Hæstiréttur íslands

Mál nr. 65/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsalsbeiðni
  • Stjórnvaldsákvörðun


Föstudaginn 25

 

Föstudaginn 25. febrúar 2005.

Nr. 65/2005.

Íslenska ríkið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.)

 

Kærumál. Framsalsbeiðni. Stjórnvaldsákvörðun.

Kærður var til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms, þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja X til Póllands hafði verið felld úr gildi. Í Hæstarétti þóttu ekki efni til að dómstólar hnekktu mati ráðherra um að mannúðarástæður mæltu ekki gegn framsali, en X var ekki íslenskur ríkisborgari. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005, þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja varnaraðila til Póllands var felld úr gildi. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér tildæmdur kærumálskostnaður.

Í máli þessu er til úrlausnar, hvort lagaskilyrðum hafi verið fullnægt fyrir þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra, sem tilkynnt var ríkissaksóknara með bréfi 21. janúar 2005, að verða við beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal á varnaraðila til Póllands.

Í 2. gr. laga nr. 13/1984 er lagt bann við því að framselja íslenska ríkisborgara. Varnaraðili er ekki íslenskur ríkisborgari. Stendur ákvæðið því ekki í vegi að orðið sé við beiðni um framsal hans. Skiptir í því efni ekki máli, þó að Ísland hafi gert þann fyrirvara við Evrópusamning frá 1957 um framsal sakamanna, sem greinir í hinum kærða úrskurði, þar sem sá fyrirvari laut aðeins að því, að heimila íslenskum stjórnvöldum að synja um framsal á öðrum mönnum en íslenskum ríkisborgurum, ef þeir væru búsettir á Íslandi en bannaði það ekki. Verður ákvörðun sóknaraðila því ekki hnekkt á þeim grundvelli að 2. gr. laga nr. 13/1984 hafi bannað framsalið.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Dómsmálaráðherra hefur metið aðstæður í þessu máli svo, að slíkar ástæður standi ekki gegn framsali varnaraðila. Ekki eru efni til að dómstólar hnekki því mati, eins og á stendur í málinu. Verður ákvörðunin því ekki felld úr gildi á þessum grundvelli.

Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila fyrir meðferð málsins í héraði og fyrir Hæstarétti ákveðst svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005.  

 

             Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. febrúar sl.

             Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 21. janúar 2005 til Ríkissaksóknara var tilkynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að orðið skyldi við beiðni pólskra yfirvalda um framsal á sóknaraðila, X, til Póllands, sbr. 17. gr. laga um framsal sakamanna nr. 13/1984. Sóknaraðila var kynnt þessi ákvörðun 25. janúar 2004 og honum skipaður verjandi.

             Með bréfi verjanda sóknaraðila, dagsettu 26. janúar 2005, var óskað eftir því að leitað yrði úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi, sbr. 1.gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984. Málið var fyrst tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. febrúar sl., og tekið til úrskurðar 4. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi um kröfuna.

I

             Í bréfi Ríkissaksóknara til Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. janúar 2005,  kemur fram að 22. nóvember 2004 hafi dómsmálaráðuneytinu borist beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal X, sem fæddur er [...] 1976, pólsks ríkisborgara, til heimilis að [...], Kópavogi. Samkvæmt gögnum sem fylgt hafi framsalsbeiðninni sé kærða gefið að sök auðgunarbrot, brot á 1. mgr. 286. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa í félagi við nafngreinda menn, á tímabilinu 11.-17. desember 1997, í Sviss, tileinkað sér andvirði 10.000 svissneskra franka úr mynttalningar- og skiptivélum í bönkum og vöru- og farmiðasjálfsölum, sem sóknaraðili fékk í skiptum fyrir verðlitla mynt. Pólsk dómsmálayfirvöld hafi yfirtekið saksókn í málinu að beiðni svissneskra dómsmálaráðuneytisins með bréfi þess síðarnefnda, dagsettu 18. október 2001.

             Í bréfi Ríkissaksóknara kemur fram að framsalsbeiðnin sé undirrituð af héraðssaksóknara í Bialystok í Póllandi og henni fylgi handtökuskipun, útgefin af héraðsdómi í Bilaystok.

             Háttsemin sem hér um ræði geti varðað við 244. gr. eða 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Ríkissaksóknara hafi borist framsalsbeiðnin til meðferðar með bréfi frá dómsmálaráðuneytinu 9. desember 2004, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13/1984.

             Að beiðni Ríkissaksóknara hafi lögreglan í Kópavogi kynnt sóknaraðila framsalskröfuna og hafi sóknaraðili mótmælt henni og neitað sakargiftum. Hann kvaðst hafa verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið, eiga hér unnustu og 18 mánaða gamlan son.

             Eftir að hafa yfirfarið framsalsgögnin hafi ríkissaksóknari endursent þau ráðuneytinu með þeirri umsögn að ekki yrði annað séð en að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt lögum nr. 13/1984 og var sérstaklega vísað til skilyrða samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984. Þó var bent á að refsing fyrir brot sem sóknaraðila var gefið að sök myndi væntanlega vera skilorðsbundið fangelsi í 4-6 mánuði ef dæmt væri í málinu hér á landi. Jafnframt var vakin athygli á fjölskylduhögum sóknaraðila. Eins og fyrr greinir tók dómsmálaráðuneytið ákvörðun um framsal sóknaraðila til Póllands, sbr. bréf ráðuneytisins 21. janúar 2005 til Ríkissaksóknara.

             Í bréfi Ríkissaksóknara til dómsins kemur fram að um lagaskilyrði til framsals vísi Ríkissaksóknari til umsagnar í bréfi embættisins til dómsmálaráðuneytisins frá 23. desember 2004, en þó þyki rétt að vekja athygli dómsins á því að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1984 megi ekki framselja íslenska ríkisborgara og í 6. gr. Evrópusamningsins frá 1957 sé gert ráð fyrir því sem aðalreglu að aðildarríki geti framselt eigin ríkisborgara, en jafnframt er gerður almennur fyrirvari um rétt þeirra til að synja um slíkt framsal. Þegar Íslendingar hafi gerst aðilar að samningnum hafi þeir gefið svohljóðandi yfirlýsingu á grundvelli þessa ákvæðis: ,,Within the meaning of the Convention the term ,,nationals” means a national of Iceland and a national of Denmark, Finland, Norway or Sweden or a person domiciled in Iceland or other aforementioned countries.“ Samkvæmt yfirlýsingu þessari geti Ísland ekki einungis hafnað beiðnum um framsal á eigin ríkisborgurum heldur einnig beiðnum um framsal á öðrum sem hér eru búsettir. Komi þetta meðal annars fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 13/1984.

II

             Sóknaraðili krefst þess að framsalsbeiðni verið hafnað og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

             Um málsatvik og aðdraganda framsalsbeiðninnar vísar sóknaraðili til bréfs ríkissaksóknara dags. 27. janúar sl. og annarra gagna málsins.  Sóknaraðila er gefið að sök að hafa á tímabilinu 11.-17. desember 1997 í Sviss, tileinkað sér andvirði 10.000 svissneskra franka úr mynttalningar- og skiptivélum sem hann hafi fengið í skiptum fyrir verðlitla mynt. 

Í þessu sambandi kveður sóknaraðili rétt að geta þess, að samkvæmt lögregluskýrslum svissneskra lögregluyfirvalda, sem fylgdu með framsalsgögnunum á frönsku, sé allsendis óljóst hvort og í hversu miklum mæli sóknaraðili hafi tekið þátt í að skipta hinni verðlitlu mynt yfir í svissneska franka. Samkvæmt framburðarskýrslum þeirra sem sakaðir hafi verið um framangreind brot, ásamt sóknaraðila, sé ljóst að sóknaraðili hafi einungis farið í eina ferð til Sviss, en hinir aðilarnir í fleiri ferðir. Sóknaraðili hafi verið blekktur til að fara til Sviss undir því yfirskyni að þar væri vinnu að fá. Þegar honum hafi orðið ljóst að þar væri ekki vinnu að fá hafi hann farið aftur til Póllands.

Í greinargerð rannsóknardómara (le juge d´instruction) í Lausanne í Sviss, komi fram, að sóknaraðili sé grunaður um að hafa tekið þátt í fjórðu ferðinni sem Pólverjarnir hafi farið til Sviss og verði ekki betur séð en að hann sé einungis grunaður um að hafa tekið þátt í að skipta 802 rúblum, sem á gengi dagsins í dag geri 4.010 svissneska franka, en ekki 10.000, eins og segir í framsalsbeiðninni.  Það virðist því gæta nokkurrar ónákvæmni í framsalsbeiðninni varðandi hið ætlaða brot sóknaraðila.

Í bréfi Ríkissaksóknara dags. 27. janúar sl. sé sérstaklega bent á að refsing fyrir brot það sem kærða er gefið að sök myndi væntanlega vera skilorðsbundið fangelsi í 4-6 mánuði, ef dæmt væri í málinu hér á landi. Samkvæmt því sem rakið hafi verið hér að framan um ónákvæma tilgreiningu brotsins og að meint brot sóknaraðila varði að öllum líkindum mun lægri fjárhæð en fram komi í framsalsbeiðninni, sé jafnvel líklegt að refsingin yrði enn mildari. Hér sé því ekki um neinn stórglæp að ræða, enda hafi bæði svissnesk og pólsk yfirvöld haldið að sér höndum varðandi framsalið. Meint brot eigi að hafa verið framið í desember 1997, en beiðni svissneskra yfirvalda til pólskra yfirvalda um réttaraðstoð hafi ekki verið gerð fyrr en 30. október 2001, eða næstum fjórum árum síðar. Beiðni pólskra yfirvalda til íslenskra yfirvalda komi svo ekki fram fyrr en þremur árum eftir það eða 22. nóvember 2004. Slíkur seinagangur sé með ólíkindum og verði ekki séð að meðferð málsins hafi verið í samræmi við reglur Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð innan hæfilegs tíma, sbr. 6. gr. MSE.  Í þessu sambandi er sérstaklega bent á að sóknaraðili bjó í Póllandi alveg fram til október 2000 og hafi því gefist nægur tími til að saksækja hann þar í landi, ef réttarbeiðni Svisslendinga hefði borist innan hæfilegs tíma. Sóknaraðili hafi flutt hingað til lands í góðri trú og hefði ekki haft hugmynd um að hans biði mál af því tagi sem hér um ræði.

Sóknaraðili heldur því fram að skilyrði framsals samkvæmt íslenskum lögum séu ekki uppfyllt. Það sé reyndar ljóst að brot það sem honum er gefið að sök geti varðað fangelsi í meira en eitt ár, sbr. 3. gr. laga nr. 13/1984 og jafnframt að meint brot sé ekki fyrnt samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 9. gr. sömu laga. Hins vegar heldur sóknaraðili því fram að skilyrði 2. gr. laga nr. 13/1984 sé ekki uppfyllt.  Samkvæmt þeirri grein er óheimilt að framselja íslenska ríkisborgara. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusamningnum frá 1957 um framsal sakamanna, var gefin yfirlýsing á grundvelli 6. gr. samningsins, sbr. b-lið 1. mgr. greinarinnar, en þar segir að samningsaðili geti skilgreint af sinni hálfu hvað felist í orðinu ,,ríkisborgari” samkvæmt samningnum.  Í yfirlýsingunni segir orðrétt:  „Within the meaning of the Convention the term „nationals“ means a national of Iceland and a national of Denmark, Finland, Norway or Sweden or a person domiciled in Iceland or other aforementioned countries.“ Sóknaraðili telur að samkvæmt þessu sé ljóst, að Ísland geti ekki aðeins hafnað beiðnum um framsal á íslenskum ríkisborgurum, heldur einnig beiðnum um framsal á fólki sem er búsett hér á landi. Komi þetta beinlínis fram í athugasemdum við 3. gr. frumvarps sem síðar hafi orðið að lögum nr. 13/1984.  Reyndar sé það skilningur sóknaraðila að þar sem orðið ,,national“ í samningnum eigi einnig við um fólk búsett hér á landi, en ekki bara íslenska ríkisborgara, þá gildi bann 2. gr. laga nr. 13/1984 einnig um fólk búsett hér á landi, þ.e. að einnig sé óheimilt að framselja fólk sem er búsett á Íslandi.

Sóknaraðili bendir á að hann hafi verið búsettur hér á landi á fimmta ár, allt frá október á árinu 2000 og hafi allan þann tíma starfað hjá sama vinnuveitanda, [...], þar sem hann starfi enn. Sóknaraðili kveðst vera í sambúð með pólskri konu, sem einnig sé búsett hér á landi og eigi þau saman eitt barn. Það hafi verið ætlun sóknaraðila að búa áfram hér á landi, þar sem hann hafi komið sér vel fyrir ásamt fjölskyldu sinni og búi við örugga atvinnu, sem ekki sé hægt að ganga að vísri í heimalandi hans. Sóknaraðili bendir einnig á að hann sé með hreint sakavottorð hér á landi og ekkert komi fram í gögnum málsins um að hann hafi nokkurn sakaferil í heimalandi sínu eða annars staðar.

Samkvæmt framansögðu heldur sóknaraðili því fram, að þar sem hann er búsettur hér á landi og hefur verið síðastliðin rúm fjögur ár, þá sé samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1984, sbr. 6. gr. Evrópusamningsins frá 1957 og framangreinda yfirlýsingu, óheimilt að framselja hann héðan.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið, krefst sóknaraðili þess að dómurinn úrskurði á þann veg að skilyrði laga um framsal séu ekki fyrir hendi, sbr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

Málskostnaðarkröfu sína byggir verjandi sóknaraðila á á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.

III

             Í framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda sem dagsett er 22. nóvember 2004 kemur fram að sóknaraðili er grunaður um refsiverðan verknað og hefur verið gefin út handtökuskipan á hendur honum, sbr. 1. gr. og 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.  Þá er ljóst að sök er ekki fyrnd á hendur honum, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1984.

             Þannig eru samkvæmt framansögðu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 3. gr. og 9. gr. laganna um framsal sakamanna. Þá er sóknaraðili ekki íslenskur ríkisborgari, en samkvæmt 2. gr. laganna má ekki framselja íslenska ríkisborgara. Við úrlausn þess hvort framsal sóknaraðila verði heimilað verður þó einnig að líta til annarra ákvæða laganna.

             Í athugasemdum með 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 13/1984 kemur fram að samkvæmt 6. gr. Evrópusamningsins frá 1957 um framsal sakamanna, sem Ísland er aðili að, geti aðildarríki hafnað framsali á eigin ríkisborgurum og aðildarríkjunum er sjálfum gefin heimild til að skilgreina hugtakið ,,ríkisborgari“ í þessu sambandi. Ísland getur því ekki einungis hafnað beiðnum um framsal á eigin ríkisborgurum heldur einnig beiðnum um framsal á öðrum sem hér eru búsettir, sbr. yfirlýsingu sem Íslendingar gáfu á grundvelli 6. gr. samningsins: ,,Within the meaning of the Convention the term ,,nationals” means a national of Iceland and a national of Denmark, Finland, Norway or Sweden or a person domiciled in Iceland or other aforementioned countries.“

             Þá kemur fram í 7. gr. laga nr. 13/1984 að í sérstökum tilvikum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæli gegn framsali, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Í athugasemdum með 7. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 13/1984 segir að með orðalaginu ,,aðrar persónulegar aðstæður“ en aldur og heilsufar, sé átt við félagslegar aðstæður viðkomandi manns í heild. Við mat á því geti meðal annars skipt máli hvort viðkomandi eigi hér fjölskyldu, hversu lengi hann hafi búið hér og hvort hann reki hér atvinnustarfsemi eða hafi fasta atvinnu.

             Af gögnum málsins verður ráðið að meint brot sóknaraðila er framið í desember 1997 og var sóknaraðili búsettur í Póllandi til október 2000. Beiðni pólskra yfirvalda til íslenskra dómsmálayfirvalda um framsal sóknaraðila kom ekki fram fyrr en í nóvember 2004, en þá hafði sóknaraðili verið búsettur hér á landi frá árinu 2000. Í greinargerð sóknaraðila kemur og fram að sóknaraðili eigi hér fjölskyldu, unnustu og 18 mánaða gamlan son og hafi starfað hjá sama atvinnuveitanda frá árinu 2000. Hann er samkvæmt gögnum málsins með hreint sakavottorð hér á landi.

             Þegar litið er til framangreinds og með vísan til 2. gr. og 7. gr. laga nr. 13/1984 verður ekki talið að skilyrði laga fyrir framsali sóknaraðila til Póllands séu fyrir hendi og er fallist á kröfu sóknaraðila um að framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda verði hafnað.

              Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði og er hæfilega ákveðin 120.000 krónur. 

             Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

             Fallist er á kröfu sóknaraðila, X, um að framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda á hendur honum verði hafnað.

             Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila Guðrúnar Sesselju Arnardóttir hdl., 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.