Hæstiréttur íslands
Mál nr. 420/2012
Lykilorð
- Endurupptaka
- Ómerking héraðsdóms
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2013. |
|
Nr. 420/2012.
|
Ármann Rafn Úlfarsson (Jónas Þór Jónasson hrl.) gegn Vélasölunni verkstæði ehf. (Ragnar Baldursson hrl.) |
Endurupptaka. Ómerking héraðsdóms. Aðfinnslur.
Á krafði V ehf. um greiðslu launa í uppsagnarfresti. Hafði Á starfað hjá V ehf. um skamma hríð en áður hjá fyrirtækinu R ehf. V ehf. mun hafa eignast allt lausafé og viðskiptakröfur R ehf. og ráðið nokkra starfsmenn þess, þ.á m. Á, til starfa. Með dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp 17. desember 2010 var fallist á kröfu Á og V ehf. gert að greiða honum 1.993.570 krónur. Að beiðni V ehf. féllst Hæstiréttur á endurupptöku málsins 29. ágúst 2011. Var málið í framhaldinu endurupptekið í héraðsdómi 10. október 2011 og ný gögn lögð fram er vörðuðu kröfulýsingu Á í bú R ehf. og greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa. Með hinum áfrýjaða dómi 16. mars 2012 var V ehf. gert að greiða Á 111.233 krónur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ályktun héraðsdóms þess efnis að málið hafi þegar verið dæmt að efni til og því væri ekki unnt að meta á ný nein þau ágreiningsefni sem leyst hafi verið úr í fyrri dómi, nema að því leyti sem ný gögn og málsástæður gætu haggað fyrri niðurstöðu, ætti sér ekki lagastoð. Þá var samningu dómsins talið ábótavant. Ómerkti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2012. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 1.432.606 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 532.606 krónum frá 1. mars 2009 til 1. apríl sama ár, af 982.606 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár en af 1.432.606 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi var um árabil starfsmaður R. Sigmundsson ehf. Í desember 2008 mun Gifsfélagið ehf. hafa keypt allt lausafé og útistandandi kröfur fyrrnefnda félagsins af Steinsnesi ehf., félags í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Jafnframt mun Gifsfélagið ehf. hafa keypt allt hlutafé í R. Sigmundsson ehf. Stefndi kveður strax hafa komið í ljós að ekki hafi verið grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri R. Sigmundsson ehf. og í framhaldinu seldi Gifsfélagið ehf. stefnda lausafjármuni og útistandandi kröfur R. Sigmundsson ehf. Öllu starfsfólki þess félags mun hafa verið sagt upp störfum í lok desember 2008. Stefndi réð nokkra starfsmenn félagsins til starfa í ársbyrjun 2009, án þess að gera við þá skriflega ráðningarsamninga, og var áfrýjandi meðal þeirra. Starfaði hann hjá stefnda til 27. febrúar 2009, er honum var sagt upp störfum með bréfi stefnda þann dag, og var þess óskað að áfrýjandi léti af stöfum þá þegar. Í uppsagnarbréfinu sagði meðal annars: „Verður yður greiddur uppsagnarfrestur í samræmi við gildandi kjarasamninga þar að lútandi á grundvelli vinnuframlags fyrir Vélasöluna ehf. frá síðustu áramótum að telja.“
R. Sigmundson ehf. var tekið til gjaldþrotskipta 4. febrúar 2009. Áfrýjandi lýsti 11. apríl það ár forgangskröfu í búið fyrir áunnið orlof og laun í uppsagnarfresti að fjárhæð 9.729.446 krónur. Skiptastjóri viðurkenndi kröfu áfrýjanda að fjárhæð 7.139.039 krónur sem forgangskröfu og var lýst kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa. Af gögnum málsins virðist mega ráða að Ábyrgðasjóður launa hafi samþykkt greiðslu til áfrýjanda að fjárhæð 973.000 krónur og innt af hendi greiðslu að fjárhæð 389.304 krónur 20. október 2009, en þá hafi verið dregnar frá samþykktri kröfu atvinnuleysisbætur, opinber gjöld og iðgjald til lífeyrissjóðs.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 28. janúar 2010. Hann krefur stefnda í fyrsta lagi um laun í tveggja mánaða uppsagnarfresti og styður kröfuna við fyrrgreint uppsagnarbréf og ákvæði í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem var stéttarfélag áfrýjanda. Í öðru lagi krefur hann stefnda um greiðslu áunnins orlofs hjá R. Sigmundsson ehf. og stefnda og reisir kröfuna á ákvæðum fyrrgreinds kjarasamnings, laga nr. 30/1987 um orlof og því að stefndi hafi við upphaf ráðningar skuldbundið sig til að taka yfir þann orlofsrétt sem áfrýjandi hafði áunnið sér í þjónustu R. Sigmundsson ehf. Í þriðja lagi krefst hann greiðslu áunninnar orlofs- og desemberuppbótar og styður þá kröfu við áðurgreindan kjarasamning. Sýknukrafa stefnda í málinu er í aðalatriðum á því reist að hann hafi ekki tekið að sér greiðslu neinna skuldbindinga sem á R. Sigmundsson ehf. hvíldu og beri samkvæmt því enga ábyrgð á kröfum áfrýjanda sem eigi rætur að rekja til vinnu hans hjá fyrri vinnuveitanda.
II
Dómur í máli þessu var fyrst kveðinn upp í héraði 17. desember 2010 og voru kröfur áfrýjanda teknar til greina að fullu og stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 1.993.570 krónur með dráttarvöxtum af 1.093.570 krónum frá 1. mars 2009 til 1. apríl sama ár, af 1.543.570 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár og af 1.993.570 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 320.000 krónur í málskostnað.
Með bréfi til Hæstaréttar 26. maí 2011 óskaði stefndi eftir því að rétturinn heimilaði endurupptöku málsins með vísan til 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var í bréfinu greint í stuttu máli frá starfi áfrýjanda hjá R. Sigmundsson ehf. og starfslokum þar, kaupum stefnda á lausafé og viðskiptakröfum R. Sigmundsson ehf. og starfi áfrýjanda hjá stefnda. Einnig sagði þar frá gjaldþrotaskiptum síðastnefnda félagsins, kröfu þeirri er áfrýjandi lýsti í bú þess, afstöðu skiptastjóra til hennar og kröfulýsingu á hendur Ábyrgðasjóði launa. Þá sagði í bréfinu: „Þegar þessi viðurkenning lá fyrir gaf [áfrýjandi] út stefnu á hendur [stefnda], þann 26. janúar 2010 til greiðslu orlofsréttinda sem hann hafði áunnið sér hjá R. Sigmundssyni ehf., og til greiðslu launa í uppsagnarfresti vegna uppsagnar R. Sigmundssonar ehf., sem hann hafði þá þegar fengið samþykkt af skiptastjóra þrotabús R. Sigmundssonar ehf., og fengið greitt frá Ábyrgðasjóði launa. Stefnda var ekki kunnugt um þessa kröfugerð á hendur þrotabúi R. Sigmundssonar ehf., fyrr en eftir uppsögn héraðsdóms og gat því ekki byggt upp varnir sínar fyrir héraðsdómi á þeirri málsástæðu ... Telur stefndi grundvöll fyrir málinu vera brostinn og tilraun stefnda til að fá sömu kröfuna tvígreidda refsiverða. Augljóslega er það mjög mikilvægt fyrir [stefnda] að þessi atriði fái komist að í málinu.“ Með bréfi Hæstaréttar 29. ágúst 2011 var stefnda tilkynnt að umsókn hans um endurupptöku málsins hafi verið samþykkt.
Málið var í framhaldinu endurupptekið 10. október 2011 og gögn sem varða kröfulýsingu áfrýjanda í bú R. Sigmundsson ehf. og greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa lögð fram. Aðalmeðferð fór að nýju fram 17. febrúar 2012 og hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 16. mars sama ár. Kröfugerð beggja málsaðila var hin sama og hið fyrra sinni. Með dóminum var stefnda gert að greiða áfrýjanda 111.233 krónur með dráttarvöxtum frá 16. mars 2012 til greiðsludags og málskostnaður felldur niður. Er það þessi dómur sem er til endurskoðunar hér fyrir dómi. Áfrýjandi hefur gert þá breytingu á kröfugerð sinni að hann krefur stefnda eins og áður greinir um greiðslu á 1.432.606 krónum og hefur þá lækkað höfuðstól kröfu sinnar frá því sem var í héraði um 560.964 krónur vegna greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa.
III
Í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að hafi héraðsdómur gengið í máli sem ekki hefur verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur er liðinn, geti Hæstiréttur orðið við beiðni um að málið verið endurupptekið í héraði, ef fullnægt er öllum þeim skilyrðum sem fram koma í a. til c. stafliðum málsgreinarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 168. gr. laganna fer meðferð máls, sem endurupptekið hefur verið, fram á ný eftir reglum laganna, að öðru leyti en því sem mælt er fyrir um í 1. til 4. mgr. þeirrar lagagreinar. Af þessu leiðir að héraðsdómara ber við nýja meðferð máls að leggja sjálfstætt mat á allar kröfur málsaðila að teknu tilliti til málsástæðna þeirra og lagaraka og er óbundinn af fyrri afstöðu dómara til sakarefnisins. Á sér því ekki lagastoð sú ályktun héraðsdómara, sem fram kemur í upphafi niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms, að þar sem málið hafi þegar verið dæmt að efni til sé ekki unnt að meta á ný nein þau ágreiningsefni, sem leyst var úr í fyrri dómi, nema að því leyti sem ný gögn og málsástæður geti haggað fyrri niðurstöðu. Samkvæmt þessu og þar sem úrlausn héraðsdómara um einstaka kröfuliði og þær málsástæður og lagarök, sem þeir eru reistir á, er þessu sama marki brennd verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur frá og með upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Það athugist að við endurupptöku málsins 10. október 2011 láðist héraðsdómara að færa til bókar að málið væri endurupptekið í samræmi við ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt bréfi réttarins 29. ágúst sama ár. Þá er samningu hins áfrýjaða dóms ábótavant. Samkvæmt d. til f. stafliðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 skal í dómi greina stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því, helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á og rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði. Þessum kröfum er ekki fullnægt í hinum áfrýjaða dómi.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur frá og með upphafi aðalmeðferðar og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2012.
Mál þetta höfðaði Ármann Rafn Úlfarsson, kt. [...], Vesturtúni 20, Álftanesi, með stefnu, birtri 28. janúar 2010, á hendur hendur Vélasölunni ehf., kt. [...], Klettagörðum 25, Reykjavík. Málið var dæmt 17. desember 2010, en hinn 29. ágúst 2011 heimilaði Hæstiréttur að það yrði endurupptekið. Málflutningur var því endurtekinn og var málið dómtekið 17. febrúar sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 1.993.570 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.093.570 krónum frá 1. mars 2009 til 1. apríl sama ár, en af 1.993.570 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur malskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Samhliða þessu máli hafa verið rekin sambærileg mál föður stefnanda og bróður, en allir höfðu þeir starfað hjá R. Sigmundssyni ehf. og verið ráðnir til stefnda. Var þeim öllum sagt upp á sama tíma. Gáfu þeir feðgar allir skýrslur við aðalmeðferð málanna, bæði nú og í hið fyrra sinnið. Þá gaf framkvæmdastjóri stefnda, Helgi Magnús Hermannsson, einnig skýrslu.
Stefnandi hóf störf hjá stefnda í ársbyrjun 2009. Við ráðningu stefnanda var ekki gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur.
Stefnanda var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi stefnda, dags. 27. febrúar 2009. Segir í bréfinu að vegna samdráttar í starfsemi verði ekki gerður við hann ráðningarsamningur. Þá var þess óskað, að stefnandi léti þegar af störfum. Í bréfinu var stefnanda jafnframt tilkynnt, að honum yrði greiddur uppsagnarfrestur í samræmi við gildandi kjarasamninga, á grundvelli vinnuframlags fyrir stefnda frá áramótum 2008/2009 að telja.
Helgi Magnús Hermannsson sagði fyrir dómi að stefnandi hefði verið ráðinn tímabundið til stefnda, meðan verið væri að taka ákvörðun um, hverjir myndu verða ráðnir til frambúðar. Hann sagði að fyrirsvarsmenn stefnda hefði grunað að þeir feðgar væru að vinna að því að stofna nýtt fyrirtæki í samkeppni við stefnda. Þeir hafi hins vegar ekki haft neinar sannanir fyrir þeim grun og því ekki tilgreint þetta atriði sem ástæðu uppsagnar.
Stefnandi kvaðst hafa verið að undirbúa stofnun félags ásamt Sigurbirni bróður sínum. Því hafi ekki verið ætlað að fara í samkeppni við stefnda, heldur einbeita sér að markaði fyrir útivist og mótorsport. Hafa verið lögð fram gögn um skráningu þessa félags, Go on ehf.
Áður en stefnandi var ráðinn til stefnda hafði hann starfað hjá R. Sigmundssyni ehf. Stefndi lýsir því í greinargerð sinni að Gifsfélagið ehf. hafi keypt allar eignir þess félags og hlutaféð í því. Hafi lausaféð síðan verið selt stefnda, en félagið gefið upp til gjaldþrotaskipta. Hafi öllum starfsmönnum verið sagt upp í desember 2008.
Í skýrslum fyrir dómi kom fram misjöfn frásögn af starfsmannafundi sem haldinn var 6. janúar 2009. Hann mun hafa verið haldinn vegna óvissu um réttindi starfsmanna og sögðu þeir feðgar að þeir hafi beðið um að þessi fundur yrði haldinn til að eyða þessari óvissu. Sögðu þeir allir að þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hefði lofað að starfsmenn héldu orlofsréttindum sínum. Helgi Magnús Hermannsson, núverandi framkvæmdastjóri, sem einnig var á fundinum, sagði í sinni skýrslu að þessu hefði ekki verið lofað. Bentu feðgarnir á að þetta loforð hefði verið staðfest með því að tilgreina orlofsréttindin á launaseðlum þeirra bæði í janúar og febrúar. Helgi Magnús sagði að það hefðu verið mistök að tilgreina orlofsréttindin. Það hefði gerst vegna þess að notað hefði verið eldra launakerfi og ekki hugað að því að breyta upplýsingum.
Einkahlutafélagið R. Sigmundsson var tekið til gjaldþrotaskipta 4. febrúar 2009. Stefnandi lýsti forgangskröfu í búið, samtals að fjárhæð 9.729.446 krónur. Meðal kröfuliða eru laun í 6 mánaða uppsagnarfresti frá 1. janúar til 30. júní 2009 og ótekið orlof, 37 dagar. Samkvæmt kröfuskrá lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu sinni að viðurkenna bæri forgangskröfu að fjárhæð 7.139.039 krónur. Frekari gögn um meðferð kröfunnar við skiptin liggja ekki frammi. Jafnframt hafa verið lögð fram ófullkomin gögn um greiðslu til stefnanda úr Ábyrgðarsjóði launa. Af þeim má ráða að sjóðurinn hefur samþykkt 973.000 króna greiðslu og greitt, að frádregnum atvinnuleysisbótum, opinberum gjöldum og iðgjaldi til lífeyrissjóðs.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að honum hafi verið sagt upp störfum hjá stefnda 27. febrúar 2009. Hafi stefndi í uppsagnarbréfi lofað greiðslu á launum í uppsagnarfresti, en ekki staðið við það.
Stefnandi kveðst vera sölumaður véla- og tæknibúnaðar. Um kaup hans og kjör fari því eftir kjarasamningi SA og Samiðnar. Stefnandi geri kröfu um laun í tveggja mánaða uppsagnarfresti, í samræmi við uppsagnarbréf stefnda og grein 12.1.3.1 í kjarasamningnum.
Stefnandi gerir einnig kröfu um greiðslu áunnins orlofs, sem stefnda hafi borið að gera upp við starfslok hans, sbr. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 og áðurgreindan kjarasamning. Samkvæmt upplýsingum á launaseðlum stefnanda sé um að ræða samtals 41,22 daga. Þessi dagafjöldi samanstandi af áunnu orlofi stefnanda hjá stefnda, sem og hjá fyrri atvinnurekanda, eins og samið hafi verið um við ráðningu stefnanda og staðfest á fundi með öllum starfsmönnum. Staðfestingu þessa samkomulags sé meðal annars að finna á tveimur launaseðlum stefnda.
Krafa um greiðslu áunninnar orlofs- og desemberuppbótar sé í samræmi við ákvæði kjarasamnings og ætti ekki að sæta andmælum frá stefnda.
Stefnandi mótmælti loks nýrri málsástæðu stefnda varðandi kröfulýsingu í þrotabú fyrri vinnuveitanda. Hún sé of seint fram komin. Þá sé um að ræða kröfu á hendur öðrum aðila. Til vara hélt hann því fram að krafan ætti ekki að lækka nema sem næmi greiðslunni er hann fékk frá Ábyrgðarsjóði launa.
Þá mótmælir stefndi fullyrðingum um trúnaðarbrot sem ósönnuðum.
A. Ógreidd laun í einnar viku uppsagnarfresti
Samkvæmt launaseðlum stefnanda hafi föst mánaðarlaun hans verið 562.500 krónur. Hann hafi hins vegar einvörðungu verið í 80% starfshlutfalli og hafi launagreiðslur á mánuði því numið 450.000 krónum. Gerð sé krafa um greiðslu þessara launa í tvo mánuði, samtals 900.000 krónur.
B. Ógreitt áunnið orlof
Áunnið en ógreitt orlof stefnanda við starfslok hafi verið 41,22 dagar. Mánaðarlaun hafi numið 562.500 krónum. Sé því krafist greiðslu orlofs að fjárhæð 1.069.970 krónur (562.500 x 41,22 /21,67).
C. Ógreidd desember- og orlofsuppbót.
Ógreitt sé fyrir áunna orlofs- og desemberuppbót. Desemberuppbót sé samkvæmt kjarasamningi SA og Samiðnar 45.600 krónur. Krafa stefnanda sé fyrir tímabilið janúar - apríl 2009 og nemi 15.200 krónum (51.800 x 4/12). Krafa vegna ógreiddrar orlofsuppbótar sé fyrir sama tímabil. Uppbótin nemi samkvæmt kjarasamningi 25.200 krónum. Krafa stefnanda nemi því 8.400 krónum (25.200 x 4/12 ). Samtals nemi ógreidd orlofs- og desemberuppbót því 23.600 krónum.
Samtals nemur því krafa stefnanda 1.993.570 krónum. Hann segir að kröfurnar hafi átt að greiða er hann lét af störfum og krefst dráttarvaxta frá þeim degi.
Stefnandi vísar til almennra reglna vinnuréttarins um greiðslu verklauna og reglna kröfu-, vinnu- og samningaréttar um efndir samninga og greiðslu fjárskuldbindinga. Hann vísar til 1. gr. laga nr. 55/1980 með síðari breytingum, 7. gr. laga nr. 80/1938, laga nr. 28/1930 og laga nr. 30/1987. Loks vísar hann til kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi segir að stefnandi hafi, eins og aðrir starfsmenn verið ráðinn til starfa tímabundið, til reynslu. Ástæða uppsagnar stefnanda hinn 27. febrúar 2009 hafa verið sú, að komið hefði í ljós, að stefnandi hefði verið farinn að undirbúa stofnun fyrirtækis í samkeppni við stefnda. Hafi þeir feðgar reynt að ná til sín umboðum, sem R. Sigmundsson ehf. hafi haft, og sem Vélasalan ehf. hafi verið í sambandi við um áframhaldandi viðskiptasambönd. Félagið hafi síðar hlotið nafnið Go-on ehf.
Stefndi byggir kröfur sínar á því, að þar sem stefnandi hafi verið farinn að vinna gegn hagsmunum vinnuveitanda síns hefði augljóslega ekki verið stætt á því, að hann gegndi áfram starfi hjá stefnda. Stefndi hafi greitt stefnanda öll áunnin laun fyrir janúar- og febrúarmánuð 2009 og eigi því enga kröfu til frekari greiðslu frá stefnda. Auk þess sem stefnandi eigi óuppgerða viðskiptaskuld við R. Sigmundsson ehf., sem stefndi hafi eignast, hafi þeir feðgar ekki skilað gögnum, sem hafi tilheyrt stefnda. Því sé krafist refsimálskostnaðar, þar sem mál þetta sé tilhæfulaust.
Við endurflutning málsins byggði stefndi á því að krafan væri greidd. Væri eitthvað ógreitt þá yrði að sýkna hann vegna aðildarskorts. Hann segir að stefnandi hafi lýst sömu kröfu í þrotabú RS Rekstrar. Hann hafi þagað um þetta í stefnu. Hann hafi þegið greiðslu frá Ábyrgðarsjóði launa, en stefnt síðan til greiðslu sömu kröfu. Með þessu háttalagi sé brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.
Stefndi mótmælir því að hann hafi tekið að sér greiðslu skulda R. Sigmundssonar ehf. eða launasamninga. Hann beri enga ábyrgð á kröfum stefnanda vegna vinnu hans hjá R. Sigmundssyni ehf.
Stefndi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 131. gr.
Niðurstaða
Mál þetta hefur þegar verið dæmt að efni til. Ekki verður unnt að meta á ný nein þau ágreiningsatriði sem leyst var úr í fyrri dómi, nema að því leyti sem ný gögn og málsástæður geta haggað fyrri niðurstöðum.
Hæstiréttur heimilaði endurupptöku málsins samkvæmt reglum XXVI. kafla laga nr. 91/1991. Nú liggur fyrir, sem ekki var upplýst við fyrri meðferð málsins, að stefnandi lýsti kröfu í þrotabú RS Rekstrar og fékk hana viðurkennda. Byggir stefndi nú á því að krafan sé greidd, krafist hafi verið greiðslu úr þrotabúinu og krafan verið viðurkennd. Stefnandi geti ekki haldið kröfunni uppi á hendur tveimur aðilum. Þessi málsástæða er ekki of seint fram komin. Ekki var upplýst við fyrri meðferð málsins að stefnandi hefði lýst kröfu í þrotabú RS Rekstrar og stefnandi hefur ekki fullyrt að stefnda hafi verið um það kunnugt. Verður því að leysa úr þessari nýju málsástæðu stefnda.
Í hinum fyrri dómi var ekki fallist á að sannað hefði verið að stefnandi eða synir hans hafi verið farnir að vinna gegn hagsmunum stefnanda. Frekari sönnunargögn hafa ekki verið færð fram um þetta atriði og verður því enn að hafna þessari málsástæðu stefnda.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi tekið að sér greiðslu allra skulda R. Sigmundssonar ehf. við hann. Þessu hafi verið lofað á starfsmannafundi 6. janúar 2009. Þegar samið er um slíka skuldskeytingu felst í henni að nýr skuldari tekur að öllu leyti við skuldum fyrri skuldara, sem með því losnar úr ábyrgð. Að búa mál sitt svona úr garði er ósamrýmanlegt því að halda kröfunni uppi á hendur fyrri skuldara, eins og stefnandi hefur gert með því að lýsa kröfunni í þrotabúið og krefjast greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa. Verður því að sýkna stefnda af öllum þeim kröfuliðum sem stefnandi hélt uppi á hendur þrotabúinu.
Í fyrri dómi var komist að þeirri niðurstöðu að í uppsagnarbréfinu hafi stefnanda verið lofað greiðslu launa í uppsagnarfresti. Krefst hann launa í tveggja mánaða uppsagnarfresti. Þessi krafa er sögð byggð á starfstíma stefnanda bæði hjá stefnda og fyrri vinnuveitanda hans. Hann greinir hér ekki á milli. Verður því að hafna þessum kröfulið.
Í kröfulýsingu í þrotabúið krafðist stefnandi greiðslu á óteknu orlofi í 37 daga. Verður að lækka kröfu hans á hendur stefnda sem því nemur. Eftir stendur þá krafa um orlof í 4,22 daga, sem ekki hefur verið hnekkt. Verður að reikna kröfuna eftir mánaðarlaunum stefnanda hjá stefnda, sem voru 450.000 krónur. Nemur orlofskrafan því 87.633 krónum (450.000 x 4,22/21,67).
Krafa um desember- og orlofsuppbót, samtals að fjárhæð 23.600 krónur, er sögð vegna tímabilsins janúar til apríl 2009. Þessi krafa var ekki höfð uppi á hendur þrotabúinu og stefndi hefur ekki fært fram frekari mótmæli gegn henni. Verður hún því dæmd á ný.
Í fyrri dómi var talið að ekki lægju frammi nein gögn um meinta óuppgerða viðskiptaskuld stefnanda. Ekki hefur verið bætt úr því og kemur þetta því ekki frekar til skoðunar. Ágreiningur aðila um skil á tölvum og eyðingu gagna er óljós og ekki tengdur við ákveðnar kröfur um úrslit málsins. Er ekki forsenda til að fjalla um þetta atriði.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 111.233 krónur (87.633 + 23.600). Vextir verða eins og hér stendur á dæmdir frá dómsuppsögudegi, 16. mars 2012.
Kröfur stefnanda eru teknar til greina að litlum hluta, en meginhluta þeirra er hafnað. Rétt hefði verið af honum að segja í stefnu frá kröfulýsingu sinni í þrotabú RS Rekstrar. Ekki er samt tilefni til að beita reglu 131. gr. laga nr. 91/1991. Er rétt að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Vélasalan ehf., greiði stefnanda, Ármanni Rafni Úlfarssyni, 111.233 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. mars 2012 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.