Hæstiréttur íslands

Mál nr. 531/2017

A (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Ebba Schram hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun

Reifun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. ágúst 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2017.

Með kröfu, sem er dagsett 19. ágúst sl. og barst réttinum 21. sama mánaðar, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...] í Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 19. ágúst sl., þar sem fallist var á að hún yrði vistuð á sjúkrahúsi á grundvelli heimildar í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns hennar greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga. Málið var þingfest 22. ágúst og tekið samdægurs til úrskurðar.

         Varnaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að áðurnefnd ákvörðun sýslumanns um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.

         Í beiðni varnaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að sóknaraðili verði vistaður á sjúkrahúsi kemur fram að í sumar hafi þjónustumiðstöð [...] verið að berast kvartanir og áhyggjur af hegðun og ástandi sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ógnað nágranna sínum með hnífi og slegið öllu öryggiskerfi út í húsinu eftir að hafa rifið niður reykskynjara. Fengin hafi verið héraðslæknir til að meta þörf varnaraðila á læknisaðstoð. Hafi sóknaraðili ekki verið tilbúin til að leita sjálfviljug læknisaðstoðar og hafi hún því verið flutt í lögreglufylgd á bráðamóttöku geðdeildar þann 17. ágúst sl. Sóknaraðili sé með alvarlega geðsjúkdóm og séu einkenni nú örlyndi og aðsóknarhugmyndir. Talin sé brýn þörf á læknismeðferð og eftirliti. Sóknaraðili hafi hins vegnar lítið innsæi í veikindi sín og hafni meðferð. Sé því talið nauðsynlegt að nauðungarvista varnaraðila í 21 dag til að veita henni viðeigandi og nauðsynlega meðferð.

         Með beiðninni fylgdi vottorð geðlæknisins,  B, dags. 18. ágúst sl. Þar kemur fram að sóknaraðili hafi glímt við illvíga átröskun frá 14 ára aldri og hafi um árabil verið í meðferð hjá átröskunarteymi Landspítala. Átröskunin hafi einkennst af sveltitímabilum og átköstum með uppköstum. Sóknaraðili hafi til fjölda ára verið í undirþyngd og vannærð. Samhliða hafi sóknaraðili glímt við kvíða og þunglyndistímabil. Fyrir um 8 árum hafi sjúkdómsgangurinn breyst og sóknaraðili byrjað að veikjast með illvíg oflætiseinkenni og geðrofseinkenni. Í kjölfarið hafi hún oft verið nauðungarvistuð á geðdeild og á tímabilum sjálfræðissvipt. Veikindi sóknaraðila hafi illa svarað hefðbundinni meðferð og meðferðarheldni hafi verið léleg síðustu ár. Sóknaraðili hafi alltaf verið andvíg því að taka geðrofslyf og mikill óstöðugleiki einkennt líðan hennar. Hafi sóknaraðili verið í eftirfylgni hjá samfélagsteymi geðdeildar og göngudeildar Kleppsspítala og fengið geðrofslyf í sprautuformi. Sóknaraðili hafi nú ekki tekið lyf frá því í vor en sjálfræðissvipting hafi runnið út 17. febrúar sl. Í sumar hafi líðan sóknaraðila versnað og hafi borið á vaxandi aðsóknarhugmyndum og undarlegri hegðun.

         Í vottorðinu er gerð grein fyrir niðurstöðu skoðunar B geðlæknis. Þar kemur fram að sóknaraðili sé gríðarlega grönn að sjá, bein standi víða út og sé veikluleg. Læknirinn þekki sóknaraðila vel og hafi því náð góðu sambandi við hana.  Sóknaraðili sé ósátt við innlögn og sé vansæl og í mikilli vörn. Sóknaraðili sé ræðin en ekki með aukinn talþrýsting. Segist ekki vera örugg í íbúð sinni og eigi rétt á því að verja sig. Hún segi að fólk sé með lykla að íbúðinni og hún upplifi stöðuga ógn og viðurkenni að sér finnist fólk vilja jafnvel drepa sig og þurfi að verja sig. Hún hafi neitað ofskynjunum og tilvísunarhugsunum, en ekki útilokað að það sér til staðar. Tali mikið um íbúðina sína og verði æst á köflum með aðsóknarhugmyndir. Segist frekar vilja búa í gámi, eða flytja til útlanda. Taldi læknirinn að geðslag væru hlutlaust, mögulega hækkað og mikill kvíði og spenna til staðar. Ekki hafi komið fram sjálfsvígshugsanir og mat læknirinn sjálfsvígshættu mjög litla og að sóknaraðili sé hvorki ógnandi eða í ögrandi í framkomu.

         B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Hún staðfesti vottorðið sitt og greindi frá  ástandi sóknaraðila, en hún kvaðst þekkja vel til hennar. Hún hefði endurtekið veikst frá árinu 2008 og áður verið nauðungarvistuð og svipt sjálfræði sem hefði nú síðast runnið út í febrúar. Hún teldi hana hafa geðhvarfasjúkdóm. Á haustin og veturna ætti hún við þunglyndi að stríða en örlyndi á vorin og sumrin. Þá glímdi hún við geðrofseinkenni á tímabilum. Hún hefði lengi verið mótfallin meðferð, en hún teldi sig glíma við aukaverkanir af lyfjum og þá gæti átröskunarsjúkdómur hennar einnig haft áhrif á þessa afstöðu. Nauðsynlegt væri að nauðungarvista hana til að koma henni í jafnvægi, en ástand hennar væri þannig að hún gæti ekki séð um sig sjálf utan deildarinnar.

         Verjandi sóknaraðila mótmælti því að skilyrðum lögræðislaga væri fullnægt svo fallast mætti á vistun sóknaraðila á sjúkrahús, enda skilyrði 3. mgr. 19. gr., sbr. 2. mgr. ákvæðisins, ekki uppfyllt.

         Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 1. málslið 2. mgr. sömu greinar, má vista sjálfráða mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á því að svo sé eða að ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Er það jafnframt skilyrði nauðungarvistunar í svo langan tíma að hún sé talin óhjákvæmileg að mati læknis.

         Fyrir liggur vottorð geðlæknis þar sem staðfest er að sóknaraðili er stríðir við alvarlegan geðsjúkdóm og hefur ekki innsæi í ástand sitt og þarfir. Samkvæmt þessu mati og með vísan til þess sem fram hefur komið fyrir dómi um heilsufar sóknaraðila meðan hún hefur dvalið á geðdeild verður á það fallist að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Jafnframt verður með hliðsjón af vottorðinu og skýrslugjöf læknis fyrir dómi að fallast á að ástand hennar kalli á tímabundna dvöl á geðdeild til að tryggja viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð og eftirfylgni. Sóknaraðili virðist ekki gera sér sjálf grein fyrir ástandi sínu og er mótfallin því að dvelja áfram á sjúkrahúsinu í því skyni að fá þá læknisaðstoð sem hún er í brýnni þörf fyrir. Eins og heilsufari hennar er háttað telur dómurinn í ljós leitt með framlögðum gögnum og vætti geðlæknis fyrir dómi að vistun á sjúkrahúsi gegn hennar vilja sé óhjákvæmileg. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er á það fallist að skilyrðum 3. mgr., sbr. 1. málslið 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sé fullnægt, og að ekki sé efni til þess að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi eins og sóknaraðili fer fram á.

         Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ber að greiða allan kostnað málsins úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 160.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. ágúst 2017 um nauðungarvistun hennar á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

         Allur kostnaður málsins, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.