Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2012


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Skuldajöfnuður


                                     

Fimmtudaginn 24. janúar 2013.

Nr. 274/2012.

Þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og

Karl Steingrímsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

og gagnsök

Skuldamál. Skuldajöfnuður.

A hf. krafði þrotabú EV ehf. og K um greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á reikningi EV ehf. hjá bankanum, en K hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á reikningnum. Deildu aðilar um það hvort krafa A hf. á hendur EV ehf. og K hefði verið efnd með skuldajöfnuði af innstæðu á bankareikningi sem EV ehf. hafði sett bankanum að handveði eða hvort A hf. hafi borið að leita efnda á þann veg. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt orðalagi handveðssamningsins hefði EV ehf. ekki haft ráðstöfunarrétt yfir hinu veðsetta og hefði félagið því ekki getað ákveðið einhliða hvernig því yrði ráðstafað. Þá hefði þar verið tekið fram að A hf. væri heimilt að nota veðandlagið til fullnustu á kröfum sínum á hendur EV ehf. Hefði því ekki hvílt skylda á A hf. að verða við kröfu EV ehf. um skuldajöfnuð. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um greiðsluskyldu EV ehf. og K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2012. Þeir krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 4. júlí 2012. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendum verði gert að greiða sér 24.526.512 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags að frádreginni innborgun 10. janúar 2011 að fjárhæð 23.500.000 krónur. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjandans Karls Steingrímssonar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir stofnaði Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., sem þá hét Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf., 12. maí 1998 tékkareikning númer [...]-[...]-[...]43 hjá forvera gagnáfrýjanda, Búnaðarbanka Íslands hf. Tékkareikningi þessum fylgdi yfirdráttarheimild sem mun hafa verið að hámarki 30.000.000 krónur. Aðaláfrýjandinn, Karl Steingrímsson, tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildarinnar 31. ágúst 2007 að hámarki 30.000.000 krónur og var gildistími sjálfskuldarábyrgðarinnar fjögur ár og skyldi hún vara uns skuldbindingin, sem henni væri ætlað að tryggja, væri að fullu greidd.

Með yfirlýsingu 3. október 2008 setti Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. forvera gagnáfrýjanda, sem þá hét Kaupþing banki hf., að handveði bankareikning númer [...]-[...]-[...]22 og alla innstæðu hans eins og hún væri hverju sinni.

Framangreind yfirdráttarheimild féll niður 21. ágúst 2009 og þann dag nam skuld á fyrrgreindum tékkareikningi 24.526.512 krónum. Í lok desember 2009 nam innstæða á hinum handveðsetta bankareikningi 107.344.356 krónum. Hinn 10. janúar 2011 greiddi Borgarmiðjan ehf. 23.500.000 krónur inn á framangreinda yfirdráttarskuld á tékkareikningi númer [..]-[...]-[...]43.

Eftir að bú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta er ágreiningslaust með aðilum að skuld á tékkareikningi félagsins var gjaldfallin. Meginágreiningur aðila snýst um það hvort krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjendum hafi verið efnd með skuldajöfnuði af innstæðu á hinum handveðsetta bankareikningi eða hvort gagnáfrýjanda hafi borið að leita efnda á þann veg.

II

Í umræddri yfirlýsingu um handveðsetningu  3. október 2008 kom fram að um væri að ræða allsherjarveð, þar sem gagnáfrýjanda var veðsettur reikningur númer [...]-[...]-[...]22 og öll innstæða hans eins og hún væri hverju sinni. Sagði þar að handveðið væri til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sem veðsali tækist á hendur gagnvart veðhafa, sem þegar hafi stofnast eða sem síðar myndu stofnast, hvort sem þær væru samkvæmt víxlum, skuldabréfum, yfirdráttum á tékkareikningum, debet og kreditkortaviðskipum, lánasamningum, reikningslánum, afurðarlánum, erlendum lánum og hvers kyns ábyrgðum í hvaða formi sem væri og í hvaða gjaldmiðli sem væri og hvort sem um væri að ræða höfuðstól, verðbætur, gengishækkanir, vexti, dráttarvexti og hvers kyns kostnað. Yrðu vanskil á einhverri þeirri kröfu sem veðandlagið ætti að tryggja eða hefði veðsali vanefnt einhverjar skyldur sínar samkvæmt einhverri þeirri skuld sem veðandlagið ætti að tryggja eða hefði veðsali brotið með einhverjum hætti gegn ákvæðum handveðsyfirlýsingarinnar, væri veðsala heimilt að nota andvirði veðandlagsins í heild eða hluta til fullnustu á þeim kröfum sem það ætti að tryggja án undangenginnar tilkynningar eða aðvörunar. Þá sagði að hið handveðsetta væri í vörslum og á ábyrgð veðhafa og honum til tryggingar og ráðstöfunar frá undirritun hafnveðsyfirlýsingarinnar og yrði það svo lengi sem hún gilti. Væri veðsala óheimilt meðan skuld sú sem veðandlagið ætti að tryggja væri ekki að fullu greidd að ráðstafa veðandlaginu nema hann hefði áður fengið til þess skriflegt leyfi veðsala.

Aðaláfrýjendur byggja á því að með tölvupósti lögmanns þeirra til gagnáfrýjanda 17. september 2009 hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði við innstæðu á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 vegna vanskila Eignarhaldfélagsins Vindasúlna ehf. við gagnáfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing þessi væri að engu leyti skýr um skuldajöfnuð gagnvart yfirdrætti á tékkareikningnum. Hvað sem líður skýrleika þessarar yfirlýsingar um skuldajöfnuð er ljóst samkvæmt orðalagi handveðssamningsins að veðsali hafði ekki ráðstöfunarrétt yfir hinu veðsetta og gat ekki einhliða ákveðið hvernig því yrði ráðstafað. Þá var sérstaklega tekið fram í samningnum að veðhafanum væri heimilt að nota veðandlagið til fullnustu á kröfum sínum á hendur veðsala. Af því leiðir að engin skylda hvíldi á gagnáfrýjanda að verða við kröfu aðaláfrýjenda um skuldajöfnuð. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Eftir þessum málsúrslitum verður aðaláfrýjandanum Karli Steingrímssyni gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og Karl Steingrímsson, greiði gagnáfrýjanda, Arion banka hf., sameiginlega 24.526.512 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 10. janúar 2011 að fjárhæð 23.500.000 krónur.

Aðaláfrýjandi, Karl Steingrímsson, greiði gagnáfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað með stefnu þingfestri 29. nóvember 2009 af Nýja Kaupþing banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, gegn Eignarhaldsfélaginu Vindasúlum ehf., Kirkjutorgi 4, Reykjavík og Karli Steingrímssyni, Laugarásvegi 35, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnanda 24.526.512 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 21. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, Karls Steingrímssonar.

Stefndu krefjast sýknu, greiðslu málskostnaðar og álags á málskostnað. Til vara er gerð krafa um að innborgun að fjárhæð 23.500.000 krónur 10. janúar 2011 komi til frádráttar kröfufjárhæð og að fjárhæðin beri dráttarvexti frá uppsögu héraðsdóms.  

Mál þetta var upphaflega dæmt í héraðsdómi 9. september 2010. Var málinu áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi uppkveðnum 14. apríl 2011 í máli nr. 560/2010 ómerkti hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar.  

Sá dómari sem nú dæmir mál þetta fékk það til meðferðar 2. október 2011. 

Með umsókn um stofnun tékkareiknings, sem undirrituð er 12. maí 1998, óskaði stjórnarfundur Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf. eftir því við Búnaðarbanka Íslands að stofna tékkareikning í nafni félagsins. Sama dag samþykkti bankinn stofnun tékkareikningsins og fékk hann númerið [...]-[...]-[...]43. Aðilar málsins eru sammála um að reikningi þessum hafi fylgt yfirdráttarheimild að hámarki 30.000.000 króna. Þá greinir hins vegar á um hvenær yfirdráttarheimildin hafi liðið undir lok. Í því efni miðar stefnandi við 21. ágúst 2009. Stefndu byggja á því að heimildin hafi enn ekki runnið út.

Með yfirlýsingu 31. ágúst 2007 tókst stefndi, Karl Steingrímsson, á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Með skuldbindingunni tókst hann á hendur persónulega að tryggja Kaupþingi banka hf. efndir á skuldbindingum reikningseigandans. Var ábyrgðaraðila skylt að greiða skuldina við vanskil þó svo bankinn hefði enga tilraun gert til að fá hana greidda hjá reikningseiganda. Hámark sjálfskuldarábyrgðar skyldi vera 30.000.000 króna. Skyldi gildistími sjálfskuldarábyrgðarinnar vera fjögur ár frá útgáfudegi yfirlýsingarinnar. Skyldi hún vara uns skuldbindingin sem henni væri ætlað að tryggja væri að fullu greidd.

Með yfirlýsingu 3. október 2008, sem ber yfirskriftina handveðsetning allsherjarveð, setti Eignarhaldsfélagið Kirkjuhvoll ehf. sem veðsali, Kaupþingi banka hf. sem veðhafa, að handveði reikning nr. [...]-[...]-[...]22 og alla innstæðu hans eins og hún væri hverju sinni. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að handveðið sé til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum, meðal annars samkvæmt yfirdráttum á tékkareikningum. Fram kemur að verði vanskil á einhverri kröfu sem veðandlagið eigi að tryggja eða hafi veðsali vanefnt einhverjar skyldur sínar sé veðhafa heimilt að nota andvirði veðandlagsins í heild eða hluta til fullnustu á þeim kröfum sem veðandlagið eigi að tryggja án undangenginnar tilkynningar eða aðvörunar. Þeim hluta inneignar veðsala sem ekki sé þörf til greiðslu á kröfum veðhafa samkvæmt þessu skuli hann skila til veðsala innan 7 sólarhringa frá því að ljóst sé að hvaða marki nota þurfi veðandlagið til fullnustu á kröfum veðhafa. Veðsala sé óheimilt meðan skuld sú sem veðandlagið eigi að tryggja sé ekki að fullu greidd að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi veðhafa. Handveðssetning samkvæmt yfirlýsingunni gildir frá og með undirritun hennar og þar til sú skuldbinding, svo og allur kostnaður sem handveðið eigi að tryggja, séu að fullu greidd.    

Nafni Eignarhaldsfélagsins Kirkjuhvols ehf. mun hafa verið breytt í Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., en samþykktir fyrir félagið með breyttu nafni eru dagsettar 8. júní 2009.

Í lok desember 2009, er stefndu skiluðu greinargerð í málinu, nam innstæða á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 alls 107.344.356 krónum. Skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43 21. ágúst 2008 nam alls 24.526.512 krónum. Ritaði stefnandi stefndu innheimtubréf 3. september 2009 vegna þeirrar kröfu.

Samkvæmt tölvupósti sem þáverandi lögmaður Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. sendi starfsmanni Nýja Kaupþing banka hf., sem síðar varð starfsmaður Arion banka hf., 17. september 2009, lýsti lögmaðurinn því yfir fyrir hönd eignarhaldsfélagsins að bankinn hefði í höndum handveðsbók í eigu Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. til tryggingar skuldbindingum félagsins við bankann. Beri bankanum, að kröfu Eignarhaldsfélagsins, að ganga á það fé komi til greiðslufalls. Er vísað til þess að síðasti gjalddagi af tilgreindum lánum hafi að mestu verið greiddur af innstæðu bókarinnar. Í því ljósi væri þess krafist að gjaldfallnar greiðslur yrðu þegar inntar af innstæðu bókarinnar.

Einkahlutafélagið Borgarsmiðjan greiddi Arion banka hf. 10. janúar 2011 23.500.000 krónur en greiðsla þessi kemur fram á kvittun á dskj. nr. 20. Í þeirri kvittun kemur fram að um sé að ræða kröfu samkvæmt yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Í kvittuninni kemur fram að eftirstöðvar nemi samtals 7.220.312 krónum.

Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011. Hefur þrotabúið tekið við aðild málsins. Samkvæmt kröfulýsingu í þrotabú stefnda, Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. frá 17. mars 2011 er fram kemur á dskj. nr. 25, er lýst kröfu sem er að höfuðstól 24.526.512 krónur, auk vaxta og kostnaðar. Í kröfulýsingu kemur fram að greitt hafi verið inn á kröfuna 23.500.000 krónur. Samtals nemi krafan 7.272.821 krónu. Er kröfunni lýst sem veðkröfu að því marki sem veðtryggingar samkvæmt handveðsetningu í reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 standi að baki henni, en almennri kröfu fyrir því sem út af kunni að standa. Þá liggja frammi á dskj. nr. 27 til 30 kröfulýsingar Arion banka hf. í þrotabú stefnda, Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf., samtals að fjárhæð 1.081.922.557 krónur. Er þeim kröfum einnig lýst sem veðkröfum að því marki sem veðtryggingar samkvæmt handveðsetningu í reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 standi að baki henni, en almennum kröfum fyrir því sem út af kunni að standa. Kröfuskrá í þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. liggur frammi á dskj. nr. 32. Samkvæmt henni nemur heildarfjárhæð lýstra krafna í stefnda samtals 2.898.709.234 krónum. Í skránni er getið innborgunar að fjárhæð 23.500.000 krónur gagnvart kröfu Arion banka hf.

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum kröfuréttar og meginreglum samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna gerða samninga. Þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi skuld stefndu samkvæmt reikningi nr. [...]-[...]-[...]43 ekki fengist greidd. Stefnandi synjar fyrir að honum hafi borið skylda til að skuldajafna fjárhæð á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 við skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43.

Stefndu byggja kröfu um sýknu í fyrsta lagi á því að hinni umstefndu skuld hafi borið að skuldajafna við innstæðu á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22. Samkvæmt handveðssamningi frá 3. október 2009 hafi innstæða á þeim reikningi 14. desember 2009 samtals numið 107.344.256 krónum. Hafi Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. því átt inni hjá stefnanda á þeim degi og að kröfu stefndu borið að skuldajafna við þá innstæðu inneign á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22. Óeðlilegt sé að stefnandi hafi getað haldið hinni veðsettu fjárhæð á lægri vöxtum án þess að ganga að innstæðunni til lúkningar kröfunni og á sama tíma safnað vanskilavöxtum á hendur stefndu. Sé það í andstöðu við 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 

Í annan stað byggja stefndu á því að yfirdráttarheimildin hafi áfram verið í fullu gildi. Engin gögn séu til um að henni hafi verið sagt upp með löglegum hætti. Í tölvupósti á dskj. nr. 12 hafi verið fallist á að heimildin hafi að ósekju og einhliða verið felld úr gildi. Af þeirri ástæðu hafi sjálfskuldarábyrgðin ekki gjaldfallið þar sem sjálfskuldarábyrgð stefnda, Karls Steingrímssonar, hafi verið ætlað að gilda í fjögur ár frá 31. ágúst 2007 eða til ársins 2011. Sé ábyrgð stefnda, Karls Steingrímssonar, reist á þeirri forsendu að ekki reyni á hana fyrr en í lok þess tíma. Eigi stefnandi því ekki rétt á því að fá skuldina greidda. Eigi hann einungis rétt á því að fá greidda vexti af yfirdráttarheimildinni en samkvæmt henni sé því aðeins um vanefnd að ræða að dregið verði á hana umfram umsamið hámark sem sé 30.000.000 króna. Um slíkt sé ekki að ræða og eigi stefnandi því ekki rétt til greiðslu á þeirri fjárhæð sem samsvari yfirdrættinum. Beri því að sýkna stefndu, a.m.k að svo stöddu. Byggt sé á ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. a-d liðum.

Í málflutningi byggðu stefndu jafnframt á því gagnvart varakröfu sinni að draga bæri frá kröfufjárhæð stefnanda innborgun á skuldina sem gerð hafi verið 10. janúar 2011 og numið hafi 23.500.000 krónum. Stefnandi haldi ekki uppi þeirri málsástæðu að sú greiðsla hafi verið innt af hendi án fyrirvara. Sé dráttarvaxtakröfu stefnanda alfarið hafnað sem og upphafstíma dráttarvaxta.

Stefndu hafa fallið frá málsástæðu um aðildarskort af hálfu stefnanda.

Niðurstaða:

Sýknukrafa stefndu byggir í fyrsta lagi á því að stefnanda hafi borið að skuldajafna fjárhæð á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 við skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43, en næg fjárhæð hafi verið á þeim reikningi til lúkningar skuldinni. Stefnandi hefur mótmælt þessum málatilbúnaði stefndu.

Öðrum aðila í skuldasambandi er almennt heimilt að lýsa yfir skuldajöfnuði svo fremi um sé að ræða gildar kröfur, þær séu á milli sömu aðila, kröfurnar séu hæfar til að mætast og greiðslur sambærilegar. Skuldajöfnuður er í senn greiðsla skuldar og einkafullnustuaðgerð til heimtu eigin kröfu. Að baki skuldajöfnuði búa einkum sjónarmið um hagkvæmni og öryggi. Til að skuldajöfnuður verði virkur þarf yfirlýsingu þess aðila sem skuldajafna vill. Með skuldajöfnuði er aðalkröfuhafinn þvingaður til að nota aðalkröfuna með öðrum hætti en þeim sem honum kann að þykja hentugt. Sérstakar aðstæður geta takmarkað rétt skuldara til skuldajafnaðar. Þannig er unnt í samningi að takmarka heimild til skuldajafnaðar, svo dæmi séu tekin. Slík samningsákvæði þurfa að vera skýr og ótvíræð í ljósi þess að grunnreglan er sú að aðalskuldara er skuldajöfnuðurinn heimill. Að mati dómsins er þeim skilyrðum skuldajafnaðar fullnægt í máli þessu að báðar kröfur eru gildar, þær eru á milli sömu aðila og hæfar til að mætast. Þá eru greiðslur sambærilegar.

Stefndu byggja á því að almenn skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi í máli þessu og hafi stefndu lýst yfir skuldajöfnuði í þeim tölvupóstsamskiptum er átt hafi sér stað milli stefnanda og lögmanns stefnda, Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf., á dskj. nr. 11. Af samskiptum þessum á dskj. nr. 11 má ráða að eignarhaldsfélagið hefur haft ýmsar fjárskuldbindingar gagnvart stefnanda aðrar en yfirdráttarheimild á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Kemur fram að skuldir hafi hvílt á Pósthússtræti 17 og Austurstræti 16 en lán á þessum eignum hafi verið gjaldfelld. Skuldir vegna Pósthússtrætis 17 hafi fallið í gjalddaga 1. júlí 2009. Í tölvupósti frá lögmanni stefndu til starfsmanns stefnanda 17. september 2009 segir: ,,Þá hefur bankinn í sínum fórum handveðsbók í eigu E. Vindasúlna ehf. til tryggingar skuldbindingum félagsins við bankann. Ber bankanum, að kröfu umbj.míns, að ganga á það fé komi til greiðslufalls, sbr. það að síðasti gjalddagi af téðum lánum var greiddur að mestu af innstæðu bókarinnar.“ Að mati dómsins er yfirlýsing sú sem til er vitnað hér að ofan að engu leyti skýr um skuldajöfnuð gagnvart yfirdrætti á tékkareikningi nr. [...]-[...]-[...]43. Verður yfirlýsingin fremur skilin á þann veg að krafist sé skuldajafnaðar gagnvart afborgunum af lánum sem í gjalddaga hafi verið fallin. Í ljósi þess hve óskýr yfirlýsing þessi er verða stefndu látin bera sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu um að skuldajöfnuði gagnvart skuld á nefndum tékkareikningi hafi verið lýst yfir. Slík sönnun hefur ekki tekist af hálfu stefndu. Verður því ekki fallist á sýknu stefndu á þeim grundvelli að stefnanda hafi borið að skuldajafna fjárhæð á reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 við skuld á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43. 

Í annan stað byggja stefndu kröfu um sýknu á því að yfirdráttarheimild á reikningi nr. [...]-[...]-[...]43 hafi ekki liðið undir lok. Stefnandi heldur hinu gagnstæða fram og miðar við að yfirdráttarheimildin hafi liðið undir lok 21. ágúst 2009. Engin gögn liggja frammi í málinu um gildistíma framangreindrar yfirdráttarheimildar. Þó svo heimild til yfirdráttar á tékkareikningi sé byggð á samkomulagi á milli innlánsstofnunar og þess sem yfirdráttarheimild hefur fellur slík heimild niður með yfirlýsingu innlánsstofnunar um lok slíkrar heimildar. Verður að telja það standa stefndu nær að framvísa samningi um að gildistími yfirdráttarheimildarinnar sé annar en stefnandi staðhæfir. Það hafa stefndu ekki gert eða leitt í ljós efni heimildarinnar með öðrum hætti. Verða stefndu því látinn bera halla af skort á sönnun um það atriði. Nægjanlega er upplýst í málinu að stefndu höfðu reynslu af viðskiptum við stefnanda en fjárfestingar og rekstur fasteigna hafa verið þáttur í starfsemi stefndu. Verður því ekki litið svo á að slíkur aðstöðumunur hafi verið í sambandi stefnanda og stefndu að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu. Verður sýknukröfu stefndu á framangreindum forsendum því einnig hafnað.

Með hliðsjón af öllu framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina og stefndu sameiginlega dæmd til að greiða umkrafða fjárhæð.

Fyrir dóminum liggur kvittun um að stærstur hluti kröfu samkvæmt yfirdrættinum hafi verið greidd 10. janúar 2011 eða 23.500.000 krónur. Hið sama kemur fram á kröfuskrá í Þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. Stefndu krefjast þess að tekið verði tillit til þessarar innborgunar á höfuðstól skuldarinnar og hefur stefnandi ekki mótmælt því sérstaklega. Verður tekið tillit til þessarar innborgunar og lækkar krafan sem þessu nemur. Um dráttarvexti fer sem í dómsorði greinir. 

Þess ber að geta að sá sem lýsir yfir skuldajöfnuði ræður því almennt til greiðslu hverrar skuldar gagnkrafa hans skuli renna sé um fleiri skuldir en eina að ræða. Sú regla er ekki án undantekninga. Hefur þetta þótt hafa sérstaka þýðingu þegar sumar kröfur eru tryggðar með tryggingarréttindum en aðrar kröfur eru ótryggðar og óvíst hvort þær fáist greiddar vegna þess hvernig komið er gjaldfærni skuldara.  Stefndi, Karl Steingrímsson, hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á títtnefndum tékkareikningi. Var krafa stefnanda á hendur eignarhaldsfélaginu því einnig tryggð með sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila. Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf. var, eins og áður sagði, úrskurðað gjaldþrota 25. janúar 2011. Nema kröfur í þrotabúið alls 2.898.709.234 krónum og hefur stefnandi lýst kröfum samtals að fjárhæð 1.089.195.378 krónur. Eins og fyrr er rakið er kröfunum lýst sem veðkröfum að því marki sem veðtryggingar samkvæmt handveðsetningu í reikningi nr. [...]-[...]-[...]22 standi að baki þeim, en almennum kröfum fyrir því sem út af kunni að standa. Með hliðsjón af fjárhæð innstæðu á hinum veðsetta reikningi samanborið við lýstar kröfur er alls óvíst hvort krafa stefnanda á hendur stefnda, Þrotabúi Eignarhaldsfélagsins Vindasúlum ehf., sem um er deilt í máli þessu, fáist greidd úr þrotabúinu. Við þær aðstæður verður að telja ósanngjarnt af tilliti til stefnanda að stefndi, Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., geti lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart kröfu sem einnig var tryggð með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu, sem leiðir til þess að staða stefnanda verður þeim mun lakari gagnvart kröfum á hendur stefnda, Eignarhaldsfélaginu Vindasúlum ehf. Skuldajafnaðarheimild eignarhaldsfélagsins sætti því takmörkunum vegna þessa atriðis og var félaginu ekki heimil eins og hér stendur á. 

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins greiði stefndi, Karl Steingrímsson, stefnanda málskostnað eins og í dómsorði er mælt fyrir um.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurður Guðmundsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Jón Þór Ólason héraðsdómslögmaður.

Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Þrotabú Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. og Karl Steingrímsson, greiði stefnanda, Arion banka hf., sameiginlega 1.026.512 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 24.526.512 krónum frá 21. ágúst 2009 til 10. janúar 2011, en af 1.026.512 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi, Karl Steingrímsson, greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.