Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Föstudaginn 7. janúar 2005. |
|
Nr. 7/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Er krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald var kynnt X var eldri gæsluvarðhaldsúrskurður ekki lengur í gildi og X frjáls ferða sinna. Við þær aðstæður gat lögregla ekki gert slíka kröfu þar sem framlengingar varð ekki krafist eftir að gæsluvarðhaldsfanga hafði verið sleppt úr haldi. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 24. janúar nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 12 mánudaginn 3. janúar 2005 vegna ætlaðra brota á nálgunarbanni samkvæmt dómi Hæstaréttar 23. september 2004. Fram er komið að varnaraðili var látinn laus þegar gæsluvarðhaldstíminn rann út kl. 12 fyrrnefndan dag, en handtekinn skömmu síðar og færður fyrir dómara kl. 14.25 sama dag. Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði, á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í máli hans, en þó ekki lengur en til kl. 16 mánudaginn 24. janúar nk. Þegar krafan var kynnt varnaraðila var gæsluvarðhaldsúrskurður 9. desember 2004 ekki lengur í gildi og varnaraðili frjáls ferða sinna. Við þær aðstæður gat sóknaraðili ekki gert slíka kröfu þar sem framlengingar verður ekki krafist á gæsluvarðhaldi eftir að gæsluvarðhaldsfanga hefur verið sleppt úr haldi. Samkvæmt þessu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X [...]., Reykjavík, verði með vísan til c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudagsins 24. janúar 2005 kl. 16:00.
[...]
Með dómi Hæstaréttar Íslands 23. september 2004 er staðfesti að hluta úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. september 2004, var lagt bann við því að kærði kæmi í námunda við heimili A og B, veitti þeim eftirför, nálgaðist þau á almannafæri eða setti sig í samband við þau. Lögreglan hefur nú til rannsóknar þrjú mál vegna ætlaðra brota kærða á nálgunarbanninu og var ákæra gefin út vegna þeirra 27. desember sl. fyrir brot gegn 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Veður því að telja að fyrir liggi rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við. Ennfremur liggja fyrir tvö nýleg bréf frá kærða þar sem fram kemur einbeittur vilji hans til að brjóta gegn nálgunarbanninu og bollaleggingar um að fremja alvarlegan glæp. Einnig liggja fyrir í málinu vottorð frá tveimur geðlæknum sem bera um geðheilbrigði kærða og kemur meðal annars fram að kærði sé haldinn persónuleikabrestum eða andfélagslegri persónuleikaröskun svo og persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum. Hann sé hvatvís og með laka hvatastjórn, reiðigjarn og ofstopafullur. Í vottorðunum er tekið fram að hann geti verið öðrum hættulegur. Þá hefur verið lagt fram vottorð Lúðvíks Ólafssonar héraðslæknis dags. 8. desember sl. þar sem fram kemur m.a. að kærði hafi tjáð lækninum að hann vilji ná sér niðri á A en svarar því ekki hvort hann muni fremja tiltekna glæpi. Er niðurstaða læknisins sú að kærði sé sakhæfur.
Af hálfu verjanda hefur verið krafist frávísunar gæsluvarðhaldskröfunnar á þeim forsendum að kærði hafi losnað úr gæsluvarðhaldi kl. 12 í dag en handtekinn skömmu síðar og því geti ekki verið um kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald að ræða. Þótt lögreglustjórinn í Reykjavík hafi laust eftir klukkan 12 á hádegi þegar kærði hafi gengið laus í nokkra stund krafist þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi verður það ekki talið valda frávísun málsins. Rökstuðningur kröfunnar sé sá sami og grundvöllur hennar að lögum.
Með vísan til alls framanritaðs er fallist á að hætta sé á að kærði muni halda áfram brotastarfssemi sinni. Er því fallist á að skilyrðum c og d liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald sé fullnægt. Verður því krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina þó þannig að hann sæti ekki gæsluvarðhaldi lengur en til mánudagsins 24. janúar 2005 kl. 16.00.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudagsins 24. janúar 2005 kl. 16:00.