Hæstiréttur íslands

Mál nr. 400/2016

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Gunnari Erni Arnarsyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl., Valgerður Valdimarsdóttir hdl.),
(Jóhannes Ásgeirsson lögmaður brotþola )

Lykilorð

  • Manndráp
  • Ákæra
  • Áfrýjun
  • Einkaréttarkrafa

Reifun

G var sakfelldur fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hert um háls A með báðum höndum og reim úr peysu sinni með þeim afleiðingum að hann lést af völdum kyrkingar. G sem talin var hafa verið í óminnisástandi vegna neyslu áfengis og lyfja þegar hann framdi verknaðinn átti sér engar málsbætur og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 16 ár. Þá var honum gert að greiða systkini A bætur vegna útfararkostnaðar og B, fyrrum sambúðarkona A, miskabætur. Í tilkynningu G til ríkissaksóknara um áfrýjun héraðsdóms var þess ekki getið að leitað væri endurskoðunar á einkaréttarkröfum samkvæmt XXVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 196. gr. laganna. Af þessum sökum komu kröfur G um endurskoðun á dæmdum einkaréttarkröfum í héraði ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að B krafðist breytinga til hækkunar á niðurstöðu dómsins um kröfur sínar. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um miskabótakröfu B og að hún ætti ekki rétt á bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess aðallega að ,,ákæru ríkissaksóknara“ verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, að þessu frágengnu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að öðrum kosti að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu að fjárhæð þeirra verði lækkuð.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér, annars vegar 7.802.500 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 2. október 2015 til 21. apríl 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, og hins vegar 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst hún þess að héraðsdómur verði staðfestur um málskostnað sér til handa og að ákærða verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

I

Kröfu sína um að ,,ákæru ríkissaksóknara“ verði vísað frá héraðsdómi reisir ákærði á því að þess sé ekki getið í ákærunni að A hafi látist eftir að ákvörðun var tekin um það af heilbrigðisstarfsmönnum og ættingjum hans að ,,hætta viðeigandi meðferð“ eins og tekið er til orða í greinargerð ákærða hér fyrir dómi. Ákærði hafði uppi sömu kröfu fyrir héraðsdómi. Að því marki sem þessi krafa hans lýtur að því að ákæran fullnægi ekki kröfum sem til hennar eru gerðar í 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður henni hafnað með vísan til sömu forsendna og gert var í hinum áfrýjaða dómi.

Kröfuna um að héraðsdómur verði ómerktur reisir ákærði á því að mat héraðsdóms á munnlegum framburði ákærða og vitna sem komu fyrir dóminn sé rangt ,,svo miklu varði um niðurstöðu málsins.“ Ákærði hefur í þessu efni einkum bent á mat dómsins á framburði sínum og vitnisins C. Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að framburður ákærða hafi frá upphafi verið ruglingslegur og á reiki um aðdraganda þess að A fannst meðvitundarlaus og með reim um hálsinn á heimili ákærða 2. október 2015. Hann hafi einnig orðið margsaga í fjölmörgum og veigamiklum atriðum um atburði þá sem urðu á heimilinu þennan dag, auk þess sem framburður ákærða beri þess skýr merki að hann hafi leitast við að laga framburðinn að nýjum upplýsingum eftir því sem þær komu fram. Þá segir í dóminum að ákærði hafi breytt þeirri frásögn, sem fram kom í skýrslum hans hjá lögreglu, að hann hafi tekið með báðum höndum um hálsinn á A og haldið þannig í nokkurn tíma og jafnframt sett reim úr peysu sinni um háls honum. Framburð þennan hafi ákærði dregið að verulegu leyti til baka þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi. Telur dómurinn þessa breytingu á framburði hans ótrúverðuga. Engin haldbær rök eru til að draga í efa mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar ákærða, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Héraðsdómur mat sönnunargildi framburðar vitnisins C á þann veg að hann hefði verið trúverðugur og stöðugur um það hvernig aðstaðan var þegar hann kom fyrst að A meðvitundarlausum með reim um hálsinn sem bundinn hafði verið hnútur á og um háttsemi ákærða í kjölfarið, meðal annars um að hann hafi brugðið reiminni á ný um háls A. Telur héraðsdómur að framburður þessa vitnis fái stoð í hljóðupptökum af símtali þess við Neyðarlínuna þegar vitnið tilkynnti um atvik og óskaði aðstoðar. Ekkert er heldur fram komið sem leitt getur til þess að þetta mat héraðsdóms verði dregið í efa. Verður kröfu ákærða um ómerkingu því hafnað.

II

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar hans. Þá verður ákvæði dómsins um upptöku  staðfest.

Að gengum héraðsdómi 29. apríl 2016 tilkynnti ákærði ríkissaksóknara um áfrýjun dómsins. Í tilkynningunni sagði meðal annars að ákærði gerði tilgreindar kröfur sem taldar voru upp í sex töluliðum. Jafnframt var tekið fram að dóminum væri áfrýjað með vísan til a. til e. liða 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008. Í tilkynningunni var þess á hinn bóginn ekki getið að leitað væri endurskoðunar á einkaréttarkröfum samkvæmt XXVI. kafla laganna sem dæmdar hefðu verið að efni til í héraði, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laganna var það nauðsynlegt skilyrði þess að um þær yrði fjallað hér fyrir dómi að í tilkynningunni væri tekið nákvæmlega fram í hvaða skyni áfrýjað væri og hverjar dómkröfur ákærða væru varðandi kröfur samkvæmt XXVI. kafla laganna. Af þessum sökum koma kröfur ákærða um endurskoðun á dæmdum einkaréttarkröfum í héraði ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem réttinum er skylt að taka afstöðu til þeirra án kröfu, sbr. og dóm réttarins 24. janúar 2008 í máli nr. 453/2007.

B, sem kvaðst hafa verið sambúðarkona A, hefur fyrir Hæstarétti haft uppi sömu kröfu um skaðabætur og hún gerði í héraði. Þótt hún hafi ekki áfrýjað héraðsdómi af sinni hálfu er henni samkvæmt 3. mgr. 196. gr. og 4. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008 heimilt að krefjast breytinga á niðurstöðu dómsins um kröfu sína, enda kom krafan fram í greinargerð hennar fyrir Hæstarétti. Kemur krafan því aðeins til endurskoðunar hér fyrir dómi að því leyti sem það kann að horfa til hækkunar hennar. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sýknu ákærða af kröfunni um bætur fyrir missi framfæranda. Með því að krafa um miskabætur úr hendi ákærða, sem reist var á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þeirri grein var breytt með 13. gr. laga nr. 37/1999, kemur aðeins til álita að því er lýtur að hækkun hennar, verður niðurstaða héraðsdóms um kröfuna staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og málskostnað einkaréttarkröfuhafa, allt eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gunnar Örn Arnarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 927.247 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur. Þá greiði ákærði B 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 29. apríl 2016.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 22. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni 17. desember 2015 á hendur „Gunnari Erni Arnarsyni, kennitala [...], [...], Akranesi, fyrir manndráp, með því að hafa föstudaginn 2. október 2015, að [...], Akranesi, svipt A, kennitala [...], lífi, með kyrkingu, með því að herða að hálsi hans með höndunum og með því að bregða beltisól og fatareim um háls­­inn á honum og herða að, þar með talið með því að binda hnút á reimina svo hún losnaði ekki frá háls­inum, og stuttu síðar, með því að bregða reiminni að nýju um hálsinn á A og herða að, eftir að endur­­lífgunar­tilraunir voru hafnar, allt með þeim afleiðingum að blæðing varð inn á vöðva framan við barkakýli, tungu­bein brotnaði vinstra megin, þrenging varð á öndunar­­vegi og súrefnis­flæði til heila stöðvaðist og hann missti með­vitund, mið­tauga­kerfi hætti að starfa og hann varð fyrir alvar­legum heilaskaða sem leiddi til heila­dauða og hann komst ekki aftur til með­vitundar og lést fimm dögum síðar. 

Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er jafnframt krafist að framangreind beltisól (munur nr. 417488) og fatareim (munur nr. 417490), sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009.

 

Einkaréttarkröfur:

Unnsteinn Örn Elvarsson, héraðsdómslögmaður, gerir, fyrir hönd D, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði D miskabætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993, en til vara samkvæmt grunnreglu 8. kapítula Mann­helgis­bálks Jóns­bókar frá 1281, reynist ákærði ósakhæfur, að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 2. október 2015, til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum sam­­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, um með­ferð sakamála, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum máls­kostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Unnsteinn Örn Elvarsson, héraðsdómslögmaður, gerir, fyrir hönd E, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði E miskabætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993, en til vara samkvæmt grunnreglu 8. kapítula Mann­helgis­bálks Jóns­bókar frá 1281, reynist ákærði ósakhæfur, að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 2. október 2015, til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum sam­­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, um með­ferð sakamála, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum máls­kostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Unnsteinn Örn Elvarsson, héraðsdómslögmaður, gerir, fyrir hönd F, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði F miskabætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993, en til vara samkvæmt grunnreglu 8. kapítula Mann­helgis­bálks Jóns­bókar frá 1281, reynist ákærði ósakhæfur, að fjárhæð kr. 3.000.000, auk vaxta sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 2. október 2015, til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum sam­­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, um með­ferð sakamála, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum máls­kostnaðar­reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Unnsteinn Örn Elvarsson, héraðsdómslögmaður, gerir, fyrir hönd F, kt. [...], kröfu um að ákærði greiði F bætur vegna útfarar bróður hans, A, samkvæmt 12. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993, en til vara sam­­kvæmt grunnreglu 8. kapítula Mann­helgisbálks Jóns­bókar frá 1281, reynist ákærði ósak­­­hæfur, að fjárhæð kr. 747.880, auk vaxta sam­kvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 2. október 2015, til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bóta­kröfu þessarar en með dráttarvöxtum sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða máls­kostnað samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, um með­ferð sakamála, að mati dóms­ins eða samkvæmt síðar framlögðum máls­kostnaðar­reikningi, að viðbættum virðis­auka­skatti á málflutningsþóknun.“

Við upphaf aðalmeðferðar lagði sækjandi fram framhaldsákæru í málinu. Segir þar að auka verði við ákæru ríkissaksóknara frá 17. desember 2015 „með þeim hætti að einka­réttar­krafa B, kennitala [...], er tekin upp í ákæru, sem hér greinir: „Þorgils Þorgilsson, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd B, kenni­tala [...], [...], [...], gerir eftirfarandi kröfur:

  1. Að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 7.802.500 auk 4,5% vaxta frá 2. október 2015 samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
  2. Að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 2.000.000 ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. október 2015, þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.
  3. Að ákærði verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.““

Ákærði krefst þess aðallega að ákæru verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Komi hins vegar til sakfellingar ákærða krefst hann þess að honum verði ekki gerð sérstök refsing, en að öðrum kosti verði honum ákveðin vægasta refsing sem lög leyfi. Ákærði krefst þess og að öllum bótakröfunum verði vísað frá dómi, en að öðrum kosti verði hann sýknaður af þeim öllum. Til þrautavara er þess krafist að kröfurnar verði lækkaðar verulega. Loks krefst ákærði hæfilegra málsvarnarlauna og kostnaðar vegna aksturs verjanda.

II.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að skilaboð hafi borist frá Neyðarlínu, kl. 17.21, föstudaginn 2. október 2015, um að maður væri meðvitundarlaus á [...] á Akranesi. Fóru því tveir lögreglumenn strax á staðinn. Þegar þeir voru á leiðinni kom tilkynning um það frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra að um væri að ræða hengingu á 2. hæð fyrrgreinds húss. Er þangað kom fóru lögreglumennirnir rakleiðis inn í íbúðina og hittu þar fyrir ákærða, sem vísaði þeim inn í stofu. Þar sáu þeir A, þar sem hann lá uppi í sófa, þannig að efri hluti líkamans var uppi í sófanum en fæturnir lágu niður á gólf, og var C þar að beita hann hjartahnoði. Annar lögreglumannanna tók þá við hjartahnoðinu, en A var þá ekki með púls og andaði ekki. A var blóðugur í andliti, við nef og munn, og byrjaður að blána. Skömmu síðar komu sjúkraflutningamenn á staðinn ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi. Var hjartastuðtæki þá tengt við A og honum gefið súrefni með LTS-túpu sem sett var í öndunarveg í gegnum munn. Hjartastuðtækið var látið greina lífsmörk hjá A en heimilaði ekki hjartastuð. A var fluttur í sjúkrabifreið, fyrst á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi en síðan áfram á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.

Fram kemur í skýrslunni að á meðan verið hlúð var að A hafi ákærði talað um að A hefði tekið inn mikið magn af morfíni. C hafi hins vegar talað um að A hefði hengt sig. Þá hafi annar lögreglumannanna tekið eftir því að ákærði hefði látið sig hverfa af vettvangi á meðan verið var að hlúa að A. Hafi hann því farið um húsið til að leita að ákærða en hvergi fundið hann. Er rætt var nánar við C á vettvangi kvað hann ákærða og A hafa rifist fyrr um daginn. Sjálfur hafi hann verið inni í herbergi sínu, sem sé fyrst til hægri þegar komið sé inn úr anddyri. Um 30 mínútum áður en hann kom að A í sófanum hafi hann farið á klósettið og þá heyrt í þeim ákærða og A. C hafi svo heyrt að ákærði fór út og byrjaði að moka. Hafi hann þá farið að athuga með A og komið að honum liggjandi á grúfu í sófanum. Hafi A verið með reim utan um hálsinn og orðinn blár í framan. Hann hafi sýnilega verið búinn að missa þvag og við hlið hans hafi legið belti með blóði á. Reimin hafi verið bundin um hálsinn á A en ekki fest við neitt annað. Fram kemur að C hafi og sagt að reimin og beltið ættu að vera einhvers staðar í kringum sófann en þrátt fyrir leit hafi lögreglumenn hvergi fundið þessa hluti.

Fyrir liggur endurrit af símtali C við Neyðarlínuna, sem hófst kl. 17.18.22 og lauk kl. 17.23.49, föstudaginn 2. október 2015, þar sem C óskar eftir að lögregla og sjúkrabíll verði send að [...] vegna manns sem hættur sé að anda. Í símtalinu heyrist ítrekað í ákærða í bakgrunni, auk þess sem C og ákærði heyrast þar ræða saman. Þannig heyrist ákærði segja í upphafi símtalsins, þegar starfsmaður Neyðarlínu óskar eftir upplýsingum um sjúklinginn: „Hann dó.“ Litlu síðar segir C: „Það er reim. Það er reim utan um hálsinn á honum alveg herpt. Hann er alveg blár.“ Starfsmaðurinn svarar: „Ókei, losið þá reimina utan af hálsinum á honum.“ Í bakgrunni heyrist þá: „Farðu nú að sofa.“ C segir við starfsmanninn: „Erum að losa hana.“ Þá virðist sem ákærði segi: „Eigum við ekki að ýta á hann?“ C segir: „Hættu, hættu þessu drengur! Hættu þessu! Hættu þessu! Hvað ertu að gera?“ C segir við starfsmanninn: „Heyrðu, við verðum að fá lögregluna strax því ég ræð ekkert við þetta. ... Hann heldur bara áfram að kyrkja hann.“ Starfsmaðurinn segir: „Já láttu hann losa bandið af.“ C segir: „Hættu þessu Gunni!“ Ákærði svarar: „Ég er bara að anda upp í hann.“ C segir: „Anda upp í hann?“ Ákærði: “Reyna að anda í honum lífið.“ Starfmaðurinn segir þá: „Þú verður að losa bandið fyrst um hálsinn á honum.“ C segir eitthvað á þá leið: „Ég verð að hjálpa honum ... Ég er að reyna að stilla hann ...“ Starfsmaðurinn spyr: „Var einstaklingurinn að setja band utan um hálsinn og kyrkja hann eða ...“ C segir: „Hættu þessu! Hvað er með þig, ég er að reyna að hjálpa honum.“ Ákærði segir þá: „Öndum í hann, hann er dáinn. Leggstu á magann! Við erum að fara að jarða hann, við þurfum að mæta í jarðaför. Hann er dáinn. Hann dó úr of mikið af ... (heyrist ekki)“. Starfsmaðurinn spyr svo ítrekað hvort þeir séu búnir að leysa bandið og C játar því. Starfsmaðurinn segir C þá að snúa sjúklingnum á bakið. Þá heyrist í ákærða í pirrandi tón: „Hann er dauður.“ C segir svo: „Hættu þessu drengur! Hvað ertu að gera? Hættu! Ákærði segir þá: „Láttu mig vera! Þeir eru að koma, ég er farinn. Komdu núna! (Sírenur heyrast í bakgrunni.) Ákærði bætir svo við: „Þú mátt fara með þeim núna og mundu að það eru 10 ár.“ C heyrist loks kalla til ákærða í þann mund sem lögreglan er að koma á staðinn og símtal endar: „Hættu þessu! Hættu!“

Lögreglan hóf leit að ákærða og fannst hann kl. 18.01 áberandi ölvaður við kaffihúsið [...] við Akratorg. Var hann þá handtekinn og færður á lögreglustöð. Var hann þá meðal annars klæddur svörtum leðurjakka, grárri hettupeysu, dökkum buxum og svörtum skóm. Þá hafði hann meðferðis stóra flösku af  Jägermeister, sem var rúmlega hálf. Talaði ákærði ítrekað um að A hefði tekið inn morfíntöflur í eigu ákærða og dáið. Þegar hann var spurður nánar út í magnið sagði hann þær hafa verið 18 talsins.

Tveir lögreglumenn höfðu fyrr þennan sama dag haft afskipti af ákærða á Vesturgötu þar sem tilkynnt hafði verið um ölvaðan mann sem væri að áreita fólk. Segir í frumskýrslunni að lögreglumenn hafi þá rætt við ákærða og ekið honum síðan heim. Var ákærði þá klæddur í sömu föt og við handtökuna, utan þess sem hvít reim með járnhólkum á báðum endum hefði verið í peysu hans fyrra sinnið en ekki þegar hann var handtekinn í síðara skiptið á Suðurgötunni. Sjáist þetta greinilega á fyrirliggjandi myndupptökum, en bæði framangreind afskipti af ákærða hafi verið tekin upp með DEMS-búkmyndavélum lögreglumannanna.

Við nánari rannsókn lögreglu á vettvangi í kjölfarið fundust reim og belti í frystikistu í eldhúsi. Reimin var ljós og þykk reim með járnhólki á öðrum enda, en hólk vantaði á hinn enda reimarinnar. Beltið var svart með hvítum, misstórum hauskúpum. Engin beltissylgja var á því, en sylgja, sem talin var tilheyra beltinu, fannst á gólfi í borðstofu. Þá fundust leðurfestingar fyrir sylgjuna í sófanum sem A lá í þegar að var komið. Voru hlutir þessir haldlagðir.

Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu um rannsókn á gögnum er fundust á vettvangi kom í ljós að á þeim enda reimarinnar þar sem hulsan var til staðar var smávægilegur litamunur á reiminni, rétt ofan við þann stað þar sem hulsan var, sem benti til þess að hún hefði runnið aðeins niður í átt að enda reimarinnar. Sams konar litamunur var sjáanlegur á hinum endanum, þar sem hulsan var fallin af, þ.e. litamunur milli þess svæðis sem hafði verið innan í hulsunni og reimarinnar þar fyrir ofan. Þá var skemmd sjáanleg á reiminni á 5 cm svæði, nær þeim enda reimarinnar þar sem hulsa var til staðar, auk bletta á báðum hliðum reimarinnar á samtals 16 svæðum. Bæði á reiminni og beltinu fundust blettir sem gáfu jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem blóð. Þá reyndist sýni sem var tekið úr sófa einnig gefa jákvæða svörun með sömu prófum.

Samkvæmt sérfræðiskýrslu Nationellt Forensisk Centrum (NFC) í Svíþjóð, og greinargerð lögreglu þar um, reyndist meirihluti þess DNA-sýnis sem rannsakað var af belti og reim eins og DNA-snið A og DNA-sniðið í sýninu úr sófanum reyndist eins og DNA-snið A. Þá leiddi greining á sýnum úr fatnaði ákærða í ljós að DNA-snið sýna frá leðurjakka og buxum voru eins og DNA-snið A, en sýni af hettupeysu reyndist innihalda blöndu DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum. Reyndist meirihluti þess eins og DNA-snið A en minnihluta þess var ekki hægt að samkenna við einstakling. Við greiningu á sýnum sem varðveitt voru við réttarlæknisrannsókn á ákærða kom í ljós að stroksýni af hægri hendi, svo og naglaskafi, innihéldu blöndu DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum og var meirihluti þess eins og DNA-snið A en það snið sem var í minnihluta sýnanna reyndist eins og DNA-snið ákærða sjálfs. Loks kemur fram að greining á stroksýni sem varðveitt var af munni C leiddi í ljós að DNA-snið sýnisins voru eins og DNA-snið A en greining á öðrum sýnum af honum leiddi í ljós að DNA-snið þeirra voru eins og DNA-snið hans sjálfs.

Loks segir í skýrslunni að þegar verið var að klippa úlpu A utan af honum á neyðarmóttökunni hafi lítill járnhólkur, sambærilegur þeim sem verið hafi á ljósu reiminni sem fannst á vettvangi, dottið út úr kraganum á úlpunni. Hafi hólkur þessi verið haldlagður vegna rannsóknar málsins.

Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafærði, dags. 28. október 2015, og viðbótarmatsgerð, dags. 5. nóvember sama ár, mældist styrkur etanóls í blóði ákærða 2,54‰ en í þvagi 2,88‰. Var áætlað að etanólstyrkur í blóði hafi verið 2,8 til 2,9‰ um kl. 17.15, að því gefnu að drykkju hafi að mestu verið lokið upp úr kl. 16. Jafnframt greindust í sýnunum efnin tramadól og lamótrigín, auk pregabalins, sem ekki reyndist þó vera í mælanlegu magni. Styrkur tramadóls, sem sé verkjalyf af flokki ópíata, hafi verið eins og búast megi við eftir verkjastillandi skammta og styrkur lamótrigíns, sem sé flogaveikilyf, hafi verið eins og eftir töku þess í lækningalegum skömmtum. Bæði tramadól og lamótrigín hafi slævandi áhrif á miðtaugakerfið og geti verið samverkandi með alkóhóli. Styrkur etanóls í blóðsýni A, sem tekið var kl. 19.00, mældist 2,20‰, en í þvagsýni, sem tekið var kl. 21.36, mældist hann 2,29‰. Talið var að styrkur etanóls í blóði um kl. 17.15 hafi getað verið 2,4 til 2,6‰.  Þá mældust einnig í sýnunum meðal annars efnin tramadól, lamótrigín og pregabalin, sem öll eru sögð hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfið og geta verið samverkandi með alkóhóli. Ættingjar A ákváðu, í samráði við lækna, að honum yrði veitt líknandi lífs­loka­með­ferð þar eð engar líkur voru taldar á því að ástand hans gæti breyst til batnaðar. Hann var úrskurðaður látinn 7. október 2015, kl. 15.07.

Réttarkrufning fór fram á hinum látna og í niðurstöðukafla skýrslu G, sérfræðings í réttarmeinafræðum, kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Niðurstöður krufningar og nánari rannsókna leiða til þeirrar ályktunar að A hafi látist vegna þess að miðtaugakerfið hafi hætt að starfa í kjölfar kyrkingar. Vegna kyrkingarinnar var súrefnisflæði til heilans stöðvað í lengri tíma sem leiddi til varanlegs heilaskaða og endaði með heiladauða. Rof á súrefnisflæði til heilans við kyrkingu stafar annars vegar af því að blóðið getur ekki streymt til baka frá heilanum og hins vegar af samþjöppun öndunarvegarins.“ Segir og eftirfarandi: „Þetta myndi þýða að A hafi fyrst verið beittur hálstaki áður en hann var kyrktur með kyrkingartólinu.“ Loks segir svo: „Samantekið er því unnt að segja að A hafi látist af völdum kyrkingar og heilaskaða í kjölfar hennar. Mar í andliti og niðurstöður taugasjúkdómafræðilegrar rannsóknar benda til þess að í tengslum við átökin sem lýst er hafi höfuð A ennfremur orðið fyrir verulegri kraftbeitingu. Engar vísbendingar komu fram um aðra, náttúrulega dánarorsök. Banvæn eitrun er ekki sennileg þótt hinn látni hafi á þeim tímapunkti þegar verknaðurinn átti sér stað verið undir áhrifum áfengis og blöndu ýmissa lyfja.“

Geðrannsókn fór fram á ákærða í samræmi við 2. mgr. 77. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var niðurstaða hennar sú að ákærði væri sakhæfur. Í skýrslu H geðlæknis kemur meðal annars fram að ákærði hafi farið að misnota vímuefni ungur. Hann hafi lokið samræmdum prófum og stundað óreglulega vinnu allt til 26 ára aldurs, en eftir það hafi hann farið á örorku. Hafi hann á þeim tíma verið í mikilli neyslu og hafi hann veikst með depurðareinkennum og skammvinnu [...], ítrekað tengdu neyslu. Þá hafi hann fengið krampa þegar kom undir 30 ára aldurinn en því fylgi [...]. Hann hafi hins vegar ekki komið á geðdeild vegna [...] sl. tvö ár og er hann var skoðaður af geðlækni 1. september sl. hafi hann verið án merkja um [...]. Sé ekkert í sögunni sem bendi til annars geðsjúkdóms en vímuefnafíknar. Á verknaðarstundu hafi ákærði verið mjög ölvaður, reiður og æstur, en þó ekki þannig að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Hafi þetta án efa haft ráðandi áhrif á hvernig fór og leitt til þess að ákærði tók A hálstaki og setti á hann reimar. Verði ekki séð að önnur geðveiki en vímuefnafíkn hafi verið ráðandi um verk hans á verknaðarstundu. Hvorki þroski hans almennt né greind hafi ráðið þar um, en hann átti sig á og geri sér grein fyrir að þetta sé röng hegðun. Ástand hans sé þannig að ætla megi að refsing geti borið árangur eins og hjá öðrum mönnum.

Í yfirmatsgerð, sem geðlæknarnir I og J unnu vegna málsins, kemur eftirfarandi fram í kaflanum um meginniðurstöður:

„Það er niðurstaða yfirmatsmanna að Gunnar Örn sé sakhæfur skv. 15. gr. hegningarlaga. Gunnar Örn hefur engin skýr merki um geðrofssjúkdóm, sturlun fyrir, við eða eftir atburð. Heimildir og gögn eru þessu samhljóða. Ekki koma fram merki um svo alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort sem eru af þeirri gráðu að þau firri hann ábyrgð gerða sinna. Geðræn einkenni þau sem að ofan er lýst í mati þessu leiða ekki til ósakhæfis samkvæmt 16. gr. hegningarlaga. Þau útiloka ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni. Gunnar Örn virðist geta stundað endurhæfingu og nám í fangelsinu og allt bendir til þess að hann geti nýtt sér þá betrun sem þar stendur til boða. Mögulega skýrist það af því að innan veggja fangelsisins hefur hann hingað til valið að vera ekki í neyslu vímuefna.“

III.

Skýrslur af ákærða

1.

Við fyrstu yfirheyrslur hjá lögreglu 3. október 2015 neitaði ákærði því alfarið að hafa á nokkurn hátt veist að A. Hann hefði skroppið út í garð til að moka og sinna þar dúfum sínum í því skyni að fá útrás fyrir reiði sína í garð A. Nefndi hann í því sambandi meðal annars að A hefði tekið við heimsendum lyfjum ákærða. Er ákærði kom inn á ný, eftir um 20-30 mínútur, hefði A verið með band um hálsinn og blár í framan. Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa kyrkt A en hafi hann gert það hafi hann gert það óvart. Þá kannaðist hann ekki við að reimin væri úr peysu hans eða að hann hefði komið henni og beltinu sem fannst fyrir í frystikistu á staðnum. Er ákærði var yfirheyrður á ný daginn eftir kvaðst hann hafa orðið mjög reiður út í A umrætt sinn og þegar hann yrði reiður undir áhrifum áfengis yrði hann stjórnlaus. Kvaðst hann hafa komið aftan að A, tekið með báðum höndum utan um hálsinn á honum og haldið þannig í allt að 20 sekúndur. A hefði hins vegar talað við ákærða og verið við góða heilsu er hann fór út í garð. Þá taldi ákærði að A hefði ekki verið með neitt um hálsinn er hann kom aftur inn eftir 15-17 mínútur. Ákærði gat heldur enga skýringu gefið á því að reimina var ekki í peysu hans er hann var handtekinn en hún hefði sannanlega verið þar er lögregla hafði afskipti af honum fyrr um daginn. Kvaðst hann ekki muna hvort þetta væri sama reimin og hefði verið um hálsinn á A. Er ákærði var yfirheyrður þriðja sinni, hinn 11. sama mánaðar, staðfesti hann fyrri framburð um að hann hefði haldið utan um háls A í um 20 sekúndur. Hefði hann reiðst yfir því að A hefði gleypt stóran hluta af lyfjum sem ákærði hefði fengið send heim, auk þess að A hefði gleypt demant í eigu ákærða. Þá kvaðst hann hafa tekið reimina á hettupeysunni og sett utan um hálsinn á A og strekkt þannig að einnig hafi strekkst að hálsi ákærða, þannig að þeir báðir hefðu misst andann. Sagðist ákærði hafa haldið þannig í nokkrar sekúndur og síðan sleppt vegna þess að A hefði sagst vilja lifa og að hann sæi eftir öllu. Sagði ákærði meðal annars svo: „Hann sat í sófanum þegar ég notaði reimina og ég stóð fyrir aftan hann.“ Og nokkru síðar: „Eftir að ég tók hann með reiminni þá fer ég út og þá liggur hann í sófanum.“ Ákærði hefði svo farið út í garð til að tala við Guð og komið aftur inn eftir 17-20 mínútur. Hefði A þá legið á bakinu í sófanum, blár í framan og án þess að anda. Enginn reim eða band hefði verið um háls hans þá. Kvaðst ákærði hvorki muna hvort hann hefði haft fataskipti né hvort hettupeysan sem hann var í við handtöku væri sú hin sama og hann var í þegar lögregla hafði afskipti af honum fyrr um daginn. Er ákærða var kynnt sú niðurstaða réttarkrufningar að tvö samhliða kyrkingarmerki hefðu fundist á hálsi A sagði ákærði það vera eftir reimina sem hann hefði hert að hálsi A. Þá skýrði hann ummæli sín í símtali við K, konu sína, um að hann væri á leiðinni á Kvíabryggju, þannig að honum hefði fundist að hann hefði gert eitthvað á hlut A með því að kyrkja hann smá. Þegar tekin var skýrsla af ákærða 9. nóvember 2015 sagðist hann hafa tekið A hálstaki og haldið í um eina mínútu vegna þess að A hefði étið demantinn og verið orðinn mjög leiðinlegur. Þá sagði hann um reimina að hún hefði verið á peysunni en síðan hafi hún ekki verið þar lengur. Sagðist ákærði hafa tekið í A en ekki drepið hann því að hann hefði verið á lífi eftir það.

2.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið ásamt A við drykkju á heimili sínu að [...] umræddan dag. Á sömu hæð í húsinu, í sérstakri stúdíóíbúð við hliðina sem innangengt sé úr á milli, hefði einnig búið C, sem áður hefði verið giftur eiginkonu ákærða. Ákærði sagði að daginn áður, eða 1. október 2015, hefði A hringt og spurt þá C hvort þeir ættu einhver lyf handa honum. C hefði átt einhver lyf handa honum og hefði orðið úr að þeir C fóru í leigubíl til Reykjavíkur og sóttu A. A hefði svo fengið að gista í íbúð ákærða, en A hefði verið skilinn við konu sína. A hefði svo vakið ákærða um kl. 10 daginn eftir, þann dag sem umræddir atburðir gerðust, og beðið hann um að hringja í lækninn til að fá morfínlyfin sín, en ákærði kvaðst hafa tekið inn slík lyf samkvæmt læknisráði í kjölfar bílslyss sem hann lenti í. Á meðan þeir voru að bíða eftir að lyfin yrðu afgreidd hafi þeir farið í vínbúðina og bankann, líklega rétt fyrir hádegi. Báðir hefðu þeir þá verið að drekka og hefði A verið verulega drukkinn, ekki staðið í lappirnar er þeir fóru í vínbúðina. Þeir hefðu síðan farið aftur heim. Aðspurður kvaðst ákærði lítt eða ekki minnast þess að hafa verið í samskiptum við lögregluna kl. hálfþrjú þennan dag, svo sem myndupptaka sem sýnd var við upphaf aðalmeðferðarinnar bar með sér. Hann gat þó svarað því að hann hefði farið í gullbúðina til að láta þar meta hálsmen, en A hefði síðar þennan dag, líklega um kl. þrjú eða hálffjögur, gleypt hálsmenið. Það hefði þó ekki verið stórt mál þar sem menið hefði einungis verið metið á 2.000 krónur. Aðspurður kvað ákærði morfínlyfin, tíu eða tuttugu töflur, hafa verið send heim til hans og hafi A tekið þar á móti þeim og greitt fyrir þau. Sjálfur hefði hann þá líklega verið á klósettinu. A hefði síðan étið allar töflurnar að undanskildum tveimur sem hann sjálfur hefði fengið. Ákærði kvaðst ekki hafa verið sáttur við A vegna þessa. Hann hefði getað samþykkt að A fengi eina eða tvær töflur, en ekki allar. Þeir hefðu þó ekki rifist vegna þessa, enda hefði A lofað að redda honum öðrum í staðinn. Spurður nánar út í hvernig samskipti þeirra A hefðu verið í aðdraganda umrædds atburðar sagði ákærði: „Við vorum bara að drekka og höfðum voða gaman af lífinu. Ég var á leiðinni í meðferð og hann var alltaf að tauta um að honum langaði ekki að lifa.“ Sagðist ákærði þá hafa sagt við A „að það væri alltaf lausn á að lifa og var að reyna að benda honum í ljósið“. A hefði þá endalaust tautað að hann langaði ekki að lifa, en þetta hefði þó ekkert farið í taugarnar á ákærða. A hefði verið mjög ölvaður, auk þess að hafa tekið mikið af lyfjum, og því ekki getað staðið í lappirnar. Þannig hefði A dottið á borðbrún og kvartað í kjölfarið undan verkjum í hálsinum. Kvaðst ákærði hafa í nokkur skipti þurft að aðstoða A vegna þessa með því að taka undir hann og lyfta honum upp í sófa. Spurður um það hvernig hann væri þegar hann reiddist undir áhrifum áfengis sagði ákærði: „Ef ég reiðist þá þú veist þá slæst ég með höndum og það heyrast hljóð og allavega. Það er ekkert smáræði sko.“ Hann ætti það til að vera stjórnlaus við slíkar aðstæður, enda væri hann alkóhólisti. Spurður hvort hann hefði einhvern tímann tekið utan um hálsinn á A svaraði hann: „Já, svona. Setti svona hendurnar á hann og baðaði hann á drottinn og vona að hann fari í ljósið. Þú veist eitthvað svo kjaftæði.“ Nánar aðspurður sagðist ákærði þá hafa staðið fyrir aftan A og lagt hendurnar á axlir hans en aldrei komið við hálsinn á honum. Hefði A bara fundist þetta þægilegt. Ákærði kvaðst svo í kjölfarið hafa farið út í garð með hundinn sinn að sinna bréfdúfum sem hann hefði í kofa þar í garðinum. A hefði hins vegar afþakkað að fara með honum. Ákærði sagðist hafa verið úti í um 30-40 mínútur. Kvaðst hann hafa verið að hreinsa dúfnakofann og gefa dúfunum og þegar hann hefði komið aftur inn hefði hann séð A liggjandi með band eða reim um hálsinn. Á reiminni hefði verið sjóarahnútur. C væri sjómaður en sjálfur kynni hann ekki að binda sjóarahnút. Spurður hvort hann hefði kannast við þessa reim svaraði ákærði: „Þetta er band sem er búið að vera í skúffunni minni bara.“ Ákærði kvaðst hafa farið inn í herbergi þar sem C var. Spurður hvað C hefði þá verið að gera svaraði ákærði: „Hann var, var bara fölur inni í herbergi og það kom ekki stakt orð upp úr honum. Ég hef aldrei séð annan eins svip. Eins og hann væri búinn að gera eitthvað af sér.“ Þeir hefðu svo saman farið til að huga að A. C hefði gert á honum hjartahnoð en sjálfur kvaðst ákærði hafa blásið upp í hann. Ákærði kannaðist við að C hefði hringt í Neyðarlínuna og spurður um hvað hann hefði gert á meðan sagði hann: „Ha. Ég fékk mér þarna í glas á meðan.“ Ákærði neitaði því að hafa sett reim um hálsinn á A þegar C var í símanum að tala við Neyðarlínuna. Hann kannaðist hins vegar við að hafa talað um að A væri dáinn og að það þyrfti að jarða hann en hann hefði einfaldlega haldið að A hefði bara kafnað af morfíninu. Ákærði skýrði ummæli sín um að jarða þyrfti A þannig: „Er það ekki alltaf gert þegar fólk deyr?“ Þá sagði ákærði það vera lygi þegar sækjandi sagði að ráðið yrði af upptöku af símtali C við Neyðarlínuna að ákærði væri að reyna að kyrkja A. Þegar ákærði var spurður hvort reimin, sem verið hefði um hálsinn á A, gæti hafa verið úr peysu sem hann hefði verið í fyrr um daginn sagði hann: „Það getur vel verið.“ Er honum var kynnt að sú reim hefði fundist í frystikistu í húsinu og hann spurður hvort hann kannaðist eitthvað við það neitaði hann því en sagði að C hefði verið að fara að taka frystikistuna með sér. Spurður þá hvort hann teldi að C hefði komið reiminni fyrir í kistunni svaraði hann: „Já, já algerlega. Ef hann hefur ekki bara gert þetta.“ Er hann var spurður á ný hvort hann teldi að reimin sem fannst í kistunni hefði verið í peysunni hans svaraði hann: „Ég vil ekki meina að þetta hafi verið sama, ég hafði fataskipti.“ Sagðist hann hafa fyrr um daginn blotnað „eitthvað þarna úti hellti á mig eða eitthvað“. Hefði það verið eftir að hann hitti lögreglumennina fyrr um daginn. Nánar spurður um þetta síðar sagðist hann telja að reimin sem A hefði verið með um hálsinn hefði líklega verið tekin úr skúffu, þar sem hún hefði verið geymd. Spurður um beltið sem fannst einnig í frystikistunni sagðist hann ekki hafa séð þetta belti en það væri í eigu C. Spurður um blóð úr A, sem greindist á annarri hendi hans og fatnaði, svaraði ákærði því til að hann hefði verið að blása upp í A.

Ákærði kannaðist við að L vinur C hefði hringt í síma ákærða og taldi hann fyrst að það hefði verið einhvern tímann um þrjúleytið eða fyrr en kvaðst svo vera óviss á þessari tímasetningu. Er honum var kynnt að samkvæmt símagögnum hefði það verið kl. 17.14, sagði hann það vel geta passað. Hefði L viljað fá að tala við C vegna flutnings á frystikistunni fyrir C. Kvaðst ákærði hafa rétt C símann en hann hefði sjálfur haldið áfram að drekka og „tala við A eða eitthvað, hlusta á músik eða eitthvað“. Er ákærða var kynnt að samkvæmt símagögnum hefði C hringt í Neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð kl. 17.18, eða fjórum mínútum síðar, kvaðst hann þá hafa verið að koma inn og rétt C símann. Hann hefði þá verið búinn að sjá A þar sem hann lá með reimina um hálsinn. Spurður af hverju hann hefði ekki verið búinn að minnast á þetta símtal er hann lýsti atvikum sagðist hann þá bara ekki hafa verið kominn svo langt. Áður en L hringdi hefði hann verið búinn að reyna að leysa hnút á reiminni en það hefði ekki gengið, enda hefði verið sjóarahnútur á henni. Hefði hnúturinn frekar herst en losnað. Andlitið á A hafi þá verið gjörsamlega blátt. Spurður hvers vegna hann hefði farið á brott frá [...] sagðist hann hafa verið í sjokki. Sagðist hann hafa á leiðinni hringt í konuna sína, mömmu og bróður. Í símtalinu við konu sína kannaðist hann við að hafa talað um að hann færi á Kvíabryggju, en sagði að það hefði verið út af öðru máli. Hann hefði lent í áflogum tveimur vikum áður og lögreglan hefði verið nýbúin að segja við hann að hann yrði að fara að gera sér grein fyrir því að hann færi þá bráðum í fangelsi. Þá taldi ákærði sig hafa rætt við vin sinn M í síma allan tímann sem hann var úti í garði, en M hefði geymt fyrir hann dúfur. Hefði því símtali ekki lokið fyrr en hann kom aftur inn og sá A. Kvaðst hann hafa sagt M að svo virtist sem dáinn maður væri á gólfinu og því gæti hann ekki talað við hann lengur. Er sækjandi kynnti ákærða að samkvæmt fyrirliggjandi símagögnum hefðu samskipti verið í síma hans við M í bréfdúfufélaginu daginn áður en atburðir þessir gerðust en ekki þann sama dag kvaðst ákærði viss um það að hann hefði hringt í M úr síma sínum meðan hann var úti umrætt sinn og talað við hann allan tímann.

Er ákærði var spurður út í þann framburð sinn hjá lögreglu 11. október 2015 að hann hefði tekið A hálstak svaraði ákærði: „Eins og ég segi, það getur vel verið að ég hafi tekið kannski eitthvað lítið hálstak á honum. En ég meina það varð honum ekki að bana.“ Nokkru síðar bætir ákærði við: „Það getur vel verið að við höfum eitthvað slegist eða eitthvað. En ekkert ...“ Spurður í hvaða andlega ástandi hann hefði verið þegar þetta gerðist, með hliðsjón af framburði hans hjá lögreglu um að hann hefði reiðst og tekið A hálstaki, sagðist hann fyrst hafa verið rólegur en nánar spurður svaraði hann að vel gæti verið að hann hefði verið „eitthvað smá reiður“. Taldi ákærði að þetta hefði ekki verið sama atvik, sem hann hafði áður lýst, og þegar hann lagði hendurnar á axlirnar á A. Þetta hefði verið aðeins seinna, eða „þegar hann át lyfin eða eitthvað svoleiðis“. Kvaðst ákærði þá hafa orðið reiður og þeir þá farið að ýta hvor öðrum. „Síðan tók ég bara svona smá hálstak á honum.“ Kvaðst hann hafa haldið einungis í nokkrar sekúndur, en ekkert hefði komið fyrir A. Ákærði var einnig spurður út þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði tekið reimina á hettupeysunni og sett utan um hálsinn á A og strekkt þannig að og að einnig hafi strekkst að hálsi ákærða, þannig að þeir báðir hefðu misst andann. Svaraði hann þá á eftirfarandi hátt: „Málið er að þeir voru að spyrja mig endalaust út í þetta og ég var bara orðinn eitthvað svo leiður og ég sagði bara eitthvað sem þeim langaði að segja. Ég var að tala um það að ég hafi prófað ef maður myndi herða reim eins og það væri reim utan á mér þá myndi hún ekki losna heldur þá myndi hún herðast.“ Þessi framburður hafi bara verið rugl og þvæla. Hann hefði ekki sett neina reim utan um þennan mann.

Er ákærði var spurður hvort hann hefði verið til meðferðar hjá geðlækni lýsti hann því að hann hefði farið í botnlangaaðgerð á árinu 2005 og þá fengið ofnæmi vegna svæfingarinnar. Hefði það lýst sér þannig að hann hefði í kjölfarið ekki þekkt sína nánustu, þar á meðal móður sína, í um hálft ár. Kvaðst ákærði vera á þunglyndislyfjum en ef hann tæki þau ekki inn ætti hann það til að fara í [...]. Færi hann þá inn í sig og yrði illa áttaður. Hann hefði ekki átt lyfin á umræddu tímabili og því ekki tekið þau inn.

IV.

Skýrslur af vitnum fyrir dómi

Vitnið C lýsti atburðum þannig að hann hefði verið inni í herbergi og verið þar að bíða eftir að L kæmi á staðinn á sendibíl til að sækja dótið hans og fara með til Keflavíkur. Ákærði og A hefðu hins vegar verið að drekka frammi. Hefði hann stundum heyrt þá rífast en stundum hlæja. Þeir hefðu öðru hvoru komið inn í herbergið til hans og viljað gefa honum að drekka en hann hefði ekki viljað það. Kvaðst C aldrei hafa heyrt nein slagsmál. Hann hefði verið að tala við L í símann og þá orðið var við að ákærði fór út. Að símtalinu loknu kvaðst C hafa notað tækifærið til að fá sér sígarettu og fara á klósettið. Hann hefði þá heyrt að ákærði var fyrir utan að moka möl, en það hefði hann oft gert áður í því skyni að setja hana fyrir framan dúfnakofann vegna moldarsvaðs sem oft hefði verið þar. Honum hefði svo verið litið inn í stofu og þá séð A þar liggjandi á grúfu í sófanum, með lappirnar út af. Kvaðst hann fyrst hafa haldið að A væri bara dauður úr fylliríi en svo séð að hann var búinn að pissa á sig. Hann hefði næst séð að A var orðinn helblár í framan og belti hafi legið blóðugt undir hálsinum. Hann hefði þá hlaupið inn í herbergi til að hringja í Neyðarlínuna. Í framhaldi hefði hann síðan reynt að blása í A en það hefði ekkert þýtt. Hann hefði því ákveðið að pumpa hann þar til lögreglan kæmi á staðinn. Hann kvaðst þá allt í einu hafa tekið eftir reim sem hafi verið utan um hálsinn á A. Hefði hann losað hana og haldið áfram að pumpa. Á þessum tíma hefði hann verið í sambandi við Neyðarlínuna og þeir reynt að leiðbeina honum um hvað hann ætti að gera. Meðan á þessu stóð hefði ákærði komið inn, blindfullur, og alltaf verið að trufla hann þegar hann var að pumpa. Þegar hann svo tók reimina af hálsi A hefði ákærði tekið hana, sett hana aftur utan um hálsinn á A og sagt: „Er hann ekki dauður ennþá.“ Ákærði hefði þá aftur tekið reimina og sagt aftur: „Er hann ekki ennþá dauður.“ Kvaðst C þá hafa slegið á höndina á honum til að fá hann til þess að hætta þessu, en haldið samt áfram að pumpa. Ákærði hefði svo verið á einhverjum þvælingi þarna. Sjálfur sagðist hann hafa verið í algjöru sjokki og ekkert verið að pæla í ákærða. Hann hefði haldið áfram að pumpa þangað til lögreglan kom og tók við. 

Vitnið L skýrði frá því að hann hefði hringt í síma ákærða umræddan dag og spurt um C. Gæti vel verið að það hefði verið kl. 17.14. Kvaðst L þá hafa verið staddur í Mosfellssveit á leiðinni á flutningabíl til að sækja dót sem hann átti að [...], en hann hefði sjálfur búið þar um tíma. Jafnframt hefði hann verið búinn að taka að sér fyrir C að flytja dótið hans því að hann hefði verið búinn að leyfa C að flytja inn til sín, enda hefði þá verið búið „að segja honum upp“ húsnæðinu. Þá hefði og verið rætt um að hann tæki með sér frystikistu, sem ákærði átti, en kona ákærða hefði viljað skipta við L á kistunni og ísskáp sem hann átti þar á staðnum. L sagði að ákærði, sem hefði greinilega verið ölvaður, hefði svarað og sagt að C væri inni í herbergi. Hefði hann svo heyrt að ákærði opnaði dyr og kallaði: „Hérna er góður maður að hringja í þig.“ Kvaðst hann í símtalinu hafa sagt C frá því að hann væri á leiðinni, en hann gæti ekkert sagt til um hversu lengi símtalið hefði varað.

N sjúkraflutningamaður lýsti aðstæðum er hann kom á vettvang og til hvaða aðgerða gripið hefði verið í því skyni að endurlífga A, sem þá hefði verið meðvitundarlaus. Á staðinn hefðu verið komnir tveir lögreglumenn og hefði annar þeirra verið að hjartahnoða. Auk sjúkraflutningamannanna hefðu svo komið á vettvang læknir auk hjúkrunarfræðings, sem hefði átt þar leið hjá og boðist til að aðstoða. Við komuna hefði sjúklingurinn strax verið tengdur við Lukas-tæki, en við það hefði strax farið í gang hjartahnoð og öndunaraðstoð. Hefði það svo haldið samfellt áfram þar til sjúklingurinn hafi verið kominn inn á sjúkrahús. Fyrir á staðnum hefði verið einn maður sem setið hefði þar í sófa. Hefði hann sagst hafa komið að sjúklingnum. Staðfesti vitnið þann framburð sinn hjá lögreglu að maður þessi hefði á staðnum talað um að sjúklingurinn hefði áður tekið inn einhverjar töflur án þess að magn þeirra væri tilgreint. Einnig að maðurinn hefði sagst hafa komið að sjúklingnum meðvitundarlausum með reim um hálsinn.

O sjúkraflutningamaður lýsti því að þegar hann hafi stigið út úr sjúkrabifreiðinni að [...] og hann var að stíga út úr henni hafi ákærði staðið þar ölvaður með flösku í hendi og sagt: „Hann er dáinn.“ Síðan hefði ákærði sagt: „Fyrirgefðu.“ Engar frekari skýringar hefðu hins vegar fylgt þessum orðum. Sjúklingurinn hefði ekki verið með lífsmarki er þeir komu á staðinn. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neina reim eða belti þar á staðnum.

P, sem starfar sem hjúkrunarfræðingur, kvaðst hafa verið að koma út úr bílnum sínum þegar hún sá hvar ákærði gekk með hundinn sinn frá [...] í áttina að Suðurgötu. Á svipuðum tíma hefðu sjúkraflutningamenn verið að koma á vettvang að [...]. Hefði hún spurt þá hvort hún gæti eitthvað aðstoðað þá og farið inn með þeim í því skyni. Lýsti hún aðkomu á staðnum á svipaðan hátt og sjúkraflutningamenn. Kom fram hjá henni að annar sjúkraflutningamannanna hefði beðið hana að athuga hvort hún sæi einhverja reim í íbúðinni en hún hefði ekki fundið hana.

Q, læknir á Heilbrigðisstofnun Akraness, var kvödd út vegna málsins. Þegar hún kom á vettvang hafi hún mætt ákærða fyrir utan húsið. Hafi hann þá sagt henni að A hefði tekið inn 20 morfíntöflur og væri dauður. Sjálfur væri hann á leiðinni á Vog. Kvaðst vitnið síðan hafa farið inn og hafi lögreglumaður þá verið þar að hnoða A, sem hefði legið þar á gólfinu. Á svipuðum tíma hefðu sjúkraliðar svo komið á vettvang. A hefði þá verið meðvitundarlaus og blár í framan. Hann hefði ekki andað og enginn hjartsláttur fundist.

Vitnið R, sem býr í húsinu nr. [...] við [...], kvaðst í umrætt sinn hafa verið stödd í eldhúsinu heima hjá sér, ásamt manni sínum og fósturdóttur, sem jafnframt sé stjúpdóttir ákærða. Vel sjáist þaðan yfir í húsið að [...], enda séu ekki nema um fimm eða í mesta lagi tíu metrar þar á milli. Hefðu þau þá séð að ákærði var þar staddur ásamt öðrum manni. Hefði þeim virst eins og eitthvert rifrildi væri í gangi milli þeirra eða kannski frekar eins og ákærði væri að messa yfir honum. Hefði ákærði staðið en hinn maðurinn setið og virst hálf rænulaus að sjá eða jafnvel bara vel fullur. Hefði ákærði þá komið að manninum, lagt höndina á öxl hans og virst eins og hann tæki undir hökuna eða hálsinn á honum. Aðspurt kvaðst vitnið telja að þetta gæti hafa verið um kl. 16.00. Áður en þau sáu þetta, líklega nokkrum klukkustundum fyrr, kvaðst hún hafa séð að komið var með sendingu frá apótekinu að [...] og hefði ákærði þá komið til dyra og tekið á móti henni. Spurð út í framburð sinn hjá lögreglu um það hvað hún hefði séð inn um gluggann kvaðst vitnið staðfesta það sem þar komi fram nema að ekki sé þar rétt að apótekarinn hefði komið í kjölfar þessara samskipta ákærða og mannsins í borðstofunni. Henni hefði sýnst eins og ákærði væri eitthvað að berja á bakið á manninum. Loks taldi vitnið að um þrjátíu til fjörutíu mínútur hefðu liðið frá þessum atburðum þar til lögreglan kom á vettvang.

Vitnið S lýsti atvikum mjög á sama veg og R, kona hans. Þau hefðu heyrt einhver hljóð frá heimili ákærða að [...], líklega á milli kl. þrjú og fjögur, og farið út í eldhúsglugga til að athuga hvað þar væri um að vera. Hefði hann þá séð A þar sitjandi á stól og ákærða standa yfir honum. Hefði honum virst sem ákærði væri eitthvað að lesa yfir A á trúarlegum nótum því að hann hefði heyrt hann segja eitthvað í þá áttina: „Hvað með Jesú?“. Kvaðst vitnið ekki hafa verið óvant að heyra slíkt frá ákærða því að ákærði sé mjög trúaður. Báðir hefðu mennirnir virst mjög drukknir og A „bara eiginlega út úr kortinu“. Vitnið kvaðst þó ekki hafa séð nein átök milli mannanna tveggja. Þau hefðu svo farið inn í stofu og ekki tekið eftir neinu fyrr en líklega um eða innan við klukkustund síðar að þau sáu að sjúkrabíll var kominn á staðinn.

Vitnið T, sem bjó við hliðina á ákærða, kvaðst í umrætt sinn hafa heyrt og séð að ákærði kom út með flösku af Jägermeister í hendi. Hefði hann hringt í einhvern og sagt að nafngreindur maður, sem vitnið kvaðst ekki muna hvað hét, væri dauður. Hefði ákærði svo sagt: „Ég elska þig“. Að því búnu hefði ákærði skellt á og labbað í burtu. Sagði vitnið að sér hefði þótt þetta mjög skrýtið. Kvaðst vitnið skömmu áður hafa heyrt til ákærða úti í garði og hefði hann augljóslega verið drukkinn. Líklega um tíu mínútum síðar hefðu sjúkrabíll og lögregla komið á staðinn.

K, eiginkona ákærða, kannaðist við að hafa verið í símasamskiptum við hann tvívegis umræddan dag, en hún hefði hringt í hann kl. 17.23 og 17.26. Hefði ákærði þá virst mjög langt niðri og fremur eins og hann væri gráti nær en verulega æstur. Hefði verið erfitt að skilja hann og í fyrra símtalinu hefði hann sagt að A væri dáinn. Hann hefði étið öll verkjalyfin hans. Er hún hefði hringt í hann í síðara símtalinu hefði hann talað um að hann færi inn á Vog eða í nokkra mánuði á Kvíabryggju, án þess að gefa nokkrar frekari skýringar á því. Fram kom hjá vitninu að ákærði hefði verið á geðlyfjum vegna [...]. Komið hefði fyrir að hann hefði ekki tekið þessi lyf og hefði hann þá orðið illa áttaður og ruglaður. Nefndi hún meðal annars sem dæmi þar um að honum hefði eitt sinn fundist hann vera í samfélagsþjónustu og því farið að raða grjóti við safn eitt þar í bænum. Kvaðst hún telja, miðað við það í hvernig ástandi ákærði hefði virst á umræddum tíma, að hann hefði þá ekki tekið lyfin sín.

U, móðir ákærða, kannaðist við að hafa rætt símleiðis við ákærða í umræddan dag. Í símtölum kl. 15.26 og 15.36 hefði ákærði aðallega talað um að hann þyrfti að fara inn á Vog og að honum liði ekki vel. Hann hefði þá verið með A úti á strætóstoppistöð. Kvaðst hún einnig hafa talað við A og ekki skynjað á neinn hátt að einhver leiðindi væru milli þeirra. A hefði talað um að hann vildi að ákærði færi inn á Vog en að hann sjálfur hefði engan áhuga á því. Báðir hefðu þeir virst drukknir en þó alveg viðræðuhæfir. Í þriðja símtalinu, rétt fyrir kl. sex, hefði ákærði svo hringt og virst „voða hræddur“ og ansi illa áttaður og sagt eitthvað á þá leið að A væri dáinn.

V, faðir ákærða, og BB, bróðir ákærða, gáfu einnig skýrslu um efni símtala við ákærða rétt áður en hann var handtekinn. Ekki þykir þörf á að reifa framburð þeirra sérstaklega.

M kannaðist við að ákærði hefði hringt í hann að kvöldi dags, líklega milli kl. 20.00 og 22.00, til að ræða um bréfdúfur sem vitnið hefði tekið að sér að geyma fyrir ákærða. Hefði ákærði þá verið að afsaka það að hann hefði ekki getað kíkt við hjá honum fyrr um daginn því hann hefði verið búinn að fá sér bjór. Hefði ákærði sagst vera á leiðinni í gleðskap ásamt kunningja sínum eða ætlaði að hitta þar kunningja sína, en þeir hefðu allir verið að fara í meðferð á Vog daginn eftir. Gæti þetta hafa verið kvöldið sem umræddur atburður átti sér stað en hann kvaðst þó ekkert geta sagt til um það. Kvaðst vitnið minnast þess að hafa heyrt að dyr væru opnaðar og ákærði síðan allt í einu sagt: „Heyrðu, hér er maður sem er hættur að anda ég verð að hætta að tala við þig“. Í kjölfarið hefði símtalið slitnað.

B, sem er einn bótakrefjenda í málinu, kvaðst hafa búið með A er hann lést. Þau hefðu búið saman frá árinu 1998, síðast að [...] á Akranesi. Skýringin á því að A hafi ekki verið skráður þar til heimilis er hann lést væri sú að þeim hefði verið ráðlagt vegna skuldaniðurfellingar að skipta fjárhag sínum og skrá lögheimili hans á öðrum stað.

CC, svæfingalæknir á gjörgæsludeild Landspítalans, bar að tekin hefði verið tölvusneiðmynd af heila A strax og hann kom inn á spítalann. Hefðu skilin á milli gráa og hvíta efnisins í heilanum þá algerlega verið útmáð. Væru það klassísk merki um að orðið hefði stórkostlegur súrefnisskaði í heila. Þá hefði tölvusneiðmynd tveimur dögum síðar sýnt að bólgan hefði aukist enn frekar og að mikill  og varanlegur heilaskaði hefði orðið, bæði í stóra heila og litla heila. Loks hefði A verið settur í æðamyndattöku af heilanum og hefði hún sýnt að hvorki væri blóðflæði í stóra né litla heila en hins vegar örlítið blóðflæði alveg neðst í heilastofninum. Hefði staðan í raun verið sú að sjúklingurinn hefði aldrei komist til meðvitundar, hann hefði aldrei getað tjáð sig, öll heilastarfsemi hefði verið farin og engar líkur á að hún kæmi til baka. Hins vegar hefði hann getað haldist á lífi ef ákvörðun um líknandi lífslokameðferð hefði ekki verið tekin.

G, sérfræðingur í réttarmeinafræði á Landspítalanum, staðfesti og skýrði nánar krufningarskýrslu sína. Kom fram hjá honum að við krufningu hefði heili A þegar verið tekinn að mýkjast, sem komi alla jafnan fram þegar liðnir séu 3-5 dagar frá andláti eða heiladauða. Kvaðst vitnið hafa rætt þetta við lækni á Landspítalanum, líklega 4. október, og þá verið sagt að á tölvusneiðmynd hefði heilahimna ekki verið greinanleg, sem aftur benti til þess að þá hefði heilinn hreinlega verið hættur að starfa og að óafturkræf breyting hefði þá verið orðin á heilanum. Aðspurt taldi vitnið að niðurstaða rannsóknar hans á heila hins látna styddi það engan veginn að sjúklingurinn hefði getað lifað lengi áfram ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um líknandi lífslokameðferð. Nánar spurt um þetta taldi vitnið þó að mögulega hefði verið hægt að halda hinum látna áfram á lífi með hjálp sérstakra öndunartækja.

Geðlæknarnir H, sem vann matsgerð um sakhæfi ákærða, og I og J, er unnu yfirmatsgerð, staðfestu matsgerðirnar og skýrðu nánar niðurstöður þeirra. Það sama gerði sálfræðingurinn DD, er lagði greindarpróf fyrir ákærða í tengslum við yfirmatsgerðina.

Lögreglumenn og sérfræðingar hjá lögreglunni á Vesturlandi og tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lýstu aðkomu sinni að málinu og staðfestu og skýrðu nánar tæknilegar rannsóknir. Jafnframt gáfu skýrslur starfsstúlka á kaffihúsinu [...], leigubílstjóri sem ók ákærða og A umræddan dag og starfsstúlka Apóteks [...], sem kvaðst hafa komið með lyf fyrir A og hann sjálfur hefði veitt þeim viðtöku.

Loks skýrðu og staðfestu þær EE og FF, sérfræðingar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, rannsóknir á blóð- og þvagsýnum og matsgerðir þar um.

V.

Niðurstaða

Ákærða er gefið að sök að hafa svipt A lífi með kyrkingu, með því að herða að hálsi hans með höndunum og með því að bregða beltisól og fatareim um háls­­inn á honum og herða að, þar með talið með því að binda hnút á reimina svo að hún losnaði ekki frá háls­inum, og stuttu síðar, með því að bregða reiminni að nýju um hálsinn á A og herða að, eftir að endur­­lífgunar­tilraunir voru hafnar.

Ákærði neitar sök. Krefst hann þess í fyrsta lagi að ákæru verði vísað frá dómi þar sem ekki standist sú verknaðarlýsing sem fram kemur í ákæru að A hafi látist af völdum atlögu ákærða fimm dögum síðar. Ljóst sé að tekin hafi verið sérstök ákvörðun af hálfu aðstandenda og heilbrigðisstarfsfólks í því skyni að A gæfi upp andann. Ákæruvaldið andmælir þessari kröfu. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 15/1991 um ákvörðun dauða telst maður látinn þegar öll heilastarfsemi hans er hætt og engin ráð eru til að heilinn starfi á ný. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að hafi öndun og hjartastarfsemi verið haldið við með vélrænum hætti skuli ákvörðun um dauða byggjast á því að skoðun leiði í ljós að öll heilastarfsemi sé hætt. Vitnið CC, læknir á gjörgæsludeild Landspítalans, bar að þegar umrædd ákvörðun var tekin hafi ekki verið nein heilastarfsemi í heila A og vegna alvarlegra skemmda ekki neinar líkur á að hún hæfist á ný. Jafnframt taldi réttarmeinafræðingurinn G að heili sjúklingsins hefði verið hættur að starfa. Með hliðsjón af þessu verður að telja að A hafi verið látinn í skilningi laga nr. 15/1991 þegar framangreind ákvörðun um líknandi lífslokameðferð var tekin. Samkvæmt því var engin ástæða fyrir ákæruvaldið að orða verknaðarlýsingu í ákæru öðru vísi en raunin varð. Verður frávísunarkröfu ákærða því hafnað.

Framburður ákærða hefur frá upphafi verið mjög ruglingslegur og á reiki um aðdraganda þess að A fannst meðvitundarlaus með reim um hálsinn í greint sinn. Hefur ákærði orðið margsaga í fjölmörgum og veigamiklum atriðum um atburði dagsins en ljóst er að mikil neysla áfengis og ýmissa lyfja hefur þar einhver áhrif á. Þá ber framburður ákærða þess skýr merki að hann hafi reynt að laga hann að nýjum upplýsingum eftir því sem þær komu fram.

Ákærði neitaði því fyrst hjá lögreglu að hann hefði tekið A hálstaki eða þrengt að hálsi hans með reim eða bandi, en tók að vísu fram að hafi hann gert það hafi það verið óvart. Ákærði játaði síðan í yfirheyrslunni daginn eftir, og í öðrum yfirheyrslum hjá lögreglu í kjölfarið, að hann hefði tekið með báðum höndum utan um hálsinn á A í reiðikasti og haldið takinu í nokkurn tíma. Nefndi hann í því sambandi fyrst allt að 20 sekúndum en í einni yfirheyrslunni taldi hann að það gæti hafa staðið allt að einni mínútu. Á sama hátt játaði ákærði í tveimur síðustu yfirheyrslunum að hafa sett reim um hálsinn á A eftir að hafa neitað því í byrjun. Ákærði dró þennan framburð svo að verulegu leyti til baka er hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þannig kvaðst hann í skýrslu sinni fyrir dómi í fyrstu einungis hafa lagt hendurnar á axlir A en aldrei komið við hálsinn á honum en viðurkenndi þó stuttu síðar að hafa kannski tekið „eitthvað lítið hálstak á honum“ og þá haldið í einhverjar sekúndur. Hafi hann þá verið „eitthvað smá smáreiður“. Hann kannaðist þá hins vegar ekkert við að hafa sett reim um hálsinn á A. Hélt hann því fram, öfugt við það sem hann staðhæfði í síðustu yfirheyrslunum hjá lögreglu, að hann hefði fyrst séð reimina um hálsinn á A þegar hann kom inn úr garðinum.

Eins og áður er rakið hefur ákærði játað hjá lögreglu að hann hafi tekið með báðum höndum utan um hálsinn á A og haldið þannig í nokkurn tíma og jafnframt sett reim úr peysu sinni utan um hálsinn á honum. Er það mat dómsins að framangreind játning ákærða, sem er í samræmi við efni ákærunnar, samræmist í hvívetna þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu andstætt framburði hans fyrir dómi. Þannig báru nágrannar í næsta húsi að þeir hefðu upp úr kl. 16.00 umræddan dag séð inn um gluggann á [...] hvar ákærði virtist vera að messa þar yfir manni. Kvaðst annar þeirra, vitnið R, hafa séð ákærða leggja höndina á öxl mannsins og taka síðan undir hökuna eða hálsinn á honum. Þá liggur fyrir að belti, sem var undir hinum látna, og hvít reim, sem var um hálsinn á honum, þegar C kom að, hurfu af vettvangi í þann mund sem ákærði hvarf þaðan og sjúkraliðar og lögregla voru að koma á staðinn. Bæði beltið og reimin fundust síðan í frystikistu þar á staðnum og reyndust vera á þeim blettir með blóði A. Á reiminni var þá járnhólkur á öðrum endanum en ekki á hinum og sést á reiminni að þar hafði áður verið slíkur hólkur. Féll samskonar hólkur síðan úr úlpu hins látna er hann var kominn á Landspítalann. Ljóst er að ákærði var með slíka reim í peysu sinni er lögregla hafði afskipti af honum stuttu áður þennan sama dag og var hún þá með tveimur járnhólkum á. Þegar ákærði var hins vegar handtekinn nokkru síðar um daginn vegna máls þessa var reimin ekki lengur á peysunni. Hefur ákærði orðið margsaga um skýringar á þessu en fyrir dómi hélt hann því fram að hann hefði skipt um peysu í millitíðinni og farið í aðra alveg eins, en dómurinn telur þá skýringu fjarstæðukennda. Loks liggur fyrir að ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa reiðst vegna þess að A hefði tekið inn lyfin hans og þá tekið „bara svona smá hálstak á honum“ og haldið í nokkrar sekúndur.

Auk framangreinds liggur fyrir mjög trúverðugur og stöðugur framburður C um það hvernig aðstaðan var þegar hann kom fyrst að A meðvitundarlausum með reim um hálsinn, sem bundinn hafði verið hnútur á, og um háttsemi ákærða gagnvart A í kjölfarið, þar á meðal að ákærði hafi brugðið reiminni á ný um hálsinn á A. Fær þessi framburður vitnisins ríka stoð af hljóðupptökum af símtali hans við Neyðarlínuna, sem hófst kl. 17.18, svo sem áður hefur verið rakið. Þá styður tímasetning á símtali sem L átti við ákærða og síðan C, og hófst samkvæmt símagögnum kl. 17.14, mun fremur framburð vitnisins C en framburð ákærða. Ákærði hafði ekki minnst á þetta símtal og bar að hann hefði komið að A með reimina um hálsinn eftir að hafa verið úti í garðinum í 30-40 mínútur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, og einnig þeim niðurstöðum um áverka á hálsi hins látna sem fram koma í fyrirliggjandi krufningarskýrslu og vitnisburði réttarmeinafræðingsins þar um, er það niðurstaða dómsins að fyrrgreind breyting á framburði ákærða fyrir dómi sé ótrúverðug og að fram sé komin sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um að ákærði hafi í greint sinn svipt A lífi með kyrkingu, með því að herða að hálsi hans með höndunum og með því að bregða reim um hálsinn á honum og herða að, eins og nánar greinir í ákæru. Ósannað er hins vegar að ákærði hafi notað beltisól, eins og í ákæru greinir, og er hann því sýknaður af þeim hluta ákæru. Verður í engu talið breyta í þessu tilliti framburður vitnisins M um símtal sem hann kveðst hafa átt við ákærða vegna bréfdúfna, enda verður ekki ráðið af símagögnum að ákærði hafi getað rætt símleiðis við vitnið umræddan dag heldur þá fremur daginn áður.

Ákærði vísar til þess að verði sekt hans talin sönnuð liggi alla vega fyrir að brot hans hafi ekki leitt til dauða A því að A hafi ekki verið látinn þegar ákvörðun hafi verið um það tekin að veita honum líknandi lífslokameðferð. Með vísan til þess sem áður segir í umfjöllun um frávísunarkröfu ákærða var A látinn í skilningi laga nr. 15/1991 þegar framangreind ákvörðun um líknandi lífslokameðferð var tekin. Að þeirri niðurstöðu fenginni, og þar sem ákærða hlaut að vera ljóst að langlíklegast væri að kyrkingartök hans myndu leiða til dauða, er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi gerst sekur um manndráp, sem varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og í ákæru greinir.

Áður hefur verið rakin niðurstaða geðlæknanna H, samkvæmt matsgerð, dags. 7. desember 2015, og I og J, samkvæmt yfirmatsgerð, dags. 22. febrúar 2016, en þau staðfestu öll sínar niðurstöður við aðalmeðferð málsins. Er það afdráttarlaust mat þeirra að ákærði hafi verið sakhæfur á þeim tíma sem hann drýgði brot sitt og að ekkert mæli gegn því að refsing beri árangur. Að virtum þessum gögnum er það niðurstaða dómsins að ákærði sé sakhæfur skv. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að ekki verði talið að heilsufar hans sé með þeim hætti sem um ræðir í 16. gr. þeirra laga.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur sakaferill ákærða ekki áhrif á refsingu að öðru leyti en því að honum var gert, með dómi uppkveðnum 22. júní 2015, að sæta fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fjársvikabrot. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð þess dóms og verður hann því tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Ekki verður annað séð en að augnabliksreiði, af litlu tilefni, hafi verið ástæða atlögu ákærða í greint sinn. Má ráða af framangreindum geðheilbrigðisrannsóknum að ákærði hafi verið í óminnisástandi vegna neyslu áfengis og lyfja þegar hann framdi verknaðinn og að við slíkar aðstæður breytist persónuleiki hans til hins verra sem geti leitt til stjórnleysis og mikillar reiði. Samkvæmt því, og þar sem ákærði á sér engar málsbætur, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 3. október 2015 koma  til frádráttar refsivistinni.

Framangreind fatareim (munur nr. 417490), sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verður gerð upptæk samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009. Hins vegar verður ekki séð að lagaskilyrði standi til þess að gera upptæka beltisól (munur nr. 417488) og verður kröfu þar að lútandi því hafnað.

Sammæðra hálfsystkini hins látna, D, E og F, krefjast þess að ákærða verði gert að greiða hverju þeirra miskabætur skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 3.000.000 króna ásamt vöxtum. Dómurinn telur að bótakrefjendur hafi ekki sýnt fram á þau hafi orðið fyrir miskatjóni vegna fráfalls A sem bótaskylt sé samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði. Verður kröfu þeirra þar um því hafnað.

Jafnframt gerir eitt systkinanna, F, kröfu til þess að ákærða verði gert að greiða honum bætur vegna útfararkostnaðar að fjárhæð 747.880 krónur auk vaxta. Krafan er studd viðhlítandi gögnum og verður ákærði dæmdur til að greiða hana með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Auk framangreinds verður ákærða gert að greiða F 400.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.

Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B bætur vegna andláts A. Er í fyrsta lagi um að ræða bætur fyrir missi framfæranda skv. 13. gr. skaðabótalaga. Fyrir liggur að bótakrefjandi og A höfðu verið í sambúð um margra ára skeið en að A hafði flutt lögheimili sitt af heimili bótakrefjanda 10. júní 2013. Hefur bótakrefjandi haldið því fram að sú skráning hafi aðeins verið til málamynda og að horfa verði til þess að hinn látni hafi í raun verið framfærandi bótakrefjanda eftir sem áður. Það er mat dómsins að ekkert það sé fram komið í máli þessu sem styðji þá staðhæfingu bótakrefjanda að sambúð hennar og A hafi áfram staðið óbreytt þrátt fyrir framangreinda breytingu á skráðu lögheimili hans. Hefur bótakrefjandi ekki sýnt fram á að eftir það tímamark hafi þau verið í sambúð sem jafna megi til hjúskapar eða að A hafi í raun annast framfærslu hennar. Verður krafa þessi því ekki tekin til greina. Í öðru lagi er um að ræða kröfu um miskabætur skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu varðandi sambúð bótakrefjanda og A telur dómurinn að ráða megi af gögnum að þau tvö hafi eftir sem áður haldið nánum tengslum og að fráfall A, á þann hátt sem raun ber vitni, hafi orðið henni mikið áfall og valdið henni miska. Með vísan til þess verða B dæmdar miskabætur úr hendi ákærða sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum, svo sem nánar greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða henni 600.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.

Í samræmi við niðurstöðu málsins verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða verður því gert að greiða samtals 4.645.707 krónur í útlagðan sakarkostnað samkvæmt framlögðu sakar­kostnaðaryfirliti ákæruvalds. Þá greiði ákærði enn fremur þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, er þykir hæfilega ákveðin, að virtu eðli og umfangi málsins, 2.400.000 krónur. Jafnframt verður ákærða gert að greiða útlagðan kostnað verjandans vegna ferða, samtals 132.000 krónur. Loks verður ákærða gert að greiða 850.000 króna þóknun og 38.000 króna ferðakostnað, Sigurðar Freys Sigurðssonar, skipaðs verjanda ákærða á fyrstu stigum rannsóknar málsins.

Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon dómstjóri, sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara og Ingiríði Lúðvíksdóttur, settum héraðsdómara. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en lögmenn og dómarar töldu ekki ástæðu til endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Örn Arnarson, sæti fangelsi í 16 ár. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 3. október 2015.

Upptæk er gerð fatareim sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði B 800.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2015 til 21. apríl 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði henni og 600.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.

Ákærði greiði F 747.880 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. október til 24. desember 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði og F 400.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram.

Ákærði er sýkn af miskabótakröfum D, E og F.

Ákærði greiði 4.645.707 krónur í útlagðan sakarkostnað. Þá greiði ákærði og 2.400.000 króna þóknun og 132.000 króna ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Loks verður ákærða gert að greiða 850.000 króna þóknun og 38.000 króna ferðakostnað, Sigurðar Freys Sigurðssonar, skipaðs verjanda síns á fyrstu stigum rannsóknar málsins.