Hæstiréttur íslands

Mál nr. 537/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Veðréttur
  • Lögveð
  • Sjóveð


Mánudaginn 16

 

Mánudaginn 16. desember 2002.

Nr. 537/2002.

Kolsvík ehf.

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði sjómanna

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Veðréttur. Lögveð. Sjóveð.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2002, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 5. september sama árs um úthlutun söluverðs við nauðungarsölu á Eyjanesi GK 131. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að sjóveðskrafa hans að fjárhæð 876.083 krónur verði greidd á undan lögveðskröfu varnaraðila við úthlutun á söluverði Eyjaness GK 131. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

          Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

          Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

          Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­ness 20. nóvember 2002.

   Málið var þingfest 10. október 2002 og tekið til úrskurðar 6. nóvember 2002. Sóknar­aðili er Kolsvík ehf., Hjöllum 4, Patreksfirði. Varnaraðili er Lífeyrissjóður sjó­manna, Þverholti 14, Reykjavík.

   Í málinu er deilt um ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 5. september 2002 um úthlutun söluverðs Eyjaness GK 131, skipaskrárnúmer 462, sem selt var nauðungar­sölu 25. júní 2002. Heimild til að bera slíka ákvörðun undir héraðsdóm er að finna í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en um málsmeðferð fer eftir ákvæðum XIII. kafla laganna.

   Sóknaraðili krefst þess að hnekkt verði þeirri ákvörðun sýslu­manns, að lög­veðs­krafa varnaraðila, upphaf­lega að fjárhæð krónur 1.123.591, verði greidd á undan sjó­veðskröfu sóknaraðila að fjárhæð krónur 876.083. Jafn­framt krefst sóknaraðili þess að honum verði úthlutuð tilgreind fjárhæð af söluverði skipsins. Þá krefst hann máls­­kostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar á ákvörðun sýslumanns og málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Sýslumaðurinn í Keflavík hefur ekki neytt heimildar til að senda héraðsdómi athuga­semdir sínar um málefnið, sbr. 6. mgr. 73. gr. nauðungarsölulaga.

I.

   Samkvæmt gögnum málsins var skipið Eyjanes GK 131, eign Eyjaness ehf., selt nauðungarsölu af sýslumanninum í Keflavík 25. júní 2002. Sóknaraðili átti hæsta boð í eignina, krónur 3.000.000. Í frumvarpi sýslumanns frá 26. júní var gert ráð fyrir að varnaraðili og tveir nafngreindir sjómenn fengju úthlutun af söluverðinu á grund­velli sjóðveðskrafna samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985, í þeirri röð sem hér segir: Lífeyrissjóðsiðgöld til varnaraðila, krónur 1.123.591, launa­krafa sjómannsins G.A.G., krónur 993.560, launakrafa sjómannsins B.K., krónur 838.820. Eftirstöðvar söluverðs að frádregnu 30.000 króna sölugjaldi til ríkissjóðs skyldi úthlutað sóknaraðila á grundvelli 3. töluliðs 1. mgr. 197. gr. laganna, með krónum 14.029. Lögmaður sóknaraðila mótmælti frumvarpinu með bréfi 10. júlí 2002 og gerði þá sömu kröfu fyrir hönd sóknaraðila og hann gerir nú í málinu. Á fundi sýslumanns um mótmæli við frumvarpið 5. september var ákveðið að breyta frum­varpinu með neðangreindum hætti og í framhaldi endurreiknaði sýslumaður hvað kæmi í hlut hvers kröfuhafa af söluverði skipsins. Lögmaður sóknaraðila lýsti því yfir á fundinum að ákvörðun sýslumanns yrði skotið til úrlausnar héraðsdóms og var það gert með bréfi 18. september 2002, sem dóminum barst 20. sama mánaðar.

   Samkvæmt endurútreikningi sýslumanns skyldi úthlutun af söluverði skipsins, miðað við ákvörðun frá 5. september, vera sem hér segir:

1. 1% sölugjald í ríkissjóð.

kr. 30.000,-

2. Sjóveðréttarkröfur skv. 1. tl. 1. mgr. 197. gr. l. nr. 34/1985         

 

 a. Lífeyrissjóður sjómanna, lífeyrissjóðsiðgjöld.

kr. 1.093.673,-

 b. Launakrafa G.A.G.

kr. 967.121,-

 c. Launakrafa B.K.              

kr. 822.482,-

 d. Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir

kr. 86.724,-

samtals

kr. 3.000.000,-

II.

   Sóknaraðili byggir kröfugerð sína á því að sú ákvörðun sýslumanns að fella lífeyrissjóðsiðgjöld til varnaraðila undir 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga sé röng. Umrædd iðgjöld séu tryggð með sérstakri lögveðsheimild í 7. gr. laga nr. 45/1999 um lífeyrissjóð sjómanna og verði því ekki felld undir áðurnefnda grein siglinga­laganna. Vísar sóknaraðili hér til hrd. 1968:517. Þá bendir hann á að 60% af kröfu varnaraðila sé greidd úr vasa útgerðarmanns sem launatengd gjöld og þar af leiðandi eigi það að vera óumdeilanlegt að iðgjaldahluti útgerðarmanns sé ekki hluti af launum sjómanns og geti því þegar af þeirri ástæðu aldrei fallið undir hugtakið laun í skilningi 1. töluliðs 1. mgr. 197. gr. Vísar sóknaraðili til hrd. 1962:330 þessu til stuðnings. Kveður sóknaraðili að frá gildistöku laga nr. 34/1960 um breyting á lögum nr. 34/1958 hafi verið lögfest sú regla, sem nú standi í 7. gr. laga nr. 45/1999. Sam­kvæmt því verði krafa varnaraðila skilgreind í einu lagi og njóti hún lögveðs­heimildar sam­kvæmt téðri 7. gr., en verði ekki færð undir 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglinga­laga, eins og sýslumaður hafi gert. Því verði annað hvort að skipa lög­veð­réttar­kröfu varnar­­aðila á undan eða eftir sjóveðréttarkröfum. Bendir sóknaraðili hér á að í greinar­­gerð með frumvarpi til siglingalaga segi varðandi 198. gr. að þrátt fyrir þá almennu reglu, sem fram komi í lagagreininni, geti lögveð gengið fyrir sjóveðum ef um það séu ótvíræð fyrirmæli í viðkomandi lögum. Í 7. gr. laga nr. 45/1999 sé ekki að finna slík ótvíræð fyrirmæli og því beri að skipa lögveðrétti varnaraðila á eftir öllum sjóveðréttarkröfum samkvæmt 197. gr. siglingalaga, þar á meðal kröfu sóknar­aðila, sem byggi á 3. tölulið 1. mgr. 197. gr. Sóknaraðili vísar hér til hrd. 1968:517 varðandi árekstur lögveðsheimilda við úthlutun af uppboðsandvirði skips. Ennfremur byggir sóknaraðili á því að þegar sagt sé í 7. gr. laga nr. 45/1999 að lögveð samkvæmt greininni gangi framar öllum öðrum veðum, sé þar einungis verið að segja almennum orðum hvaða þýðingu lögveðsréttur hafi að lögum, þ.e.a.s. að hann gangi framar öðrum veðum, svo sem samningsveðum, aðfararveðum og þá í þessu tilviki öðrum lög­veðum. Texti lagagreinarinnar segi ekkert til um það að lögveðsréttur varnaraðila gangi framar sjóveðum samkvæmt sjóveðskafla siglingalaga. Hefði svo átt að vera þá hefði slíkt þurft að koma fram í lagatextanum eða frumvarpi til laganna með ótví­ræðum hætti, sérstaklega þar sem þá væri verið að víkja til hliðar hálfrar aldar gömlum samnorrænum ákvæðum, auk þess sem slíkur forgangsréttur lögveðs gagn­vart sjóveði væri ekki í samræmi við alþjóðasáttmála um sjóveð frá 1967. Með engu móti sé hægt að túlka lögveð varnaraðila þannig að það skuli víkja til hliðar sjóveð­rétti samkvæmt 197. gr. siglingalaga, enda hefði orðið að taka það skýrt fram í laga­textanum ef sú hefði verið ætlun löggjafans.

   Þar sem lögveðstryggð krafa lífeyrissjóðsiðgjalda til varnaraðila falli sam­kvæmt framansögðu ekki undir 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga og eigi heldur iðgjaldahluti sjómanna eftir setningu laga nr. 34/1960, sbr. hrd. 1962:330, þá verði lög­veð varnaraðila að víkja fyrir öllum sjóveðréttarkröfum, sem lýst hafi verið í Eyja­nes GK 131, þar með talinni kröfu sóknaraðila samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 197. gr., enda komi hvorki til greina að láta lögveð varnaraðila ganga fyrir sjóveðum né heldur láta lög­veðið fleygast inn í einstaka töluliði 1. mgr. 197. gr. siglingalaga.

   Varðandi lagarök vísar sóknaraðili einkum til 197. gr. og 198. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 5. og 7. gr. laga nr. 45/1999 um lífeyrissjóð sjómanna.

III.

Varnaraðili byggir kröfu sína á því að úthluta beri honum af söluverði skipsins í samræmi við 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985, enda eigi hann sjó­veð­rétt í skipinu fyrir lífeyrissjóðsiðgjöldum og teljist krafan hluti launa eða annarrar þóknunar skipverja í samræmi við orðalag tilvitnaðs ákvæðis.

   Að auki byggir varnaraðili á því að sú venja hafi myndast að úthluta söluverði skipa, sem seld eru nauðungarsölu á sama hátt og gert hafi verið í þessu máli, þ.e. að krafa varnaraðila falli undir 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingalaga.

   Verði ekki á þetta fallist byggir varnaraðili á því að úthluta beri honum af sölu­verði skipsins í samræmi við 7. gr. laga nr. 45/1999 um lífeyrissjóð sjómanna, en samkvæmt orðalagi ákvæðisins eigi iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda að hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Vísar varnar­aðili til þess að hér sé um afdráttarlaust orðalag að ræða, enn afdráttarlausara en orða­lag 198. gr. siglingalaga, þar sem kveðið sé á um að sjóveðréttur í skipi gangi fyrir öllum öðrum eignarhöftum. Hvað þetta varði sé jafnframt vísað til greinargerðar er fylgt hafi frumvarpi til siglingalaga, einkum athugasemda varðandi 198. gr., þar sem kveðið sé á um að ef ótvíræð fyrirmæli séu í viðkomandi lögum þá gangi lögveð framar sjóveðum.

   Þá vísar varnaraðili til sanngirnisraka, en krafa hans sé vegna iðgjalda í líf­eyris­­sjóð sjómanna. Slík gjöld eigi lögum samkvæmt að stuðla að því að sjómenn eigi rétt til töku elli- og/eða örorkulífeyris og hljóti því að ganga fyrir kröfu sóknar­aðila vegna bóta fyrir skemmdir á skipi í eigu hans.

   Loks byggir varnaraðili á því að stærstur hluti kröfu hans sé tilkominn fyrr en krafa sóknaraðila. Það sé almenn regla veðréttar að þegar um jafn réttháar kröfur sé að ræða þá gangi sú krafa fyrir sem eldri er. Krafa sóknaraðila sé samkvæmt dómi 8. nóvember 2001, en krafa varnaraðila sé vegna ógreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda fyrir tíma­bilið mars til nóvember 2001 og vegna áætlaðra iðgjalda fyrir tímabilið nóvember 2001 til apríl 2002.

   Varðandi lagarök vísar varnaraðili til ákvæða siglingalaga nr. 34/1985, einkum 1. töluliðs 1. mgr. 197. gr. og 198. gr. laganna, laga nr. 45/1999 um lífeyrissjóð sjó­manna, einkum 7. gr. og 76. gr. stjórnarskárinnar nr. 33/1944.

IV.

Krafa sóknaraðila í máli þessu byggir að meginstefnu á því sjónarmiði að krafa varnaraðila um greiðslu af uppboðsandvirði umrædds skips njóti lögveðréttar samkvæmt sérstakri lögveðsheimild og standi sú lögveðsheimild neðar í réttindaröð en krafa sóknaraðila, sem tryggð sé með sjóveði í skipinu. Fyrst er það til að taka að ákvæði 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 um sjóveðrétt felur í sér lögveðsheimild fyrir þeim kröfum, sem þar eru taldar. Felst nánar í þessu að sjóveð er ein tegund lögveðs og verður ekki sjálfkrafa fallist á að sjóveðskröfur gangi í öllum tilvikum framar öðrum lögveðum. Í 198. gr. siglingalaga er tekið fram að sjóveðréttur gangi fyrir öllum öðrum eignarhöftum í skipi. Ákvæði þetta var skýrt þannig í athugasemdum í frumvarpi til núgildandi siglingalaga, að þrátt fyrir orðalag 1. mgr. 218. gr. eldri siglinga­laga nr. 66/1963, hafi almennt verið viðurkennt hérlendis að ýmis lögveð gangi fyrir sjóveðum, ef um það eru ótvíræð fyrirmæli í viðkomandi lögum og sé ekki ætlunin að breyting verði á því. Í 7. gr. laga nr. 45/1999 um lífeyrissjóð sjómanna segir að iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skuli hvíla sem lögveð á viðkomandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Engin rök eru til að fallast á það með sóknar­­aðila að það hafi verið ætlun löggjafans með setningu þessarar lagareglu að skipa lífeyrissjóðsiðgjöldum aftur fyrir allar sjóveð­réttar­kröfur. Verður þvert á móti að telja að markmið með lagasetningunni hafi verið að tryggja kröfur þessar betur en áður hafði verið. Eru fyrirmælin í 7. gr. ótvíræð og verða ekki skilin öðru vísi en svo, að þegar sagt er að lögveð samkvæmt lagagreininni gangi framar öllum öðrum veðum, sé þar átt við bæði samningsveð og önnur lögveð, þar með talin sjóveð. Er það því álit dómsins að lögveð samkvæmt 7. gr. laganna gangi framar sjóveðum sam­kvæmt 197. gr. siglingalaga. Skiptir engu máli í því sambandi þótt sýslumaðurinn í Kefla­­vík hafi fellt kröfu varnaraðila undir 1. tölulið 1. mgr. 197. gr. siglingalaganna við úthlutunargerð 5. september 2002.

Varnaraðili krefst einungis staðfestingar á hinni umþrættu ákvörðun sýslu­manns, en ekki breytingar á henni. Með þeim rökum og athugasemdum sem að framan greinir er ákvörðun sýslumanns því staðfest.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að ákvarða varnaraðila málskostnað úr hendi sóknaraðila og þykir hann hæfilega ákveðinn krónur 200.000.

   Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.

ÚRSKURÐARORÐ:

   Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Keflavík 5. september 2002 um úthlutun á söluverði Eyjaness GK 131, sem selt var nauðungarsölu 25. júní 2002.

   Sóknaraðili, Kolsvík ehf., greiði varnaraðila, Lífeyrissjóði sjómanna, 200.000 krónur í málskostnað.