Hæstiréttur íslands
Mál nr. 174/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 3. maí 1999. |
|
Nr. 174/1999. |
Ákæruvaldið (enginn) gegn Steini Ármanni Stefánssyni (Hilmar Baldursson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdómara um að S skyldi sæta gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. apríl 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. júní 1999 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á, að skilyrði séu til að taka kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald til greina. Að þessu athuguðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. apríl 1999.
Af hálfu ríkissaksóknara hefur í dag verið gerð sú krafa fyrir dóminum að Steini Ármanni Stefánssyni, kt. 071066-5179, Þingholtsstræti 8, Reykjavík, verði með vísan til d. liðar og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, gert að sæta gæsluvarðhaldi frá deginum í dag kl. 16:00, allt þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 9. júní nk. kl. 16:00.
Af hálfu ákærða er þess krafist, að framkominni kröfu verði hafnað, en til vara, að gæsluvarðhaldinu verði markaður styttri tími en krafist er.
Með úrskurði, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 6. mars 1999, var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til að dómur félli í máli hans, en þó eigi lengur en til mánudagsins 19. apríl 1999, kl. 16:00. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og var hann staðfestur með dómi réttarins, miðvikudaginn 10. mars sl.
Með ákæru, dagsettri 15. þ.m., sem birt hefur verið ákærða og þingfest var fyrir dóminum fyrr í dag, var höfðað opinbert mál á hendur ákærða fyrir stórfellda líkamsmeiðingu og brot gegn valdstjórninni. Er ákærða gefið að sök að hafa, fimmtudagskvöldið 4. mars, að vistheimilinu Akurhóli á Rangárvöllum, slegið Þorstein Sigfússon, forstöðumann vistheimilisins, þrjú högg í andlitið, með krepptum hnefa og vasahníf í hendinni, sem ákærði er talinn hafa rekið í vinstra auga Þorsteins, með þeim afleiðingum að 1.5 sm langur gapandi skurður kom í slímhúð augans. Er brotið talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá er ákærða gefið að sök að hafa kvöldið eftir í fangageymslu lögreglunnar í Reykjavík, slegið fangavörðinn Einar Halldór Björnsson, sem þar var að störfum, hnefahögg á hægri vanga, með þeim afleiðingum að hann marðist og bólgnaði. Er þetta talið varða við 106. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruvaldið byggir kröfu sína á að ákærði hafi ítrekað orðið uppvís að ofbeldisbrotum. Hann sæti nú ákæru vegna tveggja líkamsárásabrota, á rúmum sólarhring. Þyki að verða að ráða af þessu að ákærði eigi erfitt með að hemja skapsmuni sína og grípi til ofbeldis af minnsta tilefni. Því sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra árásum hans.
Þá þyki með hliðsjón af alvarleika brots þess sem ákærða er í I. kafla ákæru gefið að sök að hafa framið, nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þess tíma er dómur gengur í máli hans.
Ákærði á alvarlegan sakarferil að baki. Samkvæmt sakavottorði hans hlaut hann þann 24. mars 1997 reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum refsingar, 840 dögum, en með dómi Hæstaréttar frá 21. maí 1993 var staðfestur dómur Héraðsdóms, þar sem ákærði var dæmdur í 7 ára fangelsi, m.a. fyrir brot gegn 21. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Árið 1989 hlaut ákærði skilorðsbundinn dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og árið 1991 var hann dæmdur fyrir brot á 1. mgr. 106. gr. s.l. Ákærði hefur einnig verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir þjófnað. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. maí 1998 var ákærði sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár. Dómari í því máli ákvað að láta reynslulausn ákærða standa, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga og hafði við þá ákvörðun m.a. hliðsjón af andlegri vanheilsu sakbornings.
Við þingfestingu ákærumálsins var ákveðið að ákærði undirgengist rannsókn hjá geðlækni. Var málinu frestað um ótiltekinn tíma eða þar til álit geðlæknis liggur fyrir.
Ákæran er studd ítarlegum rannsóknargögnum. Ákærði, sem hlotið hefur dóma fyrir alvarleg ofbeldisbrot, sætir nú ákæru vegna tveggja brota framinna á rúmum sólarhring, brota sem talin eru varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Ákveðið hefur verið að ákærði sæti rannsókn geðlæknis. Með vísan til þessa þykja skilyrði d. liðar 1. mgr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála um gæsluvarðhald vera fyrir hendi. Verður því fallist á kröfu ákærandans um framlengingu gæsluvarðhalds ákærða, allt þar til að dómur gengur í málinu, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 9. júní n.k. kl. 16:00.
Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákærði, Steinn Ármann Stefánsson, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt þar til að dómur gengur í málinu, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 9. júní n.k. kl. 16:00.