Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 14. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2017, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir Hæstarétti reisir sóknaraðili kröfu sína meðal annars á því að varnaraðili geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi hennar þar sem krafa hans eigi rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar hennar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Málsástæða þessi er of seint fram komin og kemur því ekki til álita við úrlausn málsins hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga og 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hlédís Sveinsdóttir, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. janúar 2017.
Með beiðni, dags. 7. október 2015, sem barst dóminum sama dag, krafðist sóknaraðili, Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, kt. [...], yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 5. nóvember 2015 var sótt þing af hálfu sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili gerir einnig kröfu um málskostnað.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I.
Krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta er byggð á því að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila, hinn 1. október 2015. Í beiðni sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila segir að lýst sé neðangreindri kröfu:
Höfuðstóll, gjaldfelldur 18.243.328
Samningsvextir til 1.10.2009 1.083.120
Dráttarvextir til 7.10.2015 15.391.082
Banka- og stimpilkostnaður 20.598
Innheimtuþóknun 953.121
Mót í héraðsdómi 6.800
Greiðsluáskorun 14.800
Birting greiðsluáskorunar 12.500
Fjárnámsbeiðni 23.000
Kostnaður vegna fjárnáms 139.132
Uppboðsbeiðni 6.800
Kostnaður vegna uppboðs 84.300
Kröfulýsing 6.800
Gjaldþrotaskiptabeiðni 23.000
Annar kostnaður 31.700
Vextir af kostnaði 79.070
Virðisaukaskattur 265.998
Innborgun -11.863.125
Samtals kr. 24.522.024
Samkvæmt sundurliðun sem sóknaraðili lagði fram í þinghaldi 9. nóvember 2016 nemur krafa hans, miðað við viðmiðunardaginn 8. nóvember 2016, samtals 28.269.289 krónum.
Sóknaraðili kveðst ábyrgjast greiðslu alls kostnaðar af meðferð þessarar kröfu og gjaldþrotaskiptum ef til kemur.
II.
Varnaraðili lagði fram greinargerð í þinghaldi 9. nóvember 2015, þar sem kröfu sóknaraðila var mótmælt og vísað til þess að ágreiningsmál væri rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um fjárnámsgerðina 1. október 2015. Málinu var frestað að beiðni sóknaraðila til að kynna sér framlögð gögn varnaraðila og leggja fram frekari gögn, til 23. nóvember 2015. Í þinghaldi þann dag lagði sóknaraðili fram greinargerð og frekari gögn. Málinu var frestað að beiðni varnaraðila til 14. desember 2015 en í þinghaldi þann dag lagði varnaraðili fram bókun þar sem mótmælt var gagnaframlagningu sóknaraðila í þinghaldinu 23. nóvember 2015. Málinu var að ósk varnaraðila frestað til 6. janúar 2016 til að leggja fram frekari gögn. Þegar málið var tekið fyrir þann dag lagði varnaraðili fram ýmis gögn og fékk sóknaraðili frest til 27. janúar 2016 til að kynna sér þau. Í þinghaldi þann dag lögðu báðir málsaðilar fram gögn og var málinu frestað til 2. febrúar 2016. Við fyrirtöku málsins þann dag var ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram í málinu 8. apríl 2016. Að beiðni varnaraðila var fyrirhuguðum málflutningi frestað utan réttar til 6. maí 2016, þar sem ekki lá fyrir niðurstaða í ágreiningsmáli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um fjárnám sýslumanns frá 1. október 2015, sbr. mál nr. Y-5/2015.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð 18. apríl 2016 í máli nr. Y-5/2015 þar sem aðfarargerð sú sem fram fór hjá sýslumanni 1. október 2015 og lauk með árangurslausu fjárnámi var felld úr gildi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar. Var því ákveðið að fresta máli því sem hér er til úrlausnar ótiltekið.
Með dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 356/2016 var hinn kærði úrskurður í máli nr. Y-5/2015 felldur úr gildi. Í kjölfarið var munnlegur málflutningur um kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila ákveðinn 22. ágúst 2016, en síðan var ákveðið að fresta málflutningi að ósk varnaraðila til 26. september 2016 til sáttaumleitana. Sættir tókust ekki og ekki varð af málflutningi 26. september, en sóknaraðili samþykkti að ósk varnaraðila að málinu yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir vegna beiðni varnaraðila um endurupptöku á framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016. Með úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 3/2016 frá 19. október 2016 var beiðni varnaraðila um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 hafnað. Með tölvupósti lögmanns sóknaraðila 24. október 2016 var upplýst að með úrskurði endurupptökunefndar hefði beiðni varnaraðila um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 verið hafnað og var þess óskað að dómari boðaði til aðalflutnings í máli þessu. Dómari boðaði málsaðila til aðalflutnings sem færi fram 9. nóvember 2016. Degi áður, 8. nóvember, óskaði varnaraðili eftir því að málinu yrði frestað þar sem lögmaður varnaraðila hefði sagt sig frá málinu. Dómari synjaði frestbeiðni varnaraðila og setti varnaraðili í kjölfarið fram kröfu um að dómari viki sæti. Krafa varnaraðila var tekin til úrskurðar í þinghaldi 9. nóvember og því hafnað að dómari viki sæti. Með dómi Hæstaréttar 6. desember 2016 í máli nr. 785/2016 var úrskurðurinn staðfestur. Dómari boðaði málsaðila til munnlegs málflutnings um kröfu sóknaraðila sem átti að fara fram 14. desember 2016 en honum var frestað vegna veikinda varnaraðila til 11. janúar 2017 og var málið þá tekið til úrskurðar.
III.
Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta, hafi fjárnám verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma.
Eins og rakið hefur verið var árangurslaust fjárnám gert hjá varnaraðila 1. október 2015. Varnaraðili hefur í máli þessu teflt fram sömu málsástæðum og fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 varðandi gildi fjárnámsins, en þar var öllum málsástæðum varnaraðila hafnað. Þannig var hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að markaðsverðmæti byggingarlóðar að Miðskógi 8 í Garðabæ næmi hærri fjárhæð en kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Var í dómi Hæstaréttar miðað við að verðmæti lóðarinnar hafi verið 12.000.000 króna á uppboðsdegi. Einnig var því hafnað í dómi Hæstaréttar að ábyrgð varnaraðila væri fallin brott samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og að sóknaraðili hafi leyst annan ábyrgðarmann á veðskuldabréfinu undan skyldum sínum, þar sem árangurslaust fjárnám var gert hjá honum 25. apríl 2014.
Varnaraðili getur ekki í máli því sem hér er til úrslausnar byggt á því að hafna beri kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti þar sem markaðsvirði lóðarinnar sé ósannað eða með vísan til 4., 5. og 10. gr. laga um ábyrgðarmenn, eða öðrum málsástæðum sem varða fjárnámið, enda hefur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 verið skorið úr um gildi fjárnámsins. Samkvæmt þeim dómi liggur fyrir að árangurslaust fjárnám sem gert var hjá varnaraðila hinn 1. október 2015 er gilt. Eru lagaskilyrði því að þessu leyti fyrir hendi til að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Af hálfu varnaraðila er því hins vegar haldið fram að formskilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti séu ekki uppfyllt þar sem aðfararbeiðni til sýslumanns hafi ekki fylgt kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti. Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti er byggð á árangurslausu fjárnámi og fylgdi kröfunni endurrit úr gerðabók sýslumanns um hið árangurslausa fjárnám. Eru engir annmarkar á kröfu sóknaraðila sem geta leitt til þess að henni verði hafnað. Þá er hafnað þeirri málsástæðu sem varnaraðili hefur haldið fram um að útreikningur á peningakröfu sóknaraðila sé rangur.
Varnaraðili heldur því enn fremur fram að ekki sé unnt að fallast á kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti þar sem peningakrafa hans sé nægilega tryggð, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, þar sem annar maður, A, hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar, ásamt varnaraðila og eiginmanni hennar, B, og sóknaraðila hafi borið að leita fullnustu kröfu sinnar hjá honum.
Samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur krafa lánardrottins um gjaldþrotaskipti ekki náð fram að ganga ef peningakrafa hans er nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns, eða þriðji maður bjóði fram greiðslu eða nægilega tryggingu fyrir henni. Árangurslaust fjárnám var gert hjá A 25. apríl 2014 að kröfu sóknaraðila á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar hans. Varnaraðili hefur lagt fram samning um kaup A á fasteign að [...], dags. 1. júlí 2016, en áður átti A veðsetta íbúð að [...] í Reykjavík. Samkvæmt kaupsamningi um eignina að [...] var kaupverðið 66 milljónir króna en eignarhluti A í eigninni er 50%. Fasteignamat eignarinnar er 55 milljónir króna. Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram að eignin er veðsett á 1. veðrétti vegna veðskuldabréfs að fjárhæð 26.500.000 krónur. Þá er eignin veðsett á 2. veðrétti vegna veðskuldabréfs að fjárhæð 40.000.000 króna, í 50% eignarhlut A.
Þegar litið er til alls framangreinds er peningakrafa sóknaraðila engan veginn tryggð í skilningi 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að henni sé kleift að standa við skuldbindingar sínar við sóknaraðila.
Verður samkvæmt framansögðu fallist á kröfu sóknaraðila, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Í greinargerð varnaraðila er því haldið fram að sóknaraðili hafi reynt að valda varnaraðila sem mestu tjóni og miska. Þá var því haldið fram af hálfu varnaraðila við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili hafi farið fram gegn varnaraðila með offorsi og ósanngirni. Þessar ásakanir varnaraðila eru tilhæfulausar.
Sóknaraðili gerir kröfu um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað og er hann hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Að kröfu sóknaraðila, Íslandsbanka hf., er bú varnaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, [...], tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað.