Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Mánudaginn 6. janúar 2014.

Nr. 4/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(enginn)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stæði. Gæsluvarðhaldsvist X leið undir lok eftir að úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar 31. desember 2013, eigi síðar en 4. janúar 2014. Var málinu því vísað frá réttinum, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 4. janúar 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Þar sem gæsluvarðhaldsvist varnaraðila samkvæmt hinum kærða úrskurði leið undir lok eigi síðar en laugardaginn 4. janúar 2014 klukkan 16 verður málinu vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. desember 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi, allt til laugardagsins 4. janúar 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar tvær líkamsárásir, annars vegar aðfararnótt 22. desember s.l. og hins vegar aðfararnótt 27. desember s.l., þar sem kærði X sé grunaður um að hafa staðið að verki.

Tilkynnt hafi verið um slasaðan mann við skemmtistaðinn A í Austurstræti um kl. 04:00 aðfaranótt 22. þ.m. Á vettvangi hafi lögreglan hitt tvo slasaða einstaklinga. Kváðust þeir hafa verið við barinn á skemmtistaðnum A þegar menn hafi veist að þeim. Einn aðilinn hafi slegið annan þeirra hnefahöggi í andlitið og hafi brotaþolinn talið að hann hafi verið með hnúajárn. Þegar hinn brotaþolinn hafi reynt að skakka leikinn hafi hann verið laminn með hnefahöggi í andlitið af öðrum manni sem hann hafi þekkt sem kærða, X, en aðilann með hnúajárnið þekktu þeir ekki. Myndir í frumskýrslu sýni að brotaþolar hafi verið illa leiknir eftir árásina m.a. með fjölda skurða á höfði. Lögregla hafi fengið upplýsingar um að kærði hafi verið að verki en þess sé freistað að afla myndbandsupptöku af staðnum.

Að morgni föstudagsins 27. þ.m. hafi lögreglu borist tilkynning um meðvitundarlausan mann fyrir framan skemmtistaðinn B á mótum Hverfisgötu og [...] í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún séð hvar brotaþolinn hafi legið á gangstéttinni á gatnamótum [...] og Laugavegar þar sem fólk hafi reynt að aðstoða hann. Mikið blóð hafi runnið bæði úr nefi og munni hans. Á vettvangi hafi verið talsvert af fólki sem hafi hlúð að brotaþola og veitt aðstoð. Samkvæmt frásögn vitna á staðnum hafi árásaraðili sparkað í höfuð brotaþolans eftir að hafa barið hann svo að hann féll í götuna. Brotaþolinn hafi verið fluttur á slysadeild Landspítalans. Við skoðun hafi komið í ljós að tennur í munni hans séu brotnar og að hann sé nef- og kjálkabrotinn. Í gærkvöldi hafi hann farið í aðgerð og liggi fyrir vottorð frá slysadeild og kjálkaskurðlæknis.

Lögregla hafi aflað myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavélum og fengið ábendingar frá vitnum sem bendi til þess að kærði X ráðist á brotaþolann að því er virðist af tilefnislausu og stórslasað hann.

Kærði hafi verið handtekinn í gærkvöld í framhaldi af yfirheyrslu. Hann hafi við yfirheyrslu neitað því að hafa staðið að líkamsárás við skemmtistaðinn B í gær.  Framburður hans sé óstöðugur og afar ótrúverðugur.

Lögregla vinni að því að afla upplýsinga um vitni að ætluðum líkamsárásum kærða.  Þegar hafa upplýsingar fengist um nokkur nöfn og upplýsingum um þá sem taldir séu geta gefið upplýsingar um líkamsárásirnar. Vitni verði yfirheyrð næstu daga eftir því sem til þeirra næst. Sum vitni hafa sagt lögreglu að það orð fari af kærða að hann hóti og eða hafi hótað þeim sem vitni hafa orðið að óhæfuverkum hans ófarnaði ef þau segi frá, en það orðspor fari af kærða að hann ráðist tilefnislaust og fólskulega á fólk á eða við veitingastaði.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Telur lögregla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ógna og áreita brotaþola og vitni áður en þau hafa kost á að gefa formlega skýrslu. Þá eigi eftir að hafa upp á þeim sem stóð að árás með kærða 22. þ.m. á veitingastaðnum A, taka frekari skýrslur af kærða, skýrslur af vitnum en líkt og áður greinir óttast vitni kærða mjög. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði getið spillt rannsókn þess.

Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. En við brotum skv. 2. mgr. 218. gr. liggi allt að 16 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

         Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi er á það fallist að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um tvær líkamsárásir undanfarna daga sem varða fangelsisrefsingu ef sök sannast. Að því leyti er skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt. Rannsókn er á frumstigi, en eftir er að taka formlega skýrslu af vitnum og brotaþolum. Sakargiftir lúta að tilefnislausum líkamsárásum, en sú síðari getur varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi atvika er á það fallist að ætla megi að varnaraðili muni torvelda rannsókn málanna, svo sem með því að hafa áhrif á samseka eða vitni, fái hann að fara frjáls ferða sinna. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður varnaraðila því gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarhagsmuna eins og krafist er. Í ljósi þess sem að framan greinir er jafnframt fallist á að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 4. janúar 2014 kl. 16:00. Kærði skal látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.