Hæstiréttur íslands
Mál nr. 554/2014
Lykilorð
- Eignarréttur
- Skaðabætur
- Málamyndagerningur
- Umboð
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2015 |
|
Nr. 554/2014.
|
A og B (Jón G. Briem hrl.) gegn C (Ívar Pálsson hrl.) |
Eignarréttur. Skaðabætur. Málamyndagerningur. Umboð.
C var í sambúð með D frá árinu 2000 til 2010. Árið 2008 gerðu þau með sér samkomulag um fjárskipti og forsjá barna þeirra vegna sambúðarslita og kom fasteignin J meðal annars í hlut C. Var samkomulagið upphaflega málamyndagerningur, gerður í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að kröfuhafar D gætu gengið að eignum hans, en C og D slitu samvistum tveimur árum síðar. Umrædd fasteign C var seld árið 2010 og upp í greiðslu fyrir það fékk hún íbúð sem þinglýst var á hennar nafn. Í janúar árið 2011 afsalaði D íbúðinni til systur sinnar, A, á grundvelli umboðs frá C frá árinu 2010. Kom fram í umboðinu að D væri heimilt að selja íbúðina, undirrita öll nauðsynleg skjöl vegna sölunnar og taka við greiðslum. A afsalaði síðan íbúðinni til B, núverandi sambýliskonu D, í september sama ár. Við hvoruga söluna var kaupverðs getið en í báðum kaupsamningunum kom fram að umsamið kaupverð væri að fullu greitt. C höfðaði mál gegn A og B og krafðist bóta vegna fyrrgreindra ráðstafana á íbúð hennar. Byggði hún kröfu sína á því að hún hefði aldrei veitt D umboð til að selja íbúðina og hafi hún undirritað umboðið hafi sú undirritun verið fengin með svikum. Þá hefði ekkert gagngjald komið í hennar hlut. Talið var ósannað að C hefði ekki veitt D umboð til að selja íbúðina eða að umboðið hafi verið veitt með svikum. Hins vegar var talið í ljós leitt að bæði A og B hefðu fengið afsal fyrir íbúðinni án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Fyrrgreint umboð C til D hefði tekið til sölu íbúðarinnar og því hefði D brostið heimild til að ráðstafa íbúðinni til systur sinnar á grundvelli umboðsins án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. A og B hefðu, með því að taka grandsamar við eignarráðum íbúðarinnar án samþykkis C og án greiðslu endurgjalds, sameiginlega valdið C tjóni. Var krafa C um bætur úr hendi A og B því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari hefur kveðið upp hinn áfrýjaða dóm.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 2014. Þær krefjast aðallega sýknu, en til vara að krafa stefndu verði lækkuð. Þá krefjast þær málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi snýst ágreiningur máls þessa um ráðstöfun fasteignarinnar E í [...], sem var þinglýst eign stefndu þar til henni var afsalað til áfrýjandans A með afsali 10. janúar 2011, en hún afsalaði síðan eigninni til áfrýjandans B 27. september sama ár. Eignin var svo seld þriðja aðila með kaupsamningi og afsali 23. október 2012. Verðmæti eignarinnar við þá sölu, að frádregnum áhvílandi skuldum, var 21.257.591 króna, sem stefnda krefur áfrýjendur um.
II
Stefnda var í sambúð með D frá árinu 2000 til 2010 og eiga þau tvær dætur, fæddar árin 2004 og 2006. Hinn 20. september 2008 gerðu þau með sér samkomulag um fjárskipti og forræði vegna sambandsslita. Í hlut stefndu komu fasteignirnar F í [...], og sumarbústaður í [...], en í hlut D komu fasteignirnar [...] og [...], [...], og sumarbústaður í [...]. Lausafé og eignir aðila í félögum skyldu áfram tilheyra því þeirra sem skráð var eigandi eignanna á þeim tíma. Þá var kveðið á um sameiginlega forsjá með börnunum, sem skyldu eiga lögheimili hjá móður. Þótt samkomulag þetta væri klætt í búning skiptasamnings þá urðu samvistaslit aðila ekki fyrr en tveimur árum síðar, í september 2010.
Óumdeilt er að samkomulagið 20. september 2008 var í upphafi málamyndagerningur, gerður í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að kröfuhafar D gætu gengið að eignum sem féllu í hlut stefndu samkvæmt samningnum, en bú Dvar tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2012. Einbýlishúsið að F, sem var þinglesin eign stefndu, var selt með kaupsamningi 26. febrúar 2010. Upp í greiðslu fyrir það fékk stefnda íbúð að E, sem metin var á 35.000.000 krónur og þinglýst á hennar nafn. Stefnda og D bjuggu saman í þeirri íbúð þar til sambandi þeirra lauk í september 2010. Við sambúðarslitin var skiptasamningurinn ekki tekinn til endurskoðunar. Verður að líta svo á að við það tímamark hafi samkomulagið orðið bindandi þrátt fyrir upphaflegan tilgang þess. Þá er til þess að líta að eins og að framan greinir var stefnda bæði seljandi fasteignarinnar, sem í hennar hlut kom í samkomulaginu 20. september 2008, og kaupandi íbúðarinnar að E 26. apríl 2010. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, er fallist á þá niðurstöðu að stefnda hafi verið raunverulegur eigandi íbúðarinnar í samræmi við þinglýsta eignarheimild sína að að henni.
III
Eins og að framan greinir fékk áfrýjandinn A afsal fyrir íbúðinni að E 4 hinn 10. janúar 2011. Afsalið var undirritað af D, fyrrverandi sambýlismanni stefndu, á grundvelli umboðs frá stefndu, en D er bróðir áfrýjandans A. Umboðið er dagsett 11. nóvember 2010 og samkvæmt því var D heimilt að selja fasteignina, undirrita öll nauðsynleg skjöl er varða söluna og taka við greiðslum. Áfrýjandinn A afsalaði síðan íbúðinni 27. september 2011 til áfrýjandans B, sem er núverandi sambýliskona D. Í hvorugu afsalanna er kaupverðs getið en tekið fram að umsamið kaupverð sé að fullu greitt.
Stefnda heldur því fram að hún hafi aldrei veitt D umboð til að selja íbúðina og hafi hún undirritað umboðið hafi sú undirritun verið fengin með svikum. Ekki verður talið að færðar hafi verið viðhlítandi sönnur fyrir þeirri staðhæfingu.
Samkvæmt framburði áfrýjenda fyrir dómi telst sannað að þær hafi báðar fengið afsal fyrir íbúðinni án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Með framangreindu umboði var D veitt heimild til að selja íbúðina. Afsalið til áfrýjandans A var ekki sala heldur gjöf, og brast D því heimild til að ráðstafa íbúðinni á þann hátt til systur sinnar á grundvelli umboðsins. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort umboðið sé falsað eða fengið með svikum.
IV
Í máli þessu krefst stefnda bóta vegna framangreindra ráðstafana á íbúð hennar að E. Telur hún áfrýjendur bera óskipta ábyrgð á tjóni hennar. Engin greiðsla kom af þeirra hálfu fyrir íbúðina, auk þess sem gögn málsins bera með sér að þær hafi báðar vitað eða að minnsta kosti mátt vita að D hefði ekki heimild til að ráðstafa eigninni án þess að endurgjald kæmi fyrir. Með því að taka við eignarráðum undir þeim kringumstæðum, án samþykkis stefndu og án greiðslu endurgjalds til hennar, hafa áfrýjendur sameiginlega valdið henni tjóni. Ekki er unnt að líta svo á að um tvo aðskilda og óháða samninga sé að ræða heldur einstaka þætti í samfelldri atburðarás sem miðaði að því markmiði að ná eigninni af stefndu án endurgjalds. Stefnda hefur með þessu verið svipt eignarrétti sínum yfir íbúðinni og eiga kröfurnar samkvæmt framansögðu rætur að rekja til sömu aðstöðu. Áfrýjendum er því réttilega stefnt á grundvelli samlagsaðildar, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, A og B, greiði stefndu, C, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 9. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af C, [...] í [...] á hendur A [...] í [...] og B [...] á [...], með stefnu dagsettri 1. október 2012 með ódagsettri áritun um birtingu fyrir stefndu A en birt fyrir stefndu B þann 5. október s.á.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu greiði stefnanda óskipt 21.257.591 kr. með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. janúar 2011 til þingfestingar máls þessa en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma til greiðsludags. Að auki krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Atvik máls og ágreiningsefni
Ágreiningsefni máls þessa lýtur að ráðstöfun fasteignarinnar E, sem var þinglýst eign stefnanda þar til henni var afsalað til stefndu A með afsali dagsettu 10. janúar 2011. A afsalaði eigninni til meðstefndu B þann 27. september sama ár. Eignin var seld þriðja aðila eftir að mál þetta var höfðað með kaupsamningi og afsali dagsettu 23. október 2012. Vegna þeirrar sölu breytti stefnandi kröfugerð sinni í þinghaldi þann 25. mars 2013 og féll frá upphaflegum kröfum sem lutu að viðurkenningu á því að stefnandi væri eigandi fasteignarinnar og að afsölin til stefndu yrðu ógilt með dómi og jafnframt kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna ráðstöfunar á bílskúr sem stefnandi kveður að hafi tilheyrt íbúðinni. Þá féll stefnandi einnig frá kröfum á hendur D eftir að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Eftir stendur krafa stefnanda um greiðslu fjárhæðar úr hendi stefndu sem nemur verðmæti eignarinnar við sölu hennar til þriðja aðila með framangreindum kaupsamningi og afsali, að frádregnum áhvílandi skuldum á eigninni á söludegi.
Forsaga málsins er sú að C, stefnandi málsins, og D voru í sambúð í um áratug frá, frá árinu 2000 til 2010. Eiga þau saman tvær dætur sem eru fæddar árið 2004 og 2006. D er bróðir stefndu A og núverandi sambýlismaður B. Þann 20. september 2008 gerðu D og C samning sín á milli um fjárskipti og forræði dætranna. Í honum felst að stefnandi fékk tvær fasteignir, einbýlishús að F í [...], og sumarbústað að [...] í [...]. Stefndi D fékk tvær fasteignir í [...] og [...]. Lausafé og eignir aðila í félögum skyldu áfram tilheyra því þeirra sem skráð var eigandi eignanna á þeim tíma. Forræði dætra þeirra skyldi vera sameiginlegt. Þann 4. desember 2008 rituðu aðilar undir staðfestingu á samningi um sameiginlega forsjá og meðlagsgreiðslur. Þótt samningur þessi beri með sér að vera gerður vegna sambúðarslita kom fram í skýrslutökum fyrir dómi að hann var ekki gerður af því tilefni og sambúðarslit urðu ekki að veruleika fyrr en í september árið 2010. Í skýrslum fyrir dómi báru bæði stefnandi og D að tilefni samkomulagsins hefði verið það að blikur voru á lofti í atvinnurekstri D og vildu þau freista þess að skipa málum þannig að ekki væri hætta á að allar eignir þeirra töpuðust ef reksturinn færi í þrot. Bú D var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2012.
Einbýlishúsið að F, sem stefnandi eignaðist með samkomulagi aðila um fjárslit árið 2008, var selt þann 2. mars 2010. Sem greiðslu fyrir það fékk stefnandi íbúð að E, fastanúmer E. Var sú íbúð metin sem 35.000.000 kr. greiðsla í þeim viðskiptum. Stefnandi og D bjuggu saman í þeirri íbúð þar til sambandi þeirra lauk í september 2010.
Í greinargerð stefndu er því lýst að við upphaf sambúðar stefnanda og D hafi hann átt verðmæta skuldlitla fasteign og nokkrar bifreiðar. Á sambúðartímanum hafi hann keypt og selt ýmsar fasteignir og átt töluverð viðskipti með bifreiðar. Bifreiðaviðskiptin hafi verið liður í atvinnustarfsemi D. Öll þessi kaup hafi hann fjármagnað að fullu sjálfur og í raun átt þessar eignir, þ. á m. einbýlishúsið að F sem hann eignaðist árið 2006. Segir í greinargerðinni að ástæða þess að sumar eignanna hafi stundum verið á nafni stefnanda hafi verið viðskiptalegs eðlis af hálfu D.
Við endanleg sambúðarslit stefnanda og D bjuggu þau fyrst um sinn til skiptis í íbúðinni að E. Í febrúar 2011 flutti stefnandi alfarið út og í leiguíbúð. Af gögnum málsins má ráða að ágreiningur hefur verið milli stefnanda og D og hafi þau deilt nokkra hríð um fjárskipti vegna sambúðarslitanna.
Stefnandi kveður að D hafi án hennar leyfis eða samþykkis ráðstafað íbúðinni að E til systur sinnar A án þess að stefnanda hafi borist nokkur greiðsla fyrir hana. Afsal íbúðarinnar er undirritað af D f.h. stefnanda á grundvelli umboðs frá henni. Samkvæmt umboðinu, sem dagsett er 11. nóvember 2010, veitir stefnandi Dumboð til að selja fasteignina, þ. m. t. undirrita öll nauðsynleg skjöl og taka við greiðslum. Stefnandi kveðst ekki hafa veitt D framangreint umboð og sé undirskrift hennar annaðhvort fölsuð eða fengin með svikum.
Þann 30. mars 2012 lagði stefnandi fram kæru hjá lögreglunni á hendur D vegna skjalafals, fjárdráttar/umboðssvika og viðskipta með fasteignina að E. Af því tilefni voru teknar skýrslur hjá lögreglunni af stefnanda, D, G föður stefnanda, sem jafnframt vottar undirskrift hennar á umræddu umboði, stefndu í máli þessu og fleiri aðilum sem komu að skjalagerð og vottun skjala. Ekki reyndist hins vegar unnt að rannsaka meinta fölsun á undirskrift stefnanda á umboði til D þar sem frumrit skjalsins fannst ekki. Með bréfi dagsettu 17. febrúar 2014 tilkynnti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kærða að rannsókn málsins væri lokið og það sem fram hefði komið við þá rannsókn þætti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Stefnandi kærði þá ákvörðun lögreglustjórans til ríkissaksóknara en niðurstaða hans lá ekki fyrir við dómtöku málsins.
Þann 27. desember 2012 setti stefnandi fram kröfu um kyrrsetningu eigna stefndu B, til tryggingar skaðabótakröfu að fjárhæð 35.000.000 kr. Kyrrsetningarmál þetta var síðar fellt niður í kjölfar þess að stefnda B gaf út yfirlýsingu, sem þinglýst var á eign hennar [...], um að óheimilt væri að selja eða veðsetja eignina, án samþykkis stefnanda, þar til 40 dögum eftir að mál þetta verður til lykta leitt fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti. Yfirlýsing þessi er gefin til tryggingar skaðabótakröfu að fjárhæð 21.300.000 kr. auk málskostnaðar verði B dæmd til að greiða hann.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að hún hafi verið löglegur eigandi fasteignarinnar að E og að umboðið sem D notaði við afsalsgerð til systur sinnar A hafi verið falsað eða fengið með svikum. Stefnandi kannist ekki við að hafa ritað undir umboð þetta og hefði ekki komið til hugar að veita fyrrverandi sambýlismanni sínum slíkt umboð til að selja einu eignina sem hún átti eftir 10 ára sambúð þeirra. Til rökstuðnings staðhæfingu sinni um fölsun undirskriftar vísar stefnandi til kæru sinnar til lögreglu vegna þessa máls og til framlagðra gagna sem varða rannsókn á skuldskeytingarskjali þar sem hún gekkst í ábyrgð á láni sem hvíldi á sumarhúsi að [...] í [...]. Sú eign hafi komið í hennar hlut samkvæmt skilnaðarsamkomulagi þeirra D frá 20. september 2008. Niðurstaða rithandarannsóknar H á því skuldskeytingarskjali sé sú að litlar líkur séu á að hún hafi undirritað skjalið. Ljóst sé því að D svífist einskis þegar komi að fjármálum þeirra, en hann hafi afhent bankanum umrætt skjal og hafi með því sjálfur losnað undan greiðsluskyldu.
Verði talið sannað að umboðið frá 11. nóvember 2010 sé falsað sé eignayfirfærsla og afsal íbúðarinnar til stefndu A ólögmæt og ógild. Af því leiði að eignayfirfærsla og afsal frá stefndu A til stefndu B er líka ógilt. Stefnda B geti ekki öðlast betri rétt en viðsemjandi hennar hafði. Engu máli skipti í því sambandi hvort stefndu A og B hafi verið grandsamar um ólögmæti umboðsins.
Stefnandi vísar til 10., 11. og 30. gr. laga nr. 7/1936 varðandi framangreindar málsástæður sem lúta að gildi umboðsins.
Skaðabótakrafa stefnanda er á því byggð að stefndu hafi sameiginlega valdið stefnanda tjóni sem nemur verðmæti íbúðarinnar að E, að frádregnum áhvílandi lánum. Stefndu hafi á saknæman hátt, af ásetningi eða gáleysi, valdið stefnanda tjóni með því að taka þátt í sölu- eða gjafagerningi íbúðarinnar að E án heimildar stefnanda og án þess að greiða stefnanda verðmæti íbúðarinnar. Önnur þeirra eða D hafi hagnast á gerningunum og auðgast á kostnað stefnanda á óréttmætan hátt. D hafi afsalað íbúðinni til stefndu A án vilja og vitundar stefnanda, að líkum án þess að stefnda A hafi greitt fyrir íbúðina. Í því sambandi skipti engu máli hvort umboðið sé falsað, fengið með svikum eða jafnvel gilt. Ef umboðið verður ekki talið falsað eða fengið með svikum er ljóst að það veitti D ekki umboð til að gefa íbúðina. Afsal eignarinnar án greiðslu hafi ekki rúmast innan umboðs til sölu.
Stefnandi byggir á því að stefnda A beri ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli almennu sakarreglunnar. Í fyrsta lagi hafi hún vitað að stefndi D hafi ekki haft heimild til að ráðstafa íbúðinni. Hafi hún ekki greitt neitt fyrir íbúðina hafi henni í öðru lagi mátt vera ljóst að umboðið veitti stefnda D ekki slíka heimild. Þá hafi henni mátt vera ljóst að það hafi ekki verið ósk fyrrverandi sambýliskonu bróður hennar að gefa henni íbúð í [...] . Stefnda A hafi því vitað eða mátt vita að um var að ræða málamyndagerning af hálfu stefnda D til að stela íbúðinni af stefnanda. Beri hún því ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli almennu sakarreglunnar. Háttsemi hennar hafi að minnsta kosti verið gálaus og beint samband sé á milli háttseminnar og tjóns stefnanda. Ábyrgð hennar sé enn augljósari hafi hún fengið íbúðina gefins en selt hana síðar stefndu B. Sé það raunin hafi hún hagnast á löggerningnum og beri því einnig ábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli reglunnar um óréttmæta auðgun.
Um ábyrgð stefndu B gildi hið sama og um ábyrgð stefndu A. Í fyrsta lagi hafi stefnda B vitað að D hafi ekki haft heimild til að ráðstafa íbúðinni í upphafi til stefndu A. Hafi hún ekki greitt neitt fyrir íbúðina hafi henni í öðru lagi mátt vera ljóst að eitthvað væri bogið við að systir sambýlismanns hennar hafi viljað gefa henni íbúð, sem stefnda B hafi þá þegar búið í, og hafi áður verið í eigu fyrrverandi sambýliskonu núverandi sambýlismanns hennar. Að auki liggi fyrir gögn í málinu um að stefnda B hafi á þeim tíma er hún fékk afsalið vitað að D hafi ekki verið heimilt að ráðstafa íbúðinni til stefndu A í upphafi. Stefnda B hafi því vitað eða mátt vita að um málamyndagerning væri að ræða af hálfu D og A til að stela íbúðinni af stefnanda. Stefnda B beri því ábyrgð á tjóni stefnanda með stefndu A á grundvelli almennu sakarreglunnar. Háttsemi hennar hafi að minnsta kosti verið gálaus og beint samband sé á milli háttseminnar og tjóns stefnanda. Þá sé augljóst, hafi stefnda B greitt lítið sem ekkert fyrir íbúðina, að hún beri ábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli reglunnar um óréttmæta auðgun.
Þá er í stefnu byggt á því að sjónarmið að baki 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 leiði til þess að ógilda beri útgáfu afsala til stefndu. Fallið var frá ógildingarkröfunni undir rekstri málsins en af hálfu stefnanda ítrekað að sömu málsástæður ættu við varðandi skaðabótakröfuna.
Svo sem fram er komið byggir endanleg fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda á verðmæti íbúðarinnar að E þegar stefnda B ráðstafaði henni upp í greiðslu á fasteigninni [...] í [...], að teknu tilliti til þeirra veðskulda sem hvíldu á eigninni.
Auk þeirra lagaraka sem þegar hefur verið getið vísar stefnandi til 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild stefndu. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 32. sbr. 1. mgr. 42 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Báðum stefndu sé stefnt í þeirri dómþinghá þar sem heimilt er að stefna annarri þeirra.
Vaxta- og dráttarvaxtakrafa stefnanda byggir á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dráttarvaxtakrafa á 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga. Vextir skv. 8. gr. miða við afsal íbúðarinnar að Björtusölum til stefndu A þann 10. janúar 2011 en dráttarvaxtakrafa við þingfestingu máls þessa. Málskostnaðarkrafa byggir á 1. og 3. mgr. 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og virðisaukaskattur á málflutningsþóknun fer samkvæmt á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og nauðsynlegt sé því nauðsynlegt að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu krefjast sýknu af kröfu stefnanda. Staðhæfingu stefnanda um að umboð stefnanda til D sé falsað er mótmælt sem ósannaðri og rangri. Sannað sé að stefnandi hafi sjálf skrifað undir umboðið. Er vísað í því sambandi til þess sem fram kom í skýrslutöku af henni hjá lögreglu, þann 30. mars 2012, þar sem hún kvaðst ekki geta útilokað að hún hefði skrifað undir umboðið. Þá liggi fyrir yfirlýsing G um undirritun stefnanda á umrætt umboð. Auk þess hafi D staðfest í skýrslutöku hjá lögreglu þann 20. nóvember 2012 að hann hafi verið viðstaddur er stefnandi undirritaði umboðið við eldhúsborðið í E.
Þá er staðhæfingu um að umboðið sé fengið með svikum mótmælt sem órökstuddri og rangri. Enn fremur sé mótmælt staðhæfingum stefnanda um fölsun annarra skjala sem röngum og vísvitandi ósönnum og vísar stefndi til lögregluskýrslna sem teknar voru af vottum umræddra skjala. Stefndu byggja á því að stefnandi hafi gefið D gilt umboð til sölu á fasteigninni E og hann hafi ekki farið út fyrir umboð sitt við söluna. Þá er einnig á því byggt að jafnvel þótt umboðið hafi verið fengið með svikum þá sé því mótmælt að stefndu hafi vitað um þau svik.
Stefnda A mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að hún hafi vitað að D mætti ekki ráðstafa íbúðinni að E þegar hann afsalaði henni til hennar. Þvert á móti hafi hún haft fulla ástæðu til að treysta því umboði sem D hafi fengið auk þess sem hún hafi ekki vitað betur en að D ætti í raun umrædda íbúð. Því sé mótmælt sem röngu að hún hafi vitandi vits tekið þátt í málamyndagerningi til að „stela íbúðinni af stefnanda“ svo sem segi í stefnu.
Stefnda B byggir sýknukröfu sínar í fyrsta lagi á sömu röksemdum og hún upphaflega hafði uppi vegna kröfu um frávísunar málsins. Var frávísunarkrafan rökstudd annars vegar með því að skilyrði samaðildar skv. 19. gr. laga nr. 91/1991 væru ekki fyrir hendi og hins vegar með því að skilyrði 25. gr. sömu laga fyrir viðurkenningardómi væru ekki fyrir hendi. Málatilbúnaður stefnanda sé reistur á því að meinbugir hafi verið á afsali íbúðarinnar til stefnda A en þar hafi stefnda B hvergi komið nærri og ekki sé því hægt að draga hana inn í þetta mál þótt hún hafi síðar keypt íbúðina af meðstefndu. Ekkert réttarsamband sé milli stefnanda og stefndu B.
Þá mótmælir stefnda B því sem röngu, ósönnuðu og órökstuddu að hún hafi vitað að D hafi ekki mátt ráðstafa íbúðinni í upphafi til A og jafnframt að hún hafi vitað að sá samningur hafi verið málamyndagerningur. Stefnda B hafi átt viðskipti við meðstefndu A og hafi ekki annað séð en að eignarheimild hennar væri í fullkomnu lagi. Því skuli bætt við hér að stefnandi gefi sér að sú staðreynd sé sönnuð að hún hafi í raun átt [...],[...]. Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Þótt stefnandi hafi hótað því í niðurlagi bréfs lögmanns síns, dags. 2. september 2011, til D að krefjast opinberra skipta á búi þeirra D við sambúðarslitin, hafi hún ekki látið verða af því. Við þau skipti hefði komið í ljós hvorum eignin tilheyrði í raun. Þá hefði komið í ljós að [...] tilheyrðu ekki stefnanda, þótt hún hafi verið skráður eigandi eignarinnar. Málshöfðun þessi virðist aðeins vera leið stefnanda fram hjá ákvæðum skiptalaganna sem ætlað sé að fjalla um ágreining um eignaskipti við sambúðarslit.
Stefndu mótmæla upphafsdegi vaxtakröfu í málinu. Fjárkrafa geti ekki stofnast fyrr en í fyrsta lagi þegar hún sé gerð, þ. e. við þingfestingu málsins. Að mati stefndu geti þó ekki stofnast fjárkrafa í þessu máli fyrr en við uppkvaðningu dóms í málinu og því beri ekki að dæma vexti frá öðrum tíma en dómsuppsögu.
Um lagarök vegna málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 og laga nr. 50/1988 vegna virðisaukaskatts á málskostnað en stefndu eru ekki virðisaukaskattskyldir aðilar og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Skýrslur fyrir dómi
Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu vitnin I, móðir stefnanda og J, sambýlismaður hennar, D, fyrrum sambýlismaður stefnanda og G, faðir stefnanda. Verður framburður aðila og vitna rakinn hér að því leyti sem máli skiptir fyrir úrslit þessa máls.
Stefnandi sagði frá því að sambúð þeirra D hefði varað í um það bil 10 ár og á þeim tíma hefði fjárhagur þeirra verið sameiginlegur. Spurð um eignaskiptasamning hennar og D, sem gerður var í september 2008, sagði hún að hann hefði ekki verið gerður í tilefni af sambúðarslitum þeirra sem urðu ekki fyrr en árið 2010, heldur vegna þess að blikur hafi verið á lofti í fasteignaviðskiptum D. Þau hefðu hins vegar ekki gert annan samning þegar sambúð þeirra D lauk.
Stefnandi kvaðst aldrei hafa lýst því yfir að hún hafi viljað losna við íbúðina að E, sem komu í hennar hlut í framangreindum skiptasamningi. Hún hafi litið á hana sem sína einu tryggingu eftir sambúðarslit þeirra D. Hún sagði að þau hefðu aldrei rætt um að hann fengi slíkt umboð frá henni og hún kvaðst ekki kannast við að hafa undirritað það. Hún gat þess hins vegar að hún hefði undirritað skjöl sem tengdust afsali á bifreiðum í eigu D sem voru skráð á hana og gögn sem tengdust úrsögn hennar úr stjórnum fyrirtækja sem voru henni óviðkomandi. Þá sagðist hún aldrei hafa rætt um sölu eignarinnar, hvorki við D, stefndu A eða aðra. Hún hefði komist að því að íbúðin hafi verið seld eftir að salan var um garð genginn.
Stefnda A sagði, þegar hún var spurð um aðdragandann að því að henni hefði verið afsöluð íbúðin í E, að hún hefði vitað af því að bróðir hennar hefði verið í vandræðum í viðskiptum sem frændur C hefðu verið búnir að koma honum í. Hann hafi verið við það að missa eignir sínar og boðið henni að kaupa íbúðina. sem hún hafi samþykkt. Hún hafi á þeim tíma búið á [...] en hugðist flytja í bæinn fljótlega. Hún kveðst hafa greitt fasteignagjöld og tryggingar af íbúðinni frá afsalsgerð en D hafi alla tíð séð um afborganir af lánum. Spurð um kaupverð íbúðarinnar sagði hún að um það hefði ekki verið rætt. Hugmyndin hafi verið sú að ganga frá afsali þá þegar og ræða kaupverð síðar þegar betra tóm gæfist til þess. Hún kvað ástæðuna fyrir því að ganga þurfti hratt frá afsali til hennar hafa verið þá að stefnandi hafi viljað losna við íbúðina. Spurð að því hvort stefnandi hefði sagt henni það sagði hún svo ekki vera en hún hafi vitað til þess að stefnandi hefði sagt öðrum frá því, m.a. D og föður stefnanda.
Í upphafi hafi þau D áformað að búa saman í íbúðinni en síðar myndi hún kaupa eignina af honum á verði sem þau myndu ákveða seinna. Af því hafi þó ekki orðið þar sem hún hafi hætt við að flytja suður að svo stöddu. Skömmu síðar hafi D verið kominn í sambúð með meðstefndu B og henni hafi þótt eðlilegt að ráðstafa íbúðinni til hennar í ljósi þess að hún hafi talið rétt að D héldi íbúðinni. Hún kveðst hafa vissu fyrir því að D hafi átt ýmsar eignir í upphafi sambúðar hans við C, hann hafi lagt út fyrir öllum kostnaði og staðið á bak við alla eignamyndun í sambúð þeirra. Þær tekjur sem C hafi aflað hafi farið í hana sjálfa og ef til vill að einhverju leyti í stelpurnar þeirra. Spurð að því á hverju hún byggði þennan framburð kvað hún alla hafa vitað að þannig hafi fjárfélagi stefnanda og D verið háttað. Hún kveðst hafa vitað af því við afsalsgerðina að stefnandi væri þinglýstur eigandi íbúðarinnar og hún hafi séð umboð stefnanda til D sem hafi legið fyrir við þá afsalsgerð. Hún kveðst hafa talið að í umboðinu fælist heimild D til að selja íbúðina.
Spurð um kaupverð íbúðarinnar þegar hún afsalaði henni til meðstefndu B sagði hún að B hefði endurgreitt henni útlagðan kostnað en að öðru leyti hefði hún ekki greitt henni fyrir íbúðina. Meðstefnda B staðfesti það fyrir dómi að hún hefði ekki greitt A fyrir eignina. Auk þess að greiða meðstefnda útlagðan kostnað kvaðst hún einnig hafa greitt gjaldfallnar en ógreiddar afborganir af íbúðinni og skuld við hússjóð. Hún kvaðst hafa flutt inn til D í íbúðina að E um mánaðamótin maí/júní 2011 en samband þeirra hefði hafist um haustið 2010. Á þeim tíma kvað hún að sér hefði verið sagt að D ætti eignina og hún hafi ekki vitað um afsalið til A. Eftir að ágreiningur um eignaskipti kom upp á milli D og stefnanda hefði hún hins vegar fengið að vita af skiptasamningi þeirra og því að íbúðinni hefði verið afsalað frá stefnanda til A. Hún sagðist hafa orðið vör við vilja stefnanda til að losna við íbúðina og m.a. tekið þátt í því þegar D aðstoðaði stefnanda við að sýna fram á að stefnandi væri ekki eigandi íbúðarinnar svo að hún fengi húsaleigubætur vegna leigu á öðru húsnæði. Spurð að því hvort henni hafi ekki þótt einkennilegt að meðstefnda A hafi viljað gefa henni hlut sinn í íbúðinni svaraði hún því til að þegar hún hefði rætt þessi mál við A og D hafi hún fengið vissu fyrir því að D ætti í raun íbúðina en ekki C. Henni hafi því ekki þótt eðlilegt að greiða stefnanda fyrir íbúð sem hún hefði ekki greitt fyrir sjálf. Ekki hafi komið til tals að greiða meðstefndu A fyrir eignina. Þá staðfesti B að hún hefði nú selt íbúðina í E og keypt aðra eign að [...]. Kaupverð E í þeim viðskiptum, að frádregnum veðskuldum, hefði verið 21.257.591 kr.
Í skýrslu D fyrir dómi sagði hann að hann hefði í upphafi sambúðartíma hans og stefnanda átt raðhús á [...] en stefnandi hefði ekki átt neina fasteign. Hann kvaðst hafa keypt aðrar eignir á sambúðartíma þeirra og lengst af stundað sjálfstæðan atvinnurekstur og haft tekjur vel yfir meðallagi. Hann sagði að samkomulag hans og stefnanda um fjárskipti sem gert var í september 2008 hefði verið gert að hans frumkvæði þar sem hann hafi staðið í viðskiptum við frændur stefnanda sem hefðu verið farin að kosta hann mikið og hann hafi verið orðinn hræddur um að enda á götunni. Hann hafi viljað tryggja að þau misstu ekki allar eigur sínar vegna þeirra viðskipta. Hann sagði að sambúðarslit hefðu ekki verið inni í myndinni þegar samningurinn var gerður. D sagði að þegar sambúð hans og stefnanda lauk hafi þurft að ganga frá eignaskiptum. Stefnandi hafi ekki gert kröfu um afhendingu eigna á þeim tíma. Hann kvaðst hafa lagt henni til bíl, greitt fyrir hana húsaleigu og keypt innbú fyrir hana og hún hafi gengið skuldlaus út úr sambúð þeirra. Hin eiginlegu skipti á búi þeirra hefðu farið fram með þessum hætti. Síðar hafi hún með aðstoð lögmanns gert kröfu um frekri eignir og hótað ella opinberum skiptum. Út úr síkum skiptum myndi hún ekki hafa fengið neitt vegna þess að hún hefði ekki lagt neitt til eignamyndunar auk þess sem engum eignum hafi verið til að dreifa. Hann sjálfur hafi á þeim tíma skuldað langt umfram eignir og að lokum hefði bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2012.
Spurður um aðdraganda að afsali E til systur sinnar, A, hvað hann það hafa verið gert að beiðni stefnanda sem vildi losna við eignir sem væru henni óviðkomandi af sínu nafni. Hún hefði sjálf undirritað umboð til hans og hann hefði af því tilefni útskýrt fyrir henni að það væri nauðsynlegt svo að hann gæti flutt eignina af hennar nafni. Á sama tíma hafi hún undirritað skjöl sem tengdust nokkrum bílum sem voru á hennar nafni en í eigu hans. D sagði að þegar eigninni hefði verið afsalað til A hafi hann verið við það að missa allt sitt og hún hafi með þessu gert sér greiða með því að vilja kaupa íbúðina. Auk þess hafi þau viðskipti komið sér vel fyrir hana þar sem hún hugðist flytja í bæinn. Þau hafi hugsað sér að samnýta íbúðina um tíma en ekki hafi verið rætt um kaupverð. Hann kvaðst alltaf hafa litið svo á að íbúðin væri sín eign en ekki stefnanda. Um afsalið til B sagði Dað hann hefði talið það eðlilegt. Sjálfsagt hefði veri að hún tæki við eigninni þar sem þau hefðu hafið sambúð, hún hefði tekið þátt í rekstri íbúðarinnar á móti honum og þau hefðu búið þar saman.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur máls þessa á sér rætur í deilum um fjárskipti við sambúðarslit stefnanda og vitnisins D en í upphafi málarekstur þessa var D meðal stefndu í málinu. Fallið var frá kröfum á hendur honum í þinghaldi þann 5. febrúar 2013 en bú D var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2012. Endanlegar dómkröfur stefnanda felast í skaðabótakröfu á hendur stefndu vegna viðskipta þeirra með íbúð að E. Á hinn bóginn er ágreiningur stefnanda og D um skiptingu bús þeirra við sambúðarslit ekki til úrslausnar í þessum dómi.
Stefnandi byggir á því að hún hafi verið löglegur eigandi íbúðarinnar að E þegar henni var afsalað til stefndu A. Til stuðnings þeirri staðhæfingu liggur þinglýsing eignarheimildar stefnanda sem byggir á samkomulagi hennar og fyrrum sambýlismanns hennar, D, um skiptingu eigna frá því í september 2008. Almennt verður að telja að þinglýsing eignarheimildar sé sterk vísbending um það hver sé raunverulegur eigandi fasteignar. Sá sem heldur öðru fram ber sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu.
Stefndu byggja á því að D hafi verið raunverulegur eigandi íbúðarinnar en ekki stefnandi. Svo sem rakið er í umfjöllun um skýrslur fyrir dómi halda þær því báðar fram að stefnandi hafi þegar fengið það sem henni bar í skiptum á eignum hennar og D við sambúðarslit þeirra og því hafi þeim verið rétt að líta svo á að D hafi verið eigandi íbúðarinnar.
Hvað varðar umræddan eignaskiptasamning milli stefnanda og D frá því í september 2008, báru bæði stefnandi og D að samningurinn hefði verið gerður á meðan þau voru enn í sambúð og hafi sambúðinni ekki lokið fyrr en tveimur árum eftir undirritun samningsins. Spurð um tilefni samningsgerðarinnar báru þau bæði að hann hefði verið gerður af því tilefni að ótryggt væri hvernig fasteignaviðskiptum D reiddi af, þ.e. til að freista þess að koma í veg fyrir að þau misstu allar eignir sínar ef til greiðsluþrots D kæmi. Með framangreindum framburði staðfestu stefnandi og D að ekki var um eiginlegan skiptasamning að ræða og skipti fóru í reynd ekki fram á grundvelli samningsins þegar hann var gerður. Samningnum var því í upphafi ekki ætlað að hafa gildi í skiptum milli þeirra samkvæmt efni sínu enda tilgangur hans að hindra að kröfuhafar D gætu gengið að eignum sem féllu í hlut stefnanda á grundvelli samningsins. Á hinn bóginn hefur samningur þessi ekki verið ógiltur og ekki liggur fyrir hvort hann er ógildanlegur. Þá er engum gögnum til að dreifa í málinu um það hvaða eignir stefnandi og D áttu við sambúðarslitin eða hvernig þær skiptust á milli þeirra. Af þessum sökum verður umdeildri eignarheimild stefnanda á E ekki hnekkt með vísan til aðstæðna við gerð skiptasamnings milli hennar og D. Við aðalmeðferð málsins hélt lögmaður stefndu því fram að samningur aðila væri ógildur með vísan til lögjöfnunar frá 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þar sem fram komi að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður ef makar halda áfram sambúð umfram stuttan tíma sem sanngjarnt er að ætla þeim, einkum vegna búferlaflutnings og öflunar nýs húsnæðis. Lögmaður stefnanda mótmælti þessar málsástæðu sem of seint fram kominni. Þar sem henni var fyrst hreyft við aðalmeðferð málsins kemur hún ekki til frekari skoðunar hér gegn mótmælum stefnanda sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Í þessu sambandi ber einnig að árétta að deilur stefnanda og D um eignaskipti við sambúðarslit eru ekki til úrslausnar í máli þessu.
Staðhæfingar stefndu um að stefnandi hafi í raun ekki átt íbúðina hafa ekki verið studdar öðrum gögnum en framburði D. Gegn eindregnum mótmælum stefnanda hefur þeim ekki tekist sönnun þess að stefnandi hafi ekki verið eigandi íbúðarinnar. Verður því lagt til grundvallar niðurstöðu málsins að stefnandi hafi átt íbúðina í E þegar henni var afsalað til stefndu A.
Stefnda A eignaðist íbúðina með afsali dagsettu 10. janúar 2011. D undirritar afsalið fyrir hönd stefnanda á grundvelli umboðs frá henni sem er dagsett 11. nóvember 2010. Stefnandi heldur því fram að undirskrift hennar sé annaðhvort fölsuð eða fengin með svikum. Ber hún að hún hafi aldrei falið D að selja íbúðina fyrir sig og hafi hún undirritað umboðið hafi sú undirritun verið fengin með svikum. Af framburði hennar fyrir dómi og í skýrslu hennar hjá lögreglu, sem hún staðfesti fyrir dómi, má ráða að hafi hún í raun undirritað umboðið telji hún að það hafi verið gert í þeirri trú að hún væri að undirrita skjöl varðandi bílaviðskipti eða önnur viðskipti, en hún hafi verið skráður eigandi ýmissa bifreiða sem í raun hafi verið eign D sem hún hafi viljað losna við af sínu nafni auk þess sem hún hafi verið í stjórn fyrirtækja í eigu D sem voru henni óviðkomandi.
Af framburði stefndu fyrir dómi má slá því föstu að þær hafi báðar fengið afsal fyrir íbúðinni að E án þess að nokkurt endurgjald hafi komið fyrir hana. Því var ekki um raunverulega sölu íbúðarinnar að ræða heldur gjöf. Yfirlýsingar stefndu A og D um að staðið hafi til að ákveða söluverð síðar og að greiðsla kæmi þá til breyta ekki þessari niðurstöðu enda liggur fyrir að hvorugt þeirra hafi gert ráð fyrir að kaupverðið rynni til stefnanda jafnvel þótt raunveruleg sala færi fram síðar. Að mati dómsins hefur það því ekki þýðingu í málinu að taka afstöðu til þess hvort umdeilt umboð hafi verið falsað eða fengið með svikum þar sem fyrir liggur að afsalsgerningur stefnanda til A var ekki sala á fasteign heldur gjafagerningur sem með hliðsjón af framburði hennar og D ber einnig með sér að hafa verið gerður til málamynda. Hvað sem líður gildi umboðsins til sölu fasteignarinnar er því ljóst að D hafði ekki umboð til að gefa systur sinni íbúðina fyrir hönd stefnanda. Í þessu sambandi er yfirlýsing stefndu A um að „allir hafi vitað að stefnandi ætti ekki íbúðina“ haldlausar. Leggja verður til grundvallar úrlausn málsins að A hafi vitað eða mátt vita þegar íbúðinni var afsalað til hennar að sá gerningur var hvorki í samræmi við vilja stefnanda né í samræmi við efni umboðs stefnanda til D. Með vísan til 10. og 11. gr. laga nr. 7/1936 verður ekki talið að gerningur þessi sé skuldbindandi fyrir stefnanda. Með því að standa að afsalsgerð fyrir íbúðinni og taka yfir eignaumráð hennar og afsala henni síðar til meðstefndu B, bakaði stefnda A stefnanda tjóni. Með framburði hennar fyrir dómi telst sannað að hún hafi verið grandsöm um ólögmæti þess gernings þar sem henni var ljóst að stefnandi var þinglýstur eigandi íbúðarinnar og jafnframt að það væri ekki í samræmi við vilja stefnanda að hún eignaðist íbúðina án þess að stefnandi fengi nokkurt endurgjald fyrir. Með þessari háttsemi olli hún stefnanda tjóni sem hún ber skaðabótaskyldu á, á grundvelli almennu sakarreglunnar, enda þótt leitt sé í ljós að hún hafi sjálf ekki haft fjárhagslegan hag af ráðstöfuninni.
Stefnandi byggir á því að stefnda B beri óskipta ábyrgð á tjóni hennar með stefndu A. Fyrir liggur að stefnda A afsalaði B íbúðinni að E með afsali dagsettu 27. september 2011. Af framburði stefndu B fyrir dómi liggur fyrir að hún greiddi meðstefndu A ekki fyrir íbúðina að öðru leyti en því að hún endurgreiddi henni útlagaðan kostnað af rekstri hennar og kveðst hafa komið lánum og skuldum við hússjóð í skil. Um eiginlegt kaupverð var því ekki að ræða. Stefnda B gaf þá skýringu á þessum viðskiptum að ráðstöfunin hafi þótt eðlileg í ljósi þess að stefnandi hafi í raun ekki átt íbúðina. Athugun hennar og D á skiptum á eignum D og stefnanda við sambúðarslitin hafi leitt í ljós að hún hefði þegar fengið það sem henni bar. Að framan er rakin afstaða dómsins til þess að þessi staðhæfing, sem er á sama veg og staðhæfing stefndu A, sé ósönnuð. Þá liggur fyrir að B ráðstafaði íbúðinni upp í kaup á annarri eign að [...] í [...] sem er nú eign hennar. Að frátöldum áhvílandi skuldum nam verðmæti eignarinnar í þeim viðskiptum 21.257.591 kr. sem er stefnufjárhæð þessa máls.
Af framburði stefndu B fyrir dómi má ráða að hún hafi vitað eða mátt vita þegar hún fékk afsal fyrir E að eignin hafi komist í umráð meðstefndu A án samþykkis stefnanda og án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Þegar hún tók við eigninni af A, án þess að greiða fyrir hana, mátti henni því vera ljóst að A var ekki löglegur eigandi eignarinnar og að afsal A til hennar var til þess fallið að valda stefnanda tjóni. Er því fallist á það með stefnanda að stefndu hafi í sameiningu valdið henni tjóni með því að taka við umráðum eignarinnar, án samþykkis stefnanda og án greiðslu endurgjalds til hennar. Af ráðstöfunum þessum hagnaðist stefnda B og nemur hagnaður hennar fjárhæð íbúðarinnar að frádregnum áhvílandi lánum, sem hún lét ganga upp í kaup á [...].
Í upphaflegum málatilbúnaði stefndu B er á því byggt að vísa beri kröfum á hendur henni frá dómi vegna þess að skilyrði til samaðildar hennar og A skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi. Undir rekstri málsins var fallið frá frávísunarkröfunni. Í málflutningsræðu lögmanns stefndu var hins vegar ítrekað að sömu málsástæðum væri haldið fram varðandi sýknukröfuna og koma fram um frávísunarkröfuna. Verður því að líta svo á að krafist sé sýknu með vísan til þess að skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki fyrir hendi. Á það er ekki fallist. Skortur á skilyrðum fyrir samaðild samkvæmt nefndri grein laga um meðferð einkamála leiðir til frávísunar sé slík krafa gerð af hálfu aðila. Hvorki eru lagaskilyrði til að sýkna á grundvelli þessa ákvæðis né til að vísa máli frá dómi án kröfu. Þá á tilvísun til ákvæðis 2. mgr. 25. gr. sömu laga ekki við í málinu í endanlegum búningi þess þar sem fallið var frá viðurkenningarkröfum sem upphaflega voru hafðar upp í málinu. Þá er ekki hald í þeirri málsástæða stefndu B að dómur geti ekki gengið um bótakröfu á hendur henni þar sem ekkert samningssamband sé á milli hennar og stefnanda þegar af þeirri ástæðu að bótakrafa stefnanda byggir á almennu sakarreglunni sem kveður á um bótaskyldu utan samninga.
Svo sem mál þetta er lagt fyrir dóminn er með framangreindum rökstuðningi fallist á þá málsástæðu stefnanda að stefndu hafi valdið stefnanda tjóni sem þær beri óskipta skaðabótaábyrgð á. Verður krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta sem nemur virði eignarinnar því tekin til greina. Ekki er ágreiningur um að verðmæti íbúðarinnar E hafi numið 21.257.591 kr. að frádregnum áhvílandi veðskuldum við sölu til þriðja aðila þann 23. október 2012.
Stefnandi gerir kröfu um greiðslu vaxta frá 10. janúar 2011, sem er sá dagur þegar A fékk afsal fyrir umdeildri íbúð með vísan til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til þingfestingar máls þessa en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefndu mótmæla vaxtakröfu stefnanda. Dómkrafa stefnanda er miðuð við verðmæti eignarinnar við sölu þann 23. október 2012. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 37/2001 skal krafan bera vexti frá þeim tíma. Með vísan til síðari málsliðar 2. mgr. 9. gr. sömu laga er ekki fallist á að krafan beri dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögu, enda hafa tafir á málarekstri þessum orðið nokkrar af ástæðum sem stefndu verður ekki kennt um.
Með hliðsjón af atvikum þessa máls er rétt að hver aðili beri sinn málskostnað.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Stefndu, A og B, skulu greiða stefnanda, C, 21.257.591 kr., með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. október 2012 en dráttarvöxtum frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður.