vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili sé erlendur ríkisborgari. Hér á landi stundi hann hvorki atvinnu né eigi fjölskyldu. Gangi hann laus megi búast við að hann reyni að koma sér undan málsókn. Sóknaraðili hefur ekki fært fram efnisleg rök fyrir kröfu sinni um gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þá hefur hann ekki vísað til c. eða d. liðar 1. mgr. 103. gr. laganna sem stoð fyrir kröfu sinni.
II.
Vegna rannsóknar málsins hefur varnaraðili nú verið sviptur frelsi í fimm vikur. Af gögnum málsins verður ekki séð að leit að fatnaði þeim, er að framan greinir, hafi verið fram haldið á þeim tíma. Við rannsóknina hefur fjöldi vitna gefið skýrslu hjá lögreglunni. Þegar hinn kærði úrskurður var upp kveðinn kynnti sóknaraðili fyrir varnaraðila að „fyrirkomulag gæsluvarðhaldsvistar verði án takmarkana skv. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991“, svo sem fært var í þingbók. Hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að áframhaldandi gæsluvarðhald yfir varnaraðila geti þjónað rannsóknarhagsmunum eins og hér háttar til. Eru því ekki skilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Þær ástæður einar, sem sóknaraðili hefur fært fram og áður er getið, nægja ekki til þess að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila. Þá eru ekki skilyrði til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. sömu laga.
Samkvæmt framangreindu og þar sem krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila er ekki reist á öðrum forsendum en að framan eru raktar, verður henni hafnað. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, um að varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Magnúsar B. Brynjólfssonar héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2001.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess X, [...], nú gæsluvarðhaldsfanga, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til kl.16:00 þriðjudaginn 20. mars nk.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að hjá lögreglunni í Reykjavík sé nú verið að rannsaka meinta tilraun til manndráps, þar sem Y hafi verið stunginn með hnífi í háls og á brjóstvegg en báðar atlögurnar hafi komið í aftanverðan líkamann. Samkvæmt bráðabirgðavottorði læknis á bráðamóttöku Landsspítalans í Fossvogi hafi verið um djúp stungusár að ræða og liggi bæði sárin nálægt mikilvægum líffærum, vélinda, barka, lungum, nýru og milta svo og slagæð. Miðað við staðsetningu stungusáranna megi ætla að litlu hefði mátt muna að áverkinn næði til slagæða og fyrrnefndra líffæra. Í læknisvottorði dagsettu 24. janúar s.l. komi fram, að skurðurinn við háls hafi verið um 1 cm. langur, og hafi náð upp undir kúpubotn. Skurðurinn á síðu Y hafi verið um 1,5 cm. langur nálægt miðclaviculerlínu nokkru ofan við rifjabarð og ekki blætt úr. Mynd af thorax og kvið hafi sýnt vökvasöfnun í vinstri pleura og hafi Y því verið tekinn til aðgerðar á slysadeild í staðdeyfingu og skurðum að því loknu lokað. Y hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsi daginn eftir, og komið síðan í skoðun 12 dögum síðar. Þá hafi hann verið við góða heilsu og höfðu skurðir gróið vel. Röntgenmynd hafi þá sýnt minnkandi vökva í vinstra fleiðruholi. Að mati læknisins hafi ekki verið að finna merki um varanlegan skaða.
Í skýrslutöku sem tekin hafi verið af Y á spítalanum, segist hann hafa verið að sýsla utan við bifreið sína utan við veitingastaðinn Z í [...], er hann hafi skyndilega séð kærða koma hlaupandi að sér. Y segist hafa fundið fyrir höggi í vinstri síðu og síðan vinstra megin í háls og hafi hann áttað sig á því að kærði hefði stungið hann. Y og bróðir hans, A, hafi hlaupið á eftir kærða og hafi kærði kastað hníf að þeim. Lögreglan hafi þann hníf nú í sinni vörslu. Y hafi síðan verið fluttur með sjúkrabifreið á spítala. Y segi kærða hafa hringt heim til hans fyrir nokkrum dögum og talað við konu Y og sagt henni að skila því til Y að kærði vissi hvar hann ætti heima og hvar hann væri að vinna og að hann ætli að drepa hann. Skýrsla af konu Y staðfesti þetta. Verið sé að bíða gagna frá Tali hf. um símasamskipti kærða.
Teknar hafi verið skýrslur af mörgum vitnum við rannsókn málsins og hafi nokkur vitni verið að því að maður, sem lýst er eins og kærða, hafi hlaupið undan öðrum manni fram hjá veitingastaðnum [...] og að líkamsræktarstaðnum H [...], þar sem sá, sem eltur var hafi hlaupið inn og hinn á eftir. Fyrir utan H hafi vitni séð að sá, sem á undan fór hafi hent hnífi í átt að hinum. Hnífurinn hafi verið rannsakaður, og komið í ljós að á honum sé blóð að finna. Beðið hafi verið um DNA rannsókn á blóðinu á hnífnum og standi sú rannsókn nú yfir. Eitt vitnanna hafi borið kennsl á kærða sem manninn, sem eltur hafi verið umrætt sinn.
Vitni hafi lýst fatnaði mannsins, sem eltur var, og hafi lögreglumenn ekki fundið þess konar fatnað í herbergi kærða. Lögreglan tekur fram að kærði hafi ekki verið handtekinn í beinu framhaldi af eltingarleik þeim sem lýst hafi verið og geti hann því hafa komið þeim fatnaði undan, en nauðsynlegt sé talið að hafa upp á þeim fatnaði til að ganga úr skugga um hvort blóð sé að finna á honum og þá úr hverjum það sé. Rannsókn standi því enn yfir í málinu. Kærði neiti sök í máli þessu.
Lögreglan segir að kærði hafi áður komið við sögu lögreglu í málum sem varði samskipti hans og annarra araba hér á landi, oftast sem kærður, þ.e. í 9 málum, en einnig sem kærandi, þ.e. í 5 málum. Sum málanna varði kærða og Y og bræður hans.
Kærði sé með alsírskt ríkisfang. Hann stundi ekki vinnu hér á landi og eigi ekki fjölskyldu hér. Það sé því ekkert sem bindi hann við landið. Verði því að telja líklegt að hann leitist við að komast úr landi í því skyni að koma sér undan málsókn vegna máls þessa, gangi hann laus. Hann hafi ítrekað hótað Y lífláti, hafi ráðist á hann og sé grunaður um að hafa nú stungið hann með eggvopni. Sé því ljóst að hætta sé á því að kærði fari af landi brott, gangi hann laus, hætta sé á því að hann haldi áfram brotastarfsemi gangi hann laus og hætta sé á því að hann valdi Y og fjölskyldu hans áfram hótunum, líkamsárásum og árásum með eggvopnum, gangi hann laus. Þá sé ennfremur talin hætta á því að Y verði hefnt, og verði að telja kærða í nokkurri hættu þess vegna, gangi hann laus. Verði því að teljast nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi með vísan til a- og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærði sé grunaður um að hafa gerst sekur um tilraun til manndráps svo að 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eigi við, í öllu falli 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Verði ekki fallist á að a- og b-liðir 1. mgr. 103. gr. eigi við, er þess krafist til vara að það teljist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Lögreglan kveðst vera að rannsaka ætluð brot kærða á XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sakarefni sem hér um ræði mundi varða fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð. Með vísan til alls ofanritaðs, svo og með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 2. mgr. 103. gr. laganna til vara, sé þess farið á leit að ofangreind krafa nái fram að ganga.
Kærði er grunaður um tilraun til manndráps með því að hafa ráðist á Y aftan frá og stungið hann með hnífi í háls og á brjóstvegg við veitingastaðinn Z í [...] og veitt honum tvö djúp stungusár á vinstri líkamshelmingi. Í læknisvottorði kemur fram að erfitt sé að meta dýpt sáranna svo vel sé en ljóst sé að bæði sárin liggi nærri mikilvægum líffærum og af eðli þeirra og staðsetningu megi ætla að litlu hefði mátt muna að áverkinn næði til þeirra.
Ætlað brot kærða getur varðað við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Kærði hefur neitað sakargiftum í málinu, en fyrir liggur viðurkenning hans á því, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, að hafa áður veist að Y.
Rannsóknargögn málsins þykja benda til þess að kærði hafi ráðist á Y í tiltekið sinn og veitt honum framangreinda áverka. Rannsókn málsins er ekki lokið og á eftir að afla frekari sönnunargagna eins og að framan er rakið. Kærði, sem er erlendur ríkisborgari á ekki fjölskyldu hér á landi og stundar hér ekki atvinnu. Telja verður hættu á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins eða reynt að komast úr landi ef hann gengur laus. Með vísan til þess og rannsóknargagna málsins er fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt.
Samkvæmt þessu verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðahald tekin til greina þó þannig að kærði sæti eigi gæsluvarðhaldi lengur en til þriðjudagsins 6. mars nk. kl. 16.00.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ :
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. mars nk. kl. 16.00.