Hæstiréttur íslands
Mál nr. 274/2001
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Bókhald
- Ölvunarakstur
- Skilorð
- Sekt
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2002. |
|
Nr. 274/2001. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Sturlu Snæbirni Þórðarsyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Bókhald. Ölvunarakstur. Skilorð. Sekt. Hegningarauki.
S var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um bókhald, með því að hafa komið sér undan því að skila virðisaukaskatti í ríkissjóð samtals að fjárhæð 1.104.998 kr. og að hafa látið undir höfuð leggjast að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn. Þá var S ennfremur sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af ákæruvaldsins hálfu að þess væri ekki krafist að refsað yrði samkvæmt 262. gr. laga nr. 19/1940 fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt. Að þessu virtu og með hliðsjón af atvikum málsins var S ekki dæmdur til að sæta fangelsi fyrir brot gegn þeim lögum, en gert að greiða 1.800.000 kr. í sekt. Brot S gegn bókhaldslögum voru talin stórfelld og engar málsbætur voru í ljós leiddar. Hafði hann með þessari háttsemi sinni unnið til fangelsisrefsingar. Þá var S jafnframt gert að sæta fangelsi fyrir ítrekaðan ölvunarakstur. Við ákvörðun refsingar var litið til 78. gr. laga nr. 19/1940 og S samkvæmt því gert að sæta fangelsi í 7 mánuði. Fullnustu 4 mánaða af refsingunni var þó frestað skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að sakfelling ákærða og ævilöng svipting ökuréttar verði staðfest og refsing hans jafnframt þyngd.
Ákærði krefst sýknu af sakargiftum, er lúta að virðisaukaskatti af sex nánar tilgreindum sölureikningum, sem I. kafli ákæru 15. mars 2001 tekur til. Hann krefst jafnframt sýknu af sakargiftum samkvæmt II. kafla sömu ákæru og ákæru 2. apríl 2001. Að öðru leyti krefst hann þess að refsing verði milduð og dæmd sem hegningarauki við dóma frá 10. júlí 1995, 4. júní 1996 og 14. febrúar 1997. Hún verði jafnframt ákveðin sem sekt og skilorðsbundin að öllu leyti. Verði sakfellt samkvæmt ákæru 2. apríl 2001 krefst hann þess að svipting ökuréttar verði tímabundin og að upphaf hennar miðist þá við 10. ágúst 2000.
I.
Samkvæmt I. kafla ákæru 15. mars 2001 er ákærða gefið að sök að hafa á árunum 1994, 1995 og 1996 brotið gegn lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með áorðnum breytingum í sjálfstæðum atvinnurekstri sínum, eins og nánar greinir í ákæru. Eru brotin tengd meðferð ákærða á 48 sölureikningum og hafi hann þannig komið sér undan því að skila virðisaukaskatti í ríkissjóð samtals að fjárhæð 1.104.998 krónur. Ákærði hefur gengist við sakargiftum samkvæmt þessum kafla ákærunnar að undanskildum sex þessarra reikninga, sem hann kannast ekki við að hafa gefið út eða tekið við greiðslu fyrir, en virðisaukaskattur samkvæmt þeim nam samtals 95.354 krónum. Með vísan til forsenda héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna allra þeirra sölureikninga, sem I. kafli ákærunnar tekur til. Verður jafnframt staðfest sú niðurstaða að um framhaldsbrot hafi verið að ræða og að brotin séu ófyrnd.
Í II. kafla sömu ákæru er ákærða gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn í samræmi við það sem lög áskilja vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar á árunum 1994, 1995 og 1996. Giltu í upphafi þessa tímabils lög nr. 51/1968 um bókhald, en samkvæmt þeim var ákærða skylt að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn sín. Lög nr. 145/1994 um bókhald leystu eldri lög um sama efni af hólmi 1. janúar 1995, en sambærileg skylda hvíldi á ákærða samkvæmt þeim og eftir eldri lögum. Refsiákvæðum yngri laganna var breytt með lögum nr. 37/1995, sem tóku gildi 9. mars 1995, sbr. II. kafla hér á eftir. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu í þessum þætti málsins staðfest með vísan til forsendna hans, en þau brot ákærða sem hér um ræðir verða virt sem framhaldsbrot og eru þau ófyrnd.
Með ákæru 2. apríl 2001 var ákærða gefin að sök sú háttsemi að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti 10. ágúst 2000. Ákærði neitar sök. Með hinum áfrýjaða dómi var hann sakfelldur fyrir ölvunarakstur, en sýknaður af sakargiftum um akstur sviptur ökurétti. Ákæruvaldið unir héraðsdómi um síðarnefnda þátt ákærunnar. Að því er varðar ætlaðan ölvunarakstur ber ákærði fyrir sig að lögreglumenn hafi ekki séð áfengisáhrif á honum þegar hann var stöðvaður á Ólafsfjarðarvegi í umrætt sinn og að meðferð á blóðsýni, sem tekið var úr honum eftir það, hafi verið áfátt eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Af hans hálfu hafa jafnframt verið lagðar fyrir Hæstarétt ljósmyndir, sem sýna kæli á lögreglustöðinni á Akureyri þar sem blóðsýni eru geymd, og aðstöðu á skrifstofu þar sem lyklar að geymslukassa í kælinum eru varðveittir. Er í héraðsdómi rakinn framburður vitna, sem gátu borið um þennan þátt málavaxta. Eru ekki í ljós leiddir þeir annmarkar á vörslum og meðferð sýnisins sem nægi til að draga megi í efa að rétt niðurstaða um alkóhólmagn í blóði ákærða í umrætt sinn hafi fengist við greiningu á því. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sakfelling ákærða fyrir akstur undir áhrifum áfengis 10. ágúst 2000.
II.
Brot ákærða á lögum um virðisaukaskatt stóðu yfir frá miðju ári 1994 til ársloka 1996 og varða þau við 1. mgr. sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákvæðinu var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995 um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga, sem hertu mjög refsingar við brotum, meðal annars á lögum um virðisaukaskatt. Eiga lögin svo breytt við um virðisaukaskattsskil ákærða allt árið 1995 og árið 1996 og nam fjárhæð hins vangreidda skatts á því tímabili 823.249 krónum. Þá var 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 jafnframt breytt með lögum nr. 39/1995, en samkvæmt ákvæðinu svo breyttu skal sá, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot á 1. eða 6. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt sæta fangelsi allt að 6 árum. Telst verknaður meiri háttar brot meðal annars ef það lýtur að verulegum fjárhæðum eða ef sá, sem dæma skal til refsingar, hefur áður verið dæmdur fyrir sams konar brot. Tók þessi lagabreyting gildi 1. júlí 1995 og nam virðisaukaskattur, sem ákærði stóð ekki skil á eftir það, 700.063 krónum. Er ekki uppfyllt það skilyrði laganna að brot lúti að verulegum fjárhæðum til að verknaður teljist vera meiri háttar brot. Þá var ákærði með dómi Héraðsdóms Suðurlands 4. júní 1996 dæmdur til refsingar fyrir ýmis brot, þar á meðal gegn 1. sbr. 6. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt. Hluti brota hans á lögunum, sem hann er nú sakfelldur fyrir, var framinn á síðari hluta árs 1996 og þar með eftir að hann var dæmdur fyrir sams konar brot, en það er eitt þeirra atriða sem kemur til álita við mat á því hvort um meiri háttar brot sé að ræða. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því hins vegar lýst yfir af hálfu ákæruvalds að um svo lága fjárhæð væri að ræða á nefndu tímabili að þess væri ekki krafist að refsað yrði samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga af þessari ástæðu. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður ákærði ekki dæmdur til að sæta fangelsi fyrir brot sem I. kafli ákæru 15. mars 2001 tekur til. Verður honum gert að greiða sekt í ríkissjóð fyrir þessi brot, sem er hæfilega ákveðin í héraðsdómi sem og vararefsing, verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en við ákvörðun vararefsingar er litið til sömu atriða og lögð voru til grundvallar dómi Hæstaréttar 1999, bls. 544 í dómasafni réttarins það ár.
Með 1. gr. laga nr. 37/1995 var meðal annars breytt 36. og 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Samkvæmt þeim ákvæðum svo breyttum varða brot á 37. gr. fangelsi allt að sex árum samkvæmt 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga eða fésektum, ef málsbætur eru miklar. Telst það ætíð meiri háttar brot gegn lögunum ef bókhaldsskyldur maður færir ekki tilskilið bókhald fyrir sjálfan sig eða lögaðila þannig að hann uppfylli ekki kröfur laganna í meginatriðum og ef hann varðveitir ekki fylgiskjöl eða önnur bókhaldsgögn. Brot ákærða á lögunum eftir 1. júlí 1995 voru stórfelld og engar málsbætur eru í ljós leiddar. Hefur ákærði með háttsemi sinni unnið til fangelsisrefsingar.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur í fangelsi í einn mánuð með dómi Héraðsdóms Suðurlands 14. febrúar 1997 fyrir ölvunarakstur. Fyrir sama dómstóli hafði hann áður verið dæmdur til að greiða sekt 10. júlí 1995 fyrir sams konar brot og með sátt við sýslumanninn á Selfossi gekkst hann sömuleiðis undir sektargerð 9. nóvember 1992 fyrir ölvunarakstur. Að þessu virtu verður ákærða gert að sæta fangelsi fyrir ölvunarakstur, sem hann er nú sakfelldur fyrir, en refsing hans fyrir það brot og brot gegn lögum um bókhald þykir hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Er þá jafnframt litið til 78. gr. almennra hegningarlaga, en refsing hans er að hluta ákveðin sem hegningarauki við þá dóma, sem vísað er til í kröfugerð ákærða. Þykir mega fresta fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni ef ákærði heldur almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955, í þrjú ár frá uppsögu þessa dóms.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og sviptingu ökuréttar verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sturla Snæbjörn Þórðarson, sæti fangelsi í sjö mánuði. Fullnustu fjögurra mánaða af þeirri refsingu skal frestað og hún falla niður að liðum þremur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði í ríkissjóð 1.800.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í tvo mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og sviptingu ökuréttar skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 12. júní 2001.
I.
Mál þetta var þingfest var hinn 10. apríl sl. en tekið til dóms hinn 8. þessa mánaðar að loknum endurflutningi. Máið er höfðað á hendur ákærða Sturlu Snæbirni Þórðarsyni, kt. 181154-4549, Kambahrauni 22, Hveragerði, með tveimur ákærum, annarri dagsettri 15. mars sl., en hinni síðari dagsettri 2. apríl sl. Í fyrri ákærunni er ákærði ákærður „...
I.Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Ákærða er gefið að sök að hafa, í sjálfstæðum atvinnurekstri sínum, brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa látið undir höfuð leggjast að skila virðisaukaskattsskýrslum, vegna uppgjörstímabilanna júlí - desember 1994, janúar - desember 1995 og janúar - desember 1996 og að hafa með þessu komið sér undan að standa Sýslumanninum á Selfossi skil á innheimtum virðisaukaskatti, í samræmi við það sem lög áskilja, sem ákærði innheimti á því tímabili, samkvæmt 48 sölureikningum, samtals að fjárhæð kr. 1.104.998 og sundurliðast sem hér greinir;
|
Uppgjörstímabil: |
Vantalin skattskyld velta: |
Vangoldinn virðisaukaskattur: |
|
Árið 1994 |
|
|
|
Júlí - ágúst |
kr. 388.300 |
kr. 95.133 |
|
September - október |
kr. 341.900 |
kr. 83.765 |
|
Nóvember - desember |
kr. 419.800 |
kr. 102.851 |
|
|
1.150.000 |
281.749 |
|
|
|
|
Árið 1995
|
Janúar - febrúar |
kr. 107.400 |
kr. 26.313 |
|
Mars - apríl |
kr. 395.400 |
kr. 96.873 |
|
Maí - júní |
kr. 118.400 |
kr. 29.008 |
|
Júlí - ágúst |
kr. 483.200 |
kr. 118.384 |
|
September - október |
kr. 260.800 |
kr. 63.896 |
|
Nóvember - desember |
kr. 435.600 |
kr. 106.722 |
|
|
kr. 1.800.800 |
kr. 441.196 |
Árið 1996
|
Janúar - febrúar |
kr. 271.200 |
kr. 66.444 |
|
Mars - apríl |
kr. 128.600 |
kr. 31.507 |
|
Maí - júní |
kr. 260.800 |
kr. 63.896 |
|
Júlí - ágúst |
kr. 183.200 |
kr. 44.884 |
|
September - október |
kr. 466.400 |
kr. 114.268 |
|
Nóvember - desember |
kr. 249.200 |
kr. 61.054 |
|
|
kr. 1.559.400 |
kr. 382.053 |
|
|
|
|
|
Samtals |
kr. 4.510.200 |
kr. 1.104.998 |
|
|
|
|
Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sbr. nú. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
II. Fyrir bókhaldsbrot.
Ákærða er gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að færa bókhald og varðveita bókhaldsgögn, í samræmi við það sem lög áskilja, vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar á árunum 1994, 1995 og 1996.
Telst þetta varða við 25. gr. laga nr. 51, 1968, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sjá nú 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145, 1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”
Með ákæru dagsettri 2. apríl 2001 er ákærði ákærður „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, skömmu fyrir hádegi fimmtudaginn 10. ágúst 2000, ekið bifreiðinni NV 575 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, frá Árskógssandi áleiðis til Akureyrar, en lögregla stöðvaði akstur ákærða á Ólafsfjarðarvegi við Freyjulund.
Telst brot þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 44, 1993, lög nr. 57, 1997 og lög nr. 23, 1998.”
Þá krefst ákæruvaldið þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærða eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:
1. Varðandi ákæru dagsetta 15. mars 2001. Þess er krafist að ákærði verði sýknaður að hluta af þeirri háttsemi sem II. kafli ákæru lýtur að, þ. e. hvað varðar þá sölureikninga sem ákærði neitaði sök í framburði sínum fyrir dómi. Þá er þess krafist að ákærði verði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í II. kafla ákærunnar. Er þess krafist að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing vegna þeirrar háttsemi sem hann viðurkennir sem rétta samkvæmt ákærunni, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu skilorðsbundinnar refsingar sem lög heimila.
2. Varðandi ákæru dagsetta 2. apríl 2001. Þess krafist að ákærði verði sýknaður af ákærunni, en til vara að háttsemi ákærða verði einungis færð undir 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Kom til sviptingar ökuréttar er þess krafist að hún verði ákveðin tímabundin og ekki lengur en í tvö ár frá 10. ágúst 2000 að telja.
Þá er þess krafist af hálfu ákærða að sakarkostnaður verði að öllu leyti eða stærstum hluta felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda að mati dómsins.
II. Málavextir.
Ákæra, dagsett 15. mars 2001.
Með bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins til Ríkislögreglustjóra hinn 26. júlí 2000, vísaði hann málinu til opinberrar rannsóknar. Fram kemur í gögnum málsins að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst formlega þann 31. janúar 1997 og lauk með skýrslu, dagsettri þann 3. október 1997. Rekstur ákærða það tímabil sem til rannsóknar var mun hafa falist í því að hann starfaði sem sjálfstæður atvinnurekandi við vörubílaakstur, bílaviðgerðir og garðvinnu, auk ýmis konar annarra starfa sem til féllu. Bú ákærða hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta hinn 19. júlí 1991 og lauk skiptum hinn 9. janúar 1992 með vísan til 120. gr. þágildandi gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að rannsókn hans hafi byggst á eftirfarandi gögnum og upplýsingum:
1. Upplýsingum frá ákærða í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra hinn 24. júní 1997.
2. Ljósritum af útgefnum sölureikningum ákærða sem skattrannsóknarstjóri aflaði hjá viðskiptavinum hans.
3. Upplýsingum skattyfirvalda um skil skattaðila á skattframtölum, virðisaukaskattskýrslum, skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og vegna tryggingargjalds.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 15. febrúar 2001.
Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt ákæru rétta að öðru leyti en því að hann viðurkennir ekki að hafa gefið út eða móttekið greiðslur vegna 6 af þeim 48 sölureikningum sem ákæra er byggð á. Um er að ræða eftirtalda reikninga:
1. Reikningur nr. 17, dagsettur 29. febrúar 1996 á hendur J.S.K. ehf., vegna vinnu í febrúar 1996, 157 klst. á 800 krónur fyrir hverja klst., samtals 125.600 krónur, virðisaukaskattur 30.772 krónur, eða alls samtals 156.372 krónur.
2. Reikningur nr. 24, dagsettur 31. mars 1996 á hendur J.S.K. ehf., vegna vinnu í mars 1996, 67 klst. á 800 krónur fyrir hverja klst., samtals 53.600, virðisaukaskattur 13.132 krónur, eða alls samtals 66.732 krónur.
3. Reikningur nr. 40, ódagsettur, en sagður útgefinn á árinu 1996 á hendur Hótel Örk, vegna vinnu í nóvember, 15.000 krónur, virðisaukaskattur 3.675 krónur, eða alls samtals 18.675 krónur.
4. Reikningur nr. 42, hvorki dagsettur né ársettur, á hendur Hótel Örk, sagður vegna vinnu í september, 15.000 krónur, virðisaukaskattur 3.675 krónur, eða alls samtals 18.675 krónur.
5. Reikningur nr. 120, dagsettur 1. október 1995, á hendur Hótel Örk, vegna vinnu í apríl-september, 90.000 krónur, virðisaukaskattur 22.050, eða alls samtals 112.050 krónur.
6. Reikningur nr. 192, dagsettur 16. mars 1995, á hendur Hótel Örk, vegna vinnu í október til mars, samtals 90.000 krónur, virðisaukaskattur 22.050 krónur, eða alls samtals 112.050 krónur.
Ákærði kvaðst vefengja ofangreinda tvo reikninga nr. 17 og 24 á hendur J.S.K. ehf. á þeim grunni að þeir séu með allt öðrum hætti gerðir en aðrir reikningar sem liggja frammi í gögnum málsins. Reikningarnir séu að vísu á sams konar reikningsformi og hann hafi notað, en munurinn felist í því að reikningarnir séu vélritaðir, en hann hafi aldrei átt ritvél. Auk þess sé ekki kvittað fyrir um greiðslu samkvæmt reikningunum. Ákærði kvað vinnu sína fyrir J.S.K. ehf. hafa falist í akstri á vikri og viðgerðum á vörubílum. Uppgjör hafi ekki verið með reglulegum hætti og í dag séu deilur milli þeirra um uppgjör. Við skýrslugjöf hjá lögreglu mótmælti ákærði einnig þessum tveimur sölureikningum sem réttum.
Ákærði kvaðst vefengja áðurnefnda fjóra reikninga nr. 40, 42, 120 og 192 á hendur Hótel Örk, þar sem ekki sé kvittað á þá um greiðslu samkvæmt þeim. Ákærði sagði viðskipti hans við Hótel Örk hafa falist í því að starfsmaður á vegum hans hafi hirt um blóm innan húss í hótelinu. Ákærði vefengdi hins vegar ekki þessa sölureikninga við skýrslugjöf hjá lögreglu.
Ákærði sagði að vegna fjárhagsörðugleika hafi hann ekki staðið skil á virðisaukaskatti þau tímabil sem um ræðir í ákæru. Þá sé ástæðunnar einnig að leita í bágu heilsufari sínu, en hinn 14. mars 1996 hafi hann fengið mjög alvarlegt hjartaáfall og síðan þá hafi hann verið á miklum lyfjum. Af þessum sökum hafi hann ekki haft getu til að halda utan um fjármál sín og bókhald. Þá hafi hann einnig lent í erfiðum hjónaskilnaði og hafi sá skilnaður haft sitt að segja í þessu sambandi. Hann sé nú bæði afar gleyminn og þunglyndur og megi það rekja til hjartaáfallsins. Þá hafi vinna hjá honum orðið stopul af heilsufarsástæðum. Ákærði kvaðst telja að hann hafi fært bókhald vegna áranna 1994, 1995 og jafnvel 1996, en hafa í æðiskasti kveikt í bókhaldsgögnunum. Ekki gat ákærði sagt til um hvenær hann hafi kveikt í bókhaldinu og á honum var að skilja að hann hafi þá einnig brennt bókhald vegna Dalfells hf. þar sem hann vann sem framkvæmdastjóri. Þó kunni að vera að hann hafi ekki kveikt í bókhaldinu vegna ársins 1996. Aðspurður um hvers vegna hann hafi hjá lögreglu sagt að hann hafi ekki haldið bókhald greint tímabil, þá sagði ákærði ástæðuna líklega vera minnisleysi sitt. Er ákærða var bent á að í gögnum málsins væru skattframtöl frá honum er taka til umrædds tímabils, þá sagði ákærði það líklegt að þau framtöl hafi verið unnin eftir einhverjum bókhaldsgögnum, en ekki þora að fullyrða hvaða gögn hafi legið þar til grundvallar.
Vitninu Jóni Sigurbergi Kortssyni einum eiganda og stjórnarformanni J.S.K. ehf. á því tímabili sem um ræðir, en nú framkvæmdastjóra fyrirtækisins, voru fyrir dómi sýndir tveir framangreindir reikningar á hendur fyrirtækinu, þ. e. reikningar nr. 17 og 24. Hann kvaðst kannast við að reikningarnir væru úr bókhaldi J.S.K. ehf. og þekkja bókhaldsstimpil fyrirtækisins á reikningunum. Vitnið sagði ákærða ætíð hafa komið sjálfur með útfyllta reikninga til greiðslu, en vinna ákærða í þágu J.S.K. ehf. hafi verið viðgerðir á vörubílum og vinnuvélum. Vitnið sagði ákærða hafa venjulega fengið greitt vikulega, en komið með reikning fyrir vinnu sinni í lok hvers mánaðar. Vitnið sagðist vita til þess að ekki hefði ætíð verið kvittað á reikninga sem ákærði framvísaði, en hins vegar hafi ákærði að öllum líkindum fengið kvittun fyrir hinum vikulegu greiðslum.
Undir vitnið Sigurð Hrafn Tryggvason hótelstjóra Hótel Arkar á árunum 1995 og 1996 voru bornir framangreindir reikningar nr. 40, 42, 120 og 192, en hann kvaðst ekkert geta staðfest að hótelið hafi innt af hendi greiðslu til ákærða samkvæmt þeim. Hins vegar kvaðst vitnið geta sagt að skráning talna á hornum reikninganna væri með sambærilegum hætti og starfsfólk hans geri við móttöku reikninga. Vitnið kvaðst þó ekkert geta sagt til um reikningana, en það væri ekki í hans verkahring að taka á móti reikningum sem þessum og annast greiðslu á þeim, heldur væru slík störf falin gjaldkerum hótelsins.
Ákæra, dagsett 2. apríl 2001.
Klukkan 11:35, fimmtudaginn 10. ágúst 2000 barst lögreglunni á Akureyri tilkynning frá lögreglunni á Dalvík um að líklega væri ölvaður maður að aka bifreið frá Árskógssandi til Akureyrar. Lögreglumennirnir Hafþór Einarsson og Sigurður Unnsteinn Sigurðsson óku frá Akureyri áleiðis til Árskógssands. Lögðu þeir lögreglubifreiðinni við Freyjulund og í framhaldi af því stöðvuðu þeir allar bifreiðar er óku þar um á leið til Akureyrar. Skömmu síðar stöðvuðu þeir ákærða og höfðu tal af honum. Ákærði framvísaði ökuskírteini sem hann hafði meðferðis og var það skírteini útgefið 9. maí 1988. Var ákærða gert að blása í öndunarprófsmæli, sem samkvæmt frumskýrslu lögreglu sýndi 1,85 pro mill alkóhóls. Í framhaldi af því var ákærði handtekinn og færður á lögreglustöðina á Akureyri þar sem vakthafandi heilsugæslulæknir, Birgir Andri Briem, tók blóðsýni úr ákærða. Í gögnum málsins er niðurstaða rannsóknar á blóðsýni sem sýnir 2,30 pro mill alkóhóls í blóði að teknu tilliti til skekkjumarka.
Ákærði hefur alfarið neitað sök. Hann kvaðst að vísu hafa ekið bifreið greint sinn en hann hafi þá ekki verið undir áhrifum áfengis og hann hafi einnig verið með ökuréttindi. Ákærði segir það vissulega rétt að hann hafi með dómi hinn 14. febrúar 1997 verið sviptur ökurétti ævilangt. Hins vegar hafi hann fengið nýtt ökuskírteini 13. október 1998 og hafi hann með dómi hinn 30. júlí 1999 verið sýknaður af akstri sviptur ökurétti á þeim grundvelli að hann hefði ökurétt þrátt fyrir dóminn frá 14. febrúar 1997. Ákærði kvaðst því telja að hann hafi haft ökurétt frá 13. október 1998 til 11. ágúst 2000 er lögreglan á Akureyri handtók hann og tók af honum það ökuskírteini er hann framvísaði. Þá vefengdi ákærði að framangreindar niðurstöður rannsóknar á blóðsýni beri að leggja til grundvallar þar sem líkur séu á að sýni það sem rannsakað hafi verið sé ekki frá honum. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi nóttina fyrir akstur, en þeirri drykkju hafi lokið um þrjú- eða fjögurleytið um nóttina. Ákærði kvaðst hins vegar ekki muna hversu mikið af áfengi hann hafi drukkið þá um nóttina.
Áðurnefndur Hafþór Einarsson kvaðst hafa starfað sem afleysingalögreglumaður í lögreglunni á Akureyri þegar atvik gerðust. Vitnið sagði lögreglu hafa borist tilkynning á þá lund að fólk sem komið hefði til Árskógsstrandar úr ferjunni frá Hrísey hefði verið að drekka áfengi í ferjunni og ökumaður einnar bifreiðarinnar væri ölvaður. Vitnið kvað þá Sigurð Unnstein Sigurðsson lögreglumann því hafa við Freyjulund stöðvað allar bifreiðar er komu frá Árskógssandi og athugað ástand ökumanna. Þeir hefðu ekki verið búnir að stöðva margar bifreiðar er ákærði hefði verið stöðvaður. Sigurður Unnsteinn hefði gefið sig á tal við ákærða og þeir fært ákærða á lögreglustöðina á Akureyri eftir að öndunarmælir hafði sýnt að ákærði var undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ökulag bifreiðar ákærða hafi verið óeðlilegt. Vitnið sagðist heldur ekki hafa séð ölvunareinkenni á ákærða, en fundið af honum áfengislykt. Vitnið kvað þá ekki hafa handtekið aðra en ákærða greint sinn vegna ölvunar við akstur.
Vitnið Sigurður Unnsteinn Sigurðsson aðstoðarvarðstjóri lýsti atvikum á sömu lund og vitnið Hafþór Einarsson. Vitnið kvaðst strax hafa fundið áfengisþef er hann hafði tal af ákærða þar sem hann sat í ökumannssæti bifreiðar sinnar og því hafi ákærði verið látinn blása í áfengismæli og í framhaldi af því fluttur á lögreglustöð þar sem hann hafi gefið blóðsýni. Um önnur áfengiseinkenni á ákærða treysti vitnið sér ekki til að fullyrða en staðfesti lögregluskýrslur um það atriði. Um meðferð á blóðsýnum sagði vitnið að þegar læknir hafi tekið sýni þá tæki varðstjóri, í þessu tilviki vitnið, við sýninu og færi með það í læsta geymslu í kæliskáp í kjallara hússins. Síðan sjái rannsóknarlögreglumaður um að senda sýnið til Reykjavíkur til rannsóknar, en rannsóknarlögreglumaðurinn innsigli vanalega sýnið.
Vitnið Kristín Magnúsdóttir lyfjafræðingur hjá Rannsóknarstofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti framlagt vottorð sitt um niðurstöður rannsókna á sýni því sem lagt er til grundvallar ákæru. Um meðferð sýna frá lögreglunni á Akureyri sagði vitnið að lögregla sendi sýni til Reykjavíkur með flugvél og lögreglan í Reykjavík sæki sýnin á Reykjavíkurflugvöll og komi með þau á rannsóknarstofuna. Sýnin væru sett í hlífðarglös og glösin væru yfirleitt innsigluð. Auk þess væri hvert blóðsýnaglas merkt með sérstökum miða sem áfastur væri hverju glasi. Þá væru glösin og beiðnirnar settar með í stórt umslag, sem væri innsiglað sérstaklega með vaxinnsigli. Hins vegar væru oft sýni frá nokkrum málum í hverju umslagi. Starfsmenn rannsóknarstofunnar gengju úr skugga um hvort innsigli væri órofið áður en umbúðir væru opnaðar. Síðan væri númer hvers sýnis fært í bækur og númerin á blóðsýnaglösunum samlesin við meðfylgjandi beiðnir. Sýnin væru geymd í læstum ísskáp fram að mælingu. Með sýni því sem hér um ræðir hafi borist sex önnur sýni, sem fengið hafi númerin 86 til 91. Niðurstöður mælinga á álkóhóli í sýnunum hafi verið 2,68 pro mill, 1,48 pro mill, 1,42 pro mill, 1,73 pro mill, 2,85 pro mill og 1,03 pro mill. Staðfesti vitnið að niðurstaða rannsókna á sýni nr. 85, þ. e. því sýni sem um ræðir í þessu máli, hafi verið 2,30 pro mill að teknu tilliti til 10% skekkjumarka. Vitnið sagði að starfsmenn rannsóknarstofunnar legðu yfirleitt ekki mat á niðurstöður úr öndunarmælum lögreglunnar, en ekki hafi verið gerður samanburður á þeim öndunarmæli sem hér um ræðir (SD2 mæling) og blóðmælingum. Þá sagði vitnið að það þekktist að menn með 2,30 pro mill alkóhóls í blóði sýndu lítil sem engin ölvunareinkenni.
III. Niðurstöður.
Ákæra, dagsett 15. mars 2001.
I. kafli ákærunnar.
Eins og að framan er rakið hefur ákærði mótmælt því að hafa gert sex af þeim sölureikningum sem liggja til grundvallar I. kafla ákærunnar og mótmælir hann einnig að hafa fengið greiðslu samkvæmt þeim. Þau tvö vitni sem skýrslur gáfu fyrir dóminum um þessa sölureikninga gáfu ekki óyggjandi upplýsingar um þessa reikninga. Ekki var kvittað á um móttöku greiðslu eins og eðlilegt hefði verið og raunar gert hefur verið við alla þá reikninga sem mál þetta fjallar um utan einn, sem er reikningur nr. 26, ódagsettur frá 1996 vegna vinnu í maí, en umræddum reikningi hefur ákærði ekki mótmælt. Hins vegar vefengdi ákærði hjá lögreglu ekki þá fjóra umdeildu reikninga á hendur Hótel Örk, en hjá lögreglu voru reikningarnir bornir undir ákærða að viðstöddum verjanda hans. Auk þess hefur ákærði viðurkennt að hinir umdeildu tveir reikningar sem stílaðir eru á J.S.K. ehf. séu gerðir á hans reikningsform. Ákærði hefur rökstutt mótmæli sín við síðastnefndum tveimur reikningum útgefnum á hendur J.S.K. ehf. m. a. á þeim grunni að reikningarnir séu vélritaðir og þess vegna geti þeir ekki verið frá honum komnir þar sem hann hafi aldrei átt ritvél. Hins vegar eru í gögnum málsins auk hinna umdeildu reikninga til J.S.K ehf. tveir vélritaðir reikningar, sem stílaðir er á það fyrirtæki og ákærði hefur ekki mótmælt, þ.e. reikningur nr. 125, dags. 31. desember 1995 og reikningur nr. 156, dags. 31. janúar 1996. Þá ber að líta til þess að ákærði skilaði inn sérstakri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna ársins 1996, sem hann hefur staðfest fyrir dómi. Verður ekki annað séð en að í þessari leiðréttingarskýrslu séu teknir með hinir umdeildu tveir reikningar á hendur J.S.K. ehf. og einnig tveir af fjórum umdeildum reikningum á hendur Hótel Örk, þ. e. hinir ódagsettu reikningar nr. 40 og 42.
Eins og að framan er rakið er framburður ákærða um málsatvik misvísandi. Þá eru lýsingar hans á afdrifum bókhaldsgagna óljósar og framburður hans reikull, þar sem hann ýmist kveðst ekki hafa haldið bókhald, eða segist hafa brennt megnið af bókhaldinu, án þess þó að geta tilgreint nánar hvaða hluta af bókhaldinu hann brenndi. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að það stóð ákærða næst að gefa frekari upplýsingar um hina umdeildu reikninga. Það hefur ákærði ekki gert. Er fram komið í málinu að afrit þessara reikninga eru fengin úr bókhaldi þessara tveggja viðskiptamanna ákærða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýtur að þessum sex reikningum.
Hvað önnur atriði þessa kafla ákærunnar varðar þá telst sannað með játningu ákærða, sem samræmist gögnum málsins, að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.
Háttsemi þessi telst brotaeind, þ. e. framhaldsbrot, en um er að ræða áframhaldandi röð samkynja og eðlislíkrar háttsemi sem að auki beinist að fjárhagslegum verðmætum. Miðast upphaf fyrningarfrests við það er brotastarfsemi ákærða lauk og er ekki fallist á það með ákærða að brot hans sé að einhverju leyti fyrnt.
Við mat á því hvort háttsemi ákærða teljist meiri háttar og réttilega heimfærð til refsiákvæða verður að líta til þess að ákærði var hinn 4. júní 1996 dæmdur í sjö mánaða fangelsi, þar af fjóra mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með því að hafa sem framkvæmdastjóri Dalfells hf. rangfært við skattskil og vantalið virðisaukaskattskylda veltu Dalfells hf. árin 1992 og 1993, fyrir brot gegn 20. gr. og 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 12. gr. laga nr. 90/1987, með því að standa eigi skil á staðgreiðslu starfmanna Dalfells hf. á árinu 1992, fyrir skjalafals með því að breyta tölum og dagsetningum á efniskaupalistum og fyrir fjárdrátt með því að hafa haldið eftir hluta lífeyrisiðgjalda starfsmanna Dalfells hf. vegna ársins 1992. Þá var ákærði í dóminum einnig dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti.
Lög nr. 42/1995, er breyttu ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt tóku gildi hinn 9. mars 1995, en lög nr. 39/1995, er breyttu ákvæðum 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, öðluðust hins vegar ekki gildi fyrr en 1. júlí 1995. Þótt framangreindur dómur frá 4. júní 1996 hafi fallið eftir að áðurnefnd breytingarlög öðluðust gildi, var dómurinn vegna brota framinna fyrir gildistöku breytingarlaganna. Þrátt fyrir að ákvæði 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum 42/1995, hafi ekki verið á þá lund að ítrekað brot sem þetta skyldi leiða til fangelsisrefsingar, eins og nú skv. 262. gr. almennra hegningarlaga, þá var í 6. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt heimild til þess að dæma til fangelsisrefsingar ef um ítrekun var að ræða eða sakir teldust miklar að öðru leyti. Í þessu sambandi ber einnig að líta til þess að þrátt fyrir að ákærða hafi verið gerð refsing fyrir sams konar brot hélt hann brotastarfsemi áfram óslitið og kerfisbundið um langan tíma, en um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir sem hann sveik undan skatti. Telst brot ákærða því meiri háttar og réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru, sbr. einnig áður 6. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.
II. kafli ákæru.
Eins og að framan er rakið viðurkenndi ákærði við skýrslugjöf hjá Ríkislögreglustjóra hinn 15. febrúar 2001 að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og að varðveita bókhaldsgögn vegna atvinnustarfsemi sinnar á árunum 1994, 1995 og 1996. Kvaðst hann vegna veikinda í kjölfars alvarlegs hjartaáfalls og erfiðs hjónaskilnaðar ekki hafa haft getu til slíks, en hins vegar hefur jafnframt komið fram að nokkuð var liðið á það tímabil sem um ræðir í ákæru er ákærði varð fyrir hjartaáfalli, hinn 14. mars 1996. Fyrir dómi bar ákærði hins vegar að hann hefði brennt bókhald sitt og bókhaldsgögn. Ekki kvaðst ákærði þó geta sagt nákvæmlega til um fyrir hvaða ár bókhald hafi verið gert og gaf ákærði ekki aðra skýringu á þessum breytta framburði sínum en að hann muni ekki vel eftir atvikum vegna veikinda sinna. Var á ákærða að skilja að hann hefði a.m.k. ekki haldið bókhald fyrir árið 1996. Ekki er unnt að leita nánari upplýsingar um þetta atriði, en ekki verður séð af því sem fram er komið í málinu að ákærði hafi á umræddu tímabili haldið lögboðið bókhald eða varðveitt bókhaldsgögn í samræmi við það sem lög áskilja. Hins vegar verður miðað við framburð ákærða fyrir dómi um að hann hafi brennt bókhald vegna áranna 1994 og 1995, en ekki haldið bókhald vegna ársins 1996 og ekki varðveitt bókhaldsgögn vegna þess árs. Telst brot ákærða samkvæmt II. kafla ákærunnar meiri háttar samkvæmt 1. og 2. tl. 37. gr., sbr. 36. gr., laga nr. 145/1994, sbr. lög nr. 37/1995 og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með sama hætti og í I. kafla ákærunnar verður háttsemi ákærða í þessum kafla ákærunnar virt sem brotaeind.
Ákæra, dagsett 2. apríl 2000
Óumdeilt er að ákærði ók bifreiðinni NV 575 greint sinn. Framburður ákærða um áfengisdrykkju fyrir akstur var ekki ætíð sá sami. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu eftir handtöku kvaðst ákærði hafa drukkið áfengi á tímabilinu frá 19:30 til 22:30 kvöldið áður. Við síðari yfirheyrslu kvaðst ákærði hafa drukkið „fram eftir nóttu” og sofið í tvær til þrjár klukkustundir nóttina fyrir akstur, en fyrir dómi kvaðst ákærði hafa drukkið áfengi líklega til klukkan þrjú eða fjögur nóttina fyrir akstur. Ekki kvaðst ákærði geta sagt til um magn þess áfengis er hann drakk fyrir akstur.
Af framburði beggja lögreglumannanna sem afskipti höfðu af ákærða greint sinn verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi verið undir áfengisáhrifum við aksturinn, enda lagði af honum áfengisþef þó ekki væru merkjanleg önnur ölvunareinkenni á ákærða. Töldu lögreglumenn ástæðu til að láta ákærða blása í öndunarmæli og sýndi mælirinn verulegt magn alkólhóls í ákærða. Varð þetta allt til þess að ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöð.
Kemur þá til skoðunar hversu mikið ákærði var undir áhrifum áfengis við aksturinn, en ákærði hefur vefengt að blóðsýni það sem til rannsóknar fór hafi verið úr honum. Ómótmælt er að læknir tók blóð úr ákærða samkvæmt skriflegri beiðni lögreglunnar sem undirrituð var af báðum lögreglumönnunum er afskipti höfðu af ákærða, auk þess sem blóðtökuvottorðið er undirritað af þeim lækni sem tók úr ákærða blóðsýni. Lögreglumaðurinn Hafþór Gunnarsson vottaði bæði rétt sýnanúmer 024-2000-00085 og hann vottaði einnig um blóðtöku úr ákærða. Hefur hann staðfest þessi gögn fyrir dómi. Þá er í gögnum málsins beiðni um alkóhólrannsókn, undirrituð af Guðmundi Sv. Gunnlaugssyni lögreglumanni og hefur sú beiðni ekki verið vefengd sem röng. Á sama skjali er vottorð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 29. ágúst 2000, um rannsókn á blóðsýni nr. 024-2000-00085 og hefur Kristín Magnúsdóttir lyfjafræðingur staðfest fyrir dómi undirritun sína á það vottorð og niðurstöður rannsóknarinnar, þ. e. 2,30 pro mill alkóhóls í blóði. Kom fram hjá henni að sýni þetta hefði borist rannsóknarstofunni með tíðkanlegum hætti. Kom m. a. fram hjá henni að það kæmi fyrir að fleiri en eitt sýni væru í einu send til Reykjavíkur til rannsóknar, en þá væru beiðnirnar um rannsóknir á sýnunum og glösin sett saman í umslag sem síðan væri innsiglað og það innsigli ekki rofið fyrr en á rannsóknarstofunni jafnframt því sem samanburður væri gerður á beiðnunum og merkingu á blóðsýnaglösunum. Þrátt fyrir að mismunandi væri hvort hvert blóðsýnaglas væri sérstaklega innsiglað þá er upplýst að hvert glas er merkt númeri sýnisins á sérstakan miða sem er áfastur hverju glasi. Þá kom fram í máli lyfjafræðingsins sú þekkta staðreynd að mjög mismunandi er hversu áfengisáhrif sjást á mönnum. Þrátt fyrir að áfengismælir sá sem lögregla lét ákærða blása í á vettvangi gefi ekki eins nákvæma niðurstöðu og blóðrannsókn, sýndi mælirinn eigi að síður að ákærði var verulega mikið undir áhrifum áfengis. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þá viðbáru ákærða að af hegðun hans megi ráða að hann hafi ekki verið undir miklum áhrifum áfengis. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að meðferð sýnis þess sem um ræðir hafi verið með þeim hætti að vafi sé á að um sýni sé að ræða úr öðrum en ákærða. Telst ákærði hafa með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Eins og fram hefur komið var ákærði hinn 14. febrúar 1997 sviptur ökurétti ævilangt vegna ölvunar við akstur. Eigi að síður gaf Ríkislögreglustjórinn hinn 17. nóvember 1998 út ökuskírteini til handa ákærða. Hinn 27. febrúar 1999 stöðvaði lögreglan á Selfossi ákærða við akstur bifreiðar, en ákærði framvísaði ökuskírteininu frá 17. nóvember 1998. Lagði lögregla hald á ökuskírteini ákærða. Einhvern tímann á árinu 1999 fól Ríkislögreglustjóri Lögreglustjóranum í Reykjavík að „innkalla ökuskírteini” útgefið 17. nóvember 1998. Hinn 27. október 1999 gaf Lögreglustjórinn í Reykjavík út „áskorun” til ákærða um að „afhenda lögreglu skírteinið” innan þriggja daga frá móttöku áskorunarinnar. Lögreglustjórinn í Reykjavík fól Sýslumanninum á Selfossi að birta ákærða áskorunina, en með bréfi sýslumannsins hinn 5. nóvember 1999 var tilkynnt að birting áskorunarinnar hefði ekki farið fram, þar sem lögreglan á Selfossi hefði haft skírteinið í sinni vörslu frá 27. febrúar 1999 og var Lögreglustjóranum í Reykjavík sent skírteinið. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands hinn 30. júlí 1999 var ákærði sýknaður af ákæru um akstur sviptur ökurétti. Í dóminum er fjallað um efni 2. mgr. 53. gr., 106. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 68. gr. reglugerðar um ökuskírteini nr. 501/1997, síðan segir m. a.: „Skýringar liggja engar frammi um það hvers vegna ákærði fékk ökuskírteini. Engin gögn liggja heldur fyrir um að hann hafi gengist undir hæfnispróf og hann staðhæfir það ekki heldur. Dómsmálaráðuneytið heimilaði ekki endurveitingu ökuréttar til hans. Virðist augljóst að rangt hafi verið að gefa út skírteinið, en rannsókn hefur ekki verið gerð á tildrögum skírteinisútgáfunnar.
Hin tilgreindu orð umferðarlaga og reglugerðar um ökuskírteini verður að skýra sem skilyrði fyrir því að ökuréttur verði veittur að nýju. Útgáfa ökuskírteinis er þá staðfesting viðkomandi stjórnvalds, þ. e. lögreglustjóra, á því að skilyrðum hafi verið fullnægt. Meðal þessara skilyrða er eins og áður greinir að ráðuneytið veiti heimild til endurveitingar réttinda, en slík heimild hefur ekki verið veitt.
Ökuskírteini ákærða var gefið út af þar til bærum lögreglustjóra. Þó réttra aðferða hafi ekki verið gætt er útgáfa skírteinisins ekki markleysa. Ekki er sýnt fram á að ákærði hafi beitt blekkingum. Verður við svo búið að telja að ákærði hafi formlega haft heimild umrætt sinn til að stjórna ökutæki. Ber því að sýkna hann af kröfum ákæruvalds.”
Ákærði mun hafa haldið áfram að aka bifreið eftir þennan dóm og hafa ökuréttindi ákærða ekki verið afturkölluð samkvæmt 53. gr. umferðarlaga. Raunar er ekkert nýtt fram komið sem skiptir máli um það atriði sem hér er til umfjöllunar umfram það sem lá til grundvallar framangreindum dómi héraðsdóms frá 30. júlí 1999. Dómi héraðsdóms var ekki var áfrýjað til Hæstaréttar og verður því miðað við dóm héraðsdóms um að ákærði hafi fengið ökuréttindi með formlegum hætti og ákærði þess vegna sýknaður af broti gegn ákvæðum 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Refsing.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1976 til 1997 alls 14 sinnum hlotið refsingar. Ef frá eru talin sátt frá 1976 og framangreindur dómur frá 4. júní 1996 lúta öll brot ákærða einungis að brotum gegn áfengis- og/eða umferðarlögum. Hinn 9. nóvember 1992 gekkst ákærði undir sátt vegna ölvunarakstur. Viðurlög við brotinu voru ákveðin sekt og svipting ökuréttar í þrjá mánuði. Ákærði var dæmdur vegna ölvunaraksturs þann 10. júlí 1995 í sekt og til sviptingar ökuréttar í 2 ár og loks var ákærði dæmdur í fangelsi í einn mánuð og sviptingu ökuréttar ævilangt með dómi þann 14. febrúar 1997.
Þar sem löggjöf varðandi ákæru dagsetta 15. mars sl. hefur breyst nokkuð frá því að atvik gerðust sem þar er ákært vegna, ber að líta sérstaklega til ákvæða 69. gr. stjórnarskrárinnar og 2. gr. almennra hegningarlaga þegar komist er að niðurstöðu um refsingu ákærða. Verður lögum nr. 39/1995 og lögum nr. 42/1995 ekki beitt til þyngingar refsingar ákærða með afturvirkum hætti hvað varðar þá háttsemi ákærða er átti sér stað fyrir gildistöku þeirra. Þá má hafa í huga að frá 9. mars 1995, er breyting varð á 40. gr. virðisauakskattslaga til 1. júlí 1995, er lög nr. 39/1992 tóku gildi, var ekki að finna í lögum ákvæði um fangelsisrefsingu vegna brota þessara. Á sama hátt vörðuðu bóhaldsbrot ekki fangelsisrefsingu tímabilið 1. janúar 1995, er lög nr. 51/1968 voru felld úr gildi, til gildistöku laga nr. 39/1992. Auk þess verður refsing ákærða einnig ákveðin að teknu tilliti til þess að háttsemi ákærða samkvæmt ákæru dagsettri 15. mars 2001, átti sér að mestu leyti stað áður en að áðurnefndur dómur frá 4. júní 1996 gekk, raunar átti háttsemin sér stað fyrir dóminn frá 14. febrúar 1997 og að hluta til áður en dómurinn frá 10. júlí 1995 gekk. Jafnframt þykir rétt að líta til þess óhæfilega dráttar sem varð á málinu eftir að rannsókn lauk. Að lokum er litið sérstaklega til þess að ákærði hefur ekkert endurgreitt af þeim fjárhæðum sem nú eru til umfjöllunar, en ákærði mun hafa verið afar félítill síðastliðin ár.
Þá þykir rétt að gera ákærða einnig sérstaka sektarrefsingu. Við ákvörðun hennar er auk framanritaðs haft í huga að stærstur hluti fjárhæðar þeirrar sem ákærði vanrækti að skila innheimtumanni ríkissjóðs er til komin eftir gildistöku laga nr. 42/1995. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga varða brot á lögum um virðisaukaskatt fésekt, sem nemur að lágmarki tvöfaldri skattfjárhæðinni sem um ræðir. Að því virtu og teknu tilliti til 2. gr. almennra hegningarlaga verður ákærða gert að greiða sekt í ríkissjóð, sem telst hæfilega ákveðin 1.800.000 krónur. Kemur tveggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.
Svipting ökuréttar.
Með vísan til 1. mgr. og 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja, en samkvæmt framansögðu verður ekki við það miðað að ákærði hafi verið sviptur ökurétti við rannsókn málsins.
Sakarkostnaður.
Eftir þessum úrslitum og samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.
Ólafur Börkur Þorvaldsson dómstjóri kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Ákærði, Sturla Snæbjörn Þórðarson, sæti fangelsi í fimm mánuði. Fresta skal fullnustu tveggja mánaða af fangelsisrefsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 1.800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í tvo mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.