Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skipting sakarefnis
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Afleiðusamningur
  • Handveð
  • Skuldajöfnuður


                                                                                              

Þriðjudaginn 18. október 2011.

Nr. 415/2011.

Íslensk verðbréf hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

Kærumál. Skipting sakarefnis. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Afleiðusamningur. Handveð. Skuldajöfnuður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum ÍV hf. við slit K hf. Deila aðila laut að tvennu. Annars vegar að því hvort ÍV hf. bæri greiðsluábyrgð samkvæmt sex afleiðusamningum, en ÍV hf. bar fyrir sig forsendubrest og að hvergi væri í samningunum kveðið á um sjálfstæða greiðsluábyrgð hans við greiðslufall. Hins vegar hvort félaginu væri heimilt að nota kröfur samkvæmt sjö skuldabréfum í þremur skuldabréfaflokkum, sem K hf. gaf út og ÍV hf. keypti, til skuldajafnaðar við kröfur sem K hf. kynni að eiga á hendur ÍV samkvæmt fjórtán afleiðusamningum, þar á meðal afleiðusamningunum sex, þrátt fyrir að ÍV hf. hefði handveðsett K hf. skuldabréfin meðal annars til tryggingar skuldbindingum ÍV hf. samkvæmt áðurgreindum sex afleiðusamningum. Um hið fyrra atriði segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að aðilar hefðu samið svo um að þótt ÍV hf. keypti sjö skuldabréf í evrum af K hf. skyldi hann fyrir tilstilli sex áðurgreindra afleiðusamninga vera eins settur og hann fengi greiðslur af skuldabréfunum í íslenskum krónum. Taldi rétturinn að ÍV hf. bæri greiðsluábyrgð samkvæmt afleiðusamningunum og þar af leiðandi gengistapi af þeim. Vísað var til markmiðs með gerð samninganna og tilefnis áðurgreindrar handveðsetningar, enda samrýmdist það, að ÍV hf. bæri ekki greiðsluábyrgð samkvæmt samningunum, ekki því að ágreiningslaust væri með aðilum að krafa ÍV hf. á hendur K hf. samkvæmt skuldabréfunum hefði fyrir tilstilli afleiðusamninga átt að miðast við gengi íslensku krónunnar. Um hið síðara atriði segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að handveðssamningur útiloki almennt ekki að veðsala sé heimilt að ráðstafa handveðsettu verðmæti með löggerningi, en sú heimild sæti þó þeirri takmörkun sem leiði af rétti veðhafans og víki síðar stofnuð réttindi fyrir rétti hans. Frá þessari meginreglu væri vikið í handveðssamningi aðila samkvæmt heimild í 11. gr. laga nr. 75/1997. Rétturinn taldi að skýra yrði ákvæði í handveðssamningnum með hliðsjón af markmiði með samningi aðila um áðurgreind skuldabréfaviðskipti. Með vísan til þess girti ákvæðið ekki fyrir að ÍV hf. gæti notað kröfur samkvæmt hinum handveðsettu skuldabréfum á hendur K hf. til skuldajafnaðar við kröfur K hf. á hendur sér, enda væri með því ekki gengið gegn rétti K hf. sem veðhafa. Þar sem almenn skilyrði skuldajafnaðar væru fyrir hendi var ÍV hf. talið þetta heimilt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2011 þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að viðurkennt verði að hann hafi ekki borið greiðsluábyrgð gagnvart varnaraðila samkvæmt sex afleiðusamningum númer 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613 við greiðslufall varnaraðila á skuldabréfum í þremur skuldabréfaflokkum með ISIN númerum XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336. Einnig krefst hann viðurkenningar á því, verði talið að hann beri greiðsluábyrgð á framangreindum afleiðusamningum, að honum hafi verið heimilt að nýta kröfur á hendur varnaraðila samkvæmt framangreindum skuldabréfum til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila annars vegar samkvæmt framangreindum sex afleiðusamningum og hins vegar sjö öðrum afleiðusamningum númer AFS18965, AFS18968, AFS18970, AFS19296, AFS19297, AFS19402 og AFS19683 og afleiðusamningi 359123/403197. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Ágreiningsefni máls þessa er tvíþætt eins og kröfum er lýst. Annars vegar lýtur það að því, hvort sóknaraðili beri greiðsluábyrgð samkvæmt þeim sex afleiðusamningum, sem greinir í fyrri kröfulið og hins vegar hvort honum sé heimilt að nota kröfur samkvæmt þeim sjö skuldabréfum í framangreindum þremur skuldabréfaflokkum, sem varnaraðili gaf út og sóknaraðili keypti, til skuldajafnaðar við kröfur sem hinn fyrrnefndi kann að eiga á hendur sóknaraðila samkvæmt fjórtán afleiðusamningum.

II

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði keypti sóknaraðili á tímabilinu frá nóvember 2007 til apríl 2008 sjö skuldabréf í þremur skuldabréfaflokkum, sem varnaraðili gaf út, samtals að nafnverði 10.400.000 evrur. Fyrir skuldabréfin greiddi sóknaraðili með evrum, en sú fjárhæð jafngilti samtals 962.104.708 krónum. Gjalddagar skuldabréfanna voru í maí, júní og júlí 2009. Ágreiningslaust er að sóknaraðili vildi ekki bera þá áhættu, sem fólst í því að skuldabréfin væru í evrum, heldur vildi verða eins settur og þau væru í íslenskum krónum. Af því tilefni munu hann og varnaraðili hafa gert með sér sjö afleiðusamninga. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var sex afleiðusamningum ætlað að standast á við greiðslur sóknaraðila til varnaraðila af jafnmörgum tilgreindum skuldabréfum en einn afleiðusamningurinn var annars efnis, svonefndur vaxtaskiptasamningur. Þannig segir í einum af þeim sex efnislega samhljóða afleiðusamningum, gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi, sem hefur auðkennið 357930/401759 og samkvæmt efni sínu er ætlað að standast á við skuldabréf  KAUP Float 05/09, að fjárhæð 2.000.000 evrur, sem var á gjalddaga 21. maí 2009: ,,Greiðslur Kaupþings banka hf. Upphaflegur höfuðstóll ISK 177.041.618 ... Höfuðstólsgreiðsla Kaupþings banka hf. í upphafi samnings: EUR 2.000.000 ... Höfuðstólsgreiðsla Kaupþings banka hf. á lokadegi ISK 177.041.618 ... Greiðslur viðskiptavinar Greiðandi Íslensk verðbréf hf. ... Upphaflegur höfuðstóll EUR 2.000.000 ... Höfuðstólsgreiðsla viðskiptavinar í upphafi samnings: ISK 177.041.618 ... Höfuðstólsgreiðsla viðskiptavinar á lokadegi EUR 2.000.000 ...“ Einnig segir í samningnum: ,,Greiðslur vegna vaxtagreiðslna fyrsta tímabils: EUR greiðslur í samningi þessum eru gerðar til að standast á við greiðslur af skuldabréfi KAUP Float 05/21/09. Fyrsti vaxtadagur EUR leggsins er sá sami og upphafsdagur núverandi vaxtatímabils bréfsins. Því fer eftirfarandi greiðsla fram: Greiðsla Kaupþings banka hf. 9. janúar 2007 [svo] EUR 13.118,39 vegna áfallinna vaxta á tímabilinu ... Greiðslur vegna undirverðs mótstæðs verðbréfs EUR greiðslur í samningi þessum eru gerðar til að standast á við greiðslur af skuldabréfi KAUP Float 06/29/09 [svo] og því eru evruvextir lægri en ella. Því fer eftirfarandi greiðsla fram: Greiðsla viðskiptavinar 9. janúar 2007 [svo] EUR 77.602,72 Kaupþing banki hf. er reikniaðili samnings þessa. Greiðslutilhögun Á gjalddaga eru greiðslur til viðskiptavinar af skuldabréfi KAUP Float 05/21/09 notaðar til EUR greiðslu af samningi þessum. Banki leggur ISK greiðslu inn á Reikning viðskiptamanns.“

Samkvæmt afleiðusamningunum sex, í fyrri kröfulið, skyldi því varnaraðili upphaflega greiða tiltekna fjárhæð í evrum en lokagreiðslu í íslenskum krónum, en sóknaraðili greiða í upphafi tilgreinda fjárhæð í íslenskum krónum, sem svaraði til evrugreiðslu varnaraðila, en lokagreiðslu í evrum. Með þessu var ætlunin að eyða gengisáhættu sóknaraðila af sex skuldabréfum, þar sem greiðslur hans samkvæmt afleiðusamningunum voru látnar mæta greiðslum, sem hann átti að fá samkvæmt skuldabréfunum. Greiðslur varnaraðila samkvæmt þessum afleiðusamningum skyldu á hinn bóginn vera í íslenskum krónum og samrýmast því að skuldabréfin hefðu verið gefin út og af þeim greitt í íslenskum krónum.

Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði greiddi varnaraðili ekki af skuldabréfunum.

Fjármálaeftirlitið ákvað 9. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í varnaraðila og vék stjórn félagsins frá störfum. Var félaginu skipuð skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar. Varnaraðila var síðan skipuð slitastjórn 25. maí 2009 sem gaf út innköllun til lánardrottna félagsins og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitin, sem reist er á skuldabréfum þeim, sem hér um ræðir, og er fjárhæð hennar samanlagt 10.723.018 evrur, þar af er höfuðstóll 10.400.000 evrur. Miðað við sölugengi evru 22. apríl 2009, sem er sá dagur sem aðilar miða við, er fjárhæð höfuðstóls 1.759.992.000 krónur.

Sóknaraðili neitar því að hann beri greiðsluábyrgð samkvæmt framangreindum sex afleiðusamningum. Hann hafnar því þess vegna að hann þurfi að greiða mismun á gengi evru og íslenskrar krónu samkvæmt samningunum, en samanlögð fjárhæð þess gengismunar, að teknu tilliti til hagnaðar sem honum er reiknaður samkvæmt vaxtaskiptasamningnum, er samkvæmt yfirliti frá varnaraðila 504.048.676 krónur. Stafar sá mismunur af gengisfalli íslensku krónunnar gagnvart evru. 

Fram er komið að aðilar sömdu svo um, að þótt sóknaraðili keypti sjö skuldabréf af varnaraðila að nafnverði 10.400.000 evrur skyldi hann fyrir tilstilli afleiðusamninganna vera eins settur og hann fengi greiðslur af skuldabréfunum í íslenskum krónum. Gengistap hans af afleiðusamningunum er samkvæmt framansögðu 504.048.676 krónur miðað við lokun samninganna 24. október 2008. Fallist er á með héraðsdómi að það leiði af efni afleiðusamninganna sex að sóknaraðili beri ábyrgð á greiðslu skuldar samkvæmt þeim, enda verður að ætla að hann njóti gengishagnaðar af skuldabréfunum á móti. Samrýmist það einnig markmiði með gerð fyrrgreindra sex afleiðusamninga, svo og því að tilefni handveðsetningarinnar var að tryggja skuld, sem sóknaraðili kynni að komast í vegna þeirra afleiðusamninga, sem hann hafði gert við varnaraðila.

Bæri sóknaraðili ekki greiðsluábyrgð samkvæmt afleiðusamningunum sex, væri hann eins settur og krafa hans samkvæmt skuldabréfunum hefði verið í evrum, en það samrýmist ekki því, að ágreiningslaust er með aðilum að samið var um, að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum hefði fyrir tilstilli afleiðusamninga átt að miðast við gengi íslensku krónunnar.

Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sóknaraðili beri greiðsluábyrgð samkvæmt þeim sex afleiðusamningum, sem tilgreindir eru í fyrsta kröfulið að framan.

III

Að fenginni framangreindri niðurstöðu snýst ágreiningur aðila um hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að nýta kröfur á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum sjö til skuldajafnaðar á móti kröfum varnaraðila á hendur honum samkvæmt þeim fjórtán afleiðusamningum, sem taldir eru upp í þessum síðari kröfulið.

Eins og lýst er í hinum kærða úrskurði setti sóknaraðili varnaraðila að handveði meðal annars framangreind skuldabréf, svo og innstæðu á bankareikningi, sem sóknaraðili átti hjá varnaraðila. Er ágreiningslaust með aðilum að það hafi verið til þess að tryggja hugsanlegar greiðslur sem sóknaraðili kynni að þurfa að inna af hendi til varnaraðila vegna afleiðusamninga, sem þeir höfðu gert með sér. Eru það bæði afleiðusamningar sem gerðir voru vegna skuldabréfakaupa sóknaraðila af varnaraðila og sjö svonefndir AFS afleiðusamningar, sem ágreiningur í máli þessu snertir ekki. Í handveðssamningi þeirra 18. janúar 2008 segir um hið veðsetta að það sé: ,,Öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni veðsala hjá veðhafa nr. #54557, og alla innstæðu þess eins og hún er á hverjum tíma ...“ Þá er einnig svofellt ákvæði í handveðssamningnum: ,,Veðsali skal sviptur umráðum veðandlagsins, meðan kröfur þær, sem veðandlagið á að tryggja eru ekki að fullu greiddar og skal veðsala óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi veðhafa, enda gangi andvirði þess þá til lækkunar á kröfum þeim sem veðandlagið á að tryggja. Með sama hætti er veðsala óheimilt að veðsetja eða handveðsetja veðandlagið nema að undangengnu skriflegu samþykki veðhafa.“ 

Varnaraðili heldur því fram að með framangreindum samningsskilmálum hafi sóknaraðili verið sviptur ráðstöfunarrétti yfir hinu veðsetta á meðan skuld hans við varnaraðila væri ekki greidd að fullu. Hann geti því ekki án samþykkis varnaraðila ráðstafað andvirði hins veðsetta með þeim hætti að nota það til skuldajafnaðar við kröfur, sem varnaraðili á gegn honum, samkvæmt afleiðusamningunum. Heldur varnaraðili því fram, eins og greinir í hinum kærða úrskurði, að sóknaraðili geti ekki reist rétt til skuldajafnaðar á 100. gr. laga nr. 21/1991. Hann heldur því einnig fram að framangreindir skilmálar handveðssamningsins samrýmist 11. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

Eins og áður greinir var handveðssamningurinn gerður til þess að tryggja varnaraðila fullnustu á kröfum, sem hann kynni að eiga á hendur sóknaraðila, vegna afleiðusamninga, sem þeir gerðu sín á milli, þótt texti handveðssamningsins sé víðtækari. Handveðssamningur útilokar almennt ekki að veðsala sé heimilt að ráðstafa handveðsettu verðmæti með löggerningi. Sú heimild sætir þó ávallt þeirri takmörkun, sem leiðir af rétti veðhafans og víkja síðar stofnuð réttindi fyrir rétti hans. Í handveðssamningnum er, svo sem heimilt er samkvæmt 11. gr. laga nr. 75/1997, vikið frá þessari meginreglu. Skýra verður tilvitnað ákvæði í handveðssamningnum með vísan til markmiðs samningsins sem getið er að framan. Samkvæmt því girðir ákvæðið ekki fyrir að sóknaraðili geti notað kröfur þær á hendur varnaraðila, sem hann veðsetti, til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, enda er ekki með því móti gengið gegn rétti varnaraðila sem veðhafa. Þar sem öll almenn skilyrði skuldjafnaðar eru fyrir hendi verður því að fallast á að sóknaraðili geti nýtt kröfur sínar á hendur varnaraðila, sem hann hefur sett þeim síðarnefnda að handveði, til skuldajafnaðar á móti kröfum varnaraðila á hendur honum samkvæmt afleiðusamningunum.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að hafna kröfu sóknaraðila, Íslenskra verðbréfa hf., um viðurkenningu á því að félagið beri ekki greiðsluábyrgð gagnvart varnaraðila, Kaupþingi banka hf., samkvæmt sex afleiðusamningum númer 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613 við greiðslufall varnaraðila á skuldabréfum í þremur skuldabréfaflokkum með ISIN númerum XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336.

Viðurkenndur er réttur sóknaraðila til að nýta kröfur samkvæmt skuldabréfum með ISIN númerum XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336 til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila á hendur honum samkvæmt sex afleiðusamningum númer 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613 og sjö afleiðusamningum númer  AFS18965, AFS18968, AFS18970, AFS19296, AFS19297, AFS19402 og AFS19683 og afleiðusamningi 359123/403197.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað, 1.000.000 krónur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2011 .

I.

Mál þetta, sem þingfest var 23. september sl., var tekið til úrskurðar 19. maí sl. Sóknaraðili er Íslensk verðbréf ehf., Strandgötu 3, Akureyri, en varnaraðili er Kaupþing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Í greinargerð sóknaraðila til dómsins gerði hann þær dómkröfur að viðurkennd yrði krafa hans samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 í bú varnaraðila (kröfunúmer 20091227-0247) að fjárhæð 1.814.656.336 krónur. Sóknaraðili krafðist þess og að viðurkennt yrði að kröfunni fylgi réttur til skuldajafnaðar gegn kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila samkvæmt afleiðusamningum aðila nr. AFS18965, AFS18968, AFS18970, AFS19296, AFS19297, AFS19402, AFS19683, 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 359123/403197, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613. Þá krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að afhenda honum innstæðu á bankareikningi á nafni sóknaraðila nr. 329-26-454557, að fjárhæð 90.000.000 króna, auk dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. janúar 2009 til greiðsludags. Til vara krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að afhenda honum innstæðu á bankareikningi á nafni sóknaraðila nr. 329-26-454557, að fjárhæð 90.000.000 króna, auk dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2010 til greiðsludags. Loks krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að greiða honum málskostnað  auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Varnaraðili krafðist þess í greinargerð sinni að kröfum sóknaraðila yrði hafnað. Jafnframt krafðist hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts af málskostnaði.

Með sameiginlegri bókun sóknaraðila og varnaraðila, sem lögð var fram í þinghaldi hinn 17. maí sl., óskuðu þeir eftir því að sakarefni málsins yrði skipt skv. heimild í 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að fyrst yrði sérstaklega dæmt um hvort sóknaraðili hafi borið sjálfstæða greiðsluábyrgð samkvæmt tilgreindum afleiðusamningum við greiðslufall varnaraðila á þremur tilgreindum skuldabréfum í eigu sóknaraðila og þá hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að nýta kröfur á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila samkvæmt sömu afleiðusamningum og sjö öðrum tilgreindum afleiðusamningum. Aðilar tóku og fram í bókun sinni að verði fallist á málsástæður sóknaraðila varðandi skuldajöfnuð skuli réttaráhrif skuldajafnaðar, eins og máli þessu sé háttað, miðast við upphaf slitameðferðar varnaraðila hinn 22. apríl 2009.

Dómari féllst á framangreinda ósk málsaðilja með vísan til tilvitnaðrar 31. gr. laga nr. 91/1991 og er sakarefni málsins því skipt í samræmi við hana. Verða aðrir þættir málsins því látnir bíða niðurstöðu í ofangreindum ágreiningsatriðum.

Í þessum þætti málsins gerir sóknaraðili eftirfarandi kröfur:

1.           Að sóknaraðili hafi ekki borið greiðsluábyrgð gagnvart varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum með nr. 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 359123/403197, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613 við greiðslufall varnaraðila á skuldabréfum með ISIN nr. XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336.

2.           Að sóknaraðila hafi verið heimilt að nýta kröfur á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfum með ISIN nr. XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336 til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum, annars vegar með nr. AFS18965, AFS18968, AFS18970, AFS19296, AFS19297, AFS19402, AFS19683 og hins vegar nr. 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 359123/403197, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613, verði því hafnað að sóknaraðili hafi ekki borið greiðsluábyrgð á þeim síðarnefndu, sbr. kröfulið 1.

Varnaraðili krefst þess í þessum þætti að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Loks tekur varnaraðili fram að í samþykki fyrir skiptingu sakarefnis og nýrri kröfugerð sóknaraðila felist ekki afsal á málsástæðum eða sjónarmiðum til varnar í málinu.

II.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tók það yfir vald hlutahafafundar í varnaraðila, vék stjórn félagsins frá störfum og skipaði því skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnarinnar. Varnaraðila var síðan skipuð slitastjórn 25. maí 2009 sem gaf út innköllun til lánardrottna félagsins og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu við slitameðferðina að fjárhæð 10.723.018 evrur. Var kröfulýsingin móttekin af hálfu varnaraðila 22. desember 2009 og færð á kröfuskrá sem krafa nr. 20091227-0247. Var krafan umreiknuð í kröfuskrá að fjárhæð 1.814.656.336 krónur, í samræmi við ákv. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili kveður kröfu sína byggjast á rafrænum skuldabréfum úr þremur skuldabréfaflokkum útgefnum af varnaraðila. Krafan sé sett fram í íslenskum krónum í samræmi við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um sé að ræða eftirgreind bréf:

ISIN nr.                    Auðkenni                             Evrur                     Kaupdagsetning

XS0192870250      KAUP Float 05 09              3.500.000             4.1.2008 og 9.1.2008

XS0306851998      KAUP Float 06 09              2.900.000             22.11.2007 og 18.04.2008

XS0281993336      KAUP Float 07 09              4.000.000             16.1.2008 og 23.1.2008

Krafan sundurliðist sem hér segi:

   Nafnverð skuldabréfa                                                                                     EUR       10.400.000

   Gjaldfallnir og ógreiddir vaxtagjalddagar                                    EUR            286.457

   Áfallnir vextir sem ekki voru gjaldfallnir 22.4.2009                  EUR              15.842

   Dráttarvextir af vanskilum                                                                             EUR              20.719

                                                                                                 Samtals EUR       10.723.018

Í kröfulýsingu sóknaraðila kom fram að varnaraðili kynni að eiga kröfu á sóknaraðila á grundvelli afleiðusamninga. Ljóst væri hins vegar að nettóstaða sóknaraðila gagnvart varnaraðila væri jákvæð um verulega fjárhæð. Óskaði sóknaraðili eftir greiðslu fjárhæðarinnar af eignum þrotabúsins í samræmi við úthlutun og lýsta réttarstöðu kröfunnar. Jafnframt var skorað á varnaraðila að gera ráðstafanir til að aflétta handveði af vörslusafni nr. 54557, að minnsta kosti hvað varðaði peningainnstæðu á reikningi nr. 329-26-454557.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann hafi keypt umrædd skuldabréf af varnaraðila í sjö viðskiptum á tímabilinu 22. nóvember 2007 til 18. apríl 2008, sbr. eftirfarandi töflu:

Dags viðskipta

Dags uppgjörs

Auðkenni

Nafnverð (EUR)

nr. viðskipta / pöntunar

22.11.2007

27.11.2007

KAUP Float 06/09

1.900.000

1.882.771

04.01.2008

09.01.2008

KAUP Float 05/09

2.000.000

2.146.741

09.01.2008

14.01.2008

KAUP Float 05/09

1.500.000

2.153.709

16.01.2008

21.01.2008

KAUP Float 07/09

1.000.000

1.921.185

23.01.2008

24.01.2008

KAUP Float 07/09

1.400.000

1.925.749

23.01.2008

28.01.2008

KAUP Float 07/09

1.600.000

2.163.891

18.04.2008

23.04.2008

KAUP Float 06/09

1.000.000

2.272.182

Samhliða öllum viðskiptunum, að undanskildum þeim sem fóru fram 18. apríl 2008, gerðu  aðilarnir jafnframt með sér gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamninga og er óumdeilt að tilgangur þeirra hafi verið að eyða út gengisáhættu vegna skuldabréfanna sem gefin voru út í erlendri mynt. Fyrir liggur og að málsaðilar gerður einnig með sér aðra afleiðusamninga, svokallaða „long-short“ afleiðusamninga, og óskaði sóknaraðili eftir lokun og uppgjöri þeirra hinn 8. október 2008. Var þeim lokað 24. október 2008, en svokallaður lokadagur þeirra var færður fram til þess dags. Sóknaraðili heldur því fram að beiðnin um lokun hafi ekki lotið að öðrum afleiðusamningum, meðal annars vegna þess að sóknaraðili hefði talið að þeir lokuðust eða féllu sjálfkrafa niður ef ekki væri greitt af skuldabréfunum. Meðan enn væri greitt af bréfunum væri ekki tilefni til lokunar eða niðurfellingar þeirra.

Varnaraðili óskaði eftir því að sóknaraðili legði fram tryggingu fyrir greiðslum samkvæmt afleiðusamningunum. Að ósk varnaraðila setti sóknaraðili varnaraðila að handveði hinn 18. janúar 2008 öll verðmæti, þar með talin öll verðbréf og peningainnstæður, á vörslusafni sóknaraðila hjá varnaraðila nr. 54557.

Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 24. október 2008, segir eftirfarandi: „… er þess hér með óskað að þeim samningum sem eru opnir á milli aðila verði lokað, allar kröfur á milli aðila verði nettaðar (kröfur – skuldir) og mismunurinn greiddur Íslenskum verðbréfum hf.“ Með bréfum sóknaraðila til varnaraðila, dags. 18. desember 2008 og 9. janúar 2009, er svo hnykkt á efni framangreinds bréfs. Þannig kemur fram í fyrra bréfinu eftirfarandi: „Kröfurnar eru hæfar til að mætast.“ Og síðan segir svo: „Þannig verður ekki annað séð en einhliða skuldajafnaðaryfirlýsing ÍV væri gild eins og á stendur í málinu og er samþykkist því fyrst og fremst leitað til að eyða fyrr en síðar mögulegri óvissu á báða bóga um kröfustöðu aðila hvors gegn öðrum og fjárhagslega stöðu þeirra hvors fyrir sig.“ Þá er jafnframt farið fram á það í síðara bréfinu að handveði á innstæðu sóknaraðila verði aflétt.

Hinn 19. febrúar 2009 upplýsti starfsmaður varnaraðila sóknaraðila um að sérstök nefnd á vegum varnaraðila hefði fundað um skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila. Nefndin hefði fallist á að skilyrði skuldajafnaðar væru uppfyllt og að gerð yrði tillaga til skilanefndar um að fallist yrði á skuldajöfnuð. Varnaraðili féllst hins vegar ekki á að aflétta handveði af innstæðunni á hinum handveðsetta reikningi eins og fram kom í tölvubréfi starfsmanns varnaraðila til sóknaraðila 5. maí 2009.

Með bréfi, dags. 4. mars 2010 skoraði varnaraðili á sóknaraðila að greiða skuld að fjárhæð 558.544.328 krónur, auk dráttarvaxta. Í bréfinu var greint frá því að þegar af þeirri ástæðu að skuldabréf sóknaraðila væru handveðsett varnaraðila kæmi ekki til álita að hinum handveðsettu kröfuréttindum væri skuldajafnað á móti kröfum varnaraðila. Að öðru leyti yrði að telja vafa leika á því hvort skilyrði skuldajafnaðar væru uppfyllt. Loks kom fram að yrði skuldin ekki greidd myndi varnaraðili ganga að hinum handveðsettu eignum að svo miklu leyti sem nauðsynlegt væri.

Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila með bréfum, dags. 8. og 9. mars 2010. Í bréfi, dags. 22. mars 2010, færði varnaraðili rök fyrir þeirri afstöðu sinni að hafna skuldajöfnuði. Sóknaraðili mótmælti sjónarmiðum varnaraðila með bréfi, dags. 24. mars 2010. Varnaraðili ítrekaði greiðsluáskorun sína með bréfi, dags. 16. apríl 2010, en henni svaraði sóknaraðili með bréfi, dags. 21. apríl 2010.

Hinn 30. apríl 2010 tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að hann hefði leyst til sín eignir á vörslusafni sóknaraðila og næmi verðmæti þeirra eigna 619.041.307 krónum. Skoraði varnaraðili á sóknaraðila að greiða eftirstöðvar skuldarinnar að fjárhæð 134.911.492 krónur.

Með bréfi, dags. 3. maí 2010, hafnaði slitastjórn kröfu sóknaraðila á þeim grundvelli að skuldabréfin sem krafan byggðist á væru ekki lengur eign sóknaraðila þar sem varnaraðili hefði gengið að skuldabréfunum til fullnustu á afleiðuskuld sóknaraðila. Þar sem ekki tókst að jafna ágreininginn á fundi 3. júní 2010 skaut slitastjórn varnaraðila ágreiningi um kröfuna til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

III.

Málsástæður sóknaraðila

Dómkrafa 1

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili eigi enga kröfu á hendur honum á grundvelli skuldabréfaafleiðusamninganna, heldur eingöngu á grundvelli long-short samninganna (AFS samninganna). Skuldabréfaafleiðusamningarnir hafi verið gerðir í beinum tengslum við kaup sóknaraðila á skuldabréfum. Hafi tilgangur með gerð þeirra verið að eyða út gengisáhættu vegna skuldabréfanna, þar sem þau hafi verið gefin út í evrum. Sóknaraðili hafi ekki undirgengist sjálfstæða ábyrgð á greiðslum samkvæmt ákvæðum skuldabréfaafleiðusamninganna. Samkvæmt skýru ákvæði þeirra samninga hafi greiðslum samkvæmt skuldabréfunum verið ætlað að standa straum af greiðslum samkvæmt samningunum í evrum. Hvergi sé þar tekið fram að við greiðslufall af skuldabréfunum beri sóknaraðili sjálfstæða ábyrgð á greiðslum samningsins í evrum.

Sóknaraðili vísar til þess að afleiðusamningarnir hafi verið samdir einhliða af varnaraðila og honum því verið í lófa lagið að kveða á um sjálfstæða ábyrgð sóknaraðila á greiðslunum ef það hefði verið ætlunin. Allan vafa um skýringu samningsins beri að túlka sóknaraðila í hag. Þar sem greiðslufall hafi orðið á skuldabréfunum hafi forsendur brostið fyrir afleiðusamningunum sem gerðir hafi verið í tengslum við skuldabréfakaupin, enda hafi þeir verið háðir þeirri forsendu að varnaraðili innti af hendi greiðslur samkvæmt skuldabréfunum. Afleiðusamningarnir hefðu m.ö.o. aldrei verið gerðir ef kaupin á skuldabréfunum hefðu ekki farið fram. Það hafi báðum aðilum verið ljóst. Afleiðusamningarnir hafi þar af leiðandi fallið niður frá því tímamarki þegar greiðslufall varð á skuldabréfunum. Varnaraðili geti því ekki átt neina kröfu á grundvelli þeirra.

Dómkrafa 2

Sóknaraðili kveður sér hafa verið heimilt að greiða kröfu varnaraðila með skuldajafnaðaryfirlýsingunni 24. október 2008. Sérstakar reglur séu lögbundnar um skuldajafnaðarrétt í tengslum við gjaldþrotaskipti. Komi grundvallarreglan hvað þetta varði fram í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 þar sem mælt sé fyrir um stöðu þess sem skuldi þrotabúi. Sé þar kveðið á um að þeim sem skuldi þrotabúi sé heimilt að draga frá skuld sinni það sem hann eigi hjá þrotabúinu „hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið“. Frá grundvallarreglunni séu gerðar undantekningar í lögunum sem eigi ekki við um atvik þessa máls. Sóknaraðili byggi í fyrsta lagi á því að 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. tl. V. ákvæðis til bráðabirgða sömu laga, gangi framar ákvæðum handveðssamningsins. Sé í þessu sambandi sérstaklega vísað til 1. og 3. mgr. 100. gr. Þrátt fyrir handveðsetninguna sé veðsali, þ.e. sóknaraðili, eigandi krafnanna sem veðsettar hafi verið. Ákvæði handveðssamningsins víki fyrir hinni skýru lagareglu. 

Fyrir liggi að varnaraðili hafi talið sóknaraðila skulda þrotabúinu ríflega 500 milljónir króna vegna taps á afleiðusamningum sem lokað hafi verið eftir hrun bankans. Ekki sé fullur samhljómur með aðilum um þann útreikning. Hvað sem því líði sé engin deila um að til tryggingar hugsanlegri skuld við bankann hafi sóknaraðili handveðsett varnaraðila skuldabréfakröfur á hendur bankanum að fjárhæð 10,4 milljónir evra og innstæðu á bankareikningi sem hafi numið 70-80 milljónum króna. Eftir hrun varnaraðila hafi sóknaraðili lýst því yfir að hann greiddi skuld sína við varnaraðila með kröfu sinni á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum. Hafi hann krafist afhendingar bankainnstæðunnar og viðurkenningar á umframkröfu sinni sem almennri kröfu í þrotabúið.

Mikilvægt sé að hafa hugfast að handveðsetning verðmæta skapi veðhafanum einungis óbein eignarréttindi. Þrátt fyrir handveðsetningu skuldabréfanna hafi sóknaraðili verið áfram eigandi þeirra og þar með kröfuhafi gagnvart varnaraðila. Af því leiði að við þrot varnaraðila hafi sóknaraðila verið heimilt samkvæmt reglunni í 100. gr. gjaldþrotaskiptalaganna að greiða skuld sína við varnaraðila með kröfu sinni á hendur varnaraðila. Slík heimild hafi verið fyrir hendi gagnvart þrotabúinu „hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið“. Ákvörðun slitastjórnar varnaraðila, að ganga að handveðinu á „markaðsvirði“ og ráðstafa andvirðinu til greiðslu krafna á hendur sóknaraðila, sé því í beinni andstöðu við þá grundvallarhugsun sem reglur gjaldþrotaréttarins séu reistar á.

Sóknaraðili telji að varnaraðila hafi verið óheimilt að leysa til sín skuldabréfin með þeim hætti sem gert hafi verið og að krafa varnaraðila á grundvelli afleiðusamninganna hafi verið greidd með skuldajafnaðaryfirlýsingunni frá 24. október 2008. Skuldajöfnunin hafi byggst á almennum reglum kröfuréttar og gjaldþrotaskiptaréttar. Hún hafi hvorki verið í andstöðu við lög né samninga aðila. Skuldajafnaðaryfirlýsing sé ákvöð og bindi viðtakanda við móttöku hennar. Þar sem krafan hafi verið greidd með skuldajöfnuði hafi varnaraðila verið óheimilt að leysa til sín veðið umfram það sem leiddi af skuldajafnaðaryfirlýsingunni.

Á það sé bent að 9. gr. handveðssamningsins verði ekki skýrð með þeim hætti sem byggt sé á af hálfu varnaraðila, enda samrýmist hún ekki orðalagi ákvæðisins. Þannig kveði ákvæðið aðeins á um að veðsala sé óheimilt að ráðstafa veðandlaginu meðan kröfurnar sem veðandlagið eigi að tryggja séu ekki að fullu greiddar. Þannig vísi orðið „og“ til tímabilsins meðan kröfurnar séu ekki að fullu greiddar. Sóknaraðili telji vandséð hvernig hægt sé að skýra orðalag ákvæðisins með öðrum hætti. Skuldajöfnuður sé ein tegund greiðslu. Þar sem kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila hafi verið greiddar með skuldajafnaðaryfirlýsingunni hafi sóknaraðila strax í kjölfarið verið heimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er, að teknu tilliti til skuldajafnaðarins. Framangreind skýring sé ennfremur í samræmi við niðurlag 1. málsliðar ákvæðisins um að andvirði veðandlagsins skuli ganga til lækkunar kröfunum sem það eigi að tryggja.

Þá fái skýring varnaraðila á handveðsamningnum hvorki samrýmist markmiði með gerð hans né tilgangi. Sé hvað það varði vísað til 4. og 9. gr. handveðssamningsins. Veðandlagið hafi verið sett varnaraðila að handveði til tryggingar greiðslum á öllum skuldum og fjárskuldbindingum í tengslum við afleiðuviðskipti. Með sama hætti og önnur veðréttindi hafi handveðinu verið ætlað að tryggja veðhafa, þ.e. varnaraðila, forgang til greiðslu umfram aðra kröfuhafa sóknaraðila. Með skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila hafi krafa varnaraðila verið að fullu efnd af hálfu sóknaraðila og forgangur varnaraðila til greiðslu því um leið tryggður. Umráðasvipting sú sem felist í handveði þjóni þeim eina tilgangi að veðsali geti ekki gert trygginguna að engu með því að afhenda veðið þriðja aðila. Umráðasviptingin sé því út á við, þ.e. hún feli í sér réttarvernd gagnvart þriðja manni með því að tryggja að veðhafi njóti forgangsréttar. Hún komi þar af leiðandi ekki í veg fyrir innbyrðis greiðslur milli veðhafa og veðsala, þ.e. að veðsali greiði veðhafa með hinum veðsettu kröfuréttindum. Tilgangur handveðsetningar geti aldrei verið sá að ónýta skuldajafnaðarréttinn þannig að veðhafi fái meira en honum beri.

Sóknaraðili vísi loks til þess að skýring varnaraðila á ákvæði veðsamningsins sé í andstöðu við þá meginreglu 11. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð að afsal veðandlags, eða aðrar ráðstafanir með löggerningi, séu heimilar. Hún sé einnig í andstöðu við efni skuldabréfaafleiðusamninganna, en samkvæmt efni þeirra hafi greiðslum frá varnaraðila til sóknaraðila á grundvelli skuldabréfanna beinlínis verið ætlað að jafnast á móti greiðslum frá sóknaraðila til varnaraðila á grundvelli afleiðusamninganna. Samningarnir hafi því beinlínis verið gerðir í þeim tilgangi að skuldajafna kröfum aðila á hendur hvor öðrum og breyta þannig greiðslum af skuldabréfunum úr evrum yfir í íslenskar krónur.

Ljóst sé að allan vafa um skýringu umrædds ákvæðis beri að túlka sóknaraðila í hag. Samkvæmt almennum meginreglum kröfuréttarins, eignaréttarins og gjaldþrotaskiptaréttarins, sbr. m.a. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sé aðila heimilt að greiða kröfur með skuldajöfnuði, að nánari skilyrðum uppfylltum. Sama niðurstaða leiði einnig af 11. gr. laga nr. 75/1997. Öll frávik frá meginreglunni beri að skýra þröngt. Í settum lögum og dómaframkvæmd séu gerðar strangar kröfur til aðgæsluskyldu fjármálafyrirtækja eins og varnaraðila, sem hafi haft á að skipa fjölda sérhæfðs starfsfólks. Varnaraðila beri að tryggja sér skýra og ótvíræða sönnun fyrir tilvist réttinda, sem hann kveðist eiga, umfangi og heimilda að öðru leyti, ekki síst þegar um frávik frá almennum meginreglum sé að ræða. Varnaraðili hafi verið sérhæfður í lánveitingum, lánasamningum og verðbréfaviðskiptum og fyrirliggjandi skilmálar handveðssamningsins hafi verið samdir af honum einhliða.

Ákvæði 13. gr. handveðssamningsins hafi enga þýðingu í þessu sambandi, enda telji dómurinn að sóknaraðila hafi verið heimilt að greiða kröfur varnaraðila með skuldajafnaðaryfirlýsingunni. Ákvæðið eigi því aðeins við að veðsali sé í vanskilum eða hlutfallið milli eftirstöðva skuldar og verðmætis veðandlagsins uppfylli ekki lengur kröfur veðhafa. Krafa varnaraðila á grundvelli afleiðusamninganna hafi verið greidd með skuldajafnaðaryfirlýsingunni og því hafi ekki verið um nein vanskil að ræða.

Fallist dómurinn ekki á ofangreint, heldur komist að þeirri niðurstöðu að skýra verði 9. gr. handveðssamningsins á þá leið að sóknaraðila hafi verið óheimilt að greiða kröfur varnaraðila á grundvelli afleiðusamninganna með skuldajöfnuði, kveðst sóknaraðili gera kröfu um að fyrrgreindu ákvæði samningsins verði vikið til hliðar eða því breytt á grundvelli 9. gr. laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingaráðstafanir, sbr. einnig 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Nánar tiltekið verði ákvæðinu vikið til hliðar eða því breytt þannig að sóknaraðila hafi verið heimilt að greiða kröfu varnaraðila á grundvelli afleiðusamninganna með skuldajafnaðaryfirlýsingunni frá 24. október 2008. Sóknaraðili telur það bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju verði 9. gr. handveðssamningsins skýrð á þann veg að skuldajöfnuður hafi verið óheimill, m.a. þegar litið sé til þeirra atriða sem tilgreind séu í 2. mgr. 36. gr. síðarnefndu laganna eða efni samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og síðar og viðskiptavenju.

Með skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila hafi krafa varnaraðila verið að fullu efnd af hálfu sóknaraðila og forgangur varnaraðila til greiðslu því um leið tryggður. Handveðssamningurinn geti því ekki talist sanngjarn í skilningi framangreindra ákvæða verði honum ekki vikið til hliðar eða breytt í samræmi við ofangreint. Þá hafi handveðssamningurinn verið saminn einhliða af hálfu varnaraðila. Varnaraðili hefði krafist þess að sóknaraðili undirritaði handveðssamninginn í óbreyttu formi. Ef sóknaraðili hefði ekki orðið við því hefði ekkert orðið af afleiðusamningunum og fjórum afleiðusamningum, sem gerðir hefðu verið fyrir undirritun handveðsamningsins. Sóknaraðili hefði þá setið uppi með skuldabréf að nafnvirði 6.400.000 evrur, án nokkurra gengisvarna. Skoða verði handveðssamninginn í þessu ljósi. Skoða verði og handveðssamninginn í því ljósi að  greiðslum frá varnaraðila til sóknaraðila á grundvelli skuldabréfanna hafi beinlínis verið ætlað að jafnast á móti greiðslum frá sóknaraðila til varnaraðila á grundvelli afleiðusamninganna. Samningurinn geti því ekki talist sanngjarn í skilningi framangreindra ákvæða.               

Varnaraðili hafi nú verið tekinn til slitameðferðar. Verði 9. gr. handveðssamningsins ekki vikið til hliðar eða honum breytt í samræmi við ofangreint muni gjaldþrot varnaraðila leiða til betri stöðu hans gagnvart sóknaraðila en orðið hefði ef ekki hefði komið til gjaldþrotsins. Leiði gjaldþrotið því að öllu óbreyttu til þess að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila verði aðeins metin á 27,5% af raunvirði, sbr. tölvubréf starfsmanns varnaraðila, dags. 25. október 2010, í stað 100%, eins og ella hefði verið. Varnaraðili muni samkvæmt þessu hagnast á kostnað sóknaraðila og þeirra fjölmörgu aðila sem séu í sambærilegri stöðu og sóknaraðili. Þá hafi varnaraðili gefið honum loforð um að fallist yrði á skuldajöfnun og í trausti þess, og til að flýta fyrir afgreiðslu málsins, hafi hann bætt skuldabréfum úr flokki KAUP Float 06/09, að nafnvirði 1.000.000 evra, sem hann hafi átt veðbandalaust á öðru vörslusafni, inn á hinn handveðsetta vörslureikning. Í ljósi þessa geti handveðssamningurinn ekki talist sanngjarn í skilningi framangreindra ákvæða.

Loks sé á það bent að samkvæmt 5. gr. verðbréfaviðskiptalaga skuli fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Þessum venjum sé m.a. lýst í ákvæðum II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sé hvað það varði sérstaklega vísað til 18. og 19. gr. kaflans. Þá vísi sóknaraðili einnig til reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd, einkum 7. og 8. þáttar reglugerðarinnar. Með vísan til framangreindra ákvæða verði að teljast andstætt góðri viðskiptavenju að varnaraðili geti borið handveðssamninginn fyrir sig óbreyttan.

IV.

Málsástæður varnaraðila

Dómkrafa sóknaraðila nr. 1

Varnaraðili kvaðst alfarið hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili eigi engar fjárkröfur á hendur sóknaraðila á grundvelli gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamninganna þar sem sóknaraðili hafi ekki undirgengist sjálfstæða ábyrgð á greiðslum samkvæmt þeim þar sem hvergi sé tekið fram að við greiðslufall af skuldabréfunum beri sóknaraðili sjálfstæða ábyrgð á greiðslum samningsins í evrum. Virðist á því byggt af hálfu sóknaraðila að ef greiðslubrestur verði á skuldabréfagreiðslum úr hendi varnaraðila eigi afleiðusamningarnir samhliða að falla niður og séu samningarnir því órjúfanlega tengdir að þessu leyti. Varnaraðili telji að þessi málsástæða sóknaraðila fái hvorki stoð í efni, eðli eða orðalagi samninga aðila né fyrri samskiptum þeirra, nema síður sé. Þannig hafi sóknaraðili aldrei borið sérstakar brigður á greiðsluskyldu sína samkvæmt afleiðusamningunum, svo sem beiðni hans um skuldajöfnuð endurspegli ljóslega og gögn málsins beri að öðru leyti glöggt með sér. Telji varnaraðili að sóknaraðili hafi þannig samþykkt greiðsluskyldu. Skuli og ítrekað að um samninginn hafi gilt almennir skilmálar um vaxta- og gjaldmiðlaskipti, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða (1. útgáfa), en samkvæmt þeim sé ráðgert að við samningsslit („lokun“ samninga), svo sem hér hafi verið ástatt, skuli reikna út hagnað og tap aðila samkvæmt nánari tilgreiningu. Önnur niðurstaða væri jafnframt sýnilega fráleit, þ.e. að greiðsluskylda samkvæmt afleiðusamningunum félli niður, en héldist allt að einu samkvæmt skuldabréfunum, svo sem sóknaraðili byggi í reynd á. Sé hvers konar sjónarmiðum um brostnar forsendur fyrir greiðsluskyldu jafnframt alfarið hafnað.

Varnaraðili bendi hér einnig á að tilgangur með gerð afleiðusamninga sé mjög gjarnan sá að verja sig fyrir ákveðnum áhættuþáttum vegna einstakra samninga, en þó sé ekki þar með sagt að vörnin, afleiðusamningurinn, verði hluti af samningnum sem honum sé ætlað að verja. Sóknaraðila, sem sé starfandi fjármálafyrirtæki, eigi að vera þetta fullkomlega ljóst. Til séu hins vegar samningar sem innihaldi „innbyggðar varnir“. Sé þá um einn og sama samninginn að ræða og komi það þá skýrt fram í slíkum samningum, sér í lagi í uppgjörsákvæðum þeirra. Tilvísun í gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningunum til þeirra skuldabréfa sem þeim sé ætlað að verja megi ekki túlka á þann hátt að gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningarnir séu hluti af þeim samningi. Með tilvísuninni sé verið að vísa til þess hvernig ráðstafa eigi greiðslum þessara samninga en ekki annars. Skuldabréfin séu eign sem sóknaraðili hafi ákveðið að fjárfesta í, á meðan gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningarnir séu gagnkvæmir samningar milli aðila. Hefði sóknaraðili t.d. selt þriðja aðila skuldabréfin hefðu gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningarnir ekki fylgt sjálfkrafa með, heldur hefði þurft að grípa til sérstakra aðgerða ef sóknaraðili hefði ekki viljað vera bundinn af þeim eftir að hafa selt skuldabréfin, t.d. með því að óska eftir lokun samninganna við varnaraðila. Ef ætlunin hefði verið sú að koma sér undan markaðsáhættu vegna skuldabréfanna þá hefði sóknaraðili í reynd þurft að gera söluréttarsamning um skuldabréfin (e. put option).

Dómkrafa sóknaraðila nr. 2

Varnaraðili kveðst alfarið hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að sóknaraðilinn hafi verið búinn að greiða þær kröfur sem lágu til grundvallar fullnustu varnaraðila með skuldajöfnuði, enda hafi sóknaraðila skort nauðsynlegan ráðstöfunarrétt yfir hinu veðsetta til að hann gæti nýtt það til skuldajafnaðar. Samkvæmt handveðsyfirlýsingunni hafi handveðið, þ.e. umþrætt skuldabréf, verið sett til „tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum í tengslum við afleiðuviðskipti“. Í handveðinu segði jafnframt: „Veðsali skal sviptur umráðum veðandlagsins, meðan kröfur þær, sem veðandlagið á að tryggja eru ekki að fullu greiddar og skal veðsala óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er.“ Enn fremur hafi verið kveðið á um að yrðu vanskil á kröfu sem veðandlaginu væri ætlað að tryggja, þ.e. afleiðusamningunum, væri veðhafa, þ.e. varnaraðila, heimilt að nota andvirði veðandlagsins til fullnustu þeirra krafna. Þar sem veðsala, þ.e. sóknaraðila, hafi verið „óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er“, hafi sóknaraðila sjáanlega ekki verið stætt á að nota hin handveðsettu kröfuréttindi til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum aðila, enda hljóti slíkt að fela í sér „ráðstöfun“ á hinu veðsetta þar sem gagnkrafan, þ.e. hin veðsetta krafa, líði undir lok við skuldajöfnuð. Sóknaraðili hafi með öðrum orðum ekki nauðsynlegt forræði yfir hinum handveðsettu kröfuréttindum til að geta lýst yfir skuldajöfnuði nema um slíkt sé þá sérstaklega samið. Varnaraðili bendi jafnframt sérstaklega á að takmarkanir á ráðstöfunarrétti sóknaraðila, þ.m.t. rétti til skuldajafnaðar að mati varnaraðila, séu fortakslausar, sbr. orðalagið „með hvaða hætti sem er“.

Fyrir liggi að með handveðsetningunni hafi sóknaraðili undirgengist þá samningsskuldbindingu að við vanskil á veðkröfu, þ.e. skuldbindingum sóknaraðila samkvæmt afleiðusamningum, sé veðhafa, þ.e. varnaraðila, heimilt að ráðstafa hinu veðsetta þannig að miðað sé við andvirði hins veðsetta (markaðsvirði) á tímamarki fullnustu. Af því leiði jafnframt að sóknaraðili geti ekki, án samþykkis varnaraðila, kosið að víkja einhliða til hliðar umþrættri samningsskuldbindingu með skuldajöfnuði.

Vegna tilvísunar sóknaraðila til 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., um að þeim sem skuldi þrotabúi sé heimilt að draga frá skuld sinni það sem hann eigi hjá þrotabúinu „hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið“, þá hafni varnaraðili því að umþrætt ákvæði fái rutt til hliðar takmörkunum á rétti til skuldajafnaðar sem leiði af bindandi samningi, svo sem hér sé ástatt. Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti geti þannig ekki talist ófrávíkjanleg í þeim skilningi að ekki sé unnt að semja um betri rétt til handa þrotamanni eða að slíkt leiði að öðru leyti af samningi, hvað þá þegar um sé að ræða samning á milli tveggja sérfróðra aðila sem eigi að vera fullfærir um að tryggja rétt sinn eins og framast sé kostur, svo sem hér hafi ljóslega verið raunin. Varnaraðili vísi jafnframt til þess að samningar teljist að meginreglu bindandi við gjaldþrotaskipti. Þá sé það og meginregla veðréttar, sbr. einnig 11. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, að heimildir veðsala til ráðstöfunar veðréttinda sæti takmörkunum sem leiði af rétti veðhafa. Verði að mati varnaraðila ekki ráðið að 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti gangi framar tilvísuðu ákvæði og meginreglum veðréttar, enda slíkt þá ljóslega til þess fallið að grafa undan réttarvernd tryggingaréttinda.

Varnaraðili kveðst hafna þeirri staðhæfingu sóknaraðila að skýring varnaraðila á orðalagi 9. gr. handveðsyfirlýsingarinnar fái ekki staðist. Þvert á móti sé orðalagið afdráttarlaust um að hvers konar ráðstöfun hinna handveðsettu kröfuréttinda sé óheimil. Enda þótt 9. gr. verði skýrð þannig að ráðstöfunarrétturinn sæti einungis takmörkunum meðan veðkrafan sé ógreidd fái það engu breytt um framangreint enda veðkrafan, þ.e. afleiðusamningarnir, að sönnu „ógreidd“ og ráðstöfunarréttur því takmarkaður, þegar meintum skuldajöfnuði hafi verið lýst yfir. Því sé og mótmælt að skýring varnaraðila á umþrættum handveðssamningi fái ekki samrýmst markmiðum og tilgangi samningsins. Með samningnum sé varnaraðila einfaldlega tryggður réttur til að ganga að handveðsettum kröfuréttindum til tryggingar skuld sóknaraðila við varnaraðila sem varnaraðili og gerði. Ekki verði heldur séð að umþrætt skýring sé í andstöðu við 11. gr. laga um samningsveð, enda feli ákvæðið ekki í sér hömlur á rétti til að semja um að ráðstöfunarréttur veðsala á hinu veðsetta sæti takmörkunum. Þá hafni varnaraðili því að skýring hans sé í andstöðu við efni skuldabréfaafleiðusamninganna, þ.e. gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamninga aðila. Sé hvað það varði bent á að þótt afleiðusamningarnir hafi verið gerðir í tengslum við kaup sóknaraðila á skuldabréfum varnaraðila fái það engu breytt um hvort skilyrði skuldajafnaðar geti almennt talist uppfyllt í skilningi reglna kröfu- og gjaldþrotaréttar. Loks sé mótmælt þeirri staðhæfingu sóknaraðila að túlka beri allan vafa um efni handveðssamningsins honum í hag þegar af þeirri ástæðu að ekki verði ráðið að neinum vafa sé fyrir að fara, enda orðalag samningsins afdráttarlaust sem fyrr segi, aukinheldur sem sóknaraðili sé sjálfur sérfróður aðili og því aðilar jafn settir að því leyti við gerð umþrætts samnings, að mati varnaraðila.

Á það sé sérstaklega bent að á því tímamarki sem sóknaraðili kveðist sjálfur hafa lýst yfir skuldajöfnuði, þ.e. 24. október 2008, hafi ekki verið búið að taka varnaraðila til slitameðferðar. Þegar af þeim ástæðum fái ekki staðist að byggja umþrætta „skuldajafnaðaryfirlýsingu“ á ákvæðum 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Fái umþrætt „skuldajafnaðaryfirlýsing“ þannig, gagnstætt því sem sóknaraðili telji, hvorki stoð í almennum reglum kröfuréttar, þ. á m. vegna skorts á nauðsynlegum ráðstöfunarréttindum yfir gagnkröfu, sbr. hér að framan, né í reglum gjaldþrotaréttar. Standist því ekki sú staðhæfing sóknaraðila að afleiðusamningar þeir sem legið hafi til grundvallar fullnustu varnaraðila hafi þegar verið greiddir með skuldajöfnuði á tímamarki fullnustunnar.

Varnaraðili hafni því alfarið að lagaskilyrði séu uppfyllt til að gefa ákvæði 9. gr. handveðssamningsins aðra merkingu, þ. á m. með vísun til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð, síðar til kominna atvika eða viðskiptavenju, en leiði af skýru orðalagi samningsins. Umþrættur samningur sé gerður á milli tveggja sérfróðra fjármálafyrirtækja sem eigi að vera fullfær um að gæta hagsmuna sinna með fullnægjandi hætti. Verulega mikið þurfi því til að koma svo slíkum samningum verði vikið til hliðar, sbr. einnig meginreglur samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og hagsmuni viðskiptalífsins af fyrirsjáanleika við gerð viðskiptasamninga. Það að umþrætt takmörkun á skuldajafnaðarrétti sóknaraðila leiði í reynd til þess að kröfuréttindi sóknaraðila gagnvart varnaraðila séu minna virði fái engu breytt í þessu sambandi og geti heldur ekki leitt til þess að samningurinn teljist svo ósanngjarn að honum verði vikið til hliðar, ekki síst að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að aðilar séu næsta jafn settir við samningsgerð sem fyrr segi. Verði hvorki séð að neinu breyti í þessu tilliti þótt varnaraðili hafi krafist handveðssetningar til tryggingar skuldum sóknaraðila samkvæmt afleiðusamningunum né að tengsl séu á milli gerðar afleiðusamninganna annars vegar og skuldabréfanna hins vegar. Ákvæði handveðssamningsins gildi einfaldlega samkvæmt orðum sínum.

V.

Niðurstaða

Dómkrafa sóknaraðila nr. 1

Eins og fram er komið gerðu aðilar með sér samkomulag um kaup sóknaraðila á skuldabréfum í þremur skuldabréfaflokkum að nafnvirði samtals 10.400.000 evrur, útgefnum af varnaraðila. Samhliða skuldabréfakaupunum gerðu þeir svo með sér gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamninga í því skyni að eyða út gengisáhættu sóknaraðila vegna bréfanna. Mótmælir sóknaraðili þeirri staðhæfingu varnaraðila að með greindum gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningum, sem hann nefnir skuldabréfaafleiðusamninga, hafi hann undirgengist sjálfstæða ábyrgð á greiðslum, enda komi skýrlega fram í samningunum að greiðslur samkvæmt skuldabréfunum hafi verið ætlaðar til að standa straum af greiðslum samkvæmt samningunum.

Enda þótt fyrir liggi, eins og fram kemur í framangreindum gjaldmiðla- og vaxtasamningum, að greiðslum samkvæmt hverjum samningi fyrir sig sé ætlað „að standast á við greiðslur“ sóknaraðila til varnaraðila af tilgreindu skuldabréfi verður ekkert annað ráðið af orðalagi umræddra samninga en að í þeim felist sjálfstæð greiðsluskuldbinding beggja málsaðila án tillits til skuldbindingar varnaraðila samkvæmt skuldabréfunum. Er í samningunum þannig kveðið á um höfuðstólsfjárhæð og vaxtakjör og hvernig greiðslum skuli háttað. Þá er í samningunum kveðið sérstaklega á um að auk þeirra ákvæða sem fram komi í samningunum gildi almennir skilmálar um vaxta- og gjaldmiðlaskipti, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða 1997, sem sóknaraðili hafi fengið afhenta og kynnt sér. Er í skilmálum þessum meðal annars að finna ákvæði um úrræði aðila vegna vanefnda og uppgjör greiðslna við samningsslit. Kemur þar fram að við lokun samninganna skuli reikna út hagnað og tap aðila með tilteknum hætti með hliðsjón af tilteknum forsendum. Þá verður ekki annað ráðið af skjölum málsins en að sóknaraðili hafi frá upphafi, ekki síður en varnaraðili, litið svo á að í gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningunum fælist sjálfstæð skuldbinding hvors þeirra fyrir sig. Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða dómsins að umræddir gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningar feli í sér sjálfstæða skuldbindingu fyrir báða aðila hans og teljist ekki hluti af skuldbindingu varnaraðila gagnvart sóknaraðila samkvæmt skuldabréfunum. Getur sú staða að samningsákvæðin hafi verið samin einhliða af varnaraðila engu breytt varðandi þessa niðurstöðu, enda aðilarnir báðir starfandi sem fjármálafyrirtæki á þeim tíma sem samningarnir voru gerðir og því með sambærilega stöðu í þessu tilliti.

Þá verður ekki heldur á það fallist eins og hér háttar að gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningarnir hafi í raun fallið niður vegna greiðslufalls af skuldabréfunum, enda eins og áður segir um að ræða sjálfstæða samninga þótt þeir hafi vissulega verið gerðir í tengslum við kaup sóknaraðila á skuldabréfum varnaraðila. 

Samkvæmt því sem rakið hefur verið er hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að hann hafi ekki borið greiðsluábyrgð gagnvart varnaraðila samkvæmt gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningum nr. 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 359123/403197, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613 við greiðslufall varnaraðila á skuldabréfum með ISIN nr. XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336.

Dómkrafa sóknaraðila nr. 2

Með handveðssamningi sem aðilar gerðu með sér 18. janúar 2008 veðsetti sóknaraðili varnaraðila öll verðmæti, þar með talið öll verðbréf og peningainnstæður, á vörslusafni sóknaraðila hjá varnaraðila nr. 54557. Ekki sýnist um það deilt að umrædd skuldabréf í eigu sóknaraðila hafi fallið undir þennan samning. Er í 9. mgr. veðsamningsins kveðið á um að veðsala sé óheimilt að ráðstafa veðandlaginu, með hvaða hætti sem er, nema hann hafi áður fengið til þess skriflegt leyfi veðhafa. Verður að telja að framangreint ákvæði veðsamningsins sé skýrt hvað þetta varðar samkvæmt

orðanna hljóðan og að það hvorki víki fyrir né takmarkist með nokkrum hætti af ákvæðum 100. gr. laga nr. 21/1991 né 11. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997 eins og sóknaraðili heldur fram. Þvert á móti er skýrlega kveðið á um það í tilvitnaðri 11. gr. að veðandlagi verði ekki ráðstafað nema með samþykki veðhafa, enda leiði ráðstöfunin til skerðingar á veðréttindunum.

Sóknaraðili byggir og á því að víkja beri framangreindu ákv. í 9. mgr. veðsamningsins til hliðar eða að því verði breytt á grundvelli 9. gr. laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísar hann hvað það varðar til þess að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju, með tilliti til efnis samningsins, stöðu samningsaðilanna, atvika við samningsgerðina og seinni atvika, ef 9. mgr. veðsamningsins verði skýrð á þann veg að skuldajöfnuður hafi verið óheimill. Eins og að framan er rakið var ekki til að dreifa ójafnræði milli aðilanna við gerð þeirra samninga sem hér um ræðir, þar á meðal umrædds veðsamnings. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að atvik hafi verið með þeim hætti við samningsgerðina eða á seinni stigum að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að varnaraðili geti borið framangreint ákvæði veðsamnings fyrir sig. Geta þessar málsástæður því ekki leitt til þess að ákvæðinu verði vikið til hliðar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að ákv. 9. mgr. handveðssamnings aðilanna og 11. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð hafi staðið því í vegi að sóknaraðila hafi verið heimilt að ráðstafa umræddum skuldabréfum með því að skuldajafna kröfum samkvæmt þeim á móti tilgreindum greindum kröfum varnaraðila á hendur honum. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila um að staðfest verði að honum hafi verið þetta heimilt.

Aðilar lýstu því yfir við upphaf aðalmeðferðar að þeir gerðu ekki kröfu til málskostnaðar í þessum þætti málsins og að þeir væru sammála um að ákvörðun málskostnaðar biði endanlegrar niðurstöðu. Með hliðsjón af því verður málskostnaður ekki dæmdur.

Mál þetta fluttu Gestur Jónsson hrl. fyrir hönd sóknaraðila og Andri Árnason hrl. fyrir hönd varnaraðila.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Íslenskra verðbréfa hf., um að hann hafi ekki borið greiðsluábyrgð gagnvart varnaraðila, Kaupþingi banka hf., samkvæmt afleiðusamningum nr. 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 359123/403197, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613 við greiðslufall varnaraðila á skuldabréfum með ISIN nr. XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336.

Hafnað er kröfu sóknaraðila um að honum hafi verið heimilt að nýta kröfur á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfum með ISIN nr. XS0192870250, XS0306851998 og XS0281993336 til skuldajafnaðar við kröfur varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum, annars vegar með nr. AFS18965, AFS18968, AFS18970, AFS19296, AFS19297, AFS19402, AFS19683 og hins vegar með nr. 348707/390563, 357930/401759, 358581/402533, 359123/403197, 361617/406069, 363552/408264 og 363858/408613.