Hæstiréttur íslands

Mál nr. 322/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Skuldskeyting
  • Ógilding samnings


                                     

Þriðjudaginn 28. maí 2013.

Nr. 322/2013.

Íslandsbanki hf.

(Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Magnúsi Kristjáni Halldórssyni

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Kærumál. Aðför. Sjálfskuldarábyrgð. Skuldskeyting. Ógilding samnings.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu M um að fellt yrði úr gildi fjárnám í eignarhluta hans í fasteign. Fjárnámið var gert að kröfu Í hf. vegna sjálfskuldarábyrgðar sem M tókst á hendur vegna láns sem F ehf. hafði tekið hjá forvera Í hf.  Í dómi Hæstaréttar var fallist á með M að Í hf. hefði borið að fara að reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga þegar skuldaraskipti urðu á láninu og tveir einstaklingar urðu skuldarar þess í stað F ehf. Hefði Í hf. því verið skylt að meta greiðslugetu hinna nýju skuldara og veita M tilteknar upplýsingar þar að lútandi. Þótt Í hf. hefði vanrækt þetta var ekki talið að ákvæði 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga stæðu til þess að ógilda ábyrgð M. Skipti þar einkum máli að við skuldaraskiptin varð staða M ekki lakari en verið hafði fyrir hana, enda var þá óumdeilt að gjaldþrotaskipti blöstu við F ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2013, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði í eignarhluta hans í Melbæ 41, Reykjavík, 24. október 2012 að kröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði tókst varnaraðili á hendur sjálfskuldarábyrgð, ásamt Reyni Jónssyni, á 3.000.000 króna láni sem Fjallasport ehf. fékk hjá Sparisjóði vélstjóra, forvera sóknaraðila, 23. maí 2002. Varnaraðili kveður þetta lán hafa komið í stað annars, sem hann hafi einnig verið í ábyrgð fyrir. Aðdragandi þess að lánið var veitt hafi verið að hann, sem þá hafi verið almennur starfsmaður Fjallasports ehf., hafi verið í viðskiptasambandi við Sparisjóð vélstjóra og lagt hafi verið að sér að hafa milligöngu um lánveitingu sparisjóðsins til félagsins, en honum hafi verið ókunnugt um fjárhag þess. Sparisjóðurinn hafi fallist á að veita lánið gegn því að hann tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð á því. Þegar skuldabréfið með sjálfskuldarábyrgð varnaraðila var gert í maí 2002 var í gildi samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Samkvæmt heiti sínu, og ákvæði 3. gr. samkomulagsins um gildissvið þess, tók það ekki til tilvika er einstaklingur gekkst í ábyrgð fyrir skuld rekstraraðila. Það átti því ekki við um framangreinda ábyrgð varnaraðila.

Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms voru þrisvar sinnum gerðar breytingar á skilmálum skuldabréfsins en eftir þær var Fjallasport ehf. eitt skuldari en þrír sjálfskuldarábyrgðarmenn, varnaraðili, Reynir Jónsson og Kristín Sigurðardóttir. Skuldaraskipti fóru fram 7. júlí 2008, en þá urðu Reynir Jónsson og Kristín Sigurðardóttir skuldarar en varnaraðili einn sjálfskuldarábyrgðarmaður. Kröfuhafi samþykkti skuldskeytinguna og það gerði varnaraðili einnig. Ekki er ágreiningur um að tilefni skuldskeytingarinnar var, að við blasti að bú Fjallasports ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta innan skamms. Enn var gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu 1. október 2008 og samþykkti varnaraðili þá breytingu.

Vanskil urðu á skuldabréfinu og voru greiðsluáskoranir sendar skuldurum og varnaraðila 22. janúar 2010 og fjárnám síðar gert til tryggingar greiðslu skuldarinnar í eignarhluta varnaraðila í tilgreindri fasteign. Það fjárnám felldi héraðsdómur úr gildi með hinum kærða úrskurði.

II

Krafa varnaraðila er einkum á því reist, að hann hafi verið almennur starfsmaður Fjallasports ehf. er hann gekkst undir sjálfskuldarábyrgðina við þær aðstæður, sem áður greinir. Varnaraðili kveðst ekkert hafa þekkt til fjárhagsstöðu einkahlutafélagsins eða Reynis Jónssonar og heldur ekki Kristínar Sigurðardóttur. Hann kveður forvera sóknaraðila á hinn bóginn hafa verið þetta allt vel kunnugt. Eins og áður greinir gilti samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga ekki um þá ábyrgð, sem varnaraðili undirgekkst 23. maí 2002 þar sem skuldari var einkahlutafélag.

Varnaraðili reisir kröfu sína einnig á því að sóknaraðila hafi borið að meta greiðslugetu Reynis Jónssonar og Kristínar Sigurðardóttur í júlí 2008 er skuldskeytingin fór fram. Þótt skuldaraskipti, eins og þau sem fram fóru í júlí 2008, feli ekki í sér stofnun nýrrar kröfu, verður fallist á með varnaraðila að sú breyting sem fólst í því að varnaraðili ábyrgðist eftir hana skuld tveggja einstaklinga, en ekki rekstraraðila eins og áður var, hafi leitt til þess að forvera sóknaraðila bar að fara að reglum samkomulagsins. Er það enda samkvæmt orðum sínum ekki bundið við þau tilvik að til ábyrgðar sé stofnað í upphafi skuldarsambands. Í því fólst að honum var samkvæmt 3. grein samkomulagsins skylt að láta fara fram mat á greiðslugetu skuldaranna og sinna þeim skyldum um upplýsingagjöf til varnaraðila, sem mælt er fyrir um í 4. grein og 5. grein þess. Óumdeilt er að þetta var ekki gert.

Varnaraðili telur að það eigi að leiða til ógildis loforðs hans um að bera áfram sjálfskuldarábyrgð á láninu og vísar í því efni til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þótt fallist sé á, að það hafi verið á ábyrgð sóknaraðila, að ekki var sinnt þeim skyldum sem samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga kvað á um við skuldskeytinguna í júlí 2008, leiðir það ekki sjálfkrafa til ógildingar á loforði varnaraðila um að bera áfram sjálfskuldarábyrgð á láninu. Fullnægja þarf einnig skilyrðum þeim, sem mælt er fyrir um í 33. gr., ef sú grein á við, um að óheiðarlegt sé vegna atvika, sem fyrir hendi voru þegar loforðið kom til vitundar móttakanda þess, að bera það fyrir sig. Sé 36. gr. laganna beitt þarf að fullnægja þeim skilyrðum að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera loforðið fyrir sig og skal við mat á því líta til efnis samnings, atvika við samningsgerð, stöðu aðila við hana og atvika, sem síðar komu til. Ekki hefur verið sýnt fram á að skilyrðum tilgreindra lagaákvæða sé fullnægt og verður niðurstaða um ógildingu heldur ekki reist á heildarmati á öllum atvikum. Skiptir einkum máli í þessu sambandi að við skuldskeytinguna í júlí 2008 varð staða varnaraðila ekki lakari, en verið hafði fyrir hana, enda óumdeilt að gjaldþrotaskipti blöstu við Fjallasporti ehf.

Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið sýnt fram á að skilyrði ógildingar á loforði varnaraðila séu fyrir hendi og verður því hafnað kröfu hans um að fella úr gildi fjárnámsgerðina, sem krafan lýtur að.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Magnúsar Kristjáns Halldórssonar, um að fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 24. október 2012 að kröfu sóknaraðila, Íslandsbanka hf., verði fellt úr gildi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2013.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Magnús Kristján Halldórsson, Melbæ 41, Reykjavík.

Varnaraðili er Íslandsbanki hf. (áður Byr hf.).

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að ógild verði aðfarargerð nr. 011-2011-01049 hjá sýslumanninum í Reykjavík, er fram fór 24. október 2012 að kröfu BYR hf., í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Melbæ 41, fastanr. 204-5711, Reykjavík, samkvæmt þremur tryggingarbréfum, nr. 1195-63-10, 1195-63-226 og 1195-63-322, til tryggingar kröfu að fjárhæð kr. 10.014.062 auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 til greiðsludags, kostnaðar við gerðina og kostnaðar af frekari fullnustuaðgerðum ef til þeirra kemur.

Þá er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins., auk 25,5% virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæðina.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að hafnað verði kröfu sóknaraðila og gerð krafa um að staðfest verði aðfarargerð nr. 011-2011-01049, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði þann 24. október 2012 að kröfu Íslandsbanka (áður BYR) í fasteign sóknaraðila, Melabæ 41, fastanúmer 204-5711, Reykjavík samkvæmt þremur tryggingarbréfum nr. 1195-63-10, 1195-63-226 og 1195-63-322.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts að mati dómsins.

Málsatvik

Með beiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 16. nóvember 2012, krafðist sóknaraðili dómsúrskurðar um að ógild verði aðfarargerð nr. 011-2011-01049 hjá sýslumanninum í Reykjavík, er fram fór 24. október 2012 að kröfu BYR hf., í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Melbæ 41, fastanr. 204-5711, Reykjavík, samkvæmt þremur tryggingarbréfum, nr. 1195-63-10, 1195-63-226 og 1195-63-322.

Málavextir eru þeir að sóknaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð ásamt Reyni Jónssyni fyrir láni að fjárhæð 3.000.000 kr. sem Fjallasport ehf. fékk hjá Sparisjóði vélstjóra samkvæmt skuldabréfi útgefnu 23. maí 2002. Gerðar voru nokkrar breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins eftir það. Þann 27. október 2003 varð breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins, en aðalskuldari og sjálfskuldarábyrgðarmenn voru hinir sömu. Þann 30. desember 2004 urðu enn breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Aðalskuldari var áfram hinn sami svo og áðurnefndir sjálfskuldarábyrgðaraðilar en Kristín Sigurðardóttir, tókst einnig á hendur sjálfskuldarábyrgð. Þann 11. júní 2007 urðu breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Aðalskuldari var sá sami og ábyrgðarmenn þrír, Reynir, Kristín og sóknaraðili. Þann 7. júlí 2008 átti sér stað skuldskeyting/skuldaraskipti og breyting á sjálfskuldarábyrgð lánsins, sem fólst í því að Reynir Jónsson og Kristín Sigurðardóttir, sem voru sjálfskuldarábyrgðarmenn með sóknaraðila á ofangreindu láni, gerðust aðalskuldarar í stað Fjallasports ehf., sem varð gjaldþrota. Sóknaraðili samþykkti umrædd skuldaraskipti og var því einn sjálfskuldarábyrgðaraðili að láninu. Lánið breyttist ekki að öðru leyti. Gert var síðan fjárnám á grundvelli lánsins hjá sóknaraðila í eignarhluta hans í fasteigninni Melbæ 41, fastanr. 204-5711, Reykjavík, þann 24. október 2012. Um þá aðfarargerð er ágreiningur máls þessa.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi ekki þekkt til fjárhagslegrar getu Fjallasports ehf. þegar hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar félagsins samkvæmt greindu skuldabréfi. Gerð hafi verið krafa af hálfu varnaraðila, BYRS – sparisjóðs, að sóknaraðili tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi gerþekkt fjárhagsstöðu aðalskuldara, Fjallasports ehf. Þá hafi hann einnig þekkt til fjárhagsstöðu Reynis Jónssonar og Kristínar Sigurðardóttur. Varnaraðili hafi hvorki kynnt sóknaraðila mat á fjárhagsstöðu Fjallasports ehf. né mat á greiðslugetu Reynis Jónssonar og Kristínar Sigurðardóttur, þegar þau urðu greiðendur samkvæmt síðastnefndu skilmálabreytingunni.

Varnaraðili hafi aldrei á neinu stigi máls þessa gert sóknaraðila grein fyrir fjárhagsstöðu aðalskuldara og hinna sjálfskuldarábyrgðaraðilanna. Sóknaraðili hafi verið launþegi hjá Fjallasporti ehf. Hann hafi flækst í skuldanet og upphafleg höfuðstólsskuld sem var 3.000.000 kr. sé nú um 12.000.000 kr.

Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi borið að meta greiðslugetu aðila í tengslum við þá ábyrgðarskuldbindingu sem sóknaraðili gekkst undir í maí 2002.

Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi borið að meta greiðslugetu hjónanna, Reynis Jónssonar og Kristínar Sigurðardóttur, sérstaklega í júlí 2008 enda hafi þau þá verið tilgreind sem nýir greiðendur.

 Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi borið að tilkynna honum um slæma fjárhagsstöðu aðila svo að hann gæti metið hvort grípa ætti inn í atburðarásina áður en skuldin yrði óviðráðanleg.

Um lagarök er vísað til ákvæða laga nr. 90/1989 um aðför, til meginreglna kröfu- og samningaréttar um ógilda samninga, forsendubrest og vanefndir, sem og um gagnkvæma tillitsemi. Þá vísar sóknaraðili sérstaklega til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, einkum 36. gr. og 33. gr. laganna. Þá er einnig byggt á samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem samtök banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda, gerðu sín í milli og tók gildi 1. nóvember 2001.

Þá er vísað til Hæstaréttardóms í máli nr. 163/2005, en þar var að öllum atvikum virtum fallist á að víkja bæri til hliðar sjálfskuldarábyrgð með vísan til 36. gr. samningalaga og var aðfarargerð felld úr gildi.

Varðandi kröfu um málskostnað vísast til 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málskostnaðarfjárhæð til laga nr. 50/1988 ásamt síðari breytingum

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er tekið fram um aðild hans að málinu að upprunalega hafi verið stofnað til skuldar þessarar við Sparisjóð vélstjóra þann  23. maí 2002. Með samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra hafi Byr sparisjóður, kt. 610269-2229 orðið til, sbr. auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, dags. 5. janúar 2007, og tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins og Fyrirtækjaskrár um nafnabreytingu, dags. 2. mars 2007. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME), dags. 22. apríl 2010, er birtist í Lögbirtingablaðinu þann 30. október 2010, var öllum eignum Byrs sparisjóðs ráðstafað til Byrs hf. nema það væri sérstaklega undanþegið. Með yfirlýsingu slitastjórnar Byrs sparisjóðs og PWC endurskoðenda, dags. 25.júní 2012, fellur þessi eign ekki undir undanþáguákvæði 1. tl., sbr. 10. tl. ákvörðunar FME. Allar eignir BYRS fluttust yfir til varnaraðila með samruna Byrs hf. og Íslandsbanka hf. eins og birtist í Lögbirtingablaðinu, sbr. auglýsingu, dags. 5. desember 2011. Íslandsbanki hf. er því réttur eigandi kröfunnar og jafnframt varnaraðili máls þessa.

Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum sóknaraðila.

Sóknaraðili byggi málskot sitt á því að varnaraðila hafi borið að greiðslumeta Reyni Jónsson og Kristínu Sigurðardóttur er þau tóku við sem skuldarar lánsins þann 7. júlí 2008. Þessu mótmælir varnaraðili og telur að ekki hafi verið þörf á greiðslumati. Við breytingu á láninu þann 7. júlí 2008 hafi orðið skuldskeyting en ekki önnur breyting á láninu. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um stöðu Fjallasports ehf. og samþykkt skuldaraskiptin með undirritun sinni. Staða sóknaraðila hafi ekkert breyst, hann hafi verið ábyrgðarmaður fyrir skuldskeytinguna þann 7. júlí 2008 og sé það jafnframt eftir hana. Staða sóknaraðila batni við skuldskeytinguna úr því að eiga einungis „pro rata“ kröfur á aðra ábyrgðarmenn í það að geta krafið þá um fullar efndir þar sem þeir séu nú orðnir aðalskuldarar ef lánið fellur á hann sem ábyrgðarmann.

Samkvæmt 2. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga milli neytendasamtakanna og fjármálafyrirtækja hafi ekki verið þörf á að greiðslumat færi fram vegna ábyrgða sem einstaklingar gengust í fyrir fyrirtæki. En sú hafi verið staðan í þessu máli. Fjallasport ehf. var aðalskuldari. Skuldskeyting sú sem framkvæmd var þann 7. júlí 2008 hafi verið gerð að ósk ábyrgðarmanna. Ef til hennar hefði ekki komið hefði verið gengið að ábyrgðarmönnum þar sem Fjallasport ehf. var gjaldþrota. Gjaldþrot leiddi til gjaldfellingar lánsins, sbr. ákvæði þar um í skuldabréfinu. Skuldskeytingin sé því gerð til hagsbóta fyrir ábyrgðarmenn, ekki sé um nýja lánveitingu að ræða. Varnaraðili telur því að ekki hafi verið þörf á greiðslumati eins og sóknaraðili telur. Tilvísanir til 33. gr. og 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936 eigi því ekki við, með vísan til röksemda hér að ofan.

Með vísan til þessa telur varanaraðili að staðfesta beri aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík sem hann framkvæmndi þann 24. október 2012 að kröfu Íslandsbanka (áður BYR) í fasteign sóknaraðila, Melabæ 41, fastanúmer 204-5711, Reykjavík samkvæmt þremur tryggingarbréfum nr. 1195-63-10, 1195-63-226 og 1195-63-322. 

Niðurstaða

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðila hafi borið að meta greiðslugetu skuldaranna Kristínar Sigurðardóttur og Reynis Jónssonar við skuldskeytinguna 7. júlí 2008. Því til stuðnings vísar hann til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem undirritað var 1. nóvember 2001, en að því samkomulagi stóðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Með samkomulaginu eru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldarábyrgð, eða veð í eigu annars einstaklings er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu, eins og segir í 1. gr. þess. Samkomulagið tekur til sjálfskuldarábyrgðar þegar einstaklingur, ábyrgðarmaður, gengst í ábyrgð fyrir annan einstakling til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu, eins og nánar er gerð grein fyrir í 2. gr. samkomulagsins. Í 3. gr. samkomulagsins segir að sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski séstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert.

Með skuldskeytingu þeirri sem átti sér stað þann 7. júlí 2008 þegar Kristín Sigurðardóttir og Reynir Jónsson yfirtóku skuldina sem nýir greiðendur verður að líta svo á að fyrri krafa á hendur fyrirtækinu Fjallasporti ehf. hafi fallið niður og ný krafa hafi stofnast á hendur hinum nýju skuldurum, sem eru einstaklingar. Við þær breyttu aðstæður bar kröfuhafa í samræmi 3. gr. framangreinds samkomulags, sem varnaraðili er bundinn af, að meta greiðslugetu þeirra. Slíkt mat var og í samræmi við vönduð vinnubrögð sem ætlast má til af fjármálafyrirtæki í lögskiptum sínum þegar einstaklingar eiga í hlut. Samkvæmt þessu, og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðili geti ekki borið fyrir sig og byggt á sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila vegna framangreindrar skuldar. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi aðfarargerðina, sem fram fór hjá honum 24. október 2012.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Aðfarargerð nr. 011-2011-01049, sem fram fór hjá sóknaraðila 24. október 2012, er felld úr gildi.

Varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði sóknaraðila, Magnúsi Kristjáni Halldórssyni, 350.000 krónur í málskostnað.