Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-227
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Búfé
- Mengun
- Umhverfistjón
- Orsakatengsl
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 17. júlí 2019 leitar Ragnheiður Jóna Þorgrímsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. júní sama ár í málinu nr. 614/2018: Ragnheiður Jóna Þorgrímsdóttir gegn Norðuráli Grundartanga ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Norðurál Grundartanga ehf. leggst gegn beiðninni.
Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til heimtu miskabóta að fjárhæð 21.000.000 krónur og viðurkenningar á skaðabótaskyldu gagnaðila vegna fjártjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir vegna flúormengunar sem hafi stafað frá álveri hans á Grundartanga. Leyfisbeiðandi kveður tjón sitt felast í veikindum og dauða hrossa í sinni eigu og rýrnunar á verðmæti landareignar sinnar að Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit sem sé í um 5 km fjarlægð frá álverinu. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi. Vísað var til þess að leyfisbeiðanda hafi ekki tekist að sanna að gagnaðili hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við losun flúors frá álverinu. Þá var hvorki talið sannað að veikindi hrossa leyfisbeiðanda yrðu rakin til mengunar frá álveri gagnaðila né að verðmæti jarðar hennar hafi rýrnað af þeim sökum.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og í andstöðu við réttarþróun og dómafordæmi Hæstaréttar um sönnunarbyrði í málum sem varði tjón af mengun. Í dóminum hafi ranglega verið hafnað að beita reglu um hlutlæga bótaábyrgð eða snúa sönnunarbyrði við og þess í stað byggt á almennri sakarreglu skaðabótaréttar. Hafi úrslit málsins því verulegt almennt gildi. Þá telur leyfisbeiðandi málið varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda snúi það að eignarréttindum og atvinnurekstri sem njóti verndar stjórnarskrárinnar.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.