Hæstiréttur íslands
Mál nr. 240/2004
Lykilorð
- Þjófnaður
- Hilming
- Skjalafals
- Ítrekun
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 2004. |
|
Nr. 240/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Guðjóni Björgvini Guðmundssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Þjófnaður. Hilming. Skjalafals. Fjársvik. Ítrekun. Skilorðsrof.
G var sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, þar af þrisvar sinnum fyrir innbrot í íbúðarhúsnæði, eina tilraun til þjófnaðar, þrjú fjarsvikabrot, þrjú skalafalsbrot og hilmingu er tók til muna úr fjórum innbrotum. Voru sum brota ákærða voru skipulögð með nokkrum fyrirvara. G, sem var vanaafbrotamaður, hlaut sinn fyrsta dóm 17 ára gamall. Var refsing hans ákveðin að teknu tilliti til ákvæða 60. gr., 72. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gögn um geðhagi og veikindi G höfðu ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu, og tekið fram að fangelsismálastofnun gæti samkvæmt lögum nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist leyft að fangi væri vistaður á sjúkrahúsi eða annarri stofnun svo hann fengi notið sérstakrar meðferðar ef slíkt væri talið henta vegna heilsufars hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og greiðslu skaðabóta, en að refsing ákærða verði þyngd. Meðákærða í héraði óskaði ekki áfrýjunar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds og staðfestingar héraðsdóms um sýknu af ákæruliðum, en til vara að refsing hans verði milduð og að dregið verði frá refsingu ákærða gæsluvarðhaldsvist hans, samtals 355 dagar. Þá er þess krafist að bótakröfu Landsbanka Íslands hf. verði vísað frá héraðsdómi.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð Magnúsar Skúlasonar geðlæknis um geðhagi ákærða, auk þess sem fram er komið að ákærði var sviptur lögræði að eigin ósk 4. október 2004.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Á sama hátt er staðfest niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað.
Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, þar af þrisvar sinnum fyrir innbrot í íbúðarhúsnæði, eina tilraun til þjófnaðar, þrjú fjarsvikabrot, þrjú skalafalsbrot og hilmingu er tekur til muna úr fjórum innbrotum. Er fram komið að sum brota ákærða voru skipulögð með nokkrum fyrirvara. Ákærði hlaut sinn fyrsta dóm 17 ára gamall og er sakarferill hans rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Refsingu ákærða ber að ákveða að teknu tilliti til ákvæða 60. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og þar er gert. Þá er sakarferill ákærða með þeim hætti að einnig ber að líta til 72. gr. almennra hegningarlaga þegar refsing hans er ákveðin. Þau gögn sem liggja nú fyrir Hæstarétti um geðhagi og veikindi ákærða hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu, eins og krafist er af hálfu ákærða. Til þess er að líta að samkvæmt lögum nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist getur fangelsismálastofnun leyft að fangi sé vistaður á sjúkrahúsi eða annarri stofnun svo hann fái notið sérstakrar meðferðar ef slíkt er talið henta vegna heilsufars hans, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 18. desember 2003 í máli nr. 164/2003. Með þessum athugasemdum og að gættu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, skal refsiákvörðun héraðsdóms standa óhögguð. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest úrslausn hans um frádrátt gæsluvarðahalds. Hinn 5. maí 2004, að gengnum dómi héraðsdóms, var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald meðan á áfrýjunarfresti stóð á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 allt til dagsloka 2. júní sama árs. Með dómi Hæstaréttar 7. sama mánaðar var sá úrskurður staðfestur. Skal einnig draga gæsluvarðhaldsvist ákærða samkvæmt þeim dómi frá refsingu hans, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Guðjóns Björgvins Guðmundssonar, skal einnig draga gæsluvarðhald hans með fullri dagatölu frá 5. maí 2004 til 2. júní sama árs.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2004.
Málið er höfðað með birtingu á ákæruskjali dags. 23. desember 2003 á hendur X, [kt. og heimilisfang], Reykjavík og Guðjóni Björgvini Guðmundssyni, [kt.], Torfufelli 35, Reykjavík:
“fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003, nema annað sé tekið fram:
I.
Ákærðu báðum fyrir hylmingu, með því að hafa föstudaginn 15. ágúst á þáverandi heimili þeirra að Torfufelli 35, verið þar með eftirgreinda hluti þrátt fyrir að ákærðu væri ljóst að varningnum hafði verið stolið:
1. Vegabréf A, [kt.], silfurborðbúnað, 2 giftingarhringa, gullhring með rúbínsteini, 2 silfurarmbönd, gullhálsmen með steini, gullhring með steini og skartgripaskrín, en hlutum þessum var stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að B-húsi í Kópavogi þriðjudaginn 12. ágúst.
M. 037-2003-03640
2. Nokia NMT farsíma, Adidas íþróttatösku og íþróttafatnað, en hlutum þessum var stolið úr bifreiðinni C, á bifreiðastæði við D-húsi fimmtudaginn 7. ágúst.
M. 010-2003-18926
3. Greiðslukort, frímerkjasafn og fyrsta dags umslög, en hlutum þessum var stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að E-húsi í Kópavogi sunnudaginn 10. ágúst.
M. 037-2003-03780
Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Ákærða Guðjóni Björgvini:
1. Þjófnaði og tilraun til þjófnaðar:
1.1. Þriðjudaginn 12. ágúst, á bifreiðastæði Húsasmiðjunnar við Fossaleyni, farið í heimildarleysi inn í bifreiðina F og stolið Nokia farsíma og 2 kippum af bjór, samtals að verðmæti kr. 17.000.
M. 010-2003-19334
1.2. Fimmtudaginn 14. ágúst, á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, og stolið seðlaveski, sem innihélt greiðslukort og ýmis skilríki.
M. 010-2003-19454
1.3. Stuttu síðar sama dag, á eftirgreindum stöðum og með eftirgreindum hætti stolið samtals kr. 135.000 með því að nota heimildarlaust debitkort B, [kt.], sem ákærði hafði komist yfir ófrjálsri hendi, sbr. lið II/1.2, og heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortið og gjaldfært á reikning hennar:
1.3.1. Í hraðbanka Spron við Grímsbæ, stolið kr. 15.000 sem ákærði tók út úr bankanum.
1.3.2. Í hraðbanka Búnaðarbanka Íslands við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Austurbergi 5, stolið kr. 15.000 sem ákærði tók út úr bankanum.
1.3.3. Á sama stað, stolið kr. 5.000 með því að millifæra af reikningi B yfir á reikning nr. 0328 13 229 sem er í eigu ákærða.
1.3.4. Á sama stað, stolið kr. 50.000 með því að millifæra af reikningi B yfir á fyrrgreindan reikning ákærða.
1.3.5. Á sama stað, stolið kr. 50.000 með því að millifæra af reikningi B yfir á reikning nr. [ ] sem er í eigu C,[ kt.].
M. 010-2003-19454
1.4. Sama dag farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að F-húsi og stolið veskjum, snyrtivörum, skartgripum, farsíma, myndavél og skilríkjum, samtals að verðmæti kr. 128.500.
M. 010-2003-19377
1.5. Sama dag í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í íbúðarhúsnæði að G-húsi, í félagi við C, [kt.], með því að spenna upp hurð en horfið af vettvangi er þeir urðu mannaferða varir.
M. 010-2003-19428
Teljast brotin í lið II/1 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. hvað viðkemur brotinu í ákærulið II/1.5.
2. Hylmingu með því að hafa föstudaginn 15. ágúst, er ákærði var handtekinn af lögreglu við H-húsi, verið með í vörslum sínum Nokia farsíma þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að honum hafði verið stolið, en símanum var stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að B-húsi í Kópavogi þriðjudaginn 12. ágúst.
M. 037-2003-03640
Telst brot skv. lið II/2 varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
3. Fjársvik með því að hafa er ákærði var í refsivist í fangelsinu að Litla-Hrauni, með símtali blekkt starfsmann Íslandsbanka, til þess að millifæra heimildarlaust fé af reikningi D,[ kt], yfir á eftirfarandi reikninga:
3.1 Mánudaginn 19. ágúst 2002, kr. 50.000 yfir á reikning afa síns E,[ kt.].
3.2 Fimmtudaginn 22. ágúst 2002, kr. 50.000 yfir á reikning F,[ kt.].
M. 033-2002-05183
Teljast brot skv. lið II/3 varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.
D, [kt.], gerir kröfu um skaðabætur á hendur ákærða Guðjóni Björgvini að fjárhæð kr. 100.000 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 af kr. 50.000 frá 19. ágúst 2002 til 22. ágúst s.á. og af kr. 100.000 frá þeim degi til greiðsludags. Að auki er krafist kr. 20.916 vegna lögmannskostnaðar og er virðisaukaskattur innifalinn.
M. 033-2002-05183“
Hinn 24. janúar 2004 var þingfest ákæra á hendur ákærðu, dags. 23. s.m., í máli nr. S-40/2004:
“fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003:
I.
Ákærðu báðum fyrir hylmingu, með því að hafa föstudaginn 15. ágúst á þáverandi heimili þeirra að Torfufelli 35, verið þar með Ericson farsíma þrátt fyrir að ákærðu væri ljóst að um þýfi var að ræða, en símanum hafði verið stolið í innbroti í íbúðarhúsnæði að I-húsi þriðjudaginn 22. júlí.
M. 010-2003-17856
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Ákærða Guðjóni Björgvini:
1. Skjalafals:
1.1. Fimmtudaginn 20. júní 2002 notað í viðskiptum svo sem rakið er eftirgreinda 2 tékka, samtals að fjárhæð kr. 132.000, sem ákærði ritaði til handhafa á reikning nr. [ ] úr stolnu tékkhefti frá Sparisjóði Hafnarfjarðar og falsaði með útgefandanafnrituninni G:
1.1.1. Tékka nr. 6880605 að fjárhæð 130.000 kr. Ákærði seldi tékkann í Íslandsbanka, Smáralind, Kópavogi.
1.1.2. Tékka nr. 6880608 að fjárhæð 3.000 kr. Seldur á bensínafgreiðslu Olís í Breiðholti í Reykjavík.
M. 010-2002-21159
1.2. Sama dag í félagi við H, [kt.], staðið að því að selja í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Smáralind, Kópavogi, tékka úr ofangreindu tékkhefti nr. 6880603 að fjárhæð 125.000 kr., en ákærði falsaði tékkann, að viðstaddri H, með útgefandanafnrituninni G og H framseldi tékkann.
M. 010-2002-21159.
Teljast brotin í lið II, 1 varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
2. Fjársvik með því að hafa með símtölum blekkt starfsmenn Landsbanka Íslands hf., til þess að millifæra heimildarlaust fé af reikningi I, [kt.], yfir á eftirtalda reikninga:
2.1. Mánudaginn 28. júlí, kr. 40.000, yfir á reikning nr. [...] í eigu J, [kt.].
M. 033-2003-03223
2.2. Sama dag, kr. 450.000, yfir á reikning nr. [...] í eigu ákærða.
M. 033-2003-03223
2.3. Þriðjudaginn 29. júlí, kr. 25.000, yfir á fyrrgreindan reikning J.
M. 010-2003-19934
2.4. Sama dag, kr. 125.000, yfir á reikning nr[...] í eigu ákærða.
M. 010-2003-19934
Teljast brotin í lið II, 2 varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
3. Þjófnaði og tilraun til þjófnaðar:
3.1. Mánudaginn 20. október farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að J-húsi og stolið 2 Canon myndavélum, töskum, skartgripum, armbandsúri, pennasetti, geisladiskum, sólgleraugum, silfurskríni og Nitec fartölvu, samtals að verðmæti um kr. 529.000.
M. 010-2003-24355
3.2. Föstudaginn 28. nóvember farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að K-húsi og stolið DVD spilara og tösku sem innihélt skólabækur, skilríki og greiðslukort, samtals að verðmæti kr. 31.755.
M. 010-2003-27403
3.3. Á sama tíma í þjófnaðarskyni, á bifreiðastæði við K-húsi, brotist inn í bifreiðina D með því að brjóta rúðu og leitað verðmæta án árangurs.
M. 010-2003-27403
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Eftirgreind fyrirtæki krefjast þess að að ákærði Guðjón Björgvin verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:
1. Olíuverslun Íslands hf., kt. 500269-3249, að fjárhæð kr. 3.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 20. júní en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.
M. 010-2002-21159
2. Landsbanki Íslands hf., kt. 550291-2159, að fjárhæð kr. 125.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var 29. júlí 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 010-2003-19934
3. Landsbanki Íslands hf., kt. 550291-2159, að fjárhæð kr. 450.090 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var 28. júlí 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 033-2003-03223“
Málin voru sameinuð í þinghaldi 24. janúar 2004 og rekin undir númerinu S-3600/2003.
Mál þetta var upphaflega úthlutað Valtý Sigurðssyni héraðsdómara og var skýrsla tekin af ákærðu X og Guðjóni Björgvini í þinghaldi við upphaf aðalmeðferðar málsins 19. mars 2004. Var málinu síðan frestað til framhaldsaðalmeðferðar 6. apríl 2004. Í millitíðinni var mál þetta endurúthlutað til Róberts R. Spanó setts héraðsdómara. Við upphaf nýrrar aðalmeðferðar málsins 6. apríl 2004 var á ný tekin skýrsla af ákærðu. Þá voru skýrslur einnig teknar af vitnum og var aðalmeðferð málsins fram haldið í því skyni 7. apríl 2004 og 15. apríl 2004 en þá var málið tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi.
Við aðalmeðferð málsins 15. apríl 2004 var af hálfu ákæruvaldsins byggt á því að háttsemi beggja ákærðu samkvæmt ákæruliðum I í ákæru, dags. 23. desember 2003, háttsemi ákærða Guðjóns Björgvins samkvæmt ákærulið II.2. í sömu ákæru, og háttsemi beggja ákærðu samkvæmt ákærulið I í ákæru, dags. 23. janúar 2004, yrði til vara heimfærð til 263. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu verjanda ákærðu X var því haldið fram að varakrafa ákæruvaldsins um heimfærslu ofangreindra ákæruliða, sem beinast að ákærðu, til 263. gr. hegningarlaga væri of seint fram komin.
Af hálfu ákæruvaldsins var við aðalmeðferð málsins óskað eftir því að orðin „í refsivist“ í ákærulið II.3. í ákæru, dags. 23. desember 2003, yrði breytt í orðin: „í gæsluvarðhaldi“. Þá var af hálfu ákæruvaldsins fallið frá ákæruliðum II.2.1. og II.2.3. í ákæru, dags. 23. janúar 2004, sem beindust að ákærða Guðjóni Björgvini einum. Þá var af hálfu ákæruvaldsins fallið frá orðunum: „kr. 132.000“ í ákærulið II.1.1. í ákæru, dags. 23. janúar 2004.
Verjandi ákærðu, X, gerir þær kröfur að ákærða verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist að verjanda verði tildæmd málsvarnarlaun að mati dómsins.
Verjandi ákærða, Guðjóns Björgvins, gerir þær kröfur að ákærði verið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og framkomnum bótakröfum verði vísað frá dómi. Þá er þess krafist að ef til frelsisskerðingar ákærða Guðjóns Björgvins komi verði gæsluvarðhaldsvist hans, samtals 219 dagar, dregin frá með fullri dagatölu þannig að gæsluvarðhaldstíminn verði talinn og reiknaður með afplánunartíma áður en til ákvörðunar komi um reynslulausn. Er á því byggt að draga eigi frá gæsluvarðhaldsvist ákærða Guðjóns Björgvins á eftirgreindum tímabilum: 14. júlí 2002 - 19. júlí 2002, 20. júlí 2002 - 2. september 2002, 15. ágúst 2003 - 26. september 2003, 1. nóvember 2003 - 5. nóvember 2003, 16. desember 2003 - 23. desember 2003, 23. desember 2003 - 30. mars 2004 og 30. mars 2004 - 7. apríl 2004. Loks krefst verjandi ákærða Guðjóns Björgvins að allur sakarkostnaður, þ.m.t. réttargæslu- og málsvarnarlaun honum til handa, verði greiddir úr ríkissjóði.
Mál þetta var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þess 15. apríl 2004.
I.
Ákæra dagsett 23. desember 2003.
Ákæruliðir I.1.-3. - Málsatvik.
Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar í Reykjavík, dags. 15. ágúst 2003, skj. I/3-1, kemur fram að lögreglumenn hafi þann dag gert húsleit að Torfufelli 35 í Reykjavík í tengslum við rannsókn ýmissa mála. Við húsleitina hafi lögreglumenn fundið fjölda muna og bókhaldsgagna sem tengja mætti við innbrot og þjófnaði og hafi verið lagt hald á þá. Í skýrslu lögreglu, dags. sama dag, um haldlagningu umræddra muna, en frumrit hennar er á skj. I/10-1 (mál nr. 010-2003-19428), er að finna lista þar sem tilgreindir eru 62 haldlagðir munir. Í 18. lið skýrslunnar er rakið að lagt hafi verið hald á „minnisbækur (stílabók og blokk)“ sem hafi verið á rúmi í stofu, sbr. skj. I/12-1, IV/10-3 og IV/10-4 (mál nr. 010-2003-19428).
Um ákærulið I.1.
Í lögregluskýrslu, dags. 12. ágúst 2003, skj. I/1-1, kemur fram að á umræddum tíma hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að B-húsi vegna innbrots og þjófnaðar. Hafi verið farið á staðinn og hafi þar hist fyrir heimilisfólkið, A og K. Í skýrslunni er skráð að eftir að hafa skoðað ummerki hafi þau talið að eftirtalið væri m.a. horfið úr íbúðinni: silfurborðbúnaður (8 skeiðar og 8 gafflar) með svonefndu Reykjavíkurmunstri, rauðbrúnt skartgripaskrín þar sem í hefðu verið gull- og silfurhringir, silfurarmband, gullhálsmen og eyrnalokkar.
Í skýrslu lögreglu, dags. 13. ágúst 2003, skj. I/2-1, sem lögð var fram fyrir dómi, er rakið að þegar lögreglan hafi verið þann dag að B-húsi við rannsókn innbrotsins hafi L komið þar að og hafi sagst sakna Nokia gsm-síma af 3410 gerð. Hafi hún aðspurð ekki vitað IMEI-númer hans en kvaðst myndu koma því til lögreglu. Í skýrslu lögreglu, dags. 19. ágúst 2003, skj. I/6-1, er síðan rakið að haft hafi verið samband við föður L og hafi erindið verið að kanna hvort sá sími sem ákærði Guðjón Björgvin var með á sér við handtöku 15. ágúst 2003 gæti verið sá sem stolið hafi verið frá L. Hafi faðir L þá gefið upp IMEI- númerið 351.100.200.833.856 á síma L og hafi það passað við það númer sem hafi verið í símanum sem ákærði Guðjón Björgvin hafi verið með á sér við handtöku. Sjá hér ákærulið II.2. í ákæru, dags. 23. desember 2003.
Í skýrslu Gísla Breiðfjörð Árnasonar, rannsóknarlögreglumanns, dags. 25. ágúst 2003, skj. I/7-1, sem lögð var fram fyrir dómi, kemur fram að þann dag hafi hann og annar lögreglumaður afhent K muni sem stolið hafi verið á heimili hennar að B-húsi í ofangreindu innbroti sem framið hafi verið 12. ágúst. Í ofangreindri skýrslu frá 25. s.m. kemur fram að allir munirnir, sem teknir hafi verið úr innbrotinu, hafi fundist við ofangreinda húsleit að Torfufelli 35 í Reykjavík að undanskildum Nokia (ritað „Mokia“ í skýrslu) 3410 gsm-síma sem hafi fundist á ákærða Guðjóni Björgvini við handtöku hans 15. ágúst 2004.
Um ákærulið I.2.
Hinn 7. ágúst 2003 kærði M, sbr. skj. I/1-1, þjófnað á farsíma að gerðinni Nokia (ritað „Nocia“ í kæruskýrslu), myndavél af gerðinni Olympus (ritað „Olumpus“ í kæruskýrslu), radarvara og æfingatösku fullri af íþróttavörum úr bifreiðinni C á bifreiðastæði við D-húsi í Reykjavík. Í 15 lið skýrslu lögreglu, dags. 15. ágúst 2003, um haldlagningu muna við húsleitina að Torfufelli 35 þann dag er skráð „Adidas íþr.taska“. Þá er í lið 29 skráður Nokia NMT sími. Hvergi er hins vegar í skýrslunni skráð að íþróttafatnaður hafi verið haldlagður á umræddum tíma. Í skýrslu Gísla Breiðfjörð Árnasonar rannsóknarlögreglumanns, dags. 22. ágúst 2003, skj. I/4-1, kemur fram um húsleitina að í Torfufelli 35 hafi fundist æfingataska sem stolið hafi verið úr bifreiðinni C. Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 25. ágúst 2003, skj. I/5-1, segir að N hafi komið á lögreglustöðina að Hverfisgötu til að taka við Nokia NMT síma, tösku og æfingagalla sem stolið hafi verið úr bifreið hans C hinn 7. ágúst 2003.
Um ákærulið I.3.
Samkvæmt gögnum málsins kærði O innbrot á heimili sínu að E-húsi í Kópavogi en þar búi hann ásamt eiginkonu sinni P. Í kæruskýrslunni, dags. 20. ágúst 2003, skj. I/1-1, er skráður sá framburður O að Ingólfur Bruun lögreglumaður hafi haft samband við O mánudaginn 18. s.m. og sagst vera með hluti sem tilheyrðu O, m.a. „visa- og debetkort, frímerkjasafn og „fyrstadagsumslög“. Hafi O í fyrstu komið af fjöllum og ekki vitað til þess að hafa týnt þessum hlutum en við skoðun hafi komið í ljós að þessir hlutir hefðu horfið af heimili hans.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 15. ágúst 2003, um húsleit að Torfufelli 35 í Reykjavík kemur fram að í húsleitinni hafi m.a. fundist „9 möppur af frímerkjasafni og fyrstadagsumslögum“. Í skýrslu um umrædda haldlagningu er í 33 lið skráð „Frímmerkjasafn 8 bækur + fyrstadags umslög“. Í skýrslu lögreglu, dags. 22. ágúst 2003, þar sem er að finna lýsingu á þeim munum sem fundust við umrædda húsleit og þá hvaða málum þeir tengjast, er skráð varðandi innbrotið í E-húsi að þar hafi ásamt framangreindu frímerkjasafni og fyrstadagsumslögum fundist „greiðslukort húsráðandans“.
Í skýrslu lögreglu um afhendingu muna, dags. 13. nóvember 2003, kemur fram að í húsleitinni 15. ágúst s.á. að Torfufelli 35 hafi m.a. fundist „VISA og debetkort P“ E-húsi í Kópavogi, „frímerkjasafn í 8 bókum, ásamt fyrstadagsumslögum í svefnherbergi í austurenda“ og tilheyri þetta allt íbúum í E-húsi. Þá segir í skýrslunni að búið væri að afhenda P umrædda muni.
Verða nú raktir framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi um ákæruliði I.1.-3. í ákæru, dags. 23. desember 2003.
Ákærða, X, neitaði sök hvað varðar ákæruliði I.1.-3. í ákæru, dags. 23. desember 2003. Kvaðst hún ekkert kannast við muni þá sem getið er í áðurgreindum ákæruliðum. Hún kvaðst hafa átt heima að Torfufelli 35 og búið þar með ákærða Guðjóni Björgvini en íbúðin sé í eigu foreldra hans. Þau hafi búið þar tvö ein og verið í sambúð en sambandinu hafi lokið meðan ákærði Guðjón Björgvin var í gæsluvarðhaldi. Bar ákærða að hún teldi sig hafa búið að Torfufelli frá því í júní/júlí 2003 og flutt þaðan í september sama ár. Hún kvað þau Guðjón Björgvin hafa haft lykla að íbúðinni og ef til vill foreldra hans.
Hún kvaðst ekki vita hvernig þeir munir sem getið er í ákæruliðum I.1.-3. hafi komist inn á heimili þeirra Guðjóns Björgvins og segir að svo mikið drasl hafi verið á heimilinu að hún hafi ekki orðið vör við þessa hluti. Hún kvaðst ekki vita hvort Guðjón hafi komið með hlutina á heimilið. Hún taldi fullyrðingu Guðjóns Björgvins um að einhver vina hennar hafi borið hlutina í húsið fáránlega.
Aðspurð um muni í ákærulið I.2. kveðst hún ekkert vita hvernig þeir hafi komist á heimili þeirra Guðjóns Björgvins. Kveðst hún ekki hafa orðið vör við þessa muni og kannaðist ekkert við þá. Þá kvaðst hún ekkert vita um það hvernig greiðslukort, frímerkjasafn og umslög samkvæmt ákærulið 1.3. komust á heimili þeirra Guðjóns Björgvins. Hún sagðist lítið hafa verið heima á þessu tímabili og viti því ekkert hvernig þeir bárust inn á heimilið. Hún kvað tvö svefnherbergi vera í íbúðinni og annað hafa verið notað undir drasl sem Guðjón Björgvin átti.
Undir ákærðu var borin „stílabók“, sem lögð var fram fyrir dómi, skj. I/12-1, og var ákærða spurð um hvort hún hefði ritað nafnið „P“ sem fram kemur á bls. 5 (skj. I/12-5). Kvað hún þetta vera rithönd sína. Hún kvað ákærða Guðjón Björgvin hafa beðið hana að hreinskrifa þetta upp úr annarri bók sem hann hefði látið hana fá og hann hefði verið búinn að skrifa þessar upplýsingar í. Kvaðst hún ekki vilja tjá sig um hver hefði átt bókina. Þá var minnisbók, merkt skj. IV/10-3, borin undir ákærðu. Var hún spurð út í bls. 6 þar sem er að finna nöfnin „Q“ og „R“, „I-húsi“ og kvað ákærða hafa skrifað þennan texta fyrir ákærða Guðjón Björgvin upp úr annarri bók „eða blöðum“. Aðspurð kvað hún að ákærði hefði ekki sagt sér frá tilgangi umræddrar hreinritunar. Aðspurð nánar um hvort hún hefði ritað símanúmerin og textann „1. ágúst verða í París“ á bls. 6, skj. IV/10-3, kvaðst hún ekki hafa skrifað símanúmerin eða textann „forrík“ en annan texta hefði hún skrifað. Aðspurð kvaðst ákærða ekki vita hver skrifaði hinn textann en kvað það „líklegt“ að ákærði Guðjón Björgvin hefði gert það.
Dómari leyst X undan vitnaskyldu í málinu á grundvelli 2. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum kafla ákæru. Hann kvaðst í júlí og ágústmánuði 2003 hafa búið að Torfufelli 35 með ákærðu X. Hann kvaðst ekki kannast við neina þá muni sem frá greinir í ákæruliðum I.1-3. Aðspurður um hvort hann hefði skýringar á því að þessir munir hefðu verið á heimili hans þegar húsleitin fór fram 15. ágúst 2003 kvað ákærði sig hafa verið í mikilli óreglu á þessum tíma og hafi heimili hans verið „óreglubæli“ og „bækistöð fyrir óreglufólk“. Hann hafi ekki fylgst með því vegna óreglu sinnar hverjir hefðu geymt hvað á heimili hans. Hann hafi „keypt sumt og selt sumt“ af munum en hvort þetta hafi verið þýfi eða ekki hafi hann ekki viljað vita. Hvað varðar sérstaklega muni þá sem greinir í ákæruliðum I.1.-3. kvaðst ákærði ekki hafa stolið þeim né vitað að þeir væru þýfi.
Undir ákærða var borin „stílabók“ merkt skj. IV.12.1. og hann beðinn um að tjá sig um upplýsingar á bls. 5 (skj. IV/12-5) þar sem fram kemur nafn „P“. Aðspurður um framburð ákærðu X um að ákærði Guðjón Björgvin hafi beðið hana að hreinskrifa nafnið kvaðst Guðjón Björgvin ekki telja það réttan framburð. Kvaðst hann ekki skilja hvað ákærðu X gengi til með slíkum framburði. Þá var borin undir ákærða minnisbók IV/10-3, og upplýsingar á bls. 6 og hann spurður út í það hvort hann hefði skrifað annan texta á sem þar kemur fram en ákærði X hafi játað að hafa ritað. Kvað hann það „af og frá“ að hann hafi ritað textann „forrík“ og umrædd símanúmer. Hann hafi ekki verið í því ástandi að geta skrifað textann.
Vitnið, Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið viðstaddur húsleitina 15. ágúst 2003 að Torfufelli 35. Greindi vitnið frá því að í framhaldi af handtöku ákærðu aðfaranótt sama dags hafi hann og tveir aðrir rannsóknarlögreglumenn farið í íbúðina. Er þeir komu á staðinn hafi munir fundist sem síðar voru tengdir við nokkuð mörg innbrot og þjófnaði. Aðspurður um hvar þessir munir hafi verið í íbúðinni og hvort þeir hefðu verið sjáanlegir kvað vitnið að munirnir hefðu flestir verið í stofunni og síðan hafi fundist einhverjir munir í svefnherberginu. Þetta hafi verið „út um allt í stofunni“ og verið í allra augsýn. Vitnið bar að hann teldi sig nokkuð vissan um að hafa fundið umrætt „frímerkjasafn og fyrstadagsumslög“ inni í svefnherbergi íbúðarinnar, sbr. ákæruliður I.3. Aðspurt kvaðst vitnið telja sig hafa fundið þetta í skáp í svefnherberginu. Aðspurður um hvernig var umhorfs í íbúðinni þegar umrædd húsleit var gerð, þ.e. hvort vel hafi verið tekið til, svaraði vitnið því til að ekki væri rétt að segja að vel hafi verið tekið til. Munir hafi verið um allt í stofunni, á gólfinu, á borði og mikið í sófanum. Þá hafi í hillum og hillusamstæðum verið „mikið af allskyns dóti“. Ekki hafi verið um „greni“ að ræða, þ.e. ekki hafi verið um sóðaskap, en hlutir hafi hins vegar verið á víð og dreif. Aðspurður um hvort ákærðu Guðjón Björgvin og X hafi verið á staðnum þegar húsleitin var framkvæmd, svaraði vitnið að X hefði verið á staðnum. Ákveðið hafi verið að fara í umrædda húsleit eftir handtöku ákærðu og C. Ákærði Guðjón Björgvin hafi verið í fangageymslu þegar húsleitin fór fram.
Vitnið, Þorvaldur Bragason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið viðstaddur húsleitina 15. ágúst 2003 að Torfufelli 35. Bar vitnið að við húsleitina hafi fundist talsvert mikið af munum sem voru haldlagðir vegna gruns um að þetta væri þýfi. Aðspurður um hvernig var um horfs í íbúðinni bar vitnið að þarna hefði verið „draslaralegt, allt á rúi og stúi“. Hinir haldlögðu munir hefðu mest verið í stofunni, í tveimur svefnherbergjum og í eldhúsi. Munirnir hefðu bæði verið í allra augsýn og í kommóðuskúffum. Kvaðst hann muna eftir silfurborðbúnaði eða hnífapörum og þess háttar. Staðfesti vitnið skýrslu sína um haldlagða muni við húsleitina 15. ágúst 2003, skj. I/4-1. Aðspurður um hvort þessi listi hefði að geyma tæmandi talningu þeirra muna sem hefðu verið haldlagðir taldi vitnið svo vera. Aðspurður sérstaklega um lið 15 á skj. I/4-1, þar sem skráð er m.a. „Adidas íþr. taska“ sem fundist hafi „á rúmi í stofu“ kvað vitnið að um hefði verið að ræða „svefnsófi einhvers konar“. Aðspurður taldi vitnið sig muna að taskan hefði verið undir sæng. Aðspurður um lið 16 á skj. I/4-1, „silfurborðbúnaður í öskju, gafflar, hnífar og skeiðar“, sem skráð er að hafi fundist „á kommóðu í stofu“, bar vitnið að sig minnti að þetta hefði fundist ofan á kommóðunni. Eitthvað af þessu kynni að hafa verið á gólfinu en ekkert hafi verið í kommóðunni. Aðspurður um lið 33 á skj. I/4-1, „frímerkjasafn 8 bækur + fyrstadags umslög“, sem skráð er að hafi fundist í „svefnherbergi austanmegin“, kvað vitnið að í svefnherberginu hefðu verið munir um allt, „allt í einum graut meira og minna“.
Vitnið, S, skýrði svo frá fyrir dómi að 12. ágúst 2003 hefði verið brotist inn á heimili hans að B-húsi í Kópavogi. Aðspurður um hvort eitthvað af þýfinu hafi skilað sér aftur kvað hann svo vera. Vísaði hann til skjals með lista yfir umrædda muni sem hann hefði útbúið fyrir lögreglu, skj. I/8-2. Aðspurður bar vitnið að hann og eiginkona hans hefðu fengið eitthvað út úr tryggingu vegna málsins.
Ákæruliður I.1.-3. - Niðurstaða dómsins.
Ákærðu X og Guðjón Björgvin neita sök samkvæmt ákæruliðum I.1.-3. í ákæru, dags. 23. desember 2003. Er þeim gefin að sök hylming með því að hafa haft á heimili sínu 15. ágúst 2003, er framangreind húsleit lögreglu var gerð, hluti þá sem greinir í ákæruliðum I.1. til 3. þrátt fyrir að ákærðu væri ljóst að varningnum hefði verið stolið.
Í ákæru er um háttsemi ákærðu vísað til 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga en við flutning málsins var hálfu ákæruvaldsins vísað til 263. gr. sömu laga til vara. Þar sem dómara er heimilt samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 að dæma eftir öðrum refsiákvæðun en í ákæru greinir, þó aldrei aðrar kröfur en þar greinir, verður ekki fallist á það með verjanda ákærðu X að framkomin tilvísun ákæruvaldsins til vara sé of seint fram komin en aðilum var gefið færi á að tjá sig um ákæruliði II.1.-3. með 263. gr. hegningarlaga í huga.
Með 1. mgr. 254. gr. hegningarlaga er meðal annars gert refsivert að halda, án þess að verknaður varði við ákvæði 244., 245. eða 247.-252. gr., ólöglega fyrir eigandanum hlut eða öðru verðmæti, sem aflað hefur verið á þann hátt sem í þeim greinum segir. Geymsla hluta eða muna ein og sér, sem aflað hefur verið með broti á 244. gr. hegningarlaga, fellur því innan verknaðarlýsingar 1. mgr. 254. gr. hegningarlaga að uppfylltum huglægum efnisskilyrðum. Að teknu tilliti til 18. gr. hegningarlaga verður manni ekki refsað fyrir hylmingu, sbr. 1. mgr. 254. gr. hegningarlaga, nema að hann hafi vitað eða hlotið að vera ljóst að virtum ytri atvikum að þeir hlutir, sem hann hefur í geymslu sinni, séu fengnir t.d með broti á 244. gr. sömu laga.
Sannað er með framburði beggja ákærðu fyrir dómi að íbúðin að Torfufelli 35 í Reykjavík, þar sem umræddir munir fundust, hafi verið heimili þeirra frá því í júlí til september 2003. Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla um haldlagningu muna, dags. 15. ágúst 2003, skj. I/4-1, og gagna um afhendingu muna til eigenda. Af rannsóknargögnum lögreglu um haldlagningu muna við húsleitina, afhendingu þeirra til eigenda, og framburða vitna fyrir dómi er nægilega leitt í ljós að þeir munir sem taldir eru upp í ákæruliðum I.1.-3. hafi verið í nefndri íbúð ákærðu 15. ágúst 2003 að undanskildum „íþróttafatnaði“ sem greinir í ákærulið I.2. Af framburði vitnanna Gísla Breiðfjörð Árnasonar og Þorvaldar Bragasonar rannsóknarlögreglumanna fyrir dómi, og gögnum málsins, einkum lýsingu í skýrslu lögreglu um haldlagningu muna, dags. 15. ágúst 2003, liggur fyrir að umræddir munir voru í flestum tilvikum að finna í stofu og verið þar á víð og dreif í allra augsýn. Þá hafi munir sem greinir í ákærulið I.1.-3. verið í svefnherbergi austanmegin innan um annað dót.
Í framburði sínum fyrir dómi bar ákærði Guðjón Björgvin að hann hefði á umræddum tíma keypt og selt muni og ekki viljað vita hvort um þýfi væri að ræða. Þá liggur fyrir, eins og nánar er ákært fyrir í lið II.2. í ákæru, dags. 23. desember 2003, að á ákærða fannst sími sem tekin var í innbroti að B-húsi í Kópavogi þann 12. ágúst 2003 en munir úr því innbroti, sem lýst er í ákærulið I.1. sem hér er fjallað um, fundust á heimili hans að Torfufelli 35 þremur dögum síðar. Við þá húsleit fannst einnig „stílabók“, skj. I/12-1, þar sem nafn P, íbúa að E-húsi, sbr. ákærulið I.3., er ritað. Hefur ákærða X játað fyrir dómi að hafa ritað nafn P í stílabókina og hafi það verið gert að beiðni ákærða Guðjóns Björgvins.
Ákærðu hafa viðurkennt að hafa búið saman í Torfufelli 35 í júlí til september 2003. Þetta var því heimili þeirra. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að fjöldi muna hafi fundist við húsleit lögreglu í íbúð þeirra 15. ágúst 2003 sem hafi tengst innbrotum, m.a. munir þeir sem greinir í ákæruliðum sem hér er fjallað. Að þessu virtu, ótrúverðugum framburðum ákærðu, gögnum málsins og framburðum lögreglumanna, m.a. um staðsetningu umræddra hluta þegar húsleit lögreglu var gerð, telur dómurinn að ákærðu Guðjón Björgvin og X hafi hlotið að vera ljóst að umræddir munir sem lýst er í ákæruliðum I.1.-3. í ákæru, dags. 23. desember 2003, að undanskildum „íþróttafatnaði“, sbr. liður I.3., hafi verið fengnir með frumbroti sem lýst er í 1. mgr. 254. gr. hegningarlaga og að þau hafi með geymslu þeirra á heimili sínu 15. ágúst 2003 haldið þeim ólöglega fyrir eigendum þeirra. Verða þau því sakfelld fyrir þá háttsemi sem greinir í nefndum ákæruliðum og varðar brot þeirra beggja við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II.1.1. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 12. ágúst 2003, skj. I/1-1, barst tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu um innbrot í bifreið við Húsasmiðjuna í Grafarvogi. Lögreglumenn fóru á vettvang og hittu þar tilkynnanda, T, sem kvaðst hafa lagt bifreið sinni við verslunina við hlið bifreiðarinnar [...] en í henni hafi verið tveir ungir menn um 25 ára. Hann kvaðst hafa gleymt að læsa bifreiðinni og farið inn í verslunina. Þegar hann hafi komið út hafi hann tekið eftir því að farið hefði verið inn í bifreiðina og tekið úr henni Nokia 5210 farsími og tvær kippur af bjór. Tilkynnandi kvaðst hafa rætt við mennina í bifreiðinni [...], en skráður eigandi hennar er C, og sagði þá hafa brugðist illa við og orðið mjög æsta. Við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 í Torfufelli 35 fannst Nokia 5210 farsími samkvæmt skýrslu Gísla Breiðfjörð Árnasonar rannsóknarlögreglumanns, dags. 18. ágúst 2003, skj. I/4-1, var sá sími afhentur T eftir að hann hafði gefið upp rétt pin-númer símans og upplýsingar úr símaskrá hans. Í skýrslu lögreglu um haldlagningu muna í húsleitinni, dags. 15. ágúst 2003, skj. I/3-1, er skráð undir lið 7 að „þrír Nokia GSM-símar“ hafi fundist í kommóðu vestan megin í stofunni.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum ákærulið. Kvaðst hann hafa verið á vettvangi á umræddum tíma með öðrum manni og talið nefndan síma og bjór hafa verið stolið frá sér. Um hafi verið að ræða „lítinn bláan síma“ sem hann hafi fengið lánaðan hjá móður sinni auk þess sem hann hafi verið nýkominn úr „ríkinu“ þar sem hann hafi keypt bjórinn. Aðspurður um hvort hann hafi farið inn í bifreiðina F til að ná í umrædda muni neitaði hann því. Aðspurður um hvar hann hafi náð í þessa muni kvað hann telja að hann hafi „tekið þá af viðkomandi“ en hann hafi talið sig eiga þá. Þetta hafi hann heyrt „út undan sér“. Undir ákærða var borin skýrsla sem hann gaf fyrir lögreglu, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5-1, þar sem bókað er að ákærði hafi borið að hafa farið inn í bifreiðinna F. Aðspurður um hvort ákærði teldi þennan framburð fyrir lögreglu rangan kvaðst hann ekki telja svo vera. Hann útiloki ekki að hafa farið inn í bifreiðina. Kvaðst hann hafa „tekið þetta í misgripum“. Hann hafi hins vegar ekki ætlað að stela þessu.
Vitnið, T, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið fyrir utan Húsasmiðjuna á umræddum tíma. Bifreið hans F hafi verið læst. Þegar hann hafi komið út hafi hann opnað bifreið sína og hafi hann séð að við hlið hennar hafi verið [bíll] og tveir menn inni í honum. Hafi hann farið aftur inn í búðina í eina mínútu og þegar hann hafi komið til baka þá hafi verið búið að hrifsa úr bifreiðinni síma og bjór. Hafi hann þá spurt mennina tvo í bifreiðinni við hliðina hvort þeir hafi orðið varir við mannaferðir við bifreið sína og hafi þeir neitað því og verið taugaóstyrkir. Hafi hann þá séð bjórkippuna í bifreið tvímenningana. Hafi þeir þá bakkað bifreiðinni, spurt vitnið hvort hann væri á lyfjum og brunað í burtu. Hafi vitnið þá tekið niður númer bifreiðarinnar. Síðar meir hafi hann fengið síma sinn til baka hjá lögreglu. Fullyrti vitnið að síminn sem hann hefði fengið til baka væri sinn sími. Í honum hefðu ennþá verið nöfn þau sem hann hefði skráð í símaskrá og sms-skeyti til hans. Aðspurður um hvort hann kannaðist við að „imei-númer“ hafi verið skafið úr símanum kvað vitnið sig ekki vita neitt um það. Aðspurður kvað vitnið sig ekki geta fullyrt að ákærði hefði verið annar þeirra sem var í umræddri bifreið á vettvangi.
Vitnið, Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði yfirheyrt ákærða Guðjón Björgvin um framangreindan atburð og hafi hann kannast við að hafa farið inn í bifreið við Húsasmiðjuna og tekið umræddan síma og bjórkippu þar sem hann hafi talið að þessu hefði verið stolið frá sér fyrr þennan sama morgun. Aðspurður um hvernig farið hefði verið að því að tengja saman síma sem fannst við húsleitina 15. ágúst 2003 í Torfufelli 35 við þann síma sem kærandi T kvað hafa verið stolið frá sér bar vitnið að búið hefði verið að skafa IMEI-númerið úr umræddum síma. Hafi vitnið síðan lýst fyrir T þeim síma sem vitnið Gísli Breiðfjörð taldi að gæti verið sá sem kæra T hefði beinst að og hafi kærandi talið lýsinguna geta passað við síma sinn. Þá hafi vitnið óskað eftir því að T gæfi honum upp pin-númer símans til að opna símann og hafi vitnið slegið því inn í símann og hafi síminn opnast. Hafi vitnið þá farið í símaskrá símans og beðið T um að telja upp nöfn sem hann myndi eftir að ættu að vera í símaskránni og hefðu þau verið þar.
Ákæruliður II.1.1. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Í ákæru, dags. 23. desember 2004, lið II.1.1., er honum gefið að sök að hafa farið hinn 12. ágúst 2003 í heimildarleysi inn í bifreiðina F, þar sem hún var stödd á bifreiðastæði Húsasmiðjunnar við Fossaleyni, og stolið úr henni Nokia-farsíma og 2 kippum af bjór, samtals að verðmæti 17.000. Er brotið í ákæru talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Sannað þykir af framburðum vitnanna T og Gísla Breiðfjörð Árnasonar rannsóknarlögreglumanns að sími sá sem tekinn var úr bifreið hins fyrrnefnda 12. ágúst 2003, og er eign T, hafi fundist við húsleit þremur dögum síðar á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35. Vitnið T bar fyrir dómi að hann hafi á umræddum tíma tekið niður númer þeirrar bifreiðar sem nefndir tvímenningar voru í fyrir utan Húsasmiðjuna þegar atvik áttu sér stað 12. ágúst 2003 og er í frumskýrslu lögreglu skráð eftir T að númer bifreiðarinnar hafi verið [...] en skráður eigandi hennar sé C. Ákærði hefur borið fyrir lögreglu og fyrir dómi að hafa verið á bifreiðastæðinu á umræddum tíma með C og að hafa þar tekið síma og bjór sem hann hefði talið að væri sín eign. Þá taldi ákærði ekki útilokað að hann hefði farið inn í umrædda bifreið á bifreiðastæðinu. Fyrir dómi lýsti ákærði því síðan að hann hefði tekið símann og bjórinn „í misgripum“ og hafi hann ekki ætla að stela þeim.
Vitnið Gísli Breiðfjörð lýsti því skilmerkilega fyrir dómi að vitnið T hefði gefið upp rétt pin-númer Nokia 5210 síma sem hafi fundist á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35 við húsleitina 15. ágúst 2003 og greint frá nöfnum í símaskrá. Þá bar vitnið T með greinargóðum hætti fyrir dómi að hafa séð nefnda bjórkippu í bifreiðinni [...] sem nefndir tveir menn voru í á umræddum tíma eftir að hann varð þess var að sími hans og bjórinn hefðu verið teknir úr bifreið hans. Að þessu virtu og gögnum máls þessa telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun um sekt ákærða samkvæmt þessum ákærulið þrátt fyrir neitun hans. Brot hans varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliðir II.1.2 og 1.3. (1.3.1.-1.3.5.) - Málsatvik.
Í skýrslu lögreglu, dags. 15. ágúst 2003, segir að 14. ágúst 2003 hafi starfsmaður Búnaðarbanka Íslands haft samband við lögreglu vegna tilkynningar frá Landsbanka Íslands um að hugsanlega hafi verið stolið greiðslukorti er notað var í hraðbanka Búnaðarbankans í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Um hafi verið að ræða debetkort B á tékkareikning hennar í útibúi Búnaðarbanka Íslands nr. [...]. Í skýrslunni segir að lögreglan hafi haft samband við dóttur B og hafi þá komið í ljós að seðlaveski B hefði verið stolið úr tösku hennar en taskan hefði verið geymd á stofu hennar á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Hafi dóttirin tjáð lögreglunni að móðir sín hafi minnst þess að hafa farið á salerni að morgni 15. ágúst 2003 en þegar hún hafi komið til baka hafi taska hennar verið út við dyr herbergisins en hún hafi bara tekið hana og sett aftur ofan í skúffu, þar sem hún hafi verið áður, án þess að athuga hvort eitthvað væri horfið.
Samkvæmt yfirliti yfir úttektir og millifærslur af reikningi B, sbr. skj. I/2-1, og kvittunum, sbr. skj. I/3-1, voru fjármunir teknir út af reikningnum 5 sinnum 14. ágúst 2003, samtals að fjárhæð 135.000 krónur. Lagt var hald á debetkort B við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35. Þá fannst þar sjúkrasamlagsskírteini B og félagsskírteini hennar fyrir eldri borgara ásamt ýmsum öðrum kortum og minnismiðum, sbr. skýrslu lögreglu, dags. 22. ágúst 2003, skj. I/9-1. Þá fannst við leit á þeim munum sem voru í fórum ákærða Guðjóns Björgvins við handtöku 15. ágúst 2003 miði með með árituninni: „B [nr.]“ en í ljós hafi komið að tölurnar séu símanúmer skráð á B, sjá skj. I/3-1 (mál nr. 010-2003-19428).
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitaði fyrir dómi sök hvað varðar ákærulið II.1.2. Undir ákærða var borin skýrsla sem hann gaf fyrir lögreglu, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5-1, þar sem bókað er að hann hafi ákveðið að breyta framburði sínum um þetta atriði og að hann játi að hafa stolið framangreindu seðlaveski og hafi atburðurinn átt sér stað á sjúkrastofu á Landsspítalanum í Fossvogi. Kvaðst ákærði fyrir dómi að hafa lesið þessa skýrslu. Aðspurður um skýringu á því misræmi sem væri á framburði hans fyrir lögreglu og fyrir dómi um þennan ákærulið kvað ákærði að „Aðalsteinn lögreglumaður“ hefði lofað honum að hann færi strax í meðferð ef hann myndi „bara játa þetta mál“. Ákærði kvað Aðalstein lögreglumann hafa verið viðstaddan yfirheyrsluna. Aðspurður um skýringar á því að við handtöku hans við [...] 15. ágúst 2003 hafi fundist miði með símanúmeri B, eiganda seðlaveskisins sem stolið var á Landspítalanum kvaðst ákærði ekki vita ástæðu þess. Myndi hann ekki neitt eftir þessum tíma. Aðspurður um skýringar á því að greiðslukort, sjúkrasamlagsskírteini og félagsskírteini B hafi fundist við húsleit lögreglunnar 15. ágúst 2003 í Torfufelli 35 kvaðst ákærði vísa til þess sem hann hefði sagt áður. Heimilið hefði verið óreglubæli. Kvaðst hann telja útilokað að hann hafi stolið seðlaveskinu á Landspítalanum 14. ágúst 2003.
Ákærði neitaði sök hvað varðar ákærulið II.1.3.(1.3.1.-1.3.5.) Kvaðst hann telja að hann hafi ekki getað gert þetta. Undir ákærða var borinn framburður hans fyrir lögreglu um millifærslur og úttektir hans af greiðslukorti B, sbr. skýrsla, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5-3. Gaf hann sömu skýringar um ástæður þessa framburðar og að framan er getið. Aðspurður bar hann að áður en hann hefði tjáð sig fyrir lögreglu um hvernig háttað var fjárhæðum umræddra úttekta og millifærslna hefði lögreglan sagt honum þessar upplýsingar. Aðspurður um ástæður þess að úttektir af reikningi B samkvæmt ákæruliðum II.1.3.3. og II.1.3.4. hafi verið lagðar inn á reikning ákærða bar hann að ef bankareikningar hans væru skoðaðir væri um margar millifærslur að ræða. Hann hefði verið að kaupa og selja muni á þessum tíma til þess að halda sér uppi.
Vitnið, Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði tekið skýrslu af ákærða Guðjóni Björgvini hjá lögreglu vegna þessa máls. Aðspurður um hvort ákærða hafi verið lofað einhverju fyrir að játa á sig verknaðinn svaraði vitnið því neitandi. Vitnið hefði ekki lofað ákærða neinu og hefði það aldrei verið rætt. Aðspurður um hvort það hafi komið til tals hjá vitninu og starfsfélögum hans og ákærða Guðjóni Björgvini hverjir möguleikar ákærða væru á því að komast í meðferð svaraði vitnið því neitandi. Aðspurður um hvort lögreglumaður að nafni Aðalsteinn hafi verið viðstaddur skýrslutökuna kvaðst vitnið sig ekki reka minni til þess. Undir vitnið var borin umrædd skýrsla ákærða fyrir lögreglu, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5. Vitnið lýsti því að ákærði hefði í fyrstu neitað verknaðinum en eftir að hafa ráðfært sig einslega við verjanda hafi hann gengist við því að hafa stolið nefndu seðlaveski B. Sérstaklega aðspurður kvað vitnið að ákærði hefði ekki verið beittur neinum þvingunum. Aðspurður um hvort ákærða Guðjóni Björgvini hafi við upphaf yfirheyrslunnar verið kynntar einstakar millifærslur og upphæðir þeirra svaraði vitnið því til að hann minntist þess ekki.
Vitnið, Aðalsteinn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði aðstoðað annan rannsóknarlögreglumann við rannsókn á ætluðu innbroti ákærða Guðjóns Björgvins í bifreið í Bakkahverfi í Breiðholti. Hann hefði ekkert komið að rannsókn ætlaðs þjófnaðar ákærða á seðlaveski á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa verið viðstaddur skýrslutöku um það mál og hafa ekkert rætt við ákærða Guðjón Björgvini á meðan á rannsókn þessa máls stóð. Sérstaklega aðspurður neitaði hann því að hafa lofað ákærða að fara í meðferð gegn því að hann játaði það brot sem lýst er í ákærulið II.1.2. Vitnið tók sérstaklega fram að lögreglan ynni ekki með þeim hætti.
Vitnið, Gísli Kristinn Skúlason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að í fangageymslu hefði hann fundið miða í kassa með munum þeim sem höfðu verið í fórum ákærða Guðjóns Björgvins við handtöku 15. ágúst 2003. Á miðanum hafi verið ritað nafn eldri konu en frá henni hafi verið stolið munum. Vitnið staðfesti skýrslu sína um fund sinn á umræddum miða, dags. 15. ágúst 2003, skj. I/3-1 (mál nr. 010-2003-19428). Aðspurður um hvort vitnið kannaðist eitthvað við að rætt hafi verið við ákærða Guðjón Björgvin hjá lögreglu um að hann kæmist í meðferð svaraði vitnið því neitandi.
Vitnið, Þorvaldur Bragason rannsóknarlögreglumaður, var spurður að því fyrir dómi hvort umræður um að ákærði Guðjón Björgvin kæmist í meðferð hefðu borið á góma á milli vitnisins og ákærða. Vitnið svaraði því til að ákærði Guðjón Björgvin hafi ítrekað „ámálgað“ það við lögreglumenn, einnig í fyrri málum sem vitnið hafi verið með þar sem ákærði hafi verið grunaður um brot, hvort ákærði gæti komist í meðferð en að lögreglumenn hafi ekki heimild til þess að fjalla um slíkt og verði að vísa slíku til annarra aðila.
Ákæruliður II.1.2-1.3. - Niðurstaða dómsins.
Ákærða er gefið að sök í ákærulið II.1.2. að hafa 14. ágúst 2003 stolið seðlaveski á Landspítala-háskólasjúkrahúsi sem hafi innihaldið greiðslukort og ýmis skilríki. Enda þótt ekki sé vísað til nafns eiganda umræddra muna í nefndum ákærulið verður hér lagt til grundvallar að virtu samhengi hans við ákærulið II.1.3. að í fyrri ákæruliðnum sé vísað til muna í eigu B. Er þá einnig horft til 2. málsl. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í ákæru er um báða ákæruliði II.1.2. og 1.3.(1.3.1-1.3.5) vísað til 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði neitaði sök hvað varðar báða ákæruliði II.1.2. og II.1.3. fyrir dómi. Af gögnum málsins telst sannað að debetkort B á reikningi [...], sjúkrasamlagsskírteini hennar og félagsskírteini fyrir eldri borgara hafi fundist við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35, þ.e. degi eftir að seðlaveski B með þessum munum var tekið á stofu hennar á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Þá liggur fyrir að við handtöku ákærða Guðjóns Björgvins 15. ágúst 2003 hafi fundist á honum miði með árituninni „B [nr.]“ en í ljós hafi komið að tölurnar séu símanúmer skráð á B. Af gögnum málsins liggur jafnframt ljóst fyrir að debetkort B hafi verið notað 5 sinnum hinn 14. ágúst 2003 til úttekta og millifærslna, sbr. reikningsyfirlit á skj. I/2-1. Þá voru lagðar fyrir dóminn fjórar kvittanir fyrir úttekt úr hraðbanka Búnaðarbanka Íslands við Fjölbrautaskólann í Breiðholti 14. ágúst 2003, skj. I/3-1 til I/3-4, upp á 15.000 krónur, kl. 09.52, 5.000 króna millifærsla kl. 13.33 inn á reikning nr. [...] í eigu ákærða en kennitala hans kemur fram á kvittuninni, 50.000 króna millifærsla kl. 13.35 inn á reikning í eigu C og 50.000 króna millifærsla kl. 13.36 inn á reikning í eigu ákærða. Þá liggur fyrir að ákærði Guðjón Björgvin tók út 55.000 krónur af reikningi sínum nr. [...] þennan sama dag, 14. ágúst 2003, kl. 15.29 í útibúi Búnaðarbanka Íslands í Mjódd, sbr. skj. I/4-1.
Ákærði játaði brot þau sem greinir í ákæruliðum II.1.2.-1.3.(1.3.1.-1.3.5.) við skýrslutöku fyrir lögreglu, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5-1, en verjandi hans var þar viðstaddur. Fyrir dómi bar hann hins vegar að framburður sinn fyrir lögreglu hefði verið rangur en hann hefði einungis játað brotið í ljósi þess að Aðalsteinn lögreglumaður hefði lofað honum meðferð í staðinn. Vitnið Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn en hann tók umrædda skýrslu af ákærða hjá lögreglu. Aðspurður um hvort ákærða hafi verið lofað einhverju fyrir að játa á sig verknaðinn svaraði Gísli Breiðfjörð því neitandi. Þá kom vitnið Aðalsteinn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður fyrir dóm og neitaði alfarið að hafa lofað ákærða meðferð í staðinn fyrir játningu hans um framangreind atvik, auk þess sem fyrir liggur af framburði hans og Gísla Breiðfjörð Árnasonar, auk undirritunar á umrædda skýrslu, að Aðalsteinn var ekki viðstaddur skýrslutökuna. Þótt vitnið Þorvaldur Bragason rannsóknarlögreglumaður hafi borið fyrir dómi að ákærði Guðjón Björgvin hafi ítrekað „ámálgað“ það við lögreglumenn, einnig í fyrri málum sem vitnið hafi verið með þar sem ákærði hafi verið grunaður um brot, hvort ákærði gæti komist í meðferð verður ekki talið með tilliti framburðar þeirra lögreglumann sem voru viðstaddir umrædda skýrslutöku 20. ágúst 2003 að skýringar ákærða fyrir dómi á umbreytingu þess framburðar sem hann gaf að viðstöddum verjanda sínum geti talist haldbærar eða trúverðugar. Þegar litið er til ofangreindra gagna og framburðar ákærða, m.a. skýrrar játningar hans fyrir lögreglu, liggur að mati dómsins fyrir lögfull sönnun um sekt ákærða hvað varðar þau brot sem lýst er í ákæruliðum II.1.2. og II.1.3.(1.3.1.-1.3.5.).
Ákæruliðir II.1.2. og II.1.3. eru settir þannig fram að um sé að ræða tvö sjálfstæð þjófnaðarbrot, hið síðara með fimm heimildarlausum úttektum af debetkorti sem var andlag hins fyrrnefnda brots. Þegar horft er til þess að debetkort hafa ein og sér verulega takmarkað fjárgildi, en verðmæti þeirra felst í því að þau eru heimildarskilríki að inneign fjármuna í banka, telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að eftirfarandi úttekt af debetkorti, sem tekið hefur verið ófrjálsri hendi, verði ekki virt sem sjálfstætt þjófnaðarbrot þegar um sama geranda er að ræða í báðum tilvikum, sbr. hins vegar til hliðsjónar H. 1997, bls. 1819. Heimildarlausar úttektir af debetkorti framkvæmdar í beinu framhaldi af upphaflegri töku kortsins verður undir slíkum kringumstæðum að virða heildstætt sem eitt brot er varði við 244. gr. almennra hegningarlaga, enda sé ekki með úttektum brotið gegn öðrum refsiákvæðum, s.s. 1. mgr. 155. gr. hegningarlaga. Fjárhæðir úttekta við slíkar aðstæður hafa hins vegar áhrif við mat á umfangi brots og ákvörðun refsingar komi til sakfellingar. Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að líta beri á brot samkvæmt ákæruliðum II.1.2. og II.1.3. (1.3.1.-1.3.5.) sem eitt brot er varði við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II.1.4. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 14. ágúst 2003, fékk lögreglan tilkynningu kl. 06:55 um að fara að F-húsi en þar hefði átt sér stað innbrot og þjófnaður. Lögreglumenn hittu á vettvangi húsráðendur, U og V, en þau sögðu að brotist hefði verið inn til þeirra á tímabilinu 00:30 06:30 en á þeim tíma hefðu þau verið sofandi á efri hæð hússins. Töldu þau innbrotsþjófana hafa komist inn í húsið um hurð á austurhlið hússins sem snýr út í garð. Segir í skýrslunni að engin ummerki hafi verið eftir innbrotsþjófa og ekki hafi sést nein ummerki á hurðinni sem snúi út í garðinn. Húsráðendur gerðu grein fyrir þeim munum sem stolið hafði verið úr húsinu, sbr. skýrslu lögreglu, dags. 14. ágúst 2003, skj. I/3-1. Var þar m.a. um að ræða Visa Electron debetkort U í Búnaðarbankanum í Mjódd, Visa Electron debetkort U í Landsbanka Íslands, útibú 111 og Visa kreditkort U.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 14. ágúst 2003, skj. I/3-1, sem lögð var fram í dómi, segir að samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarbanka Íslands í Mjódd hefði verið reynt að nota debetkort U í hraðbanka Landsbankans í Mjódd um kl. 05:01 um nóttina en gerðar hafi verið tvær tilraunir til úttekta. Þá hafi verið reynt að taka út á sama debetkort í hraðbanka í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Þá segir í skýrslunni að samkvæmt upplýsingum frá Greiðslumiðlun Íslands hafði tvisvar um nóttina, kl. 04:56 og 04:57, verið reynt að taka út á kreditkort U í hraðbanka Landsbankans í Mjódd en fyrir liggja myndir sem lögreglan aflaði úr eftirlitskerfi bankans.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 19. nóvember 2003, skj. I/11-1, aflaði lögreglan útskriftar Landsímans, dags. 13. október 2003, skj. I/10-1, um inn- og úthringingar aðfaranótt 14. ágúst 2003 í símanum [...], sem stolið var í F-húsi þá um nóttina, ásamt staðsetningu á símanum þegar síminn var notaður. Af útskriftinni má ráða að kl. 04:54 hafi verið reynt að hringja úr símanum í þjónustulínu Og Vodafone og í þjónustulínu Landsbanka Íslands. Í skýrslu lögreglu, dags. 19. nóvember 2003, skj. I/11-1, kemur fram að í þau skipti hafi síminn notast við símaendurvarpa sem staðsettur er í Þönglabakka og þjónar svæðinu Mjódd norður Þönglabakka. Í skýrslunni segir að á svipuðum tíma og þessar tilraunir til að hringja úr stolna símanum hafi átt sér stað hafi ákærði Guðjón Björgvin verið staddur í hraðbanka Landsbanka Íslands í Mjódd sem sé örstutt frá símaendurvarpanum í Þönglabakka. Myndir hafi náðst af ákærða Guðjóni Björgvini á eftirlitsmyndavélar í hraðbanka bankans, sbr. skj. I/4-1 til I/4-5. Við húsleit hinn 15. ágúst 2003 á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35 fundust meðal annars greiðslukort U ásamt fleiri kortum sem stolið hafði verið að F-húsi. Í skýrslu lögreglu, dags. 12. mars 2004, sem lögð var fram í þinghaldi 15. mars 2004, dómskjal nr. 9, er lýst að Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður hafi haft samband við V, íbúa að F-húsi, og fengið þær upplýsingar að U hafi fengið til baka nokkuð mörg greiðslukort og skilríki, Nokia gsm-síma, lyklakippu með húslyklum og bíllyklum húsráðenda.
Verður nú rakinn framburður ákærða fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum kafla ákæru. Hann kvaðst ekki muna eftir þessum atburðum. Vísaði hann til lögregluskýrslu sinnar fyrir lögreglu. Var framburður hans fyrir lögreglu, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5-1, borin undir ákærða en þar kveðst hann hafa fundið kort íbúa að F-húsi fyrir utan Landsbankann í Mjódd og hafi hann ætlað að láta hraðbankann fá kortið. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki geta útskýrt þetta nánar og að hann stæði við þennan framburð. Hafi hann verið „út úr heiminum“ af áfengi og vímuefnum. Undir ákærða voru bornar myndir úr myndavél í Hraðbankanum í Mjódd, skj. I/4-2. Aðspurður um hvort maðurinn á myndunum væri ákærði svaraði hann því til að þetta væri „ekki ósvipað“ sér. Þetta gæti verið hann. Aðspurður um skýringar á því að í húsleit lögreglunnar 15. ágúst 2003 að Torfufelli 35 hafi fundist greiðslukort, bókasafnsskírteini og sjúkrasamlagsskírteini U, íbúa að F-húsi, auk húslykla og bíllykla og Nokia-farsíma, kvaðst ákærði ekki getað gefið skýringar á því.
Ákæruliður II.1.4. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Ákærða er samkvæmt þessum ákærulið gefið að sök að hafa 14. ágúst 2003 farið í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði að F-húsi og stolið veskjum, snyrtivörum, skartgripum, farsíma, myndavél og skilríkum samtals að verðmæti 128.500 krónur. Í ákæru er vísað til 244. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt gögnum málsins telst sannað að við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35 hafi fundist greiðslukort, bókasafnsskírteini og sjúkrasamlagsskírteini U, íbúa að F-húsi, gsm-sími hennar auk lyklakippu með húslyklum og bíllyklum íbúa, en þessum munum var stolið í innbroti deginum áður. Af gögnum þeim sem lögð hafa verið fram fyrir dómi liggur fyrir að reynt var að nota debetkort U í hraðbanka Landsbanka Íslands í Mjódd um kl. 05.01 aðfaranótt 14. ágúst 2003 en gerðar voru tvær tilraunir til úttekta. Á myndum úr eftirlitskerfi hraðbankans, sem lagðar hafa verið fram í dómi, og teknar voru, samkvæmt upplýsingum á myndunum, á tímabilinu 04.55 til 05.01 hinn 14. ágúst 2003, sést ákærði Guðjón Björgvin að vera leitast við að nota hraðbankann. Ákærði hefur fyrir lögreglu og fyrir dómi játað að hafa verið í hraðbankanum á umræddum tíma með debetkort frá íbúa að F-húsi en gefið þær skýringar að hann hafi fundið kortið fyrir utan bankann og ætlað sér að láta hraðbankann gleypa það. Þessi framburður er fráleitur. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að kl. 04.54.19 og kl. 04.54.51 aðfaranótt 14. ágúst 2003 var hringt úr símanum [...], sem stolið var í F-húsi þá um nóttina, í þjónustulínu Og Vodafone og í þjónustulínu Landssíma Íslands og notaðist síminn við endurvarpa sem staðsettur er að Þönglabakka og þjónar svæðinu Mjódd norður Þönglabakka þar sem ákærði var staddur á þeim tíma eins og framangreindar myndir úr eftirlitskerfi útibús Landsbankans í Mjódd sýna.
Eins og gögnum um þennan ákærulið er háttað og að virtum fjarstæðukenndum skýringum ákærða telur dómurinn, þrátt fyrir neitun ákærða, fram komna lögfulla sönnun um að hann hafi brotist inn í húsnæðið að F-húsi aðfaranótt 14. ágúst 2003 eins og lýst er í þessum ákærulið. Brot hans varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II.1.5. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá 14. ágúst 2003 barst tilkynning kl. 22:58 frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu um tilraun til innbrots að G-húsi. Lögreglumenn fóru á vettvang en þar hittu þeir tilkynnanda, W, sem sagði þeim að reynt hefði verið að fara inn í íbúð hans. Hann sagði að reynt hefði verið að spenna upp hurðina en það hafi ekki tekist þar sem íbúi á efri hæðinni hafi komið fram á stigaganginn og veitt tveimur mönnum athygli sem hlupu út úr stigaganginum. Segir í skýrslunni að lögreglumenn hafi skoðað hurðina og dyrakarminn að íbúð tilkynnanda og veitt því athygli að far hafi verið í dyrakarmi eftir kúbein eða eitthvert járnstykki en ekki hafi verið önnur sjáanleg ummerki á vettvangi. Lögreglumenn ræddu við vitnið Y sem býr í sama húsi. Hún kvaðst hafa komið heim til sín um kl. 21:00 og veitt því athygli að tveir ungir menn og ein ung stúlka hafi verið í bifreið á bifreiðastæði fyrir framan stigahúsið að G-húsi. Hafi mennirnir gengið á eftir henni inn í húsið og hringt á bjöllu hjá tilkynnanda, W. Þá hafi þeir gengið á eftir henni inn í stigahúsið þegar hún hafði opnað hurðina þangað inn. Hún sagðist hafa séð þá banka á dyr hjá W. Y kvaðst hafa verið inni í íbúð sinni í skamma stund en svo farið fram og veitt því athygli að mennirnir voru fyrir framan íbúð W en þeir hafi hlaupið á brott út um bakdyr þegar þeir sáu hana. Y sagði aðspurð að bifreið sú er mennirnir komu út úr hafi verið hvít, gömul bifreið á gömlum númerum í líkingu við Mitsubishi eða Toyota. Sagði hún annan manninn hafa verið með ljóst hár, aflitað, meðalhár í svörtum jakka á bilinum 25 til 30 ára. Hinn maðurinn hafi verið dökkhærður í dökkum jakka, meðalstór og um 25 til 30 ára. Sagði hún stúlkuna sem var með þeim hafa verið með ljóst, millisítt hár og fíngerð í vexti og taldi hún hana vera aðeins yngri en mennina. Í skýrslunni segir að samkvæmt lýsingu Y á mönnunum og bifreiðinni væri hugsanlegt að um væri að ræða bifreiðina [...] sem sé af gerðinni [...], hvít að lit. Skráður eigandi bifreiðarinnar sé C en lýsingu vitnisins á ljóshærða manninum svipi til hans. Aðfaranótt 15. ágúst 2003 var bifreiðin stöðvuð við Æsufell í Breiðholti en í bifreiðinni voru ákærða X, ákærði Guðjón Björgvin og C. Voru þau handtekin og færð á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 að heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35 fannst „stílabók“, skj. I/12.1, þar sem er að finna áritunina „Z, [nr.], G-húsi“.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 2. september 2003, skj. I/17-2, var vitnið Y beðin um að skoða myndir af 34 aðilum úr sakamyndasafni lögreglunnar í Reykjavík og hafi verið stuðst við hæð og aldur hinna grunuðu um val á myndum. Í skýrslunni segir að Y hafi skoðað myndirnar af tölvuskjá og hafi hún stöðvað við mynd nr. [...] og hafi borið að „prófil“ þess aðila hafi verið líkan þeim manni sem hún hafi séð en að hún hafi ekki verið viss. Í lok skýrslunnar er rakið að mynd nr. [...] sé af ákærða Guðjóni Björgvini.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum kafla ákæru. Kvaðst hann vísa til framburðar síns fyrir lögreglu. Undir ákærða var borin skýrsla hans fyrir lögreglu, dags. 20. ágúst 2003, skj. II/5-4, þar sem fram komi að hann kannist við að hafa verið í G-húsi í umrætt sinn. Hafi hann ætlað að „ná tali af manninum“ svo að hann myndi ekki koma nálægt ákærðu X. Aðspurður um upplýsingar sem fram koma í „stílabók“, skj. I.12.1., bls. 6 (I.12.6.), þar sem ritað er nafn Z, „G-húsi“, og að ákærða X hafi borið að hafa skrifað upplýsingar í stílabókina að beiðni hans, gat ákærði ekki gefið skýringar á því nema að ákærða X væri að reyna að „fría“ sjálfan sig. Aðspurður um hvort hann myndi hver hafi verið með honum á umræddum tíma vísaði ákærði til lögregluskýrslu. Kvaðst hann ekki muna hver hefði verið með honum.
Vitnið, W, skýrði svo frá fyrir dómi að þegar hann hafi komið heim að kvöldi 14. ágúst 2003 hafi verið smávægileg skemmd á dyrakarmi íbúðar hans. Væri hann viss um að þessi skemmd hefði ekki verið þarna fyrr. Aðspurður um hvort hann þekkti ákærða Guðjón Björgvin kvað vitnið svo ekki vera. Aðspurður um hver væri heimasími hans kvað vitnið hann vera [...]. Aðspurður um hvort hann þekkti Z bar vitnið það vera son sinn. Hans rétta nafn væri Z.
Vitnið, Y, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði búið að G-húsi í ágúst 2003. Kvaðst hún á umræddum tíma hafa verið að koma heim af dansæfingu og þegar hún hafi komið að húsinu hafi bifreið verið fyrir utan heimili sitt og hafi þá tveir menn stigið út úr bifreiðinni og komið með henni inn í húsið. Þeir hafi hringt á dyrabjöllu og hafi hún einnig gert það. Hún hafi hleypt þeim inn. Þegar hún hafi verið komin inn til sín hafi hún fengið „einhverja bakþanka“ og tekið lykil af póstkassanum og látið sem hún þyrfti að fara í póstkassann. Þegar hún hafi komið niður hafi hún séð „mjög snöggt“ mennina tvo standa við hurð á íbúð W og hafi þeir hlaupið niður. Hafi hún gengið hratt á eftir þeim en þeir farið út bakdyramegin. Undir vitnið var borin skýrsla hennar fyrir lögreglu, dags. 2. september 2003, skj. III/2-1, þar sem fram komi að vitnið hafi á umræddum tíma heyrt málmhljóð þegar hún hafi verið í stiganum á milli 2. og 3. hæðar og hafi síðan séð strákana fyrir framan hurðina hjá W þar sem annar hafi legið á hnjánum fyrir framan hurðina. Bar hún fyrir dómi að svo hafi virst sem annar maðurinn hafi legið á hnjánum „eða verið boginn í baki“. Aðspurð um hvort hún hafi séð strákana vel bar vitnið að hún hafi séð þá „nokkurn veginn vel, allaveganna niðri í anddyri“. Þá hafi hún horft framan í þá báða. Þegar hún hafi svo komið niður stigann síðar hafi annar strákanna litið við og hafi hún þá séð framan í hann. Aðspurð um hvort hún kannaðist við ákærða Guðjón Björgvin bar vitnið að ákærði hefði verið einn af strákunum sem hún hefði séð á umræddum tíma í G-húsi. Sérstaklega aðspurð um þetta kvaðst hún vera „100% viss“.
Ákæruliður II.1.5. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Ákærða er í þessum ákærulið gefið að sök að hafa 14. ágúst 2003 reynt að brjótast inn í íbúðarhúsnæði að G-húsi, í félagi við annan mann, með því að spenna upp hurð en horfið af vettvangi er þeir urðu mannaferða varir. Er brotið talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.
Í frumskýrslu lögreglu, dags. 15. ágúst 2003, I/1-2, er rakið að lögreglumenn hafi skoðað hurðina og hurðakarminn á íbúð W að G-húsi og hafi þeir veitt því athygli að far hafi verið á hurðakarmi eftir kúbein eða eitthvert járnstykki. Ekki hafi verið önnur sjáanleg ummerki á vettvangi. Fyrir dóminn voru ekki lögð fram frekari rannsóknargögn um framangreindan áverka á hurðarkarmi íbúðar W. Vitnið W skýrði hins vegar svo frá fyrir dómi að þegar hann hafi komið heim að kvöldi hafi verið smávægileg skemmd á hurðarkarmi íbúðar hans. Væri hann viss um að þessi skemmd hefði ekki verið þarna fyrr.
Vitnið Y kom fyrir dóminn og bar að hún hefði á umræddum tíma hleypt tveimur mönnum inn um dyrnar í anddyri G-húsi. Þegar hún hafi verið komin inn til sín hafi hún fengið „einhverja bakþanka“ og tekið lykil af póstkassanum og látið sem hún þyrfti að fara í póstkassann. Þegar hún hafi komið niður hafi hún séð „mjög snöggt“ mennina tvo standa við hurð á íbúð W og hafi þeir hlaupið niður. Hafi hún gengið hratt á eftir þeim en þeir farið út bakdyramegin. Undir vitnið var borin skýrsla hennar fyrir lögreglu, dags. 2. september 2003, skj. III/2-1, þar sem fram komi að vitnið hafi á umræddum tíma heyrt málmhljóð þegar hún hafi verið í stiganum á milli 2. og 3. hæðar og hafi síðan séð strákana fyrir framan hurðina hjá W þar sem annar hafi legið á hnjánum fyrir framan hurðina. Staðfesti vitnið skýrslu sína fyrir dómi og bar að svo hafi virst sem annar maðurinn hafi legið á hnjánum „eða verið boginn í baki“. Y kvaðst fyrir dómi „100% viss“ um að ákærði Guðjón Björgvin hefði verið annar tveggja þeirra manna sem hún sá í umrætt sinn.
Fyrir dóminn var lögð „stílabók“, skj. I/12-1., bls. 6 (I/12-6), sem fannst við húsleit á heimili ákærða að Torfufelli 35, þar sem ritað er nafn Z, númerið „[...]“ og orðin „G-gata“. Þá hefur ákærða X borið fyrir dómi að hafa skrifað upplýsingar í stílabókina að beiðni ákærða Guðjóns Björgvins. Aðspurður um hver væri heimasími sinn kvað vitnið W fyrir dómi hann vera [...]. Aðspurður um hvort hann þekki Z bar vitnið það vera son sinn en hans rétta nafn væri Z.
Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa verið í [G-húsi] á umræddum tíma en hann hafi ætlað að tala við íbúa í húsinu svo að hann myndi ekki koma nálægt ákærðu X. Þessi tilgangur veru ákærða í húsnæði samrýmist með engu móti skilmerkilegum og greinargóðum framburði Y fyrir lögreglu og fyrir dómi um atvik umræddan dag í G-húsi. Að virtum framburði vitnisins og öðrum gögnum málsins, sem að framan eru rakin, verður að mati dómsins komin fram lögfull sönnun, þrátt fyrir neitun ákærða, um sekt hans fyrir það brot sem lýst er í ákærulið II.1.5. í ákæru, dags. 23. desember 2003. Brot ákærða varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.
Ákæruliður II.2. - Málsatvik
Ákærði, Guðjón Björgvin, var handtekinn 15. ágúst 2003 við Æsufell í Reykjavík. Lagt var hald á gsm-síma sem var í vasa hans og hafði verið stolið í innbroti að B-húsi í Kópavogi 12. ágúst 2003, sbr. skýrslu lögreglu, dags. 15. ágúst 2003, skj. I/2-1 (mál nr. 010-2003-19428). Í skýrslu lögreglu, dags. 13. ágúst 2003, skj. I/2-1, sem lögð var var fram fyrir dómi, er rakið að þegar lögreglan hafi verið þann dag að B-húsi við rannsókn innbrotsins hafi L komið þar að og hafi sagst sakna Nokia gsm-síma af 3410 gerð. Hafi hún aðspurð ekki vitað IMEI-númer hans en kvaðst myndu koma því til lögreglu. Í skýrslu lögreglu, dags. 19. ágúst 2003, skj. I/6-1, er síðan rakið að haft hafi verið samband við föður L og hafi erindið verið að kanna hvort samskonar sími og sá sem ákærði Guðjón Björgvin var með á sér við handtöku 15. ágúst 2003 gæti verið sá sem stolið hafi verið frá L. Hafi faðir L gefið upp IMEI númer [...] á síma L og hafi það passað við það númer sem hafi verið í símanum sem ákærði Guðjón Björgvin hafi verið með á sér við handtöku.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum kafla ákæru. Kvaðst hann vísa til lögregluskýrslu um þetta atriði. Aðspurður um framburð hans fyrir lögreglu um að hann hafi keypt þann síma sem var á honum við handtöku af „[...]“ á 5.000 krónur, kvaðst ákærði ekki geta greint neitt frá þessu og ekki getað upplýst nánar um hver [...] væri.
Vitnið, Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá fyrir dómi að við handtöku ákærða Guðjóns Björgvins 15. ágúst 2003 hafi fundist á honum gsm-sími sem rakinn hafi verið til barnabarns Þ, íbúa að B-húsi í Kópavogi. Það hafi komið í ljós þegar slegið hafi verið inn IMEI-númer símans. Staðfesti vitnið skýrslu sína um afhendingu símans til eiganda, dags. 19. ágúst 2003, skj. I/6-1 (mál nr. 37-2003-3640).
Vitnið, S, skýrði svo frá fyrir dómi að 12. ágúst 2003 hefði verið brotist inn á heimili hans að B-húsi í Kópavogi. Aðspurður um hvort hann hafi fengið til baka gsm-síma sem hafi verið tekinn kvað hann svo vera. Síminn hafi verið eign stjúpdóttur hans sem hafi gist á heimili hans á umræddum tíma. Aðspurður kvað hann að um glænýjan síma hafi verið að ræða og hafi lögreglunni verið gefið upp IMEI-númer hans.
Ákæruliður II.2. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Fyrir liggur að ýmsir munir er teknir voru í innbroti 12. ágúst 2003 að B-húsi í Kópavogi fundust á heimili ákærða Guðjóns Björgvins að Torfufelli 35 þremur dögum síðar. Þá þykir sannað með gögnum málsins að í vasa ákærða hafi fundist sími sem tekinn var í ofangreindu innbroti að B-húsi. Með framburði Gísla Breiðfjörð Árnasonar, rannsóknarlögreglumanns, og gögnum málsins liggur ljóst fyrir að umræddum síma var skilað til rétts eigenda, barnabarns Þ, íbúa að B-húsi í Kópavogi. Aðspurður um skýringar á því að sími, sem tekinn hafi verið í innbroti þremur dögum áður, skyldi finnast í vasa hans við handtöku bar ákærði því við að hann hefði keypt símann hjá manni að nafni „[ ]“. Ákærði gat hins vegar engar frekari upplýsingar þessi kaup eða um nefndan mann. Frásögn ákærða er ótrúverðug.
Að virtum gögnum málsins telst fram komin lögfull sönnun, þrátt fyrir neitun ákærða, að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að umræddur sími var fenginn með broti á 244. gr. hegningarlaga og að hann hafi því ólöglega verið að halda hlutnum frá réttum eigenda. Verður ákærði Guðjón Björgvin því sakfelldur fyrir brot það sem lýst er í ákærulið II.2. Háttsemi ákærða fellur undir 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga eins og rakið er í ákæru.
Ákæruliður II.3.
Hinn 20. desember 2002 kærði D ákærða Guðjón Björgvin fyrir fjársvik. D sagði að nokkrum dögum fyrir 19. ágúst 2002 hafi hann hringt í Íslandsbanka á Laugavegi til að kanna stöðu á reikningi sínum. Sagðist hann hafa hringt úr síma fanga á gangi A1 í húsi 4 í fangelsinu Litla-Hrauni en hann hafi þurft að gefa upp nafn sitt, kennitölu og leyninúmer. Hafi hann veitt því athygli að ákærði Guðjón Björgvin hafi verið að sniglast í kringum hann á ganginum þegar hann ræddi við starfsmann bankans. Nokkrum dögum seinna hafi hann hringt að nýju í bankann. Þá hafi hann fengið þær upplýsingar hjá bankanum að búið væri að taka út af reikningi hans 50.000 kr. en hann kannaðist ekki við að hafa tekið út af reikningnum þá upphæð. D sagðist hafa rætt við Æ, samfanga sinn, um þetta og hafi Æ sagt honum að Guðjón Björgvin hefði sagt sér að hann væri með kennitölu D, reikningsnúmer hans í bankanum og leyninúmer á reikninginn. Þá hafi hann einnig viðurkennt fyrir honum að hafa tekið út af reikningi D. Eftir að hafa skoðað útskriftir af reikningnum hafi komið í ljós að 19. ágúst 2002 hafi 50.000 krónur verið millifærðar af reikningnum hans yfir á reikning E, sem sé afi ákærða Guðjóns Björgvins. Þá komi þar einnig fram að 22. ágúst 2002 hafi verið millifærðar af reikningnum 50.000 krónur inn á reikning stúlku með nafninu F en hún mun þá hafa verið unnusta ákærða. Sagðist D hafa fengið greiddar 50.000 krónur frá þessari F.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum kafla ákæru. Bar hann að Æ hefði borgað sér vegna skuldar D við ákærða en að D hafi í framhaldinu talið sig hafa verið „ofrukkaðan“. Hafi D því kært ákærða fyrir fjársvik en ákærði hafi þegar verið búinn að borga Ætil baka sem hafi látið D fá peningana að fullu. Neitaði ákærði að hafa hringt og millifært af reikningi D. Aðspurður um hvort hann ætti við að Æ hefði keypt af honum fartölvu taldi ákærði svo vera. Aðspurður um hvernig þessi framburður samrýmdist framburði hans fyrir dómi 19. mars 2004 þar sem hann hafi borið að D hafi skuldað honum pening, svaraði ákærði því til að í upphafi hafi það verið þannig að D hafi gert upp skuld við hann. Hafi hann í því skyni millifært umræddar fjárhæðir eins og greinir í ákæruliðum II.3.1. og 3.2. D hafi síðan orðið ósáttur við upphæð þeirrar fjárhæðar sem honum hafi borið að greiða. Aðspurður um ástæðu þess að D greiddi umræddar fjárhæðir inn á sinn reikninginn hvorn, kvað ákærði ekki vita það en að F hefði verið á leiðinni til hans eða að hana hafi vantað pening, ákærði verið að lána henni pening eða eitthvað slíkt. Hann geti ekki útskýrt þetta öðruvísi. Undir ákærða var borin skýrsla hans fyrir lögreglu, dags. 22. ágúst 2003, skj. III/3, þar sem hann telji víst að Æ hafi staðið að millifærslum af reikningi D og sé með framburði sínum fyrir lögreglu að reyna koma sök á ákærða. Aðspurður segist ákærði ekki vita neitt um þetta. Aðspurður um ástæðu þess að hann hafi fyrir lögreglu ekki minnst neitt á framangreind viðskipti sín við Æmeð fartölvu svaraði ákærði því til að það væri vegna þess að hann hefði ekki verið spurður út í það þá.
Vitnið, D, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið fangi á Litla-Hrauni á umræddum tíma og hafi hann verið að hringja í bankann sinn og athuga með stöðu á reikningi sínum og millifæra. Hafi hann þá litið aftur fyrir sig og séð hvar ákærði Guðjón Björgvin hafi verið að „sniglast“ fyrir aftan sig. Síðar hafi ákærði spurt vitnið um fæðingardag og kennitölu. Aðspurður um hvernig hann hafi komist að raun um umræddar millifærslur kvaðst vitnið hafa hringt í bankann og hafi hann fengið þá upplýsingar um millifærslurnar og hvert þeim hafi verið beint. Hafi það verið til fólks sem hann þekki ekki neitt, til ungrar stúlku og seinna meir á kort afa ákærða og svo aftur til ungu stúlkunnar. Þá hafi hann verið búinn að skipta um leyninúmer. Bar vitnið að kvöldið áður en ákærði hafi losnað úr fangelsinu hafi vitnið rætt við ákærða og spurt hann út í millifærslurnar og hafi þá ákærði sagt að hver einasti maður sem hefði haft tækifæri til að gera þetta hefði gert það. Aðspurður um hvort Æ hefði haft milligöngu fyrir vitnið í málinu bar vitnið að Æ hefði sagst geta talað við ákærða um að ákærði endurgreiddi það fé sem hann hefði tekið út af reikningi vitnisins. Aðspurður um hvort hann hefði fengið eitthvað endurgreitt kvað vitnið svo ekki vera. Æ hafi sagst ætla að endurgreiða sér en að hann hafi ekki gert það. Þá bar vitnið að Æ hefði komið aftur til sín og beðið um „þessa peninga í 5.000 króna seðlum sem ég rétti honum“. Aðspurður um hvaða peningar þetta væru svaraði vitnið því til að þetta hefðu verið peningarnir sem „hann hefði látið hann hafa“. Aðspurður um hvort hann hafi átt í einhverjum viðskiptum við ákærða Guðjón Björgvin, t.d. keypt af honum fartölvu, svaraði vitnið því neitandi. Kvaðst vitnið aðspurt aldrei hafa skuldað ákærða pening. Sérstaklega aðspurður um hvort það væri útilokað að vitnið D hefði sjálfur millifært umræddar fjárhæðir eins og greinir í ákæruliðum II.3.1. og 3.2. kvað vitnið það „algjörlega útilokað“. Aðspurður nánar um samskipti sín og viðskipti við Æ bar vitnið að Æ hefði beðið hann um að lána sér pening tvívegis, 50 eða 55 þúsund krónur til að hjálpa honum að borga húsaleigu í mesta lagi í 10 daga. Það hafi hins vegar ekki staðist hjá honum. Vitnið tók fram að í annað skiptið hafi hann lánað Æ í tvennu lagi 30 þúsund krónur og síðan 20 þúsund. Samtals hafi hann lánað Æ „yfir 100.000 krónur“. Aðspurður um hvort það væri útilokað að Æ hefði greitt vitninu einhverja peninga vegna þeirra millifærslna sem greinir í ákæruliðum II.3.1. og 3.2. svaraði vitnið því játandi. Aðspurður um hvort einhver tengsl væru á milli þeirra peninga sem hann hafi lánað Æ og þeirra millifærslna sem mál þetta varðar svaraði vitnið því neitandi. Hann hafi lánað Æ peninga fyrr. Sérstaklega aðspurður um hvort hann þekkti E eða F svaraði vitnið því neitandi. Vitninu var kynnt að í kæruskýrslu hans fyrir lögreglu, dags. 20. desember 2002, skj. I/1, komi fram að eftir að vitnið hafi fengið vitneskju um það í banka sínum að 50.000 krónur hefðu verið teknar út af reikningi hans hafi rætt við Æ um þetta og hafi Æ þá sagt að hann hefði vitneskju um það hver hefði tekið út peninga. Hefði Æ sagt að það væri ákærði Guðjón Björgvin. Aðspurður fyrir dómi um þennan framburð kvað vitnið hann vera réttan. Bar vitnið að eftir að hann hefði sagt Æ frá því að peningar hefðu verið teknir út af reikningi hans hefði Æ sagt við sig að hann hefði vitneskju um hver hefði gert þetta og sagt vitninu frá því. Hefði sá sem tók peninganna beðið Æ um að taka þátt í þessu með sér. Hafi Æ hafnað því.
Vitnið, Æ, skýrði svo frá fyrir dómi að hann kannaðist einungis við helminginn af þeirri upphæð sem greinir í ákæruliðum II.3.1. og 3.2. Bar vitnið að ákærði hefði einhvern veginn komist yfir númer á bankareikningi D og hafi millifært peninga. Hafi Æ talað um þetta við D og hafi Æ „gert upp þessa peninga“ við D og hafi ákærði Guðjón Björgvin síðan gert upp við sig, þ.e. 50.000 krónur. Nánar aðspurður kvað hann að ákærði Guðjón Björgvin og F hefðu í sameiningu gert upp við sig 50.000 krónur. Hafi F borgað honum 30.000 krónur en ákærði afganginn. Aðspurður um hvernig þetta bar að skýrði vitnið svo frá að D hafi verið að borga sér einhverja peninga og þá hafi D sagt honum frá þessu. Aðspurður um hvort hann hafi rætt um þetta við ákærða Guðjón Björgvin svaraði vitnið því játandi. Um það hvort ákærði hafi viðurkennt að hafa millifært af reikningi D bar vitnið að sig minnti það en þetta væri „orðið svo langt síðan“. Vitninu var kynntur framburður hans úr skýrslu vitnisins hjá lögreglu, dags. 23. desember 2002, skj. II/1, um að ákærði Guðjón Björgvin hefði komið til vitnisins Æ og sagst hafa leyninúmer á bankareikningi D. Vitnið bar fyrir dómi að þessi framburður væri réttur. Aðspurður um hvort hann kannaðist við það að D og ákærði Guðjón Björgvin hafi verið í einhverjum viðskiptum kvaðst vitnið ekki vita það. Þá hafi vitnið ekki haft milligöngu um viðskipti þeirra á milli. Nánar aðspurður um hvort það væri rétt sem haft hefði verið eftir vitninu fyrir lögreglu að ákærði Guðjón Björgvin hefði viðurkennt fyrir honum að hafa millifært 50.000 krónur af reikningi D yfir á reikning F og hún hafi síðan komið með peningana til ákærða Guðjóns Björgvins í heimsóknartíma þá skömmu áður kvað vitnið fyrir dómi að hann teldi vera rétt. Aðspurður um hvort vitnið hefði sjálfur átt í viðskiptum við ákærða Guðjón Björgvin svaraði vitnið því játandi og kvaðst hafa keypt af honum tölvu og „eitthvað annað slíkt“. Aðspurður um hvort þau viðskipti hefðu verið uppgerð á milli vitnisins og ákærða Guðjóns Björgvins svaraði vitnið því játandi. Aðspurður að lokum um hvort hann hafi verið vitni að því að ákærði Guðjón Björgvin hafi millifært nefndar fjárhæðir af reikningi D svaraði vitnið því neitandi.
Vitnið, F, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði fengið 50.000 krónur millifærðar inn á reikning sinn. Vitnið bar að þau Guðjón Björgvin hefðu áður verið saman, þ.e. í sambúð á árinu 2000 til loka ársins 2001, en höfðu slitið sambandi sínu á þessum tíma. Þau hefðu hins vegar verið byrjuð að tala saman aftur þegar hann hafi verið á Litla-Hrauni og hafi hún verið búin að koma nokkrum sinnum í heimsókn til hans í fangelsið. Hann hafi hringt í hana og spurt hvort hún gæti komið með peninga til hans ef ákærði myndi millifæra peninga á hana. Hún hafi ekki spurt neins heldur farið í bankann og farið með peningana upp á Litla-Hraun og afhent ákærða. Ákærði hafi ekki sagt henni hvaðan peningarnir hefðu komið. Aðspurð um hvort hún hafi eitthvað heyrt um þetta síðar þá bar hún að „þegar þetta hefði komið upp“ hafi hún rætt við Æ og hafi hann sagt henni að ákærði Guðjón Björgvin hefði „stolið þessum pening“. Aðspurð um hvort hún hefði rætt þetta við ákærða Guðjón Björgvin kvað vitnið sig ekki muna hvort svo væri. Vitnið bar að hún hefði endurgreitt Æ „um 30.000“ krónur.
Ákæruliður II.3. - Niðurstaða dómsins.
Af hálfu ákæruvaldsins var þess krafist við aðalmeðferð málsins að orðunum „í refsivist“ í þessum ákærulið yrði breytt í orðin „í gæsluvarðhaldi“. Á kröfuna er fallist af hálfu dómsins með skírskotun til 2. málsl. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála enda hefur þessi breyting engin áhrif á vörn ákærða.
Ákærði neitar sök. Framburður ákærða hefur verið hvarflandi um atvik málsins. Að þessu virtu telst að mati dómsins sannað með staðföstum framburði Æ og F að ákærði hafi staðið að því að millifæra 50.000 krónur af reikningi D eins og lýst er í ákærulið II.3.2. Varðar það brot hans við 248. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn liggur ekkert annað fyrir um þá millifærslu sem greinir í ákærulið II.3.1. heldur en framburður brotaþola, D, en nokkurs ósamsæmis gætti hjá honum fyrir dómi frá þeim framburði sem hann gaf fyrir lögreglu. Enda þótt fyrir liggi að hinn 19. ágúst 2002 hafi 50.000 krónur verið millifærðar af reikningi D yfir á reikning í eigu afa ákærða verður ekki af því einu lagt til grundvallar, eins og á stendur, að fram sé komin lögfull sönnun um sekt ákærða hvað þann ákærulið varðar. Verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið II.3.2.
II.
Ákæra dagsett 23. janúar 2004.
Ákæruliður I. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 22. júlí 2003, skj. I/1-1, kærði Ö, íbúi að I-húsi í Reykjavík, innbrot og þjófnað á heimili hans. Greindi hann lögreglu frá því að í innbrotinu hefðu verið teknir tveir farsímar af Ericsson T39M gerð. Við húsleit lögreglu, dags. 15. ágúst 2003, á heimili ákærðu Guðjóns Björgvins og X, fannst meðal annars Ericsson T39M farsími með IMEI-númerinu [...], sem stolið hafði verið í ofangreindu innbroti í I-húsi í Reykjavík. Síminn var afhentur Ö, sbr. skýrslu lögreglu, dags. 26. ágúst 2003, skj. I/7-1.
Um framburði ákærðu X og ákærða Guðjóns Björgvins um þennan ákærulið vísast til umfjöllunar hér að framan um ákæruliði I.1.-3. í ákæru, dags. 23. desember 2003. Vísast hér einnig til framburðar vitnanna, Gísla Breiðfjörð Árnasonar, rannsóknarlögreglumanns og Þorvaldar Bragasonar rannsóknarlögreglumanns sem lýst er undir ákæruliðum I.1.-3. hér að framan.
Ákæruliður I. - Niðurstaða dómsins.
Ákærðu neita bæði sök. Sannað er með gögnum málsins að við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 að heimili ákærðu í Torfufelli 35 hafi fundist Ericsson T39M farsími sem var eign Ö íbúa að I-húsi en síminn var meðal þeirra muna sem teknir voru í innbroti þar aðfaranótt 22. júlí 2003. Í nefndri húsleit var m.a. haldlögð minnisbók, merkt skj. IV/10-3. Á bls. 6 í minnisbókinni er að finna áritun nafna Ö og AA, íbúa að I-húsi, kennitölu Ö og símanúmer, auk textans „forrík“ og „1. ágúst verða í París“. Við aðalmeðferð málsins var ákærða X spurð út í þessar upplýsingar og kvað ákærða hafa skrifað nöfnin, heimilisfangið og kennitöluna fyrir ákærða Guðjón Björgvin upp úr annarri bók „eða blöðum“. Aðspurð kvað hún að ákærði hefði ekki sagt sér frá tilgangi umræddrar hreinritunar. Aðspurð nánar um hvort hún hafi ritað símanúmerin og textann: „1. ágúst verða í París“ kvað hún ekki hafa skrifað símanúmerin eða textan „forrík“ en annan texta hefði hún skrifað. Aðspurð kvaðst ákærða ekki vita hver skrifaði hinn textann en kvað það „líklegt“ að ákærði Guðjón Björgvin hefði gert það.
Að þessu virtu, gögnum málsins og með skírskotun til þeirra forsendna dómsins sem greinir í niðurstöðukafla um ákæruliði I.1.-3. telst að mati dómsins fram komin lögfull sönnun, þrátt fyrir neitun ákærðu, að þeim hafi hlotið að vera ljóst að nefndur Ericsson T39M sími, sem tekinn var í innbroti að I-húsi, hinn 22. júlí 2003 og fannst á heimili þeirra við húsleit lögreglu 15. ágúst 2003, hafi verið fenginn með broti á 244. gr. hegningarlaga og að þau hafi því ólöglega haldið hlutnum frá réttum eigenda. Verða ákærðu Guðjón Björgvin og X því sakfelld fyrir brot það sem lýst er í ákærulið I. í ákæru, dags. 23. janúar 2004. Háttsemi beggja ákærðu fellur undir 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II.1. (1.1.-1.2.) - Málsatvik.
Í skýrslu lögreglu, dags. 21. október 2002, skj. II/3, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Sparisjóði Hafnarfjarðar hafi BB tilkynnt sparisjóðnum í júní 2002 að ávísanahefti nr. [...] hefði glatast. Liggur fyrir rithandarsýnishorn BB sem hann gaf banka sínum, sjá skj. II/3-1. Ávísanir úr hefti BB voru innleystar á þeim stöðum sem greinir í ákæruliðum II.1.(1.1.-1.2.) í ákæru, dags. 23. janúar 2004. Samkvæmt gögnum málsins aflaði lögregla mynda úr öryggiskerfi Íslandsbanka í Smáralind, skj. I/2-2 og I/2-3, en á myndunum greinir að þær séu teknar 20. júní 2002, kl. 17.37 og 17.38.
Ákærði Guðjón Björgvin var spurður út í atvik að baki framangreindum ákæruliðum við skýrslutöku lögreglu, dags. 11. september 2003, skj. IV/1-1. Áður en skýrslutakan hófst gaf ákærði rithandarsýnishorn en frumrit þeirra er að finna á dómskjali nr. 10 sem lagt var fram í þinghaldi 16. apríl 2004. Við skýrslutökuna 11. september 2003, sem gefin var að viðstöddum verjanda, kvaðst ákærði ekki kannast neitt við að hafa falsað umrædda tékka eða fengið einhvern til að framselja þá. Er ákærða var sýnt frumrit tékka nr. [...] að fjárhæð 125.000 krónur, skj. I/1-1., kvaðst ákærði ekki muna að hafa ritað þetta tékkablað sjálfur en kvaðst telja að þetta líktist hans skrift. Ákærði kvaðst kannast við H og að hann hafi verið með stúlkunni um mitt árið 2002 og að hann kynni að hafa verið með henni í júní 2003.
Hinn 18. maí 2003 gaf H skýrslu hjá lögreglu vegna málsins, skj. IV/2-1. Við skýrslutökuna bar H að hafa horft á Guðjón Björgvin útfylla fjóra tékka í bifreið sem hann hafi átt og kvaðst hún hafa horft á Guðjón Björgvin skrifa nafnið BB á umrædda fjóra tékka. Hafi hún síðan sjálf framselt tvo tékka fyrir Guðjón Björgvin og hafi hún ritað nafnið sitt sem framseljandi á tékkana. Undir H voru bornir umræddir fjórir tékka og bar hún að þetta væru tékkarnir sem hún hefði séð Guðjón Björgvin útfylla á umræddum tíma.
Lögregla beindi hinn 1. október 2003 undirskriftarrannsókn til SKL (Kriminaltekniska laboratoriet) í Svíþjóð á frumritum tékka nr. [...] (R1), nr. [...] (R2), nr. [...] (R3) og ljósrit tékka nr. [...] (R4). Í niðurstöðum SKL, dags. 1. desember 2003, skj. II/5, í íslenskri þýðingu Jóns Thordarsonar, löggilts skjalaþýðanda og dómtúlks, segir véfengda skriftin í R4 hafi ekki verið tekin með í rannsóknina þar sem hún hafi aðeins verið í ljósriti. Þá segir að þótt samanburðargögn Guðjóns Björgvins séu á köflum nokkuð þvinguð séu þau þó tiltölulega einsleit og ættu að gefa nokkuð góða mynd af skrifvenjum hans. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að gerðar athuganir leyfi ekki ótvíræða niðurstöðu en þær „[bendi] þó helst til þess að véfengda skriftin í R1-R3 sé eftir ákærða“.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitaði að hafa falsað nafnritun BB á þá tékka sem greinir í ákæruliðum II.1.1.1. og 1.1.2. Kvað hann það rétt að hann hefði framselt tékkana á nefndum stöðum. Aðspurður um hvort BB sjálfur hafi ritað undir tékkana kvaðst ákærði ómögulega geta svarað því. Aðspurður um hvar hann hafi fengið tékkanna kvað ákærði sig hafa verið í óreglu á þessum tíma. Vísaði hann að öðru leyti til lögregluskýrslu. Ákærði neitaði að hafa falsað nafnritun BB eins og honum er gefið að sök í ákærulið II.1.2. Bar hann að kannski hefði H skrifað sjálf undir tékkana eða að hann hafi fengið tékkana í viðskiptum við hana. Undir ákærða voru bornir umræddir tékkar, sbr. skj. I/.1.1. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa skrifað neitt á framhlið tékkana. Hann kvað hins vegar ekki ástæðu til að ætla annað en að hann hefði sjálfur ritað nafn sitt á bakhlið eins tékkans, skj. I/2-1.
Vitnið, H, skýrði svo frá fyrir dómi að hún kannaðist við að hafa fengið afhenta tékka frá ákærða Guðjóni Björgvini og framselt þá í bönkum í Smáralind. Undir vitnið voru bornir umræddir tékkar, skj. I/1-1, I/1-2 og I/1-3, og kvaðst hún kannast við þá. Aðspurð um hvort hún gæti skýrt nánar frá atvikum kvaðst vitnið ekki geta það. Hún hefði verið í mikilli neyslu á þessum tíma og hafi þau verið að reyna að ná í peninga og hafi hún því framselt tékkana. Aðspurð um hvort hún hafi séð ákærða Guðjón Björgvini undirrita umrædda tékka með nafninu „BB“ svaraði vitnið því neitandi. Vitninu var kynnt skýrsla hennar fyrir lögreglu, dags. 18. maí 2003, skj. IV/2-1, þar sem hún hafi borið að hafa horft á ákærða Guðjón Björgvin útfylla fjóra tékka í bifreið sem ákærði hafi átt og hafi hún horft á hann skrifa nafnið „BB“ á tékkana. Aðspurð um þennan framburð kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu í dag. Hún teldi sig hins vegar ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að framburður hennar fyrir lögreglu hafi að þessu leyti verið réttur. Hún myndi hins vegar eftir umræddum tékkum og að hafa framselt þá.
Ákæruliður II.1. (1.1. - 1.2.) - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Ákærða er í ákærulið II.1. (1.1.1.-1.1.2.) gefið að sök skjalafals, sbr. 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, fyrir að hafa 20. júní 2002 falsað þrjá tékka úr stolnu ávísanahefti BB með því að hafa útfyllt tékkana til handhafa með útgefandanafnritun eiganda heftisins. Fjárhæðir og númer tékkana eru réttilega greindar í ákæru.
Að mati dómsins er skrift sú sem fram kemur á framhlið umræddra tékka, m.a. útgefandanafnritunin „BB“ mjög áþekk því rithandarsýnishorni sem ákærði gaf hjá lögreglu. Við mat sitt á þessu hefur dómurinn til hliðsjónar niðurstöður Kriminaltekniska laboratoriet í Svíþjóð, dags. 1. desember 2003, skj. II/5, á samanburði rithandarsýna ákærða þar sem segir að gerðar athuganir leyfi ekki ótvíræða niðurstöðu en þær „[bendi] þó helst til þess að véfengda skriftin í R1-R3 sé eftir ákærða“, en umræddir bók- og tölustafir, R1-R3, tákna þá tékka sem hér um ræðir. Niðurstaða rannsóknarinnar hefur verið lögð fyrir dóminn og er dómnum því heimilt að taka hana til greina við heildarmat á sönnunaraðstöðu málsins, sbr. 46. og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 en af hálfu ákærða hefur niðurstaðan ekki verið dregin í efa eða við hana gerðar athugasemdir. Við mat á sönnunargildi umræddrar rithandarrannsóknar verður dómurinn þó að taka mið af því að þeir sem að henni stóðu hafa ekki gefið gefið sjálfstæða skýrslu um niðurstöður sínar og aðferðir fyrir dómi.
Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hún kannaðist við að hafa fengið afhenta tékka frá ákærða Guðjóni Björgvini og framselt þá í bönkum í Smáralind. Undir vitnið voru bornir umræddir tékkar og kvaðst hún kannast við þá. Aðspurð um hvort hún gæti skýrt nánar frá atvikum kvaðst vitnið ekki geta það. Aðspurð um hvort hún hafi séð ákærða Guðjón Björgvini undirrita umrædda tékka með nafninu „BB“ svaraði vitnið því neitandi. Vitninu var kynnt skýrsla hennar fyrir lögreglu þar sem hún hafi borið að hafa horft á ákærða Guðjón Björgvin útfylla fjóra tékka í bifreið sem ákærði hafi átt og hafi hún horft á hann skrifa nafnið „BB“ á tékkana. Aðspurð um þennan framburð kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu í dag. Hún teldi sig hins vegar ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að framburður hennar fyrir lögreglu hafi að þessu leyti verið réttur. Hún myndi hins vegar eftir umræddum tékkum og að hafa framselt þá.
Af framburði ákærða og vitnisins H liggur ljóst fyrir að ákærðu og vitnið framseldu tékkana í ákæruliðum II.1.1.1. og I.1.2. með þeim hætti og á þeim stöðum sem greinir í ákæru. Tékkinn sem lýst er í ákærulið II.1.1.2. var hins vegar framseldur með áritun á nafninu BB og hefur ákærði alfarið neitað að hafa ritað þær upplýsingar sem á honum koma fram. Ákærði hefur ekki gefið neinar trúverðugar skýringar á hvernig hann komst yfir umrædda tékka. Þá hefur ákærði fyrir dómi viðurkennt að hafa framselt þann tékka þar sem nafn hans kemur fram á bakhlið, sbr. skj. I/2-1, og hefur þar með breytt framburði sínum um þetta atriði frá þeim framburði sem hann gaf hjá lögreglu. Vitnið H kvaðst fyrir lögreglu hafa horft á ákærða fylla út umrædda tékka með útgefandanafnrituninni BB og fyrir dómi kvaðst hún ekki hafa ástæðu til að telja framburð sinn fyrir lögreglu rangan en að hún myndi þetta ekki í dag.
Þegar horft er til þess að ákærði hefur játað að hafa haft nefnda tékka undir höndum án nokkurra haldbærra skýringa um ástæður þess, og framselt sjálfur þann tékka sem greinir í ákærulið II.1.1.1., hafa að mati dómsins, að virtum framburði H fyrir lögreglu og fyrir dómi og niðurstöðum rannsóknar Kriminaltekniska laboratoriet, dags. 1. desember 2003, verið færðar fram fullnægjandi sönnur fyrir sekt ákærða Guðjóns Björgvins um þá ákæruliði sem hér um ræðir þrátt fyrir neitun hans. Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum II.1.1. og I.1.2. í ákæru, dags. 23. janúar 2004, varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliðir II.2.2. og 2.4. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 29. júlí 2003, skj. I/1, var óskað eftir aðstoð lögreglu í Landsbankann á Selfossi vegna ólöglegrar millifærslu. Lögreglumaður fór á vettvang og ræddi við starfsmann Landsbanka Íslands að [...], CC, sem sagði mann hafa hringt þangað um kl. 13:40, 28. júlí 2003. Hann hafi kynnt sig sem I og sagst eiga reikning nr. [...]. Sagðist CC hafa kannað reikninginn og séð að nafnið og kennitalan passaði við reikningseigandann. Hafi maðurinn óskað eftir því að millifæra 40.000 krónur á reikning konu sinnar nr. [...]. Sagðist CC hafa kannað þær upplýsingar sem hafi reynst réttar og því hafi hún millifært þessa upphæð á þann reikning. Sagði hún manninn einnig hafa fengið uppgefna innistæðu á reikningnum. CC sagði sama mann hafa hringt um klukkustund síðar og óskað eftir því að 450.000 krónur yrðu millifærðar út af reikningi nr. [...] og inn á reikning nr. [...]. Í skýrslunni segir að samkvæmt upplýsingum frá CC hafi ákærði Guðjón Björgvin verið eigandi síðastnefnda reikningsins og að fjárhæð sú sem lögð var inn á reikning ákærða Guðjóns Björgvins hafi verið tekin út af reikningi hans sama dag.
Með bréfi lögreglu, dags. 29. júlí 2003, skj. IV/1, til Landsímans var óskað eftir útprentun á innhringingum í síma [...] sem tilheyri útibúi Landsbanka Íslands í [...]. Óskað var eftir útskrift vegna tímabilsins frá kl. 12.00-16.00 þann 28. júlí 2003. Með bréfi, dags. 29. júlí 2003, skj. IV/1-1, var lögreglunni sendar upplýsingar um umræddar innhringingar, sbr. skj. IV/1-1-1. Af útskriftinni verður ráðið að á tímabilinu 13.57 til 15.00 hafi fjórum sinnum verið hringt úr símanúmerinu [A] og þrisvar úr símanúmerinu [B]. Í skýrslu lögreglu, dags. 12. september 2003, skj. IV/3, kemur fram að þegar ákærði Guðjón Björgvin hafi verið handtekinn 15. ágúst 2003 (mál nr. 010-2003-19428) hafi hann verið með GSM-síma af gerðinni Nokia 8310 og hafi verið símakort í honum frá Og Vodaphone. Samkvæmt upplýsingum frá símafyrirtækinu hafi símanúmer kortsins verið [B] en ákærði hafi ekki verið skráður eigandi þess. Þá kvaðst X hafa notað símanúmerið [B] við skýrslutöku fyrir lögreglu 29. ágúst 2003, skj. IV.3-1. Í skýrslu lögreglu, dags. 12. september 2003, skj. IV/4, er rakið að haft hafi verið samband við móður Guðjóns Björgvins í síma. Hafi aðspurð tjáð lögreglu að Guðjón væri með símanúmerið [A].
Með bréfi Landsbanka Íslands hf., dags. 22. ágúst 2003, var óskað eftir opinberri rannsókn vegna meintra fjársvika sem farið hefðu fram 29. júlí 2003. Þar segir að 29. júlí 2003 hafi verið hringt í starfsmann útibús Landsbankans á [...]. Sá sem hringdi hafi sagst heita I og að hann þyrfti að millifæra 25.000 kr. inn á reikning konu sinnar J. Hann hafi gefið upp reikningsnúmer þeirra. Þá hafi hann einnig sagst vilja millifæra 125.000 kr. á reikning ákærða Guðjóns Björgvins nr. [...]. Sama dag hafi starfsmaður Árbæjarútibús Landsbanka Íslands hringt í starfsmann Ísafjarðarútibúsins og látið vita að ekki væri allt með felldu. Bakfærslan af reikningi ákærða Guðjóns Björgvins hafi ekki gengið þar sem peningarnir hafi verið teknir út fyrr um daginn.
Með bréfi lögreglu, dags. 9. desember 2003, skj. IV/2, til Landsímans var óskað eftir útprentun á innhringingum í síma 450-5500 sem tilheyri útibúi Landsbanka Íslands á Ísafirði. Óskað var eftir útskrift vegna tímabilsins frá kl. 12.30-13.30 þann 29. júlí 2003. Með bréfi Landssímans, dags. 10. september 2003, skj. IV/2-1, voru lögreglu sendar upplýsingar um umræddar innhringingar. Af útskriftinni verður ráðið að hringt var fjórum sinnum í bankann á tímabilinu 12.34 til 13.20, m.a. úr númerinu [C] en í minnisbók, skj. IV/10-3, sem haldlögð var í húsleit lögreglu 15. ágúst 2003 að Torfufelli 35 er þetta númer skráð á bls. 2.
Á bls. 9 í áðurnefndri minnisbók, merkt skj. IV/10-3, sem fannst á heimili ákærða Guðjóns Björgvins 15. ágúst 2003 er undir dagsetningunum 23.-25. janúar, að finna áritun nafnanna I og J, kennitala þeirra beggja, heimilisfang og reikningsnúmerið [...] og textinn „Landsb einkarn“. Af hálfu lögreglu var óskað eftir rithandarrannsókn hjá SKL (Kriminaltekniska laboratoriet) í Svíþjóð, þ.e. samanburði á rithandarsýni ákærða Guðjóns Björgvins og framangreindum upplýsingum á bls. 9 í minnisbókinni, sem merkt er R1. Í niðurstöðu SKL, dags. 4. desember 2003, skj. IV/7-4, sem lögð hefur verið fram fyrir dómi, er lýst þeirri niðurstöðu um samanburð rithandarsýnis Guðjóns Björgvins og R1 að í reynd megi útiloka þann möguleika að einhver annar en ákærði Guðjón Björgvin hafi komið við sögu og er niðurstaðan metin í efsta skala sem notast er við af hálfu stofnunarinnar.
Við skýrslugjöf sína fyrir lögreglu, dags. 11. september 2003, skj. III/1-1, bar ákærði Guðjón Björgvin að hann kannaðist við símanúmerið [A]. Bar hann að þetta hefði verið sitt gamla símanúmer. Hann hafi notað þetta símanúmer þar til hann hafi verið handtekinn af lögreglu fyrir um hálfu ári síðan. Kvaðst ákærði ekki muna hvort síminn hafi verið tekinn af honum eða hvort hann hafi týnt honum. Bar ákærði að hann hefði ekki verið að nota símanúmerið í júlímánuði 2003. Var hann spurður um hvort hann hafi tekið út 450 þúsund krónur af reikningi sínum [...] þann 28. júlí 2003 í útibúi SPRON við Álfabakka. Var honum sýnt afrit af úttektarseðlinum, skj. IV/2-1-1, og hann spurður hvort hann kannaðist við undirskrift sína á afritinu. Kvaðst hann kannast við undirskrift sína og úttektina. Var hann þá spurður út í það hver hafi lagt umrædda peninga inn á reikning hans. Kvaðst hann ekki vita það. Taldi hann að það gæti hafa verið Ábyrgðarsjóður launa eða einhver annar sem hafi skuldað honum peninga. Einnig gæti það hafa verið unnusta hans X. Aðspurður um hvernig Guðjón Björgvin hafi vitað að umræddar 450 þúsund krónur hefðu verið lagðar inn á reikning hans kvað hann hafa fylgst vel með þessum reikningi vegna þess sem hann hafi áður sagt um að hann hafi átt von á greiðslu frá Ábyrgðarsjóði launa og peningum frá aðilum sem skulduðu honum peninga. Er honum hafi verið bent á að aðeins hafi liðið 14 mínútur frá því að nefndar 450.000 krónur voru lagðar inn á reikning hans þar til hann tók út sömu fjárhæð vísaði ákærði til fyrra svars. Í gögnum lögreglu, sem lögð voru fram í dómi, er að finna upplýsingar frá Ábyrgðarsjóði launa, dags. 16. september 2003, skj. IV/5-1, vegna beiðni lögreglu, dags. sama dag, skj. IV/5, um upplýsingar um greiðslur sjóðsins til ákærða Guðjóns Björgvins. Í bréfi Ábyrgðarsjóðs launa segir að ákærði hafi fengið alls 1.098.068 krónur með tveimur greiðslum þann 19. nóvember 2002 og 2. desember 2002. Eigi ákærði ekki rétt á frekari greiðslum. Með bréfi Ábyrgðarsjóðs launa fylgdu ýmis gögn um þessar greiðslur sjóðsins til ákærða Guðjóns Björgvins, skj. IV/5-1-1 til IV/5-1-5.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök í þessum ákæruliðum. Aðspurður fyrir dómi um hvaða símanúmer hann hefði notað á þessum tíma svaraði ákærði því til að hann hefði skipt um símanúmer á tveggja til þriggja daga fresti á þessum tíma. Undir ákærða var borin minnisbók, merkt. IV.10.3., bls. 9, þar sem ritað er nafn I, [...], og J, auk bankanúmers, og textinn „Landsb einkarn“. Aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa skrifað þessar upplýsingar í bókina. Aðspurður um hvort þetta væri hans rithönd svaraði ákærði því neitandi. Aðspurður um skýringar á því að lagðar voru 450.000 kr. inn á reikning ákærða 28. júlí 2003 taldi ákærði ekki geta gefið neinar skýringar á því eða af hverju hann tók umrædda peninga út 14 mínútum eftir að þeir voru lagðir inn á reikning hans. Vísaði hann til framburðar síns í lögregluskýrslu.
Vitnið, CC, skýrði svo frá að hún hefði á nefndum tíma verið starfsmaður Landsbanka Íslands og hafi hún tekið við nefndum beiðnum í gegnum síma 28. júlí 2003 um millifærslur af reikningi I. Skýrði hún frá því að fyrst hefði verið hringt og óskað eftir millifærslu af reikningi I yfir á reikning J að upphæð 40.000 krónur og hafi hún þá athugað í þjóðskrá hvort um væri að ræða eiginkonu I þar sem reikningurinn hefði ekki verið í hennar útibúi. Þar sem svo hafi verið hafi hún framkvæmt millifærsluna. Svo hafi verið hringt stuttu seinna og spurt um stöðuna á reikningnum eftir millifærsluna og hafi hún gefið viðmælanda sínum upplýsingar um stöðuna. Aðspurð um hvort hún hafi beðið þann sem hringdi um leyninúmer bar vitnið að þar sem reikningurinn hefði ekki verið í hennar útibúi og þar sem hún hafi verið með kerfið „AKLÍ“ hafi hún ekki getað athugað með leyninúmerið. Það hafi verið mistök hjá sér að biðja ekki þann sem hringdi að hringja í sitt eigið útibú. Vitnið skýrði síðan svo frá að nokkrum mínútum síðar hafi verið hringt aftur og þá hefði sá sem hringdi beðið um millifærslu yfir á reikning ákærða Guðjóns Björgvins að fjárhæð 450.000 krónur vegna bílakaupa. Þar sem aðeins tveir starfsmenn hafi verið við störf í útibúinu og mikið hafi verið að gera hafi hún ekki getað framkvæmt millifærsluna strax. Hafi því verið hringt tvisvar til að reka á eftir millifærslunni og hafi vitnið þá beðið viðmælanda sinn að fara í sitt eigið útibú en hann hafi alls ekki viljað gera það. Þegar vitnið hafi síðan haft tíma hafi hún látið gjaldkera sinn framkvæma millifærsluna. Aðspurð telur hún að í fjórum tilvikum hafi hún svarað þeim sem hringdi en að í eitt skipti hafi hún ekki svarað. Í því tilviki hafi verið „hringt inn“ en hún hafi ekki náð að svara en hún hafi ein svarað í síma í útibúinu. Aðspurð bar vitnið að í útibúinu hafi ekki verið „númerabirtir“. Vitnið bar að hún hafi farið að átta sig á því að eitthvað „gruggugt“ hefði verið á seyði þar sem I hafi verið að flytja og verið með eitthvert allt annað heimilisfang og hafi hún þá hringt strax í Árbæjarútibú, sem hafi verið útibú I, og beðið starfsmann þar að athuga þetta. Aðspurð um hvort hún væri fullviss um að sami aðili hafi hringt í öll skipti svaraði vitnið því til að það væri „alveg pottþétt“. Hann hafi alltaf kynnt sig eins, sem I, gefið upp kennitölu hans og reikningsnúmer, og einnig kennitölu og reikningsnúmer J. Hafi hann meira að segja hringt aftur næsta dag og beðið um frekari millifærslur en þá hafi hún vitað hvað væri í gangi. Aðspurð um hvort umrædd símtöl hefðu verið tekin upp á segulband kvað hún svo ekki hafa verið í þessu tilviki enda hefði verið um lítið útibú að ræða.
Vitnið, DD, gaf skýrslu fyrir dómi í gegnum síma í dómsal þar sem hún var stödd á lögreglustöðinni á Ísafirði, sbr. heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 17. gr. laga nr. 36/1999. Vitnið skýrði svo frá fyrir dómi að hún væri starfsmaður Landsbanka Íslands á Ísafirði og kvaðst kannast við að hafa tekið við símtali föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi 2003 þar sem óskað var eftir millifærslum af reikningi I inn á reikning J annars vegar og ákærða hins vegar. Símtalið hafi átt sér stað um kl. 13.00 eða rúmlega það. Það hafi verið mikið að gera og hafi maður hringt og sagst vera I og gefið upp kennitölu hans og reikningsnúmer og óskað eftir því að millifært væri af þeim reikningi inn á reikning í banka nr. 132 og einnig inn á reikning „hjá konu sinni“. Hafi vitnið þá beðið um kennitölu hennar og nafn og hafi hún athugað viðskiptamannaskrá og þar sem upplýsingar hafi passað hafi hún framkvæmt millifærslurnar. Vitnið bar að hún hefði spurt viðmælanda sinn hvort hann gæti ekki hringt í eigið útibú og hafi hann sagst vera í bænum og hafi hún því framkvæmt millifærslurnar fyrir hann. Aðspurð um hvort hún hafi séð úr hvaða númeri maðurinn hafi hringt bar vitnið að hún hefði átt að sjá það en hún hafi ekki tekið eftir því. Aðspurð bar vitnið að maðurinn hefði gefið henni upp reikningsnúmer J. Aðspurð um hvort sá sem hringdi hafi gefið upp leyninúmer svaraði vitnið því neitandi.
Ákæruliðir II.2.2. og 2.4. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Í þessum ákæruliðum er ákærða Guðjóni Björgvini gefin að sök fjársvik fyrir að hafa með símtölum við starfsmenn Landsbanka Íslands blekkt þá til að millifæra heimildarlaust fé af reikningi I á tvo reikninga í eigu ákærða, hinn 28. júlí 2003 krónur 450.000 inn á reikning nr. [ ] og hinn 29. júlí 2003 krónur 125.000 inn á reikning nr. [ ].
Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að hringt var í útibú Landsbanka Íslands í Reykholti 28. júlí 2003 og beðið um millifærslu á krónum 450.000 af reikningi I inn á reikning í eigu ákærða. Stuttu áður hafði samkvæmt framburði vitnisins CC sami aðili beðið um að millifærðar yrðu 40.000 krónur inn á reikning í eigu konu I. Samkvæmt útskrift Landssíma Íslands, sem lögð var fram í dómi, er leitt í ljós að á því tímabili dags sem millifærslan 28. júlí 2003, sbr. ákæruliður II.2.2., átti sér stað samkvæmt framburði CC, hafi karlmaður fjórum sinnum hringt úr númerinu [A] og þrisvar úr númerinu [B] sem unnusta ákærða bar fyrir lögreglu að hafa notað. Ákærði bar fyrir lögreglu, og vísaði til þess framburðar fyrir dómi, að hafa fyrr á árinu 2003 notað símanúmerið [A] en hefði ekki notað það í júlímánuði það ár. Ennfremur viðurkenndi ákærði fyrir lögreglu, og vísaði fyrir dómi til þess framburðar síns, að hafa tekið út 450.000 krónur af reikningi sínum nr. [ ] í útibúi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis að Álfabakka þann 28. júlí 2003. Viðurkenndi ákærði jafnframt að hafa ritað undir úttektarseðil í því skyni sem lagður hefur verið fram í dómi, sbr. skj. IV/2-1. Af úttektarseðlinum verður ráðið að úttektin átti sér stað kl. 15.26 hinn 28. júlí 2003 en samkvæmt „viðskiptakvittun“ Landsbanka Íslands vegna umræddrar millifærslu átti hún sér stað sama dag kl. 15.12 eða fjórtán mínútum áður.
Samkvæmt framlagðri „viðskiptakvittun“ Landsbanka Íslands á Ísafirði, skj. I/3-1, og yfirlitum úr afgreiðslukerfi útibúsins, skj. I/3-2 og I/3-3, er leitt í ljós að 29. júlí 2003, kl. 13.05, hafi DD, starfsmaður bankans, millifært 125.000 krónur inn á reikning í banka nr. 113 á kennitölu ákærða. Samkvæmt útskrift Landssíma Íslands um innhringingar í útibúið á tímabilinu 12.30 til 13.30 verður ráðið að kl. 13.01 hafi verið hringt úr númerinu [C]. Fyrir liggur að þetta númer er skráð á bls. 2 í minnisbók þeirri, merkt skj. IV/10-3, sem fannst við húsleit á heimili ákærða 15. ágúst 2003. Þá liggur fyrir samkvæmt úttektarseðli, skj. I/1-2, að kl. 13.46 sama dag, 41 mínútu eftir að millifærslan átti sér stað, hafi ákærði Guðjón Björgvin tekið 135.000 krónur út af reikningi sínum nr. [...] í útibúi Landsbanka Íslands að Álfabakka.
Fyrir liggur að nöfn reikningseigandans I og J ásamt upplýsingum um kennitölur þeirra og reikningi I var að finna í minnisbók sem fannst í húsleit lögreglu að Torfufelli 35 hinn 15. ágúst 2003. Fyrir liggur niðurstaða rithandarrannsóknar frá Kriminaltekniska laboratoriet í Svíþjóð þar sem talið er útilokað að annar en ákærði Guðjón Björgvin hafi ritað þær upplýsingar í minnisbókina en af hálfu ákærða hefur sú niðurstaða ekki verið véfengd. Um þýðingu þessa gagns fyrir heildarmat dómsins á sönnunarfærslu þessa ákæruliðar vísast að öðru leyti til forsendna í niðurstöðukafla dómsins um ákærulið II.1. (1.1. - 1.2.) í ákæru, dags. 23. janúar 2004.
Aðspurður fyrir dómi um skýringar á því að lagðar voru 450.000 kr. inn á reikning ákærða 28. júlí 2003 taldi ákærði ekki geta gefið neinar skýringar á því eða af hverju hann tók umrædda peninga út 14 mínútur eftir að þeir voru lagðir inn á reikning hans. Vísaði hann til framburðar síns í lögregluskýrslu. Við rannsókn hjá lögreglu hefur verið leitt í ljós að framburður hans þar um að Ábyrgðarsjóður launa hafi lagt umrædda fjárhæð inn á reikning hans á sér enga stoð í raunveruleikanum. Þá neitaði X fyrir lögreglu að hafa lagt peninga inn á reikning ákærða í umrætt sinn. Hvað varðar ákærulið II.2.4. bar ákærði fyrir lögreglu að hann hefði lánað I 125.000 krónur. Kvað hann I stunda lyftingar og vera kallaðan „I Trukk“. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 26. september 2003, skj. II/2-1, var haft samband við I vegna þessara skýringa og kvaðst hann aldrei hafa lánað umræddum Guðjóni Björgvini peninga. Þá kvaðst hann ekki stunda lyftingar og hafa aldrei svo hann vissi til verið kallaður I trukkur. Kvaðst hann ekki þekkja til ákærða en vissi um mann með þessu nafni sem ætti foreldra sem byggju skammt frá tengdaforeldrum sínum en þa byggju að [...]. Af hálfu ákærða hefur ekki verið óskað eftir því að I verði leiddur fyrir dóm.
Að virtum framlögðum gögnum málsins og ótrúverðugum framburði ákærða telur dómurinn að ekki verði með skynsamlegum rökum véfengt að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæruliðum II.2.2. og II.2.4. í ákæru, dags. 23. janúar 2004, og verður hann því sakfelldur eins og krafist er. Brot hans varðar brot við 248. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður II.3.1. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 20. október 2003, skj. I/1-2 til I/1-5, var lögregla send kl. 16:16 að J-húsi, Reykjavík, en þar hafði verið tilkynnt um innbrot. Húsráðandi taldi að svalahurð í borðstofu hefði jafnvel getað verið ólæst. Segir í skýrslunni að búið hafi verið að róta til hlutum víða í húsinu og í bílskúr. Í skýrslunni segir að húsráðandi hafi meðan lögreglumenn voru viðstaddir skoðað símnúmerabirti og hafi tekið eftir því að kl. 09:47 hafi verið hringt úr símanúmerinu [D] en hann hafi ekki kannast við það. Hafi húsráðandi því haft samband við 118 og fengið uppgefið að símanúmerið væri hjá Olíufélaginu hf. á Bíldshöfða. Samkvæmt upplýsingum frá húsráðanda var stolið fartölvu af gerðinni Mitac, eign EE, 2 myndavélum af gerðinni Canon, töskum, úri, skartgripum, pennasetti, geisladiskum í eigu EE og merktir henni, sólgleraugum, silfurskríni að verðmæti samtals um 529.000 kr. Á timburverönd fyrir framan bílskúr við húsið mátti sjá skófar og var bókstafurinn M áberandi í skófarinu. Þá var gróðurhúsið opið og hurð inn í bílskúrinn frá gróðurhúsinu stóð opin. Einnig fundust fingrafarapartar á tölvuhátalara, fingfrafar á fartölvuskjá og skófarspartar við inngang í bílskúr, sbr. skýrslu tæknideildar lögreglu, skj. I/4-1 til I/-5.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að kl. 18.35 þann 20. október 2003 hafi lögreglumenn farið að bensínstöð Olíufélagsins að Bíldshöfða og fengið að skoða myndbandsupptöku frá því um kl. 9.45 um morguninn. Þar sjáist ljós [bifreið] aka upp að norðurhlið bensínstöðvarinnar og skömmu síðar sjáist hvar farþegi úr framsæti komi út úr bifreiðinni og fari inn á bensínstöðina. Á eftirlitsmyndavél inni í bensínstöðinni sjáist hvar karlmaður klæddur í „græna hálfsíða úlpu með hettu og loðkraga“ komi inn og fái að hringja úr síma á afgreiðsluborði. Í skýrslunni segir að lögreglumenn hafi þekkt manninn á myndinni sem ákærða Guðjón Björgvin. Sjáist hann aka á brott á ljósri [bifreið] en við frekari skoðun hafi komið í ljós að bifreiðin [...] hafi svarað til lýsingar á bifreiðinni sem komið hafi á bensínstöðina en skráður eigandi hennar hafi verið FF. Fyrir dóminn hafa verið lagðar fram myndir úr eftirlitskerfi „bensínafgreiðslu Essó í Ártúnshöfða“, skj. I/13-3 til I/13-5.
Í skýrslu lögreglu, dags. 20. október 2003, kemur fram að leitað hafi verið í bifreiðinni [...] sem hafi fundist kyrrstæð og mannlaus fyrir utan íbúð ákærða að Torfufelli 35 en upplýst hafi verið af samtali við foreldra ákærða að hann væri með íbúð í Torfufelli 35 og byggi vinkona hans FF hjá honum, sbr. skýrsla lögreglu, dags. 20. október 2003, skj. I/2-1. Í lögregluskýrslu, skj. I/1-1, segir að FF hafi verið handtekin á vettvangi eftir að hún hafi komið út úr íbúð á 3. hæð til hægri. Heimilaði hún leit í bifreið sinni og hafi þar fundist úlpa sú sem ákærði Guðjón Björgvin hafi sést klæddur á bensínstöðinni, einnig hafi þar verið skór með bókstafnum M á sólanum. Samkvæmt skýrslu lögreglu um haldlagningu muna í bifreiðinni, dags. 20. október 2003, skj. I/8-1, fannst í bifreiðinni m.a. veglykill, einn geisladiskur: „Rottweiler hundar“, merktur EE. Í farangursgeymslu hafi fundist „Minolta myndavél í bláu hulstri“, reikningar merktum nokkrum aðilum, í íþróttatösku í farangursgeymslu hafi fundist ilmvatnsglas „Dolce & Gabbana light blue“ og þá hafi fundist „græn úlpa með hettu og loðkraga“ eins og að framan greinir. Í skýrslu lögreglu, dags. 20. október 2003, segir að kl. 21.26 hafi ákærði Guðjón Björgvin verið handtekinn fyrir utan Torfufell 35. Frammi liggur skýrsla lögreglunnar í Kópavogi, dags. 9. nóvember 2003, skj. I/15-1, þar sem greinir að á ákærða hafi fundist „SPRON kort á nafni GG“ húsráðanda að J-húsi, þegar ákærði var handtekinn af lögreglu ofangreindan dag vegna gruns um innbrot í sumarhús, sbr. einnig skýrsla lögreglunnar í Kópavogi, dags. 10. nóvember 2003, skj. II/4-1.
Að kvöldi 20. október 2003 gerði lögregla húsleit í Torfufelli 35 á grundvelli heimildar eiganda íbúðarinnar, skj. I/7-1. Við húsleitina fannst m.a. svört ferðataska af „samsonite“ gerð, geisladiskahulstur, brún leðurtaska með pappírum í eigu GG, húsráðanda að J-húsi, vegabréf og ökuskírteini, hvít og bleik Nike íþróttataska í eigu EE, íbúa að J-húsi og „Mitac fartölva, model 8575“ í eigu EE en hún fannst undir sessu í sófa í íbúðinni að Torfufelli 35 samkvæmt áritun í haldlagningarskýrslu og samkvæmt ljósmyndum sem teknar voru við húsleitina, sbr. skj. I/10-2 til I/10-5. Samkvæmt áritun á skýrslu lögreglu um haldlagningu munanna voru þeir afhentir eigendum sínum.
Í málinu liggur frammi niðurstaða samanburðarrannsóknar, dags. 20. nóvember 2003, skj. I/11-1, á skóförum sem fundust á vettvangi og skóm sem fundust við leit í bifreiðinni [...] 20. október 2003. Þar segir að vettvangsfarið sé „líklega“ eftir vinstri skóinn. Niðurstöðuna byggi rannsóknari á að vettvangsfarið sé af sömu stærð og gerð og vinstri sóli og slitfar í hæl. Fingraför þau sem fundust á vettvangi reyndust ónothæf til samanburðar.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Ákærði var upplýstur um að samkvæmt gögnum lögreglu þá lægi fyrir að hringt hefði verið í nefnt húsnæði að J-húsi að morgni 20. október 2003, kl. 09.47, og að hringt hafi verið úr símanúmerinu [D] en sá sími sé á bensínstöð ESSO, Bíldshöfða. Aðspurður um hvort hann hafi verið þar á umræddum tíma kvaðst ákærði ekki muna það enda hefði hann verið í óreglu. Undir ákærða voru bornar myndir sem teknar voru úr eftirlitsmyndavél á bensínstöð ESSO, Bíldshöfða, á umræddum tíma, skj. I/13-4, þar sem maður sést taka upp síma. Aðspurður kvaðst ákærði telja þetta geta verið hann. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið á umræddum tíma í bifreiðinni [...], eign FF, kvaðst ákærði ekki vita hvort svo væri en hann drægi það ekki í efa. Kvaðst ákærði þekkja HH. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið með honum á umræddum tíma í nefndri bifreið taldi ákærði svo geta verið en til þess væri vísað í lögregluskýrslum. Ákærði var beðinn um að tjá sig um þann framburð HH fyrir lögreglu, dags. 18. desember 2003, skj. II/5-1, að ákærði hefði 20. október s.á. brotist inn í húsnæðið að J-húsi. Kvað ákærði HH vera að reyna fría sjálfan sig ábyrgð. Hann hafi ekki brotist inn í J-hús. Yfirgnæfandi líkur séu á því hins vegar að HH hafi brotist þar inn. Aðspurður kvaðst ákærði þó ekki vita hvort svo hefði verið. Ákærði bar að HH og FF hefðu komið með þýfið úr J-húsi upp í Torfufell 35. Hafi þau hringt og beðið hann um að hitta sig uppi í Torfufelli en þegar hann hafi komið þar að hafi lögreglan beðið eftir honum. Sérstaklega aðspurður um hvort hann muni eftir því að hafa farið inn í umrædda bensínstöð kvaðst ákærði ekki muna eftir því. Bar hann að FF hefði sagt við sig að HH hefði beðið hann um að fara þar inn og hringja.
Vitnið, GG, skýrði svo frá fyrir dómi að hann væri íbúi í J-húsi og hefði tilkynnt lögreglunni um innbrotið. Hann hafi á umræddum tíma fengið símhringingu frá stúlku, barnapíu, sem búi í húsinu, um kl. 16.00 þar sem hún hafi tjáð honum að líklegast hefði verið búið að brjótast inn í húsið. Hafi hann hringt í lögreglu á leiðinni heim og hafi lögreglan verið komið á staðinn þegar hann kom heim. Hafi verið búið að róta í hillum, skúffum og hirslum í húsinu. Það helsta sem hafi verið tekið hafi verið fartölva, 2 myndavélar og svo eitthvað af skjölum og skartgripum, skjalataska með ýmsum gögnum og ferðataska. Síðar hafi hann uppgötvað að fleira hefði horfið. Aðspurður um hvort silfurskrín hafi verið tekið svaraði vitnið því játandi og hafi hann ekki fengið það aftur. Undir vitnið var borinn tölvupóstur frá honum til lögreglu, dags. 8. janúar 2004, skj. I/17-1, þar sem er að finna lista yfir þá muni sem teknir hefðu verið í innbrotinu. Staðfesti vitnið fyrir dómi að þetta skjal væri komið frá honum. Aðspurður um hvort hann væri með símnúmerabirti á heimili sínu kvað vitnið svo vera. Hann væri með svokallaðan „ISDN“ síma með símnúmerabirti. Vitnið bar að hann hefði umræddan dag skoðað þær innhringingar í símann sem ekki hefði verið svarað en það geri hann venjulega. Hafi hann þá séð númer sem hann kannaðist ekki við og hafi lögreglan tekið það númer niður. Aðspurður um hvort hann hafi átt þá fartölvu sem tekin var kvað vitnið svo ekki vera. Hún væri eign barnapíunnar á heimilinu og hafi fartölvan verið endurheimt. Hafi verið reynt að eiga við fartölvuna með því að setja upp í henni nýtt stýrikerfi og hafi vitnið því þurft að láta gera við hana. Aðspurður um hvort hann gerði sér grein fyrir hvaða hlutum hefði enn ekki verið skilað kvað hann það einkum vera umræddar myndavélar og eitthvert smádót. Vitnið vildi láta þess getið að í ferðatöskunni sem hann fékk afhenta hjá lögreglu hafi verið pappírar og geisladiskahulstur sem hafi verið tekið úr bifreið hans sama dag og umrætt innbrot átti sér stað. Vitnið var spurt út í það hvort lýsing í ákærulið II.3.1. á þeim munum sem ákærða væri gefið að sök að hafa tekið í J-húsi gæti passað við þá muni sem hann hefði saknað í framhaldi af atvikinu og taldi vitnið lýsinguna rétta.
Vitnið, II, skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag hefði hún sofið yfir sig og verið á leiðinni til vinnu. Klukkan hafi verið á bilinu 10.30 til 11.20 er hún fer út í bíl sinn og bíður þar eftir vinkonu sinni sem hún leigi með. Þá sjái hún annan bíl sem hafi beðið fyrir neðan og hafi hún ekki spáð frekar í það. Hafi hún þá séð „strák eða mann labba í gegnum runnann“ aftan við húsið og hafi fundist það hálfskrýtið þar sem fólkið sem búi í húsinu fari í vinnu að morgni og komi heim að kvöldi. Hafi maðurinn labbað í gegnum runnann með tösku í eftirdragi, „svona eins og flugfreyjurnar nota“ eða svoleiðis tösku. Hún sjái hvar maðurinn gangi niður gangstíginn. Eitthvað hafi sagt henni að skrifa niður númerið á umræddri bifreið og hafi hún gert það og síðan ekki hugsað meira um þetta. Undir vitnið var borið skjal, skj. I/5-1, umslag merkt „Vátryggingafélag Íslands“ en á umslaginu er ritaður textinn „[...]“. Bar vitnið að hún hefði ritað textann á umræddum tíma en hann væri númerið á þeirri bifreið sem hún hafi séð fyrir utan húsið en hún sé alveg með það á hreinu að tegund bifreiðarinnar hafi verið „[...]“. Aðspurð um hvernig bíllinn hafi verið á litinn svaraði vitnið að hann hefði verið „svona ljóshvítur“. Aðspurð um hvort hún gæti lýst manninum sem hún sá kvað vitnið sig ekki hafa séð andlit hans. Hann dró tösku á eftir sér og hafi hann verið í „úlpu, svona frekar síðri, með hettu“. Hafi úlpan verið „dökkgræn eða í dekkri kantinum“. Vitninu var kynnt skj. I/13-4, mynd úr eftirlitskerfi Bensínafgreiðslu ESSO, Ártúnshöfða, dags. 20. október 2003, kl. 09.47, þar sem maður sést taka upp símtól og hringja en maðurinn er klæddur úlpu. Vitnið sagði þá: „Þetta er úlpan“. Vitnið kvað það vera „pottþétt“. Einnig var vitninu sýnt skj. I/13-5. Sérstaklega aðspurð um hvort hún gæti fullyrt að um sömu úlpu væri að ræða svaraði vitnið að um „sambærilega úlpu“ væri að ræða og hún hefði séð á manninum fyrir utan J-hús. Maðurinn hafi verið með hettuna yfir sér þegar hún hafi séð hann þess vegna hafi hún ekki séð andlit hans. Aðspurð um hve margir hefðu verið í umræddri bifreið fyrir utan J-hús kvað vitnið sér hafa sýnst það vera einn einstaklingur. Taldi hún það hafa verið stúlku undir stýri. Þegar maðurinn hafi gengið niður að bílnum hafi vinstri hurðin opnast og skottið á bílnum. Hafi maðurinn síðan lokað skottinu. Aðspurð um hvað hafi verið langt á milli hennar og nefndrar bifreiðar taldi vitnið sig ekki vita það, kannski 8 metrar, það væri gata á milli og síðan komi umrætt hús. Hún búi í kjallaranum beint á móti húsinu. Aðspurð um hvort hún hafi séð einhvern annan í bifreiðinni en nefnda stúlku undir stýri kvað vitnið svo ekki vera. Aðspurð kvaðst vitnið ekki nota gleraugu.
Vitnið, HH, kom fyrir dóm. Aðspurður kvaðst vitnið kannast við ákærða Guðjón Björgvin og þekkja FF. Kvaðst hann ekki vita neitt um innbrot í J-hús. Vitninu var kynnt skýrsla hans hjá lögreglu, dags. 18. desember 2003, skj. II/5-1. Aðspurður um þann framburð hans fyrir lögreglu að vitnið eigi sjálfur engan þátt í umræddu innbroti en hann muni vel eftir því þar sem hann hafi beðið í bifreiðinni hjá FF á meðan ákærði Guðjón Björgvin hafi brotist inn í húsið, kvað vitnið þann framburð ekki réttan. Kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa gefið þennan framburð fyrir lögreglu. Vitninu var sýnd skýrslan og hann beðinn um að svara því til hvort á henni væri að finna skammstöfun hans og undirritun. Svaraði vitnið því játandi að hann hefði undirritað skýrsluna og einnig að þetta gæti verið skammstöfun hans. Kvað vitnið sig ekki muna eftir því að hafa gefið umrædda skýrslu hjá lögreglu.
Vitnið, FF, kom fyrir dóm. Vitnið kvaðst þekkja ákærða Guðjón Björgvin. Kvaðst hún hafa verið með honum eitthvað þennan dag en hún muni ekkert eftir deginum eða dögunum þar á undan. Kvaðst hún hafa átt „[bifreið]“ á þessum tíma sem hafi verið „grár“. Aðspurð um númer bifreiðarinnar kvaðst hún halda það vera „[...]“. Aðspurð um hvort hún hafi ekið að ESSO, Bíldshöfða, kvað vitnið sig ekki muna eftir því. Undir vitnið voru bornar myndir teknar úr eftirlitskerfi bensínstöðvarinnar, dags. 20. október 2003, skj. I/13-1, og var hún spurð hvort hún þekkti manninn á myndinni. Kvað hún sig telja það vera ákærða Guðjón Björgvin. Aðspurð hvort hún kannaðist við úlpuna sem maðurinn á myndinni er í kvað vitnið svo ekki vera. Sérstaklega aðspurð um efri myndina á skj. I/13-3 og hvort þarna væri um að ræða bifreið hennar kvaðst hún ekki sjá bílnúmerið og gæti því ekkert fullyrt um hvort þetta væri bifreið hennar en um líka bifreið væri að ræða. Kvað vitnið sig ekki muna eftir því að hafa verið þarna. Vitninu var kynnt skýrsla hennar fyrir lögreglu, dags. 19. desember 2003, skj. II/6-1, þar sem fram kemur að vitnið hafi ekið upp að bensínstöð ESSO, Bíldshöfða. Hún hafi ekki farið inn í bensínstöðina en ákærði Guðjón Björgvin hafi farið þangað inn. Kvaðst vitnið hvorki muna eftir þessum degi né hvað standi í skýrslunni. Þá kannaðist hún ekkert við að hafa farið að J-húsi. Hún hafi verið í óreglu á þessum tíma.
Vitnið, Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, skýrði svo frá að hann hefði stjórnað rannsókn þessa máls. Kvaðst hann muna eftir því að hafa tekið skýrslur af HH og FF við rannsókn málsins hjá lögreglu. Aðspurður taldi vitnið að þau hefðu verið „í góðu ástandi“ þegar skýrslurnar voru teknar.
Ákæruliður II.3.1. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Af rannsóknargögnum málsins, sem lögð hafa verið fram í dómi, telst sannað að ákærði Guðjón Björgvin hafi kl. 9.47 að morgni 20. október 2003 komið inn í Bensínstöð ESSO, Ártúnshöfða, og hringt þar úr síma bensínstöðvarinnar með númerinu [D] en samkvæmt gögnum málsins og framburði vitnisins GG var skráð í símnúmerabirti á heimili hans að J-húsi að hringt var úr síma bensínstöðvarinnar á sömu mínútu. Af myndum úr eftirlitskerfi bensínstöðvarinnar sést skýrlega að mati dómsins hvar ákærði, klæddur grænni, hálfsíðri úlpu með hettu og loðkraga, hringir úr síma stöðvarinnar. Samkvæmt skilmerkilegum og greinargóðum framburði II sá hún mann klæddan grænni eða dökkgrænni síðri úlpu með hettu og loðkraga ganga í gegnum runna við J-hús á tímabilinu 10.30 til 11.20 á morgni 20. október 2003 með ferðatösku í eftirdragi. Hafi hún ekki séð andlit mannsins þar sem hann hafi verið hettuna yfir hausnum. Skráði hún hjá sér númer bifreiðarinnar [ ], sem skráð var á FF, sem samkvæmt gögnum málsins bjó með ákærða á þessum tíma. Við rannsókn lögreglu síðar þann sama dag í umræddri bifreið og við húsleit á heimili ákærða að Torfufelli 35 fundust ýmsir munir sem teknir höfðu verið í innbrotinu í J-hús. Einnig liggur fyrir að við handtöku ákærða 9. nóvember 2003 fannst á honum SPRON kort í eigu húsráðanda í J-húsi.
Fyrir lögreglu báru FF og HH að ákærði Guðjón Björgvin hafi farið inn í J-hús en hafa fyrir dómi annað hvort haldið því fram að þau muni nú ekki eftir atvikum dagsins eða hafa neitað að framburður þeirra fyrir lögreglu hafi verið réttur. Fyrir dómi bar HH að hann myndi ekki eftir skýrslutöku sinni fyrir lögreglu en kvaðst telja að hann hefði undirritað skýrslu af yfirheyrslu hans sem undir hann var borin. Vitnið Gísli Breiðfjörð Árnason, rannsóknarlögreglumaður, sem tók umræddar skýrslur af FF og HH hefur fyrir dómi borið að þau hafi að hans mati verið í „góðu ástandi“ þegar báru fyrir lögreglu.
Þegar litið er til framangreinds, rannsóknargagna málsins, sem lögð hafa verið fram í dómi og skilmerkilegs og greinargóðs framburðar vitnisins II, telur dómurinn fram komna lögfulla sönnun um að ákærði Guðjón Björgvin sé sekur um þá háttsemi sem greinir í ákærulið II.3.1. í ákæru, dags. 23. janúar 2004. Brot ákærða varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliðir II.3.2. og 3.3. - Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 28. nóvember 2003, skj. I/1-1, voru lögreglumenn sendir að K-húsi vegna tilkynningar um innbrot. Á vettvangi hittu þeir tilkynnanda, JJ, sem kvaðst hafa tekið eftir því að búið var að brjóta rúðu hægra megin að aftan í bifreiðinni [D]. Sagðist hún einskis sakna úr bifreiðinni en búið hafi verið að róta í henni og spenna ramma sem var utan um geislaspilara frá sjálfum spilaranum. Kvað hún að silfurlitaður DVD-spilari af JVC gerð 302SL, að verðmæti 22.900 krónur, og fjarstýring hafi verið tekinn úr hillusamstæðu. Síðar tilkynnti hún að veski hennar hafi einnig verið tekið og hafi debetkort hennar verið notað í Fljótt og gott á um morguninn. Einnig hafi verið reynt að taka út af kortinu í Sparisjóði Reykjavíkur. Í frumskýrslu lögreglu segir að í snjónum á vettvangi hafi sést för í snjónum sem bentu til þess að gerandi hafi verið einn á ferð og komið hlaupandi suður [...]. Ekki hafi reynst unnt að ná förum í snjónum en á gólfi í svefnherbergi þar sem DVD-spilarinn hafi verið hafi rannsóknarlögreglumaður reynt að lyfta fari af parketti. Samkvæmt rannsókn tæknideildar lögreglu, dags. 3. desember 2003, skj. I/3-1, var ekki að finna önnur gögn á vettvangi heldur en skófarapartar með „fiskbeinamynstri“ sem hafi verið á gólfi í forstofuherbergi fyrir framan hillu þá sem DVD-spilarinn var í. Bylgjurnar í mynstrinu hafi verið misstórar og að auki hafi sést lína eftir því endilöngu. Hluti af skófarapörtunum hafi verið lyft upp.
Fram kemur í lögregluskýrslu, dags. 1. desember 2003, skj. I/8-1, að við reglubundið eftirlit hafi lögreglan tekið eftir bifreiðinni [E] þar sem henni hafi verið lagt í bifreiðastæði við heimili ákærða að Torfufelli 35. Hafi ákærði Guðjón Björgvin setið í farþegasæti bifreiðarinnar og hafi hann verið handtekinn ásamt ökumanni bifreiðarinnar, KK. Við leit í bifreiðinni hafi fundist JVC-SL geislaspilari sem tengdist innbroti í K-húsi. Bar eigandinn, JJ, kennsl á hann á skrifstofu rannsóknardeildar hinn 4. desember 2003, sbr. skj. I/13-1.
Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir „innlendar heimildafærslur“ frá Kreditkortum hf., dags. 1. desember 2003, skj. I/4-1, vegna korts með númerinu [...], var leitast við að taka út 1.000 og 5.000 krónur í hraðbanka Íslandsbanka númer 0515 þann 28. nóvember 2003. Þá liggur fyrir samkvæmt yfirliti um „innlendar debetkortafærslur“ af reikningi nr. [...], dags. 1. desember 2003, skj. I/4-2, að kortið hafi verið notað kl. 06.47.99 að morgni 28. nóvember 2003, annars vegar með úttekt að fjárhæð 2.690 krónur og hins vegar að fjárhæð 360 krónur.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 2. desember 2003, skj. I/6-1, var tekinn til skoðunar disklingur úr eftirlitsmyndavélakerfi Fljótt og gott, BSÍ, við Vatnsmýrarveg. Skoðuð voru myndskeið, dags. 28. nóvember 2003, milli kl. 06:40 og 06:43. Kemur fram í skýrslunni að á myndunum sjáist er bifreiðinni [E] er ekið að bílalúgu nætursölunnar og vörur afgreiddar í hana. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 1. desember 2003, skj. I/5-1, kvaðst sá starfsmaður á BSÍ sem afgreiddi þá sem í bílnum voru ekki muna eftir umræddu tilviki. Einnig var tekinn til skoðunar disklingur úr eftirlitsmyndavélakerfi Select Suðurfelli. Upptakan er frá 28. nóvember 2003 á tímabilinu frá 23:34 til 23:42:37. Fram kemur í skýrslu lögreglu dagsettri sama dag, skj. I/7-2, að þar megi sjá hina grunuðu stadda framan við hraðbanka en erfitt sé að átta sig á „hvort þeir eigi í viðskiptum við hann eða ekki“.
Í málinu liggur frammi skýrsla tæknideildar lögreglu, dags. 19. desember 2003, skj. merkt R. Þar segir að gert hafi verið afþrykk af skóm ákærða eftir handtöku hans 1. desember 2003. Hafi skóför hans verið borin saman við þá parta af skóförum sem fundust á vettvangi í K-húsi. Í niðurstöðu segir að það sé álit rannsakara að skóförin sem fundust á vettvangi séu eftir skó af sömu gerð og af sömu stærð og eftir skó ákærða.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Guðjón Björgvin, neitar sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Vísaði hann til framburðar síns við yfirheyrslu. Aðspurður um hvort hann myndi eftir því að hafa verið á þessum tíma við BSÍ og keypt þar eitthvað kvaðst ákærði ekki muna eftir því. Ákærða var kynnt að fyrir lægi niðurstaða tæknideildar lögreglunnar, dags. 19. desember 2003, um að skófar sem hafi fundist á vettvangi við K-hús sé af þeim skóm sem ákærði var í þegar hann hafi verið handtekinn 1. desember 2003. Aðspurður um hvort hann gæti gefið einhverjar skýringar á þessu kvaðst ákærði ekki geta það. Aðspurður kvaðst hann þekkja KK. Aðspurður um framburð KK fyrir lögreglu, dags. 1. desember 2003, skj. II/1-1, um að ákærði hafi aðfaranótt 28. nóvember 2003 komið inn í bifreið hans með DVD-spilara sem lögreglan lagði hald á 1. desember 2003, kvaðst ákærði ekki skilja þennan framburð nema að KK væri að reyna að fría sjálfan sig.
Vitnið, Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, bar fyrir dómi að hafa tekið „þrykk af parti“ af skófari á gólfi fyrir framan hillu í herbergi þar sem DVD-spilari hafði verið tekin úr hillunni í umræddu innbroti í K-hús, 28. nóvember 2003. Undir vitnið var borin mynd sem tekin var af vettvangi, skj. I/3-3, mynd 3, og staðfesti vitnið réttmæti hennar. Vitnið lýsti því að við rannsókn málsins hafi hann borið saman skófar það sem tekið var á vettvangi við þá skó sem ákærði Guðjón Björgvin hafi verið í þegar hann var handtekinn 1. desember 2003. Niðurstaðan hafi verið sú að skófarið á vettvangi sé af sams konar skóm og af sömu stærð og skór ákærða Guðjóns Björgvins. Sé þetta gert með samanburði á mynstri af skófari sem tekið er með þrykki og skófari sem tekið var af skóm þeim sem ákærði Guðjón Björgvin var í við handtöku 1. desember 2003. Aðspurður um hvort hann gæti fullyrt að um skó ákærða hafi verið að ræða sem skófarið væri af bar vitnið að niðurstaða tæknirannsóknarinnar væri sú að skófarið væri eftir skó „af sömu gerð og af sömu stærð“ og þeir skór sem ákærði Guðjón Björgvin hafi verið í 1. desember 2003. Skýrði hann frá því að lögreglumenn hefðu ekki haft umrædda skó ákærða Guðjóns Björgvins undir höndum þegar tæknirannsóknin fór fram heldur „ljósrit af afþrykki“ af þeim skóm sem ákærði var í 1. desember 2003. Sérstaklega aðspurður um hvort það væri venja að rannsókn á skófari færi fram án þess að viðkomandi skór væru til staðar kvað vitnið svo ekki vera. Þetta tilvik hefði verið undantekning frá því sem almennt gerist í þessum málum. Skórnir hefðu ekki verið teknir af ákærða Guðjóni Björgvini við handtöku og hefðu þeir því ekki verið í vörslu lögreglu.
Vitnið, JJ, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði verið á leiðinni í próf umræddan morgun og hafi hún þá tekið eftir að búið var að brjóta rúðuna í bifreiðinni. Þegar hún hafi komið inn aftur hafi hún tekið eftir því að búið var að taka spilara sem hefði verið í hillu fyrir ofan sjónvarpið. Þá hefði verið búið að taka tösku með skólabókum hennar og peningaveski. Vitninu var kynnt skj. I/3-3, mynd 3, og kvað vitnið það rétt, eins og fram kemur á myndinni, að DVD-spilarinn hafi verið á þeim stað sem pílan á myndinni greinir. Vitnið skýrði svo frá að búið hefði verið að róta mikið til í bifreiðinni og að reynt hefði verið að taka útvarpið úr honum. Vitnið bar að hún hefði aðeins fengið DVD-spilarann og fjarstýringu til baka. Undir vitnið var borið skj. I/14-1, skýrsla um verðmæti, og staðfesti vitnið þá lýsingu sem þar kemur fram.
Ákæruliðir II.3.2. og 3.3. - Niðurstaða dómsins.
Ákærði neitar sök. Gegn neitun ákærða er það mat dómsins að ekkert af því sem lagt hefur verið fram í dómi veiti nægjanlegar sönnur um að ákærði hafi staðið að þeim innbrotum sem honum er gefin að sök í ákæruliðum II.3.2. og 3.3. Þá hefur KK ekki verið leiddur fyrir dóm sem vitni af hálfu ákæruvaldsins og verður að meta sönnunargildi skýrslu um framburð hans fyrir lögreglu með það í huga. Niðurstaða tæknideildar lögreglu um samanburð á skófari og afþrykki af þeim skóm sem vitnið Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður bar fyrir dómi að hefði verið tekið af þeim skóm sem ákærði Guðjón Björgvin var í við handtöku 1. desember 2003 getur, eins og atvikum er háttað, ekki ein og sér talist nægja til að lögfull sönnun verði talin liggja fyrir. Þá verður af gögnum málsins ekki ráðið að nein sjálfstæð rannsókn hafi farið fram á atvikum sem greinir í ákærulið II.3.3. Að þessu virtu telur dómurinn að eins og sönnunarfærslu um ákæruliði II.3.2. og 3.3. sé háttað sé varhugavert að leggja til grundvallar að fram séu komnar fullnægjandi sönnur gegn neitun ákærða um að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæruliðum II.3.2. og 3.3. Verður hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins hvað þá ákæruliði varðar.
Refsiákvörðun dómsins.
Ákærða X hefur í máli þessu verið sakfelld fyrir hylmingu, sbr. 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga en eins og atvikum er háttað eru ekki skilyrði til að líta til 77. gr. sömu laga hvað hana varðar. Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur hún ekki áður, svo vitað sé, gerst sek um refsiverða háttsemi. Hún á sér ekki aðrar málsbætur. Að þessu virtu og eðli þess brots sem hér um ræðir þykir hæfileg refsing ákærðu X vera fangelsi í 3 mánuði en skilyrði eru til að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Guðjón Björgvin hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir tvö hylmingarbrot er varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga, fjögur þjófnaðarbrot, sbr. 1. mgr. 244. gr. sömu laga, og eitt brot sem varðar við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. hegningarlaga, þrjú fjársvikabrot, sbr. 248. gr. sömu laga, og þrjú skjalafalsbrot, sbr. 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fjárhagslegt umfang þessara brota nemur rúmlega 1.600.000 krónum.
Ákærði á að baki talsverðan sakarferil frá því að hann varð 18 ára. Hann hlaut fimm fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot á árunum 1993, 1994, 1995 og 16. janúar 1998. Með dóminum frá 1998 var ákærði dæmdur í 7 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir þjófnað. Auk þessa hefur ákærði hlotið þrjá sektardóma fyrir brot á umferðarlögum og lögum og reglum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hlaut þrjá dóma á árinu 2003. Fyrst var hann dæmdur 15. janúar þ.á. fyrir nytjastuld, sbr. 1. mgr. 259. gr. hegningarlaga, í 1 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár. Næst var hann dæmdur 13. febrúar þ.á. í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir nytjastuld og fjársvik. Dómurinn frá 15. janúar 2003 var þá dæmdur með, sbr. 60. og 77. gr. hegningarlaga, og ákærða gerð refsing í einu lagi. Síðast var ákærði dæmdur 3. október 2003 í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot á umferðarlögum og var dómurinn frá 13. febrúar 2002 dæmdur með og ákærða gerð refsing í einu lagi. Öll þau brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu dómsins 3. október 2003 að undanskildu því broti sem greinir í ákærulið II.3.1. í ákæru, dags. 23. janúar 2004, en það átti sér stað 20. október 2003. Verður því að ákvarða ákærða Guðjóni Björgvini hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, hvað fyrrnefndu brotin varðar við dóminn 3. október 2003, en með broti sínu 20. október s.á, hefur ákærði rofið skilorð sama dóms. Verður því einnig litið til 60. gr. hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða Guðjóns Björgvins og skilorðsdómurinn frá 3. október 2003 tekinn upp og honum dæmd refsing í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Ákærði á sér engar málsbætur. Að því virtu, eðli þeirra brota sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir og umfangi þeirra þykir refsing ákærða Guðjóns Björgvins hæfileg fangelsi í 2 ár og 6 mánuðir.
Af hálfu verjanda ákærða Guðjóns Björgvins hefur þess verið krafist að til frádráttar óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu ákærða komi gæsluvarðhald hans, samtals 219 dagar, dregin frá með fullri dagatölu þannig að miðað sé við gæsluvarðhaldstíma hans á eftirgreindum tímabilum: 14. júlí 2002 - 19. júlí 2002, 20. júlí 2002 - 2. september 2002, 15. ágúst 2003 - 26. september 2003, 1. nóvember 2003 - 5. nóvember 2003, 16. desember 2003 - 23. desember 2003, 23. desember 2003 - 30. mars 2004 og 30. mars 2004 - 7. apríl 2004.
Gæsluvarðhaldsvist ákærða Guðjóns Björgvins á tímabilinu 14. júlí 2002 til 19. júlí 2002 og 20. júlí 2002 til 2. september 2002 er ekki til komin vegna þeirra brota sem ákærur þessa máls taka til. Af þeirri ástæðu er ekki fullnægt skilyrðum 76. gr. hegningarlaga til að draga þann tíma frá þeirri óskilorðsbundnu fangelsisrefsingu sem ákærði Guðjón Björgvin hefur verið dæmd í máli þessu, sbr. til hliðsjónar H. 1980, bls. 722 (731-732) og H. 1973, bls. 442. Er þá horft til þess að 76. gr. hegningarlaga gerir ráð fyrir því að skilyrði til að láta gæsluvarðhaldstíma koma leyti í stað refsingar verði metin af dómara þegar ákvörðuð er refsing vegna þeirra brota sem voru tilefni gæsluvarðhaldsins. Þá verður litið til þess að samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, kann sakborningur, sem er sýknaður eða ekki ákærður, að eiga rétt á skaðabótum úr hendi ríkisins að öðrum skilyrðum uppfylltum vegna vistunar í gæsluvarðhaldi.
Fyrir liggur í máli þessu að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 15. ágúst 2003 er m.a. til komin vegna þeirra brota sem fjallað hefur verið um í máli þessu. Verður því vistun ákærða í gæsluvarðhaldi á framangreindum tímabilum frá og með 15. ágúst 2003 dregin frá dæmdri fangelsisrefsingu hans með fullri dagatölu, sbr. 76. gr. hegningarlaga, eins og nánar greinir í dómsorði.
Skaðabótakröfur.
Ákæra dagsett 23. desember 2003:
D, [kt.], hefur gert kröfu um skaðabætur á hendur ákærða Guðjóni Björgvini að fjárhæð kr. 100.000 auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 af kr. 50.000 frá 19. ágúst 2002 til 22. ágúst s.á. og af kr. 100.000 frá þeim degi til greiðsludags. Að auki er krafist kr. 20.916 vegna lögmannskostnaðar og er virðisaukaskattur innifalinn.
M. 033-2002-05183
Ákærði Guðjón Björgvin hefur krafist þess að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot það sem lýst er í ákærulið II.3.2. í ákæru, dags. 23. desember 2003, en sýknaður af broti samkvæmt ákærulið II.3.1. í sömu ákæru. Framangreind bótakrafa er leidd af þessum ákæruliðum. Að virtri niðurstöðu dómsins að þessu leyti og framburðum vitnanna Æ og F um að D hafi þegar verið greiddar 50.000 krónur verður þessari bótakröfu vísað í heild sinni frá dómi.
Ákæra dagsett 23. janúar 2004:
Eftirgreind fyrirtæki gera kröfur á hendur ákærða Guðjóni Björgvini um skaðabætur:
1. Olíuverslun Íslands hf., [kt.], hefur gert kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 3.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 20. júní en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.
M. 010-2002-21159
Ákærði Guðjón Björgvin hefur krafist þess að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi. Enda þótt ákærði hafi með dómi þessum verið sakfelldur fyrir það brot sem framangreind bótakrafa er leidd af verður að líta til þess að samkvæmt upphafsmálslið 171. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal tilgreina bótakröfu ótvírætt í ákæru, sbr. 2. mgr. 116. gr. Í framangreindri bótakröfu er ekki getið með fullnægjandi hætti upphafstíma vaxtaútreiknings á höfuðstól kröfunnar. Þar sem þetta atriði verður ekki leiðrétt hér verður ekki hjá því komist að vísa bótakröfu þessari frá dómi.
2. Landsbanki Íslands hf., [kt.], hefur gert kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 125.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var 29. júlí 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 010-2003-19934
Ákærði Guðjón Björgvin hefur krafist þess að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi. Ákærði hefur með dómi þessum verið sakfelldur fyrir það brot sem framangreind bótakrafa er leidd af. Verður honum gert að greiða bætur með þeim hætti sem krafist er í 2. lið hér að framan, sbr. 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og nánar er rakið í dómsorði.
3. Landsbanki Íslands hf., [kt.], hefur gert kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 450.090 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var 28. júlí 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 033-2003-03223
Ákærði Guðjón Björgvin hefur krafist þess að framkominni bótakröfu verði vísað frá dómi. Ákærði hefur með dómi þessum verið sakfelldur fyrir það brot sem framangreind bótakrafa er leidd af þó þannig að það tjón sem leiddi af broti ákærða eins og því er lýst í ákærulið II.2.2. í ákæru, dags. 23. desember 2003, er 450.000 krónur. Verður honum því gert að greiða Landsbanka Íslands skaðabætur sem nema höfuðstól að þeirri fjárhæð, sbr. 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og nánar er rakið í dómsorði.
Sakarkostnaður.
Ákærða X verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hdl., 180.000 krónur, sbr. 1. mgr. 165. gr. og a-lið 164. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Öðrum sakarkostnaði er ekki til að dreifa hvað hana varðar.
Ákærða Guðjóni Björgvini verður gert að greiða allan sakarkostnað málsins, þar af þóknun Jóns Egilssonar hdl., 90.000 krónur, vegna verjendastarfa á fyrri stigum málsins, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigmundar Hannessonar hrl., 320.000 krónur, sbr. 1. mgr. 165. gr. og a-lið 164. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Arnardóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Róbert R. Spanó, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.
dómsorð:
Ákærða, X, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins að telja haldi ákærða almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Guðjón Björgvin Guðmundsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Frá refsingu ákærða dregst með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist hans frá 15. ágúst 2003 til 26. september 2003, frá 1. nóvember 2003 til 5. nóvember 2003, frá 16. desember 2003 til 23. desember 2003 og frá 23. desember 2003 til uppkvaðningardags dóms þessa að telja.
Ákærði Guðjón Björgvin greiði Landsbanka Íslands hf., [kt.], kr. 125.000 í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 29. júlí 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Ákærði Guðjón Björgvin greiði Landsbanka Íslands hf., [kt.], kr. 450.000 í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 28. júlí 2003 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
Bókakröfu D á hendur ákærða Guðjóni Björgvini er vísað frá dómi.
Bótakröfu Olíuverslunar Íslands hf. á hendur ákærða Guðjóni Björgvini er vísað frá dómi.
Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar hdl., 180.000 krónur.
Ákærði Guðjón Björgvin greiði allan sakarkostnað málsins, þar af þóknun Jóns Egilssonar hdl., 90.000 krónur, vegna verjendastarfa á fyrri stigum málsins og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigmundar Hannessonar hrl., 320.000 krónur.