Hæstiréttur íslands

Mál nr. 377/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 10

 

Föstudaginn 10. september 2004.

Nr. 377/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Böðvar Bragason lögreglustjóri)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr.19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 5. október 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

 Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili hefur játað að hafa framið brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og styðja gögn málsins þá játningu. Brot á því ákvæði getur varðað allt að 10 ára fangelsi og allt að 16 ára fangelsi ef mjög mikil hætta hefur verið samfara brotinu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2004.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 5. október 2004 kl. 16.00 eða þar til dómur fellur í máli hans. 

[...]

Kærði hefur játað að hafa framið vopnað rán í [...] eins og greinir hér að framan. Varnaraðili notaði vopn við ránið í því skyni að ógna starfsmönnum apóteksins. Styðja gögn málsins játningu kæranda. Samkvæmt gögnum málsins getur vopn það, sem kærandi bar, verið hættulegt á allt að 205 metra færi. Var háttsemi kærða til þess fallin að vekja með starfsfólki [...] mikinn ótta. Fram er komið að hjá lögreglu eru til rannsóknar a.m.k. tvö ætluð hótunar- og vopnalagabrot kærða. Þá er komið fram að kærði er fíkniefnaneytandi og atvinnulaus. Þegar allt framangreint er virt verður að telja að eðli brotsins, sem varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa framið, sé slíkt að almannahagsmunir standi til þess að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð

          Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 5. október 2004 kl. 16.00 eða þar til dómur gengur í máli hans.