Hæstiréttur íslands
Mál nr. 514/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Slit
- Aðilaskipti
|
|
Þriðjudaginn 18. september 2012. |
|
Nr. 514/2012.
|
Síminn hf. og Skipti hf. (Andri Árnason hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Slit. Aðilaskipti.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að Sí hf. væri réttur kröfuhafi samkvæmt nánar tilgreindum kröfulýsingum á kröfuskrá við slitameðferð G hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Frekari gögn bárust réttinum eftir það. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðilans Skipta hf. og staðfest að sóknaraðilinn Síminn hf. væri réttur kröfuhafi samkvæmt kröfulýsingum með nánar tilgreindum númerum á kröfuskrá við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að sóknaraðilinn Skipti hf. teljist kröfuhafi samkvæmt áðurnefndum kröfulýsingum. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Á það verður ekki fallist með sóknaraðilum að varnaraðili hafi við meðferð málsins í héraði látið hjá líða að byggja á því að þurft hefði formlegt samþykki samningsaðila fyrir framsali á rétti samkvæmt hinum umþrættu samningum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Síminn hf. og Skipti hf., greiði óskipt varnaraðila, Glitni hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012.
I.
Mál þetta, sem þingfest var 29. apríl 2011, var tekið til úrskurðar 14. júní sl. Sóknaraðilar eru Síminn hf. og Skipti hf., bæði til húsa að Ármúla 25, Reykjavík. Varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili, Skipti hf., gerir þær dómkröfur í þessum þætti málsins að viðurkennt verði að Skipti hf. teljist kröfuhafi við slitameðferð varnaraðila vegna kröfulýsinga, dags. 25. nóvember 2009, með eftirgreind tilvísunarnúmer: CL20091127-5895, CL20091127-5908, CL20091127-5924, CL20091127-5928, CL20091127-5934 og CL20091127-5939. Sóknaraðili, Síminn hf., krefst þess til vara, verði sóknaraðili Skipti hf. ekki talinn kröfuhafi samkvæmt aðalkröfu, að Síminn hf. teljist kröfuhafi samkvæmt tilvísuðum kröfulýsingum. Þá er þess krafist að varnaraðila, Glitni hf., verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað að skaðlausu vegna þessa þáttar málsins.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú afstaða hans að Síminn hf. sé réttmætur kröfuhafi að kröfum samkvæmt framangreindum kröfulýsingum. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins.
II.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankann með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í kjölfarið var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar hinn 24. nóvember sama ár. Með gildistöku laga nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og skildi upphaf hennar miðast við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Hinn 12. maí sama ár skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir varnaraðila, sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur honum. Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaðinu 26. maí 2009, og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Lýsti sóknaraðili Skipti hf. sex kröfum, samtals að fjárhæð 34.241.703.713 krónur, við slitameðferð varnaraðila. Var kröfunum lýst á grundvelli sex gjaldmiðlasamninga, sem gerðir voru við varnaraðila í nafni Símans hf. í ágúst og september 2008. Kemur fram í kröfulýsingunum að af hálfu Skipta hf. sé litið svo á að samkomulag hafi verið um það við varnaraðila að samningarnir hafi verið gerðir við Skipti hf., enda þótt þeir hafi verið stílaðir á Símann hf. Að öðrum kosti sé litið svo á að þeir hafi verið gerðir í umboði og f.h. Skipta hf., enda hafi Síminn hf. á þeim tíma sem samningarnir voru undirritaðir þegar framselt til Skipta hf. rétt sinn samkvæmt þeim. Loks er í kröfulýsingunum tekið fram að til vara sé litið svo á að kröfulýsingarnar hafi verið gerðar í nafni Símans hf.
Varnaraðili féllst ekki á kröfurnar eins og þeim var lýst heldur samþykkti þær með breytingum, meðal annars um að hann teldi réttmætan kröfuhafa vera Símann hf. en ekki Skipti hf. Af hálfu sóknaraðila var þessari afstöðu slitastjórnarinnar mótmælt, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður á kröfuhafafundum sem haldnir voru í því skyni. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. laganna.
Í þinghaldi í máli þessu 25. maí 2011 lýstu lögmenn aðila því yfir að með aðilum hefði tekist samkomulag um að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði útkljáður ágreiningur um hvort Skipti hf. geti talist eigandi umræddra krafna gagnvart varnaraðila. Samþykkti dómurinn að sakarefninu yrði skipt með greindum hætti. Málinu hefur síðan verið frestað í nokkur skipti vegna frekari gagnaöflunar og sáttaumleitana aðila.
Við aðalmeðferð málsins gáfu Örn Guðmundsson, fyrrverandi starfsmaður fjárreiðusviðs Skipta hf. og Sigurhjörtur Sigfússon, starfsmaður innri endurskoðunar Skipta hf. og símaskýrsla var tekin af vitninu Rúnari Jónssyni, fyrrverandi starfsmanni Glitnis hf.
III.
Í sameiginlegri greinargerð sóknaraðilanna kemur fram að Síminn hf. hafi á árinu 2005 skrifað undir sambankalánasamning (Facilities Agreement) við nokkra lánveitendur, þar á meðal varnaraðila. Hafi fjárhæð lánsins upphaflega numið 34 milljörðum króna og verið í erlendri mynt. Á árinu 2006 hafi Síminn hf. byrjað að gera samninga um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti, hér eftir kallaðir gjaldmiðlasamningar, við varnaraðila vegna sambankalánsins, meðal annars samkvæmt tilmælum frá lánanefndum lánveitenda. Hafi verið um að ræða gjaldmiðlasamninga nr. SW0000067205 og SW0000067204, dags. 25. ágúst 2008, nr. SW0000067511 og SW0000067510, dags. 28. ágúst 2008 og nr. SW0000069248 og SW0000069247, dags. 16. september 2008.
Tiltaka sóknaraðilar að á stjórnarfundi Símans hf. hinn 19. desember 2006 hafi verið ákveðið að skipta félaginu upp í tiltekin félög þar sem Skipti hf. yrði móðurfélag og Síminn hf. dótturfélag. Í skiptingaráætluninni hafi verið gert ráð fyrir að ákveðnar skuldir félaganna, þar á meðal sambankalánið, sem verið hafi aðal erlenda skuldbinding Símans hf., yrðu fluttar til Skipta hf., með samþykki lánveitenda. Hafi skiptingin tekið gildi reikningslega hinn 31. október 2006. Endanleg skipting félaganna hafi svo verið samþykkt á hluthafafundi hinn 15. mars 2007 og í kjölfar þess, eða í apríl sama ár, hafi öll langtímalán Símans hf., þar með talið sambankalánið, verið færð yfir í bækur Skipta hf. Samhliða því hafi allir gjaldmiðlasamningar Símans hf., en þeir hafi verið undanfarar þeirra samninga sem um er deilt í máli þessu, verið færðir yfir í bókhald Skipta hf. og hafi þeir verið færðir þar síðan. Í samræmi við framangreint hafi Skipti hf. formlega yfirtekið sambankalánið í júní 2008. Hafi það verið gert með samþykki allra lánveitendanna, sem auk varnaraðila hafi m.a. verið Kaupþing banki hf., Nordic Investment Bank og Creditor BV. Varnaraðili hafi hinn 17. júlí 2008 framselt hlutdeild sína og réttindi samkvæmt lánssamningnum til Haf Funding 2008-1 Limited og hafi sóknaraðila verið tilkynnt um framsalið sama dag. Samhliða yfirtöku Skipta hf. á sambankaláninu hafi verið ráðgert, og til þess ætlast af hálfu lánveitenda, að gjaldmiðlavarnir samstæðunnar, Skipta hf. og dótturfélaga, þar með talið Símans hf., sem falist hafi í framangreindum gjaldmiðlasamningum, yrðu einnig færðar yfir á nafn Skipta hf. Í samræmi við þetta hafi báðir sóknaraðilarnir óskað eftir því við varnaraðila í júlí 2008 að útbúnir yrðu skilmálar vegna gjaldmiðlaviðskipta til undirritunar fyrir sóknaraðila, sbr. fyrirliggjandi tölvupóstsamskipti milli starfsmanns varnaraðila og Skipta hf. Í samræmi við þetta hafi verið undirritaðir nýir skilmálar hinn 19. ágúst 2008, mótteknir hjá varnaraðila daginn eftir. Hafi umboð til handa starfsmönnum sóknaraðila Skipta hf. verið formlega staðfest á fundi stjórnar hinn 2. september sama ár og tilkynnt varnaraðila.
Hinn 21. ágúst 2008 hafi hins vegar verið gerðir tveir samningar við varnaraðila um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti í nafni Símans hf., í stað Skipta hf. Samningarnir hafi falið í sér viðskipti með íslenskar krónur á móti erlendum gjaldmiðlum. Tveir samningar til viðbótar hafi svo verið gerðir 28. ágúst 2008 og aðrir tveir hinn 16. september sama ár, allir í nafni Símans hf. í stað Skipta hf. Í gjaldmiðlasamningunum hafi verið tekið fram að um þá giltu markaðsskilmálar varnaraðila og Almennir skilmálar um framvirk gjaldmiðlaviðskipti, útgefnir af Sambandi Íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998 („skilmálar SFF“). Með bréfi, dags. 11. október 2008, óskaði Síminn hf. eftir því við varnaraðila að öllum gjaldmiðlasamningum er félagið væri með hjá varnaraðila yrði lokað á viðmiðunargengi því er Seðlabanki Evrópu hefði gefið út. Varnaraðili hafi hins vegar ekki brugðist við þessari beiðni og þeir því runnið sitt skeið á enda í samræmi við tilgreindan lokadag þeirra. Tveir fyrstnefndu samningarnir hafi verið með lokagjalddaga hinn 24. október 2008, næstu tveir með lokagjalddaga 1. desember 2008 og þeir tveir síðasttöldu með lokagjalddaga 18. nóvember 2008. Samkvæmt skráningu Seðlabanka Evrópu (ECB) á gjalddaga samninganna hafi þeir verið með jákvæða stöðu fyrir sóknaraðila, sem nemi 34.241.703.713 krónum. Sé það samanlagður höfuðstóll krafna sóknaraðila, að viðbættum dráttarvöxtum til 22. apríl 2009, sem lýst hafi verið við slitameðferð varnaraðila.
Á því sé byggt að umræddir samningar hafi sjáanlega fyrir vangá verið gerðir í nafni Símans hf. í stað Skipta hf. Slíkt verði ljóslega ráðið af samskiptum Skipta hf. og varnaraðila í undanfara samninganna. Þannig liggi fyrir að samhliða undirritun sambankalánssamningsins í júní 2008 hafi verið ráðgert, og til þess ætlast af hálfu lánveitenda, að gjaldmiðlavarnir samstæðunnar, þ.e. Skipta hf. og dótturfélaga, þ.m.t. Símans, yrðu færðar yfir á nafn Skipta hf., sbr. m.a. staðfestingu starfsmanns varnaraðila, dags. 5. nóvember 2008. Þar komi fram að samþykki lánanefndar bankans fyrir skuldskeytingu hafi verið háð því að sambankalánið og afleiðusamningarnir væru hjá sama félagi, þ.e. Skiptum hf., sem hafi þá enda verið orðinn skuldari samkvæmt sambankalánssamningnum. Í samræmi við þetta hafi Skipti hf. óskað eftir því við varnaraðila í júlí 2008 að útbúnir yrðu skilmálar vegna gjaldmiðlaviðskipta til undirritunar fyrir Skipti hf. Sé þetta staðfest í tölvupóstsamskiptum milli starfsmanns varnaraðila og Skipta hf. frá 11. júlí 2008, sbr. og að framan. Í samræmi við þetta hafi verið gerðir nýir skilmálar, sbr. tölvupóst varnaraðila dags. 11. ágúst 2008, sem hafi verið undirritaðir 19. ágúst 2008 og mótteknir af varnaraðila daginn eftir, hinn 20. ágúst 2008. Hafi umboð til handa starfsmönnum Skipta hf. formlega verið staðfest á fundi stjórnar félagsins hinn 2. september 2008 og tilkynnt varnaraðila. Sé þannig augljóst, hvað sem öðru líði, að samningana hafi átt að gera í nafni Skipta hf. en ekki Símans hf.
Líta verði svo á að Skipti en ekki Síminn hafi í reynd verið mótaðili varnaraðila samkvæmt umræddum samningum. Annars vegar með vísan til áðurgreindrar tilurðar samninganna og hins vegar þeirrar staðreyndar að til þess að gjaldmiðlasamningarnir þjónuðu tilgangi sínum, þ.e. að verja Skipti hf. gagnvart gengisþróun, hafi Skipti hf. sjáanlega orðið að vera mótaðili samninganna. Skipti teljist þannig rétthafi samkvæmt samningunum.
Á það sé bent að umræddir samningar hafi falið í sér framlengingu á áður gerðum gjaldmiðlasamningum við varnaraðila. Sé nánar tiltekið á því byggt að allir þessir samningar hafi verið framlenging á þegar gerðum samningum í tengslum við skuldbindingar Skipta hf., áður Símans hf., gagnvart varnaraðila vegna sambankalánsins. Sé hvað þetta varði vísað til framlagðs dómskjals þar sem fram komi hvernig einstakir gjaldmiðlasamningar séu framlengingar á áður gerðum samningum. Þá sé ljóst að á sama tímamarki umræddra samninga hafi Síminn hf. þegar framselt til Skipta hf. rétt sinn samkvæmt hinum eldri samningum. Framsal kröfuréttinda sé ekki háð samþykki skuldara, hér varnaraðila. Þess utan verði að telja að varnaraðila, sem lánveitanda Skipta hf., hafi verið fullkunnugt um þetta framsal. Í ljósi þess að umræddir samningar hafi verið framlenging á eldri samningum, þar sem Skipti hf. hafi verið kröfuhafi á grundvelli framsals á milli þess félags og Símans hf., verði að líta svo á að sá kröfuréttur hafi jafnframt haldist við gerð hinna nýju samninga. Teljist Skipti hf. þannig rétthafi af þessum ástæðum.
Á því sé byggt að verði samningur annars efnis en vilji beggja samningsaðila hafi staðið til, hér að Síminn hf. hafi ranglega verið tilgreindur sem aðili að samningum sem bersýnilega hafi átt að vera í nafni móðurfélags hans, Skipta hf., verði að túlka og/eða breyta samningi til samræmis við það sem samningurinn hafi átt að kveða á um, sbr. og til hliðsjónar meginreglur samningaréttar um rangar forsendur, sbr. einnig ákvæði 32. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og sjónarmið um brostnar forsendur. Sama regla leiði af því hafi gagnaðili, hér varnaraðili, vitað eða mátt vita að samningur væri annars efnis en til hafi verið ætlast, en svo hljóti ljóslega að vera ástatt hér.
Verði ekki fallist á framangreint sé ljóst, sbr. framangreinda umfjöllun, að þótt Síminn hf. yrði formlega talinn aðili að samningunum hafi þeim allt að einu verið ætlað að skapa Skiptum hf. rétt. Um þriðja manns löggerninga sé því að ræða, sem hafi skapað Skiptum hf. sjálfstæðan kröfurétt á hendur varnaraðila.
Verði ekki fallist á framangreint verði að líta svo á að samningarnir hafi verið gerðir í umboði Skipta hf., en Síminn hf., sem dótturfélag Skipta hf., og þeir starfsmenn sem undirritað hafi samningana, hafi haft ígildi nokkurs konar stöðuumboðs og/eða heimildarumboð í umræddum viðskiptum. Skipti hér máli að þeir starfsmenn sem undirritað hafi samningana hafi orðið starfsmenn Skipta hf. í kjölfar skiptingar Símans hf. og þegið m.a. laun frá Skiptum hf. frá nóvember 2007.
IV.
Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að samkomulag hafi verið um að umræddir gjaldmiðlasamningar teldust gerðir milli Skipta hf. og varnaraðila. Fyrir liggi að Skipti hf. hafi ætlað sér að færa gjaldmiðlasamningana yfir á nafn þess félags og hafi verið unnið í því allt þar til skilanefnd hafi tekið yfir starfsemi varnaraðila. Hafi undirrituðum gögnum með umboði verið skilað til varnaraðila hinn 2. september 2008 en þegar gögnin hafi verið yfirfarin hjá varnaraðila hafi komið í ljós að þau uppfylltu ekki skilyrði varnaraðila fyrir skuldaraskiptum á gjaldmiðlasamningum. Hafi starfsmaður varnaraðila, Katrín Oddsdóttur, upplýst um framangreint í símtali við starfsmann Skipta hf. og tölvupósti hinn 26. september 2008. Hafi starfsmaður Skipta hf. ætlað að útvega umrætt umboð.
Ekki verði séð að neinu skipti sú málsástæða sóknaraðila að Síminn hf. hafi í raun verið búinn að framselja gjaldmiðlasamningana til Skipta hf. þar sem búið hafi verið að færa gjaldmiðlasamningana í bókhaldi Skipta hf. frá árinu 2006. Umræddir gjaldmiðlasamningar séu afleiður milli tveggja aðila þar sem skyldur þeirra jafnist hver á móti annarri áður en uppgjör fari fram. Í slíkum samningi geti hvor aðili um sig orðið kröfuhafi og skuldari eftir stöðu viðkomandi gjaldmiðla á uppgjörsdegi, sem hafi þau áhrif að aðilum beri að fá samþykki gagnaðila samningsins áður en framsal slíkra réttinda fari fram. Meginregla kröfuréttar við aðilaskipti sé að skuldaraskipti geti ekki farið fram nema með samþykki kröfuhafa. Í afleiðusamningum varði það mótaðila miklu hver sé gagnaðili hans. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skuldaraskipti þau sem hann haldi fram að hafi átt sér stað hafi farið fram með samþykki varnaraðila né að formskilyrðum slíkra skipta hafi verið fullnægt.
Verði talið að í framangreindu umboði hafi falist heimild fyrir þar til greinda starfsmenn Skipta hf. til að gera gjaldmiðlasamninga fyrir hönd þess félags, og að varnaraðili verði talinn hafa veitt einhvers konar samþykki fyrir þeim skuldaraskiptum, hafi starfsmennirnir ekki getað gert slíka samninga nema frá og með 2. september 2008. Verði því einungis hægt að fallast á að Skipti hf. geti verið aðili að tveimur gjaldmiðlasamningum, SW0000069248 og SW0000069247, sem gerðir hafi verið 16. september 2008. Umboðið geti aldrei gilt afturvirkt.
Mótmælt sé þeirri staðhæfingu sóknaraðilanna að umræddir gjaldmiðlasamningar hafi fyrir vangá verið gerðir í nafni Símans hf. í stað Skipta hf. Eins og fyrr segi hafi starfsmaður varnaraðila upplýst starfsmann Skipta hf. um það sem upp á vantaði til að gjaldmiðlasamningarnir yrðu færðir á nafn þess félags í stað Símans hf. Skiptum hf. hafi því verið fullkunnugt um að umboðið væri ekki nægjanlegt og að aðilaskipti hefðu af þeim sökum ekki gengið í gegn, þannig að varnaraðili liti enn á Símann hf. sem mótaðila í viðkomandi gjaldmiðlasamningum. Hafi starfsmönnum varnaraðila því verið óheimilt að samþykkja skuldaraskiptin. Vangáin geti því einungis snúið að stafsmönnum Skipta hf. og hirðuleysi þeirra um að ganga frá skuldaraskiptunum með fullnægjandi hætti.
Allir umræddir gjaldmiðlasamningar beri skýrlega með sér að vera gerðir milli Símans hf. og varnaraðila. Starfsmenn Símans hf. hafi skrifað undir þessa samninga og mátt vera ljóst að þeir væru milli þessara tveggja félaga. Þá styðji símtal milli starfsmanns varnaraðila og starfsmanns Skipta hf. hinn 25. ágúst 2008 að starfsmanni Skipta hf. hafi verið þetta ljóst. Hann hafi vitað að samningarnir yrðu að vera á nafni Símans hf. þar til nægjanleg gögn hefðu borist varnaraðila um skuldaraskipti gjaldmiðlasamninganna.
Enga stoð sé að finna í skilmálum samninganna sjálfra fyrir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að umræddir gjaldmiðlasamningar hafi verið framlengingar á eldri samningum. Myndi það og ganga þvert gegn eðli slíkra afleiðusamninga því meginefni þeirra sé að flytja áhættu milli aðila við gerð samnings til tiltekins lokadags. Um sjálfstæða samninga sé að ræða og megi af þeim ráða að þeir séu gerðir upp miðað við efni þeirra og hafi afmarkaðan upphafs- og lokadag. Þá hafi sóknaraðilar ekki sýnt fram á hvaða eldri samningar hafi verið framlengdir með umræddum samningum.
Mótmælt sé þeirri staðhæfingu Skipta hf. að túlka beri samningana í samræmi við ákvæði 32. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samninga, umboð og ógilda löggerninga, hafi þeir orðið annars efnis en vilji beggja samningsaðila hafi staðið til, þ.e. að Síminn hf. hafi orðið mótaðili varnaraðila í stað Skipta hf. Skipti hf. sé stórfyrirtæki og fagfjárfestir, sem hafi yfir að ráða fjölda starfsmanna og eigi að hafa þekkingu á því hvernig umrædd viðskipti fari fram. Þannig liggi meðal annars fyrir að ekki hafi verið gengið frá undirritun sóknaraðila á markaðsskilmála varnaraðila þegar samningarnir hafi verið gerðir og sé því ekki hægt að segja að þeir hafi orðið annars efnis en til hafi staðið.
Varnaraðili mótmæli þeirri fullyrðingu Skipta hf. að milli aðila hafi verið gerður þriðjamannslöggerningur, til hagsbóta fyrir Skipti hf. Þriðjamannslöggerningur sé löggerningur sem vísi til hagsmuna þriðja manns, sem ekki sé aðili að löggerningnum, og veiti honum beinan og sjálfstæðan rétt til að krefjast þeirra réttinda. Efni löggerningsins verði að fela í sér réttindi til handa þriðja manni, sem hann geti sjálfur krafist efnda á, m.a. með því að eiga aðild að dómsmáli þar sem hann geti gert kröfu um efndir á þeim réttindum sem löggerningurinn beri með sér. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem renni stoðum undir þessa fullyrðingu. Einnig skuli það áréttað að umræddir samningar séu þess eðlis að þeir geti bæði falið í sér skuldbindingu jafnt sem kröfu, þ.e. eftir því hvort samningar komi út í hagnaði eða tapi fyrir hvorn aðila. Þannig sé ljóst að Síminn hf. geti ekki skuldbundið Skipti hf. með þeim hætti sem sóknaraðilar krefjist, enda sé um tvö félög að ræða sem geti ekki skuldbundið hvort annað. Verði því að hafna þessari málsástæðu sóknaraðila sem órökstuddri.
V.
Niðurstaða
Óumdeilt er að umræddir sex gjaldmiðlasamningar voru gerðir á milli Símans hf. og varnaraðila um „gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti“. Krefst sóknaraðilinn Skipti hf. þess, þrátt fyrir framangreint, að viðurkennt verði að hann teljist kröfuhafi þessara samninga við slitameðferð varnaraðila. Fram kemur í öllum samningunum að auk þeirra ákvæða sem þar komi fram gildi um þá Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti í Glitni banka hf. og Almennir skilmálar um framvirk gjaldmiðlaskipti útgefnir af Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998. Í gr. 12.1 í síðargreindu skilmálunum kemur fram að samningsaðili geti ekki framselt réttindi sín eða skyldur samkvæmt skiptasamningi nema með skriflegu samþykki hins samningsaðilans. Bankinn geti þó framselt réttindi sín og skyldur til annarra félaga innan sömu samstæðu. Þegar af þessari ástæðu gat sóknaraðili Síminn hf. ekki svo gilt væri framselt réttindi sín og skyldur samkvæmt samningunum til sóknaraðila Skipta hf. nema frá því væri gengið skriflega milli aðila. Til þess kom þó aldrei, og framsalið náði því aldrei fram að ganga, þar sem varnaraðili taldi nauðsyn á formlegum frágangi slíks framsals og að fyrirliggjandi umboð stjórnar Skipta hf. til tiltekinna starfsmanna þess félags veitti þeim ekki heimild til undirritunar þess. Verður ekki fallist á með sóknaraðilum að neinu breyti í þessu sambandi hvort samningarnir hafi fyrir vangá verið gerðir í nafni Símans hf. í stað Skipta hf. eða að samningarnir hafi ekki þjónað tilgangi sínum, að verja Skipti hf. gegn óhagstæðri gengisþróun vegna sambankaláns sem félagið hafði yfirtekið frá Símanum hf., nema Skipti hf. teldist aðili að þeim. Ljóst er að hver samningur fyrir sig telst sjálfstæður samningur, með afmarkaðan upphafs- og lokadag. Hefur því enga þýðingu við úrlausn málsins hvort samningarnir hafi átt að koma í stað eldri gjaldmiðlaskiptasamninga, sem Skipti hf. kann áður að hafa yfirtekið, með samþykki varnaraðila. Ekki verður heldur fallist á þau sjónarmið sóknaraðilanna að umrædda samninga beri að túlka eða þeim verði að breyta í samræmi við kröfugerð sóknaraðila, með vísan til ákv. 32. og 36. gr. laga nr. 7/1936 og sjónarmiða um brostnar forsendur, enda liggur ekkert fyrir um að til hafi staðið við undirritun samninganna að þeir yrðu gerðir í nafni Skipta hf. í stað Símans hf. og að um mistök hafi verið að ræða sem varnaraðili vissi eða mátti vita af. Þá verður hvorki af samningum þessum eða öðrum málsgögnum ráðið að samningunum hafi verið ætlað að skapa Skiptum hf. sjálfstæðan kröfurétt á hendur varnaraðila né verður fallist á að umkrafinn réttur Skipta hf. verði með einhverjum hætti leiddur af þeirri staðreynd að þeir sem undirritað hafi samningana fyrir hönd Símans hf. hafi á þeim tíma verið á launaskrá hjá Skiptum hf. og því í raun komið fram í umboði þess félags.
Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að hafna beri kröfum sóknaraðila Skipta hf. í þessum þætti málsins og staðfest að Síminn hf. sé réttur kröfuhafi samkvæmt tilgreindum kröfulýsingum. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 650.000 krónur. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til greiðslu varnaraðila á þingfestingargjaldi að fjárhæð 250.000 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfum sóknaraðila Skipta hf. í þessum þætti málsins og staðfest að Síminn hf. sé réttur kröfuhafi samkvæmt kröfulýsingum með tilvísunarnúmer CL20091127-5895, CL20091127-5908, CL20091127-5924, CL20091127-5928, CL20091127-5934 og CL20091127-5939 á kröfuskrá við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila óskipt 650.000 krónur í málskostnað.